152. löggjafarþing — 36. fundur
 9. feb. 2022.
Menntasjóður námsmanna, 1. umræða.
frv. TAT o.fl., 39. mál (launatekjur). — Þskj. 39.

[17:47]
Flm. (Tómas A. Tómasson) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti, hv. þingheimur, góðir landsmenn, sérstaklega námsmenn, þið sem horfið á í beinni útsendingu. Ég heiti Tómas kallaður Tommi og ég læt mig hag námsmanna varða því að sjálfur var ég námsmaður. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, um launatekjur. Flutningsmenn frumvarpsins eru ég, Tómas A. Tómasson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland og Jakob Frímann Magnússon.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:

a. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo:

Miða skal við að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu en án tillits til launatekna námsmanns eða fjölskyldu hans.

b. 4. mgr. orðast svo:

Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessa í úthlutunarreglum, þ.m.t. hámark skólagjaldalána og takmarkanir miðað við t.d. námsframvindu námsmanns en án tillits til sjálfsaflafjár námsmanns.“

Í 2. gr. segir:

„2. mgr. 26. gr. laganna fellur brott.“

Og 3. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Mennt er máttur. Menntakerfið er ein af grunnundirstöðum samfélagsins og þar spilar námslánakerfið lykilhlutverk. Námslán hafa gert fjölda fólks kleift að öðlast menntun, sem ella hefði þurft að hverfa frá námi og halda út á vinnumarkaðinn. Persónulega naut ég þess á sínum tíma að fá námslán sem gerði að verkum að ég gat klárað mitt nám 1979. Báðir synir mínir unnu eins og þrælar með sínu námi sem gerði að verkum að þeir höfðu það huggulegt og gott, réðu vel við sitt nám og stóðu sig vel þrátt fyrir mikla vinnu. Núverandi sonarsonur minn, 17 ára gamall, er að vinna mikið með námi. Og ég er að segja þetta vegna þess að ég tel ekki að vinna þurfi að trufla námsárangur námsmanna. Ég legg á það mikla áherslu að námsmenn geti unnið ótakmarkað með sínu námi því að það kostar ríkið ekkert. Það er óumdeilt að aukinn aðgangur að menntun án tillits til efnahags dregur úr stéttaskiptingu og eykur verðmætasköpun í samfélaginu, en námslánakerfið er langt frá því að vera fullkomið. Námslán eru háð ýmsum skilyrðum og lítið þarf að fara úrskeiðis til þess að námsmenn missi bróðurpart framfærslu sinnar.

Ein helsta hindrunin í vegi námsmanna sem þurfa að treysta á framfærslulán frá Menntasjóði eru reglur um skerðingar á framfærslu vegna tekna námsmanna. Hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk úthlutunarreglna skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta er sérstaklega íþyngjandi í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði. Einhleypur nemandi sem býr á stúdentagörðum getur fengið framfærslulán að fjárhæð 196.040 kr. á mánuði en þarf að greiða 99.999 kr. í leigu. Miðað við neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins má áætla að dæmigerð útgjöld námsmanns séu 244.492 kr. á mánuði. Því munar 48.452. kr. á framfærslu námsmanns og útgjöldum. Þá er frítekjumarkið aðeins 1.410.000 kr. á ári. Ef námsmaður er í fullri vinnu í þrjá mánuði á hverju sumri með 351.000 kr. í mánaðarlaun þá er svigrúmið til frekari tekjuöflunar yfir námsveturinn lítið sem ekkert, tæpar 40.000 kr. á mánuði uns tekjur byrja að hafa áhrif á framfærslu frá Menntasjóði. Vinni námsmenn með sínu námi þá borga þeir skatt, þannig að ríkið nýtur góðs af því.

