151. löggjafarþing — 110. fundur
 9. júní 2021.
veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl., 3. umræða.
stjfrv., 755. mál (leyfisveitingar o.fl.). — Þskj. 1613.

[21:38]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hér er verið að leggja til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, og lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015. Þetta frumvarp er til komið í framhaldi af samkeppnismati Efnahags- og framfarastofnunar, OECD, á regluverki íslenskrar ferðaþjónustu og einnig á byggingariðnaðinum. Þetta mat var gert í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samkeppniseftirlitið. Það segir hér að gerðar hafi verið 438 tillögur til úrbóta á regluverkinu, hvorki meira né minna, sem fela í sér að það hafi dregið úr óþarfa reglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og regluverkið styðji betur við virka samkeppni.

Þetta er náttúrlega algerlega í anda þess sem við í Miðflokknum höfum talað um margsinnis, nauðsyn þess að einfalda regluverk og gera fyrirtækjum betur kleift að starfa og vaxa og dafna og viðhafa virka samkeppni. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er svolítið kyndugt að ríkisstjórnin hafi þurft að fá erlenda aðila til að koma og kíkja á þessi mál fyrir sig, þ.e. að þau hafi ekki haft frumkvæði að því sjálf að reyna að bæta hér úr, sem er algerlega nauðsynlegt. Og það er fróðlegt að skoða hér umsögn frá Félagi atvinnurekenda við þetta mál og margt áhugavert sem kemur þar fram. Þar kemur t.d. fram að margar af þessum tillögum OECD séu enn í vinnslu innan stjórnkerfisins og það væri fróðlegt að fá að vita hvaða tillögur það eru. En hér eru sem sagt komnar fram fjórar tillögur sem eru reyndar ekki margar ef við horfum til þess að 438 tillögur eru lagðar til.

Hér eru fjórar sem á að hrinda í framkvæmd þegar í stað. Í fyrsta lagi er það breyting á aldursskilyrðum rekstrarleyfishafa vegna veitinga- og gististaða. Það er sem sagt verið að færa aldursviðmiðið niður í 18 ár en það er þó ekki heimilt ef um vínveitingaleyfi er að ræða. Í öðru lagi er það stytting á málsmeðferðartíma vegna útgáfu tækifærisleyfa. Þetta er að sjálfsögðu gott mál. Í þriðja lagi er það lækkun gjalda fyrir rekstrarleyfi veitinga- og gististaða sem heimilar sölu áfengis og í fjórða lagi afnám þess skilyrðis að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi.

Eins og ég segi, við í Miðflokknum höfum verið eindregnir talsmenn þess að einfalda regluverkið og hér er verið að feta þá leið. Þó að skrefið sé ekki stórt með fjórum tillögum þá skiptir það vissulega máli. En mér finnst þetta allt saman frekar seint fram komið hjá ríkisstjórninni ef hún er að ljúka sínu æviskeiði og þessu kjörtímabili og þá á að reyna að sýna smá lit með því að koma hér með frumvarp með fjórum tillögum.

Við styðjum þetta að sjálfsögðu í Miðflokknum en hefðum viljað sjá að það yrðu tekin stærri og meiri skref í rétta átt hvað þetta varðar. Þessar tillögur eru til bóta. Við erum alveg á því og þær létta óþarfa byrði á fyrirtækjum og það er sjálfsagt að taka undir það að það er ánægjulegt að lækka gjald fyrir rekstrarleyfi veitinga- og gististaða í því skyni að þau endurspegli raunverulegan umsýslukostnað og auðvitað vonum við að það fylgi frekari breytingar í kjölfarið.

