152. löggjafarþing — 29. fundur
 31. janúar 2022.
gögn frá Útlendingastofnun og ráðherraáabyrgð.

[15:28]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Að verða íslenskur ríkisborgari getur verið gríðarlega mikilvægt réttindamál fyrir þá einstaklinga sem sækjast eftir því og veiting ríkisborgararéttar auðgar íslenskt samfélag með fjölbreyttri flóru fólks sem vill tilheyra því. Við sem hér stöndum og sitjum áttum okkur kannski ekki á því hvað ríkisborgararétturinn okkar er mikils virði. Það vita þau sem eru ríkisfangslaus og þau sem geta af einhverjum orsökum ekki nýtt sér þau réttindi sem fylgja þeim ríkisborgararétti, eins og t.d. einstaklingar frá Sýrlandi. Nú er það svo að íslenskri stjórnskipan að ríkisborgararéttur er veittur eftir tveimur leiðum. Annars vegar er ríkisborgararéttur veittur með stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar að uppfylltum ströngum skilyrðum, búsetutíma og fjárhagsstöðu og fleira. Hins vegar er ríkisborgararéttur veittur með lögum frá Alþingi og lögin um þá veitingu er mjög skýr: Útlendingastofnun ber að safna tilteknum gögnum saman og skila til Alþingis sem síðan tekur ákvörðun.

Forseti. Hæstv. innanríkisráðherra hefur ekki bara viðurkennt opinberlega heldur hreinlega stært sig af því hafa fyrirskipað Útlendingastofnun að fylgja ekki lögum og meina þinginu um þær upplýsingar sem það þarf til að geta sinnt þessu lögbundna hlutverki sínu. Þetta gerir hann að eigin sögn vegna þess að honum finnst að lögin eigi að vera öðruvísi en þau eru. En, forseti, ráðherrum ber að fylgja lögum algjörlega burt séð frá skoðunum sínum á þeim. Að gefa undirstofnun fyrirmæli um að fylgja ekki lögum sem ráðherra líkar ekki er klárt brot á lögum um ráðherraábyrgð. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að ráðherra í ríkisstjórninni sem hún leiðir gengst hróðugur við því að brjóta lög og brjóta á þinginu: Hvernig hyggst hún bregðast við?



[15:31]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja, um það mál sem hv. þm. Arndís Anna Gunnarsdóttir tekur upp, að ég er þeirrar eindregnu skoðunar að þetta sé mjög mikilvæg heimild sem er í lögum um ríkisborgararétt, þar sem segir í 6. gr. að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum. Ég veit að einhverjir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa haft á því aðra skoðun en ég hef hreinlega alltaf talið það hluta af hlutverki Alþingis að geta stigið inn í með þessum hætti og veitt ríkisborgararétt með lögum.

Ég hef skilið þetta mál þannig, út frá umræðu sem ég hef hlýtt á hér í þingsal, að forseti þingsins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar hafi tekið undir þennan skilning á lögum og hafi boðað að stigið yrði inn í þessi mál þannig að tryggt verði að lagaskyldu yrði fylgt. Ég tel hana algjörlega skýra því eins og hv. þingmaður nefnir þá segir hér að Útlendingastofnun skuli þá undirbúa þessar umsagnir með því að fá umsagnir lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og gefa síðan umsögn til þingsins um umsóknina. Lagagreinin getur því ekki verið öllu skýrari.

Af því að hv. þingmaður spyr um mína afstöðu þá tel ég það algjörlega skýrt að ráðherrar eigi að fylgja lögum eins og aðrir landsmenn.



[15:32]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið þó að mér finnist ég ekki alveg hafa fengið svar við spurningunni. Það er búið að tala um það, af hálfu margra hér í þinginu, og af hálfu forseta og annarra, að það eigi að ganga til verks og fá úr þessu greitt. Það hefur ekki tekist. Staðan er sú að stjórnvöld eru nú að bjóða þinginu að afhenda því þær umsóknir sem stofnuninni sjálfri hentar. Það er ekkert sem bendir til þess að lausn sé í sjónmáli á þessu máli. Því vil ég ítreka spurningu mína: Það liggur ljóst fyrir að ráðherra hefur komið fram í fjölmiðlum og viðurkennt að Útlendingastofnun, samkvæmt fyrirmælum hans, ætlar ekki að fara að lögum. Þau ætla ekki að afhenda þinginu þau gögn sem farið hefur verið fram á og þeim ber lagaskylda til. Hvað er það sem forsætisráðherra hyggst gera til að bregðast við þeirri stöðu?



[15:34]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get ekkert annað gert en ítrekað það sem ég sagði hér mjög skýrt: Ráðherrum ber eins og öðrum að fylgja landslögum og það á við um þennan tiltekna ráðherra eins og aðra ráðherra. Ég fæ ekki séð annað en að ákvæði laganna séu mjög skýr. Það kemur ekkert annað til greina í þeim efnum en að eiga samtal við viðkomandi ráðherra um að skilyrði þessarar lagagreinar verði uppfyllt og lögunum fylgt. Það er mín eindregna skoðun og ég mun eiga slíkt samtal þegar færi gefst við ráðherrann, eins og ég þykist vita að forseti þingsins hafi þegar átt við ráðherra.