Það liggur ljóst fyrir að á næstu árum, 4 til 5 árum, þurfi að flytja inn 10–15.000 erlenda starfsmenn til þess eins að sinna þörfum ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan er raunverulega orðin ein af undirstöðunum í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Námsmenn með áhuga eru bestu starfskraftar sem hótel og veitingahús geta fengið þannig að það græða allir. Við þurfum að flytja inn færri erlenda vinnukrafta og námsmenn geta þá lifað huggulegu lífi fái þeir að vinna ótakmarkað með námi. Ef við göngum út frá því að menntun sé samfélagslega arðbær fjárfesting þá eigum við að sjá til þess að menntun sé öllum aðgengileg án tillits til efnahags. Svo verulegar tekjuskerðingar, þegar grunnframfærslan er eins lítil og raun ber vitni, fela í sér mismunun á grundvelli efnahags. Nám á að vera öllum aðgengilegt en ekki aðeins þeim sem geta treyst á fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni. Ef ekki er gripið í taumana þá er hættan sú að menntun verði brátt aðeins fyrir börn hinna efnameiri, eins og var raunverulega á árum áður. Þá voru það bara efnamiklir einstaklingar sem fengu að fara út til náms, gjarnan til Kaupmannahafnar, að læra lögfræði og ýmislegt annað.

Ég legg því á það mikla áherslu að námsmenn fái að vinna eins mikið og þeir vilja og geta með námi. Þeir fá ekki bara aukapening til að lifa lífinu með námi heldur öðlast þeir styrk og þekkingu sem kemur þeim til góða þegar þeir fara út í atvinnulífið að loknu námi. Námsmaður sem alla tíð hefur unnið með sínu námi, hann er á einhvern hátt miklu vanari að vinna og er oft og tíðum miklu fljótari að setja sig inn í það starf sem hann ætlar að vinna við í framtíðinni af því að hann hefur unnið með náminu. — Ég læt þetta gott heita. Takk fyrir.



[17:55]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þrátt fyrir að um 30 ár séu liðin frá því að ég tók námslán þá hefur lítið breyst. Það er enn ætlast til þess að stúdentar lepji dauðann úr skel og búi frítt í foreldrahúsum. Enn þann dag í dag þekkjum við öll fólk sem hefur mátt sætta sig við margar vikur af ristuðu brauði og núðlum og þegar þau svo reyndu að vinna sér inn aukapening til að hrista aðeins upp í mataræðinu þá var það verðlaunað með lægri lánum og fleiri núðlum. Upphæð framfærslulána hefur sennilega hækkað að krónutölu á þessum árum, þó það nú væri, verðlag hefur rúmlega þrefaldast síðan árið 1990. Það er samt enn þá þannig að framfærslan sem námsmönnum er skömmtuð nær ekki helmingnum af þeirri upphæð sem er talin lágmark fyrir útlendinga sem vilja fá dvalarleyfi hér á landi. Sérstakt lán fyrir húsnæði er einungis 60% af leiguverðinu á ódýrasta stúdentagarðinum og helmingur af því sem ódýrasta stúdíóíbúð á nýrri stúdentagörðunum kostar.

Aðstæður stúdenta eru misjafnar. Sumt fólk er á leigumarkaði, annað er í foreldrahúsum. Þá eru mörg jafnframt búin að stofna fjölskyldu. Það þarf að taka mið af misjöfnum aðstæðum stúdenta þannig að kerfið nái yfir þau öll. Barnastyrkirnir sem Menntasjóður námsmanna býður t.d. upp á duga varla til að dekka alger grunnatriði eins og leikskólagjöld, mat og fatnað á börnin. Stúdentar sem hafa ekki sterkt fjárhagslegt bakland þurfa að vinna með námi. Ef marka má tölur frá Eurostudent er hópurinn án baklands á Íslandi mjög stór eða um 72%, því að það eru 72% íslenskra stúdenta sem vinna með námi. Það er miklu hærra hlutfall en meðal kollega þeirra á Norðurlöndum. Þá myndast hins vegar leiðindavítahringur því um leið og þau fara að vinna meðfram náminu skerðist framfærsla þeirra fljótt. Frítekjumark námsfólks í dag er einungis um 1,4 milljónir á ári þrátt fyrir hækkunina í nýjustu úthlutunarreglunum. Það er því mikilvægt að tekjutenging námslána sé afnumin eins og lagt er til í þessu frumvarpi. En við þurfum einnig að afnema þá þörf að stúdentar þurfi að vinna með skóla, enda er fullt nám full vinna. Það krefst þess að grunnframfærslan sé hækkuð verulega til að tryggja að hún dugi á meðan á námi stendur. Ef stúdentar velja svo að vinna ættu þær tekjur ekki að hafa áhrif á framfærslulánin. Hver trúir því í alvöru að fólk geti skrapað saman svo miklum tekjum yfir sumarmánuðina að þær dugi hina níu mánuði ársins?

