152. löggjafarþing — 36. fundur
 9. feb. 2022.
sérstök umræða.

innlend matvælaframleiðsla.

[15:47]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að bregðast vel við og taka hér umræðu um innlenda matvælaframleiðslu. Innlend matvælaframleiðsla er nú ansi stórt hugtak og til að kjarna umræðuna lagði ég megináherslu á þrjár spurningar.

Fyrsta spurningin snýr að afurðastöðvum í kjötiðnaði. Á síðasta kjörtímabili fór fram vinna á vegum fyrrverandi landbúnaðarráðherra um endurskoðun á rekstrarskilyrðum landbúnaðarins. Komið hefur fram að innlend kjötframleiðsla hefur undanfarin misseri átt í harðri samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hérlendis. Ég tel nauðsynlegt að koma til móts við innlenda framleiðendur þannig að afurðastöðvar í kjötiðnaði fái undanþágu frá 71. gr. búvörulaga. Við höfum fordæmi fyrir því að gera þetta. Þar er er ég að tala um mjólkuriðnaðinn og við þekkjum ágætlega hvernig til tókst í þeim málum. Það eru 17 ár síðan þessi leið var farin þar og má með sanni segja að það hafi, held ég bara, tekist ágætlega til. Ákveðin hagræðing hefur átt sér þar stað. Fyrirtækið hefur jú vissa vernd, bæði í tollum og öðru, en það hefur líka ríkar skyldur gagnvart markaðnum. Það hefur líka ákveðnar skyldur gagnvart frumframleiðendunum, þ.e. bændunum í þessu samhengi. Ég leyfi mér að fullyrða að þar getum við sagt að bændur í þeirri grein hafi afkomu. Það sem við fjöllum um í þessum lið og snýr að kjötframleiðslunni er staðan allt önnur. Þar er gríðarlega hörð samkeppni á markaði. Við vitum það og þekkjum öll sem höfum fylgst með umræðunni að staða í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega snúin, svo vægt sé til orða tekið, og þar þurfum við að bregðast við. Ein af þeim leiðum er sú sem hér er nefnd í þessu samhengi og snýr að undanþágunni frá 71. gr. búvörulaga og að heimilt verði að fara þar í svipaða vegferð og í mjólkurframleiðslunni. Það hafa verið unnar ýmsar greiningar á því hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Síðast var unnin greining af fyrrverandi ráðherra sem kom út á síðasta ári, ég held að Deloitte hafi unnið þá greiningu. Þar er verið að tala um allt að 1,5 milljarða. Þá er bara verið að tala um sauðfjárræktina og nautgripaframleiðsluna. Síðan eru svo sem til aðrar greiningar á því. Ef við tækjum hvíta geirann þar inn líka gætum við verið að tala um enn hærri tölur, 2–3 milljarða á ári sem yrði hagræðing af sameiningunni.

Til hvers er verið að fara þessar leiðir? Það er alveg ljóst að til þess að við getum skapað ákveðið starfsumhverfi fyrir greinina þá þurfum við að halda utan um hana. Tilgangurinn hlýtur að vera sá hjá okkur í öllu þessu að við getum komið því áfram að frumframleiðandinn, bændurnir, eins og sauðfjárbændur eða þeir sem framleiða kjöt, geti haft afkomu af því sem þeir eru að gera. Það er grundvallaratriði í þessu og við þurfum að finna leiðir til þess.

Það eru fleiri punktar sem ég vill leggja áherslu á sem snúa að tollasamningi okkar við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Og síðast en ekki síst er mjög mikilvægur punktur sem snýr að matvælaöryggi og aðgerðaáætluninni sem við ræddum fyrir tveimur árum síðan um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Ég vænti þess að við fáum hér góða og gagnrýna umræðu.



[15:53]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu, sem er afar mikilvæg og snýr í grunninn að rekstrarskilyrðum landbúnaðarins. Eins og opinberar hagtölur sýna þá eru greinar landbúnaðarins afar misvel settar hvað varðar afkomu en í grunninn er fólk og fjölskyldur og heimili bak við þessar tölur. Undanfarin fimm ár hefur afkoma einkum í sauðfjárrækt verið afleit og sérstaklega til umfjöllunar og ekki ósennilegt að margar fjölskyldur í sveitum landsins séu uggandi um afkomu sína í haust vegna mikillar hækkunar á áburðarverði og umtali um að frekari hækkanir á öðrum aðföngum sé í kortunum. Það er mikilvægt að fylgjast áfram með rekstrarskilyrðum landbúnaðarins í heild og vinna að bættri afkomu.

Hvað innlenda kjötframleiðslu varðar, sem er fyrirspurn hv. þingmanns, þá hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar í þeim efnum, m.a. það sem hér er nefnt, hvort hægt sé að stuðla að bættri afkomu með því að skoða möguleikann á heimildum til einhvers konar samstarfs sem leiði þá til hagræðingar. Það er í líkingu við það sem gert hefur verið og gildir um framleiðslu mjólkur, samanber umrædda undanþáguheimild frá búvörulögum.

