151. löggjafarþing — 82. fundur
 21. apríl 2021.
kostnaður við hertar sóttvarnaaðgerðir.

[13:24]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við vitum öll að það sem er á vogarskálunum hjá okkur núna eru hertar sóttvarnir á landamærum eða hertar sóttvarnir innan lands. Öðrum hvorum megin þarf að herða. Það vitum við. Við vitum hvað það kostar í lífum að fá bylgju yfir okkur eftir því hvað margir smitast og bylgjan fer upp. Við vitum hvað það kostar í skertum réttindum. Það hefur komið skýrt fram hvað það kostar í skertum réttindum þegar við náum ekki tökum á bylgjunni og hún fer upp, það þarf alltaf að herða á sóttvörnum innan lands. Við vitum það.

Mig langar að biðja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að fara yfir eftirfarandi með okkur: Hvað kostar þetta í peningum? Hvað kostar þetta ríkissjóð? Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í til þess að létta undir með atvinnulífinu og heimilunum byggja á einhverjum forsendum um það hver skaðinn er fyrir fyrirtækin og fjölskyldur í landinu þannig að eitthvað hefur hæstv. fjármálaráðherra skoðað hvað þetta kostar. Hvað kostar þetta samfélagið, bæði heimilin, fyrirtækin og svo ríkissjóð? Sumir heyra best þegar hlutirnir eru settir fram í krónum, settir fram í peningum. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um það.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá stöndum við frammi fyrir því núna að það þarf að herða sóttvarnir á landamærum ef við ætlum ekki að þurfa að herða sóttvarnir innan lands. Það er staðreynd. Það er betra fyrir líf og heilsu landsmanna að herða þær á landamærum en innan lands. Það er betra fyrir borgararéttindi, athafnafrelsi okkar og réttindi til mennta og atvinnu að herða á landamærum frekar en innan lands. Í því sem The Wall Street Journal tók saman um áhrif á efnahagslíf þjóða þá kom Svíþjóð verr út en Danmörk, Noregur og Nýja- Sjáland, þannig að við vitum að það er líka efnahagslega betra. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra um að taka það saman fyrir okkur hvað það kostar í peningum að fá aðra bylgju yfir okkar hér innan lands.



[13:27]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vísa til efnahagslegrar úttektar á sóttvarnamálum sem við höfum gefið út, reyndar í tvígang, fyrsta skýrslan kom út síðastliðið haust og svo kom önnur í kjölfarið, þar sem við færum einmitt rök fyrir því að óumdeilanlega sé skynsamlegt að hefta möguleika veirunnar til að komast inn í landið og beita um leið sóttvarnaaðgerðum innan lands eftir aðstæðum hverju sinni til að verja efnahagslífið. Hvað kostar þessi heimsfaraldur? Það eru margir mælikvarðar, það fer eftir því hvaða leið við notum. Við getum skoðað afkomu í ríkisfjármálum. Við getum sett marga mælikvarða á þetta. Mig langar bara til að segja að við Íslendingar höfum á margan hátt verið leiðandi í útfærslum, t.d. varðandi tvöföldu skimunina, aðferðafræði sem margir tóku upp eftir að við höfðum innleitt hana hér á landi. Við vorum sömuleiðis snemma í því að opna fyrir bólusetningarvottorð eða sönnun um fyrra smit og einfalda skimun í tengslum við það sem leið inn í gegnum landamærin. Það hefur reynst ágætlega. Við erum algerlega í fremstu röð í smitrakningu og skilningi á því hvernig veiran dreifist innan lands. Það er því margt um það að segja hvaða leiðir við höfum farið og hvaða árangri þær leiðir hafa skilað. Ég vil halda því til haga að við höfum á suma vegu verið í ákveðnu brautryðjandastarfi í landamæraaðgerðum okkar og þær hafa skilað miklum árangri.

Mig langar til að velta því upp fyrir síðari ræðu hv. þingmanns hvort hann sé að velta fyrir sér hvort við gætum skapað ástand þar sem væri engin veira innan lands þannig að við gætum fellt niður allar hömlur. (Forseti hringir.) Er það rétt skilið hjá mér að hann sé með það draumasamfélag í huga?



[13:29]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Bara svo ég svari spurningu hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum. Veirufrítt samfélag — við vitum hvað hefur verið gerlegt hingað til. Við náðum ágætu sumri í fyrra af því að við náðum faraldrinum niður. Við náðum að fletja kúrfuna, eins og það heitir. Það er hægt að gera það. Við vitum það. Við höfum reynslu af því og höfum gert það a.m.k. tvisvar. Það er það sem hægt er að gera. Og þá er hægt að létta á sóttvarnaaðgerðum innan lands, það er raunveruleiki.

Staðan er þessi: Það þarf að herða á landamærunum. Sóttvarnayfirvöld eru alveg skýr í því að það þarf að herða á landamærunum ef við eigum að geta létt á takmörkunum hér innan lands. Það er þess vegna sem farið var af stað með PCR-próf á brottfararstað til að meta hvort hægt væri að fara í litakóðunarkerfið. Núna eru forsendurnar bara brostnar og staðreyndirnar sýna okkur að ekki eru forsendur fyrir því af því að fólk skilar sér ekki í sóttkví. (Forseti hringir.) Fólk sem þurfti að fara í sóttkví skilaði sér ekki og forsendurnar eru brostnar ef við ætlum að hlusta á sóttvarnayfirvöld. En aftur, bara einföld spurning: Hvað hefur faraldurinn kostað ríkissjóð fram að þessu? Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að vita það.



[13:30]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Faraldurinn hefur kostað u.þ.b. 200 milljarða í beinum aðgerðum og líklega annað eins í óbeinum aðgerðum. Það er tjónið hingað til. Það liggur einhvers staðar á bilinu 300–400 milljarðar, aðeins eftir því hvernig við horfum á það. Ég held að enginn hefði getað komið í veg fyrir það. Mig langar til að segja hér að það tjón var óumflýjanlegt að verulegu leyti og okkur hefur með aðgerðum tekist að draga mjög úr því.

Þegar hv. þingmaður kallar eftir mjög hertum aðgerðum á landamærunum vil ég segja að við erum með mjög harðar aðgerðir. Við erum að leggja til að þær verði hertar enn frekar. Einhvers staðar verður að spyrja sig um meðalhóf, og það er reyndar grundvallarregla, skrifuð og óskrifuð, í íslenskum rétti sem við verðum að horfa til. Og við teljum að verið sé að taka tillit til þess, jafnvel þótt hér sé lagt upp með skyldu til að fara á sóttkvíarhótel í ákveðnum tilvikum án möguleika á undanþágu.