151. löggjafarþing — 68. fundur
 17. mars 2021.
tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, 1. umræða.
stjfrv., 604. mál (tilgreining kostnaðarliða, eftirlit o.fl.). — Þskj. 1031.

[18:17]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, á þskj. 1031, máli 604. Efni frumvarpsins er í stórum dráttum tvíþætt. Annars vegar eru með frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögunum í þeim tilgangi að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem fram komu í skýrslu stofnunarinnar um endurgreiðslukerfi frá október 2019. Hins vegar er með frumvarpinu lagt til að gildistími laganna verði framlengdur til 31. desember 2025 en að óbreyttu falla lögin úr gildi í lok þessa árs.

Nánar tiltekið snýr meginefni frumvarpsins að eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi varðar það staðfestingu kostnaðaruppgjörs. Í frumvarpinu er lagt til að kostnaðaruppgjör kvikmyndaframleiðenda verði almennt staðfest af endurskoðanda en sé ekki endurskoðað að fullu eins og kveðið er á um nú. Þannig er horfið frá þeirri kröfu að kostnaðaruppgjör verkefna þurfi fulla endurskoðun í skilningi laga um endurskoðendur og staðfesting endurskoðenda látin duga. Hins vegar er lagt til að undanþegin þeim skilyrðum um staðfestingu endurskoðenda séu verkefni þar sem endurgreiðslufjárhæð nemur ekki hærri upphæð en 3 millj. kr. Jafnframt er skýrlega tilgreint að endurskoðandi þurfi ásamt stjórn og framkvæmdastjóra umsækjanda að staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við lögin og reglugerð en slík staðfesting af hálfu stjórnar og framkvæmdastjóra dugar ef um lítil verkefni er að ræða. Þessum breytingum er ætlað að efla eftirlit og skýra kröfur til umsækjenda og þá mun í reglugerð jafnframt verða skilgreint nánar hvernig staðfesting endurskoðenda skuli framkvæmd og á hvaða formi slík staðfesting skuli fara fram og fleira.

Í öðru lagi varðar það afmörkun framleiðslukostnaðar. Ein af tillögunum í skýrslu Ríkisendurskoðunar felur í sér að endurskoða þurfi lögin með það að markmiði að skýra betur hvaða kostnaðarliðir falli undir stofn til endurgreiðslu. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að leggja ávallt mat á réttmæti þess kostnaðar sem sótt er um endurgreiðslu á og krefjast sundurliðunar á þeim framleiðslukostnaði sem fellur til. Til að koma til móts við þær ábendingar Ríkisendurskoðunar er lagt til að bætt verði við skilgreiningu í lögin um hvað teljist vera framleiðslukostnaður sem myndað getur stofn til endurgreiðslu og í kjölfarið er tilgreindur sá kostnaður sem ekki telst til framleiðslukostnaðar. Talin er þörf á að nefna sérstaklega ákveðna liði sem ekki teljast til framleiðslukostnaðar þótt þeir geti talist almennur rekstrarkostnaður framleiðslufélags sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með frumvarpinu er því verið að afmarka skýrt þann kostnað sem myndar stofn til endurgreiðslu. Hugsunin að baki þeirri afmörkun byggist á því að hvatakerfi endurgreiðslna eigi fyrst og fremst að vera bundið við útlagðan kostnað við þá starfsemi eða verkþætti sem falla til við framleiðslu kvikmyndaverks sem fellur undir lögin. Sú afmörkun á framleiðslukostnaði tekur mið af framsetningu í endurgreiðslukerfum Noregs og Tékklands. Einnig var horft til kerfisins í Bretlandi hvað varðar tengingu framleiðslukostnaðarhugtaksins við framleiðsluferli kvikmynda.

