152. löggjafarþing — 45. fundur
 2. mars 2022.
félagsleg aðstoð, 1. umræða.
frv. IngS o.fl., 56. mál (heimilisuppbót). — Þskj. 56.

[17:46]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Enn eitt sanngirnis- og réttlætismálið sem ég mæli hér fyrir í dag. Þetta er frumvarp um breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lýtur að heimilisuppbót. Flutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 21 árs aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Foreldri einstaklings sem er á aldrinum 21–25 ára og stundar fullt skólanám eða starfsþjálfun telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. sex mánuði hvert ár. Ef um er að ræða óreglulegt nám eða námskeið skal námstími reiknaður í kennslustundafjölda á almanaksárinu og telst þá sex mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Brot úr mánuði telst heill mánuður.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi — ég er sem sagt að mæla fyrir því í annað sinn, þar sem það náði ekki fram að ganga á síðasta löggjafarþingi, réttara sagt á seinasta löggjafarþingi síðasta kjörtímabils, en hér er ég að leggja það fram að nýju.

Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram síðastliðið vor gerði ráðherra loks langþráðar breytingar á reglugerð um heimilisuppbót sem koma í veg fyrir að heimilisuppbót skerðist vegna námsmanna á aldrinum 18–25 ára sem búa á sama heimili og lífeyrisþegi. Því ber að fagna en fullt tilefni er til að ganga alla leið og tryggja réttindi foreldra að þessu leyti í lögunum sjálfum. Auk þess gengur frumvarpið lengra en gildandi reglugerð þar eð undanþága frumvarpsins nær einnig til einstaklinga sem ekki eru í námi á aldrinum 18–21 árs.

Löggjafanum ber að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Bannað er að skerða þá friðhelgi nema með lögum og aðeins ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, samanber 71. gr. stjórnarskrárinnar. Óumdeilt er að löggjöfin mismunar fjölskyldum á ýmsa vegu og ýmis lagaákvæði stuðla beinlínis að sundrung og upplausn fjölskyldunnar. Það er sá raunveruleiki sem lífeyrisþegar almannatrygginga mega þola. Ýmis réttindi falla niður um leið og börn ná 18 ára aldri. Við það tímamark verða lífeyrisþegar fyrir verulegum tekjumissi. Líkt og aðrir missa þeir rétt til barnabóta, en einnig missa þeir ýmis önnur réttindi. Barnabætur, barnalífeyrir og mæðra- og feðralaun falla niður. Auk þess fellur niður réttur til heimilisuppbótar ef barn dvelur áfram á heimili einstæðs foreldris. Tekjur einhleyprar tveggja barna móður, eða föður, skerðast um nærri 100.000 kr. á mánuði þegar eldra barnið nær 18 ára aldri. Þá lækkar barnalífeyrir og mæðralaun en heimilisuppbótin skerðist að fullu. Með undanþágu má þó fá réttinn framlengdan um tvö ár til viðbótar ef barn er í fullu námi, en sækja þarf sérstaklega um það.

Það liggur í augum uppi að núgildandi löggjöf brýtur niður fjölskyldur sem ná ekki endum saman án þessarar framfærslu. Til þess að missa ekki réttinn til heimilisuppbótar neyðast margir foreldrar til að vísa börnum sínum á dyr. Þannig má oft gera ráð fyrir að lögheimilisskráning á öðru heimili sé aðeins til málamynda.

Vissulega eru gild rök fyrir því að bætur sem eiga að renna til einstæðra foreldra skuli falla niður þegar börn þeirra ná fullorðinsaldri. Það verður þó að gæta þess að áhrifin verði ekki of íþyngjandi. Það þarf að dreifa álaginu betur og koma í veg fyrir að allir greiðsluflokkarnir skerðist á sama tíma.

Því er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 21 árs aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í fullu námi. Með því að girða fyrir að heimilisuppbót foreldris falli niður þar til einstaklingurinn nær 21 árs aldri gefst ákveðið svigrúm svo að viðkomandi geti fundið sér nám eða vinnu við hæfi og leitað að hentugu húsnæði.

