151. löggjafarþing — 112. fundur
 11. júní 2021.
fullnusta refsinga, 2. umræða.
stjfrv., 569. mál (samfélagsþjónusta og reynslulausn). — Þskj. 961, nál. m. brtt. 1540.

[20:57]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar vegna þessa máls sem varðar fullnustu refsinga. Þetta mál var, eins og getið er um í nefndaráliti, sent til umsagnar og við fengum gesti á fundi nefndarinnar. Efnisatriði málsins eru fyrst og fremst á þá leið að þar eru lagðar til tímabundnar breytingar á lögum um fullnustu refsinga sem lúta að reynslulausn og heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu. Þar er um að ræða útvíkkun sem gerð er til þess að unnt verði að stytta biðlista eftir fullnustu refsinga.

Þess er getið í nefndarálitinu að við meðferð málsins hafi komið fram sjónarmið um að tilefni væri til að gera ákvæðin varanleg. Meiri hlutinn áréttar að markmið frumvarpsins sé að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga eins og málin horfa núna og getur meiri hlutinn þess að æskilegt sé að fylgst verði með hvort frumvarpið hafi tilætluð áhrif áður en ákvæðin verða fest varanlega í sessi. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að á gildistíma laganna verði tekið til skoðunar hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu skuli vera stjórnvaldsákvörðun eða hvort fela eigi dómstólum þá ákvörðun.

Þetta er mál sem oft hefur komið upp í umræðu á undanförnum árum, hvort það eigi að vera stjórnvalda að ákveða hvort heimilað sé að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu. Við gerum ekki tillögu um breytingar í þeim efnum í sambandi við afgreiðslu þessa máls en áréttum í nefndarálitinu að mikilvægt sé að sú umræða eigi sér stað og að það verði skoðað til frambúðar.

Meiri hlutinn bendir einnig á í nefndarálitinu að í greinargerð komi fram að heimildunum í 1. gr. frumvarpsins sé ætlað að ná til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laganna og þegar eru komnir til fullnustu Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024. Meiri hlutinn telur æskilegt að slík lagaskil komi fram í bráðabirgðaákvæðunum sem um ræðir og leggur til breytingar þess efnis.

Að auki leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Í þessu máli er rétt að hafa í huga að hér er um heimildarákvæði að ræða en ekki skyldu eða réttindi þannig að það verður áfram mat sem ræður því hvort heimilað verður að beita þeim úrræðum sem frumvarpið felur í sér. Telur meiri hlutinn að í því felist það öryggi að það verði metið út frá þeim einstaklingum sem sækja um samfélagsþjónustu eða reynslulausn fyrr en ella hvort þeir teljist uppfylla skilyrði til að fá slíka málsmeðferð.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu lengri en get þess að undir nefndarálit þetta skrifa eftirfarandi nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd: Sá sem hér stendur, Páll Magnússon formaður, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.



[21:01]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni framsögumanni fyrir. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann kom inn á í framsögu sinni, þ.e. að það verði tekið til skoðunar hvernig tekst til áður en ákvæðið verður gert varanlegt, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Er það þá ekki ætlað til þess að vinna eingöngu á þessum biðlistum og listum sem eru hér álitnir vandamál, sem ég hefði fyrir mitt leyti talið mögulegt líka að vinna betur með því kannski að byggja fangelsi eða fjármagna þau sem til staðar eru þannig að hægt væri að vinna á þessum listum?

Orðalagið vakti athygli mína; að þetta yrði skoðað áður en ákvörðun yrði tekin um að gera þessa lausn varanlega. Minn skilningur var sá að verið væri að horfa til þess að ná niður þessum löngu boðunarlistum sem lítið gengur á. En þá spyr maður sig: Hvað svo? Er uppleggið að þetta fyrirkomulag verði framtíðarlausnin og það verði þannig að öll brot sem við er styttri refsing en tvö ár — það er niðurstaðan — verði afplánanleg með samfélagsþjónustu? Mér finnst ekki alveg fara saman hljóð og mynd þarna hvað það varðar að verið sé að innleiða þessa lausn tímabundið til þess að vinna á listunum, en svo eigi að skoða málið sérstaklega áður en ákvörðun er tekin um að þessi útfærsla verði gerð varanleg.



[21:03]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er gott ef við getum skýrt þessa þætti nánar. Frumvarpið eins og það er útbúið og eins og nefndin afgreiðir það frá sér gerir ráð fyrir að um tímabundið úrræði sé að ræða. Því fé er ætlað að gilda til 1. júlí 2024 þannig að því er ætlaður þriggja ára gildistími. Orðin sem hv. þingmaður vísar til eru viðbrögð meiri hluta nefndarinnar við ábendingum eða tillögum sem komu fram við málsmeðferð um að þetta ákvæði yrði ekki tímabundið heldur varanlegt. Við teljum ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar spurningar. Við teljum að það nægi okkur núna að samþykkja tímabundið ákvæði, enda eru þá þrjú ár til að taka afstöðu til ábendinga eða tillagna sem komið hafa fram um varanlegt fyrirkomulag þessara mála. Ég held að ég geti ekki skýrt þetta nánar en ítreka síðan það sem ég sagði líka í framsöguræðu minni, að hér er auðvitað um heimildarákvæði að ræða. Við erum í þeirri stöðu að við erum hér með úrræði sem við þekkjum, en við erum hins vegar að rýmka skilyrði til þess að þeim verði beitt. Við teljum ekki í meiri hluta nefndarinnar að það séu forsendur til þess eða að athugun eða umræða hafi enn þá verið á þá leið að það sé tilefni til þess að gera þetta með varanlegum hætti. Við tökum enga afstöðu til þess heldur vísum þeirri spurningu inn í framtíðina, enda eru þá þrjú ár til að meta þann þátt nánar.



