152. löggjafarþing — 32. fundur
 2. feb. 2022.
störf þingsins.

[15:02]
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku lá fyrir samantekt Barnaverndarstofu um fjölda tilkynninga um brot gegn börnum. Samantektin leiðir í ljós að tilkynningum hefur fjölgað um tæp 17% á Covid-árunum 2020 og 2021 — 17%. Ef einhvern tímann hefur verið erfitt að hafa hemil á tilfinningum sínum í þessum ræðustól þá er það einmitt núna. Á árinu 2021 bárust tæplega 40% fleiri tilkynningar um kynferðisofbeldi gegn börnum en á árinu 2020. Ef miðað er við 2019 er munurinn enn meiri, eða sem nemur um 52%. Það, virðulegi forseti, er þróun í þveröfuga átt. Það er með öllu óásættanlegt ástand sem ekki verður við unað.

Tilkynningum frá skólum og í heilbrigðiskerfinu hefur á tímabilinu einnig farið fjölgandi. Gera má ráð fyrir því að tilkynningar frá fagaðilum séu byggðar á rökstuddum grun og ber að taka þessa fjölgun grafalvarlega. Á bak við hvern þann sem fjölgar um liggja mörg mannslíf í rúst, sár sem aldrei gróa, líf sem aldrei verður samt. Ástæða er til að hafa áhyggjur af námsframvindu barna í framhaldinu en tilkynningum um vanrækslu barna vegna náms hefur fjölgað sérstaklega mikið og má leiða að því líkur að takmarkanir vegna sóttvarnaaðgerða hafi haft gríðarleg áhrif þar. Það þarf að spyrja spurninga um framhaldið: Hvernig á að styðja við þessi börn svo vanrækslan hafi ekki langvarandi áhrif á námsframvindu þeirra? Ég mun leggja fram fyrirspurn til barnamálaráðherra til að kalla fram viðbrögð við þessu. Ég tel það eitt brýnasta verkefni okkar hér að láta ekki þessa þróun, sem ógnar heilsu og velferð barnanna okkar, óátalda án markvissra aðgerða og viðbragða. Ég hvet ráðherra barnamála og þingheim allan til að standa með börnunum.



[15:04]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þessa auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því að land byggðist. Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Þar hefur byggð frá landnámi byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúa undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti sjávarbyggðanna. Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Það er meðalhófið. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. Handfæraveiðar ógna ekki fiskstofnum.

Sagt er að leiðin til heljar sé vörðuð góðum áformum. Kvótakerfið, sem komið var á fót til bráðabirgða árið 1984, er slík varða fyrir margar sjávarbyggðir. Aflamark í þorski var þá lækkað í 200.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn. Það eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn. Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín mestum hluta aflamarksins og skeyttu litlu um sjávarbyggðirnar. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðunum heldur áfram að hnigna og íbúum fækkar. Þessi þróun mun halda áfram verði nýtingarréttur sjávarbyggðanna ekki viðurkenndur. Það er viðurkenning á atvinnufrelsi og búseturétti. Bann við frjálsum handfæraveiðum er mannréttindabrot, það sýnir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom fram árið 2007. Í dag byggist núverandi strandveiðikerfi á því og það er bara allsendis ófullnægjandi. Í dag er ekki skilið á milli stórtækra veiða togara og veiða smábáta, jafnvel þótt vitað sé að veiðihæfni handfæra sé afar lág, en samkvæmt tölum Hafrannsóknastofnunar sjálfrar er hún 0,6%, sem þýðir að aðeins sex fiskar nást af hverjum 1.000 fiskum sem komast í tæri við krókana. Mikilvægt er að endurreisa rétt sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af. Flokkur fólksins mun á kjörtímabilinu berjast fyrir því að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar.



[15:06]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Síldarvinnslan hefur fest kaup á jörðinni Fannardal í Norðfirði og er áformað að nýta hana til skógræktar til að binda kolefni móti kolefnislosun sem starfsemi fyrirtækisins veldur. Stefnan er að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógrækt ríkisins. Verkefnið á að fullnægja öllum kröfum loftslagsráðs um vottun og á ræktunin að vera hæf til skráningar í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt vef fyrirtækisins. Það er ánægjulegt að fyrirtækið hugi markvisst að verkefnum á sviði umhverfismála.

