152. löggjafarþing — 36. fundur
 9. feb. 2022.
sjúkratryggingar, 1. umræða.
frv. IngS o.fl., 40. mál (tannlækningar og tannréttingar vegna afleiðinga meðfæddra galla). — Þskj. 40.

[18:16]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (tannlækningar og tannréttingar vegna afleiðinga meðfæddra galla). Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins; Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verði á 1. mgr. 20. gr. laganna:

a. Orðin „meðfæddra galla“ í 2. málsl. falla brott.

b. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá taka sjúkratryggingar til tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna afleiðinga meðfæddra galla.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég vísa í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi þannig að ég mæli fyrir því í annað sinn, en það náði þá ekki fram að ganga þótt furðulegt sé. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju óbreytt.

Núverandi löggjöf tryggir ekki með nægjanlegum hætti að allir þeir sem fæðast með skarð í vör eða klofinn góm njóti stuðnings frá sjúkratryggingum til að greiða niður kostnað vegna viðhlítandi tannlækninga og tannréttinga. Þetta er vegna þess að það er skilyrði í núgildandi löggjöf að tilteknar aðgerðir séu nauðsynlegar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla. Þau matskenndu viðmið sem lögð eru til grundvallar leiða til þess að réttur til niðurgreiðslu er ekki til staðar hjá öllum sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör. Hópur barna kemst nú ekki í viðhlítandi aðgerðir vegna þess að kostnaður er hár og Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði þar sem afleiðingar meðfæddra galla hjá þessum tilteknu börnum eru að mati stofnunarinnar ekki nógu alvarlegar og telst aðgerð þar af leiðandi ekki nauðsynleg.

Virðulegi forseti. Ég trúi varla að ég sé að lesa þetta, en svona er Ísland í dag. Börn sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör þurfa að ganga í gegnum miklar þrautir. Það er því óboðlegt að hið opinbera geri þeim enn þá erfiðara fyrir. Þess vegna er lagt til að sjúkratryggingar taki til tannlækninga og tannréttinga vegna meðfæddra galla óháð alvarleika þeirra og hvort aðgerð teljist nauðsynleg. Með öðrum orðum, án þess að einhver meti það hvort aðgerðin teljist nauðsynleg eftir geðþótta og eftir því hvernig hann vaknaði í morgun og meti hvort þetta sé nógu slæmt eða ekki.

Fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir setti reglugerð til að reyna að bregðast við þessu að einhverju leyti en því miður þá gengur reglugerðin ekki nógu langt. Hún var samt góð og gild tilraun til að gera hlutina betri enda var hávært ákall á þeim tíma úti í samfélaginu því að það var augljóst öllum sem fylgdust með á þeim tíma að hér voru börn sem liðu fyrir það að fæðast með klofinn góm eða skarð í vör, að fæðast með galla sem þau báðu ekki um og íslenska heilbrigðiskerfið með Sjúkratryggingar Íslands í fararbroddi hvað það varðaði, greiddi ekki fyrir aðgerðir á börnunum til að hjálpa þeim með tannréttingar eða annað, neitaði að greiða það.

Þetta frumvarp kemur hins vegar í veg fyrir að nokkur ráðherra þurfi að hugsa um það meir með reglugerð. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það meir; öllum börnum sem þess þurfa verður með þessum lögum tryggður réttur til að fá þá hjálp sem þau þurfa nauðsynlega vegna galla, vegna tannmeina, burt séð frá efnahag foreldra. Enn eitt málið, virðulegi forseti, sem Flokkur fólksins mælir fyrir hér sem lýtur að því að hjálpa þeim sem eru virkilega hjálparþurfi. Ef það er ekki einu sinni svo að ráðamenn geti tekið utan um bjargarlaus börn og hjálpað þeim þegar þau eru að vaxa og dafna, og koma með því í veg fyrir að þau þurfi að ganga inn í framtíðina í þeirri þján sem fæðingargalli þeirra hefur gefið þeim, ef stjórnvöld eru ekki bær til að hjálpa slíkum börnum til framtíðar, mikið afskaplega eru það þá bágborin stjórnvöld. Það eru stjórnvöld, virðulegi forseti, sem mega skammast sín. Þannig að við skulum vona að Flokkur fólksins þurfi ekki að mæla fyrir þessu frumvarpi í þriðja sinn. Það eru örfá börn sem við þurfum að taka utan um og búa við þessa áþján sem þetta frumvarp mun taka til og mun hjálpa þeim til framtíðar.



[18:22]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (tannlækningar og tannréttingar vegna afleiðinga meðfæddra galla). Ef maður les þetta frumvarp þá trúir maður ekki að maður sé staddur í þingsal árið 2022, í tómum sal, að mæla fyrir frumvarpi til að taka á þessum meðfæddu göllum barna sem fæðast með klofinn góm eða skarð í vör.

Ég talaði um ótrúlega heimskulegt kerfi hér áðan en ég held að það að hafa reglugerð og lögin eins og þau eru í dag sé heimsmet í vitleysu. Ég skil ekki tilganginn á bak við það að segja við barn með meðfæddan galla að gallinn hjá því, klofinn gómur eða skarð í vör, sé einhvern veginn ekki réttur. Þegar þetta mál kom hingað í þingið á sínum tíma og átti að leiðrétta það með reglugerð þá fékk maður einhvern veginn á tilfinninguna að þó að reglugerðin væri að reyna að taka á þessu þá væri það ekki hægt vegna þess að einhvern veginn fundu Sjúkratryggingar það út að þarna væri ekki nógu nákvæm lýsing á þeim galla sem barnið fæddist með. En til hvers í ósköpunum þarf að lýsa nákvæmlega þeim galla sem barnið er með? Er ekki nóg að barnið sé með galla? Og er það ekki nóg að þessi galli valdi því vanlíðan og óþægindum? Þarf að lýsa því? Nei, það þarf bara að laga það og sjá til þess að Sjúkratryggingar Íslands borgi það sem þarf að gera til að laga þennan galla hjá viðkomandi barni. Þetta er svo einfalt að við eigum ekki að þurfa að standa hér í þessum ræðustól og reyna að leggja fram frumvarp til að fá núverandi ríkisstjórn til að sjá til þess að barn sem þjáist og er veikt vegna meðfædds galla þurfi ekki að gera það. Foreldrar þess lenda í stökustu vandræðum með að fá gallann lagaðan og ef þau vilja gera það þá kostar það kannski svo miklar fúlgur fjár að þau standa ekki undir því. Hvað á þá að gera? Þarf þá barnið að þjást? Ég segi: Þetta er okkur til háborinnar skammar og það er eitthvað að í okkar þjóðfélagi ef þetta frumvarp verður ekki samþykkt og það strax.



[18:25]
Halldór Auðar Svansson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa þetta stutt enda er frumvarpið stutt. Ég ætla að taka undir það sem hér hefur verið rakið skilmerkilega. Ég hef verið að skoða lögin að baki og reglugerðir og sé ekki betur en að þetta séu óþarfa girðingar. Galli er galli og eðli málsins samkvæmt er það eitthvað sem þarf að laga. Lögin tilgreina að það þurfi að hafa verið samið um þetta hjá Sjúkratryggingum, það er annar varnagli, það fer ekki hvað sem er í gegnum það. Ráðherra er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmdina. Það að lögbinda það nákvæmlega og það þurfi að kýta um lagatúlkanir á því hvað er alvarlegt og hvað ekki er frekar absúrd. Mér finnst ekki þurfa að hafa fleiri orð um það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.