[21:05]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki með nefndarálitið hérna með mér, en þegar ég renndi yfir það þá fannst mér ekki vera mikil leiðbeining um það sem maður gæti skilið sem svar við spurningunni: Og hvað svo? Eftir þrjú ár verður þetta skoðað og þá koma eflaust umsagnaraðilar og segja að þetta hafi allt gengið mjög vel og listarnir hafi styst. En ég hefði gjarnan viljað sjá afstöðu nefndarinnar til þess hvort ekki yrði bara fylgst með hvernig listarnir þróuðust heldur líka unnin einhver greining á því hvort styðja þurfi við og styrkja þau úrræði sem Fangelsismálastofnun hefur, bæði hvað varðar fjölda rýma sem eru til staðar og síðan auðvitað fjölda þeirra rýma sem fjármagn er til staðar til þess að reka. Ástæða þess að boðunarlistarnir eru jafn langir og raun ber vitni er að bæði rými og fjármagn hefur vantað. Þetta þekkjum við í gegnum söguna.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann nefndarálitsins: Var það rætt að einhverju marki að uppáleggja væntanlega dómsmálaráðherra að vinna einhverja greiningu hvað þetta varðar? Það er ákveðin hætta á því að rökin fyrir því þegar þar að kemur að halda kerfinu með þessum hætti gætu orðið þau að menn sjái fyrir sér að þetta hafi allt verið að fara hratt í sama farið, því að þetta svigrúm hefur farið úr 3 mánuðum, ef ég man rétt, í 6, í 9 og 12 og síðan í 24 mánuði núna. Það fara væntanlega að verða (Forseti hringir.) mjög fáir brotahópar sem falla undir það þurfa raunverulega að sitja í fangelsi. (Forseti hringir.) Hefur framsögumaður skoðun á því hvort það ætti að skipta þessu, takmarka hvers lags brot þetta geti átt við um?



[21:08]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt í þessu hjá hv. þingmanni sem er ástæða er til að taka undir, þ.e. að þetta hangir auðvitað saman við hvaða úrræði eru í boði í fangelsiskerfinu. Það má ekki skilja nefndina svo að hún telji að við séum komin á endastöð varðandi byggingu fangelsisrýma eða aðra slíka þætti, alls ekki. Hins vegar er það þannig að hér vorum við að taka afstöðu til tiltekinnar tillögu en ekki að fjalla um fangelsismálin á breiðari grundvelli. En það er alveg ástæða til að taka undir þau ummæli hv. þingmanns að þetta þurfi að skoða heildstætt.

Ég lít svo á að með þriggja ára gildistíma þessa frumvarps, eða þeirrar breytingar sem hér er boðuð, sé nokkurt svigrúm til að taka afstöðu til framtíðarfyrirkomulags að þessu leyti og ekki bara út frá boðunarlistum heldur út frá stöðu mála í fangelsiskerfinu að öðru leyti. Ég vil hins vegar taka undir að það þarf að gæta þess að fangelsiskerfið, eins dapurlegt og það kann að hljóma, sé í stakk búið til þess að veita þá þjónustu sem nauðsynlegt er miðað við dóma og þörf fyrir vistun fanga.



[21:10]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn á samfélagsþjónustu almennt sem úrræði utan fangelsa í staðinn fyrir óskilorðsbundna fangelsisdóma. Ég tek það reyndar fram, og tek undir orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar í andsvari, að auðvitað eigum við að tryggja nægt fjármagn til reksturs fangelsa í landinu. Úrræði af þessu tagi eiga að skoðast í víðu samhengi, ekki endilega vegna fjárskorts til rekstrar og byggingar fangelsa í landinu. Það er náttúrlega eitthvað sem á að vera ágætlega fjármagnað. Það er bara hluti af réttarríkinu sem við búum í. Þó hefur þróun síðustu ára falið í sér aukna notkun þessara úrræða, þessa samfélagsþjónustuúrræðis.

Það er kannski líka rétt að benda á það í upphafi, herra forseti, að varðandi samfélagsþjónustu — sem er skilgreind á vef Fangelsismálastofnunar og þar er ýmsum spurningum svarað og fróðlegt að skoða hvaða skilyrði þarf að uppfylla, hvernig reglurnar eru o.s.frv. — þá megum við heldur ekki gleyma því að hinum megin er einhver sem tekur að sér að taka á móti þeim sem eru í samfélagsþjónustu. Samfélagsþjónustan felur í sér tímabundið ólaunað starf og einhver þarf þá að veita starfið og það þarf náttúrlega að vera aðstaða og allt til þess. Það má heldur ekki gleyma þeim þætti málsins.

Einstaklingum sem afplána dóma sína með samfélagsþjónustu hefur fjölgað síðustu ár. Það sem er kannski mikilvægast í því frá mínu sjónarhorni séð er að hugsa hvernig líklegast sé að menn geti staðið sig þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Það er mjög mikilvægur þáttur í þessum málaflokki að mínu mati. Reynslan hefur sýnt að ef menn eru lokaðir inni til skamms tíma þá er tíðni þess að þeir komi aftur í fangelsi, svokölluð ítrekunartíðni, samkvæmt rannsóknum hærri en hjá þeim sem gegna samfélagsþjónustu. Það kemur fram af hálfu fangelsismálayfirvalda að samfélagsþjónusta hafi reynst vel og aðeins u.þ.b. 16% þeirra sem afplána refsidóma sína á þann veg brjóti af sér á ný og það er lág tíðni. Einnig hafa verið auknir möguleikar til að afplána hluta fangelsisvistar í svokölluðum opnum fangelsum og það hefur líka skilað árangri í því að menn brjóti síður af sér að lokinni afplánun.