Í þriðja lagi varðar frumvarpið framlengingu laganna og endurgreiðslukerfisins. Endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar var sett á laggirnar árið 1999. Um er að ræða skilgreint ríkisaðstoðarkerfi sem fellur undir reglur EES um ríkisaðstoð og var samþykkt á sínum tíma af ESA. Af því leiðir að lögin hafa ávallt verið tímabundin, samanber heiti laganna, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það er í samræmi við þá meginreglu að ríkisstyrkjakerfi á Evrópska efnahagssvæðinu skuli endurskoða á a.m.k. fimm ára fresti. Gildistími laganna hefur verið framlengdur fjórum sinnum og núgildandi lög renna að óbreyttu úr gildi í lok þessa árs. Í ljósi umfangs og þýðingar kvikmyndagerðar fyrir íslenskt efnahagslíf er með frumvarpinu er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur á ný til ársloka 2025 og áfram verði veittar tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi.

Í fjórða og síðasta lagi er í frumvarpinu kveðið á um aðgengi að kynningarefni. Íslandsstofa hefur í dag það hlutverk að kynna endurgreiðslukerfi fyrir erlendum framleiðendum og rekur í því skyni verkefnið Film in Iceland. Talið er mikilvægt að þeir framleiðendur sem njóta endurgreiðslu á framleiðslukostnaði veiti Íslandsstofu aðgang að kynningarefni sem tengist viðkomandi verkefnum svo mögulegt sé að nýta það í markaðsvinnu Íslandsstofu. Þetta þykir eðlilegt og það þykir eðlilegt í sambærilegum styrkjakerfum erlendis. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um slíka skyldu sem og gerð krafa um að tilgreint sé í kvikmyndaverkinu að það hafi notið stuðnings á grundvelli laganna.

Með frumvarpinu er sem áður segir verið að sníða nokkra vankanta af núgildandi lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar með það að markmiði að tryggja hagkvæma nýtingu á þeim fjármunum sem veittir eru til endurgreiðslu og efla eftirlit með kerfinu án þess að íþyngja því eða gera það óþarflega flókið. Jafnframt er með frumvarpinu verið að framlengja endurgreiðslukerfið um fjögur ár eins og áður hefur verið gert.

Hið íslenska endurgreiðslukerfi sem nú hefur verið starfrækt í um 20 ár er almennt talið alþjóðlega samkeppnishæft, einfalt og skilvirkt, í raun mun einfaldara og skilvirkara en sambærileg erlend ríkisaðstoðarkerfi. Mikil ásókn er í endurgreiðslukerfið og það styður þessa staðhæfingu. Kvikmyndaiðnaður á Íslandi hefur vaxið undanfarin ár og er orðinn mikilvæg stoð í okkar efnahagslífi með margvíslegum jákvæðum hliðaráhrifum, ekki síst hvað varðar kynningu á landinu. Ég tel mikilvægt að við styðjum áfram og eflum kvikmyndagerð í landinu eins og við höfum gert og séum vakandi um þróun mála í kringum okkur. Á sama tíma þurfum við að meta vel með hvaða hætti sá ríkisstuðningur er og hver heildaráhrif af slíku stuðningskerfi eru. Auðvitað eigum við mjög mikil óinnleyst tækifæri þegar kemur að kvikmyndaiðnaði hér á landi. Með nýjum stúdíóum er til að mynda hægt að taka upp stærri hluta verkefna hér. Þá er eftir öll eftirvinnsla, sem er nánast sjálfstæður iðnaður, þannig að við eigum mjög mikið inni. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að svona kerfi skipti máli og við finnum það að við komumst á kortið með því að vera með slíkt, en kerfi er ekki það sama og kerfi. Það skiptir máli að það sé samkeppnishæft, það sé skilvirkt, það sé ljóst hverjar leikreglurnar eru og að við séum á hverjum tíma viss um að það sé að skila okkur meiru í heildarumsvifum og það sé þar af leiðandi jákvætt fyrir landið allt að við séum með slíkt kerfi.

Með það að leiðarljósi skipaði ég nýlega starfshóp á vegum ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að meta núverandi endurgreiðslukerfi í samræmi við tillögur í kvikmyndastefnu fyrir Ísland frá október 2020. Starfshópurinn hefur þegar hafið störf en gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum síðar á þessu ári og ég bind einfaldlega miklar vonir við þá vinnu og þau atriði sem þar eru tekin sérstaklega til skoðunar.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.



