152. löggjafarþing — 44. fundur
 1. mars 2022.
eignarréttur og erfð lífeyris, fyrri umræða.
þáltill. IngS o.fl., 52. mál. — Þskj. 52.

[19:18]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris. Ég kom pínulítið inn á það áðan þegar við vorum að tala um lífeyrismálin, lífeyrissjóðina okkar. Með mér á þessari tillögu er Sæland sextektinn góði; hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2022 sem hafi að markmiði að tryggja eignarrétt og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyri og að heimila erfð lífeyrisréttinda.

Frumvarpið tryggi m.a. að:

a. fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður,

b. við andlát gangi lífeyrisréttindi að erfðum til maka og barna að fullu; erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út eða hvort réttindin flytjist til erfingja.“

Í greinargerð með tillögunni segir að tillaga þessi hafi verið lögð fram á 151. löggjafarþingi og ég er að mæla fyrir þessum sjálfsögðu eignarréttindum í annað sinn. Ég þarf víst ekki að taka fram að tillagan náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi.

Þegar lífeyriskerfinu var komið á fót í kjölfar kjarasamninga árið 1969 var almennur sá skilningur launafólks að skyldubundin gjöld í lífeyrissjóði myndu tryggja launafólki eignarrétt þeirra á lífeyrisréttindum, en svo sannarlega hefur öldin verið önnur og tíminn leitt allt annað í ljós. Síðan þá hefur eignarréttur fólks á lífeyri ítrekað verið takmarkaður og skilyrtur, ýmist með lögum og reglugerðum eða samþykktum lífeyrissjóðanna sjálfra.

Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóða mestu. Ég var einmitt að ræða hvernig stjórnirnar eru skipaðir í þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir rétt áðan. Lífeyrissjóðirnir hafa gert mistök í fjárfestingum og stundum hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélagana. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir. Sjóðfélagi sem er ósáttur við rekstur lífeyrissjóðs hefur jafnan ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði um hvaða fulltrúi verkalýðsfélags verði skipaður í stjórn lífeyrissjóðsins eða að skipta um lífeyrissjóð. Þá sitja fulltrúar atvinnurekenda tíðum einnig í stjórnum lífeyrissjóða en gagnvart þeim hefur sjóðfélagi almennt engin úrræði. Einhverjir lífeyrissjóðir hafa sett samþykktir sem heimila kjör stjórnarmanna á aðalfundi þar sem sjóðfélagar geta greitt atkvæði. Þeir eru þó undantekning frá reglunni. Þá er oft misbrestur á að sjóðfélagar séu upplýstir um þau réttindi sem þeir hafa gagnvart stjórn sjóðsins á grundvelli sjóðsaðildar.

Það er í rauninni alveg sama hvert litið er. Þetta er næstum eins og almannatryggingakerfið, þetta er svo ruglað kerfi. Það er nú bara þannig. Fyrst er okkur talin trú um það árið 1969 að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að spara til efri áranna, nú séum við aldeilis að leggja fyrir og þrátt fyrir það verðum við ekki skert hjá almannatryggingum. Við séum að ávinna okkur ákveðnar greiðslur þaðan þegar við verðum komin á eftirlaun. En sannarlega er öldin önnur, virðulegi forseti.