Virðulegur forseti. Hér er tækifæri útgerðarinnar að styðja við bakið á landbúnaði í landinu með því að fela bændum að taka sér skógrækt fyrir útgerðina í stað þess að útgerðin fari að stunda landbúnað í formi skógræktar. Fer ekki vel á því að útgerðin geri það sem hún er best í, að veiða fisk, og bændur sjái um landbúnaðinn og skógræktina sem þeir eru betri í en útgerðin? Samstarf um smávirkjanir gæti líka gagnast báðum aðilum. Ég sé þarna tilvalið tækifæri fyrir tímamótasamvinnu útgerðar og bænda og að gamalt orð fái nýja merkingu; útvegsbændur virkja saman skóg.

Virðulegur forseti. Síldarvinnslan og fleiri fyrirtæki hafa farið í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og settu upp raflandtengibúnað fyrir fiskiskip sem eru sparneytnari en áður og minnka olíunotkun. En öll þessi viðleitni til að nýta raforku og bera ábyrgð á loftslagsmálum er stöðvuð af Alþingi sem kemur í veg fyrir endurnýjun flutningskerfis raforku og raforkuskortur eykur aðeins á olíunotkun. Nú er svo komið að allur ávinningur af milljarða framlögum ríkisins til að rafvæða bílaflotann hverfur þessa dagana út í andrúmsloftið með olíureyknum.

Virðulegur forseti. Er ekki kominn tími til að lýsa yfir neyðarástandi í aðgerðaleysi á uppbyggingu flutningskerfis raforku og mæta orkuskiptum með meiri framleiðslu raforku?



[15:08]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag vil ég ræða um fjarskipti í dreifbýli. Nú er staðan þannig að ljósleiðari hefur verið lagður í dreifbýli um allt land, sem er frábært, og á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í verkefnið Ísland ljóstengt. Það verkefni snýst um að tengja dreifbýli betur og voru miklar framkvæmdir og áætlanir í tengslum við það. Hæstv. ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði mikla vinnu í þetta. Nú hefur nýtt ráðuneyti tekið við þessum málaflokki og það er mikilvægt að nýr ráðherra fjarskiptamála, hæstv. ráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, láti sig fjarskiptamál í dreifbýli sérstaklega varða.

Við lagningu ljósleiðarans var klippt á koparvír sem tengdist í heimasíma á bæjum og þetta hefur orðið þess valdandi að stundum er ekki mögulegt að ná símasambandi. Símasamband er mikilvægt öryggisatriði sem og mjög mikilvægt í daglegu lífi. Til að leggja áherslu á mál mitt ætla ég að taka Dalabyggð sem dæmi. Í dag fengu þingmenn Norðvesturkjördæmis tölvupóst um stöðu fjarskiptamála í sveitarfélaginu. Sjálf þekki ég ágætlega til þar sem ég hef búið í Dalabyggð en þar er staðan sú að á mörgum heimilum í dreifbýlinu er lítið eða ekkert símasamband. Það þýðir að ekki er hægt að ná í foreldra eða forráðamenn ef eitthvað kemur upp á hjá börnum í skólum. Það þýðir að ekki er möguleiki fyrir íbúa að hringja eftir aðstoð ef eitthvað kemur upp á. Verðandi foreldrar verða að fara að heiman mörgum dögum fyrir fæðingu vegna þess að þau geta ekki treyst á að ná sambandi við viðbragðsaðila og íbúar eiga ekki möguleika á því að nota rafræn skilríki heima hjá sér því að innskráningarbeiðnin er útrunnin loksins þegar hún kemur í símanum. Íbúar fá þau skilaboð að fjarskiptafyrirtækjum þyki of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband á fámennum svæðum. Slík svæði finnast um allt land. Mikilvægt er að fara í kortlagningu á þessu og ég hvet hæstv. ráðherra fjarskiptamála til að bæta öryggi íbúa í dreifðum byggðum.



[15:11]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúruleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx. En núna erum við á öðrum stað og á öðrum tíma. Verið er að gera því skóna að verðbólguskotið núna sé stjórnvöldum að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til þess sem er að gerast í löndunum í kringum okkur, en kallar samt eftir aukningu í ríkisútgjöldum.