Það vantar ekki viljann hjá mér sem matvælaráðherra til að tryggja góða samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu en það þarf að botna ákveðna þætti í því sem þingmaðurinn spyr mig um hér í dag. En það er munurinn á stöðu afurðastöðva í kjöti nú um stundir og afurðastöðva í mjólk á sínum tíma. Sá munur er á þessum afurðastöðvum að afurðastöðvar í mjólk voru og eru að langmestu leyti í eigu bænda og að fullu undir þeirra stjórn. Það er ekki staðan hjá öllum afurðastöðvum í kjötframleiðslu. Þá er opinber verðlagning á afurðaverði til bænda og að stórum hluta mjólkurvara í heildsölu. Þannig er það mjög vel tryggt að ágóðinn af hagræðingunni skilar sér þar til bænda og neytenda. Þetta þarf að botna og ég hef hug á því að kanna til hlítar hvaða möguleikar eru fyrir hendi í þeim efnum.

Það væri auðvitað hægt að hafa sérstaka umræðu hér bara um það sem mætti gera til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, en tímans vegna langar mig að nefna hér eitt atriði sem ég held að muni skipta höfuðmáli á komandi árum og það eru loftslagsmálin. Með því að bændur hér á Íslandi nái auknum árangri í loftslagsmálum þá tel ég að ná megi fram mikilvægu forskoti á erlenda samkeppni. Með því að geta sýnt fram á að innlendar búvörur hafi léttara kolefnisfótspor en innflutningur muni það í sjálfu sér leiða til þess að neytendur velji þær frekar en innfluttar vörur. En til að slíkt geti borið ávöxt þá þarf það að byggja á staðreyndum og þekkingu frekar en ímyndarsköpun eða markaðsbrellum. Því lít ég á árangur í loftslagsmálum fyrir landbúnaðinn sem lið í því að bæta samkeppnisstöðuna til lengri tíma og að því mun ég vinna sem matvælaráðherra.

Hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um endurskoðun á tollasamningum við Evrópusambandið í ljósi þess að eitt okkar helsta viðskiptaland, Bretland, er ekki lengur aðili að ESB. Þá er því til að svara að íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir því við Evrópusambandið að viðskiptasamningur Íslands og Evrópusambandsins um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður, en þar er um að ræða þann hluta samningsins sem gerður er á grundvelli 19. gr. EES-samningsins og snýr að almennum landbúnaðarvörum, þar á meðal tollkvótum fyrir kjöt- og mjólkurvörur. Forsenda samningsins og forsendur þeirra hafa breyst til hins verra síðan hann var samþykktur, en þar er ójafnvægi á milli samningsaðila, sérstaklega þegar kemur að nýtingu tollkvóta.

Þessari vinnu miðar áfram og verður reynt að hraða henni eins og unnt er. Utanríkisráðherra leiðir þessar viðræður og hans ráðuneyti við ESB um samninginn í nánu samstarfi við mitt ráðuneyti. Meginmarkmiðið þar er að ná fram betra jafnvægi í þeim viðskiptatækifærum sem samningurinn hefur í för með sér, einkum í formi tollkvóta. En á næstu vikum mun utanríkisráðherra eiga fund með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála í Evrópusambandinu og þá má búast við að málið verði tekið upp þar með formlegum hætti.

Í þeim undirbúningi sem ég fékk að þessari umræðu sendi hv. þingmaður mér líka fyrirspurn um sýklalyfjaónæmi þannig að ég tel ástæðu til að eyða minni síðustu hálfu mínútu í að bregðast aðeins við því þó að hv. þingmaður hafi ekki náð að koma að því í sinni spurningu. En þar er auðvitað mjög þýðingarmikið að berjast gegn sýklalyfjaónæmi. Það hefur ríkisstjórnin gert og það gerði síðasta ríkisstjórn sérstaklega. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er sérstaklega tekið fram að það þurfi að tryggja áframhald þessarar aðgerðaáætlunar, sem var fyrst og fremst í samstarfi þá heilbrigðisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verður þessu samstarfi haldið áfram á þessu kjörtímabili í samráði við heilbrigðisráðherra.



[15:58]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Samkeppni er góð. Hún er góð fyrir fólk og hún er góð fyrir fyrirtæki og hún er góð fyrir heilbrigðan markað. Það væri stórt skref aftur á bak að útvíkka undanþáguna sem mjólkuriðnaðurinn hefur notið til kjötafurðastöðva. Það voru mistök á sínum tíma að gera það með þessum hætti. Samfylkingin vill styðja við myndarlegan landbúnað en hafa tolla sem lægsta til að tryggja frjálsa samkeppni í atvinnurekstri og þar með eðlilegt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir hvaða atvinnugrein sem er, líka kjötiðnaðinn.

