151. löggjafarþing — 83. fundur
 22. apríl 2021.
sóttvarnalög og útlendingar , 2. umræða.
stjfrv., 747. mál (sóttvarnahús og för yfir landamæri). — Þskj. 1267, nál. m. brtt. 1279, breytingartillaga 1280, 1281 og 1282.

[02:38]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta velferðarnefndar. Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið frá orði til orðs, herra forseti, heldur stikla á stóru. Ég vil í upphafi minna hv. þingmenn á að það frumvarp sem við ræðum hér er um heimildarákvæði til bráðabirgða sem fela í sér tilteknar heimildir til ráðherra, að fengnum tillögum frá sóttvarnalækni, til að grípa til ráðstafana á landamærunum.

Almennt um umfjöllun nefndarinnar: Við leggjum áherslu á að það er mikilvægt að klára þetta mál og klára afgreiðslu þess sem hraðast. Það er mikilvægt að þessi heimild til ráðstafana sé fyrir hendi fyrir sóttvarnayfirvöld.

Nefndin fjallaði nokkuð um réttindi barna og komið var inn á þau atriði fyrir nefndinni að það skipti máli að horft væri til hagsmuna barna og réttinda barna þegar rætt væri um sóttvarnaaðgerðir. Fyrsti minni hluti nefndarinnar beinir því til ráðherra að huga sérstaklega að þessum réttindum og að horft verði til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar fjallað er um þessi mál.

Breytingartillögur 1. minni hluta snúa fyrst og fremst að því sem hefur verið talað um sem hááhættusvæði. Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að skylda til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi ferðamann sem kemur til landsins frá hááhættusvæði eða svæði þar sem fullnægjandi upplýsingar um samfélagssmit liggja ekki fyrir. Ráðherra birti lista yfir svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði og almennt skuli miðað við að hann sé uppfærður á 14 daga fresti. Síðan er nefnt í greinargerðinni að nota viðmiðið 750 eða 1.000 smit á 100.000 íbúa á 14 daga fresti. 1. minni hluti tekur hins vegar fram að tölur um nýgengi smita í greinargerðinni eru eingöngu nefndar í dæmaskyni. Vakin er athygli á að mismunandi töluleg gildi um smittíðni geta endurspeglað mismikinn alvarleika, m.a. eftir þeim stofnum veirunnar sem eru í gangi á hverjum tíma auk þess sem hlutfall jákvæðra sýna af fjölda tekinna sýna á hverjum stað getur haft áhrif á matið.

Í umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að til bóta væri að skilgreina framangreind atriði í lagatexta. 1. minni hluti telur að löggjöfin verði að veita ráðherra og sóttvarnalækni svigrúm til að skilgreina hááhættusvæði eftir því sem faraldrinum vindur fram. Þannig væri varhugavert að löggjöfin kvæði á um að hááhættusvæði skyldi skilgreina út frá tilteknum nýgengisstuðli enda þarf mat ráðherra að geta byggst á fleiri þáttum þar sem m.a. getur þurft að taka tillit til mismunandi afbrigða veirunnar líkt og áður kom fram. Þó telur 1. minni hluti rétt að í lagaákvæðinu verði sérstaklega tiltekið að við skilgreiningu á hááhættusvæði í reglugerð megi m.a. líta til nýgengisstuðuls smita og mismunandi afbrigða veirunnar.

Ég held að ég vindi mér bara næst í að útskýra breytingartillögurnar, sem hljóða svo:

„1. Við 1. gr.

a. Í stað orðanna „eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.“ — Þetta er í raun orðalagsbreyting, ekki efnisbreyting.

„b. Síðari málsliður 1. efnismgr. orðist svo:

Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.

c. Í stað 3. efnismgr. komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:

Að fenginni tillögu sóttvarnalæknis skal ráðherra í reglugerð skilgreina hááhættusvæði. Við skilgreininguna er m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru. Heimilt er að skilgreina tiltekið land sem hááhættusvæði enda þótt einungis afmarkaður hluti þess uppfylli framangreind skilyrði samkvæmt skilgreiningu í reglugerð. Ráðherra skal birta lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Listinn skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á tveggja vikna fresti.

2. Í stað orðanna „hááhættusvæði eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. efnismálsgreinar 2. gr. komi: hááhættusvæði, sbr. ákvæði til bráðabirgða við sóttvarnalög, nr. 19/1997, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.“

Að svo mæltu hef ég lokið máli mínu.



[02:45]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögum við það frumvarp sem við fjöllum um er varðar sóttvarnahús og för yfir landamæri. Breytingartillögurnar er að finna á þskj. 1280. Þær eru svo nákvæmar og eiga við um svo ákveðið orðalag og innskot á orðum að ég ætla ekki að fara að lesa það upp hér, enda verður að segjast að þá yrðu þær harla óskiljanlegar. Innihald breytingartillagna er í samræmi við framlagt frumvarp þingflokks Samfylkingarinnar þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerð er inniber að skylda fólk til dvalar í sóttvarnahúsi. Er sú heimild almenn en ekki með þeim hætti sem við fjöllum hér um í nótt.

Hvað erum við að tala um, herra forseti? Á þessum tíma, frá 1. febrúar til gærdagsins, eða dagsins í fyrradag, hafa greinst 352 smit hérlendis. Við erum nýlega búin að horfa upp á þrjár stórar hópsýkingar. Stærsti hópurinn telur 48 smit sem sendu nokkur þúsund manns í sóttkví. Næststærsti hópurinn taldi 12 smit. Þar fóru 400 í sóttkví . Þriðji hópurinn er með 11 smit og við erum sífellt að fá að vita af fleiri smitum. Þetta er ástandið núna. Við erum með mjög kvikt ástand og við því þarf að bregðast.

En það þarf að vanda til verka. Klukkuna vantar tíu mínútur í þrjú aðfaranótt fimmtudags. Það er ekki að vanda til verka. Öðru sinni erum við að gera breytingar á sóttvarnalögum með algjörlega ófullnægjandi hætti. Að þessu sinni eru breytingarnar heldur ekki í samráði við sóttvarnalækni, landlækni eða þá sérfræðinga sem mættu fyrir nefndina og sögðu: Við þurfum ekki skyndiákvörðun, við þurfum ekki takmarkaða bráðabirgðaheimild. Við vorum svo heppin að þessir gestir sem komu fyrir nefndina, Alma Mölller, Þórólfur Guðnason og Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir smitsjúkdómalækninga, leyfðu henni að ræða það sem þau höfðu fram að færa. Þau sögðu: Ástandið er það kvikt að við getum borið það saman við að slökkviliðsmaðurinn þyrfti að koma við í Alþingishúsinu við Austurvöll til að eiga orðastað við stjórnmálamennina um hvort hann mætti leggja leið sína að brennandi húsi vestur í bæ, til að fá einhverja heimild í hvert einasta skipti sem hann þyrfti að bregða sér út af slökkviliðsstöðinni.

Sóttvarnayfirvöld þurfa að fá lagaheimild til að geta brugðist við því ástandi sem kemur upp. Þær tölur sem miðað er við frá Evrópu eru tveggja vikna gamlar. Við getum ekki verið að bíða eftir því. Það er ástand hér og nú sem bregðast þarf við hér og nú, ekki eftir tvær vikur. Svo að myndlíkingunni sé haldið áfram verður húsið þá mögulega brunnið til kaldra kola. En svo er auðvitað ekki hér. Við stöndum okkur ágætlega en við þurfum að veita sóttvarnayfirvöldum fullnægjandi heimild. Einhverra hluta vegna þorði ríkisstjórnin ekki að stíga það skref, hún þorði ekki að stíga skrefið til fulls.

