152. löggjafarþing — 8. fundur
 9. desember 2021.
ráðstöfun útvarpsgjalds, fyrri umræða.
þáltill. BergÓ og SDG, 129. mál. — Þskj. 131.

[16:30]
Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds. Flutningsmaður með mér er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eins og gefur að skilja þá fjallar þingsályktunartillagan um að gjaldskyldum aðilum, einstaklingum og fyrirtækjum, verði gefin heimild til að ráðstafa allt að þriðjungi útvarpsgjaldsins til þess fjölmiðils sem viðkomandi hugnast á skattframtali hvers árs í stað þess að allur þessi tekjustofn, allt þetta gjald, renni að fullu til Ríkisútvarpsins. Allir þeir sem skattskyldir eru á Íslandi, einstaklingar og lögaðilar, greiða sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins, útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Það er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga um tekjuskatt og lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, aðra en dánarbú, þrotabú og þá lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga.

Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um málefni aldraðra. Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Nú liggur fyrir tillaga um að þetta gjald verði 18.800 kr. á næsta ári, sem er hækkun um 500 kr. eða 2,7%, ef ég man rétt. Hér er um að ræða nefskatt sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt.

Með tillögu þessari er lagt til að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning sem dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.

Í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið er tiltekið að markmið þeirra sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er þannig falin framkvæmd þessarar stefnu stjórnvalda. Það sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Þá skuli það leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að Ríkisútvarpið geti rækt þessa skyldu þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla á markaðinum. Hér er átt við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflt frekar skilning almennings á henni. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB kemur fram að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt. Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum.

Undanfarið hafa birst margvíslegar upplýsingar um að stjórnendur Ríkisútvarpsins telji sig hafa sjálfdæmi um hvernig staðið er að rekstri þess. Bæði Ríkisendurskoðun og fjölmiðlanefnd hafa ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Ríkisútvarpsins og framkvæmd á ýmsum lögbundnum skilyrðum sem gilda um rekstur stofnunarinnar. Hvað lögbundnar skyldur hennar varðar má jafnframt benda á að Ríkisútvarpið gegnir nú á dögum hvergi nærri sama öryggishlutverki og áður var raunin.

Nefskattur á borð við útvarpsgjald þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld. Þar er kveðið á um að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um þau skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Er það val skattgreiðenda til hvaða safnaðar gjaldið rennur. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, t.d. þannig að skattskyldur aðili tilgreini á skattframtali hverju sinni hvert hann vill beina hluta útvarpsgjaldsins.

Um árabil hefur verið rætt um að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og renna þannig styrkari stoðum undir frjálsa fjölmiðla. Slík útfærsla hefur ekki hlotið brautargengi, eins og við þekkjum. Telja því flutningsmenn tillögunnar rétt að fara þessa leið með farsæld frjálsrar fjölmiðlunar fyrir augum og tryggja þannig heilbrigðari og fjölbreyttari þjóðmálaumræðu í landinu. Því leggjum við flutningsmenn þessarar tillögu til að Alþingi álykti að fela ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds verði breytt. Breytingin skuli lúta að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjaldsins skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.

Að þessari umræðu lokinni legg ég til að frumvarpið gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:37]
Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni innilega fyrir ræðuna rétt áðan og fagna því að við skulum vera að ræða um fjölmiðla. Við getum auðvitað gert það í aðeins víðara samhengi en hann gerði í ræðu sinni. Ég skil mjög vel hugsunina á bak við það sem hér er verið að leggja til og það er að við erum með þá stöðu á fjölmiðlamarkaði, að Ríkisútvarpið, sérstaklega þegar kemur að ljósvakanum, er gríðarstór aðili, tekur til sín mikið fjármagn frá ríkinu og við erum endalaust hinum megin borðs að ræða stöðu einkarekinna miðla sem telja sig fara halloka í þeirri samkeppni og að stöðu þeirra þurfi að bæta. Ég er sammála því að það þarf að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla. Ég er hins vegar ekki sammála því að það eigi að gera með því að veikja Ríkisútvarpið. Ég tel miklu nær að fara þá leið að ræða stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, eins og komið var inn á rétt áðan. Það hefur að mörgu leyti gengið hægt. Það má taka undir það. En slík leið, auk annarra mögulegra ráðstafana til að styrkja einkarekna miðla, væri mun farsælli, að ég tel, og mig langar aðeins að rökstyðja hvers vegna.