Jafnt og þétt þurfum við því að auka hlutfall styrkja í kerfinu og draga úr því að fólk sitji uppi með lán sem þarf að borga af í áratugi. Einhver skynsamlegasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í er að stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að námi loknu. Slíkar aðgerðir er nokkuð sem væri ekki eitthvað nýtt heldur hefur sést t.d. nýlega í því íhaldssama landi Bandaríkjunum, en þar var verið að skera niður og umbreyta skuldum námsmanna og fella þær niður. Kannski getum við lært eitthvað af Ameríkönum?

Það er mikilvægt að við gerum stúdentum kleift að koma undir sig fótunum, kaupa sína fyrstu íbúð og fara erlendis í frekara nám þrátt fyrir að hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að fara í nám. Þetta viðhorf, að stúdentar þurfi að þjást með námi, lifa á núðlum, að stúdentar þurfi að vinna fullt starf á sumrin þannig að þau geti sloppið með að vinna bara smávegis með fullu námi á veturna, er skammsýnt viðhorf. Stúdentar eiga að hafa svigrúm til að einbeita sér að náminu og taka þátt í háskólasamfélaginu. Háskólanám er nefnilega ekki bara bóklestur og verkefnaskil. Það er samfélag sem á sér fáa líka. Að verja tíma með fólki með mismunandi áhugasvið úr mismunandi deildum háskólanna og kasta á milli sín hugmyndum er ávísun á frjóa hugsun og nýsköpun sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp af. Það eru því ekki bara stúdentar sem fara á mis við margt ef þeir geta ekki tekið þátt í háskólasamfélaginu heldur Ísland allt. Tímarnir hafa breyst, aðstæður hafa breyst, námskráin hefur breyst og framtíðin krefst breytinga. Lánasjóðskerfið þarf að breytast með.



[18:01]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, launatekjur, frummælandi hv. þm. Tómas A. Tómasson. Ég tek heils hugar undir þetta frumvarp, enda er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins á því. Að þurfa að leggja fram þetta frumvarp um að leyfa námsmönnum að vinna með námi, þeim sem vilja, er eiginlega stórfurðulegt. Að skerða lán, að þú fáir minna lán fyrir að reyna að vinna til að gera hag þinn betri, skerða lánveitingar. Það er ekki verið að gefa peningana, hefur lána. Hvers vegna í ósköpunum þarf að skerða peninga sem verið er að lána ef einhver vill bjarga sér og fá meiri pening með því að vinna? Þetta er eitt af þessum refsikerfum sem við höfum komið á, sem er alveg stórfurðulegt og eiginlega fyrstu verðlaun í heimsku eins og með mörg kerfi, almannatryggingakerfið og fleiri. Þetta er alveg með ólíkindum vegna þess að ef við lítum á þá sem vilja vinna, námsmenn sem vilja vinna með námi, hvað skilar það þeim? Jú, það skilar þeim tekjum og þau standa betur að vígi. Það skilar þeim líka því að þau þekkja vinnumarkaðinn. Er það ekki bara flott? Námsmenn sem fara að vinna og vilja vinna og geta unnið fá reynslu af vinnumarkaði. Eigum við að refsa þeim fyrir það? Það er bara heimska, algjör heimska.

Við erum með svo ótrúlega furðuleg og gölluð kerfi að maður verður stundum gjörsamlega orðlaus yfir því. Og eins og í öllum hinum skrýtnu kerfunum þá er líka í þessu kerfi passað upp á að hafa ekki rétta framfærslu. Það er ekki byrjað á því, eins og ætti að gera í almannatryggingakerfinu og þessu kerfi og öllum hinum, að reikna út hvað viðkomandi þarf til að lifa mannsæmandi lífi. Þegar við erum búin að finna það út þá borgum við það eða lánum það og búum jafnvel til styrki til að milda höggið þegar viðkomandi fer út á vinnumarkaðinn. En við refsum ekki þessu fólki fyrir að vera duglegt. Á sama tíma og við erum með svona refsikerfi þá öskrar atvinnulífið á fólk, það vantar fólk. Ég sá bara í gær að það vantar ekki bara fólk, það vantar húsnæði, vantar allt, á Egilsstöðum vantaði 60–100 manns í vinnu en þeir gátu ekki fengið fólk í vinnu vegna þess að það var ekki til húsnæði. Ég spyr mig: Hversu margir af þeim einstaklingum sem eru þarna að reyna að fá vinnu eru námsmenn sem hafa húsnæði á staðnum og myndu vilja vinna ef það skilaði þeim einhverjum ávinningi?

