151. löggjafarþing — 98. fundur
 19. maí 2021.
störf þingsins.

[13:02]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvar eigum við að fá fjármagnið? spyr fjármálaráðherra þegar málefni öryrkja og almannatrygginga ber á góma. Hann spyr ekki: Hvar eigum við að fá fjármagnið? í þessum ræðustól þegar fjölmiðlar fá 400 millj. kr. eða minkar 180 milljónir kr. eða við annan fjáraustur í boði ríkisins. Frítekjumark öryrkja ætti að vera 200.000 kr. og vel yfir það ef rétt væri gefið. Það er búið að skerða það um nærri 50% og það á líka við um hækkun á bifreiðastyrkjum, lyfjastyrkjum, hjálpartækjastyrkjum o.fl. Allt hefur þetta ekki hækkað í fjölda ára samkvæmt launavísitölu. Öryrkjabandalagið gerir einfaldar kröfur til þingflokka núna fyrir kosningarnar: Lífeyrir hækki, kjaragliðnun leiðrétt, framfærslugrunnur skilgreindur, almannatryggingakerfið einfaldað, fjölbreytt atvinnustefna, viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði, jafnt aðgengi að menntun, aukin fræðsla um fatlanir, nauðsynleg þjónusta við börn, geðheilsa barna og ungmenna forgangsmál, fjölgun húsnæðisúrræða, styrkir til breytinga húsnæðis, þjónusta heim, algild hönnun húsnæðis, aðgengi að almenningssamgöngum, stafrænt aðgengi að upplýsingum, lagagrundvöllur fyrir stafrænt aðgengi tryggður, niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu, lækkun greiðsluþátttöku heilbrigðisþjónustu, bætt fyrirkomulag hjálpartækja. Réttur til sjálfstæðs lífs, tryggjum fjármagn með réttindum, ekkert um okkur án okkar. Og númer eitt, tvö og þrjú að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

Öryrkjar og fatlað fólk eiga rétt á því að mannréttindi þeirra séu virt og eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og fyrsta flokks þegna en ekki eins og þriðja flokks afgangsþegna sem eru alltaf síðastir hjá ríkisstjórninni og alltaf er spurt: Hvar eigum við að fá fjármagnið til að hjálpa ykkur? Það er ekki spurt að því þegar verið er að borga okkar laun.



[13:04]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum þá hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,25 punkta núna í morgun. Það var nokkuð fyrirsjáanlegt. En á meðan erum við með ríkisstjórn í algerri afneitun þegar kemur að krónuhagkerfi okkar. Við í Viðreisn erum búin að benda á þessa hættu í langan tíma, en vart fengið áheyrn hjá ríkisstjórninni sem ekki hefur viljað viðurkenna þennan vanda. Ekki síst er það áhyggjuefni þegar við horfum til lengri tíma. Kerfisvandinn með krónuna er einfaldlega sá að verðbólgan hefur hækkað það mikið á meðan hagkerfið sjálft er á niðurleið. Þversögnin í krónuhagkerfinu er gríðarleg. Við Íslendingar einir þjóða höfum margfaldað verðbólguna hér á meðan aðrar þjóðir, sem lent hafa í sama áfalli, standa ekki frammi fyrir sama vanda. Við upplifum atvinnuleysi sem aldrei fyrr á meðan aðrar þjóðir standa ekki frammi fyrir sama vanda hlutfallslega.

