152. löggjafarþing — 29. fundur
 31. janúar 2022.
stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.
fsp. ÞKG, 116. mál. — Þskj. 116.

[15:49]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil draga það fram að mjög margt hefur áunnist á síðustu 20–25 árum í málefnum fatlaðra en við vitum að þegar ungmenni á starfsbraut ljúka námi þar eða í framhaldsskólanum þá tekur við tómarúm í lífi langflestra þeirra. Á sama tíma og þau eru útskrifast liggja vegir til allra átta hjá jafnöldrum þeirra. Þau hafa öll tækifæri. Það hefur verið vitað í mörg ár hversu stórir árgangarnir eru hverju sinni en það er samt alltaf eins og fólk komi af fjöllum þegar verið er að tala um ákveðinn fjölda einstaklinga innan þess hóps sem er að útskrifast hverju sinni. Við vitum auðvitað að aðgengi að menntun er af mjög skornum skammti fyrir þessi 60–90 ungmenni sem útskrifast ár hvert og þeirra bíður, eins og ég segi, lítið sem ekki neitt, þetta tómarúm. 12 þeirra fá annað hvert ár inngöngu í diplómanám Háskóla Íslands sem var komið á laggirnar í kringum 2005 eða 2006. Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur fengið tímabundið fjármagn til að hleypa sex ungmennum inn á sérhannaða listabraut síðustu þrjú ár en það rausnarlega tilboð heyrir reyndar sögunni til frá og með næsta hausti. Fjölmennt hefur síðan þekkingu og innviði til þess að móta námstilboð á sviði fullorðinsfræðslunnar en hefur verið látin árum saman afskipt þegar kemur að þessu og ekki fengið samning við menntamálaráðuneytið.

Ef það er sýn barnamálaráðherra að ætla fötluðum ungmennum það að vera fyrst og fremst að sækja út á vinnumarkaðinn eftir að framhaldsskólanámi sleppir þá verður ráðherra líka að segja okkur hvernig hann ætlar að fá atvinnulífið í lið með sér. Þetta er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja, samfélagsleg ábyrgð stofnana, hvort sem það er ríkis eða sveitarfélaga, ef við á annað borð viljum þetta opna samfélag sem ég vona að við viljum tala fyrir og berjast fyrir. Það er fullt af krökkum sem geta unnið í þessum hópi, geta tekið að sér einföld störf. Aðgangurinn er hins vegar mjög takmarkaður.

Þessi hópur reiðir sig síðan algerlega á baklandið sitt sem oft og tíðum er algerlega örþreytt, örmagna, búið að reyna að nýta öll úrræði, kalla eftir aðstoð. En hópurinn sjálfur, þessi kraftmikli, fjölbreytti, viðkvæmi, hæfileikaríki hópur unga fólks, þarfnast tækifæra og tækifærin koma ekki til þeirra að óbreyttu umhverfi og óbreyttu kerfi. Þetta snýst um tilvist þessara ungmenna en það sem gerist er, eins og ég segi, að þau lenda í tómarúmi, þessu áskapaða tómarúmi sem stjórnmálafólk, sem kerfið, atvinnulífið og allir hafa verið að búa til.

Þess vegna segi ég: Það er í höndum ráðherra og ríkisstjórnar að hafa forystu um að hér ríki raunverulega jöfn tækifæri fyrir alla. Eða er ætlunin hjá okkur, virðulegi forseti, að það verði hér annars vegar (Forseti hringir.) fyrsta flokks ungmenni og síðan annars flokks ungmenni, jafnaldrar hinna sem vilja og þrá það eitt að sitja við sama borð (Forseti hringir.) sem tekur tillit til hæfileika þeirra og veitir þeim tækifæri á forsendum þeirra? (Forseti hringir.)

Það er þess vegna sem ég spyr hæstv. skóla- og barnamálaráðherra: Hvernig ætlar hann að mæta fötluðum ungmennum (Forseti hringir.) eftir að námi á starfsbrautum í framhaldsskóla lýkur?

(Forseti (BÁ): Forseti verður að geta þess að þingmenn og ráðherrar þurfa að virða ræðutímann. Jafnvel þó að tíminn samkvæmt þingsköpum sé stuttur þá er ekki réttlætanlegt að fara hálfa mínútu fram yfir, eins og hv. þingmaður gerði og eins og reyndar hefur komið fyrir fyrr í dag.)



[15:53]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og að taka þetta mál upp. Og ég byrja á því að segja: Nei, það er ekki stefna Íslands að hér séu tveir flokkar ungmenna né tveir flokkar barna eða annarra þjóðfélagshópa.

