151. löggjafarþing — 72. fundur
 23. mars 2021.
sóttvarnir.

[13:32]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á nokkrum dögum hafa 50–60 tilfelli veiru verið greind á landamærunum, aðallega breska veiran. Það er áhyggjuefni vegna þess að það virðist vera að hún sé bara að detta inn og sé komin inn í samfélagið. Spurningin er: Á að stoppa þar? Á að hleypa henni inn? Mér virðist hæstv. heilbrigðisráðherra ekki ætla að grípa til lokana þannig að við komum í veg fyrir það. En það er annað sem er alvarlegra; nú er verið að banka illilega á austurlandamæri landsins, brasilíska veiran er að banka þar á. Og það sem er enn þá alvarlega, ef rétt er, er að maður var sendur um borð án þess að vita af því að smit væri um borð, að tíu af 19 manna áhöfn væru smitaðir. Þessi maður var í tvo eða tvo og hálfan tíma um borð áður en hann fékk að vita það. Brasilíska veiran getur smitað börn, en það sem er enn þá alvarlegra við þessa brasilísku veiru er að hún er talin geta smitað þá sem áður hafa fengið Covid. Ef það er rétt erum við komin í hálfgerða rússneska rúllettu með veiruna. Við verðum að tryggja að þessi veira komist ekki inn.

Ég ætla að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er ekki kominn tími til að við lokum landamærum næstu þrjá til fjóra mánuði á meðan við erum að klára bólusetningar? Ætlum við virkilega að láta alla detta ofan í veirubrunninn? Mér sýnist hæstv. heilbrigðisráðherra vera með einhverja plástra sem eru með engu lími. Það á bara einhvern veginn að taka séns. Við höfum tækin í dag til að stoppa þetta. Gerum það!



[13:34]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti ég tvenns konar aðgerðir sem eru til þess að þétta varnirnar við landamærin. Annars vegar snúast þær um að öll börn verði tekin í sýnatöku á landamærum, sem ekki hefur verið raunin áður. Við byrjum á því. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir því að fólk sem kemur frá svæðum þar sem veiran er hvað skæðust í Evrópu sé í sóttkví í sóttvarnahúsi eða farsóttarhúsi. Þessar breytingar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og snúast alltaf um það sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. að gæta sérstaklega vel að mögulegum smitum sem koma í gegnum landamæri, og ekki síst vegna þess sem hv. þingmaður nefnir, að við höfum ástæðu til að ætla að þar séu frekar á ferðinni þessi skæðari, stökkbreyttu afbrigði. Nefnd eru afbrigði sem kennd eru við Bretland og líka sem kennd eru við Brasilíu, sem eru sannarlega skæðari, breiðast hraðar út og breiðast frekar út frá börnum. Börn smitast frekar og ungt fólk smitast frekar. Það er líka áhyggjuefni.

Sóttvarnalæknir hefur raunar líka lagt til, sem við eigum eftir að fjalla um og ég hef ekki enn þá tekið afstöðu til, að allir verði prófaðir einu sinni á landamærum, líka þau sem eru með einhvers lags vottorð, hvort sem það eru vottorð um bólusetningar, vottorð um mótefni eða fyrri Covid-smit, til að fullvissa okkur um að ekki sé um að ræða að veiran berist mögulega inn þrátt fyrir þau vottorð sem um ræðir. Það er að gefnu tilefni og sóttvarnalæknir leggur mjög mikla áherslu á þessar aðgerðir. Ég held að miklu máli skipti að ráðist sé allar aðgerðir að yfirlögðu ráði.



[13:37]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Hvað varðar örugg svæði og litakóða — Ósló er rauð, aðrir staðir í Noregi eru grænir. Þetta gengur ekki upp. Við getum ekki farið eftir svona kerfi. Allra síst vegna þess að þeir sem hafa greinst með veiruna og eru búnir að fá vottorð — það er þegar búið að finna og greina hér innan lands einstakling sem smitar út frá sér þó að hann sé búinn að fá veiruna fyrir löngu og sé með vottorð. Þeir sem hafa smitast af veirunni smita áfram þó að þeir séu með vottorð. Við eigum að sjá til þess að fólk fari í einangrun og við eigum að taka sýni. Nýsjálendingar hafa 14 daga sóttkví, við getum haft það tíu daga, og svo hleypum við engum inn í landið fyrr en eftir það. Það hefur t.d. sýnt sig með súrálsskipið, þegar fjármunir eru undir — ef það er rétt að þeir hafi ekki látið vita þegar þeir komu inn í landhelgina að þeir væru með smit um borð. (Forseti hringir.) Við vitum líka að það er fullt af fólki að fara inn í landið og ætlar að vera hér í fjóra daga en á að vera fimm daga í sóttkví, hvernig gengur það upp?



[13:38]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Einmitt vegna þeirra sjónarmiða sem koma fram í fyrirspurninni er núna lagt til að þeir ferðamenn sem koma frá þeim svæðum þar sem smit er hvað mest séu í sóttkví í sóttvarnahúsi. Það sama gildir um þau sem greinast á landamærum með smit af því tagi, þ.e. stökkbreyttum afbrigðum, að þau séu í einangrun í sóttvarnahúsi, þannig að þetta eru breytingar. En ég vil bara minna á það, vegna orðaskipta okkar hér, mín og hv. þingmanns, ítrekað um þessi mál að það er skylda stjórnvalda á öllum tímum að gæta meðalhófs í sínum aðgerðum. Við höfum ekki leyfi gagnvart þinginu, gagnvart stjórnarskrá, gagnvart lýðræðinu, að vaða fram með ákvarðanir sem eru ekki undirbyggðar, rökstuddar og skynsamlegar hverju sinni og þess vegna förum við hér að rökstuddum tillögum sóttvarnalæknis.