Það verður að segjast eins og er að það er víða pottur brotinn í gjaldtöku hins opinbera almennt og ótrúlegt hvað er hægt að taka gjald fyrir alla skapaða hluti. Það er bara með ólíkindum og mönnum gert erfitt fyrir, bæði þegar kemur að því að stofna fyrirtæki og reka fyrirtæki og sækja um hin og þessi leyfi. Og ég hef áður sagt það í þessum sal að reglugerðafarganið í kringum byggingariðnaðinn er náttúrlega með ólíkindum og að sækja um leyfi fyrir framkvæmdum er ótrúlega þungt í vöfum og mönnum gert erfitt fyrir að byggja sitt eigið húsnæði, alls konar frestir sem þarf að uppfylla o.s.frv. Við þurfum svo sannarlega að taka okkur á þar og á þetta hefur margsinnis verið bent en það er eitthvað svo óskaplega erfitt af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka sig á í þessum efnum.

Það er rétt að geta þess að menn verða að átta sig á því að ávinningurinn af einfaldara regluverki er ótvíræður og virkri samkeppni og þar höfum við náttúrlega verk að vinna, líka þegar kemur að erlendri fjárfestingu inn í landið. Hér var umræða um alþjóðamál og skýrslu utanríkisráðherra fyrir ekki svo löngu síðan og þá benti ég hæstv. ráðherra á það hvað við stæðum okkur illa þegar kemur að tvísköttunarsamningum. Þetta skiptir fyrirtækin verulegu máli, sérstaklega þegar um erlenda fjárfestingu er að ræða. Þegar erlend fyrirtæki hefja hér starfsemi skipta tvísköttunarsamningar verulegu máli. Og við erum eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum og langt á eftir Norðurlandaþjóðunum þegar kemur að tvísköttunarsamningum og Bretlandi, svo dæmi sé tekið. Hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi það að við höfum staðið okkur illa hvað þetta varðar og nauðsynlegt að bæta þar úr og vinna markvisst að því að fjölga tvísköttunarsamningum.

Hér er einnig önnur umsögn sem er mjög áhugaverð og er frá Ferðamálastofu. Það er ýmislegt sem kemur þar fram sem er áhugavert, t.d. er rætt um starfsemi gististaða og veitingahúsa sem er, eins og segir í umsögninni, „umsvifamesti hluti ferðaþjónustunnar“. Árið 2019 störfuðu 10.700 starfsmenn hjá um 1.000 fyrirtækjum sem samanlagt veltu um 170 milljörðum kr. og þetta er u.þ.b. helmingur af umsvifum ferðaþjónustunnar að undanskildu fluginu. Þau segja hér að heildareignir fyrirtækjanna hafi numið um 200 milljörðum kr. og fjöldi ferðamanna hingað til lands árið 2019 hafi verið rösklega 2 milljónir og nú hafa menn verið að gera sér vonir um að við sjáum þessar tölur aftur innan ekki svo langs tíma, 2022, 2023.

Löggjöfin sem er í gildi hvað þetta varðar er samin 2007. Þá voru ferðamenn sem komu hingað til lands 485.000 þannig að núgildandi löggjöf er á margan hátt úrelt og tekur ekki mið af núverandi rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þegar þessi lög voru samin var gisting ferðamanna að megninu til í hefðbundnum tveggja manna herbergjum og hótelum. Nú gistir hins vegar meiri hluti ferðamanna í annars konar gistingu sem fór lítið fyrir þegar lögin voru sett 2007. Það er gisting í bílum, húsbílum, svefnskálum svokallaðra hostela og síðan ekki síst aðrir fjölbreyttir gistimöguleikar, það er heimagistingar o.s.frv. Þannig að það hafa orðið miklar framfarir og breytingar í veitingamennsku á þessum tíma og það kallar náttúrlega á að það verði heildarendurskoðun á regluverkinu hvað þetta varðar. Þess vegna segir Ferðamálastofa hér að þær breytingar sem eru lagðar til í framlögðu frumvarpi gangi of skammt til úrbóta á núverandi löggjöf og nær hefði verið að endurskoða löggjöfina í heild sinni og færa í nútímalegra horf. Þetta er mjög athyglisverður punktur enda verður maður að segja, eins og ég sagði hér áðan, að þetta er náttúrlega hlægilega lítið skref þegar búið er að fara í gegnum þessar atvinnugreinar að það skuli vera rúmlega 400 tillögur til úrbóta og að það skuli vera fjórar hér sem á að hrinda í framkvæmd með þessu frumvarpi.

