151. löggjafarþing — 111. fundur
 10. júní 2021.
veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl., frh. 3. umræðu.
stjfrv., 755. mál (leyfisveitingar o.fl.). — Þskj. 1613.

[20:33]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Málið sem hér er rætt er afar jákvætt. Það er jákvætt og raunar rós í hnappagat ríkisstjórnarinnar, vil ég leyfa mér að segja. Þau eru ekki mjög mörg frelsismálin sem hafa farið í gegn í tíð þessarar ríkisstjórnar en ég vona svo sannarlega að þetta mál geri það. Hér er lögð til lækkun aldursskilyrða til að reka gisti- eða veitingastað, úr 20 árum í 18 ár, veruleg lækkun skráningargjaldsins, stytting málsmeðferðartíma vegna svonefndra tækifærisleyfa og afnám skilyrðis um að starfsstöðvar ökutækjaleiga skuli vera opnar almenningi.

Það eru margar hindranir, herra forseti, sem standa í vegi fólks sem vill fara í rekstur og margar þessara hindrana eru illa eða ekki rökstuddar. Við búum í samfélagi þar sem fólk verður lögráða 18 ára, því er treyst til að kjósa, gifta sig og skuldsetja sig til framtíðar. Þess vegna þarf að rökstyðja sérstaklega takmarkanir sem eru settar á réttindi þessa fólks og aldurshóps. Slíkar takmarkanir eiga að vera settar vegna raunverulegrar nauðsynjar en ekki vegna einhverra duttlunga og undir það falla takmarkanir á rétti fólks til að reka gistiheimili. Mér er ómögulegt að sjá í hverju sú nauðsyn liggur að maður verði að vera orðin 20 ára til þess að mega það en maður megi það ekki 18 ára. Í frumvarpinu er tekið fram að ef rekstrarleyfið felur í sér heimild til áfengisveitinga þurfi umsækjandi þó að hafa náð 20 ára aldri. Það má e.t.v. segja að það sé skiljanlegra, í það minnsta í samhengi við það lagaumhverfi sem við búum við, heldur en að enginn megi reka veitinga- og gististaði nema vera orðinn tvítugur, algerlega óháð því hvort hann sækist eftir vínveitingaleyfi. Það eru þó alla vega lagaleg rök fyrir því að takmarka áfengissölualdurinn við 20 ár, þó að ég sé reyndar á því að við megum endurskoða þær aldurstakmarkanir líka með tilliti til þess að fólk verður lögráða 18 ára og með tilliti til þeirra laga sem gilda í löndunum í kringum okkur.

Lækkun skráningargjalds skiptir líka verulegu máli. Nógu margir eru steinarnir sem lagðir eru í veg smárra atvinnurekenda á Íslandi. Gjaldtakan er stór hindrun og óviðunandi að hún sé hærri en nauðsyn ber til. Gjaldheimta fyrir þjónustu hins opinbera, líkt og leyfisveitingu, verður að vera í samræmi við þann kostnað sem skráningunni fylgir og ekki hærri en það. Um þessi atriði hefur nokkuð mikið verið fjallað og ég vil, herra forseti, vísa í álit umboðsmanns Alþingis frá því 29. desember árið 2020:

„Við afmörkun á því hvort um er að ræða þjónustugjald í þeirri merkingu sem hér á við hefur almennt verið litið svo á að veigamest sé að sá sem gert er að greiða gjaldið fái það sérgreinda endurgjald sem er tilefni gjaldtökunnar og fjárhæð gjaldsins byggist á þeim kostnaði sem verður til hjá hinum opinbera aðila í efnislegum tengslum við endurgjaldið. Það síðara takmarkast þá, eins og það er gjarnan orðað í lögum, við að gjaldið sé ekki hærra en kostnaður við endurgjaldið.“

Herra forseti. Ég tel að víða hafi þessum skilyrðum ekki verið fylgt. Það sannast kannski sérstaklega á því að hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra telur nú svigrúm til að lækka verulega þau gjöld sem hér er um rætt. Það er auðvitað fagnaðarefni. Þessi breyting, ásamt styttingu málsmeðferðartíma umsókna um tækifærisleyfi og afnám skilyrðis um að hafa starfsstöðvar ökutækjaleiga opnar almenningi, er til þess fallin að auðvelda fólki að hefja rekstur, halda úti rekstri og auka fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu.