Þá er einnig lagt til að heimilisuppbót skuli ekki falla niður hjá foreldri einstaklings í fullu námi fyrr en hann verður 26 ára. Þannig skapast svigrúm einstaklingsins til þess að búa heima þar til framhaldsnámi lýkur. Þá hefur viðkomandi raunverulegt val um það að búa heima meðan á framhaldsnámi stendur eða á eigin vegum og taka námslán. Börn efnaðra foreldra geta valið á milli og notið góðs af því að hafa búið heima á námstímanum. Þetta val á að standa öllum til boða óháð efnahag.

Skerðingarreglur sem miða við aldur barna eru til þess fallnar að auka enn frekar á ójöfnuð og líkurnar á því að börn einstæðra öryrkja fái tækifæri til að brjótast út úr fátæktargildrunni sem foreldrarnir búa við eru litlar sem engar. Verði þetta frumvarp að lögum hverfa verstu áhrif slíkra skerðinga og einstaklingnum er gert mögulegt að brjótast út úr viðjum fátæktar.

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum að maður skuli vera að lesa þetta upp, að þetta skuli vera raunveruleg staða í dag, að við skulum vita til þess að foreldrar þurfi að vísa börnum sínum af lögheimili sínu og skrá þau einhvers staðar annars staðar í búsetu til að verða ekki af meira en 100.000 kr. á mánuði af launum sem þeir hafa hingað til ekki getað lifað af. Hvers lags kerfi er það? Myndum við kalla þetta fjölskylduvænt kerfi?

Virðulegi forseti. Í dag voru 11% allra einstaklinga í þeim árgangi sem verður 19 ára á þessu ári atvinnulaus og ekki í skóla. Ég segi: Það er ekkert annað en sanngjarnt og eðlilegt að gefa fjölskyldu kost á því að framfleyta barni sínu sómasamlega eins og kostur er þrátt fyrir að einstaklingurinn sé orðinn lögráða, sérstaklega ef við horfum nú á hvernig ástandið er í samfélaginu í dag þar sem ákall er eftir bættu ástandi í húsnæðismálum, en þau mál eru öll í rusli, virðulegi forseti, í orðsins fyllstu merkingu. Það er með hreinum ólíkindum að fólk skuli þurfa að borga hátt í 1 milljón króna fyrir einn múrstein. Slíkt er verðbrjálæðið orðið á markaðnum í dag, þvílík bólumyndun. Þetta er með slíkum ólíkindum að jafnvel þó að verð á eign sé uppsprengt er boðið 10–15% meira í eignina og jafnvel komið með peninga í tösku til að staðgreiða hana. Slíkur er ágangurinn eftir húsnæði. Hvernig stendur á því, virðulegi forseti? Hvernig er hægt að réttlæta það með nokkru einasta lifandi móti að foreldrar, hvað þá einstætt foreldri, skuli vera settir í þá aðstöðu að þurfa að hringja í vini og vandamenn út um allar koppagrundir til að reyna að fá barnið sitt skráð hjá þeim svo að þeir missi ekki það sem þeim ber frá almannatryggingakerfinu? Þetta er með slíkum ólíkindum.

Eins og formaður Öryrkjabandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, bendir á er það svívirðilegt að það eru aðallega öryrkjar og þeir sem búa bágast sem ítrekað lenda í því að þurfa á pappírnum að fleygja börnunum sínum á dyr til þess að geta náð endum þokkalega saman, sem þeir gera reyndar ekki, öryrkjar gera það bara alls ekki. Og nú erum við að tala um frumvarp sem tekur eingöngu á því þegar einstaklingur er kominn yfir 18 ára aldur og fram til 26 ára aldurs, ef hann er í fullu námi, eða til 21 árs aldurs þótt hann sé ekki námi. Þessi einstaklingur leggur ekki krónu til heimilisins. Hann heldur áfram að vera á framfæri foreldrisins af því að ýmist er hann ekki í vinnu eða hann er ekki í námi, nema hvort tveggja sé. Hann leggur ekkert til heimilisins. Það er verið að skerða slíka fjölskyldu um meira en 100.000 kr., fjölskyldu með tvö börn eða einstætt foreldri með tvö börn, einungis út af því að einstaklingur er ekki í námi, finnur sig ekki í því að vera í námi og hefur náð 18 ára aldri. Það er samt virðingarvert að þessi reglugerð skuli hafa komið hér fram, hún bætir aðeins um betur en hún gengur ekki nógu langt. Þetta frumvarp gengur mun lengra og það tryggir það í löggjöfinni að ekki verði hægt að fleygja börnum á dyr eftir að þau hafa náð 18 ára aldri þrátt fyrir að þau séu ekki í fullu námi.

