151. löggjafarþing — 93. fundur
 11. maí 2021.
störf þingsins.

[13:03]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Sagan geymir ýmis dæmi þess að ný tækni og nýjar vörur og nýir viðskiptahættir sem þeim fylgja rjúfi einokun á ákveðnum sviðum og það þótt að ríkisvaldið sé alveg staðráðið í því að halda einokunarstöðu sinni. Með aukinni netverslun undanfarinna ára hefur einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að mynda verið rofin að því leyti að Íslendingar geta núna með einföldum hætti pantað áfengi frá öðrum smásölum en ÁTVR, en þó aðeins frá erlendum smásölum handan hafsins með tilheyrandi óhagræði fyrir viðskiptavini hér á landi vegna tíma og kostnaðar sem fylgir þessum flutningi yfir hafið.

Undanfarna daga hefur verið sagt frá því í fréttum að franskt fyrirtæki, Santewines SAS, bjóði Íslendingum nú að kaupa vín á vef sínum og fá það afhent samdægurs eða næsta virka dag. Samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins er birgðahald fyrirtækisins hér á landi sem útskýrir stuttan afgreiðslutíma. Það er rétt að halda því til haga að fyrirtækið skilar, að því að mér skilst, öllum áfengissköttum til ríkissjóðs og áfengisverslunarinnar og gætir einnig að aldri viðskiptavina.

Nú vaknar sú spurning, virðulegur forseti: Til hvers erum við að halda í þessa einokunarverslun ríkisins? Til hvers höldum við þessum einokunartilburðum áfram? Þeir virðast eingöngu hafa þau áhrif að fyrirtæki sem gætu verið stofnuð hér á landi eru stofnuð erlendis og greiða þar tekjuskatt ef vel gengur. Varla trúa menn því að það breyti einhverju um drykkjuvenjur hvort vefverslun er skráð til heimilis í Búrgundí eða hér á landi.

Virðulegur forseti. Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað, frá Búrgundí í Bústaðahverfið, svo dæmi sé tekið. Kominn tími til fyrir löngu.



[13:05]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Verðtryggingin hefur áhrif á hagkerfið okkar umfram fjárhagslega hagsmuni neytenda sem taka verðtryggð lán til húsnæðiskaupa. Verðtryggð lán hafa kerfislæg áhrif sem eru neikvæð, til að mynda draga þau úr biti verkfæra Seðlabankans, t.d. vaxtahækkunum. Þau belgja út eignir bankanna án þess að þeir þurfi að hækka vexti sérstaklega eða gera eitthvað annað sem gæti haft áhrif á eftirspurn. Svo eru auðvitað til kenningar um það, trúverðugar að mínu mati, að verðtryggingin sjálf búi til vítahring verðbólgu. Nú búum við svo vel að u.þ.b. helmingur lána er verðtryggður. Það hefur í gegnum tíðina ávallt verið meira og auðvitað var lengi vel ekki hægt að fá óverðtryggð lán. Nú eru óverðtryggð lán í mikilli stórsókn og verða það fyrirsjáanlega vegna þess að vextir eru blessunarlega lágir.

Virðulegi forseti. Að afnema verðtryggingu með lögum, já, banna hana, þarf að gera með tilliti til áhrifa slíkra breytinga á hagkerfið sjálft. Þess vegna er núna tækifærið, á meðan óverðtryggð lán eru í sókn og verðtryggð lán í vörn, til að stuðla að lagabreytingum sem eru til þess fallnar að afnema verðtryggingu. Hvort það verður gert á einu bretti eða yfir aðeins lengra tímabil er mögulega önnur spurning en þó, með hliðsjón af aðstæðum núna, hallast ég að hinu fyrrnefnda, að við eigum hreinlega að gera ný verðtryggð lán ómöguleg samkvæmt lögum. Ég hef hvorki tíma né kannski þolinmæði hlustenda til að fara yfir allt sem er slæmt við verðtryggingu eða nákvæmar ástæður þess að við ættum að afnema hana, en punktur minn er sá að núna er góður tími til að fara út í slíkar breytingar ef Alþingi hefur hug á að fara í þær á annað borð.



