151. löggjafarþing — 82. fundur
 21. apríl 2021.
hertar aðgerðir og markaðssetning Íslands.

[13:32]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég er örlítið ringlaður eftir gærdaginn og vísa þar til blaðamannafundar sem var haldinn í Hörpu þar sem boðað var frumvarp sem var lagt fram í gærkvöldi um hertar sóttvarnir á landamærum. Á sama tíma sá maður í fjölmiðlum að gosið í Geldingadölum var tekið að falla niður húsveggi á Times Square þar sem verið var að hvetja erlenda ferðamenn til að sækja Ísland heim. Ég velti fyrir mér hvernig það geti farið saman að hvetja ferðamenn til að koma í auknum mæli til landsins og að herða á sama tíma eftirlit á landamærunum. Í greinargerð frumvarpsins sem var lagt fram í gærkvöldi segir, með leyfi forseta:

„Reynslan af Covid-19 faraldrinum sýnir að það nægir að einn einstaklingur virði ekki reglur um sóttkví eftir komuna til landsins til að hrinda af stað stórri hópsýkingu og jafnvel nýrri bylgju faraldurs.“

Ég velti fyrir mér og vil spyrja hæstv. ferðamálaráðherra að því hvort hann óttist ekki að þetta geti skapað gloppur í sóttvörnum sem leiði til þess að aftur þurfi að taka upp harðari takmarkanir hér á landi og lama ferðaþjónustuna innan lands og setja miklar skorður við líf almennings. Ef hæstv. ráðherra gæti hjálpað mér að skilja betur hvernig þetta tvennt getur farið saman.



[13:34]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi það atriði sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi fyrirspurnar, auglýsingu á Times Square þar sem sýnd er mynd af gosinu, þá er það auglýsing sem Icelandair ákvað að birta og er bara auglýsing fyrirtækisins á þessum stað. En við höfum tekið frá fjármuni til að setja í markaðssókn og ákváðum það fyrir töluverðu síðan. Við erum að nýta þá fjármuni, t.d. með því að mæla áhuga og ferðavilja. Við erum í ákveðinni herferð til að tryggja að Ísland sé í undirmeðvitund fólks og fólk sé að skoða Ísland sem mögulegan áfangastað, að hluta til þegar þar að kemur og að hluta til kannski á næstunni. Við sjáum að Evrópumarkaður var áður líklegri til að taka fyrr við sér en Bandaríkjamarkaður sem gert var ráð fyrir að kæmi inn síðar. Núna hefur það snúist við. Það hangir augljóslega að miklu leyti saman við stöðu bólusetninga þar í landi. Verið er að sækja á Bandaríkjamarkað vegna þess að fólk þar er tilbúið til að ferðast með bólusetningarvottorð. Nýjar aðgerðir og breytingar sem eru áformaðar á landamærum snerta ekkert það fyrirkomulag sem við erum með varðandi bólusetningarvottorð og vottorð um mótefni. Þar er sú regla að það er einföld skimun á landamærum. Það hefur gengið vel og ekkert smit komið þar upp það sem af er þeim tíma. Næstu vikur eru vissulega rólegar en vonandi verður sumarið með einhverju frekara lífi, sérstaklega þegar kemur að ferðamönnum með bólusetningarvottorð sem er þá allt annars eðlis út frá sóttvörnum (Forseti hringir.) en annars. Kerfið sem við höfum komið upp er öruggt og nokkuð tryggt og ég vonast til að sumarið verði mjög gott fyrir (Forseti hringir.) okkur Íslendinga á ferðalögum en sömuleiðis ákveðinn hóp ferðamanna.



[13:37]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ferðamálaráðherra fyrir svarið. Ég skil það þannig að Icelandair njóti þá ekki neinna fjármuna frá íslenska ríkinu til að auglýsa þarna og að Íslandsstofa sé ekki í sérstakri markaðsherferð erlendis til að laða að erlenda ferðamenn á þessari stundu. Ég kýs að skilja það þannig. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá ef það er ekki rétt. Nú er það einu sinni þannig að vel heppnaðar markaðsherferðir leiða til þess að áhugi eykst. Vonandi er tilgangur herferðarinnar að ferðamenn streymi hingað til lands í hundruðþúsundatali. Þá er spurningin um innviðina og hvernig þeir geta tekið við. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess hvernig menn ætla að taka sýni úr öllum þessum ferðamönnum, hvernig menn ætla að halda þeim við sóttkví í sex klukkutíma og hvernig menn ætla að halda því til streitu að þeir komist ekki út í samfélagið, því að dæmin sanna að jafnvel bólusett fólk getur borið með sér veiruna og dreift henni. (Forseti hringir.) Þess vegna er stórhætta á að smit dreifist eftir því sem ferðamönnum fjölgar. (Forseti hringir.) Er búið að hugsa það allt til enda? Ég vil gjarnan fá svör við því.



[13:38]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Til að vera alveg skýr þá nýtir Íslandsstofa fjármuni í að markaðssetja Ísland og hefur verið að gera það. Það eru töluverðir fjármuni eftir af því verkefni, sem verða þá væntanlega nýttir þegar við erum lengra komin inn í bólusetningaráform okkar hér. En við notum þá fjármuni með markvissum hætti til þess bæði að mæla ferðavilja, sjá hvar helstu tækifærin eru og auglýsa Ísland meðal fólks víða um heim.

Skimunargetan hefur stóraukist og það er staða sem við þurfum á hverjum tíma að vera örugg um að geta sinnt. En það er þá líka fjárfesting sem myndi borga sig mjög hratt til að geta tekið á móti bólusettu fólki, og eins og ég nefndi hefur enginn hingað til komið bólusettur í gegnum skimun og greinst jákvæður þar. Þetta er viðleitni til að gera það sem við getum til að auka umsvif og tekjur ríkisins og íslensks atvinnulífs án þess að það sé á nokkurn hátt á kostnað sóttvarna.