Þegar talað er um yfirburðarstöðu þá þurfum við að hafa í huga ýmsa hluti, til að mynda þá að Ríkisútvarpið hefur hlutverk í samfélaginu og skyldur sem einkareknir miðlar hafa ekki. Þetta hlutverk og þessar skyldur eru gríðarlega mikilvægar að mínu viti. Það er of oft þannig, sem er eðlilegt, að þegar við ræðum stöðu Ríkisútvarpsins erum við að tala um fréttahlutverkið og fréttaþjónustuna. Eftir að hafa unnið á miðlinum í langan tíma þá veit ég að starfið sem þar er unnið þegar kemur að menningarhlutverki og miðlun á alls konar öðru efni en bara fréttaefni, er alveg ótrúlega stór og mikill hluti af starfseminni. Hvort við myndum stilla Ríkisútvarpinu upp eins og það er ef við værum að stofnsetja það í dag er ég ekkert endilega viss um, en það er þá eitthvað til að taka til umræðu innan stofnunarinnar frekar en að fara þá leið sem hér er lögð til.

Við sjáum ef við skoðum þetta, og nú komum við inn á það sem skiptir svo miklu máli alltaf þegar við erum að ræða um þessa hluti, hvað Ísland er í raun og veru smár markaður. Að búa til mikilvægt menningarefni, skrásetja söguna og halda utan um þetta allt fyrir komandi kynslóðir kallar á mannafla, tæki og útgjöld. Þetta er dýrari útgerð út af fámenninu hér en í milljónasamfélögum. Ég get nefnt sem dæmi að fréttastofa Ríkisútvarpsins er ekkert mikið stærri en bara öflugir fréttaskýringaþættir í stærstu miðlum úti í heimi. Stærðarmunurinn er alveg yfirgengilegur. Þannig að þó að þetta sé yfirburðastaða á íslenskan mælikvarða þá er þetta um margt bara það sem þarf til þess að geta skrásett söguna, haldið utan um menningararfinn og framleitt allt það mikla menningarefni sem þarna er framleitt. Ég nefni Rás 1 sérstaklega í útvarpsmiðlun og við sjáum auðvitað á dagskrá ríkissjónvarpsins þætti sem myndu aldrei vera í loftinu á einkareknum miðlum. Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi. En við viljum að þetta efni sé skrásett, framleitt og flutt í miðli, ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar. Þegar ég var yngri hafði ég ekki þá skoðun. Þá fannst mér engin ástæða til þess að ríkið starfaði á því sem ég kallaði þá samkeppnismarkað, en samkeppnishlutinn er bara svo lítill partur af heildarmyndinni að mínu mati. Yfirburðastaðan verður því að skoðast með hliðsjón af því að við erum á smáum markaði og hvert hlutverkið og skyldurnar eru hjá Ríkisútvarpinu.

Síðan má líka að nefna annað í þessu samhengi og það er að þetta hangir allt saman. Við erum með stóran, eða vaxandi, skulum við segja, geira sem er kvikmyndagerð. Við erum líka svolítið að ræða í þinginu, bæði í tengslum við fjárlög o.fl., til að mynda endurgreiðslur til kvikmyndagerðar vegna þeirrar framleiðslu sem fer fram hér heima og það eru tillögur um að setja á laggirnar streymisveitur til að halda utan um menningararfinn og gera hann aðgengilegri fyrir almenning. Allt þetta hangir saman við það að hér séu öflugir fjölmiðlar. Öflugt ríkisútvarp býr til ákveðna hliðarafurð sem er þetta samhengi við kvikmyndagerð, því að það er ótrúlega mikið af fyrirtækjum sem eru í mörgum verkefnum, m.a. að framleiða fyrir Ríkisútvarpið eða að sinna þar alls konar tækniþjónustu, taka að sér verktöku við gerð einstakra þátta eða annað sem nýtist síðan líka í þeirri einingu sem er þá hugsuð til kvikmyndagerðar eða jafnvel auglýsingagerðar eða annars, þannig að þessi geiri hangir svolítið saman.