Hinn góði formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Ragnar Þór Ingólfsson, sagði mér á sínum tíma að lögum um lífeyrissjóði hefði verið breytt vel yfir 100 sinnum bara frá efnahagshruninu 2008. Ég vildi frekar halda að það væri frá 1969 því að þetta eru allt of margar breytingar. En þeir vilja engu breyta þegar ég mæli fyrir frumvörpum um breytingar á lífeyrissjóðum. Það er athyglisvert. Þær eru ekki nógu spennandi, þær breytingar sem Flokkur fólksins mælir fyrir, vegna þess að þær eru allar til hagsbóta fyrir eigendur sjóðanna sjálfa. Við erum alltaf að reyna að tryggja eignarrétt þeirra sem eiga sjóðina. Það er ekki vinsælt, virðulegi forseti, eins og sést. En hvað um það, ég ætla ekki að halda mikið meira áfram um þetta en ætlaði einfaldlega að benda á að það er ekkert eðlilegra, samanber eignarréttarákvæði stjórnarskrár, 72. gr., að þegar þú hefur verið lögþvingaður til að greiða eitthvað og þér er talin trú um eitthvað sérstakt, eins og í þessu tilviki að þú sért að ávinna þér einhvern rétt og þetta sé þinn sparnaður og þetta séu þínir peningar, þá hljótum við að vera í góðri trú um að það sé eitthvað að marka það. Ríkisvaldið geti ekki alltaf komið til að krukka meira og meira í því og taka meira og meira til sín eða fara meira og meira frjálsum höndum um eignir okkar í sjóðunum, eins og við þekkjum svo vel. Enda töpuðu lífeyrissjóðirnir um 600 milljörðum, sem við vitum um, í efnahagshruninu 2008. Það er ekki allt slæmt, auðvitað hafa ýmsar fjárfestingar líka gengið vel. En það kaldhæðnislega við það er að við greiðum í sjóðina og svo biðjum við um lán, því að við ávinnum okkur ákveðinn rétt, og þá fáum við lánaða eigin peninga á okurvöxtum. Þetta er kaldhæðni, virðulegi forseti. Mikið afskaplega er þetta kaldhæðnislegt. Mikið er þetta öfugsnúið allt saman.

En grundvallaratriðið er þetta: Það sem við höfum lagt til, hver einasta króna, á skilyrðislaust að falla undir eignarrétt 72. gr. stjórnarskrár. Hún á skilyrðislaust að vera okkar uppsafnaði sjóður til efri ára og okkar til að flytja til eftirlifandi erfingja. Við eigum að geta skilið eftir okkur a.m.k. það sem við höfum unnið okkur inn í sveita okkar andlits, aflað tekna með eigin höndum. Hvernig í ósköpunum er hægt að gera þetta, virðulegi forseti? Hvernig er hægt að svipta okkur svona eigin fé? Það væri gaman að sjá hvernig sægreifarnir brygðust við því ef við ætluðum aðeins fá að klóra í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sem er fiskurinn í kringum landið, með því að segja: Nei, nú fáið þið ekki að veiða meira, við ætlum að skila kvótanum heim. Mikið rosalega held ég að það myndi syngja hátt í kórnum þá. Og það er alveg á hreinu að þá myndu stjórnvöld sem hér sitja stíga fast inn í til að passa upp á hagsmuni þeirra sem hafa eignað sér auðlindir okkar í kringum landið.

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega algerlega lágmark að við fáum að ráðstafa eigin fé eins og ég tel það fé vera sem við höfum lagt inn í lífeyrissjóði í gegnum starfsævina. Það er sanngjarnara, réttlátara og eðlilegra en nokkuð annað að eignarréttur okkar sé virtur og að við fáum að standa keik eftir að hafa greitt í þessa lífeyrissjóði, keik en á sama tíma pínulítið súr yfir því að hafa ekkert haft um það að segja, vera bara stillt upp við vegg og sagt við okkur: Heyrðu, góði minn, nú bara borgar þú í lífeyrissjóð hvort sem þér líkar betur eða verr, vegna þess að stjórnvöld sögðu það, vegna þess að við ætlum að taka af þér sjálfstæðið og við ætlum að segja þér hvað þú átt að gera, takk fyrir.

