152. löggjafarþing — 23. fundur
 18. janúar 2022.
vextir og verðtrygging og húsaleigulög, 1. umræða.
frv. ÁLÞ o.fl., 80. mál (verðbólga á húsnæðislán og húsaleigu). — Þskj. 80.

[18:18]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu). Meðflutningsmenn mínir eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar sem miða að því að frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2022 skuli vísitala neysluverðs, eins og hún stóð í nóvember 2021, gilda um verðtryggingu neytendalána og fasteignalána til neytenda. Einnig eru með frumvarpinu lagðar til samsvarandi takmarkanir á leigu íbúðarhúsnæðis í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2022.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt til verulegs efnahagssamdráttar og síhækkandi verðbólgu. Þrátt fyrir möguleika á endurfjármögnun með óverðtryggðum lánum geta fjölmargir ekki breytt skuldum sínum þannig vegna íþyngjandi skilyrða eða kostnaðar. Þeir sem greiða af verðtryggðum lánum eða húsaleigu eru berskjaldaðir gagnvart þessu ástandi. Nauðsynlegt er að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots.

Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða verði sett í lög um vexti og verðtryggingu og húsaleigulög. Ákvæðin kveða á um að verðtryggðar skuldbindingar neytenda skuli ekki taka breytingum til hækkunar á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Að tímabilinu loknu taki slíkar skuldbindingar aftur breytingum með hefðbundnu sniði. Jafnframt miðist þær þá aðeins við breytingu á vísitölu neysluverðs frá næstliðnum mánuði. Að öðrum kosti yrði hætta á því að verðtryggðar skuldbindingar neytenda myndu stórhækka strax að tímabilinu loknu og að lánastofnanir og leigusalar myndu halda að sér höndum í nýjum samningum í þeirri von að fá að tímabilinu loknu fulla árshækkun vísitölu á skuldbindingar en það kæmi illa niður á neytendum sem ekki geta losnað undan þeim á tímabilinu.“

Það þarf væntanlega ekki að útlista fyrir þingmönnum hversu alvarleg staða fyrirtækja og heimila er, vegna Covid. Allar spár benda til þess að fram undan séu vísitöluhækkanir upp á u.þ.b. 4,5% en miðað við stöðuna úti í heimi og það rof sem orðið er á virðiskeðjunni, má alveg gera ráð fyrir að 4,5% sé vanáætlað. Í því sambandi bendi ég á að verðbólga innan ESB er núna komin upp í 5% án þess að húsnæðisliðurinn sé tekinn með eins og á Íslandi, en með honum væri hún mun hærri. Í Bandaríkjunum er verðbólgan komin upp í 7%. Þetta mun koma við okkur öll með einum eða öðrum hætti. Við munum öll finna fyrir þessu í formi hækkandi vöruverðs og afborgana lána. Staðreyndin er engu að síður sú að við erum misvel í stakk búin til að takast á við verðhækkanir á nauðsynjum, eða það sem hefur enn meiri áhrif á afkomu heimilanna; hækkandi húsnæðiskostnað.

Það er óhætt að fullyrða að leigjendur standi einna verst að vígi. Bæði vegna þess að það eru tekjulægstu hópar samfélagsins sem eru fastir á leigumarkaði, eins og t.d. einstæðir foreldrar og öryrkjar, en líka vegna þess að leigusamningar eru nær allir verðtryggðir og áhrif hækkandi vísitölu munu strax hafa mikil áhrif á þá. Þegar á leið á síðasta ár voru strax komin dæmi um leigusamninga sem höfðu hækkað um tugi þúsunda og þeim mun fjölga og staða leigjenda versna enn frekar, verði ekkert að gert. Þegar fólk hefur lítið á milli handanna skiptir hver hækkun upp á 5.000, 10.000 eða 20.000 kr. á hverjum mánuði gríðarlega miklu máli. Þessir peningar eru hreinlega ekki til á mörgum heimilum. Það er því þörf á fyrirbyggjandi lausnum.