Ég var að tala við einstæða tveggja barna móður sem er á tímabundinni örorku, endurhæfingarlífeyri minnir mig að það heiti, vegna mikilla veikinda. Sonur hennar er ekki í fullu námi. Hann er sem sagt ekki í fullu námi, hefur ekki burði til þess akkúrat á þessu augnabliki. Og hvað gerist þá? Hún er skert, hún er skert algerlega niður úr öllu valdi. Við í Flokki fólksins teljum slíkt vera algerlega óásættanlegt og við teljum að þessi þjóðfélagshópur, þar sem bersýnilega er verið að mismuna fjölskyldum vegna efnahags, þurfi meira á því að halda að við búum til góðar reglur sem virka vel. Þetta fólk þarf meira en flestir aðrir á Flokki fólksins að halda og öllum þeim góðu þingmönnum sem eru tilbúnir að ganga þessa götu með okkur til bættrar búsetu og bættrar fjölskyldugerðar vegna þess að við viljum styrkja fjölskyldurnar. Við erum fjölskylduvænn flokkur, við viljum efla fjölskyldueininguna, við viljum ekki sundra fjölskyldunum, aldrei. Þannig að ég vísa þessu máli — ég vona að ég þurfi ekki að mæla fyrir því í þriðja sinn, virðulegi forseti — til hv. velferðarnefndar.



[17:58]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel tilganginn með þessu máli en ég klóra mér samt í hausnum. Af hverju þarf sá sem á rétt á lífeyri endilega að telja einstakling sem viðkomandi býr með sem einhvern frádrátt frá réttindum sínum, ef þannig má orða það? Má viðkomandi ekki ráða því hverjum hann býr með? Það er spurningin sem ég myndi vilja spyrja. Vissulega lagar þetta frumvarp ákveðinn árafjölda þarna en markmiðið ætti að sjálfsögðu að vera það að leyfa fólki að búa með hverjum sem það vill til að ná því hagræði sem það getur, ef það hefur áhuga á því. Eða bara búið eitt þess vegna, hvernig sem það er. Kerfið okkar, eins og það er, virkar á þann hátt fyrir þó nokkuð marga að það sundrar fólki. Það er mjög skrýtið að kerfið búi til þess háttar möguleika. Ég myndi vilja sjá eitthvað nálægt þessu samþykkt en stroka það bara út að það þurfi að hætta 21 árs eða 24 ára, eða hvernig sem það er þarna, og bara leyfa fólki að fá þau réttindi sem það á sem sjálfstæðir einstaklingar, óháð því með hverjum það kýs að búa.



[18:00]
Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir góða fyrirspurn. Jú, að sjálfsögðu eigum við að fá að ráða því með hverjum við búum. En stóri bróðir segir nei. Ríkisvaldið segir nei. Þú verður að skrá alla sem eru með lögheimili hjá þér svo að við getum farið að skerða greiðslur til þín. Við búum við eitt öflugasta, stórfurðulegasta og andstyggilegasta skerðingarkerfi í öllum heiminum. Um leið og við sjáum að hugsanlega ætti viðkomandi, af því að ríkisvaldið velur það, að geta farið að vinna þá má sá sem heima situr og er öryrki, og hefur haft það bágt allan tímann, hefur í uppvexti viðkomandi einstaklings þurft að hokra allan tímann — nei, þá má ekki koma viðbótarkróna inn á heimilið öðruvísi en að þú sért tekinn í bakaríið. Það er nú þannig, því miður. Og það sem verra er, þetta á líka við um sambúðarmaka. Þetta á líka við ef um er að ræða hjón og annað er öryrki en hitt með þokkalegar tekjur. Þá skalt þú, öryrki góður, átta þig á því að þú verður skertur algerlega og færð ekki nokkurn skapaðan hlut. Þú verður gerður algerlega ósjálfstæður fjárhagslega, frá A til Ö, af því að maki þinn á að sjá um þig. Þú verður að betla af honum til að geta farið í bíó og keypt þér brjóstahaldara eða nýja skó. Og má ég, elskulegi maki, fara í klippingu?