Það er mikilvægt að við höfum sem besta þekkingu á árangri fangelsiskerfa í því að hindra frekari glæpastarfsemi, það er afar mikilvægt að mínum dómi. Fangelsiskerfin eru mismunandi og hafa sínar sérstöku stefnur eftir því hvar menn eru. Ísland og Noregur eru talin hafa refsistefnu sem leggur áherslu á endurhæfingu fanga en í Bandaríkjunum er t.d. refsistefnan harðari og skilar föngum ekki endilega endurhæfðum út. Fangelsismálayfirvöld, og mér finnst þetta mikilvægt, þurfa að hafa góða þekkingu á því hvaða tegund refsingar skili sér best. Svokölluð ítrekunartíðni lýsir árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi og ítrekunartíðni afbrota er eiginlega eina leiðin til að meta árangur ólíkra refsikerfa og gefur vísbendingar um gæði tiltekins refsikerfis. Þetta kemur fram í afbrotafræðunum.

Herra forseti. Þegar ég var að kynna mér þetta frumvarp og lesa mér til um þetta, ég verð að segja að ég hef verið áhugasamur um að kynna mér til hlítar samfélagsþjónustu hvað þetta varðar, rakst ég á nýlega BA-ritgerð við Háskóla Íslands eftir Ólafíu Laufeyju Steingrímsdóttur. Í ritgerðinni er athyglisvert yfirlit yfir fræðilegar rannsóknir á árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi. Þar er vikið sérstaklega að samfélagsþjónustu og margt mjög athyglisvert sem kemur þar fram. Ef ég leyfi mér að grípa aðeins niður í hana, með leyfi forseta, þá segir þar:

„Samfélagsþjónusta hefur verið meira notuð sem úrræði í stað fangelsunar síðustu ár. Hún er einnig almennt talin hagkvæmari en að setja fólk í fangelsi og er því mikilvægt að athuga hver áhrif hennar eru á ítrekunartíðni.“

Ítrekunartíðni er, eins og áður segir, árangur fangelsiskerfanna í að hindra frekari glæpastarfsemi.

„Flestar rannsóknir benda til þess að samfélagsþjónusta lækki ítrekunartíðni ekki marktækt borið saman við fangelsun. Þannig hafa rannsóknir ýmist sýnt fram á engan mun á milli fangelsis og samfélagsþjónustu (sjá t.d. Killisa, Aebi og Ribeaud, 2000) eða þá að samfélagsþjónusta sé með lægri ítrekunartíðni en munurinn sé þó ekki marktækur (Muliluvuori, 2001; Spaans, 1998). Þá kom fram í rannsókn Spaans (1998) að tilhneiging er til þess að einstaklingar sem afplána með samfélagsþjónustu fremji ekki jafn alvarleg brot og þeir sem eru sendir í fangelsi sem getur vissulega haft áhrif á lága ítrekunartíðni þessa hóps.

Rannsókn Baumer o.fl. (2001) á ítrekunartíðni afbrota á Íslandi sýndi mikilvægar niðurstöður hvað þetta varðar. Þess má geta að rannsóknin var gerð á tímabilinu þegar samfélagsþjónusta var einmitt að byrja hérlendis og skoðaði ítrekunartíðni þeirra sem luku samfélagsþjónustu á Íslandi á árunum 1995 til 1998.“ — Það er orðið svolítið langt síðan. — „Niðurstöðurnar voru að tíðni ítrekunar var almennt hæst meðal þeirra sem luku afplánun í fangelsi.“

Rétt er að hafa það í huga og þetta er rannsókn sem gerð var hér á Íslandi.

„Lægst var hún meðal þeirra sem luku afplánun með samfélagsþjónustu þegar litið er á þá sem lentu í nýjum afskiptum lögreglu eða hlutu nýjan dóm innan þriggja ára. Þeim sem luku samfélagsþjónustu var fylgt eftir í þrjú ár eftir fullnustu og voru 17% þeirra fangelsaðir á ný, 22% hlutu nýjan dóm og af 55% hafði lögreglan ný afskipti.

Rannsókn Graunbøl o.fl. (2010) leiddi svipað í ljós. Af þeim sem hófu samfélagsþjónustu á Íslandi árið 2005 höfðu 16% fengið nýjan dóm innan tveggja ára.“

Þetta er lág tíðni og ánægjuleg og vissulega þess virði að þetta sé skoðað. Við ákvarðanatöku í þessum efnum er mikilvægt að menn ræði við fræðimenn á þessu sviði sem hafa eytt kannski hálfri ævi sinni í að rannsaka þessi mál, afbrotafræðinga og fleiri. Það er mikilvægt að menn hlusti á þá sem þekkja kannski best til í þessum efnum.

Í þessari ritgerð er talað um bandarískar rannsóknir sem eru mjög athyglisverðar. En við þekkjum að refsistefnan í Bandaríkjunum er harðari en hér og í Noregi.