Ég tek undir margt af því sem þingmaðurinn kom inn á í sínu máli; gagnrýni, áhyggjur og hvernig við getum brugðist við. Ég þekki þetta og er að sjá það frá aðeins annarri hlið eftir að ég tók við nýju ráðuneyti. Í ráðuneyti félagsmála, sem hefur m.a. vinnumarkaðinn á sinni könnu, náði ég að setja mig talsvert inn í málið frá þeirri hlið. Fyrir tilstilli fráfarandi menntamálaráðherra Lilju D. Alfreðsdóttur, var raunar settur á stofn verkefnahópur um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Hópurinn skilaði af sér í lok árs 2020 með tillögum að úrbótum og aðgerðaáætlun. Í þessum verkefnahópi voru fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, aðstandendum og Átaki, félagi fólks með þroskahömlun. Sumar þessar tillögur eru þegar komnar til framkvæmda, aðrar eru enn í vinnslu. Nokkrar þeirra tillagna sem eru þegar komnar til framkvæmda eru til að mynda að þegar er búið að ráða sérstakan samhæfingaraðila í hálft stöðugildi, sem var ein af tillögum hópsins, og sá starfsmaður er hjá Þroskahjálp og er staðan fjármögnuð af menntamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, Myndlistaskólanum í Reykjavík var veittur styrkur til að endurvekja sérsniðið nám fyrir fólk með þroskahömlun til að taka við ákveðnum fjölda, 12 nemendum, í fjögurra anna nám skólaárin 2019–2021, og mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur verið í viðræðum við Háskólann á Akureyri um möguleika skólans til að bjóða upp á diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun, líkt og er í boði við Háskóla Íslands. Það er því eitt og annað í vinnslu. Að auki má nefna að Fjölmennt er að færast til félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins ásamt málaflokki framhaldsfræðslu. Í tillögum verkefnahópsins var einmitt fjallað um að við stefnumótun hjá Fræðslusjóði og endurskoðun úthlutunarreglna yrði litið til menntunartækifæra fólks sem hefur notið þjónustu Fjölmenntar með það að markmiði að bæta aðgengi að menntun og fræðslu að loknu námi á starfsbrautum.

Ég enda á því sem ég sagði hér í upphafi: Það er ekki markmiðið að hér séu tveir flokkar ungmenna. Sú skýrsla sem unnin var með þeim tillögum sem þar voru, sem voru margar mjög góðar og lutu m.a. að samtali við atvinnulífið um fjölgun starfa, þessi umræða hér og það að þingmaðurinn taki þetta upp hér er hvatning til þess að tryggja að skýrslunni verði fylgt fast á eftir. Þó að einstaklingar hafi flust á milli ráðuneyta og núna sé annar félagsmálaráðherra og annar menntamálaráðherra þá mun þetta verða hvatning til þess. Ég þakka fyrir umræðuna og hlakka til að taka þátt í henni hér á eftir.



[15:57]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þetta mál, sem er mjög mikilvægt og ég hef einmitt rætt þessi tilteknu mál hér á Alþingi áður. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þá samfélagslegu ábyrgð sem við öll berum. Eftir að hafa starfað á starfsbraut í framhaldsskóla þar sem var mikið og gott samkomulag við atvinnulífið þá finnur maður hvað þetta skiptir miklu máli, þ.e. þegar námi þessara einstaklinga lauk, sem ég hafði kannski einhverja umsjón með á sínum tíma, þá áttu þau áfram tækifæri á hlutastörfum úti í samfélaginu. Það er það sem skiptir máli. Það er ekki eðlilegt að þetta unga fólk sitji heima eftir að framhaldsnámi lýkur. Við þurfum einmitt að horfa á alla skóla. Við erum með myndlistarskóla líka á Akureyri og mjög gott að heyra að það er verið að ræða eða huga að diplómanámi í háskólanum af því að hjá menntastofnunum þurfa bara að vera almennt skýr markmið um að hluti af þeim sem þar eiga aðgengi séu nemendur með fötlun. Þannig að ég, virðulegi forseti, tek hjartanlega undir það að hér þarf að gefa dálítið vel í þvert á ráðuneyti.



[15:59]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Það er þannig með fötluð ungmenni og fatlað fólk að þar berum við, ekki bara samfélagið sem einhver svona óáþreifanleg stærð heldur stjórnvöld, við sem setjum lögin og framkvæmdarvaldið, mesta ábyrgð. Okkur ber hreinlega skylda til að sjá til þess að ungmenni á leið út í lífið, fötluð og ófötluð, fái störf við hæfi, geti sótt nám, geti blómstrað á sínum forsendum. Til að það gerist þá má það ekki vera, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að það komi stjórnvöldum á óvart að á hverju ári séu það 60–90 ungmenni sem þurfa á okkur að halda, þurfa á þessari þjónustu að halda og við þeim þarf að taka skipulag sem grípur þau og kemur þeim á réttan stað.



[16:00]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu til að leggja áherslu á og taka undir það sem hér er komið fram um mikilvægi þess að fötluð ungmenni hafi tækifæri til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu, atvinnuþátttöku, til náms, fjölbreytts framhaldsnáms og símenntunartækifæra alveg frá því að þau ljúka námi og fram eftir lífinu sem og tómstundatækifæra. Ég fagna vinnu sem hefur farið fram og hvet hæstv. ráðherra til að fylgja eftir þeirri skýrslu sem fram er komin og eins og að við nýtum Fjölmennt, það tæki sem nær til ungmenna um land allt, ungmenna og fullorðinna, fatlaðra einstaklinga, og hefur oft og tíðum skapað mjög mikilvæg og fjölbreytt tækifæri til ýmissa verkefna.



