151. löggjafarþing — 119. fundur
 6. júlí 2021.
biðlistar í heilbrigðisþjónustu.

[13:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það eru biðlistarnir í heilbrigðiskerfinu. Þeir hafa ekki minnkað á þessu kjörtímabili, heldur hafa þeir lengst til muna þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi þessa tímabils. Staðan er alvarleg. Og nú reyna Sjálfstæðismenn að skrifa sig frá allri ábyrgð á heilbrigðismálum í landinu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hlýtur nú að brosa út í annað við þann lestur því að hún veit vel að þó að þeir skrifi í Morgunblaðið þá koma þeir engu að síður og greiða atkvæði með stefnu Vinstri grænna, alveg sama hvað.

En biðlistarnir eru ekki óvæntir. Við vitum alveg hvaða þjónustu er verið að sækja og við vitum líka hvað þarf að gera til þess að auka þjónustuna. En hvað hefur síðan gerst á vakt hæstv. ríkisstjórnar? Nýlega breytti ráðherra því að útskrifaðir sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar geta ekki komist á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands fyrr en eftir tvö ár í starfi þrátt fyrir að þau hafi starfsleyfi frá landlækni. Dæmi eru um að sjúkraþjálfarar á einni stofu séu með 300–400 manna biðlista og bið eftir talmeinafræðingi er allt að þrjú ár — þrjú ár t.d. í lífi barns. Bið hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins eru tvö ár og nú eru tæplega 700 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Þetta eru allt saman börn á þessum biðlista sem ég er að tala um.

Virðulegi forseti. Biðin eftir mjaðma- og liðskiptaaðgerðum hefur aukist um tæplega 40–50% á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Ég vil því ítreka, og er rétt að draga það sérstaklega fram þar sem ég þekki þessa ráðherra, þessa annars ágætu ráðherra og fólkið sem stendur á bak við titlana, að áður en ráðherra svarar því til að þetta sé allt saman einkarekstur þá er enginn, ekki ég, enginn í Viðreisn, enginn hér að kalla eftir því að ríkið hætti að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni, enginn. Ekki fara í þá útúrsnúninga.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt verði að bæta þetta á komandi kjörtímabili, að koma því þannig fyrir að biðlistar styttist þannig að við minnkum vanlíðan fólks og komum til móts við fólk með raunverulegri þjónustu á ábyrgð ríkisins en í boði sem allra flestra?



[13:41]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir leiðbeiningarnar um að beita ekki útúrsnúningum í svari mínu og velti fyrir mér hvað gefi þingmanninum tilefni til að ætla að svar mitt verði með þeim hætti. Nýlega skilaði ég skýrslu til þingsins um afleiðingar Covid-19 á bið eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þar kemur fram að staðan er í raun betri en óttast var þó svo að Covid-19 hafi sannarlega haft áhrif á bið eftir þjónustu. Sérstaklega er því til að svara að þegar um er að ræða bið eftir geðheilbrigðisþjónustu hefur hún aukist lítillega. Þá hafa líka tímabundnar lokanir vegna Covid-19 skipt mestu máli, en t.d. hefur bið eftir ADHD-greiningu á BUGL styst þannig að þetta er nú með ýmsum hætti.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu hefur líka verið aukið til mikilla muna í tíð þessarar ríkisstjórnar með fjölgun sálfræðinga og stofnun geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum. Það hefur verið mín stefna að auka þjónustu sálfræðinga og sjúkraþjálfara við heilsugæsluna um allt land. Að auki hefur verið varið sérstöku fjármagni í samningagerð við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og unnið er að því um þessar mundir að ljúka þeirri samningagerð, en líka um þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu við börn sem ástæða er til að horfa sérstaklega á.

Hv. þingmaður spyr líka um liðskipti sem verið hefur áhyggjuefni um langt árabil. Lengi hefur verið sérstaklega eyrnamerkt átaksfjármagn til að vinna á biðlistum út af liðskiptaaðgerðum. Þeir lengdust nokkuð í Covid og við erum að fara í sérstakt átak til að stytta þann biðtíma. Ég vona að ég fái ráðrúm til að gera grein fyrir því hér í síðara svari.



[13:43]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að það væri engin kyrrstaða í heilbrigðismálum og það er rétt að því leytinu til að biðlistar hafa ekki minnkað, ekki staðið í stað. Þeir hafa lengst. Þar er engin kyrrstaða þegar kemur að biðlistum. Það eru biðlistar á biðlista ofan. Við þurfum ekki að leita langt eftir því af hverju það er, það eru pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa leitt til þess. Það er verið að fela sig á bak við Covid varðandi liðskiptaaðgerðir. Þetta var ástand sem var löngu ljóst fyrir Covid en ekkert gert í því, ekkert gert til þess að kalla alla upp á dekk hér innan lands til að lina þjáningar og minnka biðlista. Ég vil ítreka þessar tölur: Það er þriggja ára bið eftir talmeinafræðingi, tveggja ára bið eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 700 börn eru á bið hjá Þroska- og hegðunarstöð og svo eru það náttúrlega liðskiptaaðgerðirnar. Ég vil sérstaklega draga fram sálfræðiþjónustuna. Þörfin hefur aukist eftir Covid, ekki síst hjá börnum, ungmennum og konum. (Forseti hringir.)

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Mun ráðherra breyta afstöðu sinni til samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga til að efla geðheilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) til muna og minnka þar með biðlista eftir sálfræðiþjónustu?



[13:44]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð nú bara til að byrja með að vísa því algjörlega til föðurhúsanna að hér hafi ekkert verið gert síðu upp og síðu niður. Hv. þingmaður byrjar hér þessi samskipti okkar á milli með því að ráða mér heilt varðandi útúrsnúninga og er svo sjálf með útúrsnúninga í öðru hverju orði og það fer ekki sérstaklega vel á því. Ég vonast til þess að við séum sammála um mikilvægi þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu og ég hef verið að leita leiða til að bæta hana, bæði í hinu opinbera kerfi en ekki síður í því að ráðstafa sérstöku fjármagni til að fara í samninga við sjálfstætt starfandi, og hv. þingmaður veit það.

Mig langar til að nefna liðskiptasetur sem sett verður á laggirnar á sjúkrahúsinu á Akranesi og væntanlega verður það í febrúar 2022. Þá verður hægt að fjölga um 320 aðgerðir á ársgrundvelli hjá sjúkrahúsinu á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands. (Forseti hringir.) Það mun bæta þessa stöðu umtalsvert og ég vona að við getum fagnað því.