[13:08]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Um helgina skók okkur sem samfélag ný bylgja #metoo. Ég veit ekki hvort maður á að gráta eða fagna þegar slíkar bylgjur koma upp á yfirborðið. Líklega hvort tveggja. Sögurnar eru hryllilegar en við þurfum þó að fagna því að þær komi upp á yfirborðið. Líklega er bylgjan komin til að vera. Hryllilegt er að vita til þess að okkar annars góða samfélag sé með þann ljóta blett sem kynferðislegt ofbeldi og áreiti er. Við þurfum að hlusta á þessar sögur. Við þurfum að læra og við þurfum einfaldlega að gera betur. Þrátt fyrir átak í að efla rannsóknir kynferðisbrotamála og hraða afgreiðslu þeirra erum við samt ekki að gera nógu vel. Við þurfum að gera betur. Við þurfum ávallt að veita þolendum skjól og aðstoða þá.

En hvað með gerendurna? Við heyrum sögurnar. Þær eru alls konar. Stundum um hryllilegt ofbeldi, stundum þannig að upplifun einstaklinganna virðist vera mjög ólík. Hvernig vinnum við með þessa meinsemd? Er refsivörslukerfið okkar þannig búið að það geti tekist á við verkefnið? Hvernig aðstoðum við gerendur við að hætta að beita ofbeldi?



[13:10]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég er mikill aðdáandi Ruth Bader Ginsburg, hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Hún var brilljant lögfræðingur, klók og kona snjallra tilsvara. Hún var skipuð dómari í Hæstarétti árið 1993 og varð seinna leiðtogi frjálslynda armsins í Hæstarétti. Sem lögmaður vann hún þannig að hún valdi lítil mál til að láta reyna á mikilvæg atriði sem höfðu víðtækari áhrif en málin sjálf gáfu til kynna. Þannig náði hún fram breytingum. Styrkleiki hennar fólst í því að hún skynjaði lagalegar en um leið pólitískar afleiðingar dóma réttarins.

Fyrir ekki svo löngu var í fréttum mál kennara sem vildi fá uppsögn sína dæmda ógilda. Ástæða starfslokanna var sú að kennarinn var orðinn 70 ára gamall. Kennarinn taldi ómálefnalegt að aldurinn einn réði því að hann fengi ekki lengur að kenna. Þar blasir kannski við spurningin, hin pólitíska spurning, hin samfélagslega spurning: Hvaða áhrif hefur það á faglegt skólastarf að eldri og reyndari kennarar eigi að hætta störfum bara vegna þess að þeir vakni upp 70 ára einn daginn? Hvernig rímar það við eðli starfsins, þ.e. kennslu og að miðla kannski visku í leiðinni? Kennarinn tapaði málinu, var dæmdur úr leik vegna aldurs.

Mér varð hugsað til uppáhaldsdómarans þegar ég las þennan dóm, hvernig hún hefði teiknað upp röksemdirnar kæmi svona dómsmál inn í hennar sal. Þar gilti þessi regla að vísu ekki og 70 ára reglan hefði leitt til þess að hún hefði ekki dæmt nein mál síðustu 17 árin af ferli sínum. Það hefði verið alvarlegur missir fyrir bandarískt samfélag. Hún sat sem dómari til dauðadags, lést 87 ára að aldri, og komu margir af hennar þýðingarmestu dómum síðustu árin. Hvaða lærdóm og reynslu drögum af því?

Nú er Reykjavíkurborg farin að vinna að stefnu um sveigjanleg starfslok, að veita fólki meira valfrelsi um starfslok. (Forseti hringir.) Það er mikilvæg breyting og mikilvæg vinna sem ég fagna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:12]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Eftir langa og stranga jarðskjálftahrinu á Reykjanesi hófst eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter fyrir níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Fleiri gossprungur opnuðust en engin hætta steðjar að byggð vegna gossins eins og staðan er. Nú hefur gosið aukið kraft sinn og mikil aukning er í hraunflæði þess. Það liggur fyrir að í náttúruhamförum þar sem okkur, almennum borgurum, finnst eins og ástandið sé viðráðanlegt og lítil hætta steðji næstu byggð, gæti hættan samt verið skammt undan. Það er mikilvægt að viðbragðsaðilar og þeir sem þurfa að bregðast hratt við ef ástandið breytist hafi þekkingu og reynslu til að bregðast við.