[18:24]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það kemur hæstv. ráðherra væntanlega ekkert stórkostlega á óvart að ég komi hingað upp þegar við tökum fyrir þetta tiltekna frumvarp. Í greinargerð segir, með leyfi forseta: „Lögin fela í sér ríkisaðstoðarkerfi, en öll slík lög ber að endurskoða reglulega með tilliti til nauðsynjar og áhrifa.“

Ég ætla að fara aðeins betur í greinargerðina í ræðu minni hér á eftir en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að núna er þetta frumvarp komið fram sem er mikilvægt. Það þarf að framlengja þetta kerfi. Upphaflega voru lögin, sem þetta mál er framlenging á, sett til bráðabirgða en þau reyndust svo vel að þeim hefur verið haldið áfram. Fyrir ári síðan skall á heimsfaraldur Covid og við misstum stærsta atvinnuveg þjóðarinnar á svipstundu, ferðamennskuna. Nú er hæstv. ráðherra titlaður nýsköpunar-, ferðamála- og iðnaðarráðherra, ég vona að ég fari með þetta í réttri röð, virðulegi forseti.

(Forseti (BN): Þetta var röng röð.)

Ég held að allir viti hvað ég eigi við, dýrmætar sekúndur hér á klukkunni hægra megin í ræðustól. En nú heyrir ferðaþjónustan undir hennar ráðuneyti. Önnur lönd, til að mynda Kanaríeyjar, Írland, fóru strax í það að hækka endurgreiðsluprósentuna fyrir kvikmyndagerð- og framleiðslu í þeim tilgangi að koma til móts við tekjutap þessara ríkja sem varð vegna Covid og það bar mjög góðan árangur. Þessi lönd eru að taka af okkur verkefni í þessum töluðu orðum. Ég vil spyrja ráðherra: Hvers vegna var þessi ákvörðun ekki tekin hérlendis?



[18:26]
Forseti (Brynjar Níelsson):

Forseti áfellist ekki hv. þingmenn fyrir að fara rangt með röðunina. Forseti gerir það gjarnan sjálfur.



[18:26]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að koma með mitt besta ráð sem er að muna skammstöfunina FIN, það hefur hjálpað mörgum sem fara í kleinu þegar þeir þurfa að bera fram fjögur nöfn og þrjá titla. En það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru vissulega lönd í kringum okkur sem eru með hærra endurgreiðsluhlutfall og það er alltaf spurning hversu langt við viljum ganga í þeim efnum. Það sem mér finnst skipta mestu máli er hvort kerfið okkar er gott eða ekki. Ég held að fólk sem myndi gjarnan vilja sjá prósentuna hækka sé samt sammála um að kerfið sé gott. Það er skilvirkt, það er einfalt. Það er hægt að setja ofboðslega mikið undir stofnun sem er endurgreiðsluhæft. Það er mismunandi eftir löndum. En við þekkjum líka dæmi þar sem ýmist fylki, t.d. í Bandaríkjunum, eða ákveðin lönd hafa hækkað prósentuna þannig að á endanum var ýmist ekki lengur stuðningur við kerfið eða þá að erfitt var að sýna fram á að það væri áfram til heilla fyrir land og þjóð. Og þá var farið að grafa undan kerfinu, það fellt brott, svo reynt að endurvekja það að nýju og slíkt.

Mér finnst skipta máli að þetta sé gert í réttri röð, að við vöndum mjög til verka og það liggi fyrir greining, sem er partur af vinnu þessa hóps að fara í, til að reyna að festa hendur á því hverju þetta skilar vegna þess að það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ferðaþjónustan í heild sinni nýtur mjög góðs af þessari umfjöllun og athygli. Það er allt að þriðjungur ferðamanna sem hingað koma sem tók ákvörðun um slíkt eftir að hafa séð ýmist kvikmynd, þætti, tónlistarmyndband eða eitthvað efni sem er tekið upp hér. Þannig að samlegðaráhrifin eru vissulega til staðar. Og ég hef líka nefnt það áður að hluti af vinnu hópsins, og er atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við tökum til skoðunar, er að skoða hvort við séum með einhvern tröppugang, það sé innbyggður hvati í kerfinu. Eftir því sem meiri umsvif eru hér því meira erum við tilbúin að gefa eftir og ívilna vegna þess að þá er alveg ljóst að það helst í hendur hvað við sem samfélag fáum út úr því líka þannig að ef verkefni eyðir umfram ákveðna fjármuni þá hækki mögulega prósentan. Þetta er hluti af því sem hópurinn er að skoða.