Öryrkjar eru margir á leigumarkaði og ljóst að flestir sem þar eru standa ekkert of vel fjárhagslega. Þarna er um að ræða viðkvæmasta fólkið okkar og það þarf að verja fyrir þeim áföllum sem fram undan eru. Leigjendur, sérstaklega þeir sem leigja hjá stórum hagnaðardrifnum leigufélögum, standa illa að vígi gagnvart þeim og hækkandi leiguverði. Þetta er jafnan lágtekjufólk, oft einstæðir foreldrar og öryrkjar sem hafa ekki í nein önnur hús að venda og eiga vart til hnífs og skeiðar þó að auknar hækkanir auki ekki enn á erfiðleika þeirra.

Raunveruleg staða fólks er ekki alltaf í samræmi við opinberar tölur. Það var í ársbyrjun 2020 sem verðbólgan fór að skríða yfir verðbólgumarkmið. Hafi leigan fylgt vísitölunni er sá sem borgaði 280.000 í leigu í janúar 2020 að borga 308.000 kr. í dag. Á meðan er útborgaðar lífeyrir 240.000 kr., hugsum aðeins um það. Til að eiga fyrir leigu sem hefur hækkað um 28.000 kr. á mánuði þurfa laun að hækka um tæp 40.000, bara til að eiga fyrir þessum eina lið. Þá er ekki verið að taka með í reikninginn þá holskeflu af verðhækkunum sem fram undan eru. Þeir sem eru með 500.000 kr. á mánuði fá 371.000 kr. útborgaðar. Til að koma útborguðum launum í 400.000 kr. þurfa laun hækka í 540.000 kr. En leiga getur hækkað meira en þetta og ég veit um raunverulegt dæmi um að leiga einstaklings hafi hækkað úr 280.000 í 320.000 kr. á rúmu ári. Hvaða þýðingu mun slíkur kostnaðarauki heimilanna hafa í komandi kjaraviðræðum og hvers konar skilaboð eru þessar hækkanir inn í þær? Augljóslega munu verkalýðsleiðtogar hafa þessar tölur í huga við kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga enda launahækkanir eina leið launþega til að standa undir þessum hækkunum. Við þurfum að skoða hækkun lána og leigu í þessu víðara samhengi.

Rétt fyrir ofan leigjendur í fæðukeðjunni eru þeir sem eru með verðtryggð lán. Þar er líka oft um að ræða fólk sem hefur ekki mikið á milli handanna og rétt komst inn á húsnæðismarkaðinn með því að taka óhagstæðustu lán sem fyrirfinnast í víðri veröld. Það sem er þó ólíkt með þessum hópi og leigjendum er að hann mun ekki finna svo mikið fyrir hækkandi húsnæðiskostnaði alveg strax. Mánaðarlegar afborganir þessa hóps munu vissulega hækka í takti við vaxtahækkanir bankanna en vísitölutengingin mun ekki koma niður á þeim af fullum krafti fyrr en eftir nokkurn tíma, kannski tvö til fjögur ár. Þegar þar að kemur verður ekki við nokkuð ráðið og þaðan í frá munu mánaðarlegar afborganir þeirra sem eru með verðtryggð lán hækka í veldisvexti út lánstímann.

Það að verðtryggð lán séu yfirleitt í boði fyrir neytendur á Íslandi er til háborinnar skammar enda hefur engin önnur siðmenntuð þjóð látið sér detta í hug að bjóða neytendum upp á flókin afleiðulán sem í öllum öðrum löndum eru eingöngu í boði fyrir fagfjárfesta enda flokkast þau undir áhættufjárfestingar. Það þarf að banna verðtryggð lán til neytenda sem allra fyrst en það verður ekki gert í þessari atrennu. Núna snýst málið hreinlega um neyðaraðstoð við fólkið sem er annaðhvort á leigumarkaði eða fast í viðjum verðtryggðra lána.

