151. löggjafarþing — 102. fundur
 27. maí 2021.
fiskeldi, matvæli og landbúnaður, 2. umræða.
stjfrv., 549. mál (einföldun regluverks). — Þskj. 916, nál. m. brtt. 1439.

[19:18]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar (einföldun regluverks). Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar. Lagt er til að starfsumhverfi í fiskeldi verði einfaldað, sérstaklega fyrir minni framleiðendur, auk þess sem lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að auka skilvirkni stjórnsýslu og skýra regluverk til hagsbóta fyrir atvinnulíf og samfélag. Frumvarpið er liður í þriðja og síðasta áfanga aðgerðaáætlunar um einföldun regluverks á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og er samið í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Um efni og markmið frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.

Varðandi forsögu að þeim breytingartillögum sem nefndin flytur við 2. umr. vil ég nefna í fyrsta lagi einföldun stjórnsýslu fyrir smærri aðila í fiskeldi. Lagðar eru til breytingar á lögum um fiskeldi sem eiga að koma til móts við minnstu aðilana í fiskeldi, þ.e. landeldi með allt að 20 tonna hámarkslífmassa, þar sem starfsemin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í stað skilyrðis um rekstrarleyfi verði hluti slíkrar starfsemi skráningarskyldur og þannig dregið úr kostnaði við leyfisveitingar til smærri aðila. Í reglugerð verði nánar kveðið á um skilyrði og forsendur slíkrar skráningar. Meiri hlutinn telur jákvætt að lagðar séu til breytingar til einföldunar stjórnsýslu fyrir smærri aðila í fiskeldi og undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að gerður sé greinarmunur á fiskeldisframleiðendum með fiskeldisstöðvar og þeim smærri í landeldi.

Þá að nánari umfjöllun nefndarinnar. Í 18. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 63. gr. laga um náttúruvernd sem tekur til innflutnings lifandi framandi lífvera. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að skýra þurfi hvort með breytingunni sé lagt til að fella niður 2. málslið 1. mgr. ákvæðisins eða hvort hann verði að 3. málslið. Að mati stofnunarinnar skyldi ekki fella brott 2. málslið sem fæli í sér heimild til að banna með reglugerð innflutning tiltekinna framandi lífvera. Þá þurfi að leiðrétta tilvísanir til málsgreina í frumvarpsgreininni.

Meiri hlutinn bendir á að með a-lið 18. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalag 2. málsliðar 1. mgr. 63. gr. laga um náttúruvernd breytist og verði eins og þar segir. Verði frumvarpið að lögum fellur 2. málsliður gildandi ákvæðis þar með brott en verður ekki að 3. málslið. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að samkvæmt b-lið 18. gr. frumvarpsins kemur ný málsgrein á eftir 1. mgr. lagaákvæðisins sem kemur í stað gildandi 2. málsliðar 1. mgr.

Í fjórða lagi fjallaði nefndin um breytingar á skipan fagráðs um velferð dýra. Með 26. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. gr. laga um velferð dýra, ráðherra skipi fagráð um velferð dýra í stað þess fyrirkomulags sem nú er. Samkvæmt gildandi ákvæði staðfestir ráðherra skipan ráðsins en aðrir fulltrúar en formaður eru skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndunarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að slík breyting væri skref aftur á bak í málefnum dýravelferðar þar sem hætta væri á að fagleg sjónarmið vikju fyrir skilvirkri stjórnsýslu. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi í fagráðið með hliðsjón af faglegum þáttum og að almennt verði leitað til þeirra aðila sem nefndir eru í gildandi lagaákvæði. Meiri hlutinn telur mikilvægt að dýraverndarsjónarmið séu í forgrunni við skipan í fagráð um velferð dýra og áréttar að fram kemur í greinargerð að ráðherra leiti áfram til þeirra aðila sem tilgreindir eru í gildandi lagaákvæði auk þess sem unnt verði að leita til annarra aðila með fagþekkingu á málefnasviðinu.

Virðulegi forseti. Síðan kemur hér í nefndaráliti okkar reifun á þeim breytingartillögum sem við gerum í framhaldi af þeirri umfjöllun sem ég hef nú rakið. Í fyrsta lagi er breyting á lögum um fiskeldi þar sem við náum utan um þau umfjöllunarefni sem ég las áður upp, í öðru lagi breyting á lögum um fjallskilasamþykktir og í þriðja lagi breyting á lögum um matvæli sem ég vil gera nánari grein fyrir. Meiri hlutinn leggur til, að beiðni ráðuneytisins, breytingu á 13. gr. f laga um matvæli. Tillagan er sett fram til samræmis við áherslur um að ýta undir möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli til að styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra. Um nánari rökstuðning fyrir þessari breytingu má vísa til nýsettrar reglugerðar um starfrækslu heimasláturhúsa og eftirlitskostnað þeim tengdan.

Nefndin gerir líka breytingartillögu um brottfall laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, nr. 43/1998. Um tvo sjóði er að ræða samkvæmt 8. og 9. gr. laganna. Meiri hlutinn leggur til að lögin verði felld brott í heild sinni enda hafi þau ekki lengur þann tilgang sem lagt var upp með þegar þau voru sett árið 1998. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður eignum sjóðs samkvæmt 8. gr. laganna þá ráðstafað til ríkissjóðs. Í lögunum var gert ráð fyrir að hægt væri að ráðstafa árlega úr sjóðnum til síldarrannsókna og bendir meiri hlutinn á að tryggja þurfi hækkun á ramma Hafrannsóknastofnunar um 10–12 millj. kr. árlega sem nýttar væru til rannsókna á uppsjávarstofnum. Sjóður samkvæmt 9. gr. starfar áfram samkvæmt skipulagsskrá.

Virðulegur forseti. Ég hef þá rakið breytingartillögur nefndarinnar og undir þetta nefndarálit skrifar meiri hluti nefndarinnar; Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.