Virðulegi forseti. Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstóll verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndunum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs. Sá darraðardans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur því miður skapað verðbólgu og hún vex. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé kominn tími til að horfa fram hjá honum.

Virðulegi forseti. Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur leitt af sér. Mótvægisaðgerðir eru komnir á þriðja tug. Nú þurfum við að horfa enn frekar til fjölskyldna í landinu. Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni.



[15:13]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný nota ég aðstöðu mína hér til að minna á unga fólkið í heimsfaraldri. Eftir að tilkynnt var um afléttingar í síðustu viku heyrðust háværar óánægjuraddir frá framhaldsskólanemum. Forseti nemendafélagsins Framtíðarinnar í MR sagði nemendum vera illa brugðið vegna nýrra reglna um 50 manna samkomutakmarkanir. Það sé ljóst að mikilvægir hagsmunir nemenda af almennilegu félagslífi hafi ekki verið stjórnvöldum ofarlega í huga. Og ég ætla hér að taka undir með þeim. Takk fyrir að halda okkur við efnið.

Ákvarðanir um skemmtanahald hafa sannarlega ekki verið teknar með unga fólkið í huga nema ef vera skyldi til þess að koma sérstaklega í veg fyrir það. Ýmissa leiða hefur hins vegar verið leitað til þess að ákveðnir menningarviðburðir leggist ekki af: Skemmtanalíf eldri kynslóðanna. Eru tvö ár af menntaskólaböllum kannski bara lítil fórn að færa? Tvö ár af því að bera grímur í tímum og eiga í takmörkuðum samskiptum og samveru við samnemendur? Það finnst mér ekki. Og þeir sem halda öðru fram ættu að velta því fyrir sér hvort tilvera þeirra grundvallist kannski á því að forfeður þeirra gátu á sínum tíma skemmt sér almennilega á böllum.



[15:14]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin sjái fyrir sér kjaraviðræðurnar sem verða í haust. Hvert heimili er í raun hagkerfi þar sem launin þurfa að duga fyrir fæði, klæði og húsnæði. Húsnæðiskostnaður hefur þegar hækkað um tugi þúsunda hjá mörgum, ekki hvað síst þeim sem eru á leigumarkaði. Á mörgum heimilum, jafnvel flestum, er ekkert svigrúm til að mæta svona hækkunum. Þau þurfa því, alveg eins og fyrirtæki, að hækka sína gjaldskrá. Nú þegar eru mörg dæmi um 30.000 kr. hækkun á leigu á nokkrum mánuðum. Til að bæta launþegum það þarf verkalýðsforystan að semja um a.m.k. 50.000 kr. launahækkun. Er ríkisstjórnin til í að skrifa upp á þannig launahækkanir eða ætlar hún þá að hefja gamla sönginn um hófsemi og ábyrgar kröfur? En hvað með hófsemi og ábyrgð þeirra sem öllu ráða? Hvar er t.d. hófsemin í vaxtahækkunum og arðgreiðslum bankanna? Hvar er ábyrgð ríkisstjórnar sem fórnar heimilum fyrir hagvöxt?

Í lífskjarasamningunum var samið um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Þeirri aðgerð var jú frestað en hún var ekki slegin af borðinu. Án húsnæðisliðarins í vísitölunni værum við ekki að horfa á 5,7% verðbólgu heldur 3,7%. Það að taka hann út úr myndinni myndi muna öllu fyrir heimilin eins og staðan er í dag. Af hverju er það ekki gert? Heimilin þurfa, alveg eins og fyrirtækin, að auka við tekjur sínar þegar framfærslukostnaður þeirra eykst. Þetta veit verkalýðsforystan og hún mun ekkert gefa eftir í haust. Þá verður ekki hægt að mæta fólkinu sem ber uppi þjóðfélagið með kröfum um hófsemi eða tali um að hagkerfið standi ekki undir þessum launakröfum. Það sem fólkið mun horfast í augu við er að heimili þeirra stendur ekki undir öllum þeim hækkunum sem á því hafa dunið. Það mun því vilja, alveg eins og fyrirtækin sem yfirleitt njóta skilnings, hækka sína verðskrá og lái þeim hver sem vill. Ríkisstjórnin er með þetta í hendi sér. Það sem hún gerir núna mun skipta sköpum í haust. Hvað ætlar hún að gera?