Í síðustu viku var leitað til ríkisstjórnar og umhverfisráðuneytis um að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu á varnargarði. Það gæti þurft að byggja varnargarð síðar til að verja mikilvæga innviði eða íbúabyggð á Reykjanesskaga verði breytingar á gosinu og opnist sprungur nær byggð. Nú þegar liggur fyrir útfærsla á hugsanlegum prófunum á mögulegum hraunrennslisvörnum í Merardölum út frá núverandi gosi í Geldingadölum. Tilgangur þessa prófana er að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu varnargarða sem gæti þurft að byggja síðar til að verja mikilvæga innviði, eins og áður segir.

Virðulegur forseti. Bæjarráð Grindavíkur leggur áherslu á að þær aðstæður sem nú eru til staðar í Merardölum verði tafarlaust nýttar til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum og að tilskilin leyfi fáist til framkvæmda. Vonandi komast þau mál í höfn. En eftir því sem ég kemst næst hefur ekki fengist leyfi til að gera slíkar prófanir. Ég verð að segja eins og er að það nær auðvitað ekki nokkurri átt ef umhverfisráðuneytið eða ríkisstjórn Íslands stendur í vegi fyrir að slík leyfi séu gefin. Má í því sambandi benda á að prófanir á hraunrennsliskælingu með sjó voru gerðar í Surtsey árið 1965, sem kom að góðum notum í Heimaeyjargosinu 1973.



[13:14]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Enn og aftur er spurt: Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra? Hér eru nokkrar ástæður sem er gott að hafa í huga: Endalausar sögur af lögreglufólki sem hlær þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni. Dómarar sem gefa beint og óbeint í skyn að þetta hafi verið okkur að kenna því að við drukkum of mikið. Kærum er vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum þó að við hefðum gert allt rétt, þ.e. það sem réttarkerfinu finnst að við eigum að gera eftir að okkur er nauðgað; fara á neyðarmóttökuna, tala við lögreglu og lækna og fá svo ávítur fyrir að hafa ekki verið nógu skýrar. En það er bara svolítið erfitt að vera skýr þegar heilinn og líkaminn er í áfalli. Það er líka svolítið erfitt að vera skýr þegar gerendur eru okkur svo nákomnir að við hættum á að missa allt okkar bakland frá okkur ef við segjum eitthvað eða að starfsferill okkar, orðspor og fjárhagslegt bakland verði fyrir óafturkallanlegum skaða fyrir að segja frá. Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja. Við kærum ekki því að ef við dirfumst að gera það er okkur úthúðað í samfélaginu. Ef við segjum frá erum við útskúfaðar frá fjölskyldum og vinum.

Spurningin ætti að vera: Af hverju hætta þessir góðu gerendur ekki bara að áreita, nauðga, lítillækka og valda óafturkallanlegum skaða á lífi kvenna og kynsegin? Skömmin er ekki þolenda. Skömmin er gerenda og réttarkerfis sem hefur gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisofbeldis og neitar að taka ábyrgð á þeim varanlega skaða sem það hefur valdið á kynslóðum kvenna og kynsegin sem treysta ekki kerfinu til að ná fram réttlæti.



[13:16]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Við höfum rannsakað hagi ungs fólks með markvissum hætti síðan 1992. Síðastliðin 22 ár hafa Rannsóknir og greining staðið fyrir rannsókninni „Ungt fólk“. Árið 1998 höfðu 42% 15 ára barna orðið drukkin síðastliðna 30 daga og nú, 20 árum síðar, er sú tala komin niður fyrir 6%. Vímuefnaneysla var vaxandi vandamál í íslensku samfélagi en þeirri þróun var snúið við. Það tókst með skipulögðum hætti. Í niðurstöðum nýjustu rannsóknar á meðal ungmenna í 8., 9. og 10. bekk kemur í ljós að aðeins einn af hverjum þremur nemendum metur líkamlega heilsu sína góða. Aðeins helmingur nemenda telur sig oft eða alltaf fá nægan svefn og aðeins um einn af hverjum fjórum nemendum metur andlega heilsu sína góða. Viðfangsefni ungs fólks í dag eru önnur en fyrir 20 til 30 árum og það þarf að bregðast við með jafn markvissum hætti og fyrir 20 árum. En ungu fólki sem upplifir hræðslu fjölgar. Þeim nemendum fjölgar sem hafa lítinn áhuga á því sem þeir eru að gera. Þeim nemendum sem hafa litla matarlyst fjölgar. Þeim nemendum sem upplifa sig eina fjölgar og einnig þeim sem eru daprir og niðurdregnir. Þeim nemendum fjölgar talsvert sem meta bæði líkamlega og andlega heilsu sína sæmilega eða slæma. Hvernig fyrirmyndir erum við fullorðna fólkið? Hvaða gildi eru ríkjandi í samfélaginu? Eru það gleði, lífsvilji, einlægni og nægjusemi? Í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum tröllríður samkeppni, samanburður, yfirráð, öfund, fjárfesting og græðgi. Ættum við fullorðna fólkið að tileinka okkur barnslegri eiginleika til að bæta tilveruna? Við eigum að hlúa að börnunum okkar og verða betri fyrirmyndir barna og ungmenna. Veltum því fyrir okkur hver hin nýju viðfangsefni unga fólksins okkar í dag eru.



