152. löggjafarþing — 23. fundur
 18. janúar 2022.
almannavarnir, 1. umræða.
stjfrv., 181. mál (almannavarnastig o.fl.). — Þskj. 183.

[16:32]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannavarnir. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi þar sem það gekk til allsherjar- og menntamálanefndar eftir 1. umr. Frumvarpið er nú lagt fram í lítið breyttri mynd en smávægilegar breytingar hafa verið gerðar, m.a. vegna framkominna umsagna við frumvarpið.

Gildandi lög um almannavarnir tóku gildi í júní 2008 og hafa tekið litlum efnislegum breytingum síðan. Talsvert hefur reynt á lögin og það fyrirkomulag sem kveðið er á um í þeim þegar almannavarnaástand skapast og almannavarnastigi er lýst yfir af ríkislögreglustjóra. Síðustu ár hafa verið viðburðarík: fárviðri, snjóflóð, skriðuföll, jarðskjálftar, Covid-heimsfaraldur og nú síðast eldgos hafa reynt mikið á skipulag almannavarna og eru breytingar lagðar til með hliðsjón af þeirri miklu reynslu sem fengist hefur á síðustu misserum.

Ein af niðurstöðum átakshóps, sem stofnaður var í kjölfar óveðursins í desember 2019, var einmitt að efla almannavarnir með heildarendurskoðun laganna. Tilgangur frumvarpsins er m.a. að skilgreina betur lykilhugtök, skerpa á verkaskiptingu og leggja til þarfar breytingar á rýni aðgerða viðbragðsaðila. Lagt er til að mismunandi almannavarnastig og hugtakið hættustund verði skilgreind í lögunum en þessi hugtök ráða því hvenær valdheimildir laganna virkjast.

Almannavarnastigin eru þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika þess neyðarástands sem uppi er hverju sinni, umfang viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila eins og landsmenn hafa fengið að kynnast að undanförnu.

Með frumvarpinu er ábyrgð lögreglustjóra á gerð viðbragðsáætlana og könnun áfallaþols einnig gerð skýrari. Þá er einnig tilefni til að færa lögreglustjórum í héraði, í ljósi stöðu þeirra sem aðgerðastjóra, beina aðkomu að gerð viðbragðsáætlana og hættumata. Lagðar eru til orðalagsbreytingar með frumvarpinu, til að mynda verði heiti almannavarna- og öryggismálaráðs breytt í almannavarnaráð til að heiti ráðsins sé meira lýsandi fyrir verkefni þess í samanburði við þjóðaröryggisráð sem tók til starfa með lögum nr. 98/2016. Smávægilegar breytingar eru gerðar á skipan ráðsins, m.a. með því að ráðherra samgöngumála verði aðili að því og heiti fulltrúa sem eiga sæti í ráðinu eru leiðrétt vegna breytinga sem hafa orðið á stofnunum. Jafnframt er kveðið á um að ríkislögreglustjóri geti að fengnu samþykki ráðherra farið fram á aðstoð erlends hjálparliðs í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að. Þá verði ráðherra fengin heimild til að setja reglur um móttöku erlends hjálparliðs. Brýnt er að móttaka slíks hjálparliðs geti gengið hratt og örugglega, svo ekki verði ónauðsynlegar tafir á hjálpar- og björgunarstörfum.

Þá er lagt til að ákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna verði lögfest varanlega en það hefur hingað til verið lögfest sem bráðabirgðaákvæði. Notkun þess ákvæðis í Covid-heimsfaraldrinum hefur sýnt að þessi heimild er nauðsynleg til að geta brugðist við þegar viðlíka ástand skapast og nú hefur verið. Ákvæðið stuðlar m.a. að því að unnt sé með fumlausum hætti að tryggja almannaþjónustu á hættustundu. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að núgildandi ákvæði um almenna borgaralega skyldu verði eingöngu beitt þegar brýna nauðsyn ber til og önnur vægari úrræði, svo sem áðurnefnt ákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna, duga ekki til. Í ákvæðinu verði tekið fram að maður sé undanþeginn slíkri skyldu þegar heilsufari hans eða annars einstaklings, sem hann ber ábyrgð á, sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.

Breytingar á fyrirkomulagi varðandi rýni aðgerða fela í sér að rannsóknarnefnd almannavarna verður lögð niður. Í hennar stað komi þrepaskipt rýni sem taki mið af þörfum hverju sinni. Fyrsta þrepið felst í innri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila. Þannig skal almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ávallt halda rýnifund með fulltrúum viðbragðsaðila að loknum aðgerðum þar sem lagt verði mat á það hvernig til tókst. Reynslan hefur sýnt okkur að almannavarnastig getur varað í langan tíma og breyting orðið á því á hvaða almannavarnastigi ástand er metið. Því er í frumvarpinu jafnframt lagt til að ríkislögreglustjóri hafi heimild til að halda slíkan fund meðan almannavarnastig varir ef sérstök ástæða er talin til. Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á og hefur eftirlit með því að viðbragðsaðilar geri viðunandi úrbætur í samræmi við niðurstöður rýnifundur. Utanaðkomandi rýni fari fram ef stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar telur nauðsynlegt og verða þá kallaðir til aðilar til skýrslugerðar sem hafa sérþekkingu sem til þarf. Samhæfingar- og stjórnstöð er jafnframt heimilt að láta vinna slíka skýrslu þótt almannavarnastigi hafi ekki verið aflétt ef sérstök ástæða er talin til.

