151. löggjafarþing — 112. fundur
 11. júní 2021.
dagskrá næsta fundar.

[10:33]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseta hefur borist eftirfarandi dagskrártillaga og eftirfarandi bréf:

„Ég undirritaður geri það að tillögu minni, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að dagskrá næsta þingfundar verði:

1. Stjórn fiskveiða, 855. mál, lagafrumvarp frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, 1. umr., ásamt öðrum dagskrármálum sem forseti Alþingis leggur til.

Við óskum eftir því að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf ritar Helgi Hrafn Gunnarsson.

Þegar tillagan barst í gærkvöldi var fundur ekki ályktunarhæfur þannig að samkvæmt hefð og reglum kemur tillagan til atkvæða í upphafi næsta þingfundar, þ.e. þessa fundar sem nú hefur verið settur.



[10:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram mikilvægt frumvarp í ljósi þess að nú eru 600–700 smábátasjómenn sem standa frammi fyrir mjög alvarlegu atvinnuleysi. Málið er gott, en hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur hins vegar verið að spreða því út um allan bæ að það sé á einhvern hátt stjórnarandstöðunni að kenna að málið komist ekki á dagskrá. Ég vil halda því til haga að hv. þingmaður er formaður atvinnuveganefndar og ég sit í þeirri nefnd. Hv. þingmaður er með þingflokksformann sem semur ekki um málið fyrir hennar hönd. Hv. þingmaður er í sama flokki og virðulegur forseti sem setur málið ekki á dagskrá. Hv. þingmaður er í sama flokki og hæstv. forsætisráðherra sem virðist ekki styðja málið. Það erum við sem styðjum málið, Píratar, og stjórnarandstaðan vænti ég, við viljum setja málið á dagskrá fyrir smábátasjómenn. Sjáum hvað setur.



[10:36]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég veit ekkert um stympingar einstakra þingmanna og ætla ekki að blanda mér í það. Hins vegar er alveg ljóst að það er auðvitað ekki hægt að taka mál af þessu tagi á dagskrá í miðju kafi þegar við erum að reyna að ganga frá þinglokum. Málið kom fram, eftir því sem ég best veit, í gær. Mér finnst alveg fráleitt af Pírötum að vera að senda þetta tundurskeyti inn í þinglokasamninga með þessum hætti til að raska málum. Í þinglokasamningum er verið að semja um fjöldamörg mál, m.a. er verið að semja um fjöldamörg mál út af borðinu sem hafa fengið umfjöllun í þinginu í allan vetur. Það leiðir bara af sjálfu sér að það er ekki hægt að klára allt saman. Með því að stilla mönnum upp við vegg með þessum hætti eru þinglokasamningar settir í uppnám. Þess vegna er auðvitað ekkert annað að gera en að fella þessa dagskrártillögu.



[10:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að formaður atvinnuveganefndar skuli fara í þennan leiðangur, að leggja fram þingmál vitandi að ekki er meiri hluti fyrir því hjá meirihlutaflokkunum að koma því inn í þingið, og fari í þá vegferð að móbílisera einhverja bylgju um landið um að kenna stjórnarandstöðunni um að málið komist ekki á dagskrá. Ég hef verið hér í tólf ár og ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn leggist svona lágt, að fara í slíkan leiðangur, ég verð að segja það. Á sama tíma er í atvinnuveganefnd þingmál sem myndi taka á því sama sem hv. formaður nefndarinnar vill ekki taka á dagskrá sem varð til þess að fulltrúar Miðflokksins í nefndinni bókuðu athugasemd um að taka málið af dagskrá, en að sjálfsögðu varð formaður nefndarinnar ekki við því. Það er ekki boðlegt að taka þátt í þessu. Við munum ekki greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess hvernig formaður atvinnuveganefndar hagar sér í málinu.