En af því að verðbólga hefur hækkað og hagkerfið er á niðurleið þá þurfa vextir engu að síður samt að hækka að mati Seðlabankans áður en hagkerfið fer á fulla ferð aftur. Auðvitað auðveldar þetta ekki atvinnulífinu okkar, sem við þurfum svo sannarlega að styðja við, að hlaupa hraðar. Þetta setur fjárhag heimila í uppnám. Hættan er að vaxtahækkanir verði svo enn meiri þegar fram í sækir. Þannig að öll þessi húsnæðiskaup, sem ekki síst fyrstu kaupendur hafa staðið í, hafa verið gríðarleg áhættutaka fyrir þá. Svo vekur þetta auðvitað upp nýjar spurningar um lánskjör ríkissjóðs. Hækkar þetta þá allt? Við vitum að boðuð er 50 milljarða skattahækkun með fjármálaáætluninni. Hvað þýðir þetta til viðbótar við skattahækkun fyrir fólk og fyrirtæki til lengri tíma? Virðulegi forseti. Þetta er birtingarmynd kerfisvanda sem taka verður á þegar langtímaplön verða lögð varðandi viðreisn efnahagslífsins og ríkissjóðs, nokkuð sem við verðum að fara að taka á. Við getum ekki leyft okkur að vera í þessari afneitun lengur. Við verðum að taka á þessu, ellegar munu á endanum bæði heimilin og fyrirtækin blæða.



[13:07]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er nú farin að hlakka til þess að leiðin inn í þingsalinn styttist, sem verður vonandi fljótlega. En það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni hér í dag er hvítbók um byggðamál eða drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára, en þessi drög, eða hvítbók, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda síðasta mánudag. Ráðherra byggðamála skal leggja fram endurskoðaða áætlun á a.m.k. þriggja ára fresti og nú í júní verða þrjú ár liðin frá því að Alþingi samþykkti samhljóða gildandi byggðaáætlun. Því er fagnaðarefni að hvítbókin skuli komin fram en þar er drögum að stefnu um byggðamál lýst og kallað eftir sjónarmiðum sem flestra og hægt verður að senda inn ábendingar og umsagnir um hvítbókina til maíloka. Að afloknu samráði verður þingsályktunartillaga væntanlega lögð fyrir Alþingi.

Þessi áætlun hefur verið unnin í víðtæku samráði, m.a. á fjölda funda sem haldnir hafa verið á síðustu 12 mánuðum, bæði í aðdraganda grænbókar, sem er stöðumat í byggðamálum, og svo hvítbókar, þar sem stefnan er lögð fram. Þessir fundir hafa nú flestir farið fram með hjálp tækninnar sem er einmitt mjög mikilvæg fyrir framþróun í málefnum byggðanna.

Byggðaáætlun er og verður mikilvægt tæki til að vinna að jöfnum tækifærum allra landsmanna því að þó að aldrei hafi fleira fólk búið í landsbyggðunum utan höfuðborgarsvæðisins eykst hlutfall þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu miðað við fjöldann sem býr utan þess. Það felast mikil verðmæti í því fyrir samfélagið allt að eiga öflug smá og stór byggðarlög sem grípa tækifærin til verðmætasköpunar um land allt. Í áætluninni er svo að finna mörg áhugaverð verkefni, svo sem greiningu á bráðaviðbragði, jöfnun tækifæra til menntunar, starfsþróun starfsfólks leik- og grunnskóla og sjálfbær samfélög og margt fleira.



[13:10]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við lesum nú fréttir af íslenskri netverslun, eða netverslun með áfengi með íslensk tengsl, og átökum um hana. Ég ætla ekki að þykjast vita hvernig sú deila fer en staðan er sú að erlendir aðilar hafa auðvitað lengi stundað netverslun hér heima en innlendir ekki mátt. Vandræðagangurinn er bein afleiðing af því að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa skilað auðu í þessu máli um langan tíma. Áður hafði að vísu verið lagt fram frumvarp sem jafnaði leikinn milli innlendra aðila og erlendra. Hér var frumvarp um breytingar á áfengislögum sem boðaði bæði netverslun og sölu úr brugghúsum en netverslunin, sem var auðvitað stóra skrefið í málinu, hefur síðan horfið af dagskrá. Þessu frelsismáli treystir Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki til að tala fyrir lengur. Brugghúsavinkillinn, sem er fínn svo langt sem hann nær, er ekki stóra málið í þessu samhengi. Þungamiðja málsins, um heilbrigðara samkeppnisumhverfi og meira frelsi á markaði í þessum efnum, er horfin.