Hæstv. forseti. Það vill stundum gleymast í þessari umræðu að hagsmunir bænda og hagsmunir afurðastöðvanna fara ekki alltaf saman. Það eru vissulega mörg sóknarfæri í matvælaframleiðslu hér á landi, sérstaklega ef við nýtum betur þau tækifæri sem eru á Evrópumarkaði í þeim efnum. Ég tala nú ekki um ef við hefðum betri aðgang að Evrópumarkaðnum sem t.d. fengist með aðild að Evrópusambandinu. Við vitum að íslenskir bændur hafa framúrskarandi vöru að selja en smæðin er óhagstæð fyrir þennan markað og við þurfum að horfast í augu við það að sauðfjárrækt verður seint stunduð á samkeppnisgrundvelli hér á landi. Stjórnvöld eiga að beina sjónum sínum að því að styðja betur við bændur í formi styrkja sem myndu auka fjölbreytni og framþróun í framleiðslu þeirra og starfsemi og hætta að skilyrða við framleiðslu á kjöti.

Ég vil líka taka undir orð hæstv. ráðherra um að hætta að byggja á þessari ímyndarsköpun og markaðsbrelluhugmyndafræði sem rekin hefur verið. Tölum um hlutina eins og þeir eru, tölum um heilnæm matvæli, tölum um kolefnisspor, og þar með njótum við þess forskots sem við getum haft sem landbúnaðarland.



[16:00]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir þessa umræðu og hæstv. mætvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir þátttökuna. Mín fyrstu kynni af landbúnaði svo langt sem ég man aftur voru þegar ég var sex eða sjö ára í Álftafirði þar sem afi minn var bóndi. Ég heyrði hann aldrei kvarta. Þetta var lítið bú. Seinna meir var ég í nokkur ár í sveit í Húnavatnssýslu. Þar var aðallega kvartað undan einu; jú, SÍS, Sambandi íslenskra samvinnufélaga og kaupfélaginu. Þegar viðkomandi bóndi fór með afurðir sínar í kaupfélagið, lagði þær inn og kom svo og bað um pening, þá var hann settur í þriðju gráðu yfirheyrslu og spurt: Hvað ætlar þú að gera við peninginn? Ég man þetta svo vel. Ég var svo hissa vegna þess að ég hélt að hann ætti þetta þarna inni en sú virtist ekki vera raunin. Hann þurfti að segja nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera við peninginn. Þetta sagði mér að bændur væru í ákveðinni fátæktargildru. Þeir eru það enn þann dag í dag. Ég held að lausnin liggi bara í því að þeir leysi sín mál. Kjötframleiðsla á Íslandi — við erum ekki með sýklalyf og það eitt á að gefa okkur gífurlegt forskot. Annað sem á líka að gefa okkur gífurlegt forskot er það sem er verið að gera núna í nautgriparækt þar sem fást mun meiri afurðir af hverjum nautgrip. Við eigum að hampa íslenskri hreinni framleiðslu og ef við gerum það þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því að bændur standi sig ekki. En að fara í enn eina undanþáguna, ég held að það dugi ekki. Þá þarf næst trúlega aðra undanþágu og svo koll af kolli.



[16:03]
Haraldur Benediktsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis taka undir þakkir til málshefjanda þessarar umræðu. 22. október 2020 kom út skýrsla frá Lagastofnun Íslands sem bar heitið Skýrsla um undanþágur frá samkeppnisreglum er varða samstarf milli búvöruframleiðenda í ljósi EES-/ESB-réttar. Í skýrslunni er vel dregið saman hvernig umhverfi afurðastöðva og framleiðslufélaga bænda víða innan EES og ESB býr við allt aðra lagaumgjörð heldur en við búum við hér. Síðastliðinn vetur lagði þáverandi landbúnaðarráðherra fram á samráðsgátt frumvarp til að koma á móts við þau eðlilegu sjónarmið framleiðenda búvöru að skapa hér sambærilega lagaumgjörð og birtist í þessum samanburði sem lagastofnun birti í sinni skýrslu, lagaumgjörð sem ég get tekið undir með málshefjanda þessarar umræðu að verði að ná yfir kjötgeirann líka. En ég vil samt slá undir það sérstaklega, eins og fram kom í máli hæstv. matvælaráðherra, að sú nálgun verður að byggjast á sambærilegri nálgun og í samkeppnislöndum okkar hvað varðar þau sjónarmið og það gagnsæi sem slík löggjöf þarf að hafa. Skýrsla lagastofnunar staðfesti einmitt þau sjónarmið sem lengi hafa komið fram innan landbúnaðarins og víðar að við höfum ekki fylgt eftir uppfærslu eða endurnýjun á löggjöf búvöruframleiðslu hér í landinu, sérstaklega eftir gildistöku EES-samningsins og seinna sérstakra samninga um gagnkvæm tollaviðskipti. Við höfum ekki beitt þeim stýritækjum sem þarf til að bregðast við breyttum aðstæðum, stýritækjum sem eiga að efla innlenda framleiðslu og skapa henni eðlileg sóknarfæri. Í skýrslunni þar sem rætt er um Ísland og sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra kynnti síðastliðið haust eru þessum sjónarmiðum gerð rækileg skil.