[10:38]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög óheppilegt og kom fram á óheppilegum tíma. Málið er gott í sjálfu sér en ég tel ekki rétt á þessum síðustu lokametrum þegar við erum að reyna að ljúka þingi, og við vorum nú langt komin með það hér í gærkvöldi, að þetta mál sé tekið hér inn því að þetta er lagafrumvarp sem þarf auðvitað töluverða umræðu. Ég tel að að svo komnu máli, á þessum tímapunkti, sé bara ekki tími til þess að bæta einu máli ofan á. Við vorum búin að loka þeirri málaskrá sem við vorum með í höndum að mínu mati og allra annarra. Í samtölum okkar þingflokksformanna vorum við með ákveðinn lista sem við vorum að vinna með og héldum okkur stíft við hann. Ég vil ekki hvika frá því, þannig að Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun ekki greiða þessu máli atkvæði sitt, þ.e. að við verðum á rauða takkanum fyrir utan formann atvinnuveganefndar.



[10:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég hefði haldið að þingheimur væri tilbúinn til þess við þessar aðstæður að tryggja atvinnu í sjávarbyggðum landsins, smábátasjómanna og fiskvinnslufólks í landi, við þessar aðstæður. Ég hef sem formaður atvinnuveganefndar reynt að ná samstöðu með sjávarútvegsráðherra til að koma þessu máli í gegn margar undanfarnar vikur. Ég hef barist fyrir bættum hag strandveiðisjómanna og fiskverkafólks í þessu landi og ég get ekki annað en staðið með þessu máli áfram. Vissulega var það þrautalending að koma með þetta mál inn í þing og það var ekki sjálfgefið að stjórnarandstaðan legði því lið, en það mátti alveg reyna að skoða það í þinglokasamningum að menn skiptu um skoðun og teldu að þetta væri eitthvað sem skipti máli til að efla atvinnu í landinu og menn stæðu ekki uppi um hábjargræðistímann og sendu strandveiðiflotann í land. Ég styð þetta mál.



[10:41]
Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Svo það sé á hreinu þá er þessi dagskrártillaga að öllu leyti til þess gerð að reyna að tryggja atvinnuöryggi þeirra 600 smábátasjómanna sem eru í tvísýnu með atvinnu sína í sumar vegna þess að ekki var búið að laga lögin í tæka tíð. Þetta snýst ekki um þinglokasamninga, en mig langar til að það sé alveg skýrt að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem er formaður atvinnuveganefndar, hafði allt þetta ár til að leggja fram tillögu um að laga ástandið þannig að þetta færi ekki í hnút núna. Hún leggur það þess í stað fram tveimur dögum eftir að starfsáætlun þingsins er tekin úr sambandi, tveimur mánuðum eftir að síðasta tækifæri gafst til að leggja fram ný mál svo þau komist á dagskrá. Það eru ekki góð vinnubrögð. Þetta er komið í hnút núna.

Píratar eru að leggja þessa tillögu fram núna, og sér í lagi hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, til að reyna að leysa vandamálið vegna þess að við þurfum að gæta að atvinnuöryggi þessara manna. Þetta er einföld tillaga og ég vona að hún verði samþykkt. (Forseti hringir.) En verði hún ekki samþykkt er áhugavert að sjá hverjir greiða atkvæði gegn henni.



[10:42]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú staða sem komin er upp með þetta mál er í raun alveg með ólíkindum. Við þingflokksformenn sitjum nú og reynum að semja um þinglokin. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru búnir að taka af því borði mörg mál sem ég hefði gjarnan viljað að við tækjum hér til umræðu. En í ljósi þess að við erum að vinna saman og reyna að loka þinginu og kjörtímabilinu þá er ég ekki hér með dagskrártillögu um að koma þeim mikilvægu málum á dagskrá. Ef það mál sem við erum að ræða hér um strandveiðar hefði verið eitt af forgangsmálum stjórnarflokkanna við samningaborðið þá hefði ég sannarlega fagnað því og greitt því atkvæði. Ef það væri hér á dagskrá væri ég sammála því. En þessi atburðarás, þetta leikrit sem búið er að setja upp, bæði af hálfu formanns atvinnuveganefndar og hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar — ég get ekki tekið þátt í því eða við í Samfylkingunni og við munum sitja hjá við þessa afgreiðslu.



