151. löggjafarþing — 68. fundur
 17. mars 2021.
félög til almannaheilla, 1. umræða.
stjfrv., 603. mál. — Þskj. 1030.

[18:03]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um félög til almannaheilla á þingskjali 1030, í máli nr. 603. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um félög til almannaheilla. Markmiðið með lagasetningunni er að skjóta traustari stoðum undir frjáls félagasamtök sem geta talist almannaheillasamtök. Vinna við frumvarpsgerðina á rætur að rekja til frumkvæðis Almannaheilla – samtaka þriðja geirans og undirbúningsstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Frumvarpið byggist á eldra frumvarpi sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en það náði ekki fram að ganga. Í framhaldi af því voru gerðar breytingar á frumvarpinu til einföldunar og það lagt aftur fram á 149. og 150. löggjafarþingi en náði þá heldur ekki fram að ganga.

Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með þeirri meginbreytingu frá framlagningu síðast að íþróttafélög samkvæmt 5. gr. íþróttalaga falla ekki undir gildissvið þess nema svo sé tekið fram í samþykktum viðkomandi félags. Framangreind breyting er gerð til að koma til móts við athugasemdir sem bárust við frumvarpið við þinglega meðferð þess við fyrri framlagningar.

Eins og fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að sett verði heildarlög um félög til almannaheilla, þ.e. félög sem samkvæmt samþykktum sínum eru stofnuð til eflingar ákveðnum skýrt afmörkuðum málefnum til almannaheilla en er ekki komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem á við um mannræktarfélög, styrktarfélög sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg. Önnur félagaform geta verið heppilegri séu fjármunir þegar fyrir hendi og til stendur að stýra þeim til hagsbóta fyrir ákveðið málefni, samanber lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, og lögum nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að félög til almannaheilla verði skráð í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir en að skráin verði hluti af fyrirtækjaskrá. Lagt er til að skráning í almannaheillafélagaskrá verði valkvæð en þó geti opinberir aðilar gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga til almannaheilla að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá. Hugsunin að baki ákvæðinu er sú að eðlilegt sé að ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu geti gert það að skilyrði að almenn félagasamtök sem sækjast eftir fyrirgreiðslu hins opinbera uppfylli einhver lágmarksskilyrði um uppbyggingu og sýnileika svo hafa megi eftirlit með því hvert fjármunir hins opinbera fara og að aðrir styrktaraðilar slíkra félagasamtaka geti jafnframt gert sér grein fyrir því hvað þeir styrki og hverjir beri ábyrgð á styrktri framkvæmd. Hér skal þó skýrt tekið fram að um er að ræða heimild fyrir opinbera aðila til að gera kröfu um að félag sé skráð í almannaheillafélagaskrá en ekki skyldu.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stofnun félags til almannaheilla, meginefni samþykkta slíks félags sem og ákvæði um félagsaðild, svo sem um félagsmenn, inngöngu, úrsögn og brottvísun úr félagi. Einnig er í frumvarpinu að finna ákvæði um hvernig ákvörðunartöku skuli háttað, um almenna félagsfundi, um hvaða málefni skuli taka á dagskrá aðalfundar og um aðalfundarboð.

Í frumvarpinu er enn fremur að finna ákvæði um stjórn félags, hlutverk hennar og ákvarðanir á stjórnarfundum. Einnig er að finna ákvæði um ráðningu framkvæmdastjóra og hlutverk hans, sem og hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og skulu hafa forræði á búi sínu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að félag skuli kjósa einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og skoðunarmann eða -menn úr hópi félagsmanna til að yfirfara ársreikninga. Þá er kveðið á um að eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skuli hann birtur á vef félagsins eða opinberlega með sambærilegum hætti.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um slit félags, afskráningu, t.d. þegar félag er hætt störfum, og slit félags með dómi. Þá er að finna ákvæði um skráningu í almannaheillafélagaskrá en skráningin er valkvæð eins og fyrr segir. Í kafla um skráningu félaga til almannaheilla er að finna ákvæði um hvaða atriði skuli skrá og hvaða skjöl þurfi að fylgja með tilkynningu um skráningu. Lagt er til að eingöngu félögum til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá og falla undir gildissvið frumvarpsins verði heimilt að nota auðkennin „félag til almannaheilla“ og/eða skammstöfunina fta. í heiti sínu.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að kostnaður við skráningu í almannaheillafélagaskrá nemi einu stöðugildi hjá ríkisskattstjóra í allt að tvö ár og að þeim tímabundna kostnaði verði mætt með forgangsröðun innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs í komandi fjármálaáætlun og fjárlögum.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni mikilvægt frumvarp sem miðar að því að skjóta traustari stoðum undir frjáls félagasamtök sem geta talist almannaheillasamtök. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.