Það var svo áberandi á fundi nefndarinnar í dag, kvöld og nótt, með þeim gestum sem komu, að verið var að biðja okkur um að aðstoða alla leið. Það er slíkt hættuástand í heiminum að við erum með heimsfaraldur sem fer ekkert eftir því sem við viljum að gerist. Þess vegna þurfum við að hafa öll tæki til að bregðast við. Einhverra hluta vegna treystir ríkisstjórnin sér ekki heldur til að láta þá heimild sem þó er veitt, duga lengur en til 1. júlí. Áætlun segir að 32.000 ferðamenn muni koma til landsins í næsta mánuði, 32.000 ferðamenn. Við fengum líka upplýsingar um það. Við verðum að setja nauðsynlega heimild í lögin, en þessi vinnubrögð sem við verðum vitni að hér í nótt eru í einu orði sagt með öllu óboðleg. Það sýnir stöðuna í ríkisstjórninni að við erum ekki með neinn meiri hluta í nefndinni. Við erum bara með 1. minni hluta. Við erum með fjögur minnihlutaálit.

Sóttvarnalæknir kom ekki að gerð frumvarpsins. Ekki var leitað til hans með ráðleggingar varðandi útfærslu. Þá voru engar skýringar veittar á því hvers vegna svo var ekki aðrar en þær að við stæðum betur en við hefðum gert. Þegar við spurðum sóttvarnalækni og landlækni að því hvort þetta væri rétt, hvort þessi bylgja væri eitthvað betri en önnur bylgjan, hvort fólk veiktist minna núna og hvort þessi afbrigði væru eitthvað vægari og betri við okkur, sögðu þau einfaldlega: Nei, það er ekki svo. Yngra fólkið veikist meira núna. Þessi afbrigði eru meira smitandi, bráðsmitandi, og þess vegna þarf að girða frekar fyrir þann leka sem verið hefur á landamærunum. En þá ætla stjórnvöld að miða við einhver hááhættusvæði, en þó bara til hliðsjónar miðað við nýjustu útgáfu. Þetta eru bara tölur. Ekki skal taka blaðamannafund ríkisstjórnar í Hörpu í vikunni alvarlega af því að þetta eru bara tölur sem miða á við en ekki fara eftir. Þegar spurt var hvort tryggt væri að fólk færi ekki frá einu landi til annars til að fljúga heim frá öruggu ríki ef það byggi í óöruggu ríki, hááhætturíki, var okkur líka tjáð að ekki væri hægt að tryggja það, því miður. Evrópa væri ekki þannig. Þar er bæði hægt að keyra yfir landamæri og taka lest. Við erum því auðvitað með þannig ástand að við þurfum að bregðast hratt og örugglega við með fullnægjandi lagaheimildum.

Það er svolítið skrýtið að eftir allt sem á undan er gengið, eftir að hafa verið rekin til baka með reglugerð sem hafði ekki fullnægjandi lagastoð, stöndum við hér um miðja nótt með þessa ófullnægjandi útkomu, með þessi óboðlegu vinnubrögð. Ég verð að segja að það er ekki beint til að auka traust á þeim störfum sem hér fara fram að þessu sé leyft að fara svona. Ég átta mig ekki á nauðsyn þess að við séum hér um miðja nótt að gera þetta. Hvers vegna var ekki byrjað fyrr? Hvers vegna var ekki brugðist við varnaðarorðunum fyrir fjórum vikum? Hvers vegna var ekki brugðist við þegar niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar lá fyrir fyrir tveimur vikum? Hvers vegna var fyrst brugðist við eftir að Samfylkingin hafði lagt fram frumvarp þess efnis að skjóta lagastoð undir nauðsynlegar aðgerðir sem sóttvarnalæknir hafði kallað eftir? Hvers vegna var það fyrst þá að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin fann hjá sér kjarkinn til að reyna að koma fram með eitthvað í líkingu við það sem kallað hafði verið eftir vikum saman, þannig að við fengjum engan tíma til að vinna það, þannig að fimm nefndarritarar hafa setið hér með okkur í alla nótt að reyna að átta sig á því hvernig útkoman eigi að vera þannig að meiri hlutanum líki vel við, þannig að við séum hér að halda ræður klukkan þrjú og alla langi að fara heim af því að allir eru löngu búnir að missa einbeitinguna?

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þessi vinnubrögð á Alþingi Íslendinga.



[02:55]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að hugsanlega er ósanngjarnt af mér að fara í andsvar við hv. þingmann, en hv. þingmaður var í nefndinni og er reyndar formaður hennar, en hv. 11. þm. Suðvest. slapp hérna úr pontu áður en mér tókst að spyrja hann og þetta ágæta plagg var ekki komið á vefinn þegar hv. þingmaður hafði lokið ræðu sinni. Þannig að ég verð að spyrja einhvern annan þingmann sem var í nefndinni hvort það hafi ekki einmitt verið lögfræðingar og lögfrótt fólk sem er hér listað upp sem hafi mætt á fund nefndarinnar og gefið einhver álit sem ættu kannski heima í nefndaráliti meiri hluta eða 1. minni hluta eftir atvikum. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hefði komið þar fram sem ætti venjulega heima í nefndaráliti meiri hluta eða 1. minni hluta.



[02:56]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, lögfræðingar komu fyrir nefndina. Við höfum fengið fjölda manns fyrir nefndina í allan dag. Við byrjuðum á því að fá starfsfólk ráðuneytis og lögfræðinga úr stjórnkerfinu. Við fengum þau þrjú sem ég nefndi áðan, sóttvarnalækni, landlækni og prófessor í smitsjúkdómum. Við fengum lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli, Víði Reynisson hjá Almannavörnum, Rauða krossinn. Við fengum fjölmarga, þrjá löglærða, tvo lögspekinga, dómara, umboðsmann barna, lögfræðing hjá umboðsmanni barna o.fl. Ég er að gleyma einhverjum. Við fengum fjölda fólks á okkar fund en ekki er farið ígrundað í það í nefndaráliti að greina frá ráðleggingum þeirra og sjónarmiðum, einfaldlega af því að ekki gafst tími til þess. Við vorum að funda bara rétt áðan þannig að það gafst greinilega ekki tími til að setja það inn.



[02:58]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er hlaupinn í mig einhver galsi þó að þetta sé ekkert sérlega fyndið. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu Flokks fólksins við frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, um sóttvarnahús og för yfir landamæri. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum hvernig Flokkur fólksins hefði viljað standa að sóttvörnum á okkar blessaða landi. Ég ætla að tala hér um þessa breytingartillögu okkar, með leyfi forseta:

„1. gr. orðist svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 1. gr. þurfa allir ferðamenn sem koma til landsins á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021 að dvelja í sóttvarnahúsi eigi skemur en sjö daga frá komu. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum.

Ferðamaður skal greiða fyrir dvöl í sóttvarnahúsi skv. 1. mgr.

Umsókn um undanþágu skal hafa borist sóttvarnalækni a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins. Ferðamaður sem fær undanþágu til að vera í sóttkví í húsnæði á eigin vegum skal vera undir sams konar eftirliti eins og um sóttvarnahús á vegum stjórnvalda væri að ræða og á eigin kostnað.