[10:44]
Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér byrsti þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sig og talaði um tundurskeyti þingflokks Pírata. Það er kannski rétt að nefna það að við erum hér að ræða um frumvarp stjórnarliða. Við erum að ræða um frumvarp sem stjórnarliðar sögðu smábátasjómönnum að strandaði eingöngu á stjórnarandstöðunni að koma á dagskrá. Við erum að draga það fram í dagsljósið að það var kjaftæði og lygi, ef fólk styður ekki þessa dagskrártillögu. Að smábátasjómönnum var logið um stöðu þessa máls.



[10:44]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti biður hv. þingmenn að gæta hófs í orðavali.



[10:45]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum hér stödd í einhverri senu í leikhúsi fáránleikans. Í stað þess að hafa farið í umræðu um mikilvægt mál á sínum tíma, á eðlilegum tíma, samþykkt tillögu sem fyrir lá, unnið með hana, verið fyrr með þetta mál, tekið samtalið til að útkljá mál sem varðar hagsmuni fjölda sjómanna og fjölskyldna þeirra, þá stöndum við hér föst í einhverjum formsatriðum af því að enn og aftur sýna stjórnvöld, sér í lagi formaður atvinnuveganefndar, að samvinna er eitthvert óþekkt fyrirbæri á þeim bænum. Þetta er staða sem hefði ekki þurft að koma upp, en við stöndum frammi fyrir henni. Við þingflokksformenn höfum setið og reynt að ná saman um þinglok. Þingflokksformaður Samfylkingar fór hér vel yfir málið. Það er fjöldi góðra mála sem hefur farið út af borðinu af hálfu, liggur mér við að segj, hvers einasta flokks og fjölmörg mál sem við hefðum viljað sjá fá forgang. Í ljósi stöðunnar ætla ég ekki að rjúfa það samkomulag. (Forseti hringir.) Þetta er hins vegar þörf og mikilvæg umræða og ég þakka Pírötum fyrir að hafa sett hana á dagskrá hér í þingsal, en við í Viðreisn sitjum hjá við afgreiðslu þessarar tillögu.



[10:46]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er á þessari títtnefndu þingsályktunartillögu. Ég ætla ekki að taka mig af henni, en ég veit að stuttur tími gefst til þess á þessu þingi að búa almennilega um hana. Þess vegna ætla ég ekki að samþykkja það að taka hana á dagskrá. Þar sem ég verð áfram á tillögunni skora ég á hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem á ýmsa gullmola í sínum bakpoka, að taka einn upp úr og standa með strandveiðinni í sumar. (Sjútvrh.: Ég á demanta.) — Þó að það væri demantur, þá skaltu slípa hann.



[10:47]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan hug á að fara eftir þingsköpum, svo það sé sagt. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir þurfti ekki að fara og ljúga því — það eru ekki stór orð, virðulegur forseti, það er bara rétt lýsing á því sem átti sér stað — að smábátasjómönnum. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður menn að gæta hófs í orðavali.)

Virðulegi forseti. Ég gæti hófs, en ég skal sleppa þessu orði í restinni af þessari ræðu af virðingu við virðulegan forseta. Hún þurfti ekki að gera það, hún kaus að gera það. Hún kaus að gera það þannig að kenna Pírötum, af öllum, um að standa í vegi fyrir málinu með því að hafa það ekki með í sínum samningum, í þinglokasamningum, virðulegur forseti. Hún þurfti ekki að gera það. Það sem við höfum gert í kjölfarið er að við höfum lagt til að málið verði tekið til umræðu hér og það er full alvara á bak við það. Gerum það bara. Það væri rétti leikurinn af meiri hlutanum, að taka málið til umræðu og samþykkja það. En nei, (Forseti hringir.) það má ekki.

Virðulegi forseti. Ég bið hagsmunaaðila (Forseti hringir.) í þessu máli að fylgjast vel með þessari atkvæðagreiðslutöflu því að atkvæðin skipta máli. Niðurstaðan skiptir máli. (Forseti hringir.) Hagsmunir sjómanna skipta máli og eru meira en einhver (Forseti hringir.) leikur í bragði stjórnmálamanna.