[18:29]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Já, ég held að flestir séu sammála um að kerfið sé gott. En þetta snýst um markmiðið, hvaða markmiði maður sækist eftir út frá tilteknu kerfi. Markmiðið hlýtur að vera að fá sem flest verkefni hingað til lands, stór verkefni þar sem milljarðar koma inn í landið með stórum erlendum verkefnum. Meðan ég er sammála hæstv. ráðherra um að það þurfi að vanda til verks og gera hlutina vel þá er þetta aftur á móti eins og að vera læknir með blæðandi sjúkling með svöðusár, það þarf bara að loka sárinu, það þarf að vinna hratt, hafa hraðar hendur til þess að sjúklingnum blæði ekki út. Ferðaþjónustunni hefur síðastliðið ár blætt út. Ég var ekki beinlínis að tala um, virðulegi forseti, landkynningu ferðaþjónustunnar erlendis út frá þeirri afurð sem kvikmyndagerð er, ég var að tala um að með þessum stóru verkefnum þá kemur hingað fullt af fólki sem vinnur undir öruggum Covid-sóttvarnakringumstæðum, það er passað upp á allt slíkt á setti, á kvikmyndatökustaðnum. Þetta fólk þarf að gista á hótelum. Þetta fólk þarf að nýta sér innlenda ferðaþjónustu, það nýtir sér afþreyingu og ýmiss konar þjónustu, t.d. veitingaþjónustu. Þannig að ég er líka að tala um heildarhagkerfi ferðaþjónustunnar innan lands. Ég gæti farið í tíu andsvör við ráðherra um þetta. En tíminn er að verða búinn.

Hefur farið fram hjá ráðherra fréttaflutningur um Hildi Guðnadóttur og Óskarsverðlaun sem Íslendingar eru tilnefndir til (Forseti hringir.) vegna kvikmyndagerðar? Sér ráðherra fyrir sér að það sé möguleiki á að í meðförum þingsins (Forseti hringir.) geti Alþingi breytt þessu frumvarpi þannig að endurgreiðsluhlutfall fyrir kvikmyndagerð verði 35% til að sjúklingnum hætti að blæða út?



[18:31]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem þarf að liggja alveg fyrir og snýr að þinginu sem fer með fjárveitingavaldið er að í fjármálaáætlun er til að mynda gert ráð fyrir 900 millj. kr. í endurgreiðslu. Fjárlaganefnd setti rúma 2 milljarða í lok síðasta árs í fjárauka til þess að mæta í raun þeim umsvifum sem voru þá hér á landi. Það sem mér finnst þurfa að liggja alveg fyrir er hvort við erum að tala um réttindakerfi, þ.e. ef verkefnið uppfyllir ákveðin skilyrði þá eigi það einfaldlega rétt á þessari endurgreiðslu, eða hvort við erum að tala um einhvers konar þak, fyrstur kemur, fyrstur fær. Í framkvæmd höfum við haft það þannig að þetta er bara réttindakerfi og það verður til skuldbinding af hálfu ríkisins og svo hefur hún í raun verið leiðrétt. Mér finnst að það þurfi að liggja algerlega fyrir að þetta sé sá skilningur sem hafður er á þessu kerfi áður en við förum að ræða það að stórhækka prósentuna þannig að útgreiðslan verði enn hærri. Það liggur fyrir að í fyrra og í ár og á næstu árum verður fjárhæðin hærri en 900 millj. kr., miðað við umsvifin sem við horfum framan í núna. Það var metár í fyrra í umsvifum og vöxturinn er gríðarlega mikill og tækifærin eru til staðar. Það er alveg rétt að ferðaþjónustan líður mjög fyrir heimsfaraldur og ákvarðanir sem teknar hafa verið með tilliti til þess. En ef við værum að ráðstafa fjármunum í það blæðandi sár þá veit ég ekki hvort við myndum ráðstafa þessum fjármunum í það.