[15:17]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Rannsóknir gefa vísbendingar um að staða innflytjenda hafi versnað til muna á síðasta ári og sé mun verri en staða innfæddra. Þetta er samt fólkið sem borið hefur uppi hagvöxt síðustu ára og auðvitað glætt íslenskt samfélag fleiri litum með reynslu sinni, þekkingu og menningu. Þetta fólk gerir líf okkar einfaldlega miklu betra. Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður landsframleiðsla 13% hærri árið 2025 en hún var 2021, en fjölskyldur eiga færri börn og við fjölgum okkur hægar en áður. Við náum ekki utan um þetta án alls þessa góða fólks. Við erum að tala um tæplega 55.000 einstaklinga sem eru hérna nú og ef við bætum við þeim sem koma hingað tímabundið þá eru þetta um 70.000 manns í landinu. Innflytjendur hafa hins vegar ekki sömu rætur og við og geta mörg hver auðveldlega valið að koma ekki hingað eða valið sér búsetu annars staðar. Nú þegar verðbólgan er í hæstu hæðum og húsnæðislán taka stökk og matarkarfan verður dýrari þá erum við bara komin í býsna viðkvæma stöðu. Við þurfum nefnilega fleiri hendur, ekki síst ef þær vonir ganga eftir sem bundnar eru t.d. við uppgang ferðaþjónustunnar í sumar. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina til að huga sérstaklega að þessum hópi, greina stöðu hans nákvæmlega og mæta honum með viðeigandi ráðstöfunum. Auðvitað er þetta fyrst og fremst spurning um siðferði en þetta er líka efnahagslega nauðsynlegt fyrir okkur.



[15:19]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Sjúkratryggingar og ríkið af kröfu konu sem krafðist þess að fá greitt 1.200 þús. kr. með dráttarvöxtum auk málskostnaðar fyrir það eitt að fara í aðgerð hjá Klíníkinni í Ármúla. Hún má fara í þrisvar sinnum dýrari aðgerð erlendis en komst ekki vegna Covid-19. Lögmaður hennar segir þetta brot á mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í Morgunblaðinu í morgun kemur einnig fram að Sjúkratryggingar samþykktu að konan mætti leita sér meðferðar innan EES-svæðisins en ekki hjá Klíníkinni í Ármúla vegna samningsleysis um greiðsluþátttöku í meðferð hjá þeim. Þá er bent á að íbúar annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins virðast njóta betri réttar hér á landi en íslenskir ríkisborgarar. Þeir geta komið hingað og farið í aðgerð á Klíníkinni og fengið hana greidda hjá sínum opinberu sjúkratryggingum en ekki íslenskir ríkisborgarar. Þau hjá Klíníkinni eru nógu góð til að laga og hjálpa til á Landspítalanum vegna Covid-19, og það með samþykki ríkisstjórnarinnar, en þau eru ekki boðleg til að binda enda á fjárhagslegar, andlegar og líkamlegar pyndingar hjá þjáðu og illa veiku fólki. Nei, eina sem er í boði hjá ríkisstjórninni er að þetta fólk bryðji rótsterk verkjalyf, þ.e. ópíóíða sem gera það jafnvel að fíklum eða öryrkjum fyrir lífstíð. Að bryðja 15–20 töflur á dag á biðlista eftir aðgerðum svo mánuðum eða árum skiptir og þar af tvær til þrjár töflur vegna aukaverkana af verkjalyfjum er ofbeldi af verstu gerð. Verkjafangelsisofbeldið á biðlista þekki ég af eigin raun, sem er ótrúlega grimmileg refsing fyrir það eitt að slasast eða bara veikjast, og hvað þá ef fólk er með fjölskyldur og börn. Og fólk sem er í fullri vinnu er að detta út af vinnumarkaðnum. Mannréttindi, jafnrétti og jafnræði eru fótumtroðin í þessu máli og ríkisstjórninni ber að stöðva þetta ofbeldi strax.