„Á Íslandi er fangelsisrefsingum ekki beitt nema nauðsyn krefjist og þær hafi ákveðið markmið. Þetta viðhorf endurspeglast í fangelsiskerfinu á þann hátt að fangelsin eru bæði lítil og fá. Fangelsin hafa verið skipulögð út frá órefsimiðuðum aðferðum sem eiga að stuðla að endurhæfingu fanga og tryggja dómþolum farsæla enduraðlögun að samfélaginu (Baumer o.fl., 2002; Pakes og Gunnlaugsson, 2018). Vegna fjárskorts“ — sem er mikilvægt að við vinnum á til frambúðar — „hefur þó lögbundnum verkefnum í fangelsismálum landsins ekki verið nægilega vel sinnt.“

Þetta kemur m.a. fram hjá Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

„Á allra síðustu árum hafa gæði í þjónustu við fanga aukist. […] Í ljósi þessa hefur gengið vel á Íslandi að endurhæfa fanga og halda þeim frá fangelsum.“ — Þetta sýndu rannsóknir frá 2001 og rannsóknir frá 2010. — „Í ljósi þessara niðurstaðna er almennt hægt að álykta að refsistefna landanna hefur óneitanlega áhrif á árangur landanna í að endurhæfa brotamenn og þar af leiðandi líkur á að dómþoli brjóti af sér á nýjan leik.“

Þetta er mitt innlegg í þetta mál, herra forseti. Ég ítreka eins og ég sagði áðan að auðvitað eiga stjórnvöld að sjá til þess að fjármunir séu til staðar til að reka fangelsiskerfið á Íslandi og tilefni þessa máls er að stytta biðlista tímabundið til fullnustu refsinga. Ég hefði viljað sjá að menn ræddu þetta á víðari grundvelli eins og ég nefndi hér í upphafi.

Niðurstaða þessarar ágætu samanburðarrannsóknar sem ég vitnaði í eftir Ólöfu Laufeyju Steingrímsdóttur er sú að samfélagsþjónusta hefur ekki aukið glæpastarfsemi, ef eitthvað er hefur hún lækkað hana. Hún er einnig mun ódýrari kostur fyrir samfélagið og betri fyrir brotamenn.



[21:21]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla stuttlega um þetta frumvarp til breytinga á lögum um fullnustu refsinga og ræða það svolítið út frá minni reynslu í starfi á þessu sviði sem lögreglustjóri, þar sem ég hef komið að þessu máli mjög oft og horft á hvernig þetta hefur gerst. Lagabreytingin sjálf er í fyrsta lagi tímabundin, taka verður mið af því að hún er tímabundin til 2024. Það eru þrjú ár þannig að það er ekki eins og verið sé að breyta þessu alfarið. Reyndar hefur þetta verið að rýmkast mjög mikið, þ.e. þeir dómþolar sem fá dóma sem eru undir einhverju viðmiði — í þessu frumvarpi eru það 24 mánuðir í fangelsi, þar sem heildarrefsingin er 24 mánuðir, óskilorðsbundið eða skilorðsbundið — eiga nú kost á að fá fullnustu dóms síns með samfélagsþjónustu. Áður var þetta talsvert lægra viðmið, 12 mánuðir, og fyrir löngu síðan voru það þrír mánuðir. Þetta hefur sem sagt verið að rýmkast. Er það til góðs eða ekki? Er það til marks um að fangelsiskerfið sinni ekki verkefni sínu? Er sem sagt að flæða út fyrir úr þessu keraldi?

Ég nefni það að fangelsi hér hafa mörg hver verið lögð niður, þessi litlu fangelsi, og sérstaklega þegar Hólmsheiðin var tekin í notkun. Þá voru mörg lítil og ófullnægjandi fangelsi lögð niður þannig að fjölgunin varð kannski ekki svo gífurleg. Sú aðgerð í fyrra að leggja niður fangelsi á Akureyri hefur auðvitað áhrif á þetta. Þetta hefur allt áhrif.

Svo vil ég koma örlítið inn á þær kröfur sem gerðar eru til fangelsa. Þetta eru orðnar miklar kröfur og það er kannski eðlilegt. Við viljum auðvitað gera vel við fanga þannig að sem mestar líkur séu á því að þeir fái betrun í fangelsum, ekki er hægt að deila á það. En erlendir fangar sem ég hef heyrt í og hafa dvalið í íslenskum fangelsum hafa talað um það sem geysilegan lúxus miðað við það sem þeir þekkja úr sínu heimalandi. Kannski má aðeins íhuga að kostnaðurinn í fangelsiskerfinu er orðinn gífurlega mikill og má spyrja sig hvort fangelsiskerfið sé vanfjármagnað að þessu leytinu til.

Hlutfall fanga í samfélaginu er samt mjög lágt á Íslandi, ef ég man töluna rétt, þannig að við eigum alveg að geta sinnt þessum málaflokki vel. Við eigum að geta sinnt honum vel. Þegar dómar fyrnast, eins og hefur færst í vöxt miðað við það sem stendur í greinargerðinni, hefur það gífurlega neikvæð áhrif, mjög neikvæð áhrif, herra forseti, og ekki bara á dómþolann sem hrósar auðvitað happi og er ánægður með að losna við refsinguna. En meiri líkur eru á að hann læri ekki af þessu. Þannig að þessi sérstöku varnaðaráhrif sem oft er talað um eru síður fyrir hendi þegar um þetta er að ræða þó að til séu undantekningar. Þessi almennu varnaðaráhrif eru þá fyrir róða vegna þess að þetta hvetur menn, eða letur þá alla vega ekki, sem horfa á þetta og sjá að menn sleppa, til að ganga áfram á afbrotabraut sinni. Það er því ekki gott mál að láta dóma fyrnast.

