151. löggjafarþing — 102. fundur
 27. maí 2021.
lífeyrir almannatrygginga og neysluviðmið.

[13:08]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu kom út skýrsla um kjör lífeyrisþega eftir Stefán Ólafsson og Stefán Andra Stefánsson. Það er afar athyglisvert að bera saman niðurstöður skýrsluhöfunda og fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um almannatryggingakerfið. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað sagt að ekki hafi verið hægt að draga frekar úr tekjuskerðingum vegna þess að nýta þurfi fjármagn til þess að aðstoða þá sem minnst hafa milli handanna. Hins vegar benda höfundar umræddrar skýrslu á að óskertur lífeyrir almannatrygginga geti engan veginn staðið undir framfærslukostnaði. Skýrsluhöfundar uppreiknuðu neysluviðmið stjórnvalda og áætluðu ofan á hóflegan leigukostnað, enda er húsnæðiskostnaður ekki inni í neysluviðmiðinu. Samkvæmt þeim útreikningum er framfærslukostnaður einhleyps lífeyrisþega 353.000 kr. á mánuði. Svo segja skýrsluhöfundar orðrétt, með leyfi forseta:

„Einstaklingur með hámarkslífeyri frá TR, en ekkert annað í tekjur, greiðir um 50 þúsund krónur á mánuði í tekjuskatt og því verða eftir 282.466 krónur í ráðstöfunartekjur. Það þýðir að í hverjum mánuði vantar viðkomandi um 70 þúsund krónur til að ná ofangreindu framfærsluviðmiði stjórnvalda. Jafnvel þótt viðkomandi lífeyrisþegi væri öryrki með fulla aldursbundna uppbót (tæpar 50 þúsund krónur) þá dugir það ekki til að fleyta honum/henni upp fyrir framfærsluviðmiðið. Til að ná endum saman þurfa viðkomandi lífeyrisþegar því að finna sér óvenju ódýran húsnæðiskost eða stóla á matargjafir hjálparsamtaka.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvers vegna stendur óskertur lífeyrir almannatrygginga ekki undir grunnframfærslu? Það vanar 70.000 kr. og allt upp í 140.000 kr. ef þeir verst settu, sem eru með rúmlega 200.000 á mánuði eftir skatta, eru teknir inn í. Þetta er ekkert annað en sárafátækt og svelti og gjörsamlega vonlaust að lifa svona. Hvers vegna er ekki búið að reikna út rétta mannsæmandi framfærslu sem dugar til þess að lifa af án þess að fólk svelti og þurfi að búa í ósamþykktum íbúðum og óhæfu húsnæði og það með börn?



[13:11]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Umrædd skýrsla var rædd á ágætu málþingi sem Öryrkjabandalag Íslands stóð fyrir í gær og það er margt athyglisvert í þeirri skýrslu og mörg leiðarljós sem við getum nýtt í þeirri vinnu sem er í gangi og hefur verið í gangi og munum gera það. Þegar hv. þingmaður spyr að því hvers vegna ekki hafi verið gert meira í málefnum örorkulífeyrisþega þegar kemur að því að hækka grunnframfærslu og hækka fjárframlög til þessa málaflokks þá veit hv. þingmaður það jafn vel og sá sem hér stendur að þegar kemur að því að bæta kjör þessa hóps er grundvallaratriði að við náum að gera ákveðnar kerfisbreytingar á kerfinu líka. Hann hefur sjálfur lýst því, og ég tek undir með honum með það, að kerfið er orðið ægiflókið og innbyrðis skerðingar á milli einstakra flokka o.s.frv. eru þannig að þær eru illskiljanlegar. Þess vegna höfum við lagt áherslu á endurskoðun á kerfinu samhliða því sem bætt er í.

En mér finnst það líka hljóma hjá hv. þingmanni eins og ekkert hafi verið gert á þessu kjörtímabili og það er einfaldlega rangt vegna þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur bætt fjármagni inn í kerfið. Við höfum sett inn 4 milljarða í nýju fjármagni. Við höfum sett fjármagn í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, tannlæknakostnað, skattkerfisbreytingar; allt sem miðar að því að ná til þessa hóps. En samhliða því sem við bætum síðan inn í nýtt kerfi, og það var ástæðan fyrir kerfisbreytingunni, þurfum við að ná að draga úr nýgengi örorku. Það þarf að skoða allar þessar tölur í því samhengi. Við erum kannski að ná aðeins árangri í því núna með þeirri aukningu sem hefur verið í endurhæfingu en ekki í nýgengi örorku (Forseti hringir.) vegna þess að það er mjög mikið af fólki í íslensku samfélagi sem við viljum geta aðstoðað til að halda sér áfram á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Það er forsendan fyrir því líka að við getum hækkað hjá þeim sem því miður þurfa að nýta sér öryggisnet samfélagsins í gegnum örorkulífeyri.



[13:13]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ísland er með heimsmet í skerðingum og það er bætt inn í kerfið. En ef þú bætir inn í kerfið þá er bara skert annars staðar, það skilar sér ekki. Það sem er kannski furðulegast er að svör ráðherra sýna fram á 5 milljarða skerðingu á ári í tíð þessarar ríkisstjórnar, 20 milljarðar í heildina. Ég spyr líka, af því að hann svaraði því ekki: Hvers vegna í ósköpunum er ekki reiknað út rétt framfærsluviðmið? Hvers vegna viljið þið ekki að hafa rétt framfærsluviðmið sem gæti komið í veg fyrir að fólk svelti? Eigum við ekki a.m.k. til bráðabirgða að hækka framfærslu almannatrygginga tímabundið, hækka frítekjumörkin svo fólk nái endum saman meðan vinna fer í gang við að endurskipuleggja kerfið sem við erum þó sammála um að er meingallaður bútasaumaður óskapnaður.



[13:14]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kannski svolítið fast að orði kveðið að tala um að kerfið sé óskapnaður. Kerfið hefur verið þannig að gerðar hafa verið margvíslegar breytingar á því í gegnum árin og áratugina sem (Gripið fram í.) ekki hafa verið gerðar af slæmum hug, hvort sem það hefur verið af núverandi ríkisstjórn eða þeim sem áður hafa verið í stjórn. En þegar hv. þingmaður talar um skerðingar þá verðum við líka að skoða raunaukningu í greiðslum í gegnum kerfið til örorkulífeyrisþega, raunheildargreiðslurnar hafa farið úr tæpum 50 milljörðum á fjórum til fimm árum upp í tæpa 80 milljarða. Af því að þingmaðurinn var að taka heildarskerðingargreiðslurnar og hvernig þær hefðu vaxið þá væri heiðarlegt hjá þingmanninum líka að taka það fyrir hvernig raunaukningin hefur verið, nánast tvöfaldast á fimm árum á verðlagi hvers árs til málaflokksins. Það sýnir okkur að kerfið grípur. En þarf að gera breytingar? Þarf að fara í kerfisbreytingar? (Forseti hringir.) Já, þess þarf og ég og hv. þingmaður erum sammála um það og ég hef áður lýst vonbrigðum mínum með að ekki skyldi takast samkomulag um það fyrr á þessu kjörtímabili. (Forseti hringir.) En ég held að við hv. þingmaður séum sammála (Forseti hringir.) um að það þarf að fara í þær breytingar.