Herra forseti. Breytingarnar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru hluti af 438 tillögum að laga- og reglugerðarbreytingum sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, afhenti ríkisstjórn Íslands í skýrslu um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar þann 10. nóvember 2020. Skýrslan leiddi í ljós það sem við þegar vissum, að draga megi verulega úr óþarfareglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og breyta megi regluverki í þeim tilgangi að það styðji betur við virka samkeppni á Íslandi. Áætluð áhrif allra tillagnanna eru talin vera aukning í landsframleiðslu sem nemur 200 milljónum evra eða yfir 30 milljörðum kr. á ári. Þetta sýnir að breytingar í þessa veru skipta máli. Lög sem afnema hindranir og auka athafnafrelsi landsmanna geta líka sparað ríkinu háar fjárhæðir. Lög sem afnema hindranir og lækka gjöld geta aukið framleiðni í samfélaginu og verið undirstaða aukins hagvaxtar sem skiptir alltaf máli en kannski ekki síst núna þegar við þurfum sárlega að vinna okkur upp úr yfirstandandi efnahagssamdrætti. Hljóti þetta frumvarp brautargengi, sem ég vona af mikilli bjartsýni, vona ég líka að það verði undanfari frekara afnáms á hindrunum og takmörkunum í atvinnulífinu, stórum sem smáum. Það gerist reyndar ekki á þessu kjörtímabili og veltur á því hvers konar ríkisstjórn velst til starfa í kosningunum í september komanda. Kannski náum við þá einnig í gegn fleiri frelsismálum sem hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir íhaldssemi sitjandi ríkisstjórnar. Þar má nefna frelsi á leigubílamarkaði, sem önnur alþjóðleg stofnun, ESA, hefur einmitt gert alvarlegar athugasemdir við að skortur sé á hér á landi, frelsi til að velja sér nafn án afskipta ríkisins, afnám refsingar fyrir vörslu fíkniefna, sala lausasölulyfja í verslunum og svona má reyndar lengi telja.

Herra forseti. Frelsisfjaðrir ríkisstjórnarinnar eru helst viðraðar á samfélagsmiðlum en virðast skila sér illa hér í þingsal. Skrautfjaðrir eru svo sem ágætar til síns brúks en eitt er þó víst að það er ekki flogið á þeim einum saman. Þess vegna vona ég að þetta mál nái fram að ganga og að á næsta kjörtímabili munum við sjá mörg önnur mál af sama toga.



[20:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað upp og tilkynna að ég hef lagt fram dagskrártillögu fyrir þingfund morgundagsins. Þannig vill til að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram frumvarp, mjög mikilvægt frumvarp, til að koma til móts við bráðan vanda sjómanna á smábátum. Hún hefur verið með þá orðræðu víða að það sé einhvern veginn í ósköpunum stjórnarandstöðunni að kenna að það mál fái ekki framgang þrátt fyrir að hv. þingmaður sé formaður atvinnuveganefndar, þrátt fyrir að samflokksmaður hennar sé þingflokksformaðurinn sem semur fyrir hennar hönd og þrátt fyrir að samflokksmaður hennar sé forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon. Þrátt fyrir að hv. þm. Smári McCarthy hafi í tvígang sagt það algjörlega skýrt að hann og við styðjum mál hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur heldur hún þessari orðræðu áfram. Því legg ég til að þetta mál hennar, þetta góða mál, verði fyrst á dagskrá á þingfundi morgundagsins svo það sé alveg skýrt að við styðjum málið og óskum eftir því að það sé tekið hér til umræðu sem fyrst.



[20:44]
Forseti (Guðjón S. Brjánsson):

Forseti hefur móttekið þessi skilaboð.



[20:44]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs og um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, innan sviga er talað um ökutækjaleigur, tækifærisleyfi og rekstrarleyfi. Þetta er mjög langur titill á þessu frumvarpi, meira að segja svo langur að hann tekur nokkuð margar línur. En að málinu sjálfu.

Ég gluggaði í nefndarálit með breytingartillögu sem var býsna vel unnið. Það er skýrt og skorinort og tekur á helstu þáttum sem skipta máli í þessu frumvarpi. Fram kemur að nefndin hafi sérstaklega rætt lagaumhverfi ferðaþjónustunnar. Það er auðvitað mjög mikilvægt að velta því fyrir sér akkúrat núna og má reyndar ekki seinna vera þar sem við sjáum að samfélagið hefur smátt og smátt verið að komast aftur í gang og þess vegna er mjög nauðsynlegt að nýta tækifærið, eins og ég talaði um hér fyrr í dag. Það felast tækifæri í öllum aðstæðum og þess vegna er mikilvægt að skoða lagaumhverfi ferðaþjónustunnar, sem er þrátt fyrir allt okkar stærsti vaxtarbroddur nú um stundir og mun koma okkur hratt á fætur aftur. Þetta þarf allt að virka eins vel og hægt er.

