151. löggjafarþing — 90. fundur
 5. maí 2021.
málefni innflytjenda, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 452. mál (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð). — Þskj. 771, nál. m. brtt. 1313.

[16:26]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram með málefni innflytjenda. Það er best að fara aftur þangað sem frá var horfið. Þegar við ræðum þessi mál er mikilvægt að við ræðum þau opið og við verðum að geta skipst á skoðunum. Það gagnast ekki umræðunni að jaðarsetja þá sem vilja stíga varlega til jarðar. Hér hefur ítrekað verið bent á að nágrannaþjóðir okkar, Svíar og Danir, hafa breytt fyrri nálgun sinni. Samfélög þessara þjóða náðu ekki og ná ekki enn að sameina alla þá sem búa í þessum löndum. Það er ekki gott að missa samfélag í sundrungu og upplausn. Það er einmitt það sem við höfum verið að benda á og þess vegna þurfum við að vanda til verka.

Við erum með þessu máli að taka upp stefnu í málaflokki sem aðrar þjóðir hafa viðurkennt að gangi ekki. Í Svíþjóð hefur myndast grundvöllur fyrir því að innflytjendamál verði stóra kosningamálið á næsta ári. Sumum Svíum finnst að þeir hafi orðið að gefa eftir ýmis gildi samfélagsins á sviði lífshátta og jafnréttis og samkvæmt fréttum frá Svíþjóð geta konur átt það á hættu að verða fyrir aðkasti.

Annað atriði sem mér finnst merkilegt og var einnig í fréttum er að það komst upp að PISA-könnunin í skólum í Svíþjóð árið 2018 hefði ekki verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Svíþjóð kom mjög vel út í könnuninni og stjórnin hrósaði sér og lét sem allt væri í lagi. En nú hefur Ríkisendurskoðun þar í landi sýnt að tuttugasti hver nemandi var látinn sleppa prófunum og það sem verra er að flest voru það börn innflytjenda. Það hefði gefið allt aðra mynd af skólanum ef þau hefðu verið með. Þetta speglar ákveðin vandamál og segir okkur að ekki hafi verið vandað til verka. Þess vegna virðist Svíar vera komnir á þann stað sem þeir eru nú.

Veltum fyrir okkur hverju er um að kenna. Getur verið að innflytjendur vilji ekki taka þátt í samfélaginu eða að samfélaginu hafi mistekist að standa vel að aðlögun innflytjenda? Við getum í það minnsta þakkað fyrir að þeir virðast vera að breyta um stefnu. Hugsanlega ætla þeir síðan að stíga varlega til jarðar og gera hlutina með sem bestum hætti. Það hefur verið rætt að farsælast sé að veita aðstoð sem næst heimilum fólks eða í öllu falli að sjá til þess að fólk komist heim til sín á ný. En sérstaklega skiptir það máli fyrir þá sem ekki komast heim til sín að vel sé staðið að því að þeir hafi tækifæri til að aðlagast menningunni í nýja landinu sem þeir ákveða að setjast að í. Það er nefnilega eitt að setja stefnu en það verður líka að vera innstæða fyrir stefnunni.

Við höfum ekki enn fengið svokallaðar sviðsmyndir, hvernig hlutirnir geti litið út, hversu mikill kostnaður hljótist af þessu. Verkefnið er til tilraunar í eitt ár, hvað verður úr fólki eftir eitt ár? Ýmsar spurningar vakna. Er búið að skoða hvernig fólk muni velja búsetu? Getur verið að fleiri kjósi eitt sveitarfélag umfram annað? Er skólakerfið nægjanlega vel undirbúið? Við vitum að rúmlega 50% af ráðstöfunartekjum sveitarfélaga fara til skólamála. Er heilbrigðiskerfið undirbúið? Er stoðþjónusta í lagi? Er velferðarþjónusta tryggð? Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nefnt að þetta allt sé alls ekki nógu skýrt. Ég verð því að leggja það til að málið fari aftur til hv. velferðarnefndar að lokinni umræðu hér, þ.e. milli 2. og 3. umr.



[16:31]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við ræðum þetta mál dálítið opið og pössum að jaðarsetja engan. Ég velti því fyrir mér hvort samræmd móttaka flóttafólks og upplýsingaöflun geri það að verkum að við missum allt í sundrungu og upplausn, eins og hv. þingmaður orðaði það. Féll kerfið hjá nágrannaþjóðum þegar tekin voru upp fjölmenningarsetur til að samræma móttöku flóttafólks eða upplýsingar voru gerðar aðgengilegar? Er svona samræming í rauninni ekki tækifæri til hagræðingar og til að spara í málaflokknum? Ég átta mig ekki alveg á umræðunni hérna undanfarinn sólarhring eða rúmlega það, hvað er að því fyrirkomulagi að samræma móttökuna svo þetta sé ekki gert á mismunandi hátt, það sé óhagræði á einhverjum stöðum og vanti upplýsingar og þar af leiðandi kannski brotið á réttindum einhverra af því að ekki er farið eins að á mismunandi stöðum. Er þetta ekki einmitt jákvætt og gefur möguleika til hagræðingar? Til hvers að tala um þetta mál í svona langan tíma ef þetta er ekki flóknara en það í rauninni, tækifæri til hagræðingar? Ég skil ekki hvernig þetta fer í áttina að einhverju sem fór úrskeiðis í nágrannalöndum okkar.



[16:33]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki slæmt að samræma eigi einhverja hluti. Talað er um að það eigi að setja niður tvo starfsmenn. Tveir starfsmenn gera ekki mikið í þessu gríðarstóra verkefni. Ég fór yfir rannsókn í ræðum mínum í gær sem fjallar um innflytjendur, fólk sem er hér nú þegar, sinnir vinnu og sækir nám og er hluti af samfélaginu. Það kvartar yfir því að vera ekki hluti af samfélaginu. Og það að halda að aðeins tveir starfsmenn geti samræmt móttöku innflytjenda — það er á engan hátt nægilegt. Verkefnið er til eins árs. Ég velti fyrir mér hvað verður um það fólk sem verður búið að skjóta rótum eftir eitt ár. Gufar það bara upp? Sveitarfélögin eru nú þegar búin að ráða einn starfsmann, alla vega nokkur, til að sinna þessu hlutverki. Er það nægjanlegt? Ég vitnaði líka í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem segir að það sé skorið við nögl nú þegar það fjármagn sem kemur í þá samninga sem eru í gildi á milli félagsmálaráðuneytis og móttöku sveitarfélaga. Sambandið segir líka að það sé fyrirséð að útgjöld muni aukast.



