151. löggjafarþing — 72. fundur
 23. mars 2021.
atvinnuleysi og efnahagsaðgerðir.

[13:10]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Aðgerðirnar hafa virkað og útlitið er bjart, segir fjármálaráðherra um nýbirta fjármálaáætlun. Samkvæmt henni verða þó 35% fleiri atvinnulausir á árinu eða 5.000 fleiri einstaklingar en ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í fjármálaáætluninni sem samþykkt var fyrir jól. Í kynningunni skautar ríkisstjórnin svo algerlega fram hjá því að gert er ráð fyrir 5% atvinnuleysi í lok tímabilsins árið 2023. Það er 50 milljarða kostnaður fyrir ríkissjóð á hverju ári og sá kostnaður mun haldast um ókomna tíð ef ekki verður ráðist að rót vandans, sem er fjöldaatvinnuleysi. Hin ábyrga sýn ríkisstjórnarinnar, sem hún segist standa fyrir, afhjúpast svo algerlega þegar skoðað er til hvaða ráða verður gripið ef svartsýnustu spár ganga eftir og ákveðið skuldahlutfall ekki heldur. Ríkisstjórnin segir að þá verði gripið til afkomubætandi ráðstafana. Á skýrari íslensku heitir það niðurskurður eða skattahækkanir eða hvort tveggja. Það er ekkert sérlega geðsleg pólitísk sýn sem felst í því að sætta sig við áframhaldandi atvinnuleysi en hóta svo með ótilgreindum niðurskurðartillögum í lok tímabilsins til þess eins að ná einhverju sérstöku óskaskuldahlutfalli. Þetta er einfaldlega vegferð sem er dæmd til að mistakast. Þetta er markaðsherferð en ekki góð hagstjórn. Ég spyr: Gerir hæstv. forsætisráðherra sér ekki grein fyrir að grunnvandinn er atvinnuleysi? Í því liggur bæði halli ríkissjóðs en líka erfiðleikar 26.000 manna.

Herra forseti. Við munum aldrei vinna bug á skuldastöðunni fyrr en við náum niður atvinnuleysinu. Skuldastaðan er afleiðing af atvinnuástandinu og það er ótrúlegt að heyra ríkisstjórn státa sig af aðgerðum þegar hér mælist (Forseti hringir.) hæsta atvinnuleysi meðal vestrænna þjóða og ójöfnuður er að aukast. Ég spyr því: Er þetta áætlun um endurreisnina sem hæstv. forsætisráðherra boðar í næstu kosningum?



[13:13]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í hvaða samhengi spyr hv. þm. Logi Einarsson þessarar spurningar? Það er ár liðið frá því að heimsfaraldur skall á Íslandi með tilheyrandi samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum og ríkisstjórnin hefur frá fyrsta degi beitt sér fyrir aðgerðum til þess að draga úr efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum. Það eru pólitískar ákvarðanir sem til að mynda snúast um að leggja áherslu á að halda skólum opnum, þannig að atvinnulífið gæti haldið áfram að ganga sinn gang eins og mögulegt væri, þannig að ekki félli aukin byrði á konur umfram karla út af heimsfaraldri, pólitískar ákvarðanir sem felast í því að kynna til sögunnar bæði hlutastarfaleið, lokunarstyrki, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki, hækkun atvinnuleysisbóta og svo mætti lengi telja. Aðgerðir sem hafa skilað því að samdrátturinn er minni en áður var spáð. Samdrátturinn er minni. Einkaneysla hefur að einhverju leyti vegið upp á móti þessari erfiðu stöðu og sömuleiðis höfum við beitt okkur fyrir því að fólk geti haldið sínu ráðningarsambandi með hlutastarfaleið og nú með nýjum aðgerðum undir yfirskriftinni Hefjum störf, sem snúast um nákvæmlega þetta, að draga úr langtímaatvinnuleysi. Það er risastórt viðfangsefni í samfélagi okkar. Hv. þingmaður hefur oft gert stöðu atvinnuleitenda að umtalsefni hér og það er nefnilega mjög mikilvægt að við ræðum stöðu þeirra og hvaða úrlausnarefni blasa við þeim sem vilja fara aftur inn á vinnumarkað eftir jafnvel þriggja ára atvinnuleysi. Þess vegna erum við að ráðast í þetta verkefni þar sem opinberum stofnunum, frjálsum félagasamtökum og fyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, er gert kleift að taka fólk af atvinnuleysisskrá sem hefur verið þar lengur en í 12 mánuði. Það er risastórt verkefni sem mun skipta verulegu máli til að draga úr langtímaatvinnuleysi, koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn því að það er samfélagslegt böl ef hér verður áfram langtímaatvinnuleysi.



[13:15]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, ég hef gert stöðu atvinnuleitenda að umtalsefni hérna og geri það núna vegna þess að þær aðgerðir sem gripið er til eru ekki nógu miklar. Verið er að sætta sig við langtímaatvinnuleysi hér í landi. Í hvaða samhengi spyr ég um þetta? Jú, þetta er nefnilega ekki rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, það hefur fallið aukin byrði á t.d. konur. Kreppan bitnar harðast á konum, ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Og þegar hér er metatvinnuleysi, hér er verðbólga umtalsverð, hér er fjórðungur launafólks í vanda við að ná endum saman sem og helmingur allra atvinnulausra, þá eru þær aðgerðir sem boðaðar eru og sú sýn sem birtist í fjármálaáætlun einfaldlega ekki nægileg.

Ég spyr hvort hæstv. forsætisráðherra deili sýn fjármálaráðherra að sjálfbærni í ríkisbúskapnum snúist um tiltekna skuldasögu til skamms tíma en ekki það að ná niður atvinnuleysinu, skapa örugga atvinnu fyrir fólk (Forseti hringir.) og minnka ójöfnuð í þessu landi.



[13:16]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Stærsta hættan fyrir okkur sem viljum tryggja jöfnuð í þessu landi — og nú er kannski ekki tímabært að tala um nákvæmlega hvaða áhrif þessi kreppa hefur haft á stöðu hans á Íslandi, við vitum að tekjujöfnuður hér var mestur í Evrópu fyrir heimsfaraldur, svo að við drögum staðreyndirnar fram — mesta hættan sem steðjar að jöfnuði í þessu landi er atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi. Þess vegna snúast aðgerðir ríkisstjórnarinnar nákvæmlega um það að tryggja ráðningarsamband fólks, að tryggja afkomu fólks, að tryggja að við sköpum fleiri störf. Við munum sjá núna aukningu í fjárfestingu ríkisins. Töluvert hefur verið rætt um opinbera fjárfestingu og hlut ríkis og hlut sveitarfélaga í henni þar sem við erum líka að skapa störf. Síðan skiptir að sjálfsögðu máli það sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan spurði um, þ.e. hvernig bólusetningu mun vinda fram þannig að samfélagið geti tekið við sér og atvinnuleysi verði ekki viðvarandi vandamál. Það er mín sýn, svo að það sé algerlega skýrt, að langvarandi atvinnuleysi megi ekki verða í samfélagi okkar.