Reynslan sýnir okkur að oft eru málin mjög mismunandi. Það þarf að vera fjölbreytt viðbragð til staðar sem og þekking til að takast á við mjög ólík mál sem almannavarnakerfið hefur tekist á við eins og síðustu ár hafa bersýnilega sýnt. Í alvarlegustu tilvikum geti ráðherrar einnig sett af stað slíka ytri rýni með því að kalla eftir skýrslugerð sérfræðinga til að varpa ljósi á mögulega vankanta og fá tillögur að úrbótum. Ég tel að þetta kerfi taki betur mið af raunverulegri þörf hverju sinni en það fyrirkomulag sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Aðrar breytingar í frumvarpinu eru m.a. nauðsynlegar til að tryggja að enginn vafi leiki á um hlutverk viðbragðsaðila þegar almannavarnastigi hefur verið lýst yfir og samfélagið geti starfað án truflana við slíkar aðstæður.

Frumvarp þetta er aðeins fyrsta skrefið í endurskoðun laga um almannavarnir. Fyrirhugað er að á árunum 2022–2025 verði áfram unnið að heildarendurskoðun laganna í víðtæku samráði og í samræmi við stefnu um almannavarnir og öryggismál sem samþykkt var á fundi almannavarna- og öryggismálaráðs í mars 2021.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins en með því er skipulag almannavarna gert skýrara sem er lykilatriði þegar bregðast þarf við náttúruvá og öðrum ógnum. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[16:39]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig með þessi Covid-mál sem eru lögð fram aftur og aftur að það fer aðeins að grautast í hausnum á manni hvað hefur verið sagt og gert áður og hvernig þau litu upphaflega út. En mig minnir að í fyrstu útfærslu frumvarps um borgaralega skyldu starfsmanna á hættutímum hafi stéttarfélög gripið nokkuð fast í taumana og lýst áhyggjum af ákveðnum þáttum þar. Allsherjar- og menntamálanefnd á þeim tíma, sem er þá væntanlega fyrir tveimur árum, kom til móts við það bæði með orðalagsbreytingu og með því að tímabinda lagaákvæðið ansi stíft. Í ljósi þess að um væri að ræða tímabundna heimild lögðust stéttarfélögin ekki gegn ákvæðinu á þeim tíma. Hið sama var uppi á teningnum hér fyrir ári þegar ákvæðið var framlengt til bráðabirgða. Þá lagði BSRB t.d. ríka áherslu á að um neyðarúrræði væri að ræða og var ekki mótfallið því að framlengja bráðabirgðaákvæði í ljósi þess að neyðarástand ríkti.

Mig langar þess vegna að spyrja, í ljósi þess að hér er lagt til að festa bráðabirgðaákvæðið varanlega í sessi í lögum, hvaða samráð hafi átt sér stað við stéttarfélögin varðandi þetta ákvæði. Þetta er viðkvæmt mál, það kom bersýnilega í ljós fyrir tveimur árum. Og þó að ekki hafi verið jafn hávær mótmæli fyrir ári þegar þetta var framlengt þá horfir það væntanlega öðruvísi við þegar um varanlega lögfestingu er að ræða.



[16:41]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Auðvitað er verið að taka á atriði sem getur reynst mikilvægt en á sama tíma viðkvæmt. Í frumvarpinu er verið að reyna að rata þann veg sem er réttlætanlegur í mjög alvarlegum tilfellum þar sem við þurfum að geta gripið til þessara ráðstafana. Eins og fram kom í máli mínu áðan þá er frumvarpið nú lagt fram í lítið breyttri mynd en það hafa samt verið gerðar breytingar vegna framkominna umsagna um frumvarpið sem hafði áður fengið málsmeðferð. Ég tel og vona að tillit hafi verið tekið til þeirra sjónarmiða og þeirrar gagnrýni sem kom fram þannig að við séum hér með eitthvað sem geti kallast viðunandi. Það kemur þá í ljós núna við þinglega meðferð málsins. Það er kallað mjög eftir þessu, ekki síst af hálfu sveitarfélaga. Þetta getur reynt á innviði þeirra og að geta skipað fólki til annarra verka en það var ráðið til á upphaflegum tímum. Auðvitað er slíkt alltaf neyðarúrræði og verður alltaf neyðarúrræði. Það getur reynst nauðsynlegt en er vandratað og hlýtur alltaf að verða tímabundið.