Ég átta mig alveg á því að þarna er verið að leysa ákveðið vandamál og ná niður þeim fjölda dómþola sem bíður eftir að ljúka refsivist sinni og verið er að færa markið upp í 24 mánuði. Ég spyr náttúrlega líka, eins og kom fram í andsvörum áðan: Hvaða dómar eru þetta? Þarna er talað um almannahagsmuni og að almannahagsmunir mæli ekki gegn því, og að lagt sé mat á það hvaða dómar það séu sem uppfylli þessi skilyrði. Jú, vissulega þarf að gera það. Við sem samfélag viljum auðvitað ekki horfa upp á að t.d. afbrotamenn sem fremja grófa ofbeldisglæpi þar sem refsingin er kannski innan þessara marka, 24 mánaða fangelsi, fari svo að mála girðingar á grænum svæðum höfuðborgarinnar í samfélagsþjónustu. Ég treysti því að girt sé fyrir það með þessu orðalagi um almannahagsmuni. Kannski fá þeir sjaldnast refsingu sem er undir þessum 24 mánuðum, en auðvitað þarf að hafa í huga að slíkt gerist ekki.

Ég var að tala um varnaðaráhrif refsinga hér áðan. Við verðum alltaf að hafa það í huga, þegar við fjöllum um þennan málaflokk, að við ætlumst til að fólk í samfélaginu líti þannig á refsilöggjöfina að hún komi í veg fyrir að menn freistist til að fremja afbrot. Það eru þessi almennu varnaðaráhrif og svo þessi sérstöku varnaðaráhrif þegar refsingar eru lagðar á til að slá á puttana á viðkomandi brotamanni. Ef það er mikil eftirgjöf, herra forseti, og ég hef sögur af þessu og dæmi um það, þá halda menn áfram að brjóta af sér. Það var einn aðili fyrir margt löngu síðan, sem var, eins og stundum er, sífellt að aka undir áhrifum áfengis. Hann lenti í ákeyrslum og lét sér aldrei segjast. Hann fékk dóma, það var bara slegið á puttana á honum og hann sektaður og sviptur ökuréttindum en hann hélt nú bara áfram.

Þetta er saga sem allir kannast við sem hafa unnið í þessu kerfi, að menn láta sér ekki segjast. Ég held að varðandi brot eins og ölvunarakstur þurfi ansi mörg skipti og margar ítrekanir áður en viðkomandi aðili fær að horfast í augu við fangelsisrimlana sjálfa. Þarna er kannski verið að fjölga þeim skiptum sem viðkomandi getur framið álíka brot. Þessi maður sagði mér frá því að hann hefði verið búinn að aka ítrekað ölvaður, búinn að fá marga dóma og hunsaði þetta allt saman. Sektirnar skiptu engu máli, sviptingin skipti engu máli. Svo loksins fékk hann fangelsisdóm en hann var skilorðsbundinn þannig að hann fór ekki inn. Hann endurtók leikinn og loks fékk hann 30 daga fangelsi. Hann trúði því náttúrlega ekki að hann yrði settur inn en það fór nú samt svo að honum var stungið inn í þessa daga. Hann sagði við mig sérstaklega að þá fyrst hefði hann vaknað upp við vondan draum. Hann hefði aldrei lært þetta nema hann hefði í raun og veru þurft að sjá hinn ógurlega alvarleika að vera kominn í fangelsi fyrir þetta. Þegar hann vaknaði upp við þann vonda draum fór hann að hugsa ráð sitt. Ég held að viðkomandi aðili hafi nú hætt áfengisdrykkju eftir þetta og ekki gerst brotlegur, alla vega ekki á þessu sviði. Þannig að í vissum tilvikum má auðvitað ekki vera of mikil eftirgjöf, herra forseti. Sumir bara læra ekki fyrr.

Rétt í lokin er það tvennt sem ég ætlaði að tala um áður en ég klára. Það er þetta með dóma sem fyrnast og dóma sem dragast, þ.e. afplánun sem dregst kannski árum saman. Fjölmörg dæmi eru um að menn séu kallaðir inn í fangelsin kannski þremur, fjórum árum eftir að dómur fellur og jafnvel síðar. Dómur fellur kannski ekki fyrr en eftir eitt eða tvö ár frá broti og það geta því liðið kannski fimm eða sjö ár þangað til menn loksins fara að afplána refsingu sína. Þá er líf þeirra gjörbreytt, þeir eru löngu hættir að neyta áfengis eða vímuefna, sem þeir gerðu kannski áður, og komnir með fjölskyldu og börn. Það kemur mjög hart niður á þessum hópi þegar refsingar dragast svona mikið. Þess vegna held ég að þetta frumvarp sé ágætt. Við verðum samt að huga að því að fjármagna fangelsiskerfið þannig að það geti sinnt hlutverki sínu.

Ég er alls ekki á móti frumvarpinu, ég held að þetta sé gott mál en ég ætla nú samt að ljúka máli mínu á einu atriði í viðbót. — Nú finn ég það ekki, en það varðar hugleiðingar í greinargerð um hver eigi að taka ákvörðun um samfélagsþjónustu. Ég er ansi hreint skotinn í þeirri hugmynd að það yrði ekki stjórnvaldsákvörðun og ekki ákvarðað af Fangelsismálastofnun heldur af dómstólum. Ég hef lengi verið hrifinn af þeirri hugmynd og ég tek undir orð í greinargerð, sem ég finn nú ekki núna, um að skoða eigi það vandlega hvort dómari sé þá í stakk búinn til að tiltaka þegar hann ákveður refsinguna hvort viðkomandi brotamaður eða dómþoli eigi þess kost að ljúka þessu á einhvern hátt annan en með refsivist, þ.e. samfélagsþjónustu eða rafrænu eftirliti eða einhverju slíku. Ég hrifinn af þeirri hugmynd.