Ég vil að endingu, virðulegi forseti, taka undir orð hæstv. matvælaráðherra. Það er vandi hvernig við búum um þetta en það er algerlega hægt og því hvet ég hæstv. ráðherra til að hraða vinnu því við megum engan tíma missa við að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við.



[16:05]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Það er rosalega freistandi þegar það er vandamál í einhverjum geira að moka einfaldlega peningum í vandamálið, passa upp á að það haldi sínu. En það er röng aðferð. Það er skortur á framtíðarsýn. Þarna ættu að vera viðvörunarbjöllur í gangi. Það sem við ættum að spyrja okkur að er kannski: Erum við að gera þetta rangt? Við ættum að horfa aðeins lengra fram í tímann. Við ættum að fella niður allar þessar girðingar sem við erum búin að setja upp; þarna á að rækta svona mikið og svona á að gera það o.s.frv., og hugsa aðeins um frjálsræði bænda til að sinna sínum landbúnaði á nýstárlegan hátt, prófa ný tækifæri, taka nýsköpunarhugsunina aðeins á þetta. Fyrst hæstv. ráðherra minnist einmitt á loftslagsmálin þá minnist ég aftur á kjötrækt, en ég hef oft lagt hér fram mál um það sem hefur fengið mismunandi undirtektir. Þessi tækni verður hornsteinn matvælaframleiðslu eftir ekkert svo rosalega mörg ár. Við þurfum í alvörunni að fara að huga að því að ná þangað sem fyrst, þó ekki nema bara út frá loftslagsmálum. 99% minna land notað til framleiðslunnar. Þessi framleiðsla yrði líklega notuð til dýraeldis til að byrja með. Gríðarlega stórt hlutfall af kjötframleiðslu í heiminum fer í að fóðra dýr, gæludýr. Þar myndi þessi tækni aðallega byrja og þróast síðan yfir í manneldi. Með þessari tækni myndast einfaldlega þær aðstæður að við þurfum ekki að sigla út á sjó og veiða fisk. Það verður óþarfi. Og hvað þýðir það fyrir samfélög heimsins?



[16:07]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu held ég að megi segja að það getur merkilegt nokk farið saman að vilja styðja við bændur, að vilja standa með neytendum og standa með heilbrigðri samkeppni. Hvað gerðist t.d. þegar reglunum var breytt um styrki í grænmetisrækt, þegar við fórum meira í átt að beinum styrkjum? Við munum, a.m.k. sum hérna inni, hvaða val neytendur höfðu um tómata á Íslandi fyrir um 20 árum síðan og við vitum hversu breytt staðan er í dag, hún er bæði betri fyrir neytendur og fyrir bændur. Þess vegna á að treysta samkeppninni. Það á að stuðla að nýsköpun og nýliðun. Ég er þeirrar skoðunar og minn flokkur að það eigi að afnema sérreglu búvörulaga. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef við værum í dag að semja reglur um mjólkuriðnaðinn þá kæmi engum til hugar að stofna opinbera nefnd til að ákveða verð á mjólk, smjöri og rjóma, verðlagsnefnd búvara. Árið er 2022 og þetta er staðan. Ég vil þess vegna nota tækifærið hér í dag og minna á frumvarp okkar í Viðreisn um að þessi nefnd verði lögð niður og framkvæmdanefnd búvörusamninga og að við stuðlum að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun fái að vera í samræmi við almenn markaðslögmál, þær einföldu leikreglur og lögmál. Ég held að íslenska mjólkin geti það. Ég vil sem mesta flóru í innlendri landbúnaðarframleiðslu og legg mig fram um að velja íslenskt og er stolt af framleiðslunni en ég held að breytt styrkjakerfi sé svarið, að við beinum markvissum styrkjum til bænda sjálfra, þeir fái sjálfir að ráða meiru um hvernig þeir vilja haga sinni jarð- og landnýtingu, að við innleiðum hvata með styrkjum til nýsköpunar og um leið betri nýtingu landsins sjálfs. Þarna eru ævintýraleg sóknarfæri. Ég held að það séu fáir betur til þess fallnir en bændur sjálfir að standa undir öflugri stefnu á sviði umhverfis- og loftslagsmála þarna. Við eigum einfaldlega gefa landbúnaðinum (Forseti hringir.) tækifæri til að sækja fram og leiðin til þess er að gefa greininni frelsi og svigrúm til þess.



