151. löggjafarþing — 107. fundur
 4. júní 2021.
breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld , 2. umræða.
stjfrv., 697. mál (nýsköpun, arður, yfirskattanefnd o.fl.). — Þskj. 1176, nál. 1565, breytingartillaga 1566 og 1570.

[15:00]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, arður, yfirskattanefnd o.fl.).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem hafa það m.a. að markmiði að styrkja og efla skattalegt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, einstaklinga og annarra lögaðila. Þá eru lagðar til nokkrar leiðréttingar og breytingar á lögum á sviði skattamála.

Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fengum á fund okkar fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, KPMG og Skattinum. Jafnframt bárust umsagnir frá KPMG og Skattinum. Nefndin fékk líka minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Við gerum smá breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir. Ég ætla að reyna að fara yfir þær án þess að lesa allt álitið en breytingarnar lúta m.a. að skattlagningu og kauprétti hlutabréfa sem er þá 1. gr. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði rýmkuð þannig að kveðið verði á um að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja, sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í viðkomandi félagi, fái notið frestunar á skattalegri meðferð kaupréttar þar til bréfin eru seld. Sama regla gildir samkvæmt 9. gr. laganna um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila.

Í umsögn KPMG kemur fram það sjónarmið að rökrétt sé að til skattlagningar kaupréttartekna samkvæmt 9. gr. komi við eignayfirfærslu hluta óháð því hvernig yfirfærsluna ber að, svo sem við gjöf, slit á fjárfélagi hjóna eða við arftöku. Kynni því að vera ástæða til að huga að því hvort eignaryfirfærsla hluta með öðrum hætti en við sölu skuli leiða til skattlagningar frestaðra kaupréttartekna.

Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur í samráði við ráðuneytið til breytingu þess efnis að til skattlagningar samkvæmt 9. gr. laga um tekjuskatt komi við eigendaskipti á viðkomandi hlutabréfum, óháð því hvernig eignatilfærsluna beri að.

Varðandi 2. gr. eða skipti á hlutabréfum segir: Í síðari efnismálslið 2. gr. er lagt til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar sem myndast þegar hlutabréfum er skipt fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga um tekjuskatt að öllu leyti teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið ákvæðisins sé m.a. að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að endurskipuleggja eignarhald sitt vegna aðkomu fjárfesta. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til að ákvæðinu verði breytt þannig að það komi eingöngu til móts við ung fyrirtæki, þ.e. sprotafyrirtæki sem eru að hefja starfsemi sína

Virðulegur forseti. Uppi voru miklar vangaveltur um hvernig ætti að skilgreina það en með hugtakinu sprotafyrirtæki vorum við að leggja til að þar væri átt við félag sem fellur undir 3. tölulið 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, er innan stærðarmarka 2. töluliðar 3. mgr. 1. töluliðar B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, hefur fyrir skiptin varið meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi og er stofnað í þeim tilgangi. Ráðherra verði falið að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð.

Til viðbótar leggur meiri hlutinn, í samráði við ráðuneytið, til breytingu þess efnis að í stað frestunar á skattlagningu hagnaðar sem myndast við skiptin hafi skiptin sem slík ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem lét hlutabréf í sprotafyrirtæki af hendi. Þess í stað ákvarðast kaupverð þeirra hlutabréfa sem viðkomandi eignaðist við skiptin jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa sem hann lét af hendi. Þeirri breytingu er fyrst og fremst ætlað að einfalda framkvæmd og tryggja samræmi við önnur ákvæði laga um tekjuskatt.