Sóttvarnalækni er heimilt að fella niður kostnað skv. 2. og 3. mgr. ef greiðsla hans yrði verulega íþyngjandi fyrir einstakling vegna fjárhagsstöðu hans eða félagslegra aðstæðna.“

Í greinargerð með breytingartillögunni kemur fram að líf og heilsa landsmanna verði að vera í fyrsta sæti og það skuli tryggja með öllum tiltækum ráðum. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta en ætla bara að bæta því við að það vekur furðu að við skulum nánast vera með frumvarp heilbrigðisráðherra óbreytt ef miðað er við alla þá gesti og sérfræðinga sem komu fyrir velferðarnefnd í dag. Ég batt vonir við að ég hefði getað dregið þessa breytingartillögu til baka og getað orðið þokkalega sátt við þá úrvinnslu sem hér hefði verið viðhöfð. En því miður er ekki svo.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði hér í ræðu á undan mér, að ýmislegt kom fram, þar á meðal það sem var svolítið sláandi, þ.e. hve ástandið er í raun eldfimt úti um allt og að sóttvarnalæknir var ekki einu sinni hafður með í ráðum þegar frumvarpið, sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur hér fram, var smíðað. Miðað við að heyra í sóttvarnalækni, landlækni og þeim sem komu fyrir nefndina í dag eru þessi vinnubrögð eiginlega alveg með ólíkindum. Ég hafði bundið vonir við að við hefðum t.d. getað sammælst um margt. Ég nefni sem dæmi þau tímamörk sem við fylgjum í breytingartillögunni. Landlæknir telur líka að það skipti afskaplega miklu máli að koma því inn í lögin skýrt og skorinort, þannig að það sé alveg ótvírætt, að sóttvarnalæknir hafi þær heimildir sem hann telur nauðsynlegar til að uppfylla markmiðin sem fylgja starfi hans, sem eru í raun að koma í veg fyrir að faraldur spretti hér upp ef svo ber undir.

Nú erum við í fordæmalausu ástandi að glíma við heimsfaraldur sem ég vona að ekkert okkar eigi eftir að þurfa að upplifa aftur. En því miður er líka að koma í ljós að nú eru að spretta upp afbrigði sem valda ugg og valda áhyggjum landlæknis og sóttvarnayfirvalda. Ég segi: Það er ástæða, virðulegi forseti, til að mismuna ekki þeim sem koma hér um landamærin. Það er ástæða til þess að eitt gangi yfir alla. Það er ástæða til þess að hafa reglurnar fyrirsjáanlegar og skýrar og hafa þær þannig að frekar dragi úr komum fólks til landsins en að þeim fjölgi.



[03:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu hv. þm. Halldóru Mogensen í fjarveru hennar. En fyrst vil ég segja það að við í þingflokki Pírata styðjum hertar aðgerðir á landamærunum til að auka frelsið innan lands, ég vil hafa það alveg skýrt. Það stendur heilt yfir betur vörð um réttindi borgaranna, það fórnar minni hagsmunum fyrir meiri hagsmuni, minna frelsi fyrir meira frelsi. Sérstaklega er mikilvægt að ferðalangar viti að hverju þeir ganga þegar þeir ferðast eða yfir höfuð athafna sig í hinu daglega lífi. Takmarkanir okkar þurfa að taka mið af því að skýrleiki frelsisskerðingar af einhverju tagi er mjög mikilvægur og er reyndar grundvallaratriði. Það má takmarka mannréttindi undir ákveðnum kringumstæðum samkvæmt stjórnarskrá og samkvæmt mannréttindasáttmálum og alþjóðaskuldbindingum. Það má en það er alltaf innan ákveðins ramma. Það má ekki gera það bara vegna þess að fólk vill það. Það má ekki gera það bara vegna þess að fólk telur það mikilvægt. Það þarf líka að standast skilyrðin sem eru sett fyrir þeim takmörkunum.

Ein af þeim takmörkunum sem við búum við á Íslandi, sem betur fer, er sú að ekki er hægt að kveða á um frelsisskerðingu af þeirri tegund sem var kveðið á um í reglugerð nýlega án lagastoðar. Það sem gerist þegar slík slys eiga sér stað er að sú heimild til frelsisskerðingar í reglugerðinni verður ógild. Það er skaðlegt, virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að á samfélagsmiðlum og víðar er Pírötum gjarnan kennt um þetta eða einhverjum öðrum sem vilja vanda sig við þessar mikilvægu aðgerðir sem við þurfum að leggjast í. En þingflokkur Pírata situr ekki í Hæstarétti. Við vöruðum hins vegar við þessu. Við sáum þetta fyrir. Það er víða túlkað sem andstaða við hertar aðgerðir. Sá misskilningur er hér með leiðréttur. Það skiptir máli, þegar við skerðum frelsi borgaranna og takmörkum mannréttindi af illri nauðsyn, að við gerum það rétt, að við klúðrum því ekki aftur. Þess vegna er málsmeðferðin sem þetta mál fær hér í nótt óþolandi.

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika enn og aftur, og hef gert það margoft áður í ræðum, að jafnvel þótt hraðinn sé nauðsynlegur breytir það því ekki að þegar við vöndum okkur ekki eykur það líkurnar á öðru klúðri, fleiri mistökum við það að skerða mannréttindi, og það er grafalvarlegt. Það er ábyrgðarhluti meiri hlutans og okkar hér á Alþingi að þegar við neyðumst til að fara út í slíka umræðu, sem í eðli sínu er ógeðfelld, þá vöndum við okkur og hlustum hvert á annað, hlustum á áhyggjurnar og tökum þær alvarlega, jafnvel þótt við séum líka hrædd og sérstaklega vegna þess að við erum líka hrædd.

Virðulegi forseti. Réttarríkið er ekki umsemjanlegt. Það er ekki háð duttlungum einstakra þingmanna, það er háð dómstólunum, það er háð eðli þess valds sem yfirvöld hafa til að setja reglugerðir. Okkar vald til að setja lög er háð þeim sömu takmörkunum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr — og ætti okkur almennt að líka það betur ef út í það er farið. Þær heimildir sem yfirvöld fá til að skerða frelsi borgaranna þurfa í það minnsta að vera mjög skýrar. Þar vík ég að því sem ég hef áhyggjur af þegar kemur að frumvarpinu sem mig langar að styðja og hugðist styðja fyrr í dag, en er ekki viss um að ég geri lengur. Ef heimildin er ekki nógu skýr er hætt við því að hún verði dæmd ólögmæt af dómstólum, ekki af þingflokki Pírata eða stjórnarandstöðunni á Alþingi heldur af dómstólum og það er mjög alvarlegt ef það gerist aftur. Við verðum að vanda okkur. Við verðum að passa okkur. Við megum ekki falla í þá gildru að líta á mannréttindi, stjórnarskrárvarin mannréttindi, sem einhver forréttindi, það eru þau ekki. Þau eru fyrir okkur öll. Fólk sem hefur næg forréttindi þarf sennilega minna á þeim að halda en þau verst settu, jaðarsettir minnihlutahópar og hvaðeina.

Að því sögðu ætla ég að gera grein fyrir breytingartillögu sem við leggjum hér fram í þeirri veiku von að hugsanlega verði tekið tillit til hennar að einhverju leyti og hægt verði að fyrirbyggja mistök. Þó verð ég líka að segja að tíminn sem við höfum til að vinna þetta mál býður ekki upp á þau vönduðu vinnubrögð sem við í þingflokki Pírata myndum venjulega vilja viðhafa. Ég ætla að renna stuttlega yfir þessar breytingartillögur. Þær eru í tveimur töluliðum og tveimur stafliðum innan fyrri töluliðarins. Í a-lið fyrri töluliðar segir:

„Barn skal að jafnaði sæta sóttkví í heimahúsi. Telji sóttvarnalæknir nauðsynlegt að vista barn í sóttvarnahúsi skal fyrst fara fram mat á áhrifum vistunarinnar á barnið. Við það skal lagt mat á hvort önnur vægari úrræði geti náð sama markmiði og eins hvort grípa þurfi til mótvægisaðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum á barnið.“

Nú hygg ég að meiri hlutinn ætti að geta stutt þetta, samanber nefndarálit 1. minni hluta. En einhvern veginn ætla ég að spá því fyrir, vegna málsmeðferðarinnar hér, sem því miður er dæmigerð á tímum sem þessum, að svo verði ekki. Ég spái því að þessari tillögu verði hafnað af þeirri einföldu ástæðu að hún kemur ekki úr átt sem hlustað er á, af einni eða annarri ástæðu.