[16:43]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að lesa upp úr umsögn BSRB við frumvarp um borgaralega skyldu frá því fyrir ári, með leyfi forseta:

„Fljótlega eftir gildistöku laganna fór BSRB að berast mál þar sem starfsmenn höfðu verið færðir úr sínum hefðbundnu störfum og gert að sinna ýmsu viðhaldi á vinnustað sínum, svo sem málningarvinnu eða öðrum slíkum störfum. Á framangreindum vinnustöðum var engin neyð fyrir hendi, heldur verkefnin einfaldlega færri en vanalega vegna lokunar sundlauga eða íþróttamannvirkja. Við þetta hefur BSRB gert athugasemdir, enda felur umrætt bráðabirgðaákvæði eingöngu í sér skilyrta heimild til viðbragða þegar nauðsyn krefst þess að starfsmaður sinni störfum í þágu almannavarna á hættustundu.“

Þetta hefði náttúrlega mátt skoða miklu betur hjá ráðuneytinu, heyri ég á ráðherranum, og er vonandi eitthvað sem allsherjar- og menntamálanefnd tekur til rækilegrar skoðunar. Þau dæmi sem BSRB nefnir eru ekki það sem ég myndi halda að félli undir borgaralega skyldu heldur einfaldlega sveitarfélaga að bregðast við því að fá ekki styrki vegna tekjufalls eða lokunarstyrki. Ef sveitarfélag rekur tíu sundlaugar og þeim er lokað þá situr það uppi með þann launakostnað. Þá er auðvitað freistandi að nota starfskraftinn sem annars sæti auðum höndum í sundlauginni í eitthvað annað, í því ljósi að ríkið hleypur ekki undir bagga varðandi launakostnað eins og ef veitingastaður myndi þurfa að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Þetta er hins vegar ekki tilgangur borgaralegrar skyldu á hættutímum og þess vegna eitthvað sem þarf að skoða mjög vandlega í umfjöllun nefndarinnar.



[16:45]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er tilgangur frumvarpsins m.a. að skilgreina betur lykilhlutverk, skerpa á verkaskiptingu og slíkum atriðum og einmitt að fjalla um almannavarnastigin þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika neyðarástands sem uppi er hverju sinni og umfang viðbúnaðar og slíkt. Til að beita þessu viðkvæma ákvæði, og hafa heimildir til þess, erum við að tala um einhvers konar almannavarnaástand sem kallar á viðbrögð opinberra aðila; sveitarfélaga, ríkis og náttúrlega viðbragðsaðila. Þrátt fyrir að við séum með mjög öflugt almannavarnateymi, þ.e. allir þeir björgunaraðilar, allir þeir viðbragðsaðilar sem við eigum aðgang að, og hryggjarstykkið í því eru auðvitað sjálfboðaliðasveitir okkar um allt land sem telja á annað hundrað björgunarsveitir og eru til nánast á öllum þéttbýlum svæðum og kannski rúmlega það, þá eru auðvitað svæði sem geta staðið frammi fyrir alvarlegu ástandi af ýmsum orsökum þar sem reynir á að fólk geti verið kallað til starfa við hliðina á þessum viðbragðsaðilum okkar. Við erum jú fámenn þjóð í mjög stóru landi og fámennið getur verið þannig að svæði geta búið að mjög takmörkuðum mannskap. Það er auðvitað alltaf við slíkar aðstæður sem þetta viðkvæma ákvæði á við og það er mikilvægt að við leitum allra leiða til að gera það í sem mestri sátt við verkalýðsfélög og verkalýðshreyfinguna og að við sýnum öll (Forseti hringir.) þann skilning sem þarf beggja vegna borðs til (Forseti hringir.) að geta gripið til slíkra ráðstafana við alvarlegar aðstæður.



[16:48]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að fagna því að hæstv. innanríkisráðherra sé að leggja fram þetta frumvarp, sem tekur á mörgum atriðum sem bent hefur verið á í gegnum árin, atriðum sem við þekkjum sem höfum verið í nánu samstarfi í almannavörnum, og ég veit að hæstv. innanríkisráðherra er einn af þeim. Við sem höfum verið í þessu umhverfi og unnið innan þess vitum að það er margt sem má laga, margt smátt, og þetta frumvarp tekur svo sannarlega á mörgum af þeim atriðum. En ég tel þó mikilvægt að heildarendurskoðun á almannavörnum fari fram eins og áætlað hefur verið að gera. Það mun a.m.k. ekki standa á mínum stuðningi að fara í það. En eins og kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar hefur verið mikið álag á almannavörnum, sér í lagi núna á undanförnum árum og við sem hér erum og samfélagið allt, stöndum í mikilli þakkarskuld við þann fámenna hóp starfsmanna sem stendur vaktina fyrir okkur allan sólarhringinn, alla daga. Það var því mikil ánægja að sjá að í fjárlögum þessa árs var bætt við nokkrum stöðugildum til almannavarna í frumvarpinu, eða mér er sýndist það alla vega. Það er mjög ánægjulegt vegna þess að raunin er sú að innan almannavarna starfa mjög fáir starfsmenn sem þurfa að takast á við erfiðar aðstæður, hvort sem við eigum í höggi við heimsfaraldur eða náttúruhamfarir, og það er sjaldan sem þau fá einhverja hvíld.

Það er líka margt í þessu frumvarpi sem lögfestir atriði sem við sem höfum starfað innan þessa geira þekkjum mjög vel, t.d. skilgreiningarnar á almannavarnastigunum. En það er líka gott að sjá að í þessu frumvarpi eru nokkur atriði skýrð, atriði sem voru kannski ekki nægilega vel skilgreind í núgildandi lögum en tekið er á í þessum þessu frumvarpi.