[13:18]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Síðustu vikuna hefur fjöldi fólks, þá aðallega kvenna, sýnt mikið hugrekki og sett reynslu sína af kynbundnu ofbeldi á samfélagsmiðla. Ég vil byrja á því að þakka þeim fyrir hugrekkið. Það er ekki auðvelt að berskjalda sig opinberlega. Það er ekki auðvelt að vinda ofan af nauðgunarmenningu. Við erum í annarri bylgju #metoo. Þetta er sem sagt í annað sinn á nokkrum árum sem samfélagsmiðlar ljá konum rödd og körlum sem voru líka lengi raddlausir vegna þöggunar og druslurskömmunar, vegna viðhorfa sem hafa verið meinsemd í samfélagi okkar og ýta við okkur til að horfa framan í okkur sjálf sem samfélag, blákalt. Núna hefur skapast nokkur umræða um hvers vegna fólk stígur fram á samfélagsmiðlum, hvort réttlætanlegt sé að birta svo miklar upplýsingar að gerandi sé nánast persónugreindur án þess að málið rati nokkurn tímann á borð lögreglu. En á sama tíma fáum við upplýsingar um að Landsréttur mildi dóma í 40% kynferðisbrotamála sem fara fyrir dóminn, 40%. Til samanburðar eru 25% dóma í ofbeldis- og fíkniefnabrotum mildaðir. Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns ef þetta eru kveðjurnar frá dómstólum landsins. Þó að þrjú ár séu síðan við hér í þessum sal breyttum almennum hegningarlögum á þá vegu að samþykki væri sett í forgrunn í kynferðisbrotamálum er sönnunarbyrðin í þeim málum enn þá allt of þung. Í ofanálag eru þolendur sem stíga fram sakaðir um að sverta mannorð gerenda sinna. Það er umræða sem við þurfum að uppræta strax. Það eru gerendur sem sverta sitt eigið mannorð þegar þeir beita ofbeldinu. Við þurfum öll að líta í eigin barm, við þurfum að standa með öllum þolendum, ekki síst þeim sem standa okkur næst, og horfast í augu við gerendur sem við kunnum að þekkja og gera þeim ljóst að við tökum afstöðu gegn ofbeldi.

Herra forseti. Ég vil aftur þakka öllum þeim sem sýnt hafa hugrekki með því að segja sína sögu. Ég sé ykkur. Ég trúi því að við séum öll að hlusta og nú þurfum við að takast á við þetta saman. Ég stend með ykkur.



[13:20]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í morgun stóð Vegagerðin fyrir málþingi um þjóðvegi á hálendinu. Ég fagna því enda er eitt af verkefnum Vegagerðarinnar samkvæmt samgönguáætlun að móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands. Málþingið markar tímamót í þeirri vinnu þar sem kallað var eftir skoðunum ólíkra hópa á málefninu, hvernig þeir sæju fyrir sér vegi á hálendinu, hvar þeir ættu að vera, hvernig og hverjum þeir skyldu þjóna. Á hálendinu er stórt vegakerfi í afar misjöfnu ástandi. Hér er því um að ræða mjög mikilvægt málefni óháð því hvernig stjórnsýslu á hálendinu er háttað. Vegagerðin ber ábyrgð á stofnvegum hálendisins og neti landsvega sem tilheyra þjóðvegakerfinu. Þar fyrir utan liggja vegir og vegslóðar hingað og þangað, þ.e. vegir sem hafa einkum verið lagðir af sveitarfélögum og nytjaréttarhöfum, svo sem bændum, veiðimönnum og orkufyrirtækjum. Vegirnir hafa í mörgum tilfellum verið lagðir með aðkomu ríkisvaldsins í gegnum stuðning styrkvegasjóðs en mörg dæmi eru um vegi þar sem almannafé hefur ekki komið við sögu. Sveitarfélög sem fara með stjórnsýslu á hálendinu bera ábyrgð á skráningu þessara vega og að ákvarða samhliða hverjir þeirra eru opnir almennri umferð.