Þetta er líf öryrkjans. Þetta er það kerfi almannatrygginga sem öryrkjum er búið í dag, því miður, og öllum almannatryggingaþegum sem hafa í engin önnur hús að venda en blessuðu almannatryggingarnar, sem við þurfum að fara að taka til rækilegrar uppstokkunar, helst að henda þeim í ruslið. Við þurfum að kveikja í þessum tryggingum núna og byrja algjörlega upp á nýtt.



[18:02]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar, það á bara að kveikja í þessu og henda þessu á haugana og nota það sem orku til að gera betur. Ég vann við það að búa til kerfi, forrit t.d., það er bara kerfi, og þegar maður kemur að einhverju sem er orðið gjörsamlega ónothæft og óskiljanlegt þá fer rosalega mikil vinna í að reyna að laga það, miklu meiri vinna en það kostar að byrja upp á nýtt. Þegar við vitum hvað við viljum, hvernig við viljum hafa kerfin, þá er erfiðara að kreista það út úr einhverju sem byggðist upp á allt öðrum forsendum til að byrja með og var síðan plástrað aftur og aftur til að reyna að ná nýjum viðmiðum. En undirliggjandi er sama gallaða hugsunin og var til staðar þegar kerfið var búið til. Það þýðir ekki endilega að kerfið hafi verið gallað þegar það var búið til heldur að aðstæður hafa breyst á þann hátt að það er orðið úrelt. Það er mjög eðlilegt.

Ég lendi rosalega oft í því að fólk fer í vörn fyrir kerfin af því að það bjó þau til, af því að einhverjir stjórnmálaflokkar bjuggu þau til. Þetta er svo æðislegt kerfi. Það má ekki breyta því. Það verður bara að halda því og stagbæta það og þá verður það frábært. Í staðinn fyrir að viðurkenna: Já, það var frábært þegar við bjuggum það til en aðstæður breyttust sem gerðu það ónýtt og nú þurfum við bara að gera nýtt kerfi. Þetta er kannski það sem hæstv. félagsmálaráðherra er að fara að stússast í, ég hef ekki hugmynd um það. Það hefur aldrei komið neitt skýrt svar um það hvernig á að endurskoða kerfið, hvort einungis á að laga það eða hvort á að stokka það upp á nýtt. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að það komi eitthvað fljótlega sem er nálægt því að útskýra fyrir okkur hver hugsunin er sem býr að baki. En þangað til skulum við reyna að gera það besta við það sem við höfum.



[18:04]
Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Ég segi aðeins þetta: Þetta er kerfi sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur gjarnan kallað bútasaumaða skrímslið Frankenstein. Það er alveg rétt, það er svo stagbætt að það skilur það enginn, ekki einu sinni fólkið hjá Tryggingastofnun. Ítrekað lendir fólk í því að það fær ekki einu sinni svör vegna þess að kerfið er nánast óskiljanlegt. En hvort þessi endurbót á kerfinu sem núverandi stjórnvöld eru að boða, og fær kannski að líta ljós, ef að líkum lætur fimm mínútum fyrir næsta kjördag, þá hef ég litla trú á — nú ætla ég að gerast völva og spákona. Þeir ætla ekki að byggja á því að stokka kerfið upp og henda því og byrja upp á nýtt. Þeir ætla að vaða í almannatryggingarnar sjálfar og koma með hið fræga starfsgetumat þannig að þeir geti kreist enn meira af þeim lægst launuðu, að það sé þeirra að ákveða hvort fólk er með starfsgetu upp á X prósent eða ekki. Það er nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn hefur boðað, gerði það a.m.k. í sinni mynd á síðasta kjörtímabili. Ég veit ekki hvað hún hefur fengið að borða í millitíðinni ef hún er búin að skipta um skoðun. En ég er alveg hundrað prósent sannfærð um að það eina sem þeir ætla að gera er að hjóla í þetta starfsgetumat sem er akkúrat engum til góðs nema öryrkinn sjálfur fái að meta starfsgetu sína.