[16:35]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er búinn að reyna að hlusta á þessar ræður undanfarinn sólarhring og rúmlega það. Ég hef ekki alveg áttað mig á því hvað Miðflokkurinn hefur verið að biðja um. Miðað við þetta andsvar þá virðist hv. þingmaður vera að biðja um meira; meiri samræmingu og fleira starfsfólk til þess að sinna þessari samræmingu og þess háttar. Jú, það er gott og blessað. Ef það er það sem þarf til þess að ná góðum árangri þá þarf náttúrlega að gera það. Þá er alveg hægt að hafa áhyggjur af því hvað gerist eftir ár. Við þurfum þá örugglega að taka upplýsta ákvörðun um hvort þetta hafi gefið góða raun og ákveða um framhaldið. Það er bara eitthvað sem kemur fram í fjármálaáætlun og stefnu stjórnvalda, væntanlega, ef þetta gefur góða raun. Er það ekki staðallinn sem við viljum vinna eftir? Við betrumbætum það sem gefst vel eins og Fjölmenningarsetrið á Ísafirði, það hefur gefið góða raun. Hér er verið að taka lengra skref. Eigum við taka stærri skref í því og bæta við fleiri fulltrúum í þetta samræmingarrbatteríi sem er verið að tala um hérna? Er það það sem verið er að biðja um og búið er að tala um hérna í heilan sólarhring eða rúmlega það? Ég skildi það ekki alveg þannig af fyrri ræðum, það voru alla vega margar spurningar og kannski ekki alveg svona nákvæmlega orðaðar. Ef hv. þingmaður gæti útskýrt það betur væri það vel þegið. Er verið að biðja um meiri og samræmdari móttöku flóttamanna eða er það eitthvað annað?



[16:36]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann ágætlega, en ég er ekki alveg viss um að hann hafi náð inntakinu í ræðum mínum miðað við hvernig hann spyr. En ef við ætlum að taka á móti öllum, sem mér heyrist hv. þingmaður vera að leggja til, það væri best að gera það, þá þurfum við að geta staðið við það ef það er einhver stefna. Málið er að það er bara engin stefna. Byrjað er á að setja á stofn tilraunaverkefni til eins árs, setja tvo starfsmenn sem eiga að sinna því hlutverki og það er alveg gefið að það mun ekki ganga. Á sama tíma höfum við ekki hugmynd um hvert framtíðin mun leiða okkur. Við höfum ekki hugmynd um hvort heilbrigðiskerfið getur staðið undir þessu, hvort sveitarfélögin geta staðið undir þessu. Það sem við höfum í höndunum er umsögn, sem ég fór aðeins yfir áðan, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem talað er um ófyrirséðan kostnað og að útgjöld muni aukast. Það er ástæðan fyrir því að ég kalla þetta aftur inn til nefndar vegna þess að mér þætti gott að vita hvað er ófyrirséður kostnaður, í hverju útgjöldin muni aukast, vegna þess að þetta snýst líka um krónur og aura, því miður. Þess vegna verðum við, ef við ætlum að fara þessa leið, að vita hvert við ætlum að stefna. Það þýðir ekki að setja verkefni niður og setja það samt ekki niður af því að þetta er kallað tilraun.



[16:38]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum enn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda. Það var verið að tala um stefnu, hver stefnan ætti að vera og hver stefnan hefði verið. Það er nauðsynlegt í dag að stjórnmálaflokkar og við Íslendingar í heild mörkum einhverja stefnu í þessum málaflokki sem er orðinn mjög ofarlega á baugi um allan hinn vestræna heim. Þannig hefur það verið á Íslandi að í þessum málaflokki hefur hreinlega ekki verið nein stefna. Menn hafa ekki tekið neina markvissa stefnu í málaflokknum heldur leikið þann leik að vona það besta, vona að við fáum ekki holskeflu hælisleitenda hingað, sem síðan breyttist á skammri stundu 2014, 2015, þegar við fengum yfir okkur svona sýnishorn af þeirri holskeflu sem þá gekk yfir Evrópu. Hver voru viðbrögðin? Viðbrögð voru auðvitað fálmkennd. Það átti að reyna að bjarga þessu fyrir horn með einhverjum ráðum því að hér fylltist auðvitað allt þó að fjöldinn hafi ekki verið neitt gífurlegur miðað við hvað önnur lönd hafa þurft að glíma við í þessum efnum. En þetta er árangurinn af þessu stefnuleysi. Kerfið okkar, sem er auðvitað lítið, springur við lítið álag. Við verðum að fara að girða okkur í brók í þessum málum vegna þess að það er ekkert sjálfgefið að hingað komi hælisleitendur í einhverjum smáum stíl, eins og hefur verið, einhver hundruð eða þúsund, yfir ár eða skemmri tíma, heldur gætum við fengið mun fleiri. Þá þurfum við að vera viðbúin og vita hvað skal taka til bragðs.

Aðrar þjóðir hafa verið að reyna að senda þau skilaboð til umheimsins að þar sé afgreiðsla umsókna bæði hraðari og skilvirkari en hún hefur verið hér á landi. Við þurfum að taka upp þá stefnu og senda þau skilaboð út í heiminn að hér sé afgreiðslan hröð og skilvirk og við tökum á móti þeim flóttamönnum sem okkur ber að sjálfsögðu, með tilliti til alþjóðlegra samninga eins og við Sameinuðu þjóðirnar um kvótaflóttamenn, og aðstoðum þá hælisleitendur sem hingað koma og sannarlega þurfa á hjálp að halda.

Það er staðreynd að mjög margar umsóknir um alþjóðlega vernd eru tilhæfulausar. Það hefur verið mjög áberandi síðustu ár að hingað hefur flykkst fólk frá svokölluðum öruggum löndum en við höfum samt verið í stökustu vandræðum með að afgreiða þær umsóknir og alls kyns furðulegar uppákomur hafa orðið hér í kerfinu þegar menn hafa ekki vitað hvernig þeir eiga að taka á því og einstök mál hafa ratað í fréttir og valdið usla í samfélaginu því að auðvitað vill enginn í raun vera sá vondi. En við verðum að fara að móta okkur stefnu í þessu og ég kalla eftir því að við mótum okkur stefnu í þessum málaflokki. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að við séum að veita milljarða á hverju ári í að sinna tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Það er auðvitað ekki boðlegt. Og alls ekki, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, að senda þau skilaboð út í heim að við séum með það opið kerfi að við gætum lent í því að fá þúsundir eða tugþúsundir hælisleitenda sem finnst upplagt að koma hingað vegna þess að hér fái þeir betri þjónustu o.s.frv.