Málþingið var gott en ég saknaði umræðu um vegi norðan Vatnajökuls. Ég álít að eitt af brýnu verkefnunum varðandi umferð á hálendinu sé að taka stefnumarkandi ákvörðun um tengingu hálendisins norðan Vatnajökuls við Sprengisandsleið með stofnvegi. Þar þarf bæði að velja heppilegustu leiðina og ákvarða hvernig veg eigi að leggja. Ef vilji er til að tryggja aðgengi að náttúruperlum eins og Kverkfjöllum, Herðubreið og Öskju án þess að spilla náttúru verður að fara í það verkefni.



[13:22]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ísland á sérstakt samband við Palestínu en Ísland var fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis árið 2011. Við höfum einnig söguleg tengsl við Ísraelsríki frá stofnun þess árið 1948 en vegna þeirra tengsla skoraði ég á ríkisstjórnina fyrir tæpu ári, ásamt hv. þingmönnum Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Loga Einarssyni og Silju Dögg Gunnarsdóttur, að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilum þar á milli en ekkert hefur heyrst í þá veruna. Á meðan ríkisstjórn Íslands gerði ekkert hélt ástandið í Palestínu áfram að versna en helsta birtingarmynd þess þessa dagana eru deilur umhverfis Sheikh Jarrah í Jerúsalem þar sem Ísraelar hafa ákveðið að víkja burt palestínskum fjölskyldum og leyfa landnemum að setjast þar að, þvert á alþjóðalög og mannréttindi.

Það þarf varla að nefna að nauðungarflutningar af þessu tagi hafa sögulega verið meðal verstu glæpa gegn mannkyni, hvort sem litið er til frumbyggja í Bandaríkjunum, Tartara á Krímskaga og í Úkraínu og í Kákasus eða allra hinna fjölmörgu tilfella þar sem slíkt hefur verið gert. Það þarf heldur ekki að nefna að slíkir nauðungarflutningar eru oft undanfari, eða eiga sér stað samhliða, þjóðarmorða líkt og þekkt er í tilfellum Kúrda, Armena og allt of margra annarra þjóða, því miður. Af þessum ástæðum vil ég nota tækifærið til að undirstrika fyrri áskorun á ríkisstjórnina um að taka til hendinni í málefnum Palestínu en jafnframt að skora á þingið að klára sem fyrst að samþykkja tvær þingsályktunartillögur sem liggja fyrir þinginu, annars vegar um fordæmingu á þjóðarmorðum á Kúrdum og hins vegar á sambærilegum þjóðarmorðum á Armenum, enda er mikilvægt að það sé alveg kristaltært að glæpir gegn mannkyni líðist ekki og að heimsbyggðin fylgist vel með.



[13:24]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í 1. gr. laga um réttindi sjúklinga segir, með leyfi forseta: „Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Í 3. gr. segir, með leyfi forseta: „Sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita.“

Í 5. gr.: „Sjúklingur á rétt á upplýsingum um heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur …“

Mig langar, herra forseti, að máta þessi lagaákvæði inn í sögu konu sem 1. október síðastliðinn fór í brjóstamyndatöku og leghálsskoðun. Um miðjan nóvember fékk hún tilkynningu um að leghálssýni væri ekki eðlilegt og hún fékk beiðni um að fara inn á .is síðu til að komast að þeim upplýsingum. Hún fór í aðra rannsókn 16. desember síðastliðinn og sýni úr þeirri rannsókn var sent til Danmerkur. 22. febrúar síðastliðinn fær hún úrskurð um að hún sé með svokallaða HPV-greiningu og þurfi því á enn annarri rannsókn að halda. Hún fór í enn eina rannsóknina 8. mars síðastliðinn og sýni var tekið og sent til Danmerkur.

Nú verð ég að spyrja hvort þessi saga passar inn í lagarammann sem ég fór yfir áðan. Og ég verð að spyrja hvort þessi saga, vegna þess að hún er ein af þúsundum, herra forseti, og þúsundir annarra séu grundvöllur fyrir umboðsmann Alþingis til að hefja frumkvæðisrannsókn á viðskiptum kvenna (Forseti hringir.) sem greinst hafa með frumstig leghálskrabbameins og heilbrigðisráðuneytisins. (Forseti hringir.) Þetta er til skammar, herra forseti.