Þessi feimni við frelsi og heilbrigt samkeppnisumhverfi er reyndar ákveðið sterkt stef og áberandi hjá Sjálfstæðisflokknum sem talar oft á einn veg en starfar á annan. Auðvitað er það þannig að áfengi lýtur öðrum lögmálum en gilda um aðra vöru og aðra neysluvöru, það væri barnaskapur að viðurkenna það ekki. Það er auðvitað ástæða fyrir því að sérstakrar reglur hafa gilt um sölu áfengis og það er ástæða þess að ríkið, sem hagnast gríðarlega á sölunni, er um leið virkt í forvörnum gegn hættum vörunnar til verndar lýðheilsu. En þegar ríkið hefur tekið þá afstöðu að selja þessa vöru þá er ekki alveg hægt að líta fram hjá samkeppnislögmálunum og í pólitísku samhengi er heldur ekki hægt að tala eilíflega á einn veg um frelsismálin en standa aldrei með þeim þegar á reynir.



[13:12]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Síðan ég fékk svar við fyrirspurn um dagpeninga ráðherra árið 2018, þar sem fram kemur að engar upplýsingar liggi fyrir í ráðuneytinu um styrki og hlunnindi ráðherra og ráðuneytisstjóra í embættiserindum erlendis og ekki sé vitað til þess að styrkir eða hlunnindi hafi komið til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum, hef ég verið að reyna að fá botn í þetta mál í fjárlaganefnd, hvað eigi þá að gera til að ráðuneytin fari eftir reglum um dagpeninga. Að þegar ráðherra fer erlendis og fær skutl með ráðherrabílnum fái hann ekki dagpeninga fyrir það skutl eða þegar hann fær boð í kvöldverð eða eitthvað því um líkt fái hann ekki líka greidda fæðispeninga fyrir þann kvöldverð. Sama á við um okkur þingmenn. Ég hef farið eina ferð á vegum þingsins til Finnlands og þegar ég ætlaði að endurgreiða þá morgunverði og kvöldverði og hádegisverði sem ég fékk þar sem hlunnindi voru svörin að enginn vissi hversu mikið ég ætti að greiða til baka. Þetta var svolítið fram og til baka með skrifstofunni og ég endaði á því að borga 21.000 kr. til baka eða svo af 54.000 kr. fæðishluta dagpeninganna. Þetta var mjög upplýsandi um þær reglur sem hafa gilt hér síðan 2009, um það hvernig hlunnindi þingmanna eigi að vera meðhöndluð. Niðurstaðan var að þau eru það ekki.

Nú erum við ekki enn þá komin með botn í málið en minnisblað kom til fjárlaganefndar um það hver staðan á því væri og ég búinn að leggja fram tillögu um það hvernig eigi að vera hægt að klára þetta mál, að ráðuneytin fari einfaldlega fram á endurgreiðslu á þeim hlunnindum sem ráðherrar hafa fengið. Það verður gaman að sjá hvort þetta nái að klárast á þessu kjörtímabili.



[13:14]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Vextir Seðlabanka Íslands voru hækkaðir um fjórðung í morgun, verða 1% í stað 0,75%. Ástæða hækkunarinnar er mikil og viðvarandi verðbólga sem hefur verið meiri og þrálátari en spáð hefur verið. Ég hef nýlega bent á það að fasteignakaup á Íslandi í íslenska krónuhagkerfinu séu hrein og klár áhættufjárfesting. Fasteignaverð hefur hækkað mikið og slegið met frá árunum fyrir hrun. Verðbólga er í hæstu hæðum. Á sama tíma hefur sjaldan eða aldrei jafn mikill fjöldi ungs fólks streymt inn á fasteignamarkaðinn og ég hef miklar áhyggjur af því að vaxtabyrðin, greiðslubyrðin verði miklu meiri en lántakendur hafa reiknað með. Einhverjum kann að þykja að vaxtahækkunin nú, um 0,25 prósentustig, sé léttvæg. Svo er alls ekki. Sá sem skuldar t.d. 30 milljónir þarf að greiða 75.000 kr. meira í vexti á hverju ári og því miður er líklegt að frekari vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið. Í nýlegri hagspá Landsbankans er gert ráð fyrir því að stýrivextir Seðlabankans verði orðnir 2,75% í lok ársins 2023. Þá verður vaxtakostnaður af 30 millj. kr. láni orðinn 600.000 kr. hærri á hverju ári, eða um 50.000 kr. í hverjum einasta mánuði. Það er þess vegna rétt að hafa áhyggjur af skuldsettum heimilum, ekki síst hjá ungu fólki sem hefur spennt bogann til hins ýtrasta til að eignast eigið húsnæði. Stjórnvöld geta ekki firrt sig ábyrgð.