Í b-lið fyrri töluliðar segir:

„Einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fötluðu fólki sem ekki getur sætt sóttkví í sóttvarnahúsi vegna aðstæðna sinna eða fötlunar skal ekki gert að sæta slíkri dvöl.

Við setningu reglugerðar skv. 1. mgr. skal framkvæmt mat á samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Einstaklingar sem dvelja í sóttvarnahúsi í sóttkví skulu eiga rétt til útivistar í klukkustund á dag.

Einstaklingar sem dvelja í sóttvarnahúsi í sóttkví eða einangrun skulu eiga rétt á upplýsingum um réttindi sín og skyldur á tungumáli sem þeir skilja.“

Ekkert af þessu er róttækt. Allt af þessu er sáttamiðað og sett fram í því augnamiði að reyna að fá sátt um þetta mikilvæga mál. Auðvitað erum við í neyðaraðstæðum, auðvitað er neyðarástand og auðvitað erum við að leggja fram frumvarp sem okkur ætti öllum að vera mjög illa við í eðli sínu. En við skiljum neyðina, við skiljum ógnina og hætturnar og það ætti að neyða okkur til að vanda okkur þannig að við skerðum frelsið eins lítið og við mögulega getum og einungis til að ná settu markmiði. Þetta sjálfsagða fyrirbæri er kallað meðalhóf en ég ætla að sleppa því að fara út í þær lögskýringar hér, ég ætlast til þess að þingmenn skilji þær.

Annar töluliður breytingartillögunnar fjallar um 2. gr. en hún gerir það að verkum að yfirvöldum verður heimilt að synja útlendingum, þ.e. þeim sem eru ekki íslenskir ríkisborgarar, um að koma til landsins yfir höfuð. Þá er í þeirri grein gefin heimild fyrir undanþágum fyrir fólk, t.d. á grunni búsetu.

Virðulegi forseti. Aftur: Það er ekki skýrt hvað það þýðir. Það er fólk sem býr hér og hefur búið hér í mörg ár en er ekki íslenskir ríkisborgarar. Við gerum kannski ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð sem er mannúðleg og í samræmi við það sem við myndum á góðum degi kalla mannréttindi. En það er ekki ljóst samkvæmt frumvarpinu og við leggjum því til að það sé gert skýrt að útlendingum sem hafa búsetu á Íslandi sé ekki meinað að koma til landsins.

Virðulegi forseti. Ég held ég láti þetta gott heita. Mér sýnist á umræðunni að ekki sé mikill fílingur fyrir því að halda hér miklar og langar ræður, enda held ég að ég hafi komið til skila því helsta sem mér og okkur liggur á hjarta. Ég vildi bara svo innilega óska þess að á svona tímum þyrftu vinnubrögðin einhvern veginn ekki að vera óþolandi, að á svona tímum, þegar við þurfum að standa saman sem þing og þjóð, gæti Alþingi sýnt meiri stuðning en svo að fjölmennasta nefndarálitið sé í nafni 1. minni hluta.

Virðulegi forseti. Þetta þurfti ekkert að gerast svona. Það þurfti ekkert að klúðra þessari reglugerð á dögunum. Það var alveg hægt að komast hjá því. Það var alveg hægt að hlusta. Það er alveg hægt að hlusta núna.



[03:13]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við viljum öll stöðva þessa veiru og viljum fella niður samfélagslegar takmarkanir innan lands svo að við getum farið að lifa eðlilegu lífi. Það liggur fyrir. Ástandið vegna þessa faraldurs hefur varað lengi og þjóðin verður sífellt þreyttari og pirraðri á lokunum og opnunum til skiptis og skaðinn af þessum rússíbana verður sífellt meiri. Það er mikilvægt að fylgja ráðum vísindamanna og faglegri ráðgjöf en standa á sama tíma vörð um samstöðu þjóðar. Það hefur verið leiðarstef okkar í Viðreisn að faglega ráðgjöfin ráði för.

Markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu sem við ræðum hér er að skjóta lagastoð undir vistun fólks á sóttkvíarhóteli, sömu vistun og var úrskurðuð ólögmæt fyrir tæpum þremur vikum. Tilgangurinn er auðvitað að fækka þeim smitum sem berast inn í landið frá landamærunum og lækka þannig nýgengi smita. Einnig er í frumvarpinu ákvæði til að stöðva för ferðamanna frá skilgreindum hááhættusvæðum þegar þeir hafa engin tengsl við landið og teljast vera í ónauðsynlegri för. Spurningin sem þarf að svara er hvort þetta tiltekna frumvarp sé rétta leiðin til að ná þessu markmiði. Aðrar spurningar sem við glímum við hér varða það hlutverk okkar að bregðast við stöðunni og verja líf og heilsu fólks án þess að ganga of langt gagnvart öðrum grundvallarmannréttindum.

Það er jákvætt, reyndar lykilatriði, mögulega úrslitaatriði hér að mínu mati, að ríkisstjórnin leggur þetta frumvarp fram sem bráðabirgðaákvæði. Hún gerir ráð fyrir heildarendurskoðun sóttvarnalaga eftir að heimsfaraldur er að baki. Það er rétt framkvæmd að mínu mati að stoppa í götin núna með tímabundnum bótum á meðan við stöndum í auga stormsins og vinna svo saman að langtímalausn með vandaðri yfirferð, sem er ekki beinlínis yfirheitið á því ferli sem hefur átt sér stað hér. Þetta er gríðarlega mikilvægt og það er ákveðin lagaleg jafnvægislist að verja þessa grundvallarhagsmuni án þess að ganga of langt á önnur grundvallarréttindi. Og það skiptir máli að sá samfélagssáttmáli sem við höfum sett okkur, um vald og valdmörk, sé virtur. Um það snerist dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem ráðherra var talinn hafa farið út fyrir þær heimildir sem löggjafinn mælti fyrir um.

Nú liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn vill koma þessum breytingum í gegn á miklum hraða. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í ræðu við flutning málsins hér fyrr í dag — spurð hvers vegna þinginu væri gert að fá kynningu á þessu máli og taka til þess afstöðu á einum sólarhring eftir að ríkisstjórnin hefði tekið sér tvær vikur frá því að úrskurður héraðsdóms um lagastoð sóttkvíarhótelsins lá fyrir — að það hefði tekið langan tíma að meta hvort stjórnvöld teldu þörf á því að veita heimild til þessa úrræðis í lögum.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ekki sterk skýring á þessum mikla flýti. Fljótfærni við lagasetningu eykur eðlilega hættu á mistökum og það hefði mátt vera ríkisstjórninni lexía að hafa fengið dóm um ólögmæti aðgerða sinna. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega reynt á eigin skinni hverjar afleiðingarnar eru ef menn flýta sér um of. En þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir og við þurfum að taka afstöðu til málsins út frá henni. Þá er það að segja að ráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki beinlínis verið sannfærandi um væntanlegan árangur af þessari aðgerð. Það má alveg leiða að því líkur að áhrifin verði minni en ríkisstjórnin vonast eftir. Þýðir það að málið sé slæmt? Nei. Þýðir það að málið leiði til stöðu sem verður verri en núverandi staða? Nei, það þarf ekki heldur að þýða það. En það gæti þýtt að við hefðum náð betri árangri með því að vanda betur til verka.