[18:09]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla og ég er ánægð með að sjá að þetta frumvarp er komið hér fram. Það hefur nú verið í pípunum í nokkuð mörg ár eins og hæstv. ráðherra fór yfir.

Mig langar að spyrja aðeins betur út í breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það hlaut þinglega meðferð á 150. löggjafarþingi. Þar var m.a. brugðist við umsögnum íþróttahreyfingarinnar þar sem sérstaklega var talið æskilegt að haldið yrði í sjálfstæði hreyfingarinnar og forræði hennar á eigin málefnum, auk þess sem regluverk Íþróttasambands Íslands tæki til allra þeirra álitaefna sem snúa að hreyfingunni og starfsemi hennar. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvað kom út úr frekari athugunum á þessum athugasemdum, hvort það leiddi til breytinga á frumvarpinu eða hvort íþróttahreyfingin hafi þá bara sama val og aðrir um það hvort þau félög sem tilheyra íþróttahreyfingunni óski eftir því að falla undir félög til almannaheilla og hvort það muni hafa einhver áhrif á íþróttahreyfinguna til frambúðar eða hvort staða hreyfingarinnar eða félaga innan hennar verði óbreytt.



[18:11]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er í raun um að ræða sama frumvarp nema að sú breyting er gerð að íþróttafélög eru undanþegin nema þau kjósi sjálf að vera með. Ef þau setja í samþykktir sínar að þau falli hér undir þá gera þau það, en annars hafa þau heimild til að vera utan við. Það er breyting sem ég ákvað að leggja til í ljósi þessara samskipta, til að koma til móts við ÍSÍ, koma til móts við þá starfsemi. Þetta er niðurstaðan úr því samtali og má segja það að sé ákveðin millileið. Það er einfaldlega undir íþróttahreyfingunni komið hvort félögin vilja vera með og þau hafa þá það val. Ráðuneytið átti allmarga fundi með ÍSÍ í ljósi síðustu umsagna sambandsins.

Svo er kannski spurning um samspilið við frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram um ívilnanir varðandi þriðja geirann, það samspil er líka undir ÍSÍ komið. Þar eru ákveðnar kröfur og ef það er vilji innan hreyfingarinnar til að nýta þær ívilnanir þá eru þær kröfur eins og þær eru og ÍSÍ hagar sér eftir því. En þetta frumvarp er bara óbreytt fyrir utan það að ÍSÍ og félög þar undir ráða því sjálf hvort þau eru með. Þau þurfa ekki að gera það en geta sett það í samþykktir sínar, kjósi þau að vera með þá geta þau það. ÍSÍ var upplýst um þessa lendingu og gerði ekki sérstakar athugasemdir við hana. Ég vonast til þess að þetta mál eins og það er núna fái sína þinglegu meðferð og verði afgreitt.



[18:13]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það liggur þá í rauninni skýrt fyrir að hvert félag mun einfaldlega meta lagaumhverfið í heild og hvar hag þess er best borgið. Það eru að verða verulegar breytingar á því lagaumhverfi og kerfi sem verður í kringum styrkveitingar til almannaheillageirans. Ég skil það þannig að það eigi að geta eflt allt sjálfboðastarf í landinu sem er mjög mikilvægt því að ýmiss konar félög og samtök standa fyrir mjög mikilvægri starfsemi á öllum sviðum, hvort sem það eru björgunarsveitir, íþróttastarf, hollvinasamtök ýmiss konar eða önnur almannaheillafélög.

Og þó að það sé líka ýmiss konar félagsstarfsemi sem ekki mun falla undir þessa löggjöf og telur sér engan hag í því þá á þessi löggjöf ekki að trufla þá félagastarfsemi neitt ef ég skil rétt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi kannski aðeins inn á það og spyr bara beint hvort félög geti ekki örugglega valið að taka ekkert tillit til þessarar löggjafar og vera ekkert að óska eftir stuðningi, hvort það sé ekki réttur skilningur að það sé algerlega val félaga hvar þau standa hvað það varðar.

Síðan tek ég auðvitað undir það sem hæstv. ráðherra sagði í fyrra andsvari, nú er vonandi búið að sníða flesta vankanta af.



[18:15]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta er réttur skilningur hjá hv. þingmanni varðandi val félaga innan ÍSÍ. Það er val hvers og eins og það er þá þeirra að meta heildarlöggjöfina og hvernig þau telja hagsmunum sínum best borgið. Auðvitað eru mjög ríkar kröfur gerðar á ÍSÍ og sambandið er í miklu alþjóðlegu samstarfi. En til að komast inn í einhverjar ákveðnar ívilnanir eða umhverfi hér þurfa þau að taka ákvarðanir út frá því.

Það sama á við um síðari spurninguna varðandi það hvort félög geti valið að vera utan við þetta. Það er sömuleiðis réttur skilningur hjá hv. þingmanni að það er þannig.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.