152. löggjafarþing — 42. fundur
 24. feb. 2022.
stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð, 1. umræða.
frv. ÁLÞ o.fl., 74. mál (stuðningur til öflunar íbúðarhúsnæðis). — Þskj. 74.

[14:16]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frumvarp um breytingu á stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð. Þannig er lagt til að rétturinn til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup, heldur verði einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði. Jafnframt er lagt til að svokölluð hlutdeildarlán standi þeim til boða sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár í stað fimm ára eins og nú gildir.

Þessi tillaga að lagabreytingu er viðleitni til að koma til móts við alla þá sem fastir hafa verið á leigumarkaði svo árum skiptir, kannski vegna tímabundinna, persónulegra erfiðleika eða vegna þess að hagkerfið tók einhvers konar kollsteypu, eins og t.d. þá sem við stöndum frammi fyrir núna vegna afleiðinga heimsfaraldurs. Þetta var ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í lífskjarasamningunum 2019 en náði ekki fram nema að hluta, að því leyti að í lögum um hlutdeildarlán er kveðið á um að þau nái einnig til þeirra sem ekki hafa átt íbúð í fimm ár. En þeir sem hafa misst heimili sitt, hvort sem því hafa fylgt gjaldþrot eða ekki, standa yfirleitt á núllpunkti og eru þannig í svipaðri stöðu og þeir sem eru að kaupa sitt fyrsta heimili. Þess vegna ættu sömu úrræði að standa til boða fyrir fólk sem misst hefur heimili sitt og fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð, og jafnvel fleiri því að leiða má líkur að því að fólk sem hefur átt og misst eign hafi að jafnaði fyrir stærri fjölskyldu að sjá en fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta sinn. En af hvaða ástæðu sem fólk er fast á leigumarkaði þá verður það að eiga möguleika á því að komast af honum. Svo eru líka vítin til að varast þau og við verðum að læra af bankahruninu 2008. Frumvarpið er ekki síst lagt fram vegna þeirra fjölmörgu einstaklinga og fjölskyldna sem misstu heimili sín á árunum eftir hrun. Þótt á því kunni vissulega að vera undantekningar var þar um einstaklinga og fjölskyldur að ræða sem báru enga sök á aðstæðunum sem þau lentu í heldur voru fórnarlömb aðstæðna þar sem þau bjuggu ekki yfir öðrum upplýsingum en þeim sem almenningi voru birtar. Þau gátu ekki séð fyrir þær efnahagslegu, fjárhagslegu hamfarir sem þá urðu.

Þótt sumir hafi náð betur en aðrir að koma bát sínum aftur á réttan kjöl hefur stór hópur aldrei náð að koma ár sinni fyrir borð síðan og er fastur á leigumarkaði, enn að gjalda fyrir afleiðingar hruns sem sumir vilja ræða sem sögulegan viðburð sem sé svo löngu liðinn að hann taki varla að ræða. Svo er ekki. Bankahrunið 2008 er enn óuppgert og fjölmargir búa við afleiðingar þess á hverjum degi. Úr þeim hópi sem misstu heimili sín á árunum eftir hrun hafa fjölmargir átt erfitt með að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Þessir sömu einstaklingar hafa ekki áður getað nýtt úrræðin sem lögin fela í sér, enda voru þau fyrst kynnt árið 2016 og tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2017 og náðu, sem fyrr segir, aðeins til fyrstu kaupenda.