Ég held að í svona litlu samfélagi eins og á Íslandi ættum við og eigum að vera með sterkt og öflugt Ríkisútvarp og við eigum ekki, eins og mér finnst að yrði afleiðing af þeirri tillögu sem við ræðum hér, að veikja ríkisútvarpið til að styrkja hinn hlutann. Mér finnst það ekki rétt nálgun. Þá værum við svolítið að mínu mati, án þess að ætla okkur það, að veikja þá geira sem ég var að nefna hér, sem er þessi ört stækkandi kvikmyndageiri, sem er síðan líka í því að þjónusta erlenda aðila sem hingað koma til að taka upp kvikmyndir og þætti og annað. Þannig að þó að það sé ekki hugsunin á bak við tillöguna eða hugmyndina hér í dag þá yrði það afleiðingin að þetta myndi allt veikjast. Þegar við ræðum Ríkisútvarpið höfum þá í huga að hlutverk þess er miklu stærra og viðameira en við upplifum oft í opinberri umræðu.

Ég veit að það eru miklir peningar sem fara í Ríkisútvarpið. Ég er almennt þeirrar skoðunar með þessar menningarstofnanir okkar, þær stærstu og veigamestu, að við eigum að styðja vel við bakið á þeim. Við megum hins vegar ekki hafa fyrirkomulagið þannig, og þar er ég sammála hv. þingmanni og þeim sem flytja málið, að ríkið sé einhver kæfandi hönd á þessum markaði. Þetta má ekki vera þannig að ríkið taki súrefni af öllum einkaaðilum. Ég er því mjög ánægður með að við skulum vera að ræða þetta, en mér finnst að við þurfum að taka þetta allt í samhengi; Ríkisútvarpið, einkamiðla, kvikmyndagerð og allan þann stóra bransa sem hérna er undir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.



[16:45]
Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður, sem þekkir innviði Ríkisútvarpsins býsna vel, sagði hér í ræðu sinni — ég held að þetta sé orðrétt, a.m.k. efnislega rétt, með leyfi forseta: Ef við værum að stofnsetja Ríkisútvarpið í dag yrði það öðruvísi en það er nú.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða hlutverk, sem verið er að sinna í dag, væri líklegt að yrðu annaðhvort slegin af eða væru unnin af einkaaðilum eða á einhverju öðru formi en þau eru unnin í Efstaleiti. Jafnframt kom hv. þingmaður inn á í ræðu sinni að hlutverk Ríkisútvarpsins væri auðvitað, eins og við þekkjum, m.a. að búa til menningarefni og varðveita menningararfinn. En varðandi það atriði sem snýr að því að búa til menningarefni hefur mér sýnst ganga ótrúlega vel undanfarin töluvert mörg ár að búa til algerlega frábært og framúrskarandi íslenskt menningarefni og sjónvarp. Og oft eru það einkaaðilar sem búa það til, mögulega með einhvers konar samningi eða útboði í gegnum Ríkisútvarpið. En í öllu falli eru öflugir einkaaðilar að gera frábæra hluti úti um allan bæ.

Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að þó að fjárveitingar færu ekki með beinum hætti til Ríkisútvarpsins heldur annarra miðla væri það líklegt til að virka sem hvatning bæði fyrir Ríkisútvarpið til að halda enn þá betur á sínum málum — án þess að ég sé að leggja til að Ríkisútvarpið fari í það að verða fullkominn dægurmálamiðill — og sömuleiðis að það yrði hvatning (Forseti hringir.) til héraðsmiðla, þeirra sem standa í gerð menningarefnis, til að bæta enn í?



[16:47]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég ætla í sjálfu sér ekki að teikna upp eitthvert nýtt módel af því hvernig mér finnst að Ríkisútvarpið ætti að vera. Allt er breytingum háð í samfélaginu og Ríkisútvarpið var auðvitað stofnað á sínum tíma, hefur síðan tekið einhverjum breytingum og við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að það er einhvers konar truflun á milli Ríkisútvarpsins og einkareknu miðlanna. Við þurfum að takast á við það en ekki með því að veikja Ríkisútvarpið heldur með því að styrkja hina eininguna.