Sem fyrrverandi stjórnandi íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar verð ég sérstaklega að fagna 19. gr. frumvarpsins, en þar er tekið á því hvernig við tökum á móti erlendu hjálparliði hingað til lands ef alvarlegt almannavarnaástand skapast. Það er nefnilega þannig að við höfum verið með ferli og annað skilgreint um það hvernig við hjálpum öðrum löndum, en við höfum ekki alveg verið tilbúin að taka á móti aðstoð sjálf. Það eru flækjustig eins og ef við þyrftum að fá teymi lækna, hjúkrunarfræðinga frá útlöndum, mega þeir þá starfa á landinu í neyð? Má koma með leitarhunda, sérþjálfaða rústabjörgunarhunda hingað ef hér yrði stór jarðskjálfti? Það eru atriði þar sem við vorum í raun að nota gamla góða „þetta reddast“ ef þetta gerðist. En þarna er verið að festa það í lög að ráðherra getur tekið ákvarðanir um að veita undanþágu frá ýmsum reglum, sem er bara mjög ánægjulegt að sjá loksins koma í lög, meira en áratug eftir að við flögguðum þessu. Það er nefnilega þannig, eins og einn mesti sérfræðingur Norðurlandanna í viðbrögðum við hamförum, Jesper Lund heitinn, benti á á NORDRED-ráðstefnu hér á Íslandi árið 2006 þegar hann spurði okkur, fulltrúa frá öllum Norðurlöndunum, hvort við værum of stolt til að biðja um hjálp. Við verðum að átta okkur á því, eins og hæstv. ráðherra benti á, að við erum fámennt land. Við getum ekki tekist á við ýmsar hamfarir ein. Þá verðum við að geta beðið um hjálp og við verðum að geta fengið þá aðstoð fljótt og örugglega.

Og bara til að gefa ykkur lítið dæmi: Á þessari ákveðinni ráðstefnu árið 2006 var tekin æfing samhliða ráðstefnunni þar sem átti að hafa kviknað í skemmtiferðaskipi fyrir utan Vestfirði með um 500 manns innan borðs. Þá reyndist það nefnilega vera þannig að við vorum hvorki með, og erum heldur ekki í dag, nægilega mörg brunarými á Íslandi til að taka við ef fleiri en tíu einstaklingar á þessu skipi hefðu hlotið brunasár og hefðum því þurft að óska eftir aðstoð frá Norðurlöndunum og öðrum löndum til að taka við sjúklingum, jafnvel fá sérhæfða slökkviliðsmenn til landsins til að hjálpa til við að slökkva í skipinu. Þetta var einfalt dæmi sem var gefið um að við gætum ekki sinnt slíku útkalli með okkar frábæru sjálfboðaliðum, okkar frábæra fagfólki og okkar góðu almannavörnum, við gætum ekki séð um það sjálf. Þess vegna er rosalega mikilvægt að við séum ekki of stolt til að biðja um hjálp og þegar við biðjum um hjálp þá sé hægt að taka á móti henni á öruggan og snaran hátt. Því fagna ég sérstaklega 19. gr., að þarna sé verið að binda það í lög en ekki bara segja: Þetta reddast.



[16:55]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka til máls í þessu máli. Við vorum með það í allsherjar- og menntamálanefnd og ég var þar á síðasta kjörtímabili en sit þar ekki núna. Ég er ekki sátt við frumvarpið eins og það lítur út núna frekar en þá og ætla í stuttu máli að fara yfir þá punkta sem við vorum að vinna með í nefndinni sem ég tel að núverandi nefndarmenn þurfi að hafa í huga og fá nú eflaust umsagnir þar um. Það er kannski sitt lítið af hverju og af því að innviða- og sveitarstjórnarráðherra situr hér líka þá er rétt að nefna að þetta snýr, eins og hér hefur komið fram, talsvert að sveitarfélögunum líka. Það vantar dálítið að skýra hlutverk. Mín upplifun er sú að verið sé að fjölga þeim sem vinna að þessu sama verkefni og hlutverk hvers og eins sé ekki nægjanlega skýrt. Mín upplifun var alla vega sú að verið væri að auka flækjustigið og setja fleiri saman í hóp. Sveitarfélögin sem og lögreglan gera viðbragðsáætlanir, sveitarfélögin gera þær fyrir sig sjálf og svo er sameiginleg áætlun þar sem þau eiga í tilteknu samstarfi. Mér fannst það ekki skýrt í frumvarpinu hvort lögreglan ætti að gera þessa viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélögin og innra starf þeirra. En eins og hér var einmitt rætt áðan þá er það kannski ekki lögreglustjóra eða annarra að fara fram hjá sveitarstjóra og segja starfsmönnum sveitarfélags fyrir verkum. Þannig að mér finnst þurfa að vera skýrari greinarmunur þar á, þ.e. sveitarfélög versus almannavarnanefndir. Þetta er samvinna í samráðsnefndunum, af því að almannavarnanefndir eru jú samráðsnefndir, og oft koma mörg sveitarfélög þar að. En svo hafa sveitarstjórar ekki forræði yfir starfsmönnum annarra sveitarfélaga. Oft á tíðum er það þannig að sjónarmið sveitarfélaga ná miklu lengra fram í tímann en lögreglustjóra. Það er oft samlegð í upphafi einhvers konar ástands en svo hugsa sveitarfélögin kannski lengra fram í tímann og eru jafnvel farin að vinna, eins og við þekkjum, með forsætisráðuneytinu og öðrum, eins og við höfum séð í þeim hamförum sem hafa átt sér stað. Svo er það auðvitað starfsmannafjöldinn, við getum tekið Árborg sem dæmi, 1.000 starfsmenn sem þarf að taka tillit til í viðbragðsáætlun. En síðan er lögreglan á svæðinu kannski með mun færri aðila sín megin. Sveitarfélögin eru kannski ekki endilega að sjá um samhæfingu ólíkra viðbragðsaðila, það er hlutverk lögreglustjórans að gera það og mér finnst þetta ekki vera alveg nógu skýrt.