Við verðum að sjá til þess að afleiðingar þeirra kollsteypna sem hagkerfið á vissulega eftir að taka með vissu millibili, eins og t.d. heimsfaraldurinn er dæmi um, valdi saklausum fórnarlömbum aðstæðna ekki jafn langvinnum erfiðleikum og afleiðingar bankahrunsins 2008 hafa gert. Það er vel þekkt hversu erfitt getur verið fyrir fólk á leigumarkaði að leggja fé til hliðar fyrir útborgun í íbúð. Flestir eiga nóg með að greiða af sínu húsnæði og á leigumarkaði er fólk sem almennt hefur ekki mikið á milli handanna og getur því illa eða ómögulega lagt fyrir. Þar við bætast þær gríðarlegu hækkanir á leigu sem þegar eru orðnar og eru einnig fyrirsjáanlegar á næstu mánuðum. Þannig er ljóst að það verður sífellt erfiðara fyrir fólk á leigumarkaði að leggja nokkuð fyrir. En segjum sem svo að einhverju þeirra tækist að leggja fyrir 100.000 kr. á mánuði, sem er ólíklegt að nokkurt þeirra geti og væri virkilega vel af sér vikið. 100.000 kr. á mánuði væru 1,2 milljónir á ári. 1,2 milljónir eru ekki einu sinni upp í nös á ketti á húsnæðismarkaði í dag og til að sá sparnaður skili einhverju þyrftu að líða 8–10 ár miðað við fasteignaverð í dag og á þessum árum myndi húsnæðisverðið sjálfsagt hækka enn frekar. Í stuttu máli er þetta fólk í vonlausri stöðu.

Annað sem þyrfti að gerast, sem þetta frumvarp nær reyndar ekki til en mér finnst ástæða til að nefna hér því að það er stórmál fyrir stóran hóp á leigumarkaði, er að slakað yrði á eiginfjárkröfum fyrir þann hóp því að það er algerlega út í hött að fólk sem staðið hefur undir dýrri leigu svo árum skiptir standist ekki greiðslumat til að standa undir afborgunum lána sem eru jafnvel tugum þúsunda lægri en leigan sem viðkomandi hefur þurft að greiða. Það er hins vegar annað mál sem ekki er tekist á við í þessu máli enda kannski frekar á færi fjármálastofnana en löggjafans, því að núgildandi löggjöf girðir ekki fyrir það. Mér finnst engu að síður ástæða að nefna þetta hér í ræðustól hins háa Alþingis því að þetta hefur verið ein helsta hindrunin sem fólk á leigumarkaði hefur staðið frammi fyrir þegar það hefur reynt að lækka húsnæðiskostnað sinn og bæta þannig hag sinn og fjölskyldunnar.

Með breytingu þessari er sem fyrr segir ætlunin að koma til móts við einstaklinga sem ekki hafa nýtt úrræðið áður og hafa ekki átt íbúð í þrjú ár þrátt fyrir að ekki sé um fyrstu íbúðarkaup að ræða. Þar á meðal eru margir einstaklingar, eins og áður hefur verið sagt, sem misst hafa húsnæði sitt í kjölfar bankahrunsins.

Í greinargerð frumvarpsins segir: Með frumvarpi þessu er lagt til að rétturinn til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup, heldur verði einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði. Ljóst er að stór hópur fólks missti eigið húsnæði á árunum eftir hrun og hafa fjölmargir átt erfitt með að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Þessir sömu einstaklingar hafa ekki áður getað nýtt úrræðin sem lögin fela í sér enda voru þau fyrst kynnt árið 2016 og tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2017. Það er vel þekkt hversu erfitt getur verið fyrir fólk á leigumarkaði að ná að leggja fé til hliðar fyrir útborgun í íbúð. Með breytingu þessari er ætlunin að koma til móts við einstaklinga sem ekki hafa nýtt úrræðið áður og ekki átt íbúð í þrjú ár, þrátt fyrir að ekki sé um fyrstu íbúðarkaup þeirra að ræða.

Í þessu frumvarpi eru nokkur atriði kjarni málsins; að fólk sem hefur verið á leigumarkaði í þrjú ár eða lengur njóti sömu réttinda og þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, að fólk sem hefur verið á leigumarkaði í þrjú ár eða lengur njóti skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúð og einnig er lagt til að sá tími sem fólk hefur verið á leigumarkaði áður en það öðlast rétt á hlutdeildarlánum verði styttur úr fimm árum í þrjú. Annað er í raun ekki lagt til. Erfiðleikar þeirra sem eru á leigumarkaði eru nægir og í raun svo miklir að þetta mun ekki einu sinni gagnast öllum sem þar eru, en þó allmörgum. Þeim sem eiga möguleika á að skapa sér betra líf eigum við að sjálfsögðu að hjálpa og styðja til þess því að það er sameiginlegur hagur okkar allra.