Ég ætla ekkert að segja að það eigi ekki að framleiða þennan þátt eða hinn eða ekki að vera með þessa stöð eða að Rás 2 ætti að vera öðruvísi eða ekki, ég ætla ekkert að leggja mat á það. Ég er bara að segja: Við eigum ekki að hræðast þessar breytingar og við eigum ekki að halda að Ríkisútvarpið, frekar en aðrar stofnanir samfélagsins, sé eitthvert módel sem við búum til í eitt skipti fyrir öll og að þannig eigi það að vera um aldir alda. Við hljótum að þurfa að taka mið af því að þetta er auðvitað markaður og bransi sem er á fleygiferð, ekki bara hér innan lands heldur úti um allan heim. Það eru stafrænar breytingar og alls konar tækniframfarir sem kalla auðvitað á ákveðnar endurhugsun að ýmsu leyti líka.

Það menningarefni sem ég er að tala um þarf ekki að framleiða allt innan húss á RÚV. Það eru ákveðnar reglur og skilyrði um að hluti af því þurfi að vera framleitt utan húss og það er einmitt til þess að styrkja litla framleiðendur sem geta þá selt efni sitt þangað eða jafnvel selt þjónustu til Ríkisútvarpsins. Þannig að það allt má hanga saman.

Ég er bara að segja: Veikjum ekki Ríkisútvarpið til að styrkja hina. Höldum Ríkisútvarpinu eins sterku og við getum og styrkjum frekar hina eininguna. Ég er algerlega sannfærður um að þannig fáum við mest fyrir aurinn og að þannig verði líka til mest menningarverðmæti. Og ég trúi að við séum öll hér í þessum sal nokkuð sammála um að okkur ber rík skylda til að sjá til þess að stofnanir samfélagsins sem sinna menningarmálum eigi að standa vörð um menningararfinn.



[16:49]
Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála því að Ríkisútvarpið þurfi endilega veikjast þó að það minnki. Margur verður snarpari og skilvirkari eftir netta megrun. Mætti ég nú sjálfur fara í eina slíka.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að ríkið mætti ekki vera sem kæfandi hönd yfir markaðnum. Það er akkúrat lýsing þeirra einkaaðila, sem eru í hvað harðasta slagnum við Ríkisútvarpið, á samskiptunum þar á milli. Það held ég að enginn velkist í vafa um sem fylgst hefur með þeirri umræðu, að einkareknu fjölmiðlafyrirtækin telja sig í býsna snúinni stöðu hvað samskiptin við Ríkisútvarpið varðar. Ég fagna því og tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á, að þessi umræða um þróun starfsemi Ríkisútvarpsins ætti að eiga sér stað innan Ríkisútvarpsins. Ég held að hún ætti að eiga sér stað hérna hjá okkur, því að Ríkisútvarpið var sett á laggirnar á grundvelli lagasetningar og það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið og við ættum að vera óhrædd við að taka þessa umræðu hér innan húss. Ég fagna því sjónarmiði hv. þingmanns.

Hv. þingmaður kom inn á það að ekki mætti veikja RÚV heldur þyrfti að styrkja einkaaðila. Mig langar að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari út í það með hvaða hætti hann sæi það best gerast núna. Þá er ég í rauninni að horfa til skamms tíma því að lýsingar einkaaðilanna eru með þeim hætti að þeir lýjast jafnt og þétt eftir því sem árin líða í þessu starfsumhverfi.



[16:51]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar sem ég hef fengið. Ég er alveg sammála því að þetta hlýtur eiginlega vera grunnatriði í öllum rekstri, alveg sama hvar við erum; við eigum alltaf að leita leiða til að nýta peningana sem best. Og ef það er hægt að veita sömu þjónustu, a.m.k. sambærilega þjónustu, skulum við segja, fyrir minna fjármagn þá gerum við það auðvitað og eigum alltaf að gera það. Það er útgangspunktur í öllu hjá okkur, þ.e. að fara vel með fé almennings.

Ríkisútvarpið á ekki að vera óumbreytanlegt. Það þarf ekkert endilega alltaf að vera í þessari stærð. En mér hefur þótt skynsamlegra að hlusta á þær raddir sem tala fyrir því að ef það á að takmarka tekjustofna Ríkisútvarpsins, hvort sem það eru bein fjárframlög eða umsvif þess á auglýsingamarkaði, þá verði eitthvað að koma á móti sem tryggir það að þjónustan sé veitt. Þetta er í raun og veru, finnst mér, sama umræða og með heilbrigðiskerfið. Þetta er í raun og veru bara spurning um að við séum að veita tiltekna þjónustu. Ef hægt er að gera það með ódýrari hætti þá gerum við það. En ef það kostar það sem það kostar í dag þá eru það útgjöld sem eru réttlætanleg að mínu viti.

