152. löggjafarþing — 33. fundur
 3. feb. 2022.
biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:39]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er á svipuðum stað í sambandi við biðlista. Við sáum í fréttum gærdagsins viðtal við unga stúlku sem átti að bíða í tvo mánuði en er búin að bíða í nærri tvö ár, hún er að fara til Póllands í aðgerð upp á 1,5 milljónir sem hún þarf að borga úr eigin vasa. Nýlega hafði samband við mig maður sem er vinnandi, búinn að vera á biðlista í nokkra mánuði og sér fram á að missa vinnuna. Hann spurði: Er það eina sem ég get gert að taka lán eða yfirdrátt og fara á einkareknar stofur til að fá lausn minna mála? Þetta er nefnilega spurningin Á sama tíma og við höfum verið að semja t.d. við starfsfólk á Klíníkinni um að koma á Landspítalann og vinna erum við ekki að semja til að sjá til þess að við þurfum ekki að senda fólk í tvöfalt eða þrefalt kostnaðarsamari aðgerðir erlendis.

Biðlistarnir lengjast og lengjast. Það átti að koma á laggirnar sérstakri biðlistaaðgerðastofu á Akranesi. Hvernig standa þau mál? Er það komið í farveg?

Síðan er það hitt: Hvaða skoðun hefur ráðherrann á því að láta ungt fólk bíða eftir lífsnauðsynlegum aðgerðum, ekki svo mánuðum skiptir heldur árum? Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur hann lent á biðlista? Veit hann hvernig er að vera á biðlista? Gerir hann sér grein fyrir því hvernig er að vera á biðlista og bryðja rótsterk ópíumlyf svo mánuðum skiptir?



[10:41]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrirspurnina sem snýr að einhverju marki að sömu hlutum og ég átti orðastað um í fyrri fyrirspurn hér við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Markmið okkar hlýtur að vera, og það er þannig í stjórnarsáttmála, að sjúklingar geti notið þjónustu hér á landi. Það á að heyra til algerra undantekninga að biðin sé svo löng að einstaklingar sjái sér vænlegri kost að ferðast til útlanda í aðgerð. Það er þessi 90 daga biðtími. Þess vegna er svo mikilvægt að við skilgreinum þennan biðtíma og að hann hangi í rökréttu samhengi við það sem telst af læknisfræðilegum ástæðum vera eðlilegt að bíða. Þess vegna þurfum við að hafa skilgreindan biðtíma, við þurfum að hafa miðlæga biðlista þannig að ekki sé verið að setja fólk oftar en einu sinni á biðlistann, og að þær tímasetningar séu alveg gagnsæjar og augljósar öllum sem eru að vinna í kerfinu.

Ég er tiltölulega óþreyjufullur þegar kemur að þessu verkefni. Ég hef ýtt verulega á það, bæði í ráðuneytinu og í samtölum við þá aðila sem þurfa að koma að þessu verkefni og Landspítalinn – háskólasjúkrahús þarf að vera með okkur í því verkefni. Þetta þarf allt að spila saman eftir því hvaða aðgerðir við erum að tala um.

Varðandi liðskiptaaðgerðirnar þá hef ég þær upplýsingar varðandi þennan biðlista, skilgreindan biðtíma og miðlægan biðlista, að búið sé að vinna í honum í einhvern tíma og það líður varla dagurinn án þess að ég spyrji um það. Ég hef safnað saman tölum um það hvernig þetta hefur þróast hjá okkur og hversu margir hafa þurft að fara til útlanda í aðgerðir og ég get ekki með nokkru móti séð annað en að við getum tiltölulega hratt náð utan um þetta mál í samvinnu við alla sem sinna ólíkri þjónustu.



[10:43]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið. Það er auðvitað alveg frábært ef það verður hægt að sjá til þess að fólk þurfi ekki að dveljast lengur á biðlistum. En síðan er það lífið eftir biðlistana. Hvað tekur þá við? Það á eftir að semja við sérgreinalækna og það á líka eftir að semja við sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarakostnaður er orðinn það mikill og fólk þarf að borga úr eigin vasa svo að stór hópur öryrkja og eldri borgara hefur ekki efni á því lengur að fara í sjúkraþjálfun. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað erum við að gera í þeim málum? Ætlar hann að sjá til þess núna í eitt skipti fyrir öll að semja við sjúkraþjálfara? Ríkisstjórnin hefur hælt sér af því að vera með svo til gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu á heilsugæslum en hún hefur bara fært þennan kostnað yfir á sjúkraþjálfun, yfir á sérgreinalækna. Þar er kostnaðurinn kominn upp úr öllu valdi og fólk hefur ekki efni á þessu. Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í því?



[10:44]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu sem snýr að endurhæfingarþættinum. Já, þetta snýr allt að því að við náum samningum. Það ferli er hafið. Ég hef sjálfur fundað með sjúkraþjálfurum, Félagi sjúkraþjálfara, og ég hef lagt á það áherslu að við náum samningum, ekki bara við sérfræðilækna, og reynum að ná annarri nálgun en verið hefur í þessum ramma, í samningagerðinni og í ramma fjárlaga, af því að við þurfum að horfa á þessa samvinnu í heild og ekki síst í samhengi við allt það umfang sem á sér stað á Landspítala. Þetta þarf allt að vinna saman og endurhæfing og forvarnir hljóta að vera áhersluatriði í öllu þessu samhengi. Þannig að samhliða því að við erum að fara í þetta samtal við sérfræðilækna erum við í samtali við sjúkraþjálfara.