[18:06]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er enn eitt frumvarpið frá Flokki fólksins sem er lagt fram til að reyna að bæta þetta skelfilega kerfi sem einhverjir snillingar í fyrri ríkisstjórnum hafa fundið upp á og snillingar í þeim ríkisstjórnum sem á eftir komu hafa bætt inn í til bölvunar. Heimilisuppbót er eitt af þeim furðuverkum sem eru í þessu kerfi. Ég vil rifja upp að fyrir nokkrum árum síðan, ég man nú ekki nákvæmlega hvenær það var, kom upp sú umræða að það væru alveg stórfelld svik í almannatryggingakerfinu. Örorkubótaþegar væru þvílíkir svikarar. Kerfið væri að tapa, ef ég man rétt, á fjórða milljarð vegna svika. Það fór fram gífurleg rannsókn til að finna þetta óheiðarlega veika fólk eða eldri borgara í kerfinu sem væru að svíkja út svona gífurlegar fjárhæðir. Þetta var tengt við einhverja erlenda rannsókn sem átti ekkert við um þetta mál en það tókst einhvern veginn að tengja þetta allt saman og svikaleitin hófst. Og jú, þeir fundu svikara. Ekki stórfelld svik heldur í litlum mæli. Hvaða svikarar voru þar á ferð? Jú, það var fólk sem hafði verið í sambúð en skráði sig úr sambúð, skráði sig á sitthvort heimilisfangið. Hvers vegna gerði fólk þetta? Jú, þetta var út af neyð. Ég tel að þarna hafi neyðarréttur virkjast. Þegar þrengt er svoleiðis að framfærslu fólks að það sér fram á að geta hvorki framfleytt sjálfu sér né börnunum sínum þá á neyðarrétturinn að virkjast og því miður var það þannig í þessu kerfi að fólk var að nýta þann rétt sinn til að reyna hreinlega að lifa af.

Tökum sem dæmi fjölskyldu úti í bæ með tvö börn, eða eitt, tvö, þrjú, það skiptir ekki máli, og þau eru komin á fullorðinsaldur, orðin 18 ára eða tvítug eða 21, það breytir ekki máli. Fjölskyldan ákveður að leyfa barninu að vera heima hjá sér. Við vitum að eins og á Ítalíu eru þau heima allt upp til fimmtugs og það var eiginlega komið á það stig þar að þeir voru farnir að setja lög til að þvinga börnin að heiman, en látum það vera. Við erum ekki komin á þann stað. En þeirri fjölskyldu væri ekki refsað fyrir að hafa börnin heima. Það er ekkert verið að refsa aðilum fyrir það eitt að vilja hafa börnin heima. Og hugsið ykkur ástandið sem er núna á fasteignamarkaðnum, þá er ósköp eðlilegt að það sé stór hópur ungs fólks enn þá í heimahúsum vegna þess að það hefur engan annan möguleika. En ef annar aðilinn er í almannatryggingakerfinu þá þarf að refsa. Þá þarf að refsa þannig að það þarf að skrá barnið. Neyðarréttur virkjast og ég tel bara ósköp eðlilegt að barnið sé skráð annars staðar til að fjölskyldan verði ekki fyrir stórkostlegri lækkun á framfærslu. En um hvað erum við að mörgu leyti að tala líka í þessu samhengi? Til dæmis það sem ég myndi kalla hjónaskatt, hreinan og beinan hjónaskatt. Ef annað hjónanna er öryrki og hitt ekki — segjum að hinn sé bara á lágmarkslaunum — þá er öryrkinn, af því að þessir aðilar búa saman, eru hjón, að missa 56.969 kr., sem er heimilisuppbót í dag. Þetta segir okkur að þarna er verið að refsa upp á nokkur hundruð þúsund á ári. Ef við færum þetta yfir á t.d. okkur þingmenn, það væri settur á okkur svona hjónaskattur, tökum hlutfall af tekjum og við myndum átta okkur á því hvað við þyrftum að borga, þ.e. annað hjónanna þyrfti að missa tekjur til að standa undir því, þá dytti engum það í hug. En einhverra hluta vegna dettur þeim í hug að búa til kerfi þar sem er þessi refsing.