Ég ætla að nefna hérna nokkrar tölur sem segja sína sögu um verðtrygginguna. Ef miðað er við 30 millj. kr. verðtryggt lán til 40 ára sem var með fyrstu afborgun 1. janúar 2017, þá stendur það núna fimm árum síðar í 32,6 milljónum. Þann 1. janúar 2022 var búið að greiða 6,9 milljónir inn á lánið. Maður skyldi því ætla að það myndi hafa lækkað. En nei, þvert á móti hefur lánið hækkað um 2,6 milljónir og stendur nú, eins og áður sagði, í 32,6 milljónum. Ef þessar 6,9 milljónir hefðu allar komið til lækkunar höfuðstóls lánsins myndi það standa í 23,1 milljón. Það er náttúrlega ekki við því að búast því að fleiri þættir koma til. En það er engu að síður sláandi staðreynd að á þessari tölu og upphæðinni sem lánið stendur í munar 9,5 milljónum. Lánþeginn hefur borgað 6,9 milljónir af láninu en það hefur samt hækkað um 2,6 milljónir. Eftir fimm ár í viðbót 1. janúar 2027 verður lántakinn búin að greiða 14 milljónir og lánið mun standa í 36,3 milljónum. Í lok lánstímans mun lántakinn hafa greitt a.m.k. 113 milljónir fyrir þetta 30 millj. kr. lán miðað við núverandi horfur sem munu væntanlega breytast vegna verðbólguskota á næstu 35 árum.

Annað lán upp á 50 millj. kr. sem tekið var í nóvember 2019 stendur núna í 52,3 milljónum og hefur hækkað um rúmar 2 milljónir, þó að það hafi verið greiddar af því um 3,6 milljónir á þessu tveggja ára tímabili. Þetta lán hefur hækkað um 170.000 kr. að meðaltali í hverjum einasta mánuði. Það þýðir að núna eru vextir og verðbætur reiknaðar af 52,3 milljónum þannig að sá hluti ásamt afborgunum af láninu mun bara fara hækkandi og sú hækkun mun vera í veldisvexti næstu 38 árin. Og eins furðulega og það hljómar verður hækkunin hvað mest á síðustu árum lánsins.

Eðli verðtryggðra lána er þannig að sú hækkun sem verður á þessu ári vegna verðbólguskots vegna áhrifa heimsfaraldurs mun aldrei ganga til baka. Sú hækkun sem verður á afborgunum lána á árinu 2022, hvort sem hún er 5.000, 10.000 eða 15.000 kr. í hverjum mánuði, mun þannig leggjast ofan á afborganir í hverjum einasta mánuði héðan í frá lánstímann á enda. Séu 35 ár eftir af láninu mun verðbólguskot þessa eina árs, 2022, vera greitt ofan á annan kostnað lánsins í 35 ár í hverjum einasta mánuði eða í 420 mánuði. Hafi afborgunin hækkað um 10.000 kr. mun bara sú verðbólga sem vænta má á þessu eina ári kosta það heimili 4,2 milljónir aukalega.

Svo veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðar munu væntanlega koma önnur ár með verðbólguskotum sem enn munu magna upp þessa hækkun, fyrir utan það sem þau verðbólguskot munu svo sjálf bæta við. Einnig ber að hafa í huga að þegar verðbólgan lækkar mun hvorki þessi hækkun né aðrar sem eiga eftir að verða nokkurn tímann ganga til baka. Það er staðreynd að verðtryggð lán hafa aldrei lækkað á ársgrundvelli í 40 ára sögu þeirra á Íslandi. Við þetta bætist svo að vextir, vaxtavextir og verðbætur verða svo reiknaðar af upphæðinni sem kom til vegna áhrifa kórónuveiru og verða þeim mun hærri en annars myndi vera. Við erum að tala um snjóboltaáhrif og við þurfum að koma í veg fyrir þau.