[13:27]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Afmælisgjöf ríkisstjórnarinnar í tilefni af 60 ára afmæli Öryrkjabandalags Íslands er ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Í umræðunni um þýðinguna hér á Alþingi í gær var talað um að ekki væri hægt að lögfesta samninginn af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrr en rétt þýðing væri komin á samninginn sem er rangt og ekkert annað en enn einn útúrsnúningurinn. Besta afmælisgjöf til ÖBÍ hefði verið að lögfesta samninginn eins og átti að vera búið að gera í desember síðastliðnum ef farið hefði verið eftir samþykktum hér á Alþingi. Ef við hér á Alþingi værum nú þegar búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks eins og okkur ber þá væri staða öryrkja á Íslandi mun betri í hinni eilífu baráttu við kerfið sem kerfisbundið brýtur lög og réttindi á þeim. Skerðingar hafa aukist og það þrátt fyrir að nú sé 65 aurar á móti krónu skerðing í gangi, sem er bara smáplástur á krónu á móti krónu skerðinguna sem var. Með leyfi forseta, orðrétt úr ræðu Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns Öryrkjabandalagsins, í tilefni afmælisins:

„Kominn er tími til að þeir múrar sem reistir hafa verið af stjórnvöldum milli fatlaðs fólks og þátttöku þess í samfélaginu verði brotnir niður, þar eru skerðingar efstar á blaði. Íslendingar eiga heimsmet í að beita fatlað fólk óhóflegum skerðingum og skattlagningum, þar er ekki gætt meðalhófs. Engin önnur þjóð beitir þennan samfélagshóp jafn grimmilegum aðgerðum. Afraksturinn er sá að hluti fatlaðs fólks býr við ævarandi skort, fátækt sem eltir það inn í ellina, kúgað, niðurbrotið og vonlaust.“

Þar segir einnig:

„Aldraðir fá sömu útreið, þau sem búa á hjúkrunarheimilum eru of dýr í rekstri, of dýr fyrir samfélagið sem þau sjálf skópu.“

Virðulegur forseti: Girðum upp um okkur réttlætið hér á Alþingi, samþykkjum strax samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Flokkur fólksins berst af öllu afli gegn mismunun, óréttlæti og mun áfram berjast með öllum ráðum við að mylja niður múra fátæktar. Að þýða samning Sameinuðu þjóðanna er ekki nóg. Tökum samning Sameinuðu þjóðanna úr frosti og lögfestum hann.



[13:29]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á nýafstöðnum landsfundi Vinstri grænna var mikið rætt um nýsköpun og fjölbreytni í henni. Áhersla á nýsköpun og rannsóknir er lykilatriði í því að fjölga stoðum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf og að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvána í alþjóðlegu samhengi. Stuðningur við nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf hefur verið mikilvægur þáttur í stefnu Vinstri grænna frá upphafi. Undanfarin ár hefur hreyfingin lagt áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki og umhverfi nýsköpunar þannig að hugmyndir gætu orðið að veruleika, jafnframt að hlúð væri sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem komin væru af sprotastigi en væru enn þá í uppbyggingu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja og á mikilvægi nýsköpunar í almannaþjónustu. Þá hefur verið lögð áhersla á eflingu grunnrannsókna og hlutverk þeirra sem forsendu fyrir frjóu nýsköpunarstarfi á Íslandi. Markáætlun hefur verið stórefld og henni beitt til að takast á við áskoranir vegna loftslagsvár og tæknibyltingar og áhrifa á vinnumarkað, heilbrigðistækni og lýðheilsu, svo eitthvað sé nefnt.

Gjörbylting hefur orðið á umhverfi nýsköpunar, en við þurfum alltaf að gera betur. Nýsköpun getur verið með stóru sniði og hún getur verið með smáu sniði. Hún birtist í tækninýjungum, nýjum aðferðum, þjónustu og bættu verklagi. Nýsköpun drífur framþróun samfélagsins áfram, eykur velsæld og stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi, eins og við þekkjum. Ég held að nýsköpun eigi eftir að styrkja byggðirnar mjög á komandi árum með öllum þeim tækninýjungum sem eru, ekki bara í einhverju sérstöku tækniumhverfi heldur líka með fjölbreytni í þeim atvinnuvegum sem við höfum í dag, að það verði einnig nýsköpun í eldri atvinnuvegum. Það á eftir að styrkja mjög atvinnulíf úti um allt land.