[14:24]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins styðjum heils hugar þetta frumvarp og stöndum heils hugar á bak við það. Þetta er mjög þarft frumvarp vegna þess að við vitum hversu stór hópur fólks fór illa út úr bankahruninu á sínum tíma. Ef við hugsum til baka þá hljótum við að átta okkur á því að það er eitthvað stórfurðulegt og eitthvað heimskulegt og eitthvað stórlega bogið við það ef hægt er að segja við fólk: Þú getur borgað leigu, 200.000–250.000 kr. á mánuði. Og fjölskylda borgar það kannski í þrjú, fjögur, fimm, sex ár og áttar sig á því að hún getur keypt íbúð og getur tekið lán fyrir því og þarf að borga 100.000 kr. afborgun af láninu, en þá eru allar dyr lokaðar. Það er svo mikil heilbrigð skynsemi í því að fara þessa leið að það hlýtur að vera eitthvað bogið við það kerfi sem segir ekki: Já, gerðu þetta. Þú ert búinn að sanna það að þú getur verið á leigumarkaði og sannað það að þú getur borgað þessa tilteknu leigu, gífurlega háa leigu sem er kannski allt upp í 40, 50 eða 60% af ráðstöfunartekjum, og núna, sem er skynsamlegt, ferðu niður í 20–30% af ráðstöfunartekjum. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin hefur alltaf sagt, að það eigi að stefna að því. En hvernig stefnir hún að því? Með þessum hlutdeildarlánum? Hlutdeildarlánin hafa algerlega misst marks vegna þess að það eru engar íbúðir til. Við erum að tala um íbúðir í dag þar sem fermetrinn er kominn yfir milljón. Klikkunin er algjör. Það er barist um hverja einustu íbúð og það liggur við að það megi þakka fyrir að einhver nái íbúðinni áður en hún er komin 10 milljónum yfir uppsett verð.

Allt þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og í boði ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga í dag. Það er löngu tímabært að taka á þessum málum. Eitt skrefið í því og stórt skref væri t.d. að samþykkja þetta frumvarp. Það er líka öfugsnúið í þessu kerfi að eingöngu þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð mega nýta sér séreignarsparnaðinn. Það hefur alltaf verið besta fjárfestingin sem fólk getur farið í að fjárfesta í íbúð á Íslandi. Það á eiginlega að vera réttur alla en í dag, því miður, er það bara réttur þeirra sem eru efnaðir og hafa virkilega getu til þess. Það skekkir líka myndina fyrir þá einstaklinga eða börn fólks sem lenti t.d. í hruninu eða þá sem eiga ekki foreldra sem geta hjálpað þeim að kaupa íbúð. Vonlaust dæmi. Þú segir ekki við ungmenni í dag: Nú skalt þú bara að leggja fyrir og spara til að kaupa þér íbúð. Ég heyrði í einum sem sagði um daginn að ef hann ætlaði að reyna þetta þá væri það bara gjörsamlega vonlaust dæmi. Það sem viðkomandi gat sparað á einu ári fyrir íbúð sem hann hafði augastað á — þá var hún búin að hækka þrefalt. Hann sá aldrei fram á að hann gæti þetta í náinni framtíð nema hann fengi utanaðkomandi hjálp, hlutdeildarlán myndi dekka millibilið eða hann gæti leitað til foreldra sinna og þeir myndu dekka millibilið. En það hafa bara ekki allir þessi tækifæri og þar af leiðandi verðum við að taka á þessu.