[13:16]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það eru vonbrigði að Seðlabanki Íslands hafi hækkað meðalvexti sína í morgun, en í raun og veru er bankinn hugsanlega nauðbeygður til þess arna vegna hárrar verðbólgu. Þessi verðbólga er af mannavöldum. Hv. þingmaður, sem hér talaði á undan mér, átti mjög góða ræðu í gær þar sem hann skammaði kollega sína í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir það að húsnæðisverð rýkur upp úr öllu valdi vegna þess að framboðið er ónóg. Þeir sem bera ábyrgð á því að framboðið er ónóg eru fyrst og fremst flokksfélagar hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar ásamt meðreiðarsveinum sem tekið hafa þann pól í hæðina að gera samkomulag við auðmenn um að byggja upp á dýrustu svæðum í Reykjavík þannig að ungt fólk, sem hv. þingmaður hefur skiljanlega áhyggjur af, getur ekki keypt sér íbúðir hér á höfuðborgarsvæðinu. En ég er glaður yfir því að hann hafi brýnt félaga sína til dáða í gær og aftur nú af því að þarna liggur hundurinn grafinn að hluta. Að þessu sinni er ekki við krónuna að sakast. Hún er búin að styrkjast verulega síðan í janúar þannig að þeim sem versla með innfluttar vörur er engin vorkunn að lækka þær. Það er mjög eftirtektarvert, herra forseti, að sú mynt sem er kannski þrjóskust við að lækka er breska sterlingspundið. Breskum efnahag hefur verið spáð bráðum dauðdaga undanfarið eftir að þeir losnuðu úr ofbeldissambandinu um síðustu áramót. Krónan hefur hins vegar styrkst um u.þ.b. 5% síðan í janúar að meðaltali og mönnum er engin vorkunn að láta þá lækkun koma fram í vöruverði og kveða þessa verðbólgu niður. Ég óttast hins vegar að þessi tímabundna hækkun Seðlabankans verði sprek á bálið, því miður.



[13:19]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Stefna Íslands er skýr, hafa ráðherrar ítrekað sagt undanfarna daga varðandi árásir Ísraelshers á Palestínu. En hvernig birtist hún í raun og veru? Lítum aðeins á alþjóðasviðið þar sem í yfirlýsingu Íslands á fundi öryggisráðsins í vikunni sagði, með leyfi forseta:

„Ísland fordæmir harðlega allar árásir á almenna borgara. Eldflaugaárásir frá Gaza á almenna borgara í Ísrael eru aldrei réttlætanlegar og þótt við viðurkennum rétt Ísraels til sjálfsvarnar þá verðum við að krefjast þess að gætt sé ýtrustu aðgátar og meðalhófs í valdbeitingu.“