Um það er fjallað að bæði löggjöfin og stjórnsýslan þurfi að vera kvikari og geta brugðist fljótt við. Með því er átt við að það þurfi að vera hægt að bregðast fljótt við breyttu rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Það er ekki bara það að fjöldi ferðamanna hefur fjórfaldast frá árinu 2007, heldur hefur það einnig gerst, sem er ekki síður mikilvægt, að breytingar hafa orðið töluvert miklar, t.d. í sölu gistiþjónustu, og löggjafinn hefur ekki haft nægileg úrræði til að halda í við þá þróun. Nú eru fjölbreyttari gistimöguleikar og bókun á gistingum hefur farið að mestum hluta í gegnum bókunarþjónustu. Þetta skiptir allt saman máli. Við munum öll eftir þegar lífið var eins og það var fyrir kórónuveirufaraldurinn. Þá sáum við svokallaða „campers“-bíla víðast hvar á vegum landsins. Það er dæmi um þá fjölbreyttu gistimöguleika sem eru núna en voru kannski ekki þegar lögin voru sett árið 2007. Annað er að það hafa líka orðið breytingar í veitingamennsku og þess vegna þarf að sjá til þess að gæði séu þar í lagi og að neytendaverndin virki þannig að allir geti vel við unað.

Hér er einnig rætt um tölfræði tengda ferðaþjónustu og mikilvægi þess að greina og birta tölfræðilegar upplýsingar um ferðahegðun hér á landi. Ég hjó sérstaklega eftir því að það er talið mikilvægt til þess að hægt sé að meta árangur og svo eins til að móta stefnu í ferðaþjónustu. Þá dettur mér í hug hvernig við getum farið að hugsa um fleiri gáttir til og frá landinu. Það er aftur gamla sagan um hvernig við getum náð að dreifa ferðamönnum um landið eða hreinlega fá þá bara inn á fleiri stöðum. Það er mjög mikilvægt að minnast á það að í stað þess að fara nákvæmlega sömu leið aftur, þ.e. að byggt verði undir suðvesturhornið meðan aðrir þurfi að bíða. Þess vegna er mjög mikilvægt að svona hugsun liggi hreint fyrir og sé notuð í stefnumótun.

Talað er um að frumvarpið sé einungis liður í því að bæta rekstrarskilyrði og í greinargerð beinir nefndin því til ráðuneytisins að taka sérstaklega til skoðunar það sem ég sagði hér á undan, að safnað sé saman tölfræðilegum upplýsingum um ferðahegðun til að meta árangur og til þess að nota til stefnumótunar í ferðaþjónustunni. Við verðum að geta skapað tækifæri um allt land. Það skiptir máli.

Í lokin á þessu nefndaráliti er fjallað um mjög svo mikilvægan punkt. Hingað til hefur verið ákveðinn frestur þegar fólk sækir um leyfi til reksturs. Það hefur verið þriggja vikna fyrirvari á t.d. tækifærisleyfum. Þau sjónarmið komu fram að það ætti að afnema þann frest með öllu, en nefndin valdi að afnema hann ekki. Hins vegar taldi hún að það mætti stytta hann og er talað um styttingu niður í tvær vikur í stað þriggja áður, enda taki það sinn tíma að skipuleggja löggæslu og brunavarnir, taka þær út og þess háttar mikilvæga hluti. Þetta er því hið besta mál.

Ég gluggaði í umsagnir sem komu vegna málsins. Það er mjög gagnlegt að lesa þær því að þá nær maður að taka anda greinarinnar með í þessa umræðu. Í umsögn frá Félagi atvinnurekenda segir að þetta frumvarp hafi verið búið til í framhaldi af samkeppnismati OECD á regluverki íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Hér erum við vissulega að tala um ferðaþjónustuna og mér finnst dálítið merkilegt að lesa að OECD hafi lagt til 438 tillögur til úrbóta á regluverkinu sem fela í sér að dregið verði úr óþarfareglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og að regluverkið muni þannig styðja betur virka samkeppni.