[21:34]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem þessi tillaga hefur verið til umfjöllunar. Hún er að mínu viti skiljanleg en hún er um leið þungur dómur um getuleysi stjórnvalda í þessum málaflokki, það verður að segjast eins og er. Dæmdir menn bíða í dag lengi eftir því að komast í afplánun eftir að dómur fellur. Samkvæmt því sem fram hefur komið í umfjöllun og umræðu um þetta mál er meðalbiðtími eftir afplánun nú í mánuðum talinn sjö mánuðir og í einhverjum tilvikum lengri. Við sjáum, eins og rakið er í umfjöllun um þetta mál og í umræðum hér í þingsal, að dómar fyrnast. Hvað þýðir það að dómur fyrnist? Það þýðir að það líður svo langur tími frá því að dómur fellur þar til menn eru boðaðir í afplánun að dómurinn hefur fyrnst með þeim afleiðingum að menn þurfa ekki að afplána dóminn.

Hér er sem sagt verið að leggja það til að hægt verði að afplána allt að tveggja ára þunga fangelsisdóma í samfélagsþjónustu. Þetta er að vísu aðeins heimildarákvæði en það veldur því engu að síður að þar undir munu falla dómar fyrir alvarleg brot og engir dómar eru sérstaklega undanskildir í þessari tillögu. Dómsmálaráðherra er í máli þessu að bregðast við biðlistum í fangelsi með því að leggja fram frumvarp um að auka samfélagsþjónustu sem taki þá til allt að tveggja ára þungra dóma. Í greinargerð með frumvarpinu er rakið hvers vegna sú leið er farin, sem blasir auðvitað við, og það er gert til þess að stytta boðunarlista í fangelsi sem hefur lengst með þeim hætti síðustu ár að biðtími eftir afplánun hefur lengst allverulega. Það væri kannski í einhverju samhengi brosleg tilhugsun að það séu biðlistar á Íslandi eftir því að komast í fangelsi ef hagsmunirnir þar að baki væru ekki svona alvarlegir. Biðlisti í fangelsi er auðvitað algerlega absúrd staða, sér í lagi þegar hann er talinn í þetta löngum tíma. Viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra við þessum vanda eru þess vegna eðlileg og þau eru skiljanleg en með þeim er hins vegar ekki verið að ráðast að rót vandans heldur bara verið að klippa aftan af allt of löngum boðunarlista í fangelsi.

Af því að það kom fram áðan í umfjöllun að hér væri um heimild að ræða þá skiptir máli að það er engin umfjöllun í þessu máli um refsipólitík eða dóma á breiðari grundvelli sem hefur þau áhrif að verið er að galopna á heimildir Fangelsismálastofnunar í þeim efnum. Að því sögðu er það eindregin skoðun mín að samfélagsþjónusta sem úrræði í fangelsismálastefnu og refsipólitísk sé mjög af hinu góða. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að dómarar ættu að hafa heimild til að dæma menn í samfélagsþjónustu. Það er hins vegar ekki það sem verið er að leggja til hér sem mér hefði þótt eðlilegt skref almennt séð, sér í lagi í þessari stöðu, að stíga. Þess í stað er verið að leggja fram þessa tillögu núna sem boðar það að fara með allt að tveggja ára þunga dóma í samfélagsþjónustu án þess að löggjafinn sé að stíga nein einustu skref í þeim efnum að ramma inn hvers eðlis þau brot eru sem þarna eiga að falla undir. Mér finnst eðlilegt að löggjafinn rammi inn með einhverjum hætti hvað eigi að falla undir annað en bara tímalengd dómsins.

Ég lít svo á að hér séum við að færa Fangelsismálastofnun of miklar heimildir, þrátt fyrir að ég beri fullt traust til þeirrar stofnunar, því að það eru jú þrátt fyrir allt dómstólarnir í landinu sem fara með dómsvaldið. Það er þekkt sjónarmið og viðmið og hugmyndafræði um fangelsisdóma að til þess að dómur hafi tilætluð áhrif, annars vegar fyrir þann dæmda en hins vegar fyrir samfélagið í heild sinni, þá þurfi sakborningur og hinn dæmdi að geta setið þann dóm af sér sem hann hlýtur sem fyrst. Þetta er atriði sem hefur samfélagslega þýðingu en hefur líka mikla persónulega þýðingu og varðar mannréttindi sakbornings, að hann fái að afplána refsingu sem fyrst. Dragist það mjög lengi getur það hæglega gerst að líf sakbornings sé á allt öðrum og betri stað þegar loks kemur að afplánun og afplánun þá í einhverjum tilvikum jafnvel farin að vinna gegn upphaflegu markmiði sínu, því að biðin felur auðvitað í sér viðbótarrefsingu. Líf manna er, eins og ég held að allir sjái og skilji þegar þau staldra við og hugsa málið, í algjörri biðstöðu á meðan afplánunar er beðið.

Eins og rakið er í máli þessu og fram hefur komið þá er staðan í dag sú að dæmdir menn bíða í einhverjum tilvikum mánuðum saman eftir að sitja dóma af sér og fram hefur komið að í lok ársins 2020 hafi 638 menn beðið eftir því að hefja afplánun, 638 manns á litla Íslandi. Þessi staða í fangelsismálum helst mjög í hendur við annað vandamál sem er málsmeðferðartími innan réttarkerfisins. Umræðan um þann vanda er ekki ný. Sú staða er því miður til marks um það í mínum huga að skynsamleg og heilbrigð refsistefna virðist einfaldlega ekki vera ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það er ofboðslega miður að það sé engin viðleitni í þessu máli eða öðrum sem hér hafa verið lögð fram af hálfu stjórnarinnar og í þeim tölum sem við sjáum um stöðuna innan réttarkerfisins til þess að leggja fram heildarsýn og hugmyndafræði til að eiga við þetta vandamál.