Velferðarnefnd fékk til sín fjölda gesta, eins og komið hefur fram í öðrum ræðum, þar sem vel var farið yfir málin, og ég sakna þess í áliti 1. minni hluta, sem er þá nefndarálitið sem verið er að vinna með — þetta er svolítið flókin staða, en svona er þetta — að meira sé gert úr því sem þeir gestir höfðu fram að færa. Mig langar t.d. að nefna að hér er, af hálfu ríkisstjórnarinnar, verið að leggja til endurskilgreiningu á því áhættumati sem alþjóðleg samstaða hefur ríkt um. Læknafélag Íslands skilaði inn umsögn og gerir alvarlega athugasemd við nýju skilgreininguna. Í staðinn fyrir að nota evrópskt mat leggur ríkisstjórnin til séríslenskt litakóðunarkerfi sem fækkar verulega þeim farþegum sem reglurnar taka til. Í máli læknateymisins sem mætti fyrir nefndina, og gaf leyfi til þess að til orða þess yrði vitnað, kom fram að teymið hefði viljað hafa aðkomu að skilgreiningu á áhættumati, á hættusvæðum.

Heilt yfir hefði ég viljað að tekin yrði dýpri umræða um nákvæmlega þetta mál, annars vegar um væntingar sem fólgnar eru í því að fara þessa leið og hins vegar mögulega áhættu, þ.e. jákvæðar og neikvæðar afleiðingar af þessu. Hvað getur þetta mögulega þýtt? Ég veit að væntingarnar eru þær að bólusetningaráhrif séu orðin nógu mikil til að okkur sé einfaldlega stætt á því að taka þessa áhættu. Það getur vel verið að það gangi upp og ég óska þess innilega en það hefði verið gott að fá dýpri umræðu um þetta. Og aftur situr eftir þessi spurning: Af hverju þurfti að flýta málinu svona mikið í stað þess að vinna það þannig að við hefðum góða sannfæringu fyrir þessari breytingu?

Það eru svo sem fleiri ástæður sem komu fram í umfjölluninni til að ræða þetta mál meira á dýptina og lengur en nú yfir blánóttina. Gerðar voru athugasemdir sem vissulega var tekið tillit til í breytingartillögum 1. minni hluta þar sem læknarnir bentu á að fleira þyrfti að koma til skoðunar en eingöngu nýgengi smita í brottfararríki, t.d. alvarleiki veirunnar eða mismunandi afbrigði hennar. Við þekkjum einfaldlega ekki nægilega vel hver áhrifin verða en þau eru mismunandi. Brugðist hefur verið við þessu í breytingartillögu þar sem kemur fram að við skilgreiningu á hááhættusvæði sé m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru og sú breyting er vissulega til bóta. Svo eru aðrar breytingar hjá nefndinni, 1. minni hluta, sem eru almennar tillögur að breyttu orðalagi og fela ekki í sér efnislegar breytingar þannig séð.

Ég hefði líka viljað fá umræðu um mun á þessu máli og framkvæmdinni annars staðar á Norðurlöndum. Við fyrstu skoðun gengur tillaga hæstv. heilbrigðisráðherra lengra varðandi það hvar og í hvaða aðstæðum fólki er gert að einangra sig en gengur styttra hvað varðar tímalengd dvalar í sóttkví. Umræða um rökin með og á móti þessum mun hefði verið gott innlegg. Það er miður að hún skuli ekki eiga sér stað og ekki bara fyrir okkur sem vinnum þetta mál hér heldur fyrir almenning. Djúpt samtal eykur skýrleikann og fólk áttar sig þá betur á því af hverju verið er að ætlast til ákveðinna hluta, sem er ein af forsendum samstöðu.

Herra forseti. Svo að ég komi aftur að því sem eftir stendur í huga mínum og okkar í Viðreisn þá er þetta frumvarp ekki neikvætt. Það er ekki neikvætt í sjálfu sér, langt því frá, og markmiðið er sannarlega gott. Ég segi það með þeim fyrirvara að við höfum ekki fengið tíma til að ræða þær röksemdir og þau sjónarmið sem lágu að baki nægilega á dýptina og ekki fengið tækifæri til að bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram í kvöld. Ég get alveg haft mínar efasemdir um að þessi vinnubrögð séu best til þess fallin að ná þeim árangri sem ríkisstjórnin vonaðist eftir. Ég er sannfærð um að dýpri umræða, með allt það úrval gesta sem velferðarnefnd fundaði með í fimm klukkutíma samfleytt, hefði bætt málið. Ég er algjörlega sannfærð um það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Viðreisn hefur frá upphafi viljað verja samstöðuna. Við höfum nálgast það þannig og höfum lagt til að farið yrði að ráðum sérfræðinga í viðureigninni við heimsfaraldur. Þar hefur skýrleiki aðgerða gríðarlega þýðingu og að fólk sé ekki eingöngu meðvitað um markmiðið heldur meðvitað um það hvers vegna tilteknar aðgerðir og aðferðir eru lagðar til en aðrar ekki. Fram kom hjá sóttvarnalækni og teymi hans að í þessu væru jákvæðir hlutir, að þetta væri að þeirra mati skref í rétta átt. Burt séð frá pólitískum ágreiningi um tiltekin mikilvæg atriði og burt séð frá réttmætri gagnrýni á vinnulagið er það afstaða okkar að hagsmunum samfélagsins sé betur borgið með því að við leitum áfram eftir sátt og samstöðu og að við tryggjum eins og kostur er að við öll, samfélagið, séum í þessu saman og að við höfum úthald í það sem við vonum öll að sé lokaspretturinn í þessari baráttu. Ég ætla að hlýða á þær ræður sem eftir eru vegna þess að ég get einfaldlega ekki gert upp hug minn um endanlega afstöðu mína í þessu máli, þar togast á ákveðnir hlutir. Ég ætla bara að vona að sá ræðuskörungur stígi hér í pontu sem nái að sannfæra mig. En til vara ætla ég að kafa aðeins betur ofan í fundargerð mína frá maraþonfundi velferðarnefndar fyrr í kvöld.



[03:26]
Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að sitja þennan langa maraþonfund í velferðarnefnd, sem stóð fram undir miðnætti, fyrir hönd Miðflokksins. Því miður færðist enginn þeirra þátta sem mér sýndist þörf á að laga, þegar frumvarpið var lagt fram hér í þinginu í gærkvöldi, til betri vegar við meðferð nefndarinnar í dag og það blasir við í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar, sem svo heitir, sem er nú þrátt fyrir allt svokallaður meiri hluti. Undir það nefndarálit skrifa fjórir stjórnarþingmenn, Ólafur Þór Gunnarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Meiri er samstaðan og stuðningurinn ekki hvað þetta mál varðar.

Ég spurði flesta gesti, a.m.k. framan af fundinum, hvers vegna svona mikið lægi á. Ríkisstjórnin hefur verið að gaufa með þetta vandamál vikum saman en síðan fær þingið sólarhring til að klára það. Við sitjum hér klukkan að ganga fjögur að nóttu og ekki hefur verið opnað á neitt annað en að málið klárist innan sólarhringsins. Og svörin, þegar spurt er hvers vegna svona mikið liggi á, eru fyrst og fremst þeirrar gerðar að það sé svo gott að klára þetta strax. En þegar betur er að gáð skiptir sáralitlu máli ef nokkru þó að þingið hefði nokkra daga aukalega, ekki til að stoppa málið eða neitt þess háttar heldur bara til að bæta það sem svo sannarlega er þörf á. En það mátti ekki heyra á það minnst af fulltrúum meiri hlutans. Staðreyndin er sú að áhrifa þessarar lagasetningar, sem verður væntanlega afgreidd hér innan skamms, mun ekki gæta á morgun, þeirra mun ekki gæta fyrr en í næstu viku. Hinn raunverulegi dráttur í þessu máli sem ríkisstjórnin rak sig svo illilega á í byrjun mánaðarins að væri í ólestri, sá tími sem þau færðu til betri vegar á grundvelli þessarar nýju lagasetningar myndi ekki hnikast til baka sem neinu nemur gæfu menn sér tíma til að vinna málið með forsvaranlegum hætti. Ég vil bara ítreka það að ríkisstjórnin hefur gaufað með málið vikum saman og þá helst með þeim rökum að verið væri að leggja mat á hvort þörf væri á þessu en loksins, þegar það liggur fyrir að þörf er á þessu, þarf það að gerast innan dagsins. Það er ekki góður bragur á þessu.

