151. löggjafarþing — 109. fundur
 8. júní 2021.
endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna fyrirbyggjandi aðgerða.

[13:42]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þekking á starfsemi mannslíkamans, á orsökum sjúkdóma og leiðum til að fyrirbyggja þá, fer stöðugt vaxandi. Samhliða breytist fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu þar sem skimanir, eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir fá aukið vægi. Það er mikilvægt að almenn viðmið og reglur um aðgang að heilbrigðisþjónustu taki mið af þessum breytingum og að þar sitji allir landsmenn við sama borð þannig að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í ferðakostnaði vegna slíkrar heilbrigðisþjónustu eins og annarra. Fyrir liggur að meinvaldandi breytingar í BRCA-genum auka áhættu á nokkrum tegundum krabbameina. Með markvissu eftirliti og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum er hægt að fækka alvarlegum tilfellum krabbameina hjá arfberum eða jafnvel koma alveg í veg fyrir þau. Konur sem eru arfberar fyrir stökkbreytingar eru líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein fyrir fertugt. Karlar geta einnig fengið brjóstakrabbamein af þessum völdum. Konur og karlar sem lifa með áhættu á arfgengum krabbameinum treysta mjög á skimun og eftirlit, bæði fyrir sína líkamlegu og andlegu heilsu. Mikilvægi eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða er þess vegna ótvírætt. Á síðastliðnum árum hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi arfgenga áhættuþætti og búið að finna og greina stóran hluta af þeim sem bera t.d. BRCA-stökkbreytinguna á Íslandi.

Í minni heimabyggð eru þessar stökkbreytingar nokkuð algengar og einstaklingar þaðan hafa farið í fyrirbyggjandi aðgerðir á síðustu árum sem kalla á allt að 8–20 ferðir til höfuðborgarinnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða reglur gilda almennt um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits, skimana eða fyrirbyggjandi aðgerða? Hvernig er staðið að uppfærslu og endurskoðun reglna um endurgreiðslu ferðakostnaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands samhliða þróun heilbrigðisþjónustu?



[13:44]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra gildir tiltekin reglugerð. Í þeirri reglugerð segir að þurfi læknir að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum í heilbrigðiskerfinu taki Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði. Það er meginreglan. Ákvæðin gilda um lengri ferðir, þ.e. yfir 20 km, og þar kemur fram að Sjúkratryggingar taki þátt í tveimur ferðum á hverju 12 mánaða tímabili. Skilyrði er að læknir í heimabyggð sæki um ferðina og staðfesti að þjónustuna sé ekki hægt að fá í heimabyggð. Samkvæmt þessu sama ákvæði taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða umfram tvær á hverju 12 mánaða tímabili ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma, svo sem illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega hjartasjúkdóma, alvarlega sjúkdóma barna, alvarlega geðsjúkdóma og alvarleg vandamál á meðgöngu.

Hv. þingmaður spyr hér um tiltekinn hóp. Þá er því til að svara að það eru engar sérreglur sem gilda um greiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits eða fyrirbyggjandi aðgerða. Fyrirbyggjandi meðferð telst ekki meðferð vegna alvarlegs sjúkdóms og gildir sú almenna regla að ferðir vegna slíkrar meðferðar teljast til þeirra tveggja ferða sem almennt er heimilt að greiða fyrir á hverju 12 mánaða tímabili. Greiðsluþátttakan er hins vegar í stöðugri endurskoðun og líka endurgreiðsla ferðakostnaðar, sem kemur fram í þeirri reglugerð sem hér er rædd. Lækkun greiðsluþátttöku sjúkratryggðra er afgerandi þáttur í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Virðulegur forseti. Ég vona að ég geti svarað í mínu síðara svari betur varðandi sértæk áform sem lúta að þessari fyrirspurn hv. þingmanns.



[13:47]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin og vona að meira bætist við. Það er ekki ásættanlegt að fólk búsett á landsbyggðinni sé sett í þá stöðu að þurfa að taka ákvarðanir um aðgerðir eða tíðni skimana í ljósi fjárhagsstöðu eða forgangsraða hvaða heilbrigðisþjónusta sé sótt í þeim tveimur ferðum sem Sjúkratryggingar endurgreiða. Einstaklingar sem greindir eru með BRCA-stökkbreytingar þurfa að fara að lágmarki tvær ferðir á ári og þar með er rétturinn til endurgreiðslu tæmdur. Kostnaðurinn vegna ferða í tengslum við aðgerðir getur svo orðið gríðarlegur. Það er hægt að gera ráð fyrir átta til tuttugu ferðum, hálfri til einni milljón í ferðir og þar fyrir utan er dvalarkostnaðurinn. Það er nauðsynlegt að reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar íbúa landsbyggðarinnar séu endurskoðaðar samhliða breytingu á heilbrigðisþjónustunni. Og hvernig getum við tryggt það, hæstv. ráðherra, að regluverkið fylgi?



[13:48]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Sjúkratryggingar Íslands hafa lagt til breytingar við ráðuneytið á 2. mgr. 3. gr. umræddrar reglugerðar, sérstaklega með það fyrir augum að ná utan um þann hóp sem hv. þingmaður spyr hér um. Ástæðan fyrir því er að orðalag núverandi reglugerðar heimilar aðeins að ítrekaðar ferðir séu greiddar þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma. Það girðir fyrir að SÍ sé í raun heimilt að greiða fyrir fleiri ferðir en tvær á hverju 12 mánaða tímabili þegar um er að ræða meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma. Þar ber auðvitað hæst fyrirbyggjandi meðferð einstaklinga með stökkbreytingu í BRCA-geni. Kostnaðarmat vegna þessarar breytingar liggur ekki fyrir en er til skoðunar í ráðuneytinu. Ég geri ekki ráð fyrir því svona fljótt á litið að um verulega kostnaðaraukningu sé að ræða þannig að ég tel líklegt að breyting af þessu tagi verði gerð.