[16:09]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu hér í dag, eins og flestir sem hér hafa verið á undan mér. Það er oft þörf að ræða þessi mikilvægu mál en nú er nauðsyn. Það hefur verið lítil áhersla á aðbúnað og umgjörð innlendrar matvælaframleiðslu af hálfu ríkisstjórnarinnar, bæði það sem af er þessu kjörtímabili sem og á því síðasta.

Hér spyr málshefjandi nokkurra mikilvægra spurninga og ég vil byrja á því að segja að mér þykir það afar virðingarvert, en meira þarf til vegna þess að það þarf að grípa til aðgerða. Þá kem ég að kjarna málsins. Í huga okkar Miðflokksmanna er enginn vafi á því að öllum úrvinnslufyrirtækjum landbúnaðarvara verði það gert heimilt að hagræða með samvinnu og samruna umfram þær skorður sem samkeppnisyfirvöld setja. Þetta ætti að ríma ágætlega við fyrstu spurningu málshefjanda, hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar. Einnig er afar brýnt að við segjum upp tollasamningum við ESB, í það minnsta endurskoðum samninginn með tilliti til þess að Bretar hafa gengið úr Evrópusambandinu. Ég heyrði að hæstv. matvælaráðherra sagði einmitt að endurskoðun á þessum samningum væri á döfinni.

Að lokum vil ég benda á að við þurfum að stöðva innflutning á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum. Það er vegna sérstöðu landsins og mikilvægi matvæla sem og fæðuöryggis. Það verður aldrei nógu oft sagt. Meira má svo finna í þingsályktunartillögu sem þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram. Það hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú að styðja við innlenda matvælaframleiðslu þannig að rekstrarafkoma þeirra sem að henni standa verði áfram öflug og sterk.



[16:11]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu í almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins sem samþykkt var á Alþingi árið 2016. Fyrir tveimur árum samdi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Landbúnaðarháskólann um að móta tillögu um fæðuöryggisstefnu Íslands. Afurð þeirrar vinnu er skýrsla um fæðuöryggi. Þar kemur fram að Ísland sé í þeirri stöðu að geta framleitt þá fæðu sem þarf til að hafa fullt fæðusjálfstæði en flytur inn hvað mest hlutfall af sinni fæðu. Við erum þó takmörkuð þegar kemur að fjölbreytni framleiðslu úr plönturíkinu. Svo segir, með leyfi forseta:

„Með innflutningi fæðu nýta Íslendingar sér ekki bara það að hafa á boðstólum fjölbreyttari matvörur, heldur líka lægra matvælaverð í öðrum löndum, sem skilar sér í vasa neytenda og/eða verslunarinnar á Íslandi. Í sumum tilfellum er þó innflutningur matvöru óbeinn stuðningur við lága staðla í umhverfismálum, hreinlæti, heilbrigði og dýravelferð, léleg kjör og aðbúnað bænda og landbúnaðarverkafólks.“

Virðulegi forseti. Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun ekki geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurn krefst. Þó er ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvörum. Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, að við þurfum að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi landsins.



[16:13]
Kári Gautason (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég byrja á því að gera eins og aðrir og þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa góðu umræðu. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem hefur komið fram. Það var mjög góður punktur hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni áðan þar sem hann benti á úttekt Lagastofnunar. Stundum virðist manni eins og það sé eitthvað allt annað system í Evrópu en í sáttmálanum sem það samband byggir á er rosalega svipuð markmiðsgrein og er í íslensku búvörulögunum sem snýst um sanngjörn kjör fyrir bændur og fleira. Þeir hafa sett upp sína löggjöf í samkeppnismálum og landbúnaðarmálum til að reyna að ná því fram sínum leiðum. Við höfum farið að hluta til svipaðar leiðir en að mörgu öðru leyti eru þetta ólík kerfi. En framfarirnar verða sjaldnast af sjálfu sér, þær þurfa fjárfestingu. Ég hef oft hugsað hvers vegna það sama hefur ekki átt sér stað í sláturhúsum og í fiskvinnslum á síðustu 20, 30 árum, í báðum tilfellum er um að ræða matvælaframleiðslu þar sem verið er að taka hrávöru og breyta í matvæli en kjötiðnaðurinn hefur breyst mun minna heldur en meðalfiskvinnslan. Það er bara spurning um fjárfestingu. Þess vegna held ég að við þurfum að hugsa í raunverulegum lausnum. Það þýðir ekki að vinna gegn hjóli tímans heldur með því. Þetta snýst ekki bara um stærðarhagkvæmni, að troða allri slátrun á sama stað, þetta snýst líka um breiddarhagkvæmni, að skjóta fleiri stoðum undir búsetu í dreifbýli, framleiða fleiri tegundir matvæla en til þess þarf markvissan stuðning á rétta staði. Skynsamleg stefna í þessum málum horfir á þessa hluti heildstætt.