Það kemur einnig fram í umsögn Félags atvinnurekenda að margar af tillögunum eru enn þá í vinnslu innan stjórnkerfisins. Í frumvarpinu er rætt um fjórar þeirra. Í fyrsta lagi breytingu á aldursskilyrðum rekstrarleyfishafa vegna veitinga- og gististaða, í öðru lagi styttingu á málsmeðferðartíma vegna útgáfu tækifærisleyfa, í þriðja lagi lækkun á gjaldi fyrir rekstrarleyfi veitinga- og gististaða sem heimila sölu áfengis og í fjórða lagi afnám þess skilyrðis að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi. Þetta helst náttúrlega í hendur við þann gríðarlega vöxt á ferðaþjónustu sem orðið hefur hér á landi og víðs vegar um heiminn á undanförnum árum. Það sem mér finnst skipta hvað mestu máli í þessu frumvarpi, og það sem þeir segja hjá Félagi atvinnurekenda, er lækkun gjalda á rekstrarleyfinu. Það hlýtur að skipta töluvert miklu máli að reyna að létta byrðarnar vegna þess að þetta eru þau fyrirtæki sem munu þurfa að rísa hratt, þannig að ég fagna því að þetta sé fram komið svona.

Síðan er það umsögn frá Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu sem eru dálítið ánægð með þetta mál. Þau taka sérstaklega til greinargerðar frumvarpsins og segja að það byggi á tillögum OECD, eins og ég sagði áðan um breytingarnar, og fara sérstaklega í það sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er stigið mikilvægt skref í að efla viðspyrnu hagkerfisins, stuðla að einfaldara regluverki, aukinni framleiðni og fjölgun starfa, en í ljósi efnahagssamdráttar sem hefur komið illa niður á starfsskilyrðum ferðaþjónustu má fullyrða að tillögur OECD séu sérstaklega mikilvægar.“

Ég get tekið undir þetta. Þetta fannst mér vera dálítið kjarni málsins ef við förum að horfa til þess að við förum að rísa hratt á fætur. Ég hjó eftir öðru í þessari sömu umsögn frá Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Þar er fjallað um það sem þau velja að kalla hótel á sjó við Ísland. Þar er átt við hótelskip sem fara hringinn í kringum landið með farþega. Við tölum kannski oftast um skemmtiferðaskip. Þau skip greiða enga skatta, en greiða hafnargjöld auk lítils gjalds á hvern farþega. Þessu finnst þeim kannski að mætti gera aðeins meira úr vegna þess að ef sú þróun heldur áfram, sem mun gerast, að hótelin okkar sem eru á landi, fara í aukna samkeppni við þessi skemmtiferðaskip, þá munu hótelin sem eru á landi kannski verða undir og sérstaklega á landsbyggðinni.

Ég er þó ekki svo svartsýn. Ég hef frekar talað fyrir því að við eigum að gera út á það að fá hingað til lands minni skemmtiferðaskip þar sem þau geta, þrátt fyrir allt, lagst að bryggju á minni stöðum hringinn í kringum landið. Það skiptir minni staði gríðarlega miklu máli að fá slíka gesti. Við þurfum ekkert að hugsa það mjög djúpt. En alls konar aðilar geta haft hag af því og sérstaklega þeir sem eru til hliðar við almennan rekstur.

Félag fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er stigið mikilvægt skref í að efla viðspyrnu hagkerfisins, stuðla að einfaldara regluverki, aukinni framleiðni og fjölgun starfa, en í ljósi efnahagssamdráttar sem hefur komið illa niður á starfsskilyrðum ferðaþjónustu má fullyrða að tillögur OECD séu sérstaklega mikilvægar.“

Þetta er nefnt aftur hér til að benda á mikilvægi þess að við þurfum að standa vörð um hótelin, sérstaklega um allt land þó svo að stjórnvöld séu búin að veðja á aðeins eina gátt inn í landið. Það er eiginlega mjög mikilvægt að við stuðlum að því að hótelin okkar dafni, hvar sem þau eru á landinu.

Umsögn frá Ferðamálastofu er þess eðlis að mínu mati að hún gæti verið uppskrift að því hvernig við gætum reynt að einfalda regluverkið enn meira. En af því að ég sé að tími minn er að verða búinn ætla ég ekki að byrja á því að kafa ofan í það en vil þó segja að þetta er mjög góð umsögn frá Ferðamálastofu sem gagnast vissulega í framhaldinu.