Í mínum huga er kjarni málsins þessi: Erum við þeirrar skoðunar að þetta kerfi sé gott og það skili okkur meiru með því að hafa það á, og það auki umsvifin þannig, það séu jákvæð heildarumsvif sem skipti máli og við höfum endurgreiðslukerfið þannig? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé. En mér finnst að það þurfi að liggja mjög skýrt fyrir hvar þau mörk eru af því að einhvers staðar hljóta þau að vera. Ef við ætlum að endurgreiða helming til baka (Forseti hringir.) þá er einhver þröskuldur á því hvenær það fer að skipta máli. Ég veit ekki til að gerð hafi verið úttekt á því hvar þau mörk til að mynda liggja. (Forseti hringir.) Og aftur, þetta er hluti af því sem hópurinn og nefndin er að skoða.



[18:34]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á meðan ég fagna því að búið sé að skipa starfshóp sem ætlar að fara í þessi mál þá vil ég ítreka að málflutningur ráðherra um að það sé svo ofsalega loðið og ofsalega erfitt að komast að niðurstöðu um hvaða tilteknu tölu, prósentu, eigi að fara í er eitthvað sem ég er í grundvallaratriðum algjörlega ósammála. Það þarf ekki fagmann til að sjá að til að vera samkeppnishæf þarf að veita viðlíka þjónustu eða hafa viðlíka skilmála. Við erum ekki að gera það núna, ekki með 25% endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu. Og af því við erum ekki að gera það þá missum við stóru, gríðarlega stóru milljarða verkefnin, kvikmyndagerðarverkefnin, til nágrannalandanna. Við erum að missa þau til Írlands sem gekk fram, lokaði sjúklingnum áður en honum blæddi, hækkaði endurgreiðsluna. Þjóð sem var nógu hyggin til að gera það er núna að taka frá okkur verkefni vegna þess að við erum ekki samkeppnishæf. Við fáum brot af þeim verkefnum sem við gætum verið að fá. Ég get tekið nokkur dæmi. Það er t.d. kvikmynd sem hefur vakið gríðarlega athygli á heimsvísu og lag úr henni tilnefnt til Óskarsverðlauna. Í þeirri kvikmynd er Ísland sögusviðið að miklu leyti en vegna þess að við vorum ekki samkeppnishæf, vegna þess að önnur lönd í kringum okkur eru með hærri endurgreiðsluprósentu, betri umgjörð utan um þetta, Írland að mig minnir í þessu tiltekna tilfelli, var ekki tekið upp á Íslandi þar sem sagan átti að gerast. Þetta er raundæmi og þau eru ótal fleiri, því miður, virðulegi forseti.

Ég skil alveg að það þarf að ráðstafa fjármunum, við erum með fjárlög og við þurfum að vita hvaða krónur fara hvert, þvers og kruss. En það er bara svo að þarna kemur fyrst inn peningur. Fjármunirnir flæða inn í landið, um hagkerfið, streyma hér um og svo er mun seinna, við lok framkvæmdarinnar, þegar afurðin er tilbúin, að nokkuð ströngum uppfylltum skilyrðum, endurgreiddur hluti af þeim fjármunum sem komu inn í landið. Þetta gerist mun síðar og stundum ekki vegna þess að stundum eru skilyrðin ekki uppfyllt. Og hvað gerist á öllum þeim tíma? Á einni svipstundu skapast störf, hundruð og stundum þúsundir starfa í kringum eina kvikmynd, oft störf sem eru til lengri tíma, í dágóðan tíma, mánuði, kannski ár. Eitt leiðir af öðru, orðspori íslensks mannauðs og fólks sem vinnur við greinina er komið á framfæri í útlöndum, bæði í gegnum afurðina og í gegnum tengsl sem myndast í þessu samstarfi milli landa. Ekki nóg með það, við erum ekki að tala um sérstaklega einhæf störf eða að bara sé verið að setja eitthvað til einnar afmarkaðar greinar þar sem mjög einsleitur hópur vinnur. Nei, við erum að tala um gríðarlega fjölbreytta flóru af störfum sem verða til við svona verkefni.