[16:16]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ef neysla allra jarðarbúa væri í samræmi við neyslu Íslendinga þyrfti 27 jarðir til að standa undir henni. Kolefnisfótspor okkar er tvöfalt stærra en annarra Evrópubúa. Til að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns, að vinna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum, þarf vilja almennings til breytinga og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda. Kolefnisfótspor okkar er stærst í samgöngum, matvælum og með innfluttum varningi. Það er því ekki nóg að tala um orkuskipti í samgöngum, við þurfum líka að breyta matarvenjum okkar og framleiðslu matvæla. Þau grænu umskipti þurfa að vera réttlát bæði fyrir bændur og neytendur.

Athuganir sýna að kolefnisspor íslensks grænmetis er allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Það er því mikill umhverfisávinningur af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti. Það þarf að mæla kolefnisspor kjötframleiðslu hér á landi og bera saman við innfluttar afurðir og nýta niðurstöður til stefnumörkunar. Úti um allan heim eru menn að rannsaka og leggja heilann í bleyti til að finna árangursríkar leiðir til að vinna gegn loftslagsvá af manna völdum. Viðurkennt er að mannkynið þarf að draga úr kjötneyslu. Eitt af því sem fjárfestar keppast nú um að leggja fjármuni sína í er kjötrækt. Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri þar sem þeir vefir sem nýttir eru til matar eru ræktaðir með líftækni. Leyfi hefur nýlega verið veitt til sölu ræktaðs kjöt í kjörbúðum í Singapúr. Kjötið er enn mjög dýrt og þróa þarf aðferðirnar áfram. En ég tek undir það sem hér hefur áður verið sagt í þessari umræðu, að þessari tækni þurfi að gefa meiri gaum hér á landi.



[16:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þetta er búin að vera þörf umræða, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að við séum öll úti á túni og hver á sínu túninu að spá í hvað sé rétt að gera. Ég hef enga allsherjarlausn á því, en ég geri mér grein fyrir því að það er hellingur af bændum sem getur ekki lifað af sínum búfjárstofnum og eru þar af leiðandi komnir í eina eða tvær aðrar vinnur til að reyna að framfleyta sér og fjölskyldunni og það er ekki gott. Það er eitthvað sem segir okkur að þá virki kerfið ekki sem skyldi. En ef við tökum okkur sem neytendur og ég horfi aftur í tímann þá eru ekki mörg ár síðan þegar ég fór í verslun til þess að kaupa mér kjöt og á hvað horfði ég fyrst? Íslenskt. Hvað svo? Verðið. Hvað svo? Erlent. Þá komst ég að því erlenda varan var í flestum tilfellum mun ódýrari. Þá er það spurningin: Hvað réði því hvað ég valdi? Jú, kaupmáttur minn. Í dag er engin spurning að ef ég fer út í búð og ætti að velja á milli erlendrar nautasteikur og íslenskrar þá myndi ég velja þá íslensku einn, tveir og þrír. Hún er mun betri, miklu betri vara og ég veit hvað ég er að kaupa þar. Ég veit ekkert hvað ég er að kaupa í þeirri erlendu, ég hef ekki hugmynd um það hversu mikið sýklalyf voru notuð eða hvernig hún var framleidd. Þetta er það sem við eigum að einbeita okkur að, ná verðinu niður á íslenskum afurðum þannig að allir geti notið, ekki bara þeir sem hafa efni á að kaupa íslenskar vörur.



[16:20]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mikil tækifæri felast í ímynd lands okkar og hreinleika. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að ganga vel um auðlindir okkar til að geta sýnt fram á sérstöðu okkar sem framleiðendur í sátt við land okkar og samfélag. Það er ekki nóg að segjast vera með hreinar afurðir og hreint umhverfi. Við verðum að geta sýnt fram á það. Bændur eiga í sífellt harðari samkeppni við kollega sína í öðrum löndum þar sem okkar bændur þurfa að keppa við framleiðendur sem búa að því að vera með mun styttri ræktunartíma en okkar bændur og markaðir gríðarstórir. Maður hefur það oft á tilfinningunni að bændum hér á landi sé gert að keppa eingöngu á forsendum verðs en ekki endilega gæða. Því er gríðarlega mikilvægt að samkeppnisstaðan sé jöfn, að við gerumst sambærilegar kröfur til þeirra vara sem fluttar eru til landsins og okkar eigin vara. Þarna er ég að tala um dýravelferð, heilnæmi vörunnar, lyfjanotkun og aðbúnað starfsfólks sem vinnur við vöruna. Öll keðjan þarf að vera í lagi. Hér á landi eru gerðar miklar kröfur til landbúnaðarframleiðslu og við eigum að gera sambærilegar kröfur til þeirra vara sem til landsins eru fluttar. Kína framleiðir í dag um 40% af öllum eggjum í heiminum. Annað hvert egg sem selt er í Þýskalandi er innflutt. Egg eru flutt inn til Íslands frá Þýskalandi. Getum við með vissu sagt að það sé þýskt egg? Árið 1925 tók það um 16 vikur að rækta kjúkling upp í sláturstærð. Í dag tekur það sex vikur að rækta upp kjúkling í sláturstærð sem er í dag um helmingi þyngri en árið 1925. Þessi dæmi nefni ég hér sem dæmi um fjöldaframleiðslu landbúnaðarvara. Við verðum aldrei fjöldaframleiðendur á þessum skala en bændum hér á landi er samt sem áður gert að keppa við þessa massaframleiðslu.