Það hefur stundum verið sagt að verðtryggingin sé til þess að lánveitandinn fái til baka jafnvirði þess sem hann lánaði upphaflega en þegar grannt er skoðað er ljóst að þessi áhrif eins árs verðbólgu fara langt umfram það, enda er sú hækkun greidd aftur og aftur á lánstímanum. Það er ekki réttlát af lánveitandinn hagnist endurtekið í tugi ára fyrir tímabundið verðbólguskot og það er ekkert sem réttlætir að lántakinn þurfi að borga álag í hverjum einasta mánuði í tugi ára fyrir tímabundin áhrif heimsfaraldurs.

En aftur að leigjendum. Leigjendur á húsnæðismarkaði eru án nokkurs vafa þeir sem standa verst gagnvart hækkunum eins og við höfum horft upp á og horfum núna fram á. Þeir eru á markaði þar sem eftirspurnin er mun meiri en framboðið og standa algerlega berskjaldaðir gagnvart leigusölum. Þeir eiga ekkert val í raun því að hinn kosturinn gæti verið gatan. Vandinn við leigumarkaðinn er líka hversu ólíkir leigusalarnir eru. Þar er bæði um að ræða einstaklinga og stór leigufyrirtæki. Það getur því verið flókið að setja lög og framfylgja þeim gagnvart svo ólíkum aðilum. Að því sögðu verðum við engu að síður að reyna að verja þá sem höllustum fæti standa á húsnæðismarkaði. Það getur ekki verið mikið mál að fylgjast með þeim sem stærstir eru á leigumarkaðnum og sjá til þess að leiguverð sé ekki vísitölutengt.

Kjarni málsins er að hvort sem um er að ræða leigjendur eða þau sem eru með verðtryggð lán eru þetta þau heimili sem verst standa. Fjölskyldur á leigumarkaði hafa orðið og munu verða fyrir miklum áhrifum vegna vísitölutengdra leigusamninga og það sama á við um eigendur með verðtryggð lán. Við þurfum að koma í veg fyrir að heimili landsins verði skikkuð til að greiða fyrir fjárhagslegar afleiðingar þeirra náttúruhamfara sem Covid-19 vissulega er í tugi ára til loka lánstímans þegar allir eru fyrir löngu búnir að gleyma heimsfaraldrinum sem olli þessum ósköpum og hagkerfið fyrir lifandis löngu búið að jafna sig á honum.

Frumvarpið er sett upp þannig að ekki felst í því afturvirkni. Vísitalan í nóvember hafði fyrst áhrif á afborganir þann 1. janúar 2022. Auðvitað hefði verið æskilegt að mæla fyrir frumvarpinu í desember sl., en jafnvel þótt það hafi ekki tekist er ekki enn búið að reikna út afborganir febrúarmánaðar þannig að ef Alþingi afgreiðir málið fyrir mánaðamót verður afturvirknin engin. En nái Alþingi ekki afgreiða það fyrir mánaðamótin væri í versta falli hægt að færa dagsetningar fram um einn mánuð og miðað við vísitölu desembermánaðar 1. febrúar til og með 31. janúar 2023. Það sama myndi að sjálfsögðu gilda um leiguverð.

Í mínum huga er hér um neyðarráðstöfun að ræða, það minnsta sem hægt er að gera fyrir fólkið sem stendur hvað höllustum fæti í þjóðfélaginu. Við erum misvel í stakk búin til að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs. Ekkert okkar ber neina ábyrgð á stöðunni en þau okkar sem ekki þurfa að velta fyrir sér næstu máltíð, skulda lítið í húsnæði sínu og hafa efni á að fara í utanlandsferðir, hafa svigrúm til að takast á við hækkandi vöru- og húsnæðisverð sem ekki allir hafa.