Að lokum, virðulegi forseti, áður en ég æsi mig enn þá meira út af þessu — og það er nóg eftir, það er svo gaman hjá Flokki fólksins í dag á hinu háæruverðuga Alþingi í þessum fallegasta ræðustóli landsins — ætla ég að vísa þessu góða og gegna máli til hv. efnahags- og viðskiptanefndar um leið og ég vonast til þess að ég þurfi ekki að mæla fyrir því í þriðja sinn og ekki vegna þess að það verði dottið upp fyrir heldur vegna þess að það verður samþykkt á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[19:27]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessarar tillögu til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris. Markmið tillögunnar er mjög skýrt, þ.e. að tryggja eignarrétt og ráðstöfunarrétt á lífeyri fólks. Þetta mál snýst um ákveðna þætti sem eru gríðarlega mikilvægir. Hver á lífeyrisgreiðslurnar, hver á fjármunina sem starfsmenn greiða í lífeyrissjóð? Er það vinnuveitandinn, er það stéttarfélagið eða eru það starfsmennirnir? Stéttarfélögin og vinnuveitendur sitja í stjórn lífeyrissjóðanna og ráðstafa þessum fjármunum til fjárfestinga og ávöxtunar. Starfsmenn geta vissulega haft áhrif á þetta óbeint í gegnum stéttarfélag sitt, þeir sem sitja þar fyrir hönd stéttarfélagsins, en það breytir því ekki að það á fyrst og fremst að vera starfsmaðurinn, sjóðfélaginn, sem á þessar greiðslur. Þetta eru greiðslur sem hann borgar af sínu fé, sínu sjálfsaflafé, til lífeyrissjóðs og það er hann sem á að hafa völdin yfir fjármununum, það er hann sem á að ráðstafa þeim. Einnig er vert að spyrja sig þessarar sjálfsögðu spurningar sem allir eiga að vita svarið við: Hver á að njóta góðs af lífeyrisgreiðslunum? Jú, það eru starfsmennirnir. En er það alltaf svo? Við getum tekið sem dæmi fjárfestingar hjá lífeyrissjóðunum sem hafa verið mjög vafasamar og það hafa raunverulega verið gerð stórkostleg mistök í fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Það að starfsmenn eða fólk sem greiðir í lífeyrissjóðina geti ráðstafað fjármununum, valið milli þess að greiða í skyldubundinn lífeyrissjóð eða á séreignarreikning, myndi sýna fram á það hver á fjármunina.

Þetta forræði á peningunum er grundvallaratriði varðandi allar greiðslur í lífeyrissjóði, þessa gríðarlegu fjármuni sem fara þar inn. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta á milli 17–20 milljarða á mánuði eða 200 milljarða á ári samtals sem sjóðfélagar greiða. Það eru engir smápeningar í íslensku samfélagi, gríðarlegar fjárhæðir. Í greinargerð með þessari tillögu til þingsályktunar kemur fram, með leyfi forseta:

„Þótt lífeyrisréttindi eigi að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar er varla hægt að skilgreina lífeyrisréttindi sem eign vegna þess hve lítið forræði sjóðfélagar hafa á lífeyrisréttindum.“

Þessari tillögu er ætlað að bæta úr því og veita sjóðfélögunum, þeim sem greiða lífeyri í lífeyrissjóði, forræði yfir greiðslunum og tryggja eignarrétt þeirra og ráðstöfunarrétt.

Þetta tengist mjög vel máli sem var flutt hér fyrr í dag, þingmáli nr. 49, um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum. Bæði þessi mál sýna að lífeyriskerfi landsmanna þjónar ekki sjóðfélögum nægjanlega vel og ekki forræði sjóðfélaganna, hvorki hvað varðar lýðræði eða kosningar í sjóðina né forræði á lífeyrisgreiðslunum, það er engan veginn nægjanlegt, engan veginn tryggt. Það er rétt sem kemur fram í greinargerðinni með þessari tillögu að þetta er í raun og veru skattheimta með óljósum vilyrðum um endurgreiðslu síðar. Um það snýst þetta. Þó að fólk greiði í lífeyrissjóði er óvíst að það fái þau réttindi og þann ávinning af þeim fjármunum sem það greiðir í sjóðina. Það er vegna þess m.a. að yfirráðin eru einfaldlega ekki nægjanleg. Þau eru ekki tryggð. Hverjum er best treystandi til að gæta hagsmunanna? Einstaklingunum sjálfum, þeir eiga sjálfir að gæta hagsmuna sinna. Vinnuveitendur gera það ekki og stéttarfélögin gera það ekki. Það að stéttarfélögin og vinnuveitendur, Samtök atvinnulífsins, sitji í stjórnum er arfleifð gamals tíma. Það er arfleifð sem við erum ekki enn þá komin út úr. Við getum rakið þessa sögu alveg aftur til vistarbandsins þegar íslenska höfðingjastéttin gnæfði yfir íslenskri alþýðu og hreinlega kúgaði hana. Þó svo að við værum undir dönskum yfirráðum þá var það íslenska höfðingjastéttin sem fór með öll völdin, við vorum einfaldlega allt of langt frá Kaupmannahöfn. Þessi tvö mál sýna að lýðræðið er ekki komið nægilega langt á veg á Íslandi. Þau sýna það líka að sjóðfélagarnir eiga að hafa þessi völd. Svo einfalt er það. Að sjálfsögðu eiga þetta að vera skilgreind eignarréttindi með þeim hætti að sjóðfélagar geti ráðstafað þeim, geti ákveðið hvort greiða eigi í skyldubundinn lífeyrissjóð eða inn á séreignarreikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyririnn er ávaxtaður. Það er það sem á að gera við þessa peninga, alveg eins og með séreignarlífeyrissparnaðinn og sama varðandi andlát, að sjálfsögðu á maki að geta erft þetta eða barn að fullu við andlát sjóðfélaga.