[16:44]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég er kominn í þennan ræðustól til þess að skila skömminni. Undir liðnum störf þingsins í morgun steig á stokk hv. þm. Vinstri grænna, Lilja Rafney Magnúsdóttir, og lagði út af umræðu sem hún tók ekki þátt í, sem hún sat ekki undir og ásakaði okkur Miðflokksfólkið um að sá fræjum ótta. Ekkert er fjarri lagi, herra forseti, vegna þess að allir þeir sem hafa hlustað á alla þessa umræðu, sem nú hefur staðið í u.þ.b. átta klukkustundir, stysti sólarhringur sem ég man eftir, vita að þar hefur eingöngu verið rætt um þær staðreyndir sem við þekkjum, þær áhyggjur sem við höfum og ekki hefur verið gerð tilraun til að flækja þetta mál eða flækja málefni hælisleitenda eða þeirra sem leita að alþjóðlegri vernd inn í heim ótta eða nokkurs annars.

Við höfum einfaldlega sagt: Ísland tekur allt aðra stefnu en nágrannalöndin sem hafa 35 ára reynslu af því að gera hlutina rangt en eru nú sem óðast að vinda ofan af því og ætla að gera hlutina með öðrum og betri hætti, þ.e. þeir ætla að efla móttöku flóttamanna og koma í veg fyrir þá sundurgreiningu sem verið hefur í þessum þjóðfélögum í 35 ár og ætla þess vegna væntanlega að reyna að sjá til þess að það ágæta fólk sem ratar hingað norður eftir geti blómstrað í sínu nýja þjóðfélagi og orðið nýtir og góðir þjóðfélagsþegnar.

En að koma hér, herra forseti, eftir að hafa ekki þorað að taka þátt í umræðunni, eftir að hafa ekki hlustað á hana og lagt út af henni með þessum hætti, er óvenjuaumt. Þess vegna er ekki hægt að láta það liggja óbætt. Að koma upp undir liðnum störf þingsins, þar sem menn vita að þeir fá ekki mótbárur, er aumt, herra forseti, verulega aumt.

Að þessu sögðu þá hefur þessi umræða verið gagnleg. Hún hefur byggst á staðreyndum. Hún hefur byggst á því sem við vitum um nágrannalöndin og hún hefur byggst á því sem við vitum um hugsanlega þróun hér. Hún hefur byggst á því að við vitum ekki hvað það frumvarp sem hér er til umræðu mun kosta. Ekki hefur farið fram gaumgæfileg kostnaðargreining á því og þess vegna er það mikið fagnaðarefni að frumvarpið skuli nú fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að leiða fram í dagsljósið raunverulegan kostnað af því að gera þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Það var í sjálfu sér það eina sem fyrir okkur Miðflokksfólkinu vakti, þ.e. að samþykkja ekki mál sem við vitum ekki hvað kemur til með að kosta.

Sem betur fer, og ég er þakklátur fyrir það, herra forseti, hefur meiri hlutinn í þinginu samþykkt að þessi vegferð verði farin, þ.e. að málið verði tekið til nefndar aftur og kostnaðurinn gaumgæfður. Þá getum við lagt mat á það hversu skynsamlegt eða ekki þetta mál er, hversu gæfulegt eða ekki það er, þegar við höfum allar staðreyndir málsins á borðinu. Það er það sem við höfum alltaf kappkostað, Miðflokksfólkið, að taka vandaðar ákvarðanir að lokinni ítarlegri umræðu um flókin mál sem krefjast úrlausnar.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa og ég vænti þess að ræður mínar hér við 2. umr. verði ekki fleiri nema eitthvert sérstakt tækifæri geri það nauðsynlegt. En það var ekki hægt að sitja þegjandi undir því sem gerðist hér í morgun.



[16:50]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það sem ég vildi koma inn á áður en málið fer aftur til nefndar, sem ég tel mjög mikilvægt og gott að sé gert, eru fjármálin sem lúta að þessu frumvarpi. Það er mjög mikilvægt að farið verði vandlega yfir það hver útgjöldin koma til með að vera í raun. Eins og það lítur út núna er einungis horft til Fjölmenningarsetursins sem slíks, þ.e. fjölgunar starfa þar um tvö stöðugildi, að mig minnir, sem kostar 23,7 millj. kr. Hins vegar er með þessu frumvarpi verið að senda þau skilaboð út að þjónustan verði sú sama fyrir kvótaflóttamenn og hælisleitendur og það er grundvallarbreyting. Það er rétt að koma því á framfæri. Það mun þýða að þjónusta sem er veitt fyrir hælisleitendur verður enn betri en hún er í dag. Það berst náttúrulega út og þeir sem eru á faraldsfæti hvað þetta varðar fá þær fregnir fljótt að hér sé veitt betri þjónusta en áður. Það mun þýða aukinn fjölda umsókna. Það mun síðan þýða aukin fjárútgjöld. Þetta þarf að fara yfir. Það þarf að koma með einhverjar sviðsmyndir um hvað aukinn fjöldi umsókna komi til með að kosta. Það þarf að ræða í nefndinni og setja upp sviðsmyndir.

Síðan vil ég vekja athygli á því sem ég kom aðeins inn á í gær, umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það er nauðsynlegt að ræða hana líka innan nefndarinnar vegna þess að sambandið vekur sérstaklega athygli hennar, eins og segir í umsögninni, á því að verkefni sem tengjast þessu samræmda móttökukerfi flóttafólks, sem verið er að leggja til með þessu frumvarpi, eru verulega vanfjármögnuð miðað við þær væntingar sem uppi voru þegar hafist var handa við innleiðinguna. Hér er það bara svart á hvítu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og það á jú að sinna þessum verkefnum í samstarfi við sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa verulegar áhyggjur af því að þetta sé vanfjármagnað. Það þarf að fara vandlega yfir. Þau segja hér áfram í umsögn sinni að fjármagn hafi verið skorið við nögl í samningum félagsmálaráðuneytisins við móttökusveitarfélög. Það er rétt að hafa í huga að þetta kemur fyrst og fremst til með að hvíla á sveitarfélögunum. Ef þau fá ekki þá fjármuni sem ætlaðir eru í þetta þá sé ég ekki alveg hvernig þau geta staðið straum af því. Þetta verður að fara vandlega yfir. Svo bæta þau hér við að ekki virðist í ráði að bæta sveitarfélögum upp þau viðbótarútgjöld sem hljótast af auknu álagi á skólakerfið og innan barnaverndar. Þá virðist ekki vera reiknað með því að heilbrigðiskerfið eigi aðkomu að samræmdu móttökukerfi. Þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir sem sambandið er að koma á framfæri. Svo segir áfram:

„Um þessar mundir er Ísland að taka hlutfallslega á móti flestu flóttafólki í samanburði við Norðurlöndin.“ — Þetta höfum við rakið í okkar málflutningi, Miðflokksþingmenn. — „Samfélagið og innviðir þess þurfa að vera í stakk búnir að veita þann stuðning og þjónustu sem hinn fjölbreytti hópur flóttafólks á tilkall til.“

Verið er að auka þá þjónustu en við sjáum að fjármunirnir liggja ekki fyrir. Það er náttúrlega ekki hægt og það er ábyrgðarhluti að koma með frumvarp sem er ekki fjármagnað nema að verulega litlum hluta, þ.e. sem varðar þessi tvö stöðugildi hjá Fjölmenningarsetrinu sem sér um að veita upplýsingar. Það sér ekki um að veita þá þjónustu sem sveitarfélögin veita. Og sveitarfélögin kvarta hér yfir því að ekkert fjármagn liggi fyrir í þessu frumvarpi, eins og segir í umsögninni, þetta sé verulega vanfjármagnað.