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort margir hafi skilið það sem ég var að lesa upp núna, enda málið kannski svolítið flókið. En til að reyna að segja þetta á mannamáli þá erum við með þessum lið breytinganna að reyna að auðvelda fyrirtækjum, við erum sérstaklega að horfa til nýsköpunarfyrirtækja, að fjármagna sig. Það er oft þannig að fyrirtæki sameinast á þessu ferli sínu, þessu sprotaferli, og þetta er spurning um hvernig þeirri sameiningu er háttað, þ.e. skattlagningu á því þegar aðili er að taka við hlutabréfum í öðru og leggur kannski hlutabréf í öðru félagi inn í annað og við vitum að í þessu ferli eru oft ýmiss konar sameiningar. Vilji ráðuneytisins og vilji nefndarinnar stóð til þess að gera þetta einfalt og auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að vaxa og dafna. Það er engu að síður svoleiðis að við veltum þessum lið töluvert fyrir okkur og ákveðnar ábendingar komu í þá átt að við ættum ekki að vera að afmarka okkur endilega við sprotafyrirtæki, að reyna að skilgreina nýsköpun eða annað þess háttar. Þeirri sem hér stendur hugnaðist þær tillögur reyndar nokkuð vel. Þá komu upp áhyggjur af því að það gæti mögulega valdið einhvers konar skattsniðgöngu. Það er alls ekki það sem við viljum. Sú niðurstaða sem hér er skrifuð inn er samstarf Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og okkar ágætu nefndarritara til að ná utan um vilja okkar. Það er engu að síður svo að okkur hafa borist ábendingar, eftir að við afgreiddum þetta nefndarálit út úr nefnd, um að þessi leið kunni að vera of þröng og einskorðast við of fá fyrirtæki. Þess vegna óskum við eftir því að þetta mál fari aftur inn í nefnd milli umræðna svo við fáum tækifæri til að hlusta á þær athugasemdir og sjá hvort við getum komið til móts við þær.

Þá, virðulegur forseti, ætla ég að halda áfram með aðra liði í þessu nefndaráliti er varða framlagningu skattskráa. Eins og áður sagði er verið að taka á ýmsum öðrum málum líka í þessu frumvarpi en það eru sem sagt þessar tvær greinar einna helst sem lúta að nýsköpunarvinklinum.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dagsettu 10. maí 2021, er lagt til að tímabundin undanþága Skattsins frá skyldu til framlagningar álagningarskrár, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LXVI við lög um tekjuskatt, verði framlengd og gildi á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020. Að auki leggur ráðuneytið til að virðisaukaskattsskrár vegna áranna 2018, 2019 og 2020 skuli leggja fram eigi síðar en 31. maí 2022.

Forsendur fyrir tímabundinni undanþágu Skattsins frá skyldu til framlagningar skattskráa voru, við lögfestingu undanþágunnar, þær að vegna heimsfaraldurs kórónuveiru væri óæskilegt að kveða á um skyldu til framlagningar álagningarskrár vegna þess fjölda sem gerir sér ferð í afgreiðslu Skattsins ár hvert. Það var sem sagt eins konar Covid-sóttvarnaaðgerð.

Meiri hlutinn telur ekki tilefni til að slá því föstu að þörf sé á framlengingu undanþágunnar en hefur á því skilning að aðstæður kunni að breytast með skömmum fyrirvara. Í stað fortakslauss brottfalls skyldunnar leggur meiri hlutinn til að ríkisskattstjóra verði heimilt að fresta framlagningu skránna með samþykki ráðherra. Skilyrði fyrir frestun er að hún sé nauðsynleg vegna aðstæðna sem leiði af heimsfaraldri kórónuveiru. Við skulum bara vona að alls ekki þurfi að beita því skilyrði.

Þá eru hér breytingar í samræmi við minnisblað sem nefndinni barst frá ráðuneytinu. Í téðu minnisblaði, sem dagsett var 10. maí, eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gerir að sínum.

Lagt er til að 3. mgr. 49. gr. laga um tekjuskatt verði endurorðuð þannig að skýrt verði tekið fram að vextir af fjármálagerningum, sem fara skal með sem fjárskuld í reikningsskilum en sem uppfylla á sama tíma kröfur sem gerðar eru til viðbótar eiginfjárþáttar 1 samkvæmt 84. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, teljist frádráttarbærir sem vextir samkvæmt 1. mgr. 1. töluliðar 31. gr.