En síðan er annað sem er enn þá grimmilegri refsing og eiginlega stórfurðuleg. Það virðist vera ótti ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn við að tveimur öryrkjum detti nú í hug að fara að búa saman. Ég veit ekki hvað þeir búast við að komi út úr því. En einhverra hluta vegna virðist þetta valda skaðræðisótta hjá þeim og þar af leiðandi settu þeir tvöfaldan hjónaskatt á báða aðilana. Ef þeir voru áður í sitthvorri íbúðinni en ákveða síðan að smella því saman og hafa betra líf þá segir ríkið: Nei, þetta er ekki svona auðvelt hjá ykkur. Þið skulið gera ykkur grein fyrir því að þið bæði missið 57.000 kr. á mánuði. Ekki nóg með það. Ef viðkomandi hafa verið öryrkjar frá tvítugs- eða þrítugsaldri eða jafnvel frá því að þeir voru bara börn þá hafa þeir fengið framfærsluuppbót og hún minnkar líka, um 15.000 kr. hjá báðum. Þetta þýðir í heild að annar aðilinn missir 72.000 kr., samtals 144.000 kr. á mánuði. Spáið í þetta. Spáið í það hvers lags kerfi við höfum byggt upp, hversu ómannúðlegt mannvonskukerfi þetta er. Eini séns þessara einstaklinga er að reyna einhvern veginn að komast fram hjá þessu kerfi. En það er því miður ekki auðvelt en ætti að vera hreinn og klár neyðarréttur þangað til stjórnvöld sjá smá ljósglætu og reyni á einhvern hátt að bæta þetta kerfi.

Við erum búin að ræða þetta lengi, þetta er fimmta árið í röð sem við erum að reyna að berjast fyrir smábreytingum á þessu kerfi og miðað við það hvernig ríkisstjórnir hafa tekið á kerfinu þá þyrfti þúsund ár til þess að fá einhverjar breytingar. En eins og ég hef sagt líka um öll þessi frumvörp sem við höfum mælt fyrir í kvöld er bara ein leið í þessum málum. Komum ríkisstjórninni frá. Komum þeim að sem eru að reyna að breyta kerfinu. Það er einfalt mál. Það er hægt að breyta þessu kerfi, það er hægt að gera það strax og það þarf ekki að kosta neitt þannig að ríkissjóður ráði ekki við það. Það er okkur til háborinnar skammar að þessir þrír flokkar sem eru við völd skuli verja þetta kerfi og skuli viðhalda þessu kerfi. Þeir segja hvað eftir annað, fyrir hverjar kosningar, að þessir hópar geti ekki beðið lengur eftir réttlætinu en allir þessir hópar bíða enn og munu alltaf þurfa að bíða á meðan þessi ríkisstjórn er við völd.