Herra forseti. Ég vænti þess að velferðarnefnd fari vandlega yfir þennan þátt málsins og setji auk þess upp einhverjar sviðsmyndir um það hvað ætla megi að flóttamönnum fjölgi mikið, verði þetta frumvarp að lögum, sem þýðir að verið er að veita mun betri þjónustu en við veitum í dag. Við veitum góða þjónustu í dag, við gerum það. Þetta snýst því um það að mínu mati, komandi úr fjárlaganefnd, (Forseti hringir.) að það liggi algerlega ljóst fyrir hvað þetta komi til með að kosta í heildina. Ég held að sá kostnaður komi til með að verða verulegur og það er eitthvað sem við eigum ekki til. Við erum orðin það skuldsett, ríkissjóður, að það gengur ekki upp að mínu mati að bæta ofan á það einhverjum milljörðum.



[16:55]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé alveg gefið mál að þegar faraldrinum lýkur muni umsóknum fjölga. Í því umhverfi held ég að samræmd móttaka flóttafólks sé mjög hjálpleg ef við ætlum að geta sinnt þeim umsóknum á skilvirkan og hagkvæman hátt. Það er mjög einföld spurning: Er það ekki mjög gott markmið þessa frumvarps? Er hv. þingmaður ekki sammála því, sérstaklega ef umsóknum fjölgar, að það væri gott að hafa samræmda móttöku til að passa að upplýsingarnar séu til staðar, til að hægt sé að afgreiða allar umsóknir skýrt og skilmerkilega án þess að einhverjar kerfisvillur þvælist fyrir, sem sagt að upplýsingar í kerfinu liggi á einum stað og annar aðili sé ekki með aðgang að þeim o.s.frv.? Er það ekki eitthvað sem við myndum vilja hafa?



[16:56]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sagði það í einni af mínum ræðum varðandi þetta mál að ég gerði ekki athugasemdir við breytt hlutverk Fjölmenningarseturs. Það er í sjálfu sér að gera ágæta hluti. Þessi stofnun á að vera tengiliður milli flóttafólks, sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Það á að auka yfirsýn yfir málaflokkinn og að sama skapi á ákvarðanataka og þjónusta að vera skilvirkari. Þessi stofnun hefur ráðgjafarhlutverk. Ég geri ekki athugasemdir við þetta. Ég held að Fjölmenningarsetur sé að gera ágæta hluti. En það er hins vegar búið að setja þetta fyrst og fremst í þennan búning, þ.e. að þetta sé aðalatriði málsins. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að aðalatriði málsins sé einmitt grundvallarbreytingin. Það er verið að setja þetta í þann búning að þetta snúist um upplýsingar en grundvallarbreytingin er sú að það er verið að setja alla undir sama hatt sem koma til landsins, hvort sem þeir koma á eigin vegum eða sem kvótaflóttamenn og annað slíkt. Það kostar meiri þjónustu. Ég hef áhyggjur af því að það muni þýða að hingað komi mun fleiri vegna þess að það er bara einu sinni þannig að menn vita nákvæmlega hvar besta þjónustan er. Þegar verið er að draga úr þjónustunni og herða reglurnar í nágrannalöndunum okkar eins og í Svíþjóð og Noregi og Danmörku, sem við höfum rakið í okkar ræðum, þá fara menn að horfa eitthvert annað. Þá er Ísland náttúrlega orðið miðpunktur á kortinu, a.m.k. hvað varðar Norðurlöndin, auk þess sem það hefur verið staðfest af hálfu dómsmálaráðuneytisins að Ísland veitir bestu þjónustuna í Evrópu hvað varðar þjónustu við hælisleitendur. Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að þetta muni fela í sér aukinn fjölda umsókna og það þýðir aukin útgjöld. Ég held að hv. þingmaður, sem situr með mér í fjárlaganefnd og hefur margt gott fram að færa, (Forseti hringir.) hljóti að sjá að það er mjög lítið fjármagn til þess að bæta við eitthvað sem getur vaxið gríðarlega. (Forseti hringir.) Það þarf a.m.k. sviðsmyndir um það hvaða afleiðingar þetta getur haft í för með sér (Forseti hringir.) og það er hlutverk nefndarinnar að fara vandlega yfir það og svo tökum við þá umræðu þegar það er komið.



[16:59]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég heyri alveg hvað hv. þingmaður er að segja. Hann er að hrósa Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði fyrir góða vinnu og góð störf og vill síðan minnka þjónustuna. Hvort er það? Er þetta góð þjónusta sem er gott að veita eða eigum við að skófla þjónustunni út og sinna ekki þeim skyldum sem við höfum gengist undir samkvæmt alþjóðasamningum? Ég átta mig ekki alveg á því hvert markmiðið er þegar allt kemur til alls. Ef við ætlum að tala um fjármögnun á þessu þá erum við að tala um fjármálaáætlun fyrir næsta ár, því að fjármagnið sem er undir í þessu frumvarpi er þegar komið hér inn, í það tilraunaverkefni sem var í fyrri fjármálaáætlun og fjárlögum, og það dugar fyrir þetta ár. Framhaldið er í næstu fjármálaáætlun og þar þurfum við væntanlega að rífast um ýmislegt því að þar vantar allar kostnaðaráætlanir frá A til Ö. Ég hlakka til umræðunnar um það, ef það fer rúmlega heill þingdagur í að kvarta undan skorti á kostnaðargreiningu á svona frumvarpi þar sem á að veita rosalega góða þjónustu — en á samt að skerða. Sér hv. þingmaður mótsögnina í þessu eða er ég eitthvað á villigötum varðandi það sem hann var að segja?



