151. löggjafarþing — 67. fundur
 16. mars 2021.
færsla reksturs hjúkrunarheimila og réttindi starfsfólks.

[13:33]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Á fundi hv. velferðarnefndar í morgun var samþykkt einróma yfirlýsing um þungar áhyggjur nefndarfólks yfir þeirri stöðu sem nú er komin upp vegna færslu á rekstri hjúkrunarheimila frá sveitarfélögum til ríkisins. Hv. velferðarnefnd hvetur í yfirlýsingu sinni stjórnvöld til að ganga þannig frá yfirfærslu rekstursins að starfsfólki verði tryggð áframhaldandi vinna og að réttindi þess og kjör séu áfram tryggð, líkt og fordæmi eru fyrir við sambærilega yfirfærslu, og að horft verði til þeirra lagareglna sem finna má í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Jafnframt lýsti nefndin sig reiðubúna til að koma að lagasetningu með hraði fyrir næstu mánaðamót ef hæstv. heilbrigðisráðherra telur slíkt nauðsynlegt til að koma þessu máli í höfn svo sómi sé að þannig að tryggð verði hvort tveggja, störf starfsfólksins sem og réttindi þess.

Nú þegar þessi yfirlýsing liggur fyrir vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort Alþingi muni fá skýr svör fyrir vikulok um það hvort stjórnvöld séu reiðubúin til að tryggja störf og réttindi núverandi starfsfólks hjúkrunarheimilanna þriggja, þ.e. í Vestmannaeyjum og Fjarðabyggð, svo ekki þurfi að koma til þessarar sértæku lagasetningar. Það eru skýr fordæmi fyrir sambærilegu, það hefur verið gert við yfirfærslu eins og á Hornafirði og víðar.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er hún reiðubúin að hlusta á nefndina og ganga frá samningum þannig að við tryggjum störf 150 manna og kvenna í Vestmannaeyjum og Fjarðarbyggð og að slík yfirlýsing verði ljós fyrir vikulok?



[13:35]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og áhuga á þeim málum sem lúta að starfsemi hjúkrunarheimila í tveimur sveitarfélögum þar sem málin hafa því miður þróast þannig að sveitarfélögin hafa sagt sig frá rekstri hjúkrunarheimila. Í því felst auðvitað heilmikil ábyrgð vegna þess að mikilvægasta hlutverk okkar og verkefni hlýtur auðvitað að vera að tryggja samfellu í þjónustunni við íbúanna og það viljum við gera. En jafnframt er auðvitað, eins og fram hefur komið í umræðunni og ég hef tekið undir, um að ræða mikla hagsmuni þess starfsfólks sem um ræðir. Það væri mikilvægt fyrir þau sem sinna þessari þjónustu á hjúkrunarheimilum með beinum hætti að halda störfum sínum eins og nokkur er kostur. Ég vil benda á að Guðjón Hauksson, sem er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, hefur sagt, með leyfi forseta:

„… ég geri ekki ráða fyrir öðru en að við munum þurfa allar hendur á dekk í þessu og munum ráða allt þetta starfsfólk aftur til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.“

Þetta er það sem hann sagði í viðtali á RÚV á dögunum.

Ég tel, virðulegi forseti, að það sé ekki vænlegt til árangurs að fara í einhverjar lagasetningaræfingar núna undir þessum kringumstæðum heldur að leggja sig fram um, og þá er ég að tala um bæði umrædd sveitarfélög og ríkið, að leita leiða sem virða þá hagsmuni sem hér eru undir, bæði íbúanna og starfsfólksins, og gæta að réttaröryggi og meðalhófi.



[13:37]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og spyr aftur: Er hún tilbúin til að lýsa því yfir að gengið verði frá samningum og yfirfærslunni þannig að störf þessa starfsfólks og réttindi þess færist yfir, með vísan til laga um aðilaskipti? Þó að stjórnvöldum beri ekki skýr lagaskylda til að fara eftir þeim lögum, um það er reyndar deilt, þá þurfa þessir starfsmenn og við í hv. velferðarnefnd að fá skýr svör um það. Ábyrgðin liggur hjá ríkisstjórninni, hjá stjórnvöldum, ekki hjá sveitarfélögum, því að lögin eru þannig að ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila er á hendi ríkisins. Það eru sex og átta mánuðir frá því að sveitarfélögin sögðu upp þessum samningum og allan þann tíma hafa þau verið að reyna að ná samkomulagi en þó þannig að því hefur ávallt verið lýst yfir að réttindi og störf starfsfólks séu tryggð við yfirfærsluna. Það breyttist hins vegar fyrir tíu dögum síðan og þess vegna kalla þau eðlilega, og við öll núna, algerlega þvert á flokka í hv. velferðarnefnd, eftir skýrum svörum um hvort við þurfum að fara í þessa ónauðsynlegu lagasetningu til þess að ríkisstjórnin svari kalli starfsfólks rekstraraðila og núna hv. velferðarnefndar.



[13:38]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Enn og aftur vil ég undirstrika afstöðu mína í þessu máli. Ég tek eftir því að hv. þingmaður talar um það í fyrri fyrirspurn sinni að afstaða stjórnvalda þurfi að liggja fyrir fyrir vikulok. Auðvitað er mikilvægt að svörin liggi fyrir hið fyrsta og fyrirkomulag yfirfærslu þeirrar starfsemi sem um ræðir en sveitarfélögin, bæði Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar, óskuðu eftir því að framlengja samninginn um einn mánuð. Ég lít svo á að við nýtum þann tíma, bæði sveitarfélögin og ríkið, sem væntanlega lítum öll svo á að þarna séu afar ríkir hagsmunir á ferð, ekki bara íbúanna heldur ekki síður starfsfólksins, og leitum leiða, hvort sem það er með tilvísun í tiltekna löggjöf eða hvernig það verður gert, til að gæta þessara ríku hagsmuna réttaröryggis og jafnframt af meðalhófi. Og það svar stendur.