Ég legg áherslu í ræðu minni, forseti, á erlend verkefni en sama gildir um íslensk verkefni. Þau eru líka gríðarlega mikilvæg, þannig að það sé alveg á hreinu að það halli ekki á þau í málflutningi mínum hér.

Ég hef ekki enn sem komið er fengið nein rök, nein haldbær gagnleg rök fyrir því hvers vegna ekki er búið að hækka endurgreiðsluna fyrir utan að þau vita ekki alveg hver talan eigi að vera. Það er ekkert erfitt að svara því, virðulegi forseti, hver talan ætti að vera. Hún á a.m.k. ekki að vera 25%, það skal ég fullyrða. Ég fullyrði að á meðan blæðir okkur út, við missum af verkefnum, fleiri verkefnum þar sem Íslandi er sögusviðið, til nágrannalandanna.

Hæstv. ráðherra kom inn á flotta, nýja og spennandi kvikmyndastefnu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta er metnaðarfull stefna og hún er flott og hún er vel unnin en ein og sér er hún ekki nóg. Stefnan þarf á því að halda að það sé raunverulegur pólitískur áhugi, efnahagslegur pólitískur áhugi fyrir því að gera Ísland að aðlaðandi stað fyrir erlend kvikmyndaverkefni, fyrir erlenda framleiðendur. Það er ekki nóg eitt og sér þetta flotta plagg hæstv. ráðherra. Auk stefnunnar er núna búið að gefa út að það verður nám á háskólastigi í Listaháskóla Íslands. Þar eru gríðarleg menntatækifæri í boði fyrir ungt fólk sem leitar í aðrar tegundir menntunar en bóklegt nám. Mikið væri ánægjulegt og skemmtilegt að þegar þessir árgangar útskrifast svo þá sé hér landslag, aðlaðandi landslag til að taka við þeim, til að taka við nýútskrifuðum, sprenglærðum, flottum innlendum mannauði í kvikmyndagerð, til þess að það gerist ekki sem er að gerast núna, að við missum þann mannauð úr landi til þeirra landa sem þorðu að loka sjúklingnum á meðan honum blæddi. Við erum að missa mannauð, íslenska reynslubolta úr kvikmyndaiðnaðinum, til útlanda, til Kanaríeyja, til Írlands. Þetta er grátlegt. Ég er búin að tönnlast á því og held því áfram.