Ég skora á hæstv. matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur að koma upprunamerkingu matvæla í betra horf hér á landi (Forseti hringir.) og höfum það hugfast að landbúnaður er grunnstoð allra samfélaga.



[16:23]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í dag á innlend matvælaframleiðsla undir högg að sækja á mörgum sviðum. Áratugalöng miðstýring og kerfi byggt á styrkjum hefur orsakað óhagkvæmni og ósjálfbærni. Ísland er kjörið land til að framleiða sjálfbærar og lífrænt ræktaðar vörur þar sem gæði og heilnæmi eru í fókus frekar en magn. Þó svo að neytendur gærdagsins hafi einungis einblínt á verð og aðgengi eru nýjar kynslóðir meðvitaðri um mikilvægi sjálfbærni og lífrænnar framleiðslu. Sjálfbærni felst m.a. í því að gera matvælaframleiðsluna sjálfa óháða erlendum hráefnum, eins og t.d. ólífrænum áburði sem ríkið þurfti einmitt að niðurgreiða nú nýlega vegna mikilla hækkana á innflutningsverði. Þó svo að hinn ólífræni áburður hafi skilað sér í auknu magni af heyi hefur sú aukning bliknað í samanburði við þá aukningu sem orðið hefur vegna nýrrar tækni við slátt og meðhöndlun á heyi. Sú tæknibylting opnar því jafnvel á þann möguleika að hverfa aftur til lífræns áburðar sem einmitt styður sjálfbærni og umhverfisvænni ræktun.

Með þetta að leiðarljósi langar mig að spyrja hæstv. matvælaráðherra hverjar áætlanir ráðuneytisins séu þegar kemur að því að auka sjálfbærni og lífræna ræktun hér á landi.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. matvælaráðherra hvernig ráðuneytið hyggst stuðla að aukinni nýsköpun á þessu sviði en þær upphæðir sem lagðar eru í Matvælasjóð eru allt of lágar til að standa undir þeirri þörf sem þar er. Þar skortir einnig fjármagn til að standa undir því stoðkerfi sem nauðsynlegt er að hafa samhliða nýsköpunarstyrkjunum.



[16:25]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum um aðgerðir til að bæta stöðu íslenskra framleiðenda þá verðum við líka að standa vörð um hagsmuni íslenskra neytenda. Það eru að endingu alltaf þeir sem þurfa að borga brúsann. Undanþágur frá samkeppnislögum og aukin tollvernd eru til þess fallin að hækka verðið á matarkörfunni. Nú þegar verðlag hækkar hratt og kaupmátturinn minnkar þá er það ekki eitthvað sem heimilin í landinu mega við. Á sama tíma og landbúnaðurinn stendur höllum fæti er enginn skortur á íslenskum kjötvörum í verslunum. Ef eitthvað er hefur framleiðslan oft verið langt umfram það sem tekst að selja. Hvað verður um öll verðmætin? Þau glatast í kerfi sem er of niðurnjörvað og beintengt framleiðslumagni.

Við í Viðreisn höfum lagt til að samkeppnisundanþágur landbúnaðarins verði felldar niður og stuðningskerfið bætt svo að það taki til fleiri þátta; skógræktar, endurheimtar votlendis, ferðaþjónustu og nýsköpunar og kannski ekki síst framleiðslu á fjölbreyttari matvöru. Þannig og aðeins þannig getum við tryggt hagsmuni bæði bænda og neytenda. Ólíkt þeim sem tala hér fyrir aukinni tollvernd þá hef ég tröllatrú á íslenskri matvælaframleiðslu og tækifærum hennar erlendis. Gleymum því ekki að tollverndin gengur í báðar áttir. Þegar við lokum landinu fyrir innfluttum matvælum og frelsi neytanda þá lokum við líka tækifærum íslenskra framleiðenda til að skapa sér tækifæri erlendis. Er það ekki annars það sem þingmaðurinn á við þegar hann talar um að endurskoða tollasamninginn við ESB, sem er stærsti og mikilvægast fríverslunarsamningum sem við höfum gerst aðilar að? Að setja skorður á innflutning þýðir að verið er að setja skorður á útflutning á sama tíma.



