152. löggjafarþing — 6. fundur
 7. desember 2021.
friðlýsing og orkuöflun.

[13:18]
Bergþór Ólason (M):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég óska hæstv. ráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni til hamingju með nýja ráðuneytið og óska honum velfarnaðar í því starfi. Það bárust af því fréttir nú rétt í þessu að á síðustu klukkustundum sínum í embætti hafi fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra friðlýst jörðina Dranga í Árneshreppi. Þetta hafi gerst á föstudagskvöldi en lyklaskipti urðu á laugardagsmorgni, daginn eftir. Hér kemur fram í frétt á vefmiðlinum Bæjarins besta sem birtist núna fyrir nokkrum mínútum síðan að þetta hafi nú ekki gengið betur en svo að fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum sem um þetta fjallaði hafi neitað að styðja friðlýsinguna. Svo er fjallað hér um ýmsa fjárstyrki sem tengjast þessu og þar fram eftir götunum.

Ástæða þess að ég vil taka þetta upp í óundirbúinni fyrirspurn í dag er að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa setið í tvo mánuði og spjallað um hin ýmsu mál og m.a. má lesa út úr stjórnarsáttmálanum að áætlaðar séu töluverðar breytingar á regluverki orkuöflunar hér á landi. Það vakti mikla reiði hjá ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga þegar nefndur fyrrverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, var að friða hin ýmsu svæði. Ég nefni hér Skaftárhreppinn undir kosningar. Hæstv. núverandi innanríkisráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við þetta. Þess vegna lítur það alveg hreint ótrúlega út að sjá að að kvöldi síðasta dags í embætti hafi fyrrverandi umhverfisráðherra friðað jörðina Dranga, sem mun ekki vera lítil óumdeild aðgerð og hefur veruleg áhrif á einn tiltekinn virkjunarkost sem í dag er í nýtingarflokki. Vissi hæstv. ráðherra af þessu? Og með hvaða hætti sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta mál verði leyst eða undið ofan af því?



[13:21]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði fyrir fyrirspurnina og hamingjuóskirnar. Sú atburðalýsing sem hv. þingmaður lýsir hér eru fréttir fyrir mig. Ég er nú ekki búinn að vera lengi í embætti og er að reyna að setja mig inn í flest þau mál sem þar eru inni á eins skömmum tíma og hægt er, fyrir utan að gera ýmsar ráðstafanir. Mér hafði borist til eyrna eitthvað varðandi friðlýsingarnar en ekki þær áhyggjur sem hv. þingmaður vísar hér til, það er eitthvað sem mér hefur ekki borist til eyrna. Sannast sagna er þetta bara eitt af þeim fjölmörgu málum sem ég hef ekki náð, á þeim tíma sem ég hef verið umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að setja mig inn í. Þess vegna ætla ég, eðli máls samkvæmt, ekki að úttala mig um það hér og nú. Hv. þingmaður hefur vakið athygli á málinu en almennt liggur það fyrir, og hefur gerst yfir langan tíma, að mikið er af friðlýstum svæðum á landinu. Það er eitt af þeim verkefnum sem getið er um í stjórnarsáttmálanum hvernig fara eigi með það. Ég held að stóra málið sé það, og við lærðum það t.d. af umræðunni um hálendisþjóðgarð, að mörg sjónarmið eru uppi og það er nú eitt af því sem lagt er upp með í stjórnarsáttmálanum að hafa aukið samráð við heimamenn þegar menn vinna að þeim málum. Og ég tel það vera skynsamlegt og gott. En svo getum við líka sagt að við séum öll heimamenn, Íslendingar, og ég tel sömuleiðis mikilvægt að hlusta á útivistarsamtök og landverndarsamtök og aðra þá aðila sem telja sig hafa hagsmuna að gæta. Ég vil alla vega trúa því að samtal muni ekki leiða til neins annars en til góðs. (Forseti hringir.) Þó að það endi ekki endilega með því að allir verði sammála væri í það minnsta gott að við kæmumst að niðurstöðu um það um hvað við erum ósammála.



[13:23]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hæstv. ráðherra myndi kannski vinsamlegast staðfesta það í seinna svari sínu hvort það sé réttur skilningur að fyrrv. umhverfisráðherra hafi ekki upplýst hann um það sem hann gerði kvöldið áður en hann afhenti honum lyklana að ráðuneytinu, að hann hefði friðað jörð sem er lykilatriði í tengslum við virkjunarkost í nýtingaráætlun. Ég trúi því hreinlega ekki að það sé raunin að fyrrverandi umhverfisráðherra hafi ekki upplýst þann ráðherra sem tók við málaflokknum nokkrum klukkustundum síðar um að síðasta embættisverk fyrrv. ráðherra hafi verið að friða jörð sem slær því sem næst af virkjunarkost í nýtingarflokki. Getur þetta verið?



[13:24]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Án þess að vilja neitt vera að fara út í það sem hefur gerst frá því að ég tók við, og samskipti mín og fyrirrennara míns, er skemmst frá því að segja að þau litlu samskipti sem átt hafa sér stað hafa verið einstaklega góð. Við höfum sammælst um það, og þurfti ekki neitt til, að setjast niður og fara yfir ýmis mál en hefur ekki gefist tími til þess. Hins vegar var það auðvitað ekki þannig, þegar við vorum að skiptast á lyklum, að við hefðum tíma til að fara yfir öll þau mál sem eru í gangi, ekki frekar en þegar ég afhenti hinum ágæta utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lyklana. Ekki það að ég hafi gert neitt á — eða við getum orðað það þannig að við eigum t.d. líka eftir að fara yfir ýmis mál og það verður auðvitað gert. (Forseti hringir.) En ég á ekki von á öðru en að samstarf mitt við fyrirrennara minn verði bara gott hér eftir sem hingað til.