[15:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er flókið að búa í örhagkerfi með örgjaldmiðil í veskinu. Gengissveiflur, vaxtabreytingar og línudansinn þar á milli er hvorki taktfastur né mjög skemmtilegur, hvað þá vinsamlegur í garð fólksins okkar og fyrirtækjanna. Verðbólgan bítur okkur flest en reyndar misfast. Hún bítur fólk sem hefur minna á milli handanna mun fastar. Langflestir Íslendingar eru uppteknir við að lifa af hver mánaðamót og hafa ekki mikinn tíma til að hugsa endilega dæmin til enda. Þau treysta þannig stjórnvöldum til að taka ákvarðanir og halda vel á boltanum, hvort sem um er að ræða ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum og ákveða hvort það eigi að velja óverðtryggt eða verðtryggt lán, fasta vexti eða ekki, eða eldra fólk sem keppist við að reyna að búa til ævisparnað, finna öryggi. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil.

Ríkisstjórnin hefur ekki beint stundað ábyrga efnahagsstjórn þegar kemur að þessu og hún hefur alls ekki viljað horfa til framtíðar. Löngu fyrir heimsfaraldur voru einnig teikn á lofti um rauðar viðvaranir í efnahagskortunum. Sá verðbólguvandi sem nú blasir við er að mörgu leyti, miklu leyti, heimatilbúinn. Þensluhvetjandi aðgerðir í húsnæðismálum og ég tala nú ekki um útþaninn ríkissjóð löngu fyrir Covid, þetta allt ýtir undir verðbólguna.

Að eiga þak yfir höfuðið er einn stærsti útgjaldaliður heimila. Greiðslubyrði er ólík eftir hópum samfélagsins. Mig langar til að varpa ljósi á stöðu stúdenta. Stúdentaráð birti nýverið skýrslu um stúdenta á húsnæðismarkaði. Þar kom m.a. í ljós að um 15% íslenskra stúdenta búa á stúdentagörðum og biðlistar eru langir. Rest er á almennum markaði en Menntasjóður miðar sín lán við að stúdentar leigi á stúdentagörðum sem er töluvert frá leiguverði á almennum markaði. Viðmiðin eru því skökk. Um 43% stúdenta lifa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Verðbólgan mun bíta þennan hóp fast, mjög fast.

Þessi sviðsmynd, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) vegur að hugmynd okkar allra um jafnt aðgengi til náms og því er mikilvægt að svara ákalli stúdenta um samtal við þau um kjör og aðstæður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:23]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Niðurstöður Félagsdóms voru birtar 25. janúar í máli Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar og Icelandair ehf. Dómurinn var Flugfreyjufélaginu í vil. Í vörnum Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair var endurráðning eftir geðþótta réttlætt með því að tillaga okkar í Samfylkingunni um að fram kæmi í lögunum að endurráða ætti í starfsaldursröð hafi verið felld. Með því að fella tillöguna sendi ríkisstjórnin þeim fyrirtækjum sem nýttu sér stuðninginn við að segja upp fólki skilaboð um að það væri í lagi að brjóta á réttindum launafólks við endurráðningu. Það er mikilvægt að hv. stjórnarþingmenn átti sig á því hvaða afleiðingar þetta hefur haft. Þeir ættu að krefjast þess, líkt og ég geri, að ríkisstjórnin axli ábyrgð og sjá til þess að starfsfólkið sem brotið var á fái skaðabætur.

Icelandair var ekki eina fyrirtækið sem fékk stuðning til að segja upp fólki í þessu úrræði ríkisstjórnarinnar. Þau voru fleiri. Stuðningurinn sem greiddur var úr ríkissjóði nam rúmum 12 milljörðum kr. Úrræðinu var ætlað að koma í veg fyrir gjaldþrot en ekki að færa fyrirtækjum tækifæri til að brjóta á starfsfólki. Ég hef óskað eftir því að ráðherra svari spurningum, m.a. um hvernig fylgst hafi verið með því af hálfu ríkisins að fyrirtæki sem fengu þennan stuðning fari skilyrðum fyrir stuðningi samkvæmt lögunum og hvernig eftirfylgni með því sé háttað og um viðbrögð stjórnvalda við því ef endurráðningar eru ekki samkvæmt lögum.