Það er mjög eðlilegt og fullkomlega rétt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að ef þú hefur verið á leigumarkaði og sýnt að þú getur staðið undir hárri leigu, jafnvel gífurlega hárri leigu, í þrjú ár, þá á að vera sjálfsagt að geta gengið inn í þetta. Ef þú getur ekki gert þetta hjá bönkunum þá áttu að geta gengið inn í opinbert kerfi og fengið aðstoð til að fylgja þeirri skynsemi að fara úr 200.000 kr. eða 250.000 kr. afborgun niður í 100.000 kr. afborgun. Þetta er svo mikið heilbrigði skynsemi að það er með ólíkindum að við skulum þurfa að standa hér á Alþingi og reyna að fá svona hluti gerða. Það sýnir okkur að ríkisstjórnir undanfarinna ára og ríkisstjórnin núverandi er gjörsamlega vanhæf til að taka á þessum málum. Þá spyr maður sig: Fyrir hverja er þessi ríkisstjórn? Hún er a.m.k. ekki fyrir þorra almennings, ekki fyrir venjulegt fólk. Hún virðist eingöngu vera fyrir fyrirtæki, banka og fjármálastofnanir. Þessu þarf að breyta. Ég vona heitt og innilega að ef þessi ríkisstjórn breytir þessu ekki þá muni almenningur sjá til þess að ríkisstjórnin verði sett frá og þeir komist að sem vilja virkilega breyta þessu kerfi.



[14:29]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Húsnæðiskerfið eins og það er í dag er ansi brotið. Það er brotið fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn. Það er brotið fyrir þá sem eru að reyna að komast aftur í eigið húsnæði eftir að hafa misst húsnæði. Það þarf að sjálfsögðu að gera breytingar eins og þær sem lagðar eru til í þessu frumvarpi, að sérstaklega þeir sem misst húsnæði fái tækifæri til að koma sér aftur inn í kerfið. En eins og hv. þingmaður benti á rétt áðan þá virka hlutdeildarlánin ekki, sem er eitt af því sem átti að vera fyrir þá sem ættu erfitt með að kaupa sér húsnæði og væru að kaupa í fyrsta sinn. Þau virka alla vega ekki á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreinlega skortur á lausnum fyrir fólk sem vill komast af leigumarkaðnum. Við hljótum að geta fundið leiðir sem virka. Það er búið að prófa hlutdeildarlán, þau virka ekki. Það er búið að prófa ýmislegt, það virkar ekki. Við hljótum að geta fundið aðrar leiðir sem breyta kannski einhverju af því sem virkar. Ef það er vilji til þess þá geta stjórnvöld fundið leiðir en til þess þurfa þau að vakna upp og hlusta á það fólk sem er að þjást á leigumarkaðnum. Ég vona að sem flestir sem eru á leigumarkaði og eru að reyna að kaupa sér sitt fyrsta húsnæði, eru t.d. að reyna að flytja út frá pabba og mömmu, láti ríkisstjórnina að heyra í sér.

Ég er ekkert endilega viss um að það að nota séreignarsparnað sé sniðug lausn vegna þess að við megum ekki gleyma fyrir hvað séreignarsparnaðurinn er. Hann er ætlaður til þess að við nýtum hann þegar við verðum aðeins eldri og förum á ellilaun. Þannig er hann hugsaður, sem viðbót við þann lífeyri sem við fáum. Það er nú þannig að ef þú tekur milljón út þegar þú ert 22 ára, 23 ára, út úr slíkum sparnaði þá tapar þú tugum milljóna í vöxtum, vaxtavöxtum og verðbólgu og öllu sem hækkar séreignarsparnaðinn þangað til þú ert orðinn 67 ára. Þá erum við að vissu leyti að bíta af okkur fótinn til þess að geta keypt okkur húsnæði. Jú, við verðum að vona að húsnæðið sem við búum í hækki, en við þurfum enn þá húsnæði þegar við erum orðin gömul. Það er ein lausn að nota séreignarsparnað og meðan við höfum enga aðra þá ættum við að vera með hana. En við ættum að vera tilbúin í að hugsa upp leiðir sem bíta ekki fótinn af okkur í ellinni en gefa okkur kost á að búa í eigin húsnæði. Þar þurfum við að hugsa um önnur módel. Er svokallað búsetumódel að virka eða einhver önnur félagsleg módel? Við þurfum bara að vera með opinn huga og vera tilbúin að gera þetta. Ef ríkið er ekki til þá verðum við bara að líta til bankanna og félagasamtaka og finna leiðir. Við lifum við ákveðna fákeppni hér á landi. Við erum bara með þrjá banka. Þeir geta stýrt þessu eins og þeir vilja. Það er orðið auðveldara núna að opna fyrir fleiri banka, miklu auðveldara að búa til fleiri banka í dag. Kannski verðum við bara að gera eins og afi minn heitinn gerði þegar olíuverð fór upp úr öllu valdi, hann stofnaði olíufélag og flutti einn farm til Íslands og restin af olíufélögunum lækkaði olíuverðið. Stundum þarf maður bara að hugsa út fyrir boxið.