Þá er það fagleg þekking á áhættugreiningu. Þar myndi ég vilja hvetja sveitarstjórnarráðherra til að huga að styrkingu sveitarfélaganna. Það má velta því fyrir sér hvort það megi, í þessu samhengi, bæta við einhverri grein í frumvarpið um sveitarfélögin af því að þeirra hlutverk er gríðarlega stórt þegar einhvers konar samfélagsleg röskun verður og kannski í langan tíma, eins og við þekkjum með verkefnin sem við stöndum frammi fyrir núna. Til dæmis á Seyðisfirði, verkefni sveitarfélagsins verða í fjöldamörg ár eftir að óvissuástandi eða almannavarnaástandi hefur verið aflétt, þannig að það þarf að efla sveitarfélögin dálítið, finnst mér, í því að sinna sínu hlutverki í þessu efni.

Mig langaði líka að koma inn á að það eigi að leggja niður rannsóknarnefnd almannavarna. Ég er mótfallin því og mér finnst frumvarpið eiginlega rökstyðja það sjálft, það segir beinlínis hér að bara af því að við kláruðum þetta ekki þá ætlum við bara að hætta við þetta. En rökstuðningurinn er alls ekki nægjanlegur. Ég ætla að leyfa mér að rifja það upp að þessi nefnd var sett á laggirnar sem sjálfstæð nefnd og var tryggt að hún starfaði í umboði Alþingis, m.a. til að framkvæmdarvaldið myndi ekki rannsaka eigin aðgerðir. Það má vel vera að gagnrýna megi það að upphaflega hafi ekki verið gerðar nægilega miklar kröfur um hæfni fólks. Við erum nú svo heppin að í því ráði sem situr núna er afskaplega hæft fólk með þekkingu á hamförum og öðru slíku. En það er sannarlega rétt að það eru ekki gerðar neinar kröfur til skipan þessa fólks. Það er eitthvað sem ég tel að mætti sannarlega laga og gera tilteknar kröfur til þeirra sem eiga að sinna þessu gríðarlega mikilvæga verkefni. Við erum með rannsóknarnefnd samgönguslysa sem mætti nýta sem fordæmi í því. En mér finnst að með því að leggja nefndina niður þá sé í rauninni verið að koma í veg fyrir að óháður aðili rannsaki framkvæmd og aðkomu undirstofnana og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þannig að mér finnst þetta vera skref aftur á bak og ég ræddi það líka síðast þegar þetta mál var hér til umfjöllunar og hélt þessu á lofti af því að mér finnst við aldrei hafa látið reyna á þetta vegna þess að Alþingi hefur aldrei fjármagnað nefndina. Dómsmálaráðherra setti í þetta örlitla aura 2019, sem voru kannski rétt til þess að koma upp aðstöðu fyrir nefndina, en hún hafði í rauninni aldrei færi á því að taka almennilega til starfa. Og svo kemur auðvitað Covid ofan í allt saman, eins og við þekkjum. Í frumvarpinu, í greinargerð um 15.–18. gr., er þetta beinlínis sagt. Um leið er líka sagt: „Fullyrða má að núgildandi fyrirkomulag hefur ekki náð þeim tilgangi sem stefnt var að“, eðlilega ekki þegar nefndin hefur beinlínis aldrei verið fjármögnuð og aldrei fengið að taka til starfa og sinna því sem henni var sannarlega ætlað.

Ég ætla bara brýna það fólk sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd að hugsa vel um þetta, sérstaklega út frá því að ekki sé verið að koma í veg fyrir utanaðkomandi rýni. Ég held að hún sé afskaplega mikilvæg. Samkvæmt frumvarpinu eins og það lítur út er það ríkislögreglustjóri sem fer með forræði á rýnifundunum, hefur eftirlit með sjálfum sér og sinnir stofnun og undirstofnunum. Við erum alltaf að tala hér um aukið gegnsæi og eftirlit með ríkisstofnunum þannig að mér finnst þetta skjóta skökku við þrátt fyrir að hér komi margir aðilar að, eins og nefnt er og allt það. Ég vil alla vega brýna fólk í því að skoða þetta mál vel og velta þessum tiltekna fleti upp, hvort nefndarmenn eru sammála því að það hafi í rauninni reynt á þessa nefnd og hvort önnur leið en sú sem hér er lögð til sé betri og að mínu mati heilbrigðari út frá öllu því sem heitir að rýna ekki sjálft sig þegar verið er að vinna svona störfum eins og hér er undir.