Þá er lagt til að kveðið verði á um að um laun og önnur launakjör skattrannsóknarstjóra fari eftir ákvæði 39. gr. og 47. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Vísar meiri hlutinn til minnisblaðs ráðuneytisins um útskýringar á breytingunum en það minnisblað er að finna undir þessu máli á vef þingsins.

Þá erum við með tillögu hér er varðar próf til viðurkenningar bókara. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki, nr. 27/2021, var gerð sú breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994, að 43. gr. laganna, sem kvað á um viðurkenningu bókara, féll brott. Við lögin bættist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið var á um að þeir sem hefðu lokið fyrsta prófhluta prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2021 skyldu eiga þess kost að ljúka öllum prófhlutum fyrir 1. apríl 2024. Nefndin hefur orðið þess áskynja að ákvæðið feli í sér óþarflega umfangsmikla takmörkun á rétti til að ljúka prófi, þar sem rétturinn er skilyrtur við þá sem höfðu lokið fyrsta prófhluta fyrir 1. apríl 2021.

Í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að þeim sem það kjósa skuli gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024. Það er í rauninni ákvæði sem nefndin hugðist bæta inn við afgreiðslu á þessu frumvarpi milli umræðna en það fórst fyrir þannig að við lagfærum það hér með.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Oddný G. Harðardóttir og Jón Steindór Valdimarsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.

Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Virðulegur forseti. Ég vona að mér hafi tekist að gera það eins skýrt eins og kostur er út á hvað þetta mál gengur. Eins og ég sagði áðan óskum við eftir því að málið fari aftur inn í nefnd og það lýtur sérstaklega að skiptum á hlutabréfum og skilgreiningu á því hvers konar fyrirtæki gætu nýtt sér þá ráðstöfun sem hér er lögð til.

Frumvarp þetta má rekja til nýsköpunarstefnu stjórnvalda fyrir Ísland sem markaði ákveðna sýn til ársins 2030. Í stefnunni er sett fram það markmið að árið 2030 verði Ísland samfélag þar sem nýsköpun verði inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki, samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér séum við með mjög mikilvægt og gott mál. Það er auðvitað bara eitt af mjög mörgum málum sem við höfum verið að afgreiða og tengjast nýsköpunarstefnunni og stefnu stjórnvalda um að ýta hér undir rannsóknir, þróun og nýsköpun. Ég vænti þess að við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd verðum fljót að fara yfir þær athugasemdir sem hafa borist og vænti þess að við náum að afgreiða þetta mál endanlega á þessu þingi svo það verði að lögum. Ég tel að það skipti okkur mjög miklu máli að byggja hér undir fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og það verður gert best gert með því að búa til umhverfi þar sem fólk og fyrirtæki hafa svigrúm til að nýta tækifæri sín, skapa ný tækifæri og búa þannig til hluti, þjónustu og atvinnu fyrir íslenskt samfélag.



[15:14]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um meginefni þessa frumvarps heldur ætla ég að fjalla um það sem í heiti þess fellur undir „og fleira“-hlutann vegna þess að í þessu frumvarpi, fyrir utan það sem snýr að nýsköpun og því öllu, eru líka leiðréttingar á nokkrum gjöldum sem eru innheimt til ríkisins. Í fyrsta lagi er gengisuppfærsla á gjaldtöku vegna vegabréfsáritana. Í öðru lagi er hækkun á gjaldi vegna skráninga félaga til almannaheilla, sem m.a. leiðir af þeim lögum sem voru samþykkt hér í salnum í fyrra varðandi þau félög. Í þriðja lagi er lagt til að bæta við nýrri heimild til gjaldtöku fyrir útgáfu könnunarvottorðs vegna frumvarps dómsmálaráðherra um bann við barnahjónaböndum. Mig langar að bæta við fjórðu leiðréttingunni, á gjaldtökuheimild samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ég hef lagt fram breytingartillögu þess efnis sem liggur hér fyrir og langar að gera grein fyrir henni. Þar er lagt til að fella niður gjaldtöku samkvæmt 26. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, sem eru gjöld sem Þjóðskrá innheimtir vegna leyfis til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn, og hins vegar leyfi til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði.