Virðulegi forseti. Fyrir ári síðan skall á margumræddur heimsfaraldur, Covid-19, og eins og fram hefur komið þá misstum við hina klassísku ferðaþjónustu okkar sem var orðin svo stór og mikilvæg stoð í hagkerfinu. En kvikmyndagerð er iðnaður sem hefur einstaka aðlögunarhæfni og það hefur nefnilega sýnt sig á tímum Covid að framleiðsla getur haldið áfram undir ströngu eftirliti. Ferlar hafa verið þróaðir og prófaðir og öruggt vinnuumhverfi hefur skapast í kringum slíka framleiðslu. Þarna hafa skapast störf og það mikilvægasta fyrir okkur þegar við komum út úr Covid er að hér sé búið að binda þannig um hnútana að atvinnuleysi hér á landi verði ekki 26% mikið lengur. Þarna eru atvinnusköpunartækifæri. Þarna er markaðssókn og landkynning eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Þetta er landkynning án þess að leggja þurfi í beinan kostnað. Í frumvarpinu kemur einmitt fram að réttindi fara til þeirra sem starfa við það að koma Íslandi á framfæri á erlendri grundu. Þau fá þessar afurðir að einhverju leyti, eitthvert kynningarefni í kringum það.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er landkynning án þess að leggja þurfi í beinan kostnað í upphafi. Þetta eru gjaldeyristekjur. Og það er, virðulegur forseti, gríðarlega hörð samkeppni í kvikmyndabransanum á alþjóðavettvangi og má oft mjög litlu muna þegar keppst er um hvert verkefnin fara. Til að mynda þarf að standa í útitökum og innitökum og stundum höfum við misst verkefni vegna þess að við erum ekki með almennt kvikmyndaver. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað fyrir því að hér ætti að byggja flott og stórt kvikmyndaver, það myndi enn auka líkur okkar. Þetta hefur verið gert. Þetta hefur verið gert í íþróttum, hefur verið gert í fótboltanum. Þá hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að gera vel við íþróttagreinina, byggðir stórir fótboltaleikvangar og þetta nært, pólitískt nært til langs tíma. Það hefur verið langtímahugsun í þeirri grein og hún hefur svo sannarlega skilað sér. Við þekkjum flest árangur íslenska landsliðsins í fótbolta hér um árið og þetta er grein sem vex og dafnar áfram.

Ég ætla að koma aðeins aftur inn á störfin við kvikmyndagerð. Það eru þarna tækifæri og störf alveg frá því að vera kannski það fyrsta sem fólki dettur í hug; leiklist, leikarar. Það er tónlist. Þetta er líka innspýting í tónlistargeirann. Þetta vinnur allt saman. Við sáum það fyrir norðan að Sinfóníuhljómsveitin hefur verið að taka upp tónlist fyrir erlend verkefni. Þetta er útflutningsvara sem hægt er að flytja út í gegnum internetið. Það þarf engin skip, eða flugvélar eða þessa klassísku frakt endilega. Þetta er útflutningsgrein.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á eftirvinnslu og að það væru tækifæri í henni og það er heldur betur satt og rétt. Eftirvinnsla kvikmyndagerðar er út af fyrir sig risastór iðnaður sem heldur áfram að þróast. Við erum að sjá þrívíddarþróun og alls konar tækni þar sem allt springur í loft upp án þess að allt þurfi í raun að springa í loft upp. Þetta eru svo borðleggjandi tækifæri fyrir land og þjóð, fyrir okkur til að ná okkur út úr þeirri kreppu sem nú liggur, því miður, eins og mara yfir landi og þjóð, atvinnuleysiskreppu. Við erum að tala um mjög alvarlegan hlut. Við erum að tala um atvinnusköpun á tímum þar sem atvinnuleysi er í sögulegum hæðum. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að mínu mati að ráðherrar séu að flækjast fyrir sjálfum sér í því hvort talan eigi að vera þessi eða hin eða að einhver annar ráðherra fái þetta ekki til að ganga upp í excel-skjali alveg strax þótt það sé lítið mál að sýna fram á öll þau hagrænu áhrif sem þetta hefur. Þetta er lítið mál, einfalt mál að þræða þetta allt saman og gera þetta.

Frú forseti. Ég er bjartsýn að eðlisfari, vongóð, og trúi og treysti á það besta í fólki og hef trú á Alþingi og störfunum hér. Nú er þetta frumvarp komið í gegnum 1. umr. og fer til nefndar. Ég vona að hæstv. Alþingi beri gæfu í meðförum þingsins til að breyta þessari tölu, þessari 25% endurgreiðslutölu, í a.m.k. 35% og að það þurfi ekki að bíða eftir niðurstöðum starfshóps sem kemur eftir dúk og disk. Það sé bara tekin pólitísk ákvörðun um að vinna saman að því að skapa dýnamískt umhverfi fyrir kvikmyndagerð á Íslandi.



[18:49]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um okkar hlutverk og það skiptir miklu máli að við séum með dýnamískt umhverfi fyrir þessa atvinnugrein sem á að mínu viti bjarta framtíð. Framboð á efni hefur auðvitað aukist gríðarlega og við getum staðsett okkur vel í því.