Félagsdómur er fallinn og Flugfreyjufélagið vann sigur. En hvað gerist næst? Hvernig verður þeim starfsmönnum sem brotið var á bættur skaðinn? Hv. stjórnarþingmenn þurfa að líta í eigin barm og krefjast þess einnig að ríkisstjórnin axli ábyrgð.



[15:26]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta er orðið algjört ófremdarástand. Ríkisstjórnin virðist algerlega týnd í stærstu málum. Ráðherrar vita oft ekki hvaða hlutverk heyra undir þá, jafnvel ekki hvað ráðuneytin heita. Í sóttvarnamálum virðist stjórnin sveiflast dag frá degi eftir því hvað var í fréttum daginn áður, eftir því hvar þrýstingurinn er mestur. Engin framtíðarsýn, engin stefna, enginn fyrirsjáanleiki. Í orkumálum var allt í einu uppgötvað af hálfu ríkisstjórnarinnar núna í vikunni, að því er virðist, að það þyrfti orku eftir að farið var að fjalla um það í fréttum. Þetta er ríkisstjórnin sem staðið hefur í vegi fyrir öllum orkuframkvæmdum frá því að hún varð til, ekki gert neitt með rammaáætlun og nú sáum við það nýverið að rammaáætlun er sett á dagskrá, eða það stendur til að skila henni síðasta daginn sem ríkisstjórnin má skila inn málum á þessu þingi. Með öðrum orðum: Það á að svæfa þetta mál eina ferðina enn.

Talandi um orkumál. Þessi ríkisstjórn lét sér það vel líka þegar tímabundið ástand í norskum stjórnmálum varð til þess að Norðmenn drógu sig út úr olíu- og gasleit í íslenskri lögsögu. Nú hafa Norðmenn tilkynnt um 53 ný leyfi í eigin lögsögu. Íslenska ríkisstjórnin ætlar að banna svo mikið sem leit að þessum verðmætu og mikilvægu auðlindum. Banna rannsóknir, banna rannsóknir, frú forseti.

Verðbólgan. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að takast á við þá fyrirsjáanlegu þróun sem er að eiga sér stað í verðlagsmálum? Væntanlega ekki neitt nema hún neyðist til þess. Báknið heldur áfram að stækka á sama tíma. Jú, nú er allt í einu farið að tala um að taka hugsanlega húsnæðisliðinn út úr verðlagsvísitölunni, nokkuð sem þessi sama ríkisstjórn hefur staðið gegn frá upphafi þegar þingmenn Miðflokksins, verkalýðshreyfingin og fleiri hafa lagt það til. (Forseti hringir.) Í samgöngumálum virðist Reykjavíkurborg ráða för. Og svo mætti lengi telja, frú forseti. (Forseti hringir.)

Ég hef eingöngu tvær mínútur en aðalatriðið er þetta: (Forseti hringir.) Ef þingið grípur ekki inn í við þessar aðstæður þá ber þingið ábyrgð á þróuninni.

(Forseti (LínS): Hv. þingmenn eru áminntir um að virða ræðutíma.)



[15:28]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í nýrri könnun Vörðu um stöðu launafólks á Íslandi, sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB, kemur fram að um fjórðungur launafólks eigi erfitt með að ná endum saman. Fjórðungur kvenna á vinnumarkaði býr við slæma andlega heilsu. Fimmtungur launafólks getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Fjárhagsleg staða atvinnulausra og heilsa þeirra er verri en launafólks og staða innflytjenda er verri en innfæddra á öllum mælikvörðum.

Forseti. Nú í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og þeirra samfélagslegu takmarkana sem gripið var til vegna faraldursins stefnir í tímabil mikillar þenslu og verðbólgu, bæði hér á landi og á heimsvísu. Horfur í efnahagslífinu benda til þess að róður verst settu hópanna muni þyngjast enn frekar og þrengja að lífsskilyrðum þeirra. Leiguverð er að hækka, matarkarfan er að hækka, bensín er að hækka. Nú verður að grípa til aðgerða strax til að koma í veg fyrir vaxandi vanda inn í framtíðina sem verður okkur dýrkeyptur, ekki bara í peningum heldur mannlegum harmleik sem bergmálar í gegnum næstu kynslóðir.