[10:49]
Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hefði, myndi, skyldi og allir vinir hans — ef þetta hefði verið í gær eða í fyrradag eða um áramótin. Staðreyndin er sú að staðan er að koma upp núna. Við erum hér núna og það er ekkert hægt, hvorki fyrir formann hv. atvinnuveganefndar né hvern annan sem er, að horfa fram hjá því. Í raun og veru hefði henni verið í lófa lagið að koma með þetta mál mun fyrr ef hún hefði vogað sér að sýna hæstv. sjávarútvegsráðherra hornin aðeins þar sem honum virðist vera nákvæmlega sama um smábátasjómenn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum hér til að reyna að tryggja að þeir geti fengið þessa aumu 48 daga sem þeim er úthlutað ár hvert til þess að stunda strandveiðar. Það er nú ekki meira en það. Ég skora því á okkur öll hér, hvort sem fólk er í fýlu út af þessu eða hinu, að hætta þessum fífladansi, sem er okkur til ævarandi skammar, taka þetta út fyrir pólitískar raðir og rifrildi og einfaldlega tryggja, eins og við gerðum um laxeldið á sínum tíma, þegar allt var í voða fyrir vestan, að smábátasjómennirnir okkar geti a.m.k. fengið að veiða þessa 48 daga skammlaust. Það er í okkar valdi að svo megi verða.



[10:50]
Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komið hafa fram um að þessi staða hefði ekki þurft að koma upp. Það er mál inni í atvinnuveganefnd um atvinnu- og byggðakvóta, 5,3% málið, þar sem strandveiðipotturinn er m.a. tekinn út úr, sem hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar stoppaði í nefndinni. Þetta er frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði fram og þar á meðal var tekið á strandveiðimálinu. Það hefði mátt bæta það mál í vinnu nefndarinnar og ná farsælli lúkningu með strandveiðar. Ég er talsmaður strandveiða og byggðafestu í landinu, en að koma með þetta mál núna á síðustu metrunum eru alveg óforbetranleg vinnubrögð. (Gripið fram í.) Ég og við í mínum flokki erum alveg til í að vinna inn í sumarið ef þingheimur greiðir atkvæði með þessu. Við höfum sýnt það á síðustu dögum að við erum alveg til í að vinna í einn mánuð í viðbót (Forseti hringir.) eða tvo mánuði í viðbót, landi okkar til hagsbóta.

(Forseti (SJS): Þingmenn fara nú ekki á strandveiðar meðan þeir eru á þingi.)



[10:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek ekki þátt í því í þessari heitu umræðu hér, sem allt virðist vera að fara á hliðina yfir, að vera sökuð um að ljúga. (GBS: Það er nú satt.) — Það er ekki satt. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ætti aðeins að hugsa um að feta leiðir sannleikans. Ég hef ekki logið neitt í þessu máli. Þingið hefur fulla burði til þess ef mál koma inn að taka þau á dagskrá í þinglokasamningum. En það var ekki gert. Þannig liggur þetta mál. Í atvinnuveganefnd er frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem dregur úr afla í strandveiðum og býður upp á að róa á öllum dögum, svo strandveiðar hefðu klárast miklu fyrr hefði það frumvarp nokkurn tíma verið samþykkt. Þannig er nú sá veruleiki. En ég held áfram að berjast fyrir strandveiðum og fyrir sjávarbyggðir landsins og læt ekki saka mig um það að vera að ljúga að einum eða neinum. Það er ekki minn háttur.