Ég hef fulla trú á því að ef fólk lætur heyra í sér og lætur stjórnvöld vita að það sé ekki ásættanlegt að vera fast á þeim leigumarkaði sem er í dag þá hljóti stjórnvöld að hlusta. Þau hljóta að hlusta vegna þess að þau hugsa alltaf um næstu kosningar. Ef þau sem eru á leigumarkaði og þau sem vilja flytja út frá pabba og mömmu, þau sem vilja komast í eigin íbúð, fá engar lausnir frá ríkisstjórninni þá verður hún ekki kosin aftur. Það er það eina sem þau hlusta á. Látum heyra í okkur.



[14:35]
Kolbrún Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir allt sem hér hefur fram komið sem lýtur að því að hjálpa þeim sem misst hafa heimili sitt til að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Þetta er gott frumvarp, það er milt, það er sanngjarnt, það er skýrt. Í rauninni má furðu sæta að ríkisstjórnin skuli ekki vera búin að koma með sambærilegt úrræði og jafnvel eitthvað enn þá betra, einfaldlega til að láta það verða að raunveruleika að þeir sem misst hafa sitt húsnæði á einhverjum tímapunkti, ég tala nú ekki um í kjölfar hrunsins, eigi þess kost að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn með einhverjum ráðum. Það er hægt að fara ótal margar leiðir. Hér eru nefndar nokkrar en það er fleira sem mætti koma til því að þetta er ekkert auðvelt mál. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur áðan þá er ekki einu sinni víst að þessir liðir sem nefndir eru í frumvarpinu verði til þess að koma stórum hópum aftur út á fasteignamarkað. En ef við horfum til síðustu ára og hrunsins og áranna í kjölfar hrunsins og þar á eftir þá hefur þessi hópur bara gleymst. Ég hitti marga í mínu starfi þá sem sálfræðingur og ræddi við mörg börn, hverra foreldrar höfðu misst húsnæðið, og það er átakanlegra en hægt er að lýsa með orðum hvað gerðist í rauninni á þessum tíma, afleiðingarnar sem hrunið hafði á nákvæmlega það að eiga heimili, að eiga þak yfir höfuðið. Það væri svo eðlilegt að ríkisstjórn þessa lands myndi taka utan um þennan hóp og hlúa að honum sérstaklega, en í þeim hópi eru margir hverjir eru láglaunafólk, efnalítið fólk. Og af hverju? Vegna þess að það er fast í þeim viðjum að greiða kannski stóran hluta launa sinna í leigu. Nú eru bara margir þannig staddir að þeir fá kannski 500.000 kr., jafnvel minna, í laun á mánuði en greiða kannski 250.000 kr. í leigu. Hvernig í veröldinni á að vera hægt að leggja til hliðar einhverjar krónur við þessar aðstæður þegar það á eftir að borga mat og klæði og allt sem þarf að greiða til að lifa af mánuðinn? Það er útilokað mál. Svo ekki sé minnst á þann hóp sem fær undir 440.000 eða 400.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur og greiðir nánast helming af því í leigu, ef ekki meira, og getur ekki annað vegna þess að annars væri það fólk á götunni. Svona er nú staðan hjá ótrúlega mörgum. Ég lét reikna þetta út fyrir Reykjavík ekki alls fyrir löngu þegar ég var með tillögu í borgarstjórn um að börn efnaminnstu foreldranna fengju fríar skólamáltíðir. Við erum að tala um hátt í 8.000 börn bara í Reykjavík sem eiga foreldra sem eru með undir 440.000 kr. í laun á mánuði. Þannig er það nú. Þetta er ekkert grín og þetta nýta auðvitað þeir sem eiga húsnæði og leigja það, þeir vita að þeir munu alltaf geta fengið leigjendur. Það er ekkert flóknara en það að ef þú greiðir ekki þessa leigu þá getur þú bara farið eitthvert annað vegna þess að það er röð af fólki sem vill leigja og verður að leigja af því að það þarf auðvitað að eiga einhvers staðar heima.