[17:00]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við þekkjum ágætlega hvernig verklagið hefur verið í þessum málaflokki. Á síðasta ári var fjárveiting til þessa málaflokks um 4 milljarðar kr. og síðan gerðist það bara í fjárlagavinnunni í desember, eins og hv. þingmaður þekkir ágætlega, að það kom beiðni um 400 millj. kr. aukafjárveitingu í þennan málaflokk og hún var afgreidd eins og ekkert væri. Engin gagnrýnin umræða fór fram um það. Ég flutti hér breytingartillögu um að þessi greiðsla kæmi ekki til framkvæmda vegna þess að það væri fækkun á umsóknum hælisleitenda á síðasta ári vegna veirufaraldursins. Sú tillaga var felld. Miðflokkurinn var eini flokkurinn sem studdi þá tillögu. Ég hefði kosið að hv. þingmaður, sem fer nú vel ofan í hlutina í fjárlaganefnd og talar fyrir ráðdeildarsemi í fjármálum ríkisins, hefði komið með mér í þá umræðu og ekki síst innan nefndarinnar. Hvað réttlætir það að menn geti komið hér og fengið 400 millj. kr. aukafjárveitingu í málaflokk sem kostar 4 milljarða þegar það var svo fækkun á umsækjendum? Við sjáum bara hvar við erum stödd í þessum efnum. Það er engin stefna. Ég er alveg sannfærður um það, af því að hv. þingmaður talar um að það liggi ekki fyrir hér hvernig eigi að fjármagna þetta, þetta sé bara fyrst og fremst fyrir Fjölmenningarsetur, að það verður þá bara kallað eftir aukafjárveitingu. Ef það koma hér 2.000 manns í viðbót vegna þess að við erum búin að auka þjónustuna þá verður bara kallað eftir aukafjárveitingum og þær verða samþykktar hér eins og ekkert sé. Svona hefur þetta verið. Það vantar alla gagnrýna hugsun og umræðu í þennan málaflokk þegar kemur að fjárútlátum. Auk þess, og við þekkjum það, hv. þingmaður, er verið að misnota þetta kerfi. Það þarf að herða reglurnar til að við getum komið í veg fyrir misnotkun og hjálpað þeim (Forseti hringir.) sem virkilega þurfa á því að halda, konum og börnum á stríðshrjáðum svæðum, en ekki að eyða peningunum í einhvern lögfræðikostnað, (Forseti hringir.) húsaleigu, öryggisgæslu og alls konar hluti. (Forseti hringir.) Það er nú bara þannig í þessum málaflokki, í það fara peningarnir.



[17:03]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið um þetta mál. Það er áhugavert að sjá hve fáir stjórnarliðar eða fylgjendur málsins taka til máls. Ég fagna því þó að nú er ljóst að málið verður tekið til nefndar milli umræðna, eftir því hefur einn nefndarmaður óskað. Vonandi gefst tækifæri til þess að fara betur ofan í þá liði sem við höfum fjallað hér um, Miðflokksmenn, og haft áhyggjur af. Við höfum dregið fram þann mikla kostnað sem er í rauninni falinn í þessu máli öllu saman. Falinn set ég nú innan gæsalappa og sviga en það er hins vegar alveg ljóst að þegar þjónusta er aukin við hundruð manna eða þúsundir, fer að sjálfsögðu eftir því hvernig fram vindur í framtíðinni, hækkar kostnaður heilmikið. Verið er að stækka þann hóp sem fær ákveðna þjónustu sem kostar eðlilega fullt af peningum, skattpeningum íslenskra ríkisborgara, þeirra sem greiða skatt. Það er áhyggjuefni, herra forseti. Að okkar mati mun þetta virka sem hvati til þeirra sem vinna við það — og aftur innan gæsalappa — glæpamennina sem eru að smygla og koma fólki til Íslands eða annarra landa.

Ég hef líka áhyggjur af því og það slær mig nokkuð að svo virðist sem enginn vilji sé hjá íslenskum stjórnvöldum og hjá mörgum þingmanninum til að horfast í augu við þá reynslu og þann veruleika sem nágrannaþjóðir okkar og aðrir hafa glímt við undanfarin ár. Þegar þar var varað við þessari þróun voru haldnar svipaðar ræður af andstæðingum þeirra og við höfum heyrt óminn af hér. Ein og ein ræða hefur verið haldin í þá veru. Því miður sýnist mér að fjölmiðlar spili helst með í því. Varað var við því að ástandið yrði eins og það er í dag í löndum eins og Danmörku og Svíþjóð, og í fleiri löndum, ef sú stefna sem þar hafði verið viðhöfð myndi halda óbreytt áfram. Nú eru þessi góðu lönd, þessir nágrannar okkar og frændur, komin á þann stað að þau ráða ekki neitt við neitt og grípa sömuleiðis til örþrifaráða, leyfi ég mér að segja, líkt og Danir hafa verið að boða undanfarið. Það er svolítið sérstakt, herra forseti, að íslensk stjórnvöld, íslenskir stjórnmálamenn, skuli ekki vilja læra af þessu, skuli ekki vilja viðurkenna hvernig málin hafa þróast í þessum löndum, að þau stingi hausnum í sandinn og láti sem þau sjái ekki þessa þróun og vilji í rauninni bjóða upp á hana hér líka.

Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur þessa reynslu til að koma hér á skýrum og ákveðnari reglum sem koma í veg fyrir að við förum sömu leið með okkar þjóðfélag og samfélag. Það þýðir ekki að hingað geti ekki komið einstaklingar eða fólk af erlendu bergi brotið, alls ekki. Við eigum að bjóða velkomið hingað fólk sem er raunverulega í mikilli neyð og þarf á hjálp að halda. Við eigum að sjálfsögðu líka að taka vel á móti þeim sem hingað vilja koma og göfga og bæta okkar samfélag, byggja hér upp með okkur. Það er nú þannig og við verðum að viðurkenna það að við þurfum líka á því að halda, Íslendingar, að hingað komi fólk sem vill setjast hér að og vinna og gerast íslenskir borgarar, ekki erum við það mörg. En þegar kemur að hælisleitendamálunum, þegar kemur að einstaklingum á flótta, hvernig við tökum á móti þeim, eigum við að sjálfsögðu að gera vel við þá sem raunverulega og nauðsynlega þurfa á hjálp að halda. Við eigum að einbeita okkur að því að hjálpa þeim sem næst sínum heimkynnum. Það er það sem mælt er með. Eins og ég lýsti hér eftir heimsókn og reynslu mína frá því að heimsækja flóttamannabúðir vildu allir sem ég ræddi við helst vera sem næst sínum heimilum og komast til sín heima aftur. Það er kannski það sem við sáum núna nýverið að Danir eru að boða, eða stjórnmálamenn þar alla vega, að senda fólk aftur til síns heima.

