152. löggjafarþing — 6. fundur
 7. desember 2021.
afglæpavæðing neysluskammta.

[13:10]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það gladdi mig mjög að sjá að fimmta málið á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra sé að afglæpavæða vörslu neysluskammta, að það verði eitt af fyrstu verkum nýs heilbrigðisráðherra. Ég held að ég tali fyrir hönd allra Pírata þegar ég segi að við fögnum þessari einbeittu yfirlýsingu hæstv. ráðherra og við munum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum svo að niðurstaðan verði farsæl. Hér á landi látast 30–40 ungmenni af völdum ofskömmtunar á ári hverju sem er óvenjuhátt hlutfall miðað við aðrar þjóðir. Í þeim löndum sem hafa farið þá leið að afglæpavæða vörslu neysluskammta hefur dauðsföllum þeirra sem látist hafa af ofskömmtun vímuefna fækkað verulega og oftast horfið algerlega.

Að meðhöndla vímuefnanotkun sem heilbrigðis- og félagsmál en ekki innan löggæslu- og dómskerfisins bjargar lífi og er í anda þess sem er að gerast í löndunum allt í kringum okkur. Rannsókn sem unnin var í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í haust sýndi að meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi því að afglæpavæða neysluskammta og er því sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að meðferð vímuefnanotenda eigi að fara fram í heilbrigðiskerfinu frekar en í fangelsum landsins. Eins og við munum öll strandaði mál fyrrverandi heilbrigðisráðherra í nefnd í vor vegna togstreitu meðal stjórnarflokkanna.

Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni fara í þá vinnu að afla málinu stuðnings kollega sinna í nýrri ríkisstjórn og hvort þess megi vænta að þetta mikilvæga mál, þetta mikilvæga mannréttindamál sem bjargar lífi, forseti, fái loksins brautargengi á þessu þingi.



[13:12]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrirspurnina. Það er rétt að þetta mál var lagt fram á síðasta þingi, af fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur. Mig langar aðeins að byrja á forsögunni. Af því að hv. þingmaður spyr hvort ég muni beita mér fyrir því að farið verði í þá vinnu að afla stuðnings þá held ég að það skipti afar miklu máli að samstaða sé um að áform um hverju þetta á að skila gangi upp, að það sé samstaða þeirra hópa sem starfa á vettvangi um að þetta leiði til þess ávinnings sem leitast er eftir.

Hægt er að rekja viðhorfsbreytingu í þessum málaflokki alveg áratug aftur eða lengra. Hæstv. heilbrigðisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu 2014, ef ég man rétt, eða skipaði alla vega starfshóp. Svo lagði hv. þm. Halldóra Mogensen ítrekað fram mál þess efnis. Þetta er sambærilegt við málið sem hæstv. ráðherra lagði hér fram og ég mun leggja fram að nýju. Það dregur mjög vel fram — og allar umsagnir, það komu mjög margar umsagnir um málið frá hinum ýmsu aðilum.

Ég er svolítið staddur þar að afla málinu stuðnings og samstöðu um að það skili þeim árangri sem ætlast er til, þ.e. að draga úr skaðavaldandi áhrifum af þessum hræðilega fíknisjúkdómi. Það er lykilatriði. Þetta kjarnast svolítið um það hvað neysluskammtur er. Þá verðum við að ræða við lögregluyfirvöld, meðferðarfulltrúa og fleiri aðila í þeim efnum og horfa til lýðheilsu, forvarna (Forseti hringir.) og stefnumótunar almennt.



[13:15]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hæstv. ráðherra er með málið á þingmálaskrá sinni þannig að ég geng út frá því að hann ætli að leggja það fram og ég vænti þess. Það stendur reyndar að þetta sé með breytingum. Það væri áhugavert að vita í hvaða breytingar á að fara út frá frumvarpi fyrrverandi ráðherra. Mér finnst mikilvægt að vita hvort ráðherra sé ekki alvara með að fara í þessa vinnu og hvort hann sé sammála um mikilvægi þessa máls. Ég sé líka að það á ekki að leggja málið fram fyrr en í febrúar. Og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hérna alveg í lokin — ég átta mig á því að hann er nýr inn í heilbrigðisráðuneytið: Er hæstv. ráðherra alvara með að fara í þá vegferð að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna? Mun hann leggja málið fram, er það pottþétt? Og mun hann fara í þá vinnu að afla stuðnings innan sinnar eigin ríkisstjórnar, (Forseti hringir.) hjá kollegum sínum í ríkisstjórninni? Þannig strandaði málið seinast. Það strandað á því að stjórnarliðar, flokkar innan ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) voru ekki sammála málinu.



[13:16]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað er hæstv. ráðherra sem hér stendur full alvara með þessu máli. En við viljum líka ná árangri og við í ráðuneytinu munum fara í þá vinnu að ræða við þá aðila sem ég kom að í fyrra svari til að við náum árangri með þessari stefnumörkun og hún sé í samhengi við aðra stefnumörkun á sviði forvarna, lýðheilsu o.s.frv. Ég bendi á … (HallM: Mun þetta pottþétt komast að?) Já, (HallM: Frábært.) það er á þingmálaskrá og ég get dregið það fram að fulltrúar dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóra, frjáls félagasamtök sem veita þjónustu á vettvangi og fólk sem er í virkri vímuefnanotkun — við höfum líka hlustað á þá aðila, hvernig þetta gagnast, til að ná þá árangri með þessa vinnu. Það er alþjóðleg nefnd sem heitir, með leyfi forseta, Global Commission on Drug Policy sem hefur verið í forsvari víða í heiminum (Forseti hringir.) þar sem þessi leið hefur verið farin í heildarstefnunni.