Því miður finnst manni margt benda til þess að ríkisstjórnin lendi í sambærilegu havaríi og í byrjun mánaðarins þegar héraðsdómur kvað upp þann úrskurð að reglugerð heilbrigðisráðherra hefði ekki lagastoð. Í ljósi þessa er ekkert annað í stöðunni en að ríkisstjórnin beri fulla og óskipta ábyrgð á þessu mál eins og það liggur fyrir.

Ég held að allir séu sammála um að það þurfi að skýra stöðu þessara mála. Sumir eru þeirrar skoðunar að það eigi að skella alveg í lás, eins og það er kallað, á landamærunum. Aðrir vilja stíga skref til baka, létta á, opna meira, draga úr takmörkunum og hindrunum. En eins og þetta frumvarp liggur fyrir er hvorug leiðin farin. Þetta mál er hvorki fugl né fiskur eins og það liggur fyrir. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom fyrstur fyrir nefndina ásamt fulltrúum sínum og spurð út í flumbruganginn, með sama hætti og hefur komið fram í sjónarmiðum framsögumanns og annarra fulltrúa sem hafa talað máli heilbrigðisráðherra, var rökstuðningurinn fyrir nauðsyn þessa mikla hraða ekki sterkari en svo að ekki einu sinni fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni skrifa allir upp á málið eins og það liggur fyrir.

Næst kom hæstv. dómsmálaráðherra fyrir nefndina sem heldur á annarri af tveimur reglugerðum sem eiga að forma það sem lagasetningin undirbyggir. Sú reglugerð er með þeim hætti að hér um bil allir sem ímyndunaraflið leyfir manni að telja upp eru með einum eða öðrum hætti undanþegnir henni að hluta til eða að öllu leyti. Það virðist vera að þeir einu sem ekki falla undir undanþáguákvæði reglugerðar dómsmálaráðherra eins og hún liggur fyrir í drögum séu túristar sem eru komnir hingað til lands til skemmri tíma til að taka þátt í þjóðhátíðinni í Geldingadölum, vilja kíkja á gosið og fara síðan út aftur. Það er ekki mikið stærri hópur en það sem raunverulega fellur ekki undir eitthvert af undanþáguákvæðum reglugerðarinnar eins og hún liggur fyrir í drögum.

Fyrir nefndina komu fleiri fulltrúar stjórnvalda án þess ég ætli að fara út í það í smáatriðum. Þangað komu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Magnús Gottfreðsson læknir. Vissulega voru sjónarmið þeirra á þá vegu að það væri til bóta að skýra þessa þætti og fyrsti tíminn væri bestur. En það var ekkert í málflutningi þeirra sem fékk mig til að skynja það sem svo að þetta þyrfti að gerast með þeim hraða sem hér er. Minn skilningur var sá að það yrði til miklu meira gagns að þingið tæki sér örlítið meiri tíma til að gera hlutina almennilega og ganga þannig frá að hald væri í, hvert sem markmiðið væri. Það gengur jafn illa í dag og flesta aðra daga að draga fram hver hin raunverulegu markmið stjórnvalda eru í þessu öllu. En aftur var algerlega óljóst hvers vegna þetta var svona brýnt eftir droll síðustu vikna.

Næstir komu framkvæmdaaðilarnir, þeir sem bera ábyrgð á því að framkvæma hlutina á grundvelli þessara reglna. Fulltrúar Rauða krossins komu þarna sem hafa borið ábyrgð á því að reka þessi svokölluðu sóttvarnahús hingað til. Það muna væntanlega flestir eftir því harmakveini sem kom frá þeim þegar síðasta reglugerð var dæmd ólögleg á endanum og í kjölfarið komu fram meldingar um að tryggja ætti öllum útivist sem hafði ekki verið heimilt í sóttvarnafangelsinu eins og það var útfært í fyrstu atrennu. Þá kom á daginn að ekki hafði verið rætt um það einu orði við fulltrúa Rauða krossins, sem þó fengu þá skyldu í fangið með engum fyrirvara, að tryggja þyrfti útivist þeirra sem dvöldu í sóttvarnahúsi.

Fyrir nefndinni kom fram að það er áætlað að undir lok maímánaðar verði rúmlega 1.000 manns, ef ég skildi gögnin rétt, í sóttvarnahúsi. Það var metið út frá því hvaða flug eru áætluð til landsins, hlutfall farþega, hvaðan þeir koma og þar fram eftir götunum. Það hvarflar ekki að mér að búið sé að gera fulltrúum Rauða krossins grein fyrir því að þeim muni bera skylda til að tryggja 1.000 manns útivist á dag eins og verkefnið liggur fyrir núna. Ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni sem sat þennan nefndarfund í dag að fulltrúar Rauða krossins séu viðbúnir því verkefni og hvað þá umhverfið sem hótelin búa við.

Svo var farið í gegnum sjónarmið sem sneru að sektargreiðslum og þar fram eftir götunum en ég ætla ekki að fara í það.

Það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af, eftir að hafa skoðað nefndarálit þessa fámenna meiri hluta, 1. minni hluta velferðarnefndar, eftir þennan maraþonfund, er þetta: Það skortir algerlega að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða og þeirra varnaðarorða sem komu fram hjá lögspekingum, lögfræðingum, sem komu fyrir nefndina. Það er engum vafa undirorpið að mjög ákveðin varúðarorð komu fram þar um að með þeirri útfærslu sem hér liggur fyrir væri verið að tefla á tæpasta vað. Það verður auðvitað að skoða þetta heildstætt, lagafrumvarpið eins og það liggur fyrir og síðan þessar tvær reglugerðir, aðra frá dómsmálaráðherra og hina frá heilbrigðisráðherra, sem útfæra það sem lögin veita heimild til. Ég held að það sjónarmið hljóti að vera öllum ofarlega í huga, eftir þessar gestakomur, að verið sé að setja allt of mikið í reglugerðir, miklu meira en æskilegt væri og nauðsynlegt miðað við það hvernig málið liggur. Þingið hefði þurft að setja miklu meiri leiðbeiningar, miklu fleiri efnisatriði, inn í lagatextann sjálfan sem reglugerðirnar hefðu síðan byggt á. Þetta er að mistakast algerlega, fullkomlega. Ég hreinlega trúði því ekki þegar ég las nefndarálit 1. minni hluta, svokallaðs meiri hluta nefndarinnar, þar sem ekki er vikið einu orði að þessu, ekki einu. Ég segi bara: Gangi mönnum vel með þetta. Ég ætla bara að spá því hér og nú að það verði einhverjir göngutúrar í héraðsdómstóla landsins á næstu vikum og mánuðum vegna flumbrugangsins í þessu máli.

Það er einfaldlega þannig að þrátt fyrir að heimsfaraldur gangi yfir þá má réttarríkið ekki gefa eftir. Við verðum að verja það. Það er beinlínis skylda okkar sem störfum á Alþingi að verja réttarríkið. Ég held að því miður gangi okkur ekki vel í því verkefni í dag eins og þetta liggur fyrir. Við verðum að hafa það í huga að stjórnarskráin og viðmið um meðalhóf eru ekki bara upp á punt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna. Það er lítil von til þess að breytingar verði á málinu hér eftir. Ég ítreka bara það, sem ég kom inn á í byrjun ræðu minnar, að ábyrgðin í þessu máli liggur alfarið og óskipt hjá ríkisstjórnarflokkunum. Miðflokkurinn ætlar ekki að taka neina ábyrgð á þeim flumbrugangi sem hér er viðhafður.