Í það minnsta, herra forseti, vil ég segja það svona í blálokin að ég fagna því að málið verði tekið aftur fyrir í nefndinni. Ég fagna því og vona svo sannarlega að þá verði varpað ljósi á þessar spurningar sem við Miðflokksmenn höfum lagt fram í þessari umræðu. Ég held að það sé líka mikilvægt að við höldum umræðunni áfram. Hún á að halda áfram, bæði hér á þingi og úti í samfélaginu. Við eigum að þora að ræða þessi mál. Þau geta verið viðkvæm fyrir margra hluta sakir en við eigum hins vegar ekki að vera hrædd við að ræða og horfa á reynsluna og staðreyndirnar sem tala sínu máli í öðrum ríkjum. Af því eigum við að taka mið í okkar nálgun á næstu árum.



[17:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem að nafninu til er ríkisstjórnarmál. Það vekur þess vegna furðu að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa mjög veigrað sér við að tala fyrir þessu máli. Aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið ræðu í þessari umræðu og raunar frá því að málið var lagt fram fyrst. Einn þingmaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, og hann gaf þessu máli ekki háa einkunn. Hann sagði kerfið ónýtt og óttaðist að stjórnmálamenn væru ekki færir um að taka almennilega á þessum málum. Þetta mál sem við ræðum hér er kannski til vitnis um það. Þó er einn flokkur sem er fær um að taka á þessum málum og það er sá flokkur sem hefur mest rætt þetta mál. Enginn þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur komið hér í ræðustól til að tala fyrir þessu máli. Að vísu hefur einn hv. þingmaður Vinstri grænna blandað sér í umræðuna með skeytasendingum á Facebook þar sem hann, verandi í prófkjörsslag í annað sinn fyrir þessar kosningar, sá tækifæri á að vekja á sér athygli með því að kalla umræðuna um þetta mál málþóf, umræðu sem hv. þingmaður lagði þó ekki í að taka þátt í sjálfur. Að vísu hafa tveir þingmenn Framsóknarflokksins tekið þátt í þessari umræðu en þeir gætu ekki verið færri því annars vegar var það ráðherrann sem lagði málið fram og hins vegar framsögumaður málsins eftir meðferð í nefnd. Stuðningur við þetta mál hefur fyrst og fremst komið úr röðum Pírata. Þetta er Píratamál í eðli sínu, enda hið skrýtnasta mál. En þingmenn stjórnarflokkanna hafa ekki treyst sér í umræðu um málið.

Kannski er það ekki svo undarlegt vegna þess að þetta er jaðarmál í norrænum stjórnmálum, í rauninni yst á jaðrinum, gengur þvert gegn því sem aðrar norrænar þjóðir eru að gera. Í Danmörku er samstaða um að fara í þveröfuga átt, alveg frá hægri og langt til vinstri, fram yfir sósíaldemókrata og jafnaðarmenn sem reyndar leiða núna umræðuna um mikilvægi þess að hverfa af þeirri braut sem er boðuð í þessu máli ríkisstjórnar Íslands. Í Svíþjóð hefur orðið söguleg samstaða flokka frá miðju til hægri um að hverfa af þeirri braut sem Svíar hafa verið á í þessum sömu málum. Í Noregi gera menn sér grein fyrir þessu líka og ekki skortir umræðu í Finnlandi. Meira að segja forsætisráðherra Svíþjóðar hefur viðurkennt að það gangi ekki lengur að haga málum með þeim hætti sem gert hefur verið.

En hér leggur ríkisstjórn Íslands fram jaðarmál sem er til þess fallið að auka á þann vanda sem ekki hefur tekist að leysa, sem ríkisstjórnin hefur greinilega gefist upp á. Mál sem fjallar um eitt stærsta viðfangsefni samtímans, flóttamannavandann, og spurninguna um hvernig sé best að koma til móts við fólk á flótta, hjálpa þeim mest sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Þetta mál bregst ekki aðeins í því efni heldur felast í því svik við fólkið sem við ættum að hjálpa, rétt eins og danskir jafnaðarmenn skýrðu það í stefnu sinni sem ég vitnaði í í síðustu ræðu minni.

Herra forseti. Ég hef ekki náð að ljúka máli mínu þó að tíminn sé á þrotum og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.



[17:13]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er spurning hvernig hlutirnir eru orðaðir en ég ætla að leyfa mér að segja það hér skýrt: Við fylgjum stefnu í þessum málaflokki. Sú stefna lýsir sér í því að hér eru opin landamæri og hér er opinn krani á ríkissjóð. Þetta frumvarp snýst um það að fylgja þessari stefnu fram af enn þá meira kappi. Þessari stefnu er lýst af leiðtogum í Evrópu, ég nefni sérstaklega frú Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sem mistökum. Þau hafa horfið frá þessari stefnu. Við fylgjum núna þeirri stefnu sem þau lýsa sem mistökum og þau leitast við núna með hvers kyns aðgerðum að bæta skaðann á sínu samfélagi sem hefur orðið. Þetta er mjög áberandi í Danmörku og sést náttúrlega miklu víðar.

Þessi umræða markar út af fyrir sig ákveðin tímamót vegna þess að það hefur ekki verið leyfilegt að ræða þessi málefni. Það hefur verið eins konar talbann, þagnarskylda, en nú hefur það ástand verið rofið. Það verður ekki neitt talbann hér framar og það verður engin þagnarskylda hér framar. Þessi mál verður að ræða hátt og upphátt og í ljósi staðreynda. Það eru auðvitað mjög margar hliðar á þessu máli, ein er fjárhagsleg, önnur snýr að velferðarkerfinu og svo mætti áfram telja. Auðvitað gerir enginn ráð fyrir neinu í þessum efnum af hálfu Vinstri grænna en hinir tveir flokkarnir í ríkisstjórninni standa að málum með því að ganga mjög hart fram í að fylgja þeirri stefnu sem ég lýsti um opin landamæri og opinn krana á ríkissjóð. Þetta frumvarp er dæmi um það.

Í greinargerð með frumvarpinu sem er lagt fram af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, vekur mikla athygli setning sem er þar að finna í kafla um mat á áhrifum. Með leyfi forseta, hljóðar hún svo: „Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …“. Hér er verið að senda út í heim alveg skýr skilaboð. Landamærin eru opin og hér eru í boði kostakjör. Þetta gengur þvert á það sem Danir eru að gera. Þar liggur fyrir frumvarp um heimild til að flytja hælisleitendur í móttökustöð utan Evrópu og í því felast þau skilaboð til þeirra sem eru að sækja um hæli á efnahagslegum forsendum eða til að leita eftir betri lífskjörum að þeir geti sparað sér það. En það er líka verið að segja við t.d. fólk sem hefur átt í viðskiptum við menn af misjöfnu sauðahúsi, sem hefur kannski látið stórfé eða jafnvel aleiguna fyrir það að fá að fara um borð í einhvern yfirfullan gúmmíbát, einhverja manndrápsfleytu, yfir Miðjarðarhafið og leggja á sig mikla háskaför — tilkynningin til þessa fólks er: Þið getið bara sparað ykkur þetta. Þessi miði sem þið haldið að þið séuð að kaupa til Danmerkur er bara miði í hælisleitendamóttökustöð í Afríku. Nú hefur verið greint frá því að Danir hafi gert samkomulag í þessu efni við Rúanda, og það er hægt að lesa í dönskum fjölmiðlum um efni þess samnings, ég hef ekki tíma til að ræða það hér.