[16:02]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar ég sé svona mál fletti ég gjarnan upp í fjármálaáætlun því þar kemur stefna stjórnvalda fram um hvað þau ætla að gera betur í hinum og þessum málaflokkum. Það er einfaldlega ekkert í núgildandi fjármálaáætlun um þennan málaflokk þannig að ég býst fastlega við því að hæstv. ráðherra taki sig til og skelli einhverri stefnumótun um þetta í komandi fjármálaáætlun fyrir vorið. Það var minnst á Fjölmennt í framsöguræðu í þessu máli, að það hefði verið erfitt að gera samning við Fjölmennt. Þegar ég vann í Menntamálastofnun þá gerði Menntamálastofnun samning um aðgang að mötuneytinu í Fjölmennt þannig að það virðist vera hægt að gera samning við Fjölmennt um samstarf við íslenska menntakerfið en ekki á þennan hátt, sem er svolítið skrýtið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að sýna fram á þetta í komandi fjármálaáætlun.



[16:03]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil aðeins minna á að samningurinn við Myndlistarskólann er runninn út. Síðan vil ég beina því áfram til hæstv. ráðherra að það skiptir líka mögulega máli hvernig lagaumhverfið er. Koma framhaldsskólalögin hugsanlega til endurskoðunar til þess að liðka fyrir námsframboði þessara ungmenna þannig að við getum formgert betur þann möguleika sem þau verða að hafa til þess að geta náð inn á áhugasvið sitt eftir eigin getu í samræmi við námskrá? Getum við skoðað þetta betur, t.d. listgreinarnar innan framhaldsskólanna eða önnur þau svið þar sem þau geta plumað sig hverju sinni, sem getur gert þau enn betur í stakk búin til að takast á við ákveðna hluti úti í atvinnulífinu og þannig að þau geti lagt sitt af mörkun í þágu atvinnulífs, í þágu samfélags? Mig langar að fá að vita hvort það sé möguleiki.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái það fyrir sér að tala við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og skoða hvort hún sé tilbúin til þess að koma í ríkara mæli að Fjölmennt. Ég tel líka mikilvægt að undirstrika að breytingar á framhaldsskólanum er leið sem getur skapað ótrúlega mörg tækifæri og lífsgæði fyrir ungt fatlað fólk. Þess vegna vil ég brýna hann til að koma með endurskoðun á framhaldsskólalögunum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því eftir uppstokkun ráðuneyta að nú sjáum við að námsframboð þessa viðkvæma hóps, annars vegar á háskólastigi og hins vegar fullorðinsfræðslu, mun í rauninni dreifast á þrjú ráðuneyti. Við erum með barna- og skólamálaráðuneyti, síðan með háskólaráðuneyti, sem á þá að taka við námsframboðinu fyrir þennan hóp þar, og síðan erum við með fullorðinsfræðsluna sem er, miðað við orð ráðherra, núna komin yfir til félagsmálaráðherra. Það má ekki gerast að þessi viðkvæmi hópur falli milli skips og bryggju.

Ég vil brýna ráðherra í að koma með þetta sem fyrst hingað inn, skýrsluna og aðgerðir, aðgerðaáætlun. Og svo að lokum legg ég til að við förum að klára samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.



[16:05]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og taka undir margt af því sem hér hefur komið fram. Aðeins varðandi það sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir kom inn á um framhaldsskólalögin og breytingar á þeim og því að skerpa á því er lýtur að stöðu þessara nemenda. Mér finnst það, sagt án ábyrgðar, bara mjög spennandi. Þetta er ekki eitt af því sem varð niðurstaðan í þeirri vinnu sem er í skýrslunni, en mér finnst það mjög spennandi. Ég heiti ráðherranum því að ég mun kanna það vegna þess að ég er algerlega sammála því að ef hægt er að formgera þessa möguleika og þær skyldur sem eru í lögum þá eru auðvitað miklu meiri líkur á því að ekki verði grá svæði hvað þetta snertir.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega út í Fjölmennt og það sem lýtur að tengingu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Fjölmennt er að flytjast yfir núna og ég held að það séu tækifæri fólgin í því. Það er auðvitað þannig að þó að þessi mál séu að færast á milli ráðuneyta að einhverju leyti núna þá voru þau samt sem áður í fleiri ráðuneytum fyrir þær breytingar, þ.e. vinnumarkaðshlutinn var í félagsmálaráðuneytinu. Þannig að það mun þurfa í þessu máli áfram, hér eftir sem hingað til, að tryggja samtal og samvinnu á milli ráðuneyta og milli kerfa.

Síðan vil ég aftur segja að ég lít á þessa umræðu sem var hér sem brýningu og fer með hana inn í ráðuneytið. Ég mun gera mitt besta til að reyna að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar og þessum tillögum í verkefnahópnum og held þinginu eins vel upplýstu og mögulegt er.