[18:15]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessa frumvarps til laga um breytingar á lögum um félagslega aðstoð, varðandi heimilisuppbót. Ég sagði í máli sem var flutt hér áðan að átthagafjötrar væru þar að verki. Ég minntist á það, í umræðum um mál sem var flutt hér í gær, að kerfið væri mannfjandsamlegt, Tryggingastofnun. Hér er um að ræða mál sem snýr að baráttu gegn kerfinu og snýr að breytingum á lögum um félagslega aðstoð sem eru beinlínis fjandsamleg fjölskyldunni, grunneiningu samfélagsins. Gildandi löggjöf á þessu sviði brýtur niður fjölskyldur sem ekki ná endum saman án þeirrar framfærslu sem heimilisuppbótin er. Lífeyrisþegar eru þeir sem búa hvað bágast í landinu og þeir eru ekki virkir í samfélaginu, þeir búa við einangrun. Sú einangrun eykst enn þegar barn fer af heimilinu. Og það að verið sé að taka heimilisuppbótina af, þegar barn flyst að heiman, og það sé ekki gert fyrr en núna — þetta frumvarp mun leiða til þess að það verði ekki fyrr en barn hefur náð 21 árs aldri. Hvernig er hægt að halda því fram að fjárhagslegt hagræði sé af því að hafa barn á heimilinu sem er kannski 18 ára og í skóla? Allir sem búa á Íslandi vita að fjölskyldutengsl eru sterk á Íslandi. Börn eru lengur heima hjá sér hér en annars staðar í hinum vestræna heimi, t.d. í Skandinavíu þar sem ég þekki til. Við erum kannski miklu líkari Ítalíu hvað þetta varðar. En það er algjört hneyksli að við séum með kerfi sem leiðir til þess að margir foreldrar, sem eru lífeyrisþegar, þurfi hreinlega að vísa börnum sínum á dyr til að missa ekki heimilisuppbótina. Núverandi kerfi vinnur gegn fjölskyldum lífeyrisþega, samheldninni sem þar er, og það eykur einangrunina hjá lífeyrisþegum að börn þurfi að flytja að heiman við 18 ára aldur.

Einmanaleiki er mikið vandamál í heiminum og sérstaklega í hinum vestræna heimi. Ég get tekið sem dæmi að í Bretlandi hefur verið stofnað sérstakt ráðuneyti til að berjast gegn einmanaleika. Það má beinlínis segja að það gangi gegn friðhelgi fjölskyldunnar og heimilisins, eins og kemur fram í frumvarpinu, að lífeyrisþegar skuli þurfa að vísa börnum sínum af heimilinu. Löggjafanum ber svo sannarlega að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Það er verið að skerða hana með þessum hætti, með því að mismuna fjölskyldum á ýmsa vegu. Það gengur einfaldlega alls ekki upp að fjölskyldur lífeyrisþega þurfi að vísa börnum sínum af heimilinu við 18 ára aldur vegna tekjumissis.

Það má líka benda á að í frumvarpinu er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 21 árs aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í fullu námi. Hér er því einungis verið að leggja til að heimilisuppbót skerðist ekki fyrr en við 21 árs aldur óháð því hvort barn sé í námi, svo að það komi skýrt fram. Reglan í 2. mgr. frumvarpsins lýtur að því að foreldrar einstaklings sem er á aldrinum 20–25 ára og stundar fullt skólanám eða starfsþjálfun teljast ekki heldur hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Þetta er sjálfsögð regla. Það eru margir einstaklingar, örugglega flestir Íslendingar á aldrinum 21–25 ára, sem búa heima hjá foreldrum sínum og miðað við húsnæðisverð í dag eru engar líkur á því að einstaklingar á þessum aldri sjái sér fært að kaupa húsnæði og koma undir sig fótunum sjálfstætt. Þetta er yfirleitt fátækasti þjóðfélagshópurinn, lífeyrisþegar, og það gengur einfaldlega alls ekki upp að heimilisuppbót skuli vera skert þegar barn nær 18 ára aldri, og ekki tekið tillit til þess þegar börnin eru í námi. Þetta er sjálfsagt mál og myndi sýna fram á að stjórnvöld, almannatryggingar, velferðarsamfélagið, líta á sterk fjölskyldutengsl sem mikilvægan hlut, ekki síst hjá lífeyrisþegum.



[18:21]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál er eitt af mörgum sem liggja fyrir þinginu sem sýna hversu gallað kerfið okkar er í þessum málaflokki. Það er ekkert flóknara en það þegar allt kemur til alls. Þetta spilar beint inn í málflutning hæstv. fjármálaráðherra sem reynir alltaf að telja öllum trú um að skerða þurfi fjármagn hér og þar til þess að peningarnir fari til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. En þarna er bókstaflega verið að aðskilja fólk og fjölskyldur til þess að koma peningum til þeirra sem mest þurfa á að halda, sem er sama fólkið, nákvæmlega sama fólkið sem um er að ræða. Til að halda þeim fjármunum sem viðkomandi á rétt á þarf hann einfaldlega að henda öðru fólki á dyr, hann þarf að henda því á dyr til þess að fá það fjármagn sem hæstv. ráðherra talar um að þurfi að komast til þeirra sem mest þurfa á að halda, þegar hann ætti í staðinn einfaldlega að sleppa svona rugli þannig að fólk fái nákvæmlega það sem það á rétt á sem einstaklingar vegna þeirra aðstæðna sem það er í, óháð því með hverjum þeir kjósa að búa eða þurfa að búa, af því einfaldlega að um fjölskyldumeðlim er að ræða. Það er ekkert flóknara en það.