Mig langar að spyrja í kjölfar ræðu hv. þingmanns hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að því meira sem er endurgreitt því betra, það sé samasemmerki á milli þess og hversu gott kerfið er. Hv. þingmaður nefndi að við ættum að keppa við bestu kerfin. Kanaríeyjar eru með 50% endurgreiðslu þannig að ef við ætlum að keppa við bestu kerfin þá værum við væntanlega að huga að því að vera með 50% endurgreiðslu. Svo er spurning hvernig framkvæmdin er á kerfinu og hver skilvirkni þess er, sem ég leyfi mér að halda fram að sé miklum mun betri hér en þar. Mér fannst að hluta í ræðu hv. þingmanns því vera haldið fram að íslenskum kvikmyndaiðnaði blæddi stórkostlega. Ég er ekki sammála því þrátt fyrir að ég hafi líka heyrt dæmi um verkefni sem eru í öðrum löndum heldur en hér og því sé haldið fram að það sé vegna þess að kerfið hér nái ekki að grípa þau. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða greining liggi að baki þessum 35% og hvort sú greining liggi fyrir sem gæti hjálpað til við slíka ákvörðun.

Í kvikmyndastefnu er talað um að við þurfum að tryggja samkeppnishæfni kerfisins og taka það út hvernig það er gert. Það er í raun nákvæmlega það sem við erum að gera með þessum hópi. Í samkeppnishæfni kerfisins hér eru líka ýmsir aðrir þættir. Það liggur fyrir að launakostnaður á Íslandi er t.d. töluvert hærri þannig að það væri líka hægt að segja að til að auka samkeppnishæfni greinarinnar þyrfti launakostnaður að vera miklum mun lægri. Ég er ekki viss um að það yrði mikil sátt um það. (Forseti hringir.) En það eru auðvitað margir þættir sem hafa áhrif á samkeppnishæfni kerfisins. Það að keppa við bestu kerfin hverju sinni, með leyfi forseta, á ensku „race to the bottom“, (Forseti hringir.) — ég veit ekki hvort það er besta leiðin til að tryggja sjálfbærni kerfisins.



[18:52]
Forseti (Bryndís Haraldsdóttir):

Forseti minnir á að þingmálið er íslenska. Þá er ágætt að þýða það sem sagt er hér á erlendri tungu.



[18:52]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir andsvarið. Hvort talan eigi að vera 50% eða 35% og samkeppnishæfni. Nei, ég ætla að fara aðeins til baka. Hæstv. ráðherra spurði mig hvort að ég teldi að það þyrfti að keppa við hæstu tölurnar hverju sinni til að vera samkeppnishæf. Nei, að sjálfsögðu ekki, ég tel ekki að svo sé. Ég tel hins vegar að miðað við nærumhverfið sem við erum í samkeppni við þurfi þessi tala að vera a.m.k. á svipuðum stað. Hitt er auðvitað pólitísk ákvörðun. Hæstv. ráðherra talaði um 50%, að sum lönd hafi ákveðið að talan eigi að vera 50%. Það var pólitísk ákvörðun sem var tekin af ákveðnu hugrekki í upphafi faraldursins til þess að ná forskoti í samkeppni, til þess að segja: Hérna erum við og við ætlum að fá þennan iðnað til okkar. Það tókst og þau búa að því og munu gera það líka löngu eftir að Covid hefur riðið yfir. Að baki tölunni 35% liggur að baki, að mér best vitandi, viðmið við þau lönd þar sem aðrir hlutir endurgreiðslukerfisins eru svipaðir, en þessi tala, 25%, sé mismunurinn á milli kerfanna og þess vegna er þessari tilteknu tölu slegið fram. Þetta sé sú breyta sem þurfi að laga til þess að við verðum samkeppnishæf út frá viðlíka endurgreiðslukerfum. — Tíminn er búinn en ég hef seinna andsvar.

(Forseti (BHar): Andsvörum er reyndar lokið, hæstv. ráðherra hyggst ekki nýta sér rétt til seinna andsvars.)



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.