Það verður að segjast eins og er að núverandi stjórnsýsla þegar kemur að gistingu og veitingum er flókin og óskýr og það þarf að gera bragarbót á þessu. Við vitum það að gisti- og veitingastaðir eru algerlega nauðsynlegur þáttur þegar kemur að ferðaþjónustunni og þess vegna er mjög mikilvægt að málefni þessara atvinnugreina, leyfisveitingarnar, eftirlitið og viðurlög o.s.frv., sé einfaldað eins og hægt er og heyri þá undir fagstofnun ferðamála.

Síðan kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að fyrirhugað sé að fella brott ákvæði er varða kröfur til opinberra gæðaúttekta. Ferðamálastofa segir í sinni umsögn að það sé óljóst hvað sé átt við, og það eru náttúrlega ekki nógu góð vinnubrögð að setja fram eitthvað sem er óljóst, ef menn vita ekki nákvæmlega hvað er átt við. En Ferðamálastofa telur að hér sé um að ræða ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar um að rekstraraðilum gististaða sé óheimilt að auðkenna gististaði með stjörnum eða öðrum merkjum sem gefa til kynna hvers konar gæðaflokkun nema að undangenginni formlegri gæðaúttekt þriðja aðila sem er viðurkennd af stjórnvöldum. Ferðamálastofa telur að ekki eigi að fella ákvæðið brott þar sem engar reglur aðrar eru til staðar um hvernig gististaðir stjörnumerkja sig í raun og veru. Með svona stjörnumerkingu er verið að koma á framfæri upplýsingum sem hafa áhrif á kauphegðun og þá er ekki síst neytendaverndin mjög mikilvæg í þessu sambandi og gleymum því ekki að um allnokkurt skeið hefur verið opinbert stjörnuflokkunarkerfi undir merkjum Vakans sem er gæðakerfi ferðaþjónustunnar og þetta er eitthvað sem ég hefði nú talið að nefndin hefði átt að fara betur yfir í sinni vinnu.

Svo er bent á það hér líka að það sé nauðsynlegt að efla söfnun áreiðanlegra gagna um rekstur gististaða og veitingahúsa og ég tek heils hugar undir það. Svo segir hér áfram:

„Líklega er ekkert sem getur betur upplýst um þróun og viðgang ferðaþjónustunnar hér á landi en ítarlegar upplýsingar um hvernig ferðamenn fara um landið. Með kerfisbundinni söfnun slíkra upplýsinga má greina þjóðemi, dvalartíma á hverjum áfangastað, efnahagslega viðkomu og fleira. Margar aðrar þjóðir hafa náð langt í söfnun slíkra upplýsinga og þá með stafrænum hætti.“

Við þekkjum það að gistinætur í landinu eru taldar af Hagstofunni sem gefur náttúrlega að einhverju leyti vísbendingu en það má gera miklu betur í þessum efnum. Ég held að það sé alveg ljóst. Og það kemur hér fram í lok umsagnarinnar að við endurskoðun þessara laga þyrfti einnig að líta til þessa mikilvæga máls og ég tek heils hugar undir það.

Það er margt í þessu frumvarpi sem er gagnrýnivert en þetta er svona lítið skref í rétta átt og hefði verið hægt að gera þetta með miklu vandaðri hætti að mati okkar í Miðflokknum og taka til fleiri þætti. Og ég segi það hér enn og aftur að það hefði verið fróðlegt, og það hlýtur að vera aðgengilegt, að fá að sjá þessar tillögur sem komu fram, þessar 438 tillögur til úrbóta á regluverkinu. Hér er verið að stíga þetta skref þar sem fjórar tillögur eru undir. Ég verð að segja það að lokum, herra forseti, að jú, við styðjum þetta frumvarp, þetta er allt í rétta átt, en það hefði verið hægt að gera miklu betur.