[17:04]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að þakka hv. þingmanni fyrir að benda á nokkur atriði sem voru í umræðunni þegar þetta frumvarp kom fram síðast. Varðandi umræðuna um sveitarfélög versus lögreglu hvað það varðar að gera viðbragðsáætlanir og annað þá er sannleikurinn sá að flækjustigið er aðeins meira en þetta. Það er þannig að oft eru mörg sveitarfélög undir einni hættu og stundum er bara eitt sveitarfélag undir ákveðinni hættu. Ég held að það þurfi að vinna mikla vinnu í því að fara í gegnum hvaða viðbragðsáætlanir þurfi að gera, forgangsraða þeim og uppfæra þær sem til eru. Gott dæmi er að viðbragðsáætlun út af Kötlugosi gerði ekki ráð fyrir því að það gætu verið 4.000 erlendir ferðamenn á svæðinu heldur var einungis tilgreindur fjöldi bænda á svæðinu. Það er margt sem þarf að gera þegar kemur að viðbragðsáætlunum og það er mikilvægt að það sé vel skilgreint hver ber ábyrgð á hverju. Þá er kannski hægt að búa til einhverja reglu um að lögreglan sjái um það sem nær yfir mörg sveitarfélög en sveitarfélögin annars.

En það sem ég sakna helst, þegar kemur að viðbragðsáætlunum, er að sérstaklega sé skilgreint fjármagn í þetta. Þar sem hv. þingmaður er einnig formaður fjárlaganefndar langar mig að hvetja til þess að það sé skoðað vel hvernig við getum sett meira fjármagn í gerð viðbragðsáætlana. Það þýðir ekki alltaf að við séum að búa þær til eftir á heldur þurfum við að vera tilbúin áður en hlutirnir gerast.



[17:06]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, eins og ég kom inn á hér áðan, að almannavarnanefndir ná oft yfir mörg sveitarfélög sem eru jafnvel ólík. Eins og við þekkjum mjög víða þá er slíkt undir. Eins og hv. þingmaður bendir á þá getur verið meiri hætta á margs konar áföllum í einu sveitarfélagi umfram önnur og í sjálfu sér þarf hvert og eitt sveitarfélag þess vegna að gera sína viðbragðsáætlun en saman þurfa þau svo að standa að einhverri heildarsýn. Það var kannski þess vegna sem ég var að árétta það hér, og ég tek alveg undir það með hv. þingmanni, að það þarf að efla getu sveitarfélaganna til að áhættugreina og til að búa til viðbragðsáætlanir. Og af því að ég var að bera saman lögregluna, sem er kannski yfir öllu á einum tíma en ekki endilega inni í þessu til lengri tíma, þá kemur þekkingin ekki endilega þaðan. Þekkingin þarf að koma einhvers staðar annars staðar frá.

Það er alveg spurning: Eigum við að gera meira úr þessu í sveitarstjórnarlögunum, og þá myndi þetta væntanlega falla undir jöfnunarsjóð eða byggðatengingar eða eitthvað slíkt, eða á að búa til átaksverkefni þar sem sveitarfélögum er ýtt út í þessa vinnu, að öll verði þau að vera búin að gera sér einhverjar áætlanir miðað við daginn í dag. Þau eru auðvitað flest með einhvers konar áætlanir, sannarlega, það má svo sem ekki gleyma því, en við sjáum bara að víða er ekki vanþörf á. Eins og hv. þingmaður nefndi er ekki endilega gert ráð fyrir öllu í breyttu árferði þó að sveitarfélögin hafi uppfært sig að einhverju leyti en það er alltaf þessi samhæfing sem við þurfum að gæta að að mínu mati.



[17:09]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég held við séum sammála. Það er margt sem þarf að gera þarna. Við þurfum bara að hugsa vel um það hvernig við getum tryggt að það verði gert. Sannleikurinn er sá að það er mjög lítið til af viðbragðsáætlunum, mjög lítið. Það er til fullt af almennum áætlunum en þær eru ekki til um alls konar hættu, eldgos og ýmislegt annað sem getur komið fyrir. En mig langaði líka að snerta á punktinum um rannsóknarnefnd versus rýni, sem fjallað er um í frumvarpinu. Það var svo sannarlega þannig að rannsóknarnefnd almannavarna, sem var skilgreind í gömlu lögunum, fékk aldrei fjármagn til að vinna sitt verk fyrr en seint og um síðir og síðan var það stoppað. Hafandi tekið þátt í fjölda aðgerða og leitt rýni og séð um rýni get ég sagt að viðbragðsaðilar eru sennilega hörðustu rýningaraðilarnir sem þú getur fundið. Við erum mjög gagnrýnin á sjálf okkur og það er svo sannarlega af hinu góða. Ég tel að það sé af hinu góða að það sé gert að skyldu að gera alltaf rýni. En hvort utanaðkomandi rýni þurfi við ákveðnar aðgerðir — ég tel að hana þurfi ekki við allar aðgerðir en það þarf svo sannarlega að vera einhvers konar flötur á því þegar um stórar og kannski mjög áhrifamiklar aðgerðir er að ræða, hvernig hægt er að leysa það. Ég spáði t.d. aðeins í það hvort meiri tengsl ættu að vera milli almannavarnaráðs og þings til að geta komið hlutum þar áfram. En þetta er svo sannarlega hlutur sem þarf að laga.