Við verðum að fara út úr þessum kassa og fara að hugsa um það hvað er eðlilegt að hafa, hafa ekki alltaf þessar girðingar og hindranir sem við erum að búa til. Vonandi verður þetta mál samþykkt. Vonandi fer ríkisstjórnin að sjá ljósið og vonandi fara þeir að taka á einhverjum af þessum heimskulegu gildrum í þessum heimsku kerfum sem þeir hafa byggt upp og komið þeim í þannig horf að þau séu byggð upp fyrir fólk til þess að hjálpa fólki.



[18:06]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég kem hér örstutt upp til að gleðjast yfir þessu frumvarpi. Enn eitt ótrúlega skerðingarmálið sem skilur í rauninni ekki neitt eftir nema allir tapa. Að hugsa sér að ríkissjóði Íslendinga skuli vera stýrt þannig að ekki sjáist ávinningurinn af því að gefa fólki tækifæri á því að vinna og skila sínum sköttum og skyldum til samfélagsins. Ég átta mig ekki á slíkri fjármálastjórnun, svo ekki sé meira sagt. Það hefur komið fram og við vitum það að verið er að mismuna einstaklingum gríðarlega, ekki bara vegna búsetu heldur vegna efnahags. Að einstaklingur sem ekki hefur öflugt bakland sem getur aðstoðað hann í námi og við annað slíkt skuli — eins og við erum að slá met í brottfalli einstaklinga úr framhaldsskólum. Við erum að horfa á slík og þvílík afföll mannauðs sem annars myndi, ef allt væri eins gott í kringum þau eins og kostur er, að öllum líkindum halda áfram út í lífið, út í samfélagið með prófskírteini sitt upp á vasann. Hvers vegna í ósköpunum, virðulegi forseti, er það látið viðgangast hér að námsmenn skuli vera skertir vegna atvinnutekna? Frítekjumarkið rétt lafir yfir frítekjumarkinu sem er búið að klína á öryrkjana frá því 2009 og aldrei verið breytt um krónu síðan þá.

Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu, ég segi bara: Miðað við ábatann, miðað við ásýndina, réttlætið og í rauninni fjárhagslegan — sérstaklega fyrst það virðist nú vera aðalmálið hér á hinu háæruverðuga Alþingi og hjá ríkisstjórninni, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, að hugsa um það hvernig krónunum skuli varið þá er kannski kominn tími til að taka utan um góð og gegn mál þar sem það kostar ekki krónu að koma til móts við fólkið, þar sem það kostar ekki krónu að auðvelda því lífið og gera því það léttbærara. Ég tek líka undir með hv. þm. Gísla Rafni því að að sjálfsögðu eigum við ekki að láta fólk sligast undan námslánum fram í rauðan dauðann.

Í lokin langar mig að nefna hér fullorðinn mann, tæplega áttræðan mann sem spurði mig: Inga, gætir þú nú kannski farið með þetta fyrir mig í ráðherrann sem ræður þessu máli og spurt hann hvort hann geti ekki fellt niður af mér afganginn af námslánunum mínum því að ég er ekki með nema 268.000 kr. á mánuði og þetta er okkur, mér og gömlu konunni minni sem er nú orðin alger sjúklingur, yfirþyrmandi erfitt. Ég vildi að ég hefði getað sagt við hann: Elsku vinur. Ég er þessi ráðherra og ég skal laga þetta fyrir strax í dag. En ég verð það kannski seinna, hver veit?