Þarna er vissulega ofbeldi fordæmt almennum orðum. En hins vegar er Ísraelsher sýndur mikill skilningur og hann í raun bara beðinn að hemja sig aðeins. Hvað sem þetta er þá er þetta ekki skýr stefna um stuðning Íslands við palestínsku þjóðina. En hvað með hérna heima fyrir? Hvað með t.d. samstöðu með þeim einstaklingum sem hafa þurft að flýja átökin? Undanfarna daga hafa hellst yfir okkur fréttir af umsækjendum um alþjóðlega vernd sem íslensk stjórnvöld ætla að endursenda til Grikklands. Í þeim hópi er m.a. fólk sem fyrst flýði ástandið í Gaza, fékk hæli á Grikklandi en þurfti aftur að leggja á flótta úr ónýtu verndarkerfi Grikklands. Þessu fólki ætla íslensk stjórnvöld ekki einu sinni að sýna þá virðingu að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar. Hvernig birtist stefna Íslands gagnvart þessu fólki? Nú eru tíu umsækjendur um alþjóðlega vernd komnir á götuna eftir að Útlendingastofnun henti þeim út og svipti þá framfærslu. Skítt með mannúð og mannréttindi. Það á að svelta þetta flóttafólk til hlýðni þannig að hægt sé að pína það aftur í óboðlegar aðstæður í gríska hæliskerfinu. Hér er stefna Íslands: Út á guð og gaddinn.

Herra forseti. Það dugar ekki að fordæma ofbeldi almennum orðum en fara eins og köttur í kringum heitan grautinn við að gera eitthvað í alvöru.



[13:21]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það gerðust ákveðin tíðindi á fundi hv. utanríkismálanefndar í morgun. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd bókuðu eftirfarandi á fundi nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þingmenn utanríkismálanefndar fordæma hvers kyns árásir á óbreytta borgara í átökum undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna. Þingmenn leggja áherslu á að alþjóðalög og mannréttindi séu virt í hvívetna og að öryggi almennings sé tryggt. Ólíðandi er að loftárásum sé beitt gegn saklausum borgurum þar sem fjöldi barna hefur látið lífið í verstu stríðsátökum á svæðinu síðan 2014. Að sama skapi harma þingmennirnir að eldflaugaárásum sé beint gegn óbreyttum borgurum. Alþjóðasamfélagið verður að gefa skýr skilaboð um að leggja eigi niður vopn strax og að friðsamlegar lausnir í deilunni milli Ísraels og Palestínu séu eina lausnin. Ísland á í sérstöku sambandi við bæði Palestínu og Ísrael. Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis 2011, en Ísland lék einnig sérstakt hlutverk þegar Ísrael varð fullvalda ríki árið 1948. Þingmennirnir hvetja til þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi í kröfunni um tafarlaust vopnahlé og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir að neyðaraðstoð og hjálpargögn komist til nauðstaddra á svæðinu.“

Það vekur athygli, herra forseti, að þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins treystu sér ekki til að vera með á þessari bókun sem lögð var fram og samþykkt af þingmönnum hinna flokkanna. Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur tekið harða og einarða afstöðu með málstað Palestínumanna frá stofnun, og Framsóknarflokksins, sem hefur skýra sögu að segja þegar tekin hefur verið afstaða til sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna, og nefni ég þar Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins. Þetta eru vonbrigði. (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að þingmenn þessara flokka hafi ekki treyst sér til þess að taka einarða afstöðu með mannréttindum (Forseti hringir.) en hafi lagst undir hæl Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að veigra sér við því einfalda hlutverki að bóka á fundi utanríkismálanefndar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:24]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í gær og ræða pólitíkina. Ég hafði rætt aðeins um hið nýja yfirbragð sem komið er á marga Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn. Þeir hafa tekið upp málflutning okkar Miðflokksmanna í fjölmörgum málum, ég nefni sem dæmi andstöðu sumra þeirra við hálendisþjóðgarðinn, sem þeir eru þá bundnir af í stjórnarsáttmála. En athugið að jafnvel þótt þeir tali eins og Miðflokksmenn þá greiða þeir alltaf og ávallt atkvæði með vinstra liðinu. Einnig ræddi ég um heilbrigðiskerfið þar sem unnið er að fullkominni og grímulausri ríkisvæðingu allra þátta þess. Meira að segja þar hafa nokkrir úr fyrrnefndum hópi gagnrýnt þá vegferð sem hæstv. heilbrigðisráðherra er á, en með mun kurteisari og hógværari hætti en beitt var gegn þeirra eigin ráðherrum sem lent hafa í umbúðalausri orrahríð frá þessum sömu vinstri mönnum. Sjálfstæðisflokkurinn sýnist á harðaflótta frá eigin stefnu. Hann hefur breyst í hentistefnuflokk, segist berjast fyrir frelsi en er fastur í stjórnlyndishjónabandi með Vinstri grænum og Framsókn. Þannig hafa Sjálfstæðismenn orðið að sætta sig við að hæstv. heilbrigðisráðherra geri atlögu að öllum sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu.