[03:39]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það var nefnt hér við 1. umr. þessa máls að hluti af faglegri lagasetningu á þessu sviði, þegar kemur að því að skerða frelsi borgaranna jafn verulega og hér er lagt til, lýtur að mati á hinu svokallaða meðalhófi. Í því felst m.a. mat á nauðsyn lagasetningarinnar og líka á því hvort hægt sé að ná sama árangri, ná sama marki, með vægara úrræði. Ég reifaði það hér í 1. umr. að það væru ákveðin atriði sem ætti að líta til. Ég nefndi það og vil fá að ítreka það hér að mér hefur sýnst við hafa náð mestum og bestum árangri í baráttunni við þessa veiru þegar við höfum hugað að persónubundnum sóttvörnum, þegar hver og einn passar upp á sig og virðir líka annarra manna sóttvarnir. Í meðferð hv. velferðarnefndar á þessu máli var ekkert upplýst um nauðsyn þessarar lagasetningar á þessum tímapunkti. Eins og ég reifaði líka við 1. umr. þá er nýgengi smita á landamærum í lágmarki, hefur sjaldan verið lægra en nákvæmlega núna. Nýjustu fréttir, bara nú í nótt, eru af því að í næstu viku sé von á tugþúsundum skammta af bóluefnum og koma þau til viðbótar þeim bóluefnaskömmtum sem hafa nú þegar verið notaðir og hafa tryggt stærstum hluta viðkvæmra hér á landi bólusetningu og stórum hluta þeirra svokallaða fulla bólusetningu, þótt einn skammtur af öllum þessum efnum virðist jafnvel skila undraverðum árangri í baráttu við veiruna.

Í þessu ljósi finnst mér það skjóta skökku við að lagt sé fram frumvarp sem lýtur að hertum aðgerðum á landamærum við tilteknar aðstæður. Ég vil kannski fyrst nefna að það er að sjálfsögðu vítavert af fólki að virða ekki núgildandi reglur og þær reglur sem hafa verið í sóttvarnalögum um áratugabil um sóttkví og einangrun. Fréttir af slíkum brotum, sóttkvíarbrotum svokölluðum, og þá sérstaklega af brotum á reglum um einangrun, eru auðvitað mikil vonbrigði. Það breytir því hins vegar ekki að sóttkvíarbrot svokölluð eru tiltölulega fá í samhengi hlutanna. Þau hafa verið 122 frá upphafi þessa faraldurs, þar af um 24 á þessu ári. Ég hef ítrekað óskað eftir upplýsingum um það hversu hátt hlutfall af þessum sóttkvíarbrotum er hægt að telja að hafi leitt til smita. Þær upplýsingar fengust ekki í meðferð nefndarinnar en ég tel það grundvallarupplýsingar til að hægt sé að leggja mat á nauðsyn þess að bregðast við svokölluðum sóttkvíarbrotum. Mér virðist að þetta lagafrumvarp eigi rætur að rekja til eins sóttkvíarbrots sem fréttir hafa verið fluttar af, sem hefur svo sannarlega valdið usla í leikskóla hér í höfuðborginni og utan leikskólans, hjá öllum þeim sem tengjast þessum leikskóla. Það er alveg rétt, það hefur vissulega valdið usla. Þó er bara um að ræða þetta eina tiltekna sóttkvíarbrot og ekki fara margar sögur eða fréttir, hvað þá staðfestar upplýsingar, af smitum sem þetta sóttkvíarbrot hefur síðan leitt af sér. Það eru a.m.k. upplýsingar sem ekki fengust fram í nefndinni.

Frumvarpið býður að öðru leyti upp á alls konar ágreiningsefni og það var svolítið rætt í nefndinni. Til dæmis er hægt að deila um það, og menn hafa ekki einu sinni skilið fyrstu fréttir af þessu frumvarpi, og þurftu nefndarmenn jafnvel að hafa sig alla við til að átta sig á því, hvað átt er við með fyrirbærinu hááhættusvæði. Það kemur í ljós að þar er ekki bara átt við einstök lönd eins og ég held að mönnum sé kannski tamt að líta á, þ.e. að eðlilegt væri að aðgerðir af þessu tagi beindust gegn heilum löndum, heldur kemur í ljós að hugmyndir manna voru miklu víðtækari en það. Hááhættusvæði geta verið pínulítil svæði, örsvæði, inni í stóru og fjölmennu landi. Það myndi valda því að heilt land yrði talið hááhættusvæði þó að einungis lítill hluti af landinu uppfylli skilyrði um nýgengi smita og annað sem frumvarpið kveður á um. Þetta er ágreiningsefni sem er óljóst í frumvarpinu sjálfu.

Þá blasir það líka við að hægt er að þrátta töluvert lengi um það hvaða ferðir á milli landa myndu teljast vegna brýnna erindagjörða. Hvaða ferðir eru nauðsynlegar og hvaða ferðir eru ónauðsynlegar? Það er líka hægt að velta því fyrir sér hvenær maður telst hafa sýnt með fullnægjandi hætti, eins og það er orðað í lögunum, að hann geti dvalið heima hjá sér í sóttkví eða einangrun. Þetta eru dæmi um ákvæði í lagatextanum sjálfum, í frumvarpinu, sem ýmsir gestir nefndarinnar hvöttu til að yrðu skýrð frekar, þ.e. að þessir þættir yrðu skýrðir frekar í sjálfum lagatextanum en ekki í greinargerðinni sjálfri, eins og hún er og að einhverju leyti með óljósum hætti, og þaðan af síður í reglugerðinni sjálfri, en nefndin fékk afrit af drögum að hugmynd að reglugerð sem virtist því miður kannski vera víðtækari en frumvarpstextinn, lagatextinn, getur gefið tilefni til. Það var hvatt til þess og rætt um það að þetta þyrfti að skýra.

Í stað þess hins vegar að fara að ráðum þeirra gesta sem nefndin fékk til skrafs og ráðagerða, og fara þá leið að lagatextinn sjálfur væri skýrari um þau viðmið sem þarna eru sett fram, þá liggur fyrir breytingartillaga frá 1. minni hluta nefndarinnar um aukið frjálst mat stjórnvalda. Ég geld varhuga við slíku framsali á valdi sem tryggir bara frjálst mat. Það væri kannski hægt að sjá í gegnum fingur sér með það í einhverjum tilvikum en hér er hins vegar um að ræða þannig mál að mér finnst það ekki heppilegt, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, að ganga þannig frá málum að stjórnvald hafi frjálst mat um mikilvægar skilgreiningar í lagatextanum, svo sem eins og um það hvað telst áhættusvæði, hvað telst nauðsynleg ferð eða ónauðsynleg ferð á milli landa og þar fram eftir götunum.