[13:31]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka góð orð um að hafa atbeina um að koma ráðherrum til að svara skriflegum fyrirspurnum og ég geri eina slíka fyrirspurn hér að umtalsefni. Það er raunar svo langt síðan ég sendi inn skriflega fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra að það liggur við að ég sé búinn að gleyma því um hvað sú fyrirspurn snerist. Liggur við en þó ekki alveg vegna þess að þetta er mikilvægt mál sem gott hefði verið að hafa svör við nú þegar Alþingi er að fást við fjölmiðlafrumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Ég lagði fyrirspurnina fram þann 7. desember, hún er í þremur liðum og hún er á þessa leið.

„1. Hafa íslensk stjórnvöld af sjálfsdáðum, eða í samvinnu við önnur EFTA-ríki, metið hvaða þýðingu löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu, eins og Evrópusambandið og OECD eru að skoða, hefði á Íslandi?

2. Hefur verið lagt mat á það hvort íslenskt skattumhverfi sé í stakk búið að innleiða nauðsynlegar breytingar til að slík skattlagning, þvert á landamæri, virki með skilvirkum hætti á Íslandi?

3. Telur ráðherra ekki mikilvægt að hafin sé strax vinna við gerð á íslenskri löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu svo að Ísland verði tilbúið í breytingar með öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar að þeim kemur?“

Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvað veldur því að hæstv. fjármálaráðherra þverskallast við að taka saman svör við þessum spurningum en þær varða grundvallaratriði í rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi og þá hrikalega skekktu samkeppnisstöðu sem þeir búa við gagnvart alþjóðarisum sem starfrækja samfélagsmiðla og greiða enga skatta og engin laun (Forseti hringir.) en hirða æ stærri hlutdeild á auglýsingamarkaði.



[13:34]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar um að kaup og varsla á takmörkuðu magni ávana- og fíkniefna, svokallaðra neysluskammta, verði heimiluð. Rétt í þann mund sem þjóðin er að brjótast út úr veirufaraldrinum áformar ríkisstjórnin að efna til eiturlyfjafaraldurs sem mun koma þyngst niður á ungu fólki. Læknar og lögregla leggjast fast gegn frumvarpinu. Embætti landlæknis ítrekar nauðsyn þess að meta áhrif, bæði tilætluð og óvænt. Tillaga sem þessi muni hafa áhrif á aðra einstaklinga og hópa en tilgreindir séu í frumvarpinu. Landlæknisembættið bendir á að í frumvarpinu komi hvergi skýrt fram tillaga eða áætlun um auknar forvarnir. Í niðurlagi spyr embættið: Hver er ávinningurinn með þessari breytingu? Læknafélag Íslands bendir á að hvergi í frumvarpinu sé gert ráð fyrir neinum hliðaraðgerðum sambærilegum þeim sem gripið hefur verið til í öðrum löndum sem hafa farið þá leið að lögleiða neyslu fíkniefna. Þá bendir Læknafélagið á að frumvarpið geri ekki tilraun til að skilgreina hvað sé neysluskammtur. Að mati ríkislögreglustjóra er, með því að gera vörslu fíkniefna refsilausa, gengið lengra en markmið frumvarpsins er, þ.e. hin svokallaða afglæpavæðing neysluskammta til eigin nota. Ríkislögreglustjóri leiðir í ljós að í þeim ríkjum sem talin eru hafa hvað mildasta löggjöf um fíkniefni er varsla fíkniefna refsiverð. Lögreglustjórinn á Norðurlandi segir, með leyfi forseta:

„Það er mat embættisins að hörðum refsingum sé ekki beitt fyrir vörslu fíkniefna á Íslandi. Þá er á það bent að neysla er ekki óheimil heldur varsla, sala, kaup o.s.frv.“

Af síðasttöldu umsögninni sést að frumforsenda málsins, að hverfa beri frá hörðum refsingum, stenst ekki. Þær eru ekki fyrir hendi. Samþykkt frumvarpsins væri eins og villidýri væri sleppt lausu á æskulýð landsins. Slíku slysi verður að afstýra.