Litlu verður Vöggur feginn. Nú kætast Sjálfstæðismenn yfir því að einkasölu ÁTVR sé breytt vegna götóttrar löggjafar fremur en að þeir hafi sjálfir staðið fyrir því að breyta því, og ætla svo að skreyta sig með fjöðrum frelsisins í því máli. Viðreisn er eins máls flokkur að því leyti að hann hefur haft af Samfylkingunni þeirra helsta baráttumál, að ganga í Evrópusambandið. Er Viðreisn flokkurinn sem þeir kjósa sem vilja ganga í Evrópusambandið? Og hvað er þá hægt að segja um Samfylkinguna? Sú fylking situr eftir sem einhvers konar hagsmunagæslubandalag háskólamenntaðs fólks sem hefur augljóslega ekkert samheiti við hinar vinnandi stéttir. Meira að segja gömlu borgaralegu kratarnir hafa verið hraktir úr flokknum og eru heimilislausir. Hvert fara þeir? Er verið að reisa þeim eitthvert heimili? Hvert er þessi fylking að fara, herra forseti? Það er næstum enginn munur á henni og Pírötunum. Það má varla á milli sjá. Sem merki um þetta er að tveir hv. þingmenn Vinstri grænna flúðu ríkisstjórnina. Fóru þeir hvor í sinn flokkinn, annar í Píratasöfnuðinn en hinn í raðir Samfylkingarinnar. Samt er ekki vitað til þess að á milli þessara hv. þingmanna sé nokkur minnsti málefnalegi munur. (Forseti hringir.) Er enginn munur á öllum þessum flokkum sem kennt hafa sig til vinstri í íslenskum stjórnmálum? (Forseti hringir.) Hvernig á venjulegur maður sjái muninn á þessu flokkakraðaki?



[13:26]
María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Getum við einu sinni hér á Íslandi horft til framtíðar? Getum við hætt að bregðast við og hætt að láta hagsmunaöfl stýra ferðinni? Getum við farið að nálgast atvinnuuppbyggingu út frá sjálfbærnimarkmiðum þar sem tillit er tekið til samfélagslegrar sjálfbærni, umhverfis og efnahags? Getum við farið að virða sjálfsákvörðunarrétt íbúa og skapa sátt um uppbyggingu á nýjum atvinnuvegum um allt land? Já, herra forseti, ég er að tala um uppbyggingu í tengslum við fiskeldi. Samkvæmt nýrri skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi er tekið fram að gert sé ráð fyrir að verðmæti í fiskeldi fimmfaldist og verði 125 milljarðar kr. árið 2030. Á Vestfjörðum er fiskeldi helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins. Störfum hefur fjölgað hratt auk þess sem ný störf hafa orðið til tengd fiskeldinu. Á næstu árum er gert ráð fyrir að allt að 20% starfa fyrir vestan tengist með beinum hætti fiskeldi. Sveitarfélögin á Vestfjörðum vinna nú að samfélagssáttmála um fiskeldið sem verður kynntur á næstu vikum. Fjarðabyggð hefur myndað stefnu sem er til fyrirmyndar en til að hún og samfélagssáttmálinn á Vestfjörðum virki vel þarf Alþingi að samþykkja lög og reglugerðir sem vinna með hagsmunum sveitarfélaga og ekki síst íbúa. Það er afar mikilvægt að það sé tryggt að skipulagsvald sé á borði sveitarfélaganna og að sveitarfélögin vinni vel með íbúum. Það eru til alls konar stefnur þar sem fiskeldi kemur fyrir en engin heildarstefna er til varðandi fiskeldi sem framtíðaratvinnugrein.