Þetta er í rauninni mjög sorglegt mál, finnst mér, af því að við búum í þessu gjöfula landi, erum fámenn þjóð og það vantar ekki peningana. Þetta er allt spurningin um hvað á að gera við þá og hvernig þeim er útdeilt og hvernig forgangsröðin er. Við vitum hvernig þessi ríkisstjórn er, sem er búin að vera við völd ansi lengi, því miður setur hún ekki þennan hóp í forgang, aldeilis ekki. Það er eitthvað allt annað sem skiptir þessa ríkisstjórn máli. Hér er aðeins verið að tala um það að fólk geti lifað mannsæmandi lífi og átt öruggt heimili sem það veit að það getur verið í af því að það er skráð fyrir því sjálft, er ekki upp á náð og miskunn að greiða háa leigu og er jafnvel í ótryggu húsnæði. Leiguhúsnæði er náttúrlega aldrei tryggt, að vera í húsnæði sem nafnið manns er skráð fyrir.

Ég veit ekki hvort hægt er að vera bjartsýn á að frumvarp eins og þetta fái einhverja hlustun hjá þessari ríkisstjórn. Það er nú einu sinni þannig að vera í minni hluta. Hér eru nú ekki margir úr meiri hlutanum að fylgjast með nema þeir séu að því annars staðar. En maður skyldi halda að ríkisstjórnin myndi vilja að allir í þessu landi hefðu öruggt skjól og gætu farið að sofa í þeirri vissu að daginn eftir vöknuðu þeir áhyggjulausir, alla vega hvað varðar þessar grunnþarfir sem eru fæði, klæði og húsnæði. Ég þakka fyrir þetta frumvarp sem hér er lagt fram, mér finnst það milt, sanngjarnt, og það ætti auðvitað að verða samþykkt skilyrðislaust.



[14:41]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa komið og stutt þetta frumvarp; Gísla Rafni Ólafssyni, Kolbrúnu Baldursdóttur og Guðmundi Inga Kristinssyni. Mig langar líka að snerta á nokkrum hlutum sem komu fram í málflutningi þeirra. Það er alveg rétt sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson benti á, séreignarsparnaðurinn er til efri áranna. Ég hef margoft mótmælt því að þetta sé lausn stjórnvalda, að nota séreignarsparnaðinn í þetta. Ég er í raun alfarið á móti því vegna þess einmitt að þetta á að vera til efri áranna og við eigum í þessu þjóðfélagi, eins og öðrum vestrænum þjóðfélögum, að geta bæði lagt fyrir til efri áranna og eignast húsnæði.

Málið er hins vegar að við erum bara á mjög brengluðum húsnæðismarkaði og það þarf einhvern veginn að plástra hann. Við náum ekki að skera hann upp, sérstaklega ekki þegar við erum í stjórnarandstöðu, og gera það sem þyrfti kannski að gera. En þetta er lausn sem var í boði fyrir fólk til að kaupa sína fyrstu íbúð og þetta er það eina sem við höfum, sem við getum hugsanlega reynt að gera fyrir þá sem eru fastir á leigumarkaði til að auðvelda þeim leiðina inn. Þetta er það sem við erum að reyna að gera. Svo verðum við líka að leggja fram frumvörp sem eiga þó a.m.k. kannski einhverja von um að verða samþykkt af því að þau eru, eins og hv. þm. Kolbrún Baldursdóttir orðaði það, mild og sanngjörn. Þess vegna leggjum við þetta fram.