[17:11]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þingmanninum um það að við verðum að horfast í augu við það að við þurfum væntanlega að endurskoða allar þessar áætlanir, ekki síst í ljósi loftslagsbreytinga. Það er svo margt sem við stöndum frammi fyrir, það sem aldrei hefur gerst er farið að gerast og á eftir að gerast. Ég held því að það sé öllum til heilla að sveitarfélög verði efld og fái utanaðkomandi aðstoð og jafnvel samhæfingu til að vinna að áhættugreiningu á hverjum stað og gera almennilegar viðbragðsáætlanir.

Ég spurði dómsmálaráðherra um rannsóknarnefndina hér og við vorum sammála um að nefndin eigi að rýna og meta framkvæmdir almannavarna svo að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla þannig að umbótum innan almannavarnakerfisins. Ráðherrann svaraði því þá að með fyrirkomulaginu sé komið í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsaki eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem starfa á ábyrgðarsviði þess. Við getum verið að tala um mjög stóra og alvarlega hluti. Það er eitt að rýna sjálfan sig — formaður þessarar nefndar hefur starfað á hamfarasvæðum erlendis og veit nokkuð um hvað verið er að tala og er sérmenntuð í þessum fræðum. Nefndin er því mjög vel mönnuð en viljum við halda henni áfram eins og ég myndi vilja þyrftum við að gera kröfur um það hvers konar fólk veldist þar inn, ekki bara pólitískir vildarvinir. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt. Ég held að þetta sé gott, það er hægt að gera þetta nákvæmlega eins og við gerum með fjármálaráð. Þar erum við ekki að velja eftir pólitískum línum heldur erum við að fá utanaðkomandi rýni á mikilvægustu störf Alþingis, þ.e. að vinna með fjárheimildirnar. Ég tel að þetta sé líka risastórt mál og við eigum að þora að takast á við verkefnið og leyfa þessari nefnd að taka til starfa og sjá hvort að við erum ekki á réttri leið eins og ég tel að við séum.



[17:14]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram og margar góðar ábendingar sem hafa komið fram og verið viðraðar. Mig langar aðeins til að rifja það upp hvaða breytingar urðu í samfélagi okkar þegar við komum viðbragðsaðilum saman í eina samræmingarstjórnstöð í Skógarhlíðinni fyrir tiltölulega stuttu. Við stigum reyndar skref sem eftir var tekið víða um veröld þar sem við náðum að samræma vinnubrögð og fá alla viðbragðsaðila saman á einn stað. Áður voru starfandi sjö stjórnstöðvar út um borg og bý. Það er hægt að fara aðeins aftur í tímann og rifja upp snjóflóðin fyrir vestan 1995 og hvernig hjólin snerust þá þegar við þurftum að virkja almannavarnakerfið okkar, virkja þar með stjórnstöð sem dagsdaglega var aldrei notuð og það kallaði á mikla erfiðleika í framkvæmd. Þrátt fyrir að við værum með viðbragðsáætlanir og skipulag og eitthvað svona á pappírum og í möppum uppi í hillu þá mátti mikið af þessu læra og kannski varð kveikjan að því einmitt að við settum upp eina samræmda stjórnstöð viðbragðsaðila sem er í vinnu dagsdaglega í þeim verkefnum sem eru hjá viðbragðsaðilum og svo stækkar bara umhverfið eftir því sem fleiri þurfa að koma að og verkefnin verða samhæfðari. Það urðu miklar breytingar í tengslum við þetta.

Í kjölfarið á þessum stóru skrefum sem tókst að stíga í samkomulagi viðbragðsaðila var sett á fót yfirstjórnstöð í Skógarhlíð og síðan rannsóknarnefnd almannavarna. Það vill svo til að ég var á þeim tíma bæði formaður þessarar fyrstu stjórnar samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð og þessarar rannsóknarnefndar almannavarna og það er mikið til í því, sem hér hefur komið fram, að ekki var lagt mikið fjármagn til þessarar rannsóknarnefndar og hún náði þess vegna, jafnvel þrátt fyrir að eftir því væri kallað, ekki almennilega að hefja störf og láta til sín taka. En á þeim sama tíma voru stigin mjög stór skref. Á þessum 15–20 árum hafa verið stigin mjög stór skref í því hvernig við rýnum atburði á þessum vettvangi, hvort sem er í almannavarnaástandi eða ástandi sem nær ekki almannavarnastigi. Það hefur orðið mjög góð þróun í þessu og reynsla sem hefur skilað miklum ávinningi. Til hvers er rýni? Jú, hún er einmitt til þess að læra á veikleika, láta gagnrýnina koma upp á yfirborðið, taka umræðuna og gera breytingar og þróa kerfið til betri vegar.

Ég held að í ljósi þessarar reynslu sé það óþarfi hjá okkur að vera með sérstaka rannsóknarnefnd fyrir almannavarnaástand. Það er einlæglega mitt mat, ekki til þess að forðast það eitthvað sem hér var orðað, að framkvæmdarvaldið væri að rýna sjálft sig. Í framkvæmd er það ekki þannig. Við getum alltaf slegið varnagla við því og gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að stjórn björgunarmiðstöðvarinnar, sem við ætlum að efla og stækka hér á næstu árum með því að flytja hana í nýtt húsnæði og alla viðbragðsaðila þar saman, geti kallað eftir dýpri rýni, frekari úttekt, sem gerist þá ef ágreiningur er mikill og tilefni er til. Þá eru kallaðir til utanaðkomandi sérfræðingar til að fjalla um þessi mál og rýna og koma þá með tillögur um hvað betur megi fara.

