152. löggjafarþing — 33. fundur
 3. feb. 2022.
yfirvofandi orkuskortur.

[11:00]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það blasir við okkur ákveðinn vandi, tvöfaldur vandi. Það er annars vegar núverandi vandi og svo í náinni framtíð. Það er orkuskortur yfirvofandi í náinni framtíð, eins og forstjóri Landsvirkjunar orðar það. Það er tiltölulega óljóst hversu náin sú framtíð er. Við vitum það alveg miðað við þær sviðsmyndir sem hafa verið settar upp að það þarf meiri orku í orkuskiptin. Það kemur ekkert á óvart við það. En vandinn í dag er það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um, þessi skilaboð um að það þurfi að fara að brenna olíu, eins og hæstv. ráðherra orðaði það í andsvari áðan í óundirbúnum fyrirspurnum, brenna olíu til að skaffa heimilum í landinu raforku. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra og vitna hérna í þriðja orkupakkann, en ein besta greinin þar og ein af ástæðunum fyrir því að það er bara mjög góður pakki er þessi, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota og eftir því sem aðildarríkin telja rétt, lítil fyrirtæki, eigi rétt á að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á verði sem er greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og sanngjarnt.“

Það eru tvö atriði þarna helst, tiltekin gæði og sanngirni. Ég velti því fyrir mér: Ef skilaboðin sem við fáum núna í fjölmiðlum eru að það þurfi að brenna olíu til að útvega heimilum raforku, er það þá af þeim gæðum sem stjórnvöld telja að séu ásættanleg? Og er það sanngjarnt þegar það er verið að segja á sama tíma að þetta leiði til þess að kostnaður almennt séð við aðra orku verði hærri fyrir heimilin? Ef ekki, hvað á þá að gera í þessu núna?



[11:02]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er mjög ánægður með að þetta sé tekið upp hér. Ég og hv. þingmaður ræddum þessi mál nákvæmlega í atvinnuveganefnd í morgun, en það er auðvitað bara í nefnd og það er æskilegt að við ræðum þetta líka í þinginu og að þessi skilaboð komist áleiðis. Eins og ég fór yfir í hv. atvinnuveganefnd í morgun þá hefur þetta verið í algerum forgangi eftir að ég tók við sem ráðherra. Það sem við gerðum strax var að setja af stað starfshóp til að skoða sérstaklega raforkuöryggi nákvæmlega með þeim markmiðum sem hv. þingmaður vísaði til, því að það er mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi heimildir til að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður vísaði til. Ef eitthvað vantar upp á það sem verið er að skoða, vegna þess að gripið hefur verið til ákveðinna aðgerða hjá Orkustofnun, eins og ég fór yfir í hv. nefnd í morgun, sem hefur aldrei verið gert áður, þá er mjög mikilvægt að við séum með þau tæki í höndunum. Það er eitt af því sem verið er að skoða eins hratt og mögulegt er.

En það sem við erum búnir að læra, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þá er ég líka að vísa í fyrirspurn sem ég fékk hér rétt áðan, að reglugerðarumhverfið er þannig, og það eru öll mannanna verk, að það býr til ákveðna hvata og ef þær eru rangir hvatar þá þurfum við að breyta reglunum. Síðan er auðvitað stóra markmiðið þetta stóra verkefni. Þess vegna setti ég grænbókarvinnuna líka strax af stað til þess að draga upp þá stöðu sem við erum í núna, vegna þess að verkefnin sem eru fram undan eru gríðarstór. Stóra málið í þessu er að við ætlum að ná miklum árangri í loftslagsmálum. Við erum með háleit markmið og það skiptir máli að við náum þeim. Og það skiptir máli að við náum þannig að allir geti notið orkuskiptanna, ekki síst heimilin og fyrirtækin, og þá er ég sérstaklega að líta til litlu fyrirtækjanna.



[11:05]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Orkuskiptin og það orkuvandamál er eitthvað sem við þurfum tvímælalaust að vinna að núna strax og næsta áratug alla vega. En ég er að tala um núverandi vanda. Eins og ég skil umræðuna hérna er í rauninni ekki orkuskortur núna. Þetta er skortur á því að það sé tilfallandi ódýrari orka sem ákveðin fyrirtæki eða sveitarfélög gera samning um: Við ætlum að kaupa ódýrari orku en með þeim skilmálum að það gæti verið hægt að skerða hana ef ekki er til tilfallandi orka sem hefur kannski alla tíð verið örugg en ekki alveg eins örugg núna þegar kemur kannski slæmt vatnsár eða eitthvað þvíumlíkt. Það er því ekki vandamál með að koma orkunni til skila ef fólk borgar bara venjulega verðið en ekki lægra verðið fyrir tilfallandi orku. Er ekki hægt að koma í veg fyrir að það þurfi að brenna olíu? Og ef það er hægt, af hverju gerum við það ekki?



[11:06]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það væri mjög gott ef þetta væri bara út af slæmu vatnsári. Það myndi nefnilega lágmarka vandann mjög mikið. En það er ekki bara það því sem betur fer, og það er gott, er eftirspurnin eftir grænni orku að aukast. Spurning hv. þingmanns er þessi: Er ekki hægt að gera eitthvað og verður það ekki gert? Ef það er hægt að gera eitthvað þá verður það gert. Það liggur alveg fyrir. Orkustofnun hefur beint tilmælum, sem hún hefur aldrei gert áður, hún gerði það 25. janúar, til Landsvirkjunar, vegna yfirstandandi söluferlis á heildsölurafmagni vegna umframeftirspurnar, um að einungis mætti endurselja orkuna til söluaðila sem væru að þjónusta almenning, heimili og fyrirtæki. Það var eitt af því sem menn gerðu út af þeirri stöðu sem upp er komin núna. Eins og ég nefndi þá er þetta í algerum forgangi. Ég fór ekki í gegnum öll þau frumvörp sem ég er að leggja hér fram núna nákvæmlega út af þessum málum, nákvæmlega út af þessu stóra verkefni. Það er verið að vinna eins hratt eins og hægt er (Forseti hringir.) en eðli málsins samkvæmt þurfa menn, stjórnvöld, ráðherra, eftirlitsaðilar, að fara eftir lögum og reglum. Ef hins vegar vantar eitthvað upp á heimildir (Forseti hringir.) þá beitum við okkur fyrir því að því verði breytt og ég vænti góðs samstarfs við þingið út af þeim málum.