En ég hlýt líka að nefna hæstv. dómsmálaráðherra sem náði því í tveggja mínútna ræðu að lýsa því að hér væri þetta tvennt; opin landamæri, (Forseti hringir.) opinn krani á ríkissjóð. Þetta gerði hún 25. mars sl. þegar hún svaraði andsvari hæstv. forseta hér fyrir aftan mig (Forseti hringir.) um fjárhagsleg málefni tengd útlendingalögum.



[17:19]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að ræða örlítið skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við þetta mál. Afleiðingar af því að vera með opin landamæri eru þær að hingað kemur að sjálfsögðu misjafn sauður í mörgu fé. Við höfum orðið illyrmislega vör við það undanfarna mánuði og miklu lengur en það auðvitað, en almenningur varð var við þetta síðastliðinn vetur þegar lögreglan þurfti að takast á við víðtæka starfsemi af þeim toga. Þess vegna vakti athygli mína viðtal við hæstv. dómsmálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni fyrir skemmstu þar sem umræðuefnið var einmitt skipulagðir glæpahópar, sem er vandamál sem greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ítrekað bent á í fjöldamörg ár en núna virðist hitamálið vera viðbrögð við þessu. Ráðherra tengdi þetta við Schengen-samstarfið sem við höfum verið í í a.m.k. 25 ár og orðaði það þannig að kostirnir væru fleiri en gallarnir en þó ekki meira en svo að það hefðu verið fleiri kostir við samstarfið fyrir tíu árum en núna. Af hverju skyldi það vera? Jú, í þessu viðtali ræddi hæstv. dómsmálaráðherra einnig við þá félaga í Bítinu um getu lögreglu til að vísa brotamönnum úr landi. Það virðist ekki vera hlaupið að því að uppræta svona glæpahópa þegar við erum í slíku samstarfi sem Schengen er vegna þess að alla jafna eru engin landamæri á milli þessara ríkja allra. Einu landamærin sem við höfum virkilega eru ytri landamæri þeirra ríkja sem eiga í þessu samstarfi. Við erum eyja norður í Atlantshafi en ákváðum samt að vera í þessu samstarfi og súpum seyðið af því að meðtaka alla þá galla sem því fylgja.

Helsta ástæðan fyrir því að við gengum í Schengen-samstarfið á sínum tíma var að við fengjum þá upplýsingar og gætum haft samvinnu við lögregluyfirvöld innan ríkjahópsins. Það skýtur auðvitað skökku við, herra forseti, að þetta hafi verið aðalástæðan vegna þess að bæði Írar og Bretar ákváðu að standa utan við þetta samstarf og ég hef aldrei heyrt annað en að þeir væru í ágætu samstarfi við lögregluyfirvöld í öðrum Evrópuríkjum. Þetta er einhvers konar tilbúin ástæða fyrir því að vera þarna innan dyra. En ef gallarnir eru orðnir fleiri og jafnvel orðnir svo miklu fleiri að það þurfi að endurskoða þetta samstarf þá þarf hæstv. dómsmálaráðherra að vinda sér í það, enda gaf hún nú upp boltann með það í þessu viðtali.

Ég lagði fram beiðni um skýrslu frá dómsmálaráðherra fyrir nokkrum dögum þar sem hæstv. dómsmálaráðherra myndi gera þinginu grein fyrir því hver viðbrögð ráðuneytisins og stjórnvalda hafa verið við uppgangi skipulagðra glæpasamtaka hér á landi undanfarin ár, mörg ár. Þetta er ekki ný saga, greiningardeildin hefur bent á þetta árum saman. Ég vonast til að skýrslan komi fyrir þinglok og við getum skoðað hver viðbrögð ráðuneytisins hafa verið í þessum málum og til hvaða viðbragða það ætlar að grípa í framhaldinu. Það er kominn tími til þess. Innan úr lögreglunni heyrist það auðvitað, og það kom fram í Kompásþætti nýverið, að þetta er mjög mikil vá, enda var það niðurstaða greiningardeildarinnar í síðustu skýrslu að þetta væri mesta vá sem steðjaði að samfélaginu ef undanskildar eru náttúruhamfarir, hvorki meira né minna, herra forseti. Og hvað gerum við? Við fljótum sofandi að feigðarósi. Lögreglumönnum fækkar, þeim er ekki fjölgað. Farið er í einhver átaksverkefni, settir tveir, þrír menn hingað og þangað inn í kerfið en engin alvöru viðbrögð. Ég hlakka mikið til að sjá þessa skýrslu og vona innilega að hæstv. ráðherra taki til hendinni í þessum málaflokki.



[17:24]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég að vísa í stefnu danskra jafnaðarmanna og sagði frá því að sú stefna sem íslenska ríkisstjórnin boðar nú sé í raun svik við þá sem þurfa mest á hjálp að halda að mati jafnaðarmannanna dönsku. Ég get tekið undir það. Ég ætla bara að vitna beint í inngangsorð stefnuskrár þeirra þar sem segir: Við erum að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki ef við látum núverandi kerfi halda áfram. Það er kerfið sem íslenska ríkisstjórnin færir sig nú inn í. Og hvers vegna er það? Það er ekki hvað síst vegna þess að misnotkun kerfisins, sem verið er að bjóða upp á að aukist mjög hér á Íslandi, bitnar fyrst og fremst á þeim sem þurfa mest á hjálp að halda.

Það var nefnt hér að ríkislögreglustjóri hefði varað við því í mikilli skýrslu að hælisleitendakerfið á Íslandi væri misnotað af erlendum glæpagengjum. Það liggur fyrir. En það fyrirkomulag sem lagt er upp með í frumvarpinu mun auðvelda þeim til mikilla muna að beita íslenska kerfinu til að senda fólk til Íslands, til að fá fólk til að leita viðskipta við, ef það er rétta orðið, þessi stórhættulegu gengi og leyfa þeim að beina för fólks hingað til lands. Það er kjarninn í stefnu danskra jafnaðarmanna. Þeir segja: Við þurfum að hverfa frá stefnu sem gerir glæpagengjum kleift að nota Danmörku sem söluvöru. Danskir jafnaðarmenn segja einnig að ætlunin sé því einnig leið út úr núverandi ástandi þar sem hver hert aðgerðin á fætur annarri í einu landi leiðir til aðhalds í nágrannalöndunum — nema reyndar hér á Íslandi, þeir hafa ekki vitað af þessu frumvarpi — og þar sem lönd Evrópu, ef svo má segja, keppast um að vera minnst aðlaðandi áfangastaðurinn, nema Ísland sem virðist ætla að keppast um að verða mest aðlaðandi áfangastaðurinn, enda var þjónustan hér fyrir þetta frumvarp með því besta sem er í boði og hælisleitendur orðnir, eins og nefnt hefur verið, sexfalt fleiri á Íslandi hlutfallslega en í Danmörku og Noregi.