Ég er þeirrar skoðunar og tek alveg undir það — ég hef auðvitað heyrt það hvernig forsvarsmenn einkarekinna miðla tala um þessa samkeppni. Þeim finnst hún ekki vera á jafnréttisgrundvelli og ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Þess vegna hefur mér fundist koma til greina að losa mögulega um fjármagn á auglýsingamarkaði, sem einkaaðilar sætu þá kannski frekar að með einhverjum hætti, einhverri góðri útfærslu sem hentaði báðum aðilum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þeir sem reka einkareknu miðlana ofmeti svolítið að allt fjármagnið sem færi þá ekki lengur í auglýsingarnar á RÚV færi endilega yfir á einkareknu miðlana. Ég held að það sé pínulítið flóknara en svo. Á meðan við erum ekki búin að finna eitthvert endanlegt framtíðarfyrirkomulag þá styð ég alveg þá leið sem við fylgjum og erum endalaust að ræða, hvort hreinlega bein fjárframlög úr ríkissjóði sé leið til þess að koma til móts við rekstrarvanda einkarekinna miðla, (Forseti hringir.) vegna þess að þeir eru svo sannarlega mikilvægir í samfélaginu rétt eins og Ríkisútvarpið — og ekki síður.



[16:54]
Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Þar sem mér stendur ekki til boða að fara í þriðja andsvar við hv. þm. Sigmar Guðmundsson þá ákvað ég að fara í stutta ræðu. Það er vissulega ýmislegt sem hv. þingmaður sagði í andsvari sínu sem skiptir máli í þessari umræðu. Það eru nefnilega aðrar aðgerðir. Aðrar aðgerðir í þessum efnum hafa undanfarin ár og áratugi að miklu leyti falist í því að flækja og þvæla rekstrarumhverfi fjölmiðla. Við erum komin með alls konar eftirlitsiðnað og skýrslugjöf og annað sem þessir miðlar þurfa að standa í, sem er auðvitað kostnaður sem miðlarnir fá hvergi tekjur inn á móti fyrir. Og af því að hv. þingmaður sagði í svari áðan að það kæmi til greina að draga úr auglýsingatekjum hjá Ríkisútvarpinu en þá yrði eitthvað annað að koma á móti, þá held ég að það sé hlutur sem þarf að eiga sér stað í öllu fjölmiðlaumhverfinu.

Við þurfum að leita leiða til að draga úr kostnaði þeirra sem standa í þessum rekstri. Unnin var skýrsla sem kom út árið 2018, minnir mig, ég man ekki ártalið nákvæmlega, þar sem voru útlistaðar ýmsar mögulegar leiðir. Það er hægt að eiga við tryggingagjald gagnvart starfsmönnum. Það er hægt að horfa til þess hvernig virðisaukaskattsskyldu er háttað á tekjustreymi fjölmiðla en það sem ég held að myndi skipta mestu máli og hraðast væri að reyna að einfalda rekstrarumhverfi þeirra þannig að þeir væru ekki undir þeirri kæfandi hönd, eins og við orðuðum það hér áðan, að það væri eitthvert eftirlitsbatterí úti í bæ sem fjölmiðlar þyrftu að sýna fram á með reglulegri skýrslugjöf að þeir sinntu sínu starfi. Við þekkjum það nú bara, fjölmiðlar eru mismerkilegir og misburðugir og ég hef ekkert óskaplega miklar áhyggjur af því að einhverjir sitji og skrifi fréttir með eigin nefi sem þeir bera bara ábyrgð á og vefur viðkomandi aðila er metinn út frá því hvernig gildi frétta á þeim miðli þróast. Ég held að kvöðin sem er lögð á þennan geira í heild sinni út frá eftirlitskerfinu öllu sé allt of mikil og óþörf. Við eigum að leita leiða til að einfalda það og draga þannig úr kostnaði miðlanna. Og við eigum að leita leiða til þess að þessir miðlar haldi meiru eftir af þeim tekjum sem þeir geta aflað sér, hvort sem það er t.d. með því að höndla tekjustreymi þeirra með öðrum hætti hvað virðisaukaskatt varðar, hafa einhverjar ívilnanir gagnvart tryggingagjaldi og fleiri hugmyndir gætu komið þar til. En ég held að þessi umræða um stóru myndina ætti vel heima hér í sölum þingsins, hvort sem það yrði gert í nefnd eða hver hátturinn væri á, en hún gæti tengst því með hvaða hætti Ríkisútvarpið þróast.



