151. löggjafarþing — 82. fundur
 21. apríl 2021.
frumvarp um starfslokaaldur ríkisstarfsmanna.

[13:18]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við þinglok í fyrra var frumvarpi, sem undirritaður hafði lagt fram á þremur þingum þar á undan, um að starfslokaaldur ríkisstarfsmanna gæti orðið allt að 73 ár, ef þeir kysu svo, vísað til ríkisstjórnar sem hluta af samkomulagi um þinglok, gegn því loforði að á síðasta haustþingi kæmi fram frumvarp sama efnis frá ríkisstjórninni, frá fjármálaráðherra. Eins og sjá má, af því að í dag er 21. apríl, hefur sá sem hér stendur sýnt nokkra biðlund og ekki verið að æsa sig mikið yfir því að frumvarpið er ekki fram komið. En svo vill til að einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, lagði fram nánast samhljóða frumvarp nú á útmánuðum, sem bendir til þess að hún hafi minna traust á loforðum hæstv. fjármálaráðherra en sá sem hér stendur.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað dvelur þetta frumvarp, sem var í eðli sínu, eins og frá því var gengið í fyrra, mjög einfalt? Ég spyr líka að því vegna þess að framganga ráðherra í þessu máli til þessa gæti mögulega spillt fyrir þinglokum nú í vor, þ.e. það frumvarp, sem lofað var um leið og frumvarpi mínu var vísað til ríkisstjórnar fyrir ári síðan að kæmi fram, hefur ekki komið fram. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað dvelur þetta mál og hvenær kemur það fram?



[13:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að byrja á því að benda aðeins á samhengið sem hv. þingmaður setur málið í, en áður en ég geri það ætla ég að segja þetta: Málinu var vísað til ríkisstjórnar og kemur til skoðunar í mínu ráðuneyti og hefur verið til skoðunar ásamt ýmsu sem varðar lífeyrisréttindi í landinu og er að fara í almenna endurskoðun með hugmynd um grænbók í framhaldinu. En að öðru leyti, bara þannig að maður leyfi sér aðeins að ræða formið hérna: Hvað á það að þýða að mönnum þyki það góð hugmynd að við þinglok sé samið um það í þingnefnd að einhverju tilteknu máli, sem hv. þingmaður í þessu tilviki hefur lagt fram, verði vísað til ríkisstjórnar gegn loforði um að einhver ráðherra lofi í eigin nafni að leggja málið fyrir Alþingi? Það var notað orðið fúsk hér áðan, þetta er ekki fúsk en þetta er algjör brenglun á öllum lögmálum hér á þinginu. Og sama gildir um það þegar menn setja inn í bráðabirgðaákvæði með lögum, eins og átti við í öðru máli sem nú er fram komið á þinginu, tilmæli til ráðherra um að hann láti semja frumvarp einhvers efnis og leggi það fyrir Alþingi til meðferðar.

Af hverju leggja menn ekki bara mál sín fyrir hér á þinginu og láta á það reyna hvort þau hafi einhvern meirihlutastuðning? Hvað á það að þýða að vera að leggja það fyrir ráðherra, setja þeim fyrir einhverja heimavinnu að búa til fyrir þingið, eða einstaka þingmenn, einhver frumvörp og flytja þau síðan í eigin nafni eins og þau væru þeirra hugðarefni? Þetta er auðvitað algjört rugl, svo ég taki ekki sterkar til orða. Ég hafna alfarið þessum vinnubrögðum og hvet þingið, nefndir þingsins, einstaka þingmenn sem hafa hér frumkvæðisrétt, reyndar langt umfram það sem gildir í öðrum þingum, rétt til þess að leggja fram mál og láta reyna á þau hvort stuðningur er við þau, að láta af þessum bellibrögðum að vera að reyna að snúa upp á handlegginn á ráðherrum og pína þá til að leggja fram mál alveg óháð því hvort þeir hafa áhuga á þeim eða ekki.



[13:22]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Það var upplýsandi en ekki uppörvandi. Svo vill til að hæstv. ráðherra tók þátt í því rugli í atkvæðagreiðslu í fyrra — um frumvarp sem hann lýsti eftir að þingmenn kæmu fram með og þessi þingmaður hefur komið með fram þrisvar — að samþykkja sjálfur hér í atkvæðagreiðslu að þetta frumvarp færi til ríkisstjórnar undir þeim formerkjum að það kæmi fram á síðustu haustmánuðum. (Gripið fram í.) Þannig tók hæstv. ráðherra þátt í því rugli og þeirri brenglun sem hann lýsti í svari sínu hér áðan, sem er náttúrlega fullkomið ábyrgðarleysi og hroki. En hæstv. ráðherra svaraði samt ekki spurningunni: Hvers vegna hefur þetta frumvarp ekki komið fram? Það var einfalt í eðli sínu. Hvers vegna hefur hann ekki staðið við það sem var samið um við þinglok í fyrra? Það eru spurningarnar. En ruglinu tók hann þátt í, hæstv. ráðherra.



[13:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé einhver misskilningur á ferð, a.m.k. sjáum við þetta með mjög ólíkum hætti. Ég get alveg tekið þátt í því að málum sé vísað til ríkisstjórnar og að þau fari þangað til skoðunar og úrvinnslu. Í því felst ekki loforð um að tiltekinn ráðherra muni leggja málið fram til Alþingis í sínu nafni og í þeim búningi sem hv. þingmaður vill. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig. Málið er til skoðunar. Og þannig að við komumst í efnislega umræðu um málið er ég þeirrar skoðunar að þetta sé ágætismál. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært sé að opnað verði fyrir það að fólk starfi lengur en gilt hefur til þessa í opinbera kerfinu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Efnisatriði málsins eru ágæt en þau þarf að ræða í samhengi við t.d. ávinnslu lífeyrisréttinda, lífeyristökualdur og slíka þætti. Efni málsins sjálft er ágætt og ég vil gjarnan að við náum breiðri samstöðu og helst samkomulagi við vinnumarkaðinn um að finna leiðir til að láta það verða að veruleika, þannig að ég endi þetta á jákvæðum nótum.

(Forseti (SJS): Það er alltaf gaman af því að umræðum ljúki á jákvæðum nótum.)