Það er lýsandi fyrir þetta mál og skort á rökum fyrir innleiðingu þess að þeir sem hafa komið hingað til að verja málið hafa ekki talað um raunveruleg áhrif þess. Þeir hafa ekki einu sinni talað um raunverulegt markmið og þó er markmiðið skýrt; að samræma þá þjónustu sem fólk fær, óháð því hvernig það kemur til landsins, hvort sem því er boðið hingað af íslenskum stjórnvöldum sem kvótaflóttamönnum, hafandi farið í gegnum löglegt, öruggt kerfi eða komið hingað ólöglega, stundum á vegum hættulegra glæpagengja. Það er markmiðið með þessu að það sé jafngilt með hvaða hætti menn koma. Það markmið er 180 gráður frá markmiði stjórnvalda í Danmörku þar sem forsætisráðherrann segir nú: Markmiðið er að enginn mæti til Danmerkur sem hælisleitandi. Við munum taka við flóttamönnum en við viljum hafa stjórn á því hverjum er boðið til landsins og við viljum hvetja fólk til að nýta sér öruggu leiðina, lögmætu leiðina, og þá hefur það tækifæri á því að koma til Danmerkur. Hér er farin þveröfug leið.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forseti vill fara að koma fleiri málum á dagskrá þó að margt sé órætt í þessu. En ég verð að nefna örfá atriði í viðbót áður en ég lýk máli mínu í þessari umræðu og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.



[17:30]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál fjallar ekki um neitt af því sem hv. þingmaður og aðrir í hans flokki hafa verið að tala um hér í marga, marga klukkutíma. Þeir eru að drepa málinu á dreif. Þetta er algjört rugl. Þetta þingmál, ef það verður að lögum og það mun líklega verða að lögum, mun kosta 23 millj. kr. í framkvæmd. Þessi umræða hingað til hefur kostað ríkissjóð meira, hreinlega vegna þess hversu langan tíma hún hefur tekið, vegna þess að þetta málþóf hefur staðið yfir. Ég ætlaði eingöngu að koma hér í andsvar til að óska formanni Miðflokksins til hamingju með að hafa náð að slá þeirra eigið met í lágkúru með þessu málþófi. Ég óska ekki eftir andsvari.



[17:31]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé fulla ástæðu til að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar því með því veitti hann okkur hér í lok umræðunnar sýnishorn af málflutningi þeirra sem hafa komið upp til að styðja þetta mál, sem hafa reyndar í langflestum tilvikum verið úr flokki Pírata eins og hv. þingmaður. Það er einfaldlega fullyrt að þetta kosti bara 23 milljónir, kostnaðurinn sé eingöngu ráðning tveggja starfsmanna og litið algerlega fram hjá þeim gríðarlegu áhrifum sem þessi stefnubreyting muni hafa. En Samtök íslenskra sveitarfélaga benda hins vegar á að þetta sé ófjármagnað. Enda er það augljóst, herra forseti, að þegar ráðist er í grundvallarbreytingu sem gengur þvert á stefnu annarra Norðurlanda, þrátt fyrir að Ísland sé þegar komið með sexfalt fleiri hælisumsóknir en Noregur og Danmörk eftir fyrri skilaboð íslenskra stjórnvalda út í heim, þá mun það hafa áhrif á þann fjölda sem sækir um hér, þegar verið er að lögleiða það að þeir sem koma hingað, jafnvel ólöglega, jafnvel á vegum glæpagengja, eigi rétt á allri sömu þjónustu og þeir sem fara í gegnum hið lögformlega kerfi og er boðið til landsins. Ég læt vera að gera athugasemd við fúkyrði, skulum við kalla það til að gæta hófs, herra forseti, hv. þingmanns í lokin, en því miður eru þau líka lýsandi fyrir tilraunir stuðningsmanna málsins til að koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um það.



[17:33]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er margt ósagt í þessu máli. Ég var rétt byrjaður að rekja þróunina á Norðurlöndum, þá reynslu sem norrænu þjóðirnar hafa og það sem við gætum lært af þeirri stefnubreytingu sem þar hefur orðið. Og ég var varla byrjaður að rekja eðli þessara mála sem mér þætti eðlilegt að líta til þegar verið er að ráðast í svo mikla stefnubreytingu í máli sem hefur verið eitt stærsta, líklega stærsta, pólitíska viðfangsefnið á Norðurlöndum undanfarin ár. En menn vilja afgreiða það hér helst án umræðu og án þátttöku þingmanna stjórnarliðsins eins og kostur er.

Kjarni málsins er sá að hér er verið að ráðast í breytingar sem ganga þvert á það sem við sjáum í öðrum löndum og það mun hafa mjög veruleg áhrif á Íslandi. Það mun hafa mjög veruleg áhrif til framtíðar. Þegar um svo stórt og mikilvægt mál er að ræða þá sætir það furðu, herra forseti, að menn skuli ekki hafa undirbúið málið betur, það er reyndar lagt fram í annað sinn, og ekki kannað áhrifin. Þeir virðast ekki hafa gert minnstu tilraun til að kanna áhrifin af þessu stóra máli sem er, eins og ég segi, líklega stærsta pólitíska viðfangsefnið á Norðurlöndum undanfarin ár.

En nú skilst mér að til standi að reyna að gera einhverja bragarbót á því í nefndarvinnu og í trausti þess að sú verði raunin geri ég ráð fyrir að það sé óhætt, herra forseti, að bíða með ýmis þau rök sem ég átti eftir að koma með í þessa umræðu þar til að sú vinna hefur farið fram. Það geri ég í trausti þess að sú vinna verði unnin af heilindum með það að markmiði að komast að því hvað er raunverulega rétt, hver raunveruleg áhrif eru, fremur en að búa til einhverjar reyksprengjur eða rakalausar ástæður fyrir því að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert hefur verið. Ég treysti á það, herra forseti. Ég veit að hæstv. forseti hlýðir á orð mín og gerir sér grein fyrir því að við hljótum að vilja líta svo á að hægt sé að treysta þinginu til að vinna svona stór mál almennilega.