Það er mikilvægt, nú sem aldrei fyrr, að ríkisstjórnin sé afar skýr með hverjar fyrirætlanir hennar eru. Hvað ætlar hún að gera til að vernda hag heimila og fjölskyldna? Það bólar ekki á neinum aðgerðum á þeim bænum og þegar félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra er spurður til hvaða aðgerða hann ætli að grípa þá ber hann fyrir sig getuleysi vegna þess að helstu málaflokkarnir sem koma vinnumarkaðnum við heyri ekki undir hann.

Forseti. Til hvers var ákveðið að búa til sérstakan vinnumarkaðsráðherra ef hann getur ekkert gert fyrir launafólk í landinu? Var það kannski, eins og svo margt með þessa ríkisstjórn, bara uppi á punt? Ég spyr í einlægni, forseti, vegna þess að staðan er mér óskiljanleg.



[15:30]
Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeim fréttum að kynningarfundur um fyrirhugað útboð í samvinnuverkefninu Axarvegur – nýr vegur yfir Öxi verði haldinn á föstudaginn. Það er með ólíkindum hve málið hefur dregist þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir sveitarstjórnar og heimastjórnar í Múlaþingi. Annað og verra mál er svo að á þeim langa tíma sem tekið hefur að koma útboðinu af stað og þeim langa tíma sem mun taka að klára verkið sjálft hefur vetrarþjónustu ekki verið sinnt sem skyldi. Axarvegur fellur undir svokallaða G-reglu sem felur í sér, með leyfi forseta, að heimilt sé að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Ástandið er skilgreint snjólétt þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl. Drónaflug og ferðir bænda í fjárleitum hafa margoft sýnt fram á að augljóst er að oft og tíðum er galið að leiðinni sé ekki haldið opinni. Um er að ræða leið innan sveitarfélags þar sem íbúar þurfa að sækja þjónustu og verslun á milli íbúðakjarna. Íbúum á Djúpavogi er gert að aka um annað sveitarfélag og lengja ferðina um tugi kílómetra. Þetta er öryggismál. Þetta er jafnréttismál. Þetta er óboðlegt, frú forseti, og ljóst er að bregðast verður við því strax.



[15:32]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í Fréttablaðinu í dag má lesa opið bréf til hæstv. dómsmálaráðherra frá 13 samtökum sem berjast fyrir mannréttindum og réttindum kvenna. Þar er skorað á ráðherrann að bæta stöðu þolenda kynferðisofbeldis í réttarkerfinu með því að veita þeim aðild að dómsmálum sem nú eru sótt af ríkinu fyrir þeirra hönd. Þolendum er nefnilega úthýst úr dómsal í eigin réttarhöldum.

Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sýna að andlegar afleiðingar kynferðisofbeldis eru yfirleitt mun langvinnari en líkamlegir áverkar, sem gróa oftast fljótt. Þar vegur afmennskunin og hlutgervingin þungt, en til að beita kynferðisofbeldi þarf gerandinn að smætta þolandann niður í viðfang til að svala fýsnum sínum á, í stað manneskju með réttindi og rödd.

Færa má rök fyrir því að með núverandi lögum haldi réttarkerfið áfram þessari afmennskun og hlutgervingu, þar sem brotaþoli hefur hvorki sömu réttindi né rödd og sakborningur í eigin máli. [...]

Þannig getur réttarkerfið viðhaldið því valdaójafnvægi milli sakborningsins og brotaþolans sem ofbeldið sjálft fól í sér. Það er ekki að ástæðulausu sem dómsmál eitt og sér getur valdið áfallastreitu hjá brotaþolum, eða dýpkað þá andlegu áverka sem fyrir eru.“

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að taka undir hvert orð í þessu bréfi og einnig nota tækifærið til að minna hæstv. forseta á að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra um réttarstöðu þolenda sem vonandi verður svarað von bráðar. Komi frumkvæðið ekki úr dómsmálaráðuneytinu, frú forseti, verður þingheimur að taka höndum saman um að bæta hér úr og ég skora á þingmenn að gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)