Herra forseti. Við verðum að vera með almennilega stefnumótun um hvernig atvinnugreinin á að vaxa. Hættum að bregðast við og lítum á alla hagsmuni og horfum til framtíðar.



[13:28]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir það sóun að ætla að stöðva hraunið með varnargörðum. Hafist var handa í gær við að hækka varnargarða á gosstöðvunum upp í 8 metra hæð eftir að ríkisstjórnin samþykkti að verja 20 millj. kr. til verksins. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur telur þetta sóun og að engin leið sé að stöðva hraunið með varnargörðum. Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ríkisstjórnin samþykkti fyrir helgi gerð 4 metra hárra varnargarða á gosstöðvunum. Hún samþykkti svo í gær að þeir færu upp í 8 metra hæð og var byrjað strax á því að hækka garðana.

„Eins og málið lítur út í dag þá virðist þessi framkvæmd vera út í hött. Það hraun sem er að renna þarna ætlar ekkert að fara þá leið sem menn vilja að það fari“, segir Páll Einarsson, sem á að baki hálfrar aldar vísindaferil og er prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Hann segir hraun almennt renna undan halla. „Það er núna halli á þessum varnargörðum, sem komnir eru. Ef hraunið ætlar að fara þá leið, þá fer það þá leið. Það er engin leið að breyta því.“

Þetta hraun er ekkert á leið niður í Meradali, segir prófessorinn, það allra versta sem gæti gerst er að það færi yfir Suðurstrandarveg og veg í gegnum svona hraun er mjög auðvelt að laga eftir á.

Ég spyr því: Af hverju var ekki haft samband eða samráð við sérfræðing, jarðeðlisfræðing, í undirbúningi eða í umræðu um hvernig hægt er að nálgast slíkar náttúruhamfarir eins og verið er að gera þarna?



[13:30]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er hryllingur og því þarf að linna strax. Menn, konur og börn, óbreyttir borgarar, láta lífið á degi hverjum. Þetta er óásættanlegt. Alþjóðasamfélagið kallar eftir vopnahléi og við hér á Íslandi tökum að sjálfsögðu undir það ákall. Þessum hryllingi verður að linna. Deilur Ísraela og Palestínumanna verða ekki leystar með vopnum. Þar er leikurinn ójafn. Vopnuð átök eru aldrei til þess fallin að leysa neinn vanda. Nauðsynlegt er að semja um vopnahlé strax. Alþjóðalög þarf að virða og mannréttindi á að virða.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa nýtt samtöl sín við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og annarra ríkja, sem hér dvelja nú á fundi Norðurskautsráðsins, til að ítreka þessi skilaboð. Alþjóðasamfélagið verður að gefa skýr skilaboð um að leggja eigi niður vopn strax og friðsamlegar lausnir í deilunni milli Ísraels og Palestínu eru eina lausnin. Við höfum fordæmt landtöku Ísraelsmanna. Hún er ólögleg.

Framtíðarlausnin byggir á tveggja stoða lausn þar sem bæði Ísrael og Palestína lýsa yfir áhuga á að vinna að. Flestar bandalagsþjóðir okkar hafa tekið undir þá framtíðarsýn og það hefur verið stefna Íslands í málinu. Það virðist vera eina lausnin þar sem eygir von um að friður geti ríkt á svæðinu til framtíðar. Fleiri börn mega ekki láta lífið í þessum átökum. Vopnahlé strax.