Það er líka gert ráð fyrir því að ráðherra málaflokksins geti brugðist við ef svo ber undir og þá erum við farin að tala um eitthvað sem sætir mikilli gagnrýni í samfélaginu og veldur miklum deilum, þegar við þurfum að stíga þau skref að taka slíka rýni upp á það stig. Ég fullyrði að það eru svo margir sem koma að, t.d. stjórnstöðinni, samhæfingarmiðstöðinni, frá fjölbreyttum aðilum að það næst engin samstaða þar, menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, ef það er undirliggjandi, að mál verði með einhverjum hætti þögguð. Það vilja allir, og reynslan sýnir okkur það, rýna til gagns í þessum málum og þess vegna höfum við náð þessum árangri, því að við erum alltaf að læra af reynslunni og alltaf að bæta í verkfærakistuna. Ráðherrann getur þá gripið inn í ef um er að ræða miklar deilur og eitthvað sem þarf að skoða miklu betur og auðvitað getur Alþingi alltaf stigið upp og óskað eftir skýrslu sérfræðinga um einhverja sérstaka stóra atburði og ekki ólíklegt að það eigi eftir að verða. Ég held því að reynslan sýni að það ferli sem við höfum þróað í samstarfi þessara viðbragðsaðila okkar, þar sem við höfum náð þeim í þetta víðtæka samstarf — það er ekki ástæða til að stíga út úr því þegar kemur að þessari rannsókn. Ég held að við ættum að meta þessa reynslu. Ég hvet nefndina til að taka umræðuna við viðbragðsaðilana um þetta og að um það verði gagnrýnin umræða. En ég hef ekki áhyggjur af þessu.

Ég skil vel að þetta komi til umræðu. Ég skil vel að þeir sem kannski þekkja ekki mjög vel þá ferla sem viðhafðir eru í dag hafi af þessu áhyggjur. En ég fullyrði að ekki er tilefni til þess, að mínu mati er ekki tilefni til þess. Það er oft betra að hafa ferlin einfaldari og hafa þau smurðari þannig að við lendum ekki í því, þegar stærri atburðir verða, að gangsetja þurfi einhver hjól sem ekki eru reglulega í gangi, eins og gerðist í snjóflóðunum 1995 og það hafði hnökra í för með sér. Reynum að smyrja hjólin og vinna vel úr þeirri reynslu sem við eigum og bæta vinnubrögð okkar, sem er auðvitað markmiðið með þessu. Annars þakka ég fyrir þessa málefnalegu umræðu.



[17:21]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir góða söguskýringu. Við sem höfum setið einmitt þarna á þessu svæði í samhæfingarstöðinni undanfarna — ja, það eru víst að verða áratugir, við vitum að það er gott samstarf þar á milli aðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að bæði stjórn samhæfingarstöðvarinnar og ráðherrar geti látið vinna skýrslu. En til þess að tryggja að hægt sé að óska eftir slíkri skýrslu frá löggjafarvaldinu líka þá er spurning hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að hafa möguleika á því að óska eftir henni, jafnvel þó að ráðherrann sé ekki sammála. Það gæti verið góð leið til að tryggja það að allir séu sáttir. En ég held líka, eins og bent er á í greininni, að það þurfi að passa að það séu ákveðin hæfnisskilyrði þeirra sem eru settir í slíka nefnd og þau séu vel skilgreind eins og talað er um, en líka að þeir séu ekki of tengdir aðilum sem voru í aðgerðinni.

Annars tel ég að það séu margar góðar ábendingar þarna og ég er viss um að nefndin skoðar það. Ég ítreka samt enn og aftur að það þarf að fara í vinnu við heildarendurskoðun á þessu og þar eru tækifæri til að laga ýmis atriði líka sem við vitum að þarf að taka á, eins og t.d. skiptingin milli almannavarnanefnda og lögregluembættanna.



[17:24]
innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að Alþingi hafi í raun alltaf þessa heimild. Ég lít bara svo á að verði hér um mjög stórkostlegt almannavarnaástand að ræða, mjög stórkostlega atburði sem krefjast mjög ítarlegrar rýni og aðkomu margra sérfræðinga, þá hafi Alþingi alltaf þær heimildir sem þarf til að grípa inn í það. Það er bara eðlilegt og ekkert ólíklegt að það eigi eftir að gerast. Þetta á sér auðvitað ákveðin fordæmi í stórum atburðum þar sem unnar hafa verið alveg sérstakar skýrslur. Nærtækt er að minnast átakshópsins sem stofnaður var í kjölfar óveðursins 2019 einmitt til að meta aðstæður, læra af reynslunni og koma með tillögur til úrbóta, kannski ekki bein rannsóknarnefnd en klárlega var hópurinn samt sem áður með það hlutverk að rýna og koma með tillögur um hvað betur megi fara.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.