Mig langar aðeins að gera grein fyrir forsögunni vegna þess að ég held við megum alveg gleðjast sem oftast yfir því að hér á Alþingi hafi verið samþykkt mjög framsýn lög um kynrænt sjálfræði fyrir stuttu sem urðu þess valdandi að núna í byrjun árs opnaði Þjóðskrá fyrir það að einstaklingar gætu sótt um að vera ekki skráðir karl eða kona í þjóðskrá heldur bættist við þriðji möguleikinn, kynsegin/annað í fellivalmynd þjóðskrár. Það kom fólki hins vegar dálítið á óvart þegar það sótti um þessa leiðréttingu á skráningu kyns í þjóðskrá að fyrir það var ætlast til að einstaklingar greiddu 9.000 kr. Trans Ísland gagnrýndi þetta strax og benti á að það væri t.d. ekki sjálfsagt mál að trans fólk hefði efni á því að borga slíkt gjald en auk þess þyrfti transfólk að leggja í ýmiss konar gjöld tengd ferli sínu. Og þá erum við ekki bara að tala um lyfjakostnað eða annan kostnað innan heilbrigðiskerfisins sem ekki fellur endilega að öllu leyti undir Sjúkratryggingar, heldur líka bara þá staðreynd að eftir að hafa leiðrétt skráningu kyns í þjóðskrá þá þarf einstaklingur mögulega að fá nýtt vegabréf fyrir 13.000 kr. og nýtt ökuskírteini fyrir 8.000, þannig að ríkið hefur þá líka fé af þessu fólki.

Þjóðskrá brást vel við gagnrýni Trans Íslands nú í janúar en benti hins vegar á tvennt; í fyrsta lagi að gjaldið sem innheimt væri rynni í ríkissjóð ekki til Þjóðskrár, og í öðru lagi að það byggði á því gjaldi sem fyrir var varðandi breytingar á nafni í þjóðskrá. En þar með lá fyrir að stofnunin gæti ekki fellt gjaldið niður, þetta væri fest í lög. Þannig að Samtökin ´78 og Trans Ísland reyndu í framhaldinu að ýta við ráðherrum og fulltrúum í nefndum þingsins til að breyta þessu hér innan húss en höfðu ekki erindi sem erfiði þar. Úr varð að snemma árs, í lok janúar að mig minnir, lögðum við fram, ég og einir 11 aðrir þingmenn, frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs til að fella niður þessa gjaldtöku, til að afnema það sem ég myndi vilja kalla trans skatt.

Rökin eru frekar einföld og skiptast tvennt: Í fyrsta lagi hefur fólk rétt til þess að skilgreina kyn sitt og fólk hefur rétt til nafns. Ríkið þarf ekki að reisa einhverja gjaldtökumúra utan um þjóðskrá til að innleiða einhvers konar kostnaðarvitund hjá einstaklingum þegar kemur að því að uppfylla þennan grundvallarrétt sinn. Í öðru lagi, í framhaldi af því, eru almannahagsmunir fólgnir í því að þjóðskrá sé sem réttust. Ef gjaldtaka hefur hamlandi áhrif á fólk til að sækja um leiðréttingu á skráningu sinni þá sitjum við, almenningur, uppi með verri þjóðskrá en ella. Það gengur hreinlega gegn markmiðum laga um þjóðskrá.

Ég mælti fyrir frumvarpinu um afnám trans skattsins í mars síðastliðnum. Það gekk til efnahags- og viðskiptanefndar og inn komu þrjár umsagnir; í fyrsta lagi frá Samtökunum '78, sem bentu á að þetta væri réttarbót sem gæti haft jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og væri í rauninni bara leiðrétting á lögum um kynrænt sjálfræði, að það hefði ekki mögulega getað verið ætlan neins á sama tíma og við erum að stíga þessi skref í réttlætisátt með lögum um kynrænt sjálfræði, það hafi ekki getað verið á planinu að taka gjald af fólki á sama tíma.