Samkvæmt rannsóknum er fólk á leigumarkaði það fólk sem hefur það hvað verst í þjóðfélaginu. Í þessum hópi er fólk sem á vart til hnífs og skeiðar og munar um hverja einustu krónu. Auðvitað eru ekki allir leigjendur það illa staddir að eiga ekki fyrir næstu máltíð. En engu að síður er þetta hópurinn sem er með hvað lægstar tekjur í samfélaginu. Gerum stöðu þeirra ekki í verri. Komum í veg fyrir að staða þeirra versni sem verðtryggingu húsnæðiskostnaður nemur. Það verður nóg samt fyrir þennan hóp að takast á við hækkandi vöruverð. Leiguverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum og leigusalar almennt ekki þannig á flæðiskeri staddir að þeir geti ekki sleppt því að hækka leiguverð sem nemur vísitölu í hverjum mánuði. Þau sem ekki hafa getað losað sig úr viðjum verðtryggðra lána eru einnig fólk sem ekki hefur mikið milli handanna. Hlífum þeim við að þurfa að borga þennan heimsfaraldur með vöxtum og vaxtavöxtum næstu 30–40 árin. Það er heldur engin sanngirni í því.

Ríkisstjórnin hefur hjálpað fyrirtækjum en það þarf líka að huga að heimilunum, sérstaklega þeim sem verst standa, með beinum hætti. Heimilin eru neðst í fæðukeðju hagkerfisins. Áður en að þeim kemur vilja allir fá sitt og með beinum og óbeinum hætti borga heimilin þetta allt.

Þó að einstaklingar séu að leigja út íbúðir eru það stóru leigusalarnir, fjárfestarnir, sem hafa almennt reynst harðastir í horn að taka. Þessir aðilar eru ekki á flæðiskeri staddir og geta svo sannarlega lagt eitthvað af mörkum til samfélagsins með því einu að hækka ekki leigu í takt við vísitölu. Hvað varðar verðtryggðu lánin þá snýr þessi aðgerð að bönkum og lífeyrissjóðum. Eins og tölur og ársskýrslur sýna fram á með óyggjandi hætti eru þessir aðilar gríðarlega vel staddir og munar minna um þetta en heimilin sem þetta hjálpar. Einnig er varla hægt að tala um viðskiptafrelsi eða samningafrelsi þegar aðstöðumunur aðila er jafn mikill og raun ber vitni og heimilið eða gatan er eini valkostur leigjenda eða lánþega á fákeppnismarkaði.

Hér er um að ræða sértækar aðgerðir sem hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda. Margt af þessu fólki lifir í ótta um hvað næstu mánuðir bera í skauti sér. Ég bið Alþingi um að sýna samkennd og setja hópana sem veikast standa á húsnæðismarkaði í forgang og veita þessu máli brautargengi. Þetta er það minnsta sem hægt er að gera fyrir þennan hóp.

Að lokum minni ég á að síðan verðbólgan hóf sitt skrið í ársbyrjun 2020 hefur leiga hækkað mikið og hafi hún fylgt vísitölunni síðan þá er sá sem borgaði 280.000 kr. í janúar 2020 að borga 308.000 í dag. Ég ítreka að til að eiga fyrir leigu sem hefur hækkað um 28.000 kr. á mánuði þurfa laun að hækka um tæp 40.000 kr., bara til að eiga fyrir þessum lið og þá er ekki verið að taka aðrar fyrirsjáanlegar hækkanir með í reikninginn. Þetta þýðir að þeir sem eru með 500.000 kr. á mánuði og fá 371.000 útborgað þurfa að fá 400.000 kr. útborgaðar til að eiga fyrir þessari hækkun. Laun þeirra þyrftu að hækka í 540.000 kr. Hugsum til komandi kjaraviðræðna og bætum ekki gráu ofan á þennan kolsvarta lit. Það er kominn tími til að setja fólkið í forgang.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.