Ég tel þetta mikið réttindamál. Ég tel að það beri að skoða þessi mál saman, mál nr. 49, sem var mælt fyrir fyrr í kvöld, um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum, og þetta mál sem hér er til umfjöllunar núna, um eignarrétt og erfð lífeyris. Bæði þessi mál sýna, ef þau eru skoðuð ofan í kjölinn, að íslenska lífeyriskerfið er algerlega gjaldþrota og þjónar sjóðfélögum ekki nægjanlega. Það verður einungis gert með því að færa völdin til sjóðfélaganna, til þeirra sem greiða í sjóðina, til þeirra sem eiga að njóta ávaxtanna síðar.



[19:33]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru stór orð sem falla hér um að íslenskt lífeyrissjóðakerfi sé gjaldþrota, sem er eitt sterkasta, a.m.k. þriðja sterkasta, slíkt kerfi í heiminum. Látum það liggja á milli hluta. En hér er tillaga sem í raun gengur út á það að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp sem kollvarpar grunnhugmyndinni á bak við íslenskt lífeyrissjóðakerfi sem byggir á kjarasamningum sem gerðir voru árið 1969, sem er að byggja upp réttindi fólks og tryggja því lífeyri að lokinni starfsævi en um leið að koma upp samtryggingu milli okkar allra þannig að hægt verði að grípa inn í og veita fólki aðstoð þegar eitthvað bjátar á.

Lífeyrissjóðakerfið skiptist í tvennt. Annars vegar er það samtryggingarhlutinn og það er það sem lagt er til að verði kollvarpað, og grafið undan réttindum launafólks með þeim hætti. Hins vegar er það séreignarstefna eða séreignarlífeyrir sem á þá að gera að meginreglu. Ég spyr hv. þingmann: Hvaða afleiðingar telur hann að það hafi þegar búið er að svipta velflesta íslenska launamenn þeirri samtryggingu sem felst í íslensku lífeyrissjóðakerfi? Og telur hv. þingmaður að það sé líklegt að íslenskt launafólk fylgi honum í þeirri vegferð?



[19:35]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að svara þessu á einfaldan hátt þá er ekki verið að svipta einn eða neinn einu eða neinu. Svo einfalt er það. Þeir sem greiða inn í lífeyrissjóðina — það er verið að taka fjármuni af launum fólks, það er verið að lækka ráðstöfunartekjur fólks í hverjum einasta mánuði með því að skylda það til að greiða í lífeyrissjóð. Það er það sem er verið að gera. Og hverjir ráða þessum lífeyrissjóðum? Jú, það eru stéttarfélögin og vinnuveitendur. Það er það sem verið er að gera. Að sjálfsögðu myndi hver einstaklingur geta ávaxtað sinn pening ef hann yrði skyldaður til þess. Við erum með séreignarsparnaðarkerfið líka og það gengur bara prýðilega. Eins og kemur fram í greinargerðinni eiga lífeyrisréttindi að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar en það er varla hægt að skilgreina þau sem eign. Það er verið að borga inn í sjóð sem aðrir sjá um að ráðstafa, aðrir sjá um að fjárfesta og fólkið sem greiðir í sjóðinn hefur ekkert um það að segja, sáralítið, nánast ekki neitt. Með þessu máli er verið að tryggja eignarréttinn og erfð lífeyris og þetta tengist lýðræði og gagnsæi í lífeyriskerfinu, sem er nánast ekki neitt. Þeir sem sömdu um þetta gerðu það árið 1969, fyrir 52 árum, og enn er sama kerfi við lýði. Við búum í allt öðru samfélagi. Við erum með fjármálakerfi sem er nánast ekki samanburðarhæft við Vesturlönd. Við erum með verðtryggingu hérna. Af hverju? Út af lífeyrissjóðunum, til að tryggja þeim 3% ávöxtun á ári. Út á það gengur allt heila kerfið. Það er miklu einfaldara að fólk stjórni þessu sjálft. Það er einfaldlega ekki rétt að halda því fram að fulltrúar atvinnulífsins séu betri í að fjárfesta en fólkið sjálft.