Í öðru lagi kom umsögn frá Trans Íslandi sem benti líka á að sérstakt gjald fyrir leiðréttingu á skráningu kyns gengi gegn markmiðum laga um kynrænt sjálfræði og vegna þess að breytingar á nafni og skráningu kyns væru eitt mikilvægasta réttindamál trans fólks þá skipti rosalega miklu máli að hafa sem minnstar hindranir þar.

Þriðja umsögnin sem barst við frumvarpið var óvænt en gleðileg. Hún var frá Þjóðskrá Íslands sem styður þessa breytingu. Hún styður ekki bara breytinganna gagnvart fólkinu sem er að leiðrétta skráningu kyns, heldur líka þeim sem eru að breyta skráningu nafns einfaldlega á þeim grundvelli að þetta er hálfgerður frumskógur í dag. Það er fullt af fólki sem á rétt á gjaldfrjálsri nafnbreytingu samkvæmt gildandi lögum og þess vegna getur verið flókið að finna út úr því hvort umsókn falli undir gjaldskyldu eða ekki. Þannig að með því að afnema einfaldlega gjaldskylduna er ferlið einfaldað gagnvart Þjóðskrá og gagnvart fólkinu sem nýtir sér þjónustuna. Og vel að merkja, forseti, þá eru nafn og kyn einu skráningarþættirnir í þjóðskrá þar sem er tekið sérstakt gjald fyrir breytingar. Ef þú breytir um lögheimili, ef þú flytur, þá kostar ekkert að breyta skráningu í þjóðskrá. Ef þú skiptir um trúfélag eða skráir þig utan trúfélaga þá kostar ekkert að breyta skráningu í þjóðskrá. Eins kostar ekkert að skrá hjónavígslu eða breyta skráningu á hjúskaparstöðu í þjóðskrá, þótt vígslan sjálf sem löggerningur t.d. hjá sýslumannsembættum, kosti eitthvað.

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir þessi einfalda breytingartillaga um að afnema trans skattinn, sem ég lít svo á að snúist bara um það að Alþingi leiðrétti mistök sem urðu þegar við gengum frá lögum um kynrænt sjálfræði. Þetta snýst bara um það. Þetta snýst um að trans skatturinn er óréttlátur að því leytinu að þetta er eina breytingin á skráningu í þjóðskrá sem gjald er tekið fyrir. Þetta snýst um það að hann er til óþurftar fyrir samfélagið vegna þess að hann leiðir til þess að þjóðskráin verður verri, hún verður enn lélegri grunnskrá en hún ella væri. Og hann er ósanngjarn af því að hann gerir ákveðinn hóp að féþúfu sem við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þingheimur muni taka höndum saman í atkvæðagreiðslu og styðja þessa breytingartillögu mína og sýna þannig í verki að fólk sé tilbúið að fylgja lögum um kynrænt sjálfræði eftir alla leið.



[15:26]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í þessari umræðu um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þar sem verið er að fókusera á nýsköpun, arð, yfirskattanefnd og fleira, ætla ég að beina sjónum mínum, líkt og sá þingmaður sem hér stóð í ræðustól á undan mér, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, að þessu og fleira. Ég ætla samt að segja það fyrst að hv. framsögumaður nefndarinnar, hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég fer rétt með, Bryndís Haraldsdóttir, fór mjög vel og ítarlega yfir góða vinnu nefndarinnar í þessu máli, sem ég styð. Og líkt og vænta má úr þessari nefnd var búið að líta í mörg horn og fara vel yfir sviðið. Það gladdi mig að ákveðið hefur verið ákveðið að taka málið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. vegna þess að það gefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd tækifæri til að bæta við einni breytingu. Hér vísa ég í það sama og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson varðandi þennan fókus og fleira, og biðla til nefndarinnar um að hún taki þennan svokallaða trans skatt til skoðunar, þ.e. taki tillit til breytingartillögunnar sem kemur frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni þar sem lagt er til að felld verði niður gjaldtaka tvenns konar leyfa sem þjóðskrá afgreiðir, annars vegar leyfi til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn og hins vegar leyfi til breytingar á skráningu kyns samkvæmt nýsamþykktum lögum um kynrænt sjálfræði.