[13:32]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get tekið heils hugar undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var að segja um stríðið og átökin í Ísrael og Palestínu. Ég ætlaði að fjalla um allt annað mál. Ég ætlaði að fjalla um húsnæðismál af því að húsnæðismál eru mannréttindi. Það gleymist stundum í umræðu um vaxtahækkanir og vaxtalækkanir, verðtryggð og óverðtryggð lán og kaupenda- og seljendamarkað að öllum er nauðsynlegt að hafa skjól yfir höfuðið. Mér finnst því eðlilegt að spyrja hvort það ætti yfir höfuð að fara með húsnæði sem fjárfestingar hvar gróðasjónarmið ráða fyrst og fremst för, hvort það sé réttlátt að fjársterkir aðilar kaupi upp húsnæði á brunaútsölu, sitji síðan á því án þess einu sinni jafnvel að leigja það út, skapi skort og selji síðan með miklum gróða; hvort húsnæðisverð eitt og sér ætti að ráða því hvar á landinu fólk velur að búa og hvort við viljum ekki vera með manneskjulegri húsnæðismarkað þar sem þarfir fólks ráða för en ekki markaðarins og fjármagnsins.

Við höfum sannarlega fært okkur í átt að mannúðlegri húsnæðismarkaði síðastliðin ár með uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu, breytingum á húsaleigulögum og hlutdeildarlánum. Á næsta kjörtímabili verðum við að halda þeirri vegferð áfram. Við getum t.d. velt því upp hvort mætti fara að fordæmi þjóða eins og Dana og Norðmanna og setja skilyrði um búsetuskyldu í húsnæði til að tryggja að fjársterkir aðilar sanki ekki að sér húsnæði án þess að það sé leigt út. Við eigum að setja aukinn kraft í uppbyggingu almennra íbúða og skapa burðugt kerfi þeirra um land allt. Jafnvel mætti skoða að rýmka tekjuskilyrðin enn meira þegar kerfið leyfir það. En það skiptir líka máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Við í VG munum svo sannarlega beita okkur fyrir því að skapa húsnæðismarkað sem tryggir öllum mannsæmandi húsnæði með samfélagslegar lausnir að leiðarljósi og þá grundvallarhugsun að húsnæði sé mannréttindi.



[13:34]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Bráðatilfellum hjá BUGL hefur fjölgað um 30–40% síðastliðin ár. Fleiri átröskunartilfelli hafa komið upp og auk þess mjög alvarleg neteineltismál. Við sem setjum stefnuna, kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum, þurfum og verðum að spyrja okkur hvers vegna þessi þróun hefur orðið. Haft var eftir Birni Hjálmarssyni, sérfræðingi á BUGL, að mun fleiri börn og ungmenni hefðu komið inn á deildina á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Biðlistar lengjast, bæði í Reykjavík og á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Björn Hjálmarsson segir í viðtali við Vísi að hugsanlega séum við að fá afleiðingar bankahrunsins í hausinn eða að sú einangrun og skert skólahald sem var í Covid hafi þessi áhrif. Það segir okkur hversu mikilvægir skólarnir okkar eru. Svo bætir Björn við að mögulega hafi aukin skjánotkun barna og ungmenna þessi áhrif. Þrátt fyrir að við greinum skjáfíkn í greiningarkerfunum okkar vil ég taka undir ákall Björns, það vantar að setja skjánotkun barna og ungmenna inn í lýðheilsurannsóknir og lýðheilsuvísa. Ég vil skora á landlæknisembættið að bregðast við þessu ákalli.

Ég fagna þess vegna vinnu barna- og félagsmálaráðherra um endurskoðun málefna varðandi börn og ungmenni, bæði með nauðsynlegum kerfisbreytingum og auknu fjármagni. Við erum að fást við fíkn, skjáfíkn. Við sækjumst eftir viðurkenningu, samþykki og að tilheyra. Hvernig eigum við að aðstoða börnin okkar og ungmenni, sem þrá jafn mikið og við fullorðna fólkið, eða meira, að fá alla þá viðurkenningu sem felst í færslum og lækum? Þurfa þau allt þetta áreiti, eins og í nýjasta stigaleiknum í sumar þar sem maður fær 2 stig fyrir vinabeiðni, 5 stig fyrir að senda „flex“-mynd — það er nú ekki líklegt hér — 10 stig fyrir fyrirspurn á Snapchat og Instagram o.s.frv., allt að 40 stig, og svo á maður að deila þessu. Stjórnmálaflokkarnir kortleggja fólk sem má kjósa, en hverjir eru það sem kortleggja börnin okkar?