Í umræðum um síðustu fjármálaáætlun átti ég samtal við hæstv. dómsmálaráðherra um þetta efni og aftur í umræðu núna um fjármálaáætlun. Ég get ekki séð að ég sjái neinar grundvallarbreytingar sem munu ná að vinna markvisst á þessum vanda og það er mikið áhyggjuefni. Hérna er vissulega verið að leggja til tímabundna aðgerð en þegar við stöldrum við og rýnum hverju það sætir, af hvaða ástæðum þessi tillaga er fram komin, er það vegna þess að stjórnvöld hafa enga stjórn á fangelsismálum. Fram til þessa hefur heimildin verið sú að það megi afplána allt að 12 mánaða fangelsisdóma með samfélagsþjónustu. Ég er ekki að halda því fram að það eigi ekki að fara ofar en 12 mánuði í því sambandi en nú á að færa þetta mark upp í 24 mánuði þannig að hægt verði að afplána allt að tveggja ára fangelsisdóma með samfélagsþjónustu og mig langar í því sambandi að nefna hver meðalþyngd dóma í alvarlegum sakamálum er á Íslandi. Það er auðvitað þekkt að dómar á Íslandi, eins og á Norðurlöndunum öllum, eru í neðri mörkum refsirammans. Stór hluti dæmdra refsinga mun með viðmiðinu um tvö ár falla undir þessa heimild án þess að löggjafinn sé með einhverjum hætti að reyna að hafa skoðun á því eða ramma það inn hvaða brot falli hér undir. Það er engin umfjöllun um eðli eða alvarleika brota. Þá langar mig aftur að nefna það sem ég var að koma inn á, hver meðalþyngd dóma í íslensku réttarkerfi er og nefni í því sambandi eitt alvarlegasta brot samkvæmt hegningarlögunum sem er nauðgun. Dæmdir dómar fyrir nauðgun á Íslandi eru á bilinu tveggja til þriggja ára fangelsi. Fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga um tiltekna tegund nauðgunar, sem fyrir lagabreytingu var talað um sem misneytingu, er algeng, og ég vil leyfa mér að segja venjubundin, refsing tveggja ára fangelsi. Samkvæmt þessu viðmiði er löggjafinn að opna á það að við veitum heimild fyrir því að slíkur dómur sé afplánaður að fullu leyti með samfélagsþjónustu.

Ég vil ítreka það að ég ber fullt traust til Fangelsismálastofnunar og þykist vita að þar innan húss séu einhver viðmið um það hvaða brot falli hér undir. En hvað er það sem löggjafinn segir með tillögu sem þessari þegar engin viðmiðunarmörk fylgja? Hvaða skilaboð felast í þessu? Hver er refsipólitíkin? Hver eru skilaboðin til samfélagsins og til brotaþola? Hér er verið að leggja til tímabundna aðgerð. Ég átta mig á því að hún er tímabundin. En það er vegna þess að það er komin upp ákveðin staða sem verið er að bregðast við, ekki af því að menn hafi endilega þá hugmyndafræði að baki að þetta sé það sem eðlilegt þyki. Þá er spurningin hvort það sé þannig að löggjafinn ætli að opna á það að menn geti t.d. tekið út tveggja ára dóm fyrir nauðgun í samfélagsþjónustu og það sé engin umfjöllun um það hér af hálfu löggjafans hvort ástæða sé til að ramma það inn með einhverjum hætti að ofbeldisbrot eða kynferðisbrot séu undanskilin í þeim efnum.

Hér ætla ég að leyfa mér að nefna samspil dómstóla og Fangelsismálastofnunar, hvort það sé ekki eðlilegra, og svarið við því er vitaskuld já, að dómstólar fari með þetta vald því að með þetta háu refsihámarki er verið að setja mjög hátt hlutfall dæmdra refsinga inn í þennan ramma Fangelsismálastofnunar. Ef það er ekki ætlunin spyr ég hvers vegna það er ekki skýrlega undanþegið. Þetta er umhugsunarvert og hugsunarleysi, vil ég leyfa mér að segja, og atriði sem hefði þurft að rýna með einhverja heildarstefnu í huga til lengri tíma litið.