Ég geng út frá því, og ætla bara að leyfa mér að fullyrða það hér, að það gjald sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fjallaði um, er ekki til staðar í dag af því að hv. þingheimi þyki það frábær hugmynd, af því að það sé mikilvægur tekjustofn fyrir ríkið, af því að mönnum þyki jafn gott fyrir þetta fólk að borga gjald sem aðrir þurfa ekki að borga til að lifa sínu lífi og vera eins og þau sannarlega eru eða við sannarlega erum og höfum leyfi til og viljum gera, og höfum fengið mikilvægar lagabreytingarsamþykktir til þess hér í þingsal. Það er væntanlega það hversu lítið þetta mál er sem gerir það að verkum að það færi ekki athygli, þ.e. lítið í huga flestra. En mig langar til að koma aðeins inn í umræðuna hér og aftur fór hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór mjög vel og ítarlega yfir það. Ég ætla endurtaka það fyrir þá sem ekki heyrðu, að þessi breytingartillaga er eiginlega endurtekning á sérstöku þingmannamáli sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var flutningsmaður að, ég og fleiri meðflutningsmenn vorum á, um nákvæmlega þetta mál. Þegar það var í þinglegri meðferð komu þrjár umsagnir, allar jákvæðar, eðlilega frá Samtökunum ´78 og Trans Íslandi, og síðan gleðilega frá þjóðskrá sem styður breytinguna, enda er aðeins lítill hluti þeirra nafnbreytinga gjaldskyldur sem þjóðskrá hefur á sinni könnu að skrá, aðeins lítill hluti. Það er sem sagt fullt af fólki sem á rétt á nafnbreytingu af alls konar ástæðum og greiðir ekki fyrir það, þannig að hér er um mismunun að ræða. Og síðan er það að breyting á kyni er nú tiltölulega mikilvægur réttur einstaklinga. Þetta er réttur og við höfum ekki tamið okkur að krefja fólk um gjöld fyrir slíkan grundvallarrétt.

En mig langaði að bæta við þessa ágætu ræðu sem hér var haldin til að hnykkja áfram á þessu, að þó að þetta sé mögulega í þeirri skrúfu sem það er núna og beiðnum hafi ekki verið svarað um þessa breytingu vegna þess að einhverjir þúsundkallar þyki ekkert tiltökumál — fólk getur ráðið við það, við hefðum stærri málum að sinna o.s.frv. — þá er í fyrsta lagi tiltölulega einfalt að fara yfir það að líklegast ber það fólk sem er að ganga í gegnum kynleiðréttingu, trans fólk, nú býsna þungan fjárhagslegan bagga af þeirri breytingu þó að við, hið opinbera, séum ekki að þyngja þann róður.

Síðan er það hitt, sem mig langar til að leggja á vogarskálarnar hér sem hinsegin manneskja, að hindranir fyrir jafnrétti, hindranir í vegi þess að hver einasti einstaklingur hér sé jafngildur þátttakandi í samfélaginu, að kerfin okkar taki eins á móti okkur öllum, ekki með eins kerfi heldur nákvæmlega með fjölbreytileika sem þarf til að það sé tekið eins á móti öllum — af því að um það snýst þetta, þessar hindranir geta verið alls konar, þær geta verið risastórar og þær geta verið litlar. Það er sem betur fer búið að hrinda flestum risastóru hindrunum úr vegi og af því getum við verið stolt og fyrir það er ég þakklát, en fyrir vígamótt fólk sem hefur lengi barist fyrir bara því einu að fá sömu réttindi og aðrir eru svona hindranir svo fjári erfiðar. Skilaboðin eru svo þung: Við nennum ekki að laga þetta. Það er bara býsna þungt að fá það framan í sig þegar búið er að eyða stórum hluta af ævi sinni í að berjast fyrir réttindum, þannig að þetta litla mál er risastórt fyrir þá sem það skiptir máli og þá er þetta ekki lengur lítið mál. Þá er þetta risamál. Um það snýst þetta. Þetta eru aurar fyrir okkur. Þetta er tiltekt, góður þingheimur. Lögum þetta. Við höfum dauðafæri til þess að gera það þegar þetta fína mál er tekið inn á milli umræðna og þetta skiptir máli á vegferð okkar í átt að enn betra, opnara og frjálslyndara samfélagi. Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að klára málið í nefnd og síðan afgreiða þetta með sóma í þingsal í atkvæðagreiðslu.