[18:09]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tómasi Andrési Tómassyni fyrir frumvarpið sem hann mælti fyrir hér áðan. Ég held að það sé ekki hægt að vera annað en sammála því frumvarpi. Tómas er glöggur maður, eins og við höfum kynnst sem höfum starfað með honum frá síðustu kosningum og í aðdraganda þeirra. Ég held að ekkert okkar hafi gert sér grein fyrir þessu og auðvitað er það hlutverk okkar hér í þessum sal að fínstilla hluti. Ástæðuna fyrir því að þetta er eins og það er má kannski rekja aftur til þeirra tíma þegar hér var óðaverðbólga, það var nánast eins og í Argentínu eða í þriðja heiminum, ég held við höfum náð ríflega 100% verðbólgu þegar verst lét, og þá voru það forréttindi að fá lán yfir höfuð. Ég trúi ekki öðru en að allir góðir og skynsamir alþingismenn muni taka þessu jómfrúrfrumvarpi Tómasar Andrésar Tómassonar fagnandi og klappa það upp í gegnum nefndir og í afgreiðslu hér í þingsal. Til hamingju, kæri Tómas.

Ég get ekki látið hjá líða að ljúka lofsorði á framgöngu og framsögu þingmanna sem hér hafa tjáð sig. Þá á ég auðvitað við flokkssystkini okkar Tómasar sem hér hafa tjáð sig, en ég er líka að tala um þá ágætu ræðumenn sem stigið hafa í stólinn hér í dag, hv. þingmenn Pírata, Gísla Rafn Ólafsson og Halldór Auðar Svansson. Nú ætla ég að viðurkenna að ég var enginn sérstakur aðdáandi Pírata þegar sá flokkur hóf göngu sína því að mér fannst hann beinast að hagsmunum tónhöfunda og tónverkamanna, að hann væri beinlínis þeim til höfuðs. En það hefur ítrekað komið mér skemmtilega á óvart hvernig þingmenn Pírata hafa stigið fram hér í þinginu. Ég veit frá fyrra kjörtímabili að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var í hópi þeirra sem leiðbeindu nýjum þingmönnum úr Flokki fólksins og kenna þeim d´Hondt-kerfið og fleira. Ég hef ekki heyrt mikið glæsilegri lokaorð fráfarandi þingmanns á Alþingi en þau sem Helgi Hrafn Gunnarsson lét út úr sér rétt fyrir lok síðasta þings, en þar varði hann síðustu mínútum sínum til að mæra hv. þm. Ingu Sæland úr Flokki fólksins og bera lof á hennar hjartnæmu störf sem blasa við öllum. Það er ekki bara eldur guðs sem brennur í gegnum þingmanninn heldur talar Inga Sæland beint frá hjartanu svo allir taka eftir og komast jafnvel við eins og hún gerði sjálf í ræðu sinni síðast þegar hún tók að ræða um börn sem alast upp við fátækt, og hún hefur beina persónulega reynslu af. Þá nefni ég hvernig Gísli Rafn Ólafsson, hv. þingmaður Pírata, varð fyrstur til að hugga þingmanninn, sýna henni samúð og samhygð og hvernig hann tekur hér undir mál okkar í Flokki fólksins líkt og Halldór Auðar Svansson hefur einnig gert. Ég vil þakka þeim af heilum hug og bæta því við að lengi býr að fyrstu gerð og að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.

Virðulegi forseti. Af því að nú líður að kvöldi getum við farið aðeins frjálslegar í lok þessa málflutnings, bara örstutt. Það gladdi mig að fræðast um það að Gísli Rafn Ólafsson er afabarn eins merkasta alþingismanns Íslandssögunnar, Einar Olgeirssonar, mikils foringja. Halldór Auðar Svansson er sonur míns fyrrum prófessors í Háskóla Íslands, Svans Kristjánssonar og Auðar Styrkársdóttur. Allt gladdi það mig þegar ég kynntist síðan þessum góðu mönnum af jafn góðu og ég lýsi hér. Það gladdi mig líka að systir Helga Hrafns Gunnarssonar er sjálf Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, einn sex þingmanna Pírata hér í þinginu, og faðir þeirra er auðvitað samferðamaður minn til margra ára, einn fremsti hljóðmeistari Íslandssögunnar, Gunnar Smári Helgason. Nú erum við komin út fyrir hefðbundið tal í ræðustól en ég gat ekki látið hjá líða, um leið og ég óska Tómasi Andrési Tómassyni hjartanlega til hamingju með þetta frábæra frumvarp, sem ég trúi ekki öðru en að við afgreiðum, að þakka hv. þingmönnum Pírata fyrir atfylgi sitt og lýk ég máli mínu þar með.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.