Það er líka alveg rétt að hlutdeildarlánin hafa engan veginn virkað af því að það eru einfaldlega ekki til neinar íbúðir. Og þá komum við náttúrlega að því hvílíkt brjálæði fasteignamarkaðurinn í dag er. Þannig að eins og staðan er núna, þó að þetta frumvarp væri samþykkt, þá myndi það því miður sennilega ekki gera mikið fyrir mjög margt af þessu fólki.

Ég tala náttúrlega svolítið mikið um hrunið og það eru margir sem virðast halda að það sé löngu liðið. Mig langar að segja í því sambandi að það var ekki fyrr en 2019, sem sagt fyrir rétt rúmum tveimur árum, sem mér tókst að semja við bankann í sambandi við mitt húsnæði. Það gekk hreinlega upp af því að ég neitaði að flytja út þegar leigusamningur rann út, og þá fyrst fóru þeir að tala við mig. Þannig voru aðgerðirnar sem fara þurfti í. Ég hef stundum orðað það þannig: Þetta gerir ekkert venjulegt fólk. Fólk flytur út þegar leigusamningur rennur út. Við neituðum að gera það og þar með fór bankinn að tala við okkur. Ef við hefðum ekki neitað að flytja út þá væri ég allslaus í dag. Ég hefði gengið allslaus út úr þessu, algerlega.

Þetta þýðir nákvæmlega það að hrunið er ekki fjarlæg fortíð fyrir þá sem lentu í hakkavélum bankanna. Þetta er bara veruleiki og mjög margir í þjóðfélaginu lifa með afleiðingum þess á hverjum einasta degi. Þannig að í þetta þarf að fara, eins og það sem hv. þm. Kolbrún Baldursdóttir vitnaði í, að í könnun sem hún lét gera hjá Reykjavíkurborg hefði komið í ljós að 8.000 börn í Reykjavík byggju við heimilistekjur undir 440.000 kr., þ.e. að á heimilum 8.000 barna í Reykjavík væru tekjur á heimilinu undir 440.000 kr. Það væri gaman að heyra hvað fjármálaráðherra með öll sín fínu meðaltöl segði við þessari tölu.

Ég ætla líka að benda á annað: Börn eru ekki fjárráða, þannig að það má segja að börn geti í sjálfu sér ekki verið fátæk. Þau geta lifað við fátækt en þau lifa við fátækt af því að foreldrar þeirra eru fátækir. Foreldrar þeirra eru fastir á leigumarkaði. Og hvað skyldi þetta nú vera stór hópur foreldra? Hluti þessara barna er örugglega hjá einstæðum foreldrum, en engu að síður eru þetta alla vega 10.000, jafnvel upp í 16.000 foreldrar. Það er bara staðreyndin í dag. Og það sem við höfum verið að fara fram á hjá Flokki fólksins er að enginn hafi minna en 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, sem er reyndar fyrir löngu orðin allt of lág tala en samt náum við því ekki í gegn eða höfum ekki gert hingað til.

Þannig að já, það er eiginlega vonlaust fyrir fólk að leggja til hliðar í dag. Ég get líka sagt að ég hef örlítið verið að fylgjast með fólki núna sem er búið að vera að reyna að eignast íbúð á fasteignamarkaði, að kaupa sér fasteign þar, og það hefur gerst núna í þrígang, þau eru búin að bjóða í fimm íbúðir, að einhver hefur labbað inn, hvað á ég að segja, með poka af peningum og borgað á borðið. Þetta er veruleikinn í dag. Hvernig á fólk að keppa við það? Þannig að ég vona innilega að þetta milda og sanngjarna frumvarp, svo ég vitni í hv. þm. Kolbrúnu Baldursdóttur, nái fram að ganga. Það mun samt aldrei verða meira en plástur á stöðuna eins og hún er.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.