[15:32]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að gera örstutta grein fyrir fyrirvara sem ég hafði sett við nefndarálitið. Ég er á nefndaráliti meiri hlutans en skrifaði undir það með fyrirvara og lofaði þar að gera grein fyrir honum í ræðu. Hann snerist fyrst og fremst um skilgreiningu á hugtakinu sprotafyrirtæki og þeim vandamálum sem því geta fylgt. Það var ástæðan fyrir fyrirvara mínum. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, framsögumaður málsins, gerði grein fyrir því í ræðu sinni að þegar hún boðaði að málið yrði tekið inn á milli 2. og 3. umr. væri það einmitt þetta viðfangsefni sem nefndin ætlaði að taka til frekari skoðunar. Ég fagna því auðvitað og treysti því og trúi að nefndinni takist í sameiningu að leysa úr þessu þannig að við getum öll þokkalega vel við unað og séum örugg um að frumvarpið þjóni örugglega þeim tilgangi sem til er ætlast. Þannig að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það.

Ég ætlaði þó að segja nokkur orð í tilefni af ræðu framsögumanns, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, þegar hún var að ljúka máli sínu og talaði þar frá eigin brjósti og allt gott um það að segja. Ég er alveg sammála henni um áherslur í nýsköpunarmálum og ég veit að við deilum þar skoðunum að mörgu leyti og ætla ekkert að draga úr því. Hins vegar vil ég segja að í nýsköpun þarf úthald og þrautseigju. Mér hefur aðeins þótt skorta á það í þeim úrræðum og þeim góðu breytingum sem gerðar hafa verið á starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja, að menn hafi treyst sér til þess að láta þær ná langt fram í tímann eða lengra fram í tímann en raun ber vitni. Ég er þá fyrst og fremst að vísa til heimilda lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í svokölluðum vísissjóðum og síðan tímabundinnar hækkunar á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarstyrkja. Ég vildi bara koma því að.

Síðan vil ég nota tækifærið, fyrst hér hefur komið fram breytingartillaga frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni í tengslum við þetta mál, nýtt að efni en engu að síður breytingartillaga. Ég vil eiginlega fagna því að breytingartillagan hafi komið fram. Þetta tengist máli sem nokkrir þingmenn, undir forystu Andrésar Inga Jónssonar, lögðu fram fyrr á þessu þingi og sjálfur var ég einn af flutningsmönnum þess. Ég styð þessa breytingartillögu og ég skal bara játa á mig að eiginlega fórst fyrir hjá mér að hafa fyrirhyggju til að taka þetta upp í nefndinni sjálfri þegar farið var yfir þetta, en auðvitað var það ekki í upprunalegu frumvarpi. Ég styð það heils hugar og mun a.m.k. taka málið upp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ræða hvort við getum annaðhvort fellt þessar breytingartillögur inn í frumvarpið og/eða að nefndin geti lýst stuðningi við þessar fram komnu breytingartillögur og þær verði afgreiddar. Ég held að þetta sé mikið réttlætismál, eins og hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson og Hanna Katrín Friðriksson fóru ítarlega yfir, og ég ætla í sjálfu sér ekki að lengja þá umræðu. En ég tel að málið sé þannig vaxið og að kostnaðurinn því samfara sé svo smávægilegur að okkur sé í lófa lagið að klára þetta. Að auki hefur komið jákvæð umsögn frá Þjóðskrá sem annast þessar skráningar um að þetta sé æskileg breyting. Þannig að ég sé ekki að okkur ætti að vera nokkuð að vanbúnaði í þessum efnum.