[16:57]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan koma hingað upp til að taka undir að það á auðvitað að leita allra leiða til að hafa umhverfi fjölmiðla á Íslandi sem skilvirkast. Það á ekki að kaffæra það með einhverju reglufargani. Og það er auðvitað með eftirlit þarna eins og alls staðar annars staðar að það á ekki að vera of íþyngjandi eða að búa til einhverja óþarfa skriffinnsku sem tekur þá fjármagn og súrefni frá miðlunum sem betur væri varið í einhvers konar dagskrárgerð.

En við hljótum að taka hliðsjón af því í umræðunni að þetta er ekki einhver séríslenskur vandi þótt til viðbótar komi auðvitað fámenni samfélagsins inn í breytuna hér. Miðlar úti um allan heim eru að reyna að fóta sig í breyttum tækniheimi þar sem tekjumódel miðlanna hafa hrunið og annað. Þetta er auðvitað bara verkefni sem við erum með í höndunum og ég tek svo innilega undir það að við eigum að hafa alla anga úti til að reyna að hafa regluverkið og umhverfi þannig að það virki ekki hamlandi eða kostnaðaraukandi að einhverjum óþarfa. En með því er ég ekki að segja að það eigi ekki að vera einhvers konar aðhald með fjölmiðlum.

Mig langar líka að minna á það í þessu samhengi að við megum ekki — og ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður hafi verið að því, ég er bara að tala almennt — falla í þá gryfju að fara að flokka fjölmiðla sem litla eða veikburða sem ekki skipti máli á móti stórum, ábyrgum miðlum og eitthvað þess háttar. Þetta er allt hluti af keðju sem skiptir máli. Það sem mér finnst kannski léttvægt og lítilvægt er stórmál fyrir einhvern annan. Lifandi og dínamískur fjölmiðlamarkaður þar sem menn geta vonandi í framtíðinni rekið miðlana þannig að þeir standi undir sér er markmið sem við hljótum að horfa á hvað varðar fjölmiðlamarkaðinn eins og alla aðra atvinnustarfsemi og allt annað sem við erum að gera hér þegar við ræðum málin á þingi.



[17:00]
Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vona að það hafi ekki misskilist hjá mér þegar ég vísaði til litlu miðlanna, þeir eru einmitt hluti af þessari keðju. En punkturinn hjá mér var sá að við mættum ekki búa til eitthvert íþyngjandi regluverk sem væri rökstutt með því að það þyrfti sérstaklega að vakta einhverja slíka miðla. Það var sá punktur.

Síðan lýsi ég ánægju minni með afstöðu hv. þingmanns hvað það varðar að einfalda rekstrarumhverfi og regluverk miðlanna og að við þurfum að hafa alla anga úti til að bæta rekstrarskilyrði sérstaklega einkamiðlanna. Ég hef verið þeirrar skoðunar, til viðbótar við það sem ég nefndi áðan sem dæmi, að við eigum að skoða það mjög ákveðið að finna leiðir til að skattleggja t.d. þessar netauglýsingar. Ég held að það hafi verið rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, að auglýsingar sem fara frá Ríkisútvarpinu, ef svo má segja, ef þeim reglum verður breytt, muni ekki skila sér allar til innlendra fjölmiðla. Það blasir við. Við þekkjum það öll sem fylgjumst með fjölmiðlum og internetinu og þessum samfélagsmiðlum. Ég held að við ættum að fara í þá vegferð, einhverjar þjóðir eru byrjaðar að skoða þetta og við eigum að vera á þeim vagni sem er fremstur í röðinni þar og vera alveg óhrædd við það. Við erum með best tengdu þjóðum heims. Hér er netlæsi gott og við erum í fullum færum til þess að setja hér regluverk sem gæti skipt máli í þessum efnum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.