[19:38]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er öllu ruglað saman og hv. þingmaður svarar í engu því sem ég spurði um. Það er verið að gera tillögu um að kollvarpa því samtryggingarkerfi sem fólgið hefur verið í lífeyrissjóðunum til hagsbóta fyrir alla launamenn hér á Íslandi. Síðan erum við til hliðar með séreignarsjóði, þar sem erfðir eru tryggðar o.s.frv. En samtryggingin skiptir íslenskt launafólk verulega miklu máli og ef stíga á skref til baka ætla ég að fullyrða, hv. þingmaður, að það sé ein alvarlegasta atlaga að íslensku launafólki sem gerð hefur verið. Það er allt annað og tvennt ólíkt að tala um það með hvaða hætti auka eigi gegnsæi, auka lýðræði og auka áhrif launafólks á stjórnun og ávöxtun lífeyrissjóðanna, og að búa þannig um hnúta að íslenskt launafólk verði í meira eða minna mæli án samtryggingar lífeyrissjóðanna og þess öryggis sem þeir bjóða upp á þegar eitthvað bjátar á, m.a. örorka. Ekki rugla þessu öllu saman, hv. þingmaður, og reyna að blekkja fólk.



[19:39]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar. Ég vil benda á að þessi tillaga til þingsályktunar, um eignarrétt og erfð lífeyris, felur það í sér að fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyri í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á séreignarreikning. Það hefur val. Fólk á sjálft að geta valið um það hvað það gerir við peningana sína. Það er það sem þetta snýst um, að í kerfinu sé val. Eins og fram kemur í greinargerðinni bjóða einhverjir lífeyrissjóðir upp á erfanlegan lífeyrissparnað en þeir eru í miklum minni hluta. Lífeyrissjóður verslunarmanna greiðir sem dæmi makalífeyri sem nemur 60% af réttindum sjóðfélaga. Það stenst ekki skoðun að halda því fram að þetta kerfi sé svo heilagt að ekki megi breyta því til hagsbóta fyrir sjóðfélaga sem greiða inn í það. Það stenst engan veginn skoðun og ávöxtun lífeyrissjóðanna ber þess engin merki að þeir séu svo góðir í fjárfestingum sínum að þeir skili þeim arði sem þarf að gera. Það er fyrirsjáanlegt í framtíðinni að kerfið fari í þrot eftir því sem þjóðin eldist og af fleiri ástæðum. Um það eru mörg dæmi og það er ekki verið að segja að þetta kerfi sé svo rosalega heilagt að ekki megi breyta því. Það er alveg klárt mál að núverandi kerfi er dæmi um sérhagsmunagæslu í þessu samfélagi svo að það liggi fyrir.



[19:41]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. Óla Björn Kárason að doka, að fara ekki úr þingsalnum alveg strax vegna þess að hér eru til umræðu um mál sem varða svona megin ágreining þann sem er hér innan þessara þingveggja. Það er ágreiningur sem er margþættur. Hann er fyrst og fremst af efnahagslegum toga og hann varðar kannski líka ólíkan skilning fólksins í landinu á þeim lögum sem yfir okkur hafa verið sett. Og nú ætlar sá sem hér stendur að viðurkenna það fúslega að hann taldi, líkt og fjölmargir af hans kynslóð, að það háa skattaumhverfi sem við höfum alist upp við hér á Íslandi um áratugaskeið væri til þess að tryggja okkur ákveðna framfærslu þegar kæmi að endimörkum, við skulum segja starfs, í launuðu starfi. Þá gengjum enn að því vísu að vera með ákveðnar greiðslur á hverjum mánuði. Því til viðbótar, eins og ég hafði skilið, kæmu síðan lífeyrissjóðir sem við erum skyldug til þess að greiða í rétt eins og sparibauk. Ef sparibaukur okkar er á einhverjum tilteknum stað og vinnuveitandinn greiðir eitthvað í sparibaukinn á hverjum mánuði tengt laununum okkar, þá hef ég aldrei skilið það öðruvísi en að við hlytum að eiga sparibaukinn okkar, nú eða þá eiginkonan sem sá um hina ólaunuðu vinnu heima fyrir, lengst af í íslensku samfélagi.