[10:57]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti biður þingmenn um að hafa hemil á kátínu sinni þannig að ræðumenn fái gott hljóð.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[10:58]

Dagskrártillaga  felld með 30:10 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  BLG,  GIK,  HallM,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  LRM,  SMc,  ÞSÆ.
nei:  ATG,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórP,  ÞórdG.
19 þm. (AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  GBr,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  RBB,  SDG,  SPJ,  ÞorbG,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
4 þm. (ÁslS,  LA,  MH,  SÁA) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði nýlega þá er það stundum þannig á Íslandi að það er verra að tala um glæpinn en að fremja hann. Endurspeglast það í þeirri arfavondu ræðu sem við hlýddum hér á frá síðasta ræðumanni, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Staðreyndirnar tala sínu máli, þetta eru samtöl sem áttu sér stað á Facebook. Þau eru skrifuð þar. Það er hægt að bera það sem hv. þingmaður sagði þar saman við það sem hún sagði í svari sínu. Það er hægt að hlýða á smábátasjómenn og hvað þeim hefur verið sagt, hvað þeir hafa frétt um þetta mál, hvaðan það kemur og hverjum það á að vera að kenna að það sé ekki einu sinni tekið til umræðu núna.

Virðulegi forseti. Staðreyndir ljúga ekki.



[10:54]
Birgir Ármannsson (S):

Forseti. Ég held að það hafi komið skýrt fram, af hálfu flutningsmanns þessarar dagskrártillögu, að hann gerir sér grein fyrir því að þetta mál mun ekki fara á dagskrá. Þetta er bara liður í því að gera upp einhverjar sakir við einhvern annan þingmann, formann atvinnuveganefndar. Tillagan sem slík er auðvitað bara sýndarmennska. Ég held að við hljótum öll að átta okkur á því að þetta er sýndarmennska, gerð í þeim eina tilgangi að reyna að stilla fólki upp við vegg í einhverju áróðursstríði utan þessara veggja. Það er ekkert einsdæmi, en það hjálpar ekki þegar við erum að reyna að ná samkomulagi um þinglok með skikkanlegum hætti. Það hjálpar ekki.



[10:55]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sakar okkur Pírata um sýndarmennsku. Það er auðvitað ekki rétt. Hið sanna er að við fáum fregnir af því að það væri einhvern veginn óþægilegt fyrir stjórnarflokkana að leggja þetta mál fram akkúrat núna og sjá til þess að smábátasjómenn geti unnið sína vinnu. Og það verður að koma frá okkur Pírötum, það eru skilaboðin frá stjórnarliðinu. Hvar er nú sýndarmennskan, virðulegur forseti, þegar okkur er tjáð að það liggi einhvern veginn á okkur, að við þurfum að leggja þetta til til þess að stjórnin geti látið svo lítið að hjálpa þeim, sem er raunar á þeirra borði með hæstv. sjávarútvegsráðherra innan borðs? Hvar er sýndarmennskan, virðulegi forseti, þegar við heyrum af því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð heldur því fram að það sé Pírötum að kenna að þetta mál komist ekki á dagskrá? Við erum einfaldlega að sýna fram á hvar sýndarmennskan liggur. Við erum tilbúin að setja þetta mál á dagskrá.



[10:56]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þessi dagskrártillaga er sýndarmennska og popúlismi af aumustu sort. Það er ekki nokkur leið að samþykkja eitthvað sem er sett fram til að þyrla upp ryki og skemma fyrir öðrum þingstörfum. En fyrst og fremst — þetta er vont, ég veit það — er þetta aumasti popúlismi sem til er og við tökum ekki þátt í slíku.



[10:57]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Svona dagskrártillaga gerir tvennt; annars vegar sýnir hún landsmönnum í atkvæðagreiðslu í þingsal hvar vilji manna liggur raunverulega, sem er gott og lýðræðislegt. Það er gott fyrir landsmenn að sjá það. Það er „gegnsæismómentið“. Hitt er það að vegna þess að þingmenn hérna inni sjá að landsmenn munu sjá þeirra raunverulega vilja í málinu þá skapar það pólitískan þrýsting á að ná málinu mögulega í gegn. Er það ólíklegt? Já. Er það mögulegt? Já, auðvitað er það mögulegt. Þegar þeir sjá að það er á þeirra ábyrgð að 700 sjómenn missa vinnuna eða fá ekki vinnu þá getur það auðvitað skapað pólitískan þrýsting til að klára málið. Þannig að þetta er gott og lýðræðislegt verkfæri til að varpa ljósi á hvar ábyrgðin liggur og mögulega ná í gegn þeim breytingum sem þarf að ná í gegn. Svona virkar lýðræðið vel.