[16:27]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Það hefur verið gagnlegt að hlusta á umræðuna í dag. Það sem stendur upp úr er að stórauka þarf stuðning við innlenda matvælaframleiðslu og að við getum séð til þess rekstrarafkoma greinarinnar verði sterk. Hæstv. ráðherra kom nefnilega réttilega inn á það að þetta snýst um fjölskyldur. Þetta snýst um fólk og lifibrauð fólks. Við verðum þess vegna að taka það með í reikninginn að aukin fjárframlög til greinarinnar væru besti og skynsamlegasti kosturinn, en samhliða því þarf að búa til landsáætlun um aukna sjálfbærni, m.a. þurfum við að huga að orkuskiptum og áburðarnotkun. Það hefur komið fram hér fyrr í umræðunni að við þurfum að snúast með hjólinu, ég tek undir það, og það má heldur ekki gleymast í þessari umræðu að við þurfum að styrkja frekar tækifæri til lífrænnar framleiðslu og nýsköpunar í þeirri hefðbundnu. Það segi ég vegna þess að við sjáum oft ekki ávinninginn fyrr en að mörgum árum liðnum og ég hef heyrt á bændum að það sé erfitt að fóta sig í regluverki Evrópusambandsins hvað það varðar. Við getum líka nefnt innlenda kornrækt og kjarnfóðursframleiðslu, þannig að það er að mörgu að hyggja. Til að nefna einn mikilvægan þátt í viðbót þá gætum við séð til þess að matvælaframleiðsla nyti sömu kjara og stóriðjan nýtur með tilliti til orku. Þegar allt þetta er tekið saman má segja að við þurfum að gera langtímasamning við bændur. Við þingmenn Miðflokksins höfum beitt okkur fyrir þeirri mikilvægu grundvallarstoð sem innlend matvælaframleiðsla er í höndum bænda vítt og breitt um landið og ég vona sannarlega að svo verði áfram.



[16:29]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara þakka kærlega fyrir þessa góðu og fjölbreyttu umræðu sem hefur átt sér stað. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir virkilega góð og greinargóð svör og sömuleiðis ykkur, kæru hv. þingmenn, sem tóku þátt. Það er margt komið fram sem er verulegt umhugsunarefni og ég punktaði hjá mér ansi margt sem kom fyrir. Það sem kveikti í mér til að byrja með var hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sem var úti á túni. Í grunninn var hv. þingmaður ekki úti á túni. Grundvallaratriðið þegar við fjöllum um það sem snýr að undanþágunni, þ.e. að ná hagræðingu fram, snýr að því að ná verðinu niður, að ná hagkvæmninni fram í greininni. Við erum í þessu samhengi ekki bara að hugsa um hag frumframleiðandans, við erum að hugsa um alla virðiskeðjuna, þ.e. við erum að hugsa um neytendur líka. Það er grundvallaratriðið í því sem við erum að ræða. Við verðum að hafa það hugfast, Íslendingar, sem matvælaframleiðsluland, að það verða alltaf, ef við horfum heildstætt á heiminn, fleiri munnar í mat á morgun en eru í dag. Það er grundvöllurinn sem við eigum að ganga út frá og hvernig við getum tryggt að við getum framleitt hér matvæli þannig að allir hafi hag af því, og ekki síst neytendur og bændur.



[16:31]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og hv. málshefjandi þakka fyrir góða og breiða umræðu. Þetta vekur okkur til umhugsunar um það hversu mörg umræðutilefni við eigum og getum sannarlega tekið það áfram. En grundvallaratriðið er að það eru gríðarlega mikil tækifæri í innlendum landbúnaði og við verðum að huga að því hvaða hvata við sem stjórnvöld erum að leggja í okkar stjórntæki, hvort sem það eru búvörusamningar, lagaumhverfi eða annað, til þess að við sjáum fyrir okkur í hvaða átt við viljum draga okkar kerfi. Þar viljum við hugsa um nýsköpun. Þar viljum við hugsa um dýravelferð og umhverfismál. Við viljum hugsa um matvælaöryggi og fæðuöryggi en við viljum líka hugsa um afkomu bænda. Við viljum hugsa um aukna áherslu á lífrænan landbúnað, sem hér hefur verið nefnt. Við viljum hugsa um rekjanleika, upprunamerkingar og allt þetta sem sífellt meiri meðvitund neytenda gerir kröfu um og á að gera kröfu um. Innlendur landbúnaður á alla möguleika á því að koma í auknum mæli til móts við það. Við eigum að hugsa um það líka að holl og heilnæm matvæli séu aðgengileg öllum, að við öll í samfélaginu getum keypt góðan, öruggan og hollan mat. Það skiptir líka máli. Við þurfum að hugsa um það, þegar öllu er á botninn hvolft, að okkar ákvarðanir séu í þágu okkar loftslagsmarkmiða, að við hverfum frá matarsóun, sem einkennir okkur allt of mikið á Vesturlöndum, og þar sem hagsmunir framleiðenda og hagsmunir neytenda en fyrst og fremst hagsmunir framtíðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.