Þegar mönnum af minni kynslóð varð ljóst að einhverjar breytingar á þessu höfðu verið útfærðar og þannig túlkaðar að þetta væri ekki svona þá tóku menn til fótanna hver af öðrum. Úr minni samstúdentadeild eru fjölmargir farnir til Portúgals. Þeir eru að mótmæla með fótunum. Ég sé á eftir þessum sauðum, sé ég eftir sauðunum, sé á eftir af þessum samstúdentum og vinum mínum sem eru reiðir í útlöndum yfir því sem þeir telja vera svik. Kannski var það ekki nógu skýrt úttalað eða útmálað á sínum tíma, rétt eins og það þegar bankar á Íslandi fengu heimild til að veðsetja sameiginlegu eignina okkar, sem er fiskurinn í sjónum kringum landið. Menn áttuðu sig ekki á því fyrr en löngu síðar hvað fólst í raun og veru í því, kannski vegna þess að menn hafa ekki mikið þrek til að sitja yfir umræðu eins og þessum heima í stofu núna eftir að þær urðu þó aðgengilegar.

Þess vegna segi ég við mann eins og hv. þm. Óla Björn Kárason: Ættum við ekki að sameinast um það að taka til við að reikna, ekki taka til við að tvista, heldur taka til við að reikna út hvaða skelfilegu afleiðingar það kynni að hafa í för með sér ef eignarrétturinn okkar á sparigrísnum okkar er færður til okkar sjálfra með óyggjandi hætti þannig að við eigum örugglega sparigrísinn, eða erfinginn okkar, makinn eða barnið, eftir að við föllum frá? Er það virkilega svo að það er talið vega svo að grunnstoðum kerfisins á Íslandi að það færi bara allt á hliðina? Ég held bara alls ekki. Það mætti þá helst deila um með hvaða hætti þessi 7.000 milljarða höfuðstóll lífeyrissjóðakerfanna er til kominn, vegna kynslóðanna sem eru kannski að hluta til gengnar.

En eignarrétturinn, grunnatriði stjórnarskrárinnar og samfélagsins okkar, lýðræðissamfélagsins, hlýtur að vera þannig að það sem þú leggur fyrir í þinn eigin sparibauk er þitt og einskis annars, nú eða nema þess sem erfir þig. Og almannatryggingakerfið, Tryggingastofnun sem tryggir þér þennan 260.000 kall á mánuði eða hvað sem það er, er uppsöfnuð þjónkun þín við þetta háa skattasamfélag okkar í svo og svo marga áratugi. Eru menn of settir af því að fá 260.000 kr. og svo lífeyrisgrísinn sinn þegar þeir eru hættir að fá launatékkann um hver mánaðamót? Það má vissulega að setja eitthvert þak á það sem menn, hinir best settu í samfélaginu, ættu að geta hirt. En nú erum við enn sem áður hér í tilbrigði við sama grundvallarstefið, við erum að hugsa um fólkið sem á fjandakornið vart til hnífs eða skeiðar og er með tóman ísskáp um miðjan mánuðinn og er að berjast í bökkum á ævikvöldinu við það að lifa, hvað þá að lifa með reisn.

Það væri afar gaman að heyra skýringarnar á því að þetta sé útilokað og að verið sé að vega að grunnstoðum sjálfs velferðarsamfélagsins með því að eignarrétturinn sé virtur með þeim hætti sem hér er talað um. Ég hef aldrei skilið það öðruvísi en að við eigum okkar framlag frá Tryggingastofnun. Við erum búin að vinna fyrir því í svo og svo marga áratugi og svo eigum við þennan lífeyrissjóð ef við höfum verið nógu gæfusöm til að vera yfir höfuð í þannig vinnu eða getað lagt fyrir. Það er kannski seinni tíma mál fyrir marga af þeim sem eru búnir að lifa lengi. En þetta er nú það sem ég vildi segja. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og ég hef aldrei litið á það sem öðruvísi en svo að þetta sé grundvallarréttlætismál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.