Ég árétta að hér er nefnilega um skerðingu á grundvallarréttindum að ræða og það ber að fara mjög varlega þegar slík skerðing er sett með lögum. Það var líka bent á það af gestum að rétt væri að skoða úrræði sem skerða þetta frelsi sem minnst, þ.e. hvort ekki væru einhverjar vægari leiðir að sama marki. Það kemur líka fram í ágætu erindi sem nefndinni barst frá Amnesty International, sem veitti svo sem ekki sérstaka umsögn um frumvarpið, enda var ekki óskað eftir umsögnum og fáir hafa séð sér fært að veita umsögn um frumvarpið sjálft. Amnesty International sendi þó erindi til nefndarinnar og benti á nýútkomna skýrslu Amnesty International á alþjóðavísu, hún kom reyndar út 21. september á síðasta ári, en hún fjallar einmitt um lögbundna dvöl í sóttvarnahúsum vegna kórónuveirufaraldursins í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku. Þar hafa menn, í einhverjum þeim löndum og kannski víðar í heiminum, gengið mjög nærri almennum mannréttindum undir því yfirskini að verið sé að vernda almannahagsmuni vegna kórónuveirufaraldursins. Tilmæli Amnesty International til allra ríkisstjórna í heiminum eru m.a. þau að stjórnvöld tryggi að spjótunum sé ekki sérstaklega beint að eða refsi ákveðnum samfélagshópum með aðgerðum um sóttkví. Það má kannski velta því fyrir sér hvort það stappi nærri því að með þessu lagafrumvarpi, sem undanþiggur nú töluvert marga frá þeim aðgerðum sem hér er þó kveðið á um, sé verið að sérsníða aðgerðir gagnvart þröngum hópi manna. Í tilmælum Amnesty International er líka hvatning þess efnis að stjórnvöld forðist notkun refsiaðgerða eða hótana um þær til að knýja fram framfylgni hertra takmarkana vegna kórónuveirufaraldursins. En það sem skiptir kannski mestu máli hér, þetta eru mörg tilmæli, og ég tel rétt að vekja sérstaka athygli á, eru tilmæli um að tryggja að lögboðinni dvöl í sóttvarnahúsi sé aðeins beitt sem lokaúrræði þegar inngripsminni aðgerðir, eins og t.d. heimasóttkví eftir endurkomu til landsins, hafa reynst árangurslausar eða ef ljóst verður að markmiðum stjórnvalda verði ekki náð með öðrum leiðum. Þetta finnst mér mjög málefnaleg tilmæli til stjórnvalda og ég held að enginn yrði maður að minni að hafa þau að leiðarljósi við allar sóttvarnaaðgerðir. Þá er einmitt hægt að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að ná sömu markmiðum hér á landi með vægari úrræðum en þeim að skylda menn í farsóttarhús, sérstaklega í ljósi þess hversu fá sóttkvíarbrotin hafa verið hér frá upphafi faraldursins og sérstaklega í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um hversu mörg þau brot eru sem hafa leitt til smita.

Ég vil að endingu nefna að umboðsmaður barna kom líka fyrir nefndina og benti á að þrátt fyrir að í greinargerð sé vísað til alls kyns sáttmála, EES-samningsins og hvaðeina, þá er ekki einu orði vikið að réttindum barna sem á að hafa í huga samkvæmt alþjóðlega barnasáttmálanum. Þessar sóttvarnaraðgerðir sem nú beinast í fyrsta sinn að börnum, eins og t.d. skimun á landamærum sem er börnum sérlega þungbær og er ekki framkvæmd af fagaðilum á landamærunum, og einnig dvöl í sóttkvíarhúsi í fimm daga, eru dæmi um aðgerðir sem reynast börnum sérlega þungbærar og hefði verið rétt að leggja raunverulegt mat á það hvort aðgerðin sé nauðsynleg og hvort ekki megi ná sama markmiði, sama árangri, með vægari aðgerð.

Ekkert er svo með öllu illt að ekki sé hægt að fagna einhverju, þó að það boði kannski ekkert gott. Þetta frumvarp má þó eiga það sem það á og það er það að það er þó í þessu sólarlagsákvæði. Heimild ráðherranna tveggja til að setja sóttvarnareglugerðir með þessum skerðingum fellur niður 30. júní. Það er alveg ljómandi gott og er hluti af meðalhófinu að þessar aðgerðir þurfi að standa sem styst. Það er líka rétt að vekja athygli á því að hér er bara um að ræða heimild til að setja reglugerð um tilteknar sóttvarnaaðgerðir, ekki skyldu. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra sérstaklega til að hugleiða það hvort þörf sé á því að setja þá reglugerð sem þessi lög heimila. Miðað við drögin sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur kynnt nefndinni að sínu leyti fæ ég ekki annað séð en að hún sé í sjálfu sér tilgangslaus því að hún undanþiggur nánast alla sem manni dettur í hug. Þá held ég að menn eigi ekki að setja slíkar reglugerðir fyrir sýndarmennskuna eina saman. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að hugleiða það raunverulega hvort nokkur þörf sé á þeirri reglugerð sem 2. gr. þessa lagafrumvarps kveður á um.

Þá spyrja menn kannski hví ég hafi ekki getað tekið þátt í þessu nefndaráliti með 1. minni hluta sem hefði þá verið meiri hluti nefndarinnar. Því er til að svara að ég sé mér ekki fært að styðja þetta mál þótt verklagið sé skömminni skárra en margt annað í þessum sóttvarnalögum almennt. Ég tel hins vegar ekki komnar fram, eins og ég hef lýst, nægar skýringar á nauðsyninni. Ég tel að þetta lagafrumvarp gangi miklu lengra en nauðsynlegt er og ég held að hægt sé að ná sama árangri með vægari aðgerðum. Ég tel frumvarpið þess utan vont fordæmi. Það er vont fordæmi til framtíðar, ekki bara í tengslum við veirufaraldurinn sem við eigum við núna heldur gæti sýnt sig í kröfu um sambærilegar aðgerðir út af alls konar öðrum málum, ekki bara heilsufarsmálum og ekki bara veirumálum heldur ýmsum öðrum málum. Ég er ekki tilbúin til að veita því brautargengi að slíkt fordæmi verði fyrir hendi þegar ekki steðjar bráð hætta að almenningi eins og í dag. Hér er verið að búa til mjög flókið kerfi, þunglamalegt, kostnaðarsamt, um tiltölulega einfaldan hlut í samanburði við þá aðferð sem hefur virkað best, sem eru hinar persónubundnu sóttvarnir og samstarf almennings og stjórnvalda um aðgerðir sem ekki eru lögþvingaðar en hafa gefist best.



[03:59]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ríkisstjórnin lagði þetta mál fram 16 dögum eftir dóm héraðsdóms en aðeins tveimur dögum eftir dóm Samfylkingarinnar, sem virtist valda henni mun meiri áhyggjum. Málið var lagt fram eftir sérkennilegan blaðamannafund ríkisstjórnarinnar sem virtist hafa verið blásið til í skyndi. Þrátt fyrir allan þennan aðdraganda, hvort sem við teljum dagana tvo frá frumvarpi Samfylkingarinnar eða tímann frá dómi héraðsdóms eða allan þann tíma sem ríkisstjórnin hefur haft, meira en ár, til að undirbúa almennilega löggjöf á þessu sviði, fær þingið hins vegar einn dag til að klára málið og hefur ekki haft neitt svigrúm sem heitið getur til að skoða það almennilega. Það var meira að segja komið í veg fyrir að nefndarfundur um málið væri opinn þó að þetta sé augljóslega mál sem á erindi við almenning, ég tala nú ekki um þá þingmenn sem ekki tilheyra hv. velferðarnefnd. Ég hélt að það væri yfirlýst markmið að hlusta ætti á ábendingar sérfræðinga en flestir þingmenn fengu ekki að gera það í dag. Þeir áttu bara að samþykkja. Raunar mun mönnum hafi legið svo á að jafnvel nefndin sjálf hafði varla svigrúm til að spyrja að öllu sem þó var kannski þörf á vegna þess hversu hratt málið var keyrt í gegn á einum samfelldum fundi. Það virðist þó vera nokkuð ljóst að málið breytir í raun engu um smit á landamærunum og hefði ekki haft nein áhrif á þau sóttkvíarbrot sem komið hafa upp að undanförnu. Í raun er bara verið að flækja málið, auka lagalega óvissu fremur en að ná ákveðnum markmiðum. Þetta mál ber öll merki þess að vera fyrst og fremst pólitískt útspil, gert til að geta haldið blaðamannafund og sýnast vera að gera eitthvað. Ríkisstjórnin hefur engu að síður einsett sér að klára málið í nótt, sama hversu mörg varnaðarorð koma fram. Þá verður hún að bera ábyrgð á þessu máli.