Ég held að við ættum í alvörunni, allir flokkar — það var brugðist of seint við þessu að mínu mati — að setjast niður og segja: Það gengur ekki lengur að hafa þetta svona, þetta er svo mikið rugl. Þetta bara gengur ekki lengur. Við höfum látið vita af því í þó nokkuð mörg ár að verið sé að brjóta 69. gr. almannatryggingalaga, sem er rosalega einföld grein um það hvernig lífeyrir uppfærist á milli ára til þess að halda í við verðbólgu eða launaþróun. Það er ekkert flókið við þessa grein. En í 20 ár hefur hún verið túlkuð á þann hátt að það eigi bara að hækka þessi lífeyrisréttindi um það sem fjármálaráðuneytið spáir að verði verðbólga eða launaþróun á komandi ári, ekki hver launaþróun eða verðbólga verður í raun og veru, heldur bara hver spáin er. Þessi spá hefur leitt af sér þá niðurstöðu að lífeyrir er u.þ.b. 50–60% lægri en hann ætti að vera, þ.e. það ætti að hækka hann um 50–60% til að ná þeirri launaþróun sem hefur verið á undanförnum tveimur áratugum miðað við það sem gert hefur verið. Hann hefur náð að fylgja verðbólgu og rétt rúmlega það, sem er blessunarlega gott. En það er mismunur vegna launaþróunar.

Þetta er eitt dæmið um það hvernig kerfið, þrátt fyrir mjög skýrar lagagreinar, er síðan túlkað til að komast fram hjá því að þurfa að standa við þær skuldbindingar sem við ætlumst til sem löggjafi að framkvæmdarvaldið reikni út á réttan hátt. En textinn er einfaldlega tekinn og það er snúið út úr honum þannig að það þurfi ekki að borga alveg svona mikinn pening. Það má ekki vera alveg svo mikið að það fylgi launaþróun, það er alveg ómögulegt, segir fjármálaráðuneytið. Hvað segir félagsmálaráðuneytið? Ekki neitt. Þrátt fyrir að þessi lög séu á forræði félagsmálaráðuneytisins þá hefur það ekkert um það að segja hvernig þessar upphæðir eru reiknaðar, hvernig þær upphæðir þróast sem falla undir lögin sem félagsmálaráðherra ber ábyrgð á. Félagsmálaráðherra fær þær upphæðir frá fjármálaráðuneytinu, það ræður þessari túlkun. Það er stórfurðulegt því að við erum ekki með það sem kallast fjölskipað stjórnvald heldur er hver og einn ráðherra bara kóngur í sínu ríki og ræður bókstaflega öllu í sínum málaflokki — nema þessu. Þegar kemur að fjármunum. Það er nefnilega mjög skrýtið. Sveitarstjórnarráðherra, innviðaráðherra, félagsmálaráðherra eða heilbrigðisráðherra eða menntamálaráðherra eru ekki fjárhagslega sjálfstæðir þó að þeir eigi að bera ábyrgð á framkvæmd þeirra laga sem við sem löggjafi setjum. Við fáum frumvörp á Alþingi og ræðum þau hér í ræðustól og lesum þau upp. Þetta eru hin og þessi réttindi sem við erum að veita fólki og það kostar þetta og þetta mikið eftir því sem við áætlum. Hvernig er síðan farið með þá kostnaðaráætlun? Fjármálaráðuneytið ákveður bara að túlka lögin á hinn eða þennan hátt þannig að upphæðin sé bara einhvern veginn