Eins og ég nefndi áðan hef ég áður komið upp hér til að nefna það að þetta er því miður gegnumgangandi stef þegar við rýnum afleiðingar af refsistefnu stjórnvalda. Við höfum verið að ræða það í þessum þingsal að dómar fyrir kynferðisbrot séu reglulega mildaðir vegna málsmeðferðartíma innan kerfisins. Það kemur gjarnan fram í dómum Landsréttar að ákæruvaldið hafi ekki getað gefið skýringar á töfum. Svarið er hins vegar ekki flóknara en svo að kerfið hefur ekki haft undan. Það er síðan auðvitað sjálfstætt viðfangsefni að ræða það hvort Landsréttur sé mögulega í einhverjum tilvikum að ganga lengra en gert var í þeirri tíð þegar Hæstiréttur hafði flest þessara mála til meðferðar á áfrýjunarstigi. En óháð því er staðan engu að síður sú að svona eru dómar að falla í dag. Afleiðingin er sú að dómar fyrir alvarleg brot eru vægari en annars hefði verið og þetta hefur verið að gerast þrátt fyrir að kynferðisbrotamálin hafi verið í forgangi innan kerfisins sjálfs og þrátt fyrir að margt mjög gott hafi gerst og mjög jákvæð vinna hafi verið unnin í kerfinu af hálfu kerfisins sjálfs til að eiga við þá stöðu. Það hefur gerst á undanförnum árum að kærum vegna kynferðisbrota til lögreglunnar fer fjölgandi. Það ætti auðvitað að vera áhyggjuefni og það er vitaskuld mikið áhyggjuefni að slík brot séu algeng í íslensku samfélagi. Hins vegar er það um leið staðreynd að það hefur í gegnum tíðina verið áhyggjuefni hversu fá kynferðisbrot hafa verið kærð til lögreglunnar og hækkandi tölur um kærur til lögreglu eru í því samhengi jákvæðar. Ég vil leyfa mér að segja að það sé líka spegill á það að kerfið njóti trausts, að brotaþolar skuli leita þangað. Sá árangur sem ég nefndi, að margt gott hafi gerst innan kerfisins á undanförnum árum, er árangur sem hefur náðst þrátt fyrir að málafjöldi sé að aukast. En það blasir auðvitað við að það er bæði erfitt og sárt fyrir þolendur og aðstandendur þeirra að þurfa að bíða mjög lengi eftir því að fá svör um afdrif máls, sem eru eðli málsins samkvæmt alltaf stórt áfall í lífi þeirra, og fá svo þau svör þegar dómur fellur, ef dómur fellur í máli þeirra, eða upplifa það að refsingin sé milduð vegna tafa.

Í því samhengi vil ég aftur nefna þá upplifun brotaþola að löggjafinn ætli núna, vegna þess að það eru biðlistar í íslenskum fangelsum, að fara þá leið að færa það viðmið sem við notum um samfélagsþjónustu þannig að það gildi um tveggja ára fangelsisdóma án þess að undanskilja og án þess að fjalla með neinum einasta hætti um það hvaða brot heyri þarna undir og hvaða brot heyri ekki þarna undir. Teldum við eðlilegt að sakborningur sem hefur hlotið tveggja ára dóm fyrir einhvers lags kynferðislega misnotkun á barni tæki afplánun út í samfélagsþjónustu? Í því samhengi um biðlistana nefni ég líka, og það er þáttur sem ekki má undanskilja, upplifun og rétt sakborninga því að óvissan er mönnum sem annars vegar sæta rannsókn og hins vegar bíða dóms líka þungbær.

Á þessari stöðu bera stjórnvöld ábyrgð og þeim ber að bregðast við í þágu hagsmuna samfélagsins alls. Afstaða mín er eindregin sú, sem ég hef nefnt hér, að samfélagsþjónusta sé í mínum huga og samkvæmt fræðunum mjög af hinu góða og hafi jákvæð áhrif á þá sem undir það úrræði gangast. Samfélagsþjónusta hefur jákvæð áhrif í þeim efnum að endurkomutíðni fanga fer lækkandi samkvæmt þeim rannsóknum sem við höfum við að styðjast. En þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að dómarar ættu að hafa heimild til að dæma menn í þetta úrræði, þ.e. að við ættum að beita því í auknum mæli, þá finnst mér fráleitt og verulega umhugsunarvert að hér sé verið að fara með þetta mark í tvö ár án þess að löggjafinn ætli að hafa á því nokkra einustu skoðun hvaða dómar geti fallið þar undir.

Eins og ég segi er þessi tillaga skiljanleg í ljósi þess ófremdarástands sem hér ríkir en viðbrögðin við þeim vanda með tímabundnu úrræði, án heildarstefnu til lengri tíma litið til að taka á vandanum eins og hann raunverulega er, er varhugaverð leið. Þetta er vond refsipólitík og á skjön við það að það er lögregla sem rannsakar, það er ákæruvald sem ákærir, það eru dómstólar sem dæma og það er Fangelsismálastofnun sem útfærir dóminn sem dómstólarnir dæma. Það er ekki svo að Fangelsismálastofnun eða stofnun á eftir dómstólunum hafi allt um það að segja hvernig dómurinn lítur út.

Að lokum vil ég nefna að Viðreisn lagði til fyrir rúmum þremur árum síðan að ríkisstjórnin setti á fót starfshóp um mótun heildstæðrar stefnu í fangelsiskerfinu. Hún hefur verið samþykkt en mér sýnist sem það hafi ekki mikið verið gert við hana síðan hvað varðar aðgerðir. Ég kalla eftir því að verði þetta mál samþykkt núna án þess að það sé rammað inn með neinum hætti hvernig eigi að fylgja því eftir þá fari stjórnvöld í það, ráðherra dómsmála, að horfa til lengri tíma í þeim efnum og líta á þennan málaflokk heildstætt út frá almannahagsmunum, út frá hagsmunum þeirra sem fyrir brotunum verða, út frá hagsmunum þeirra sem sitja í fangelsum að afplána dóma til lengri tíma litið, að það sé einhver sýn, að það sé einhver hugmyndafræði hér að baki.

Þrátt fyrir að hér sé verið að teikna upp leið til að mæta ákveðnum vanda og það sé skiljanlegt og í sjálfu sér að mörgu leyti jákvætt þá er það mjög umhugsunarvert og varhugavert hversu langt er stigið í þeim efnum og hversu mikil uppgjöf felst í því að löggjafinn ætli ekki einu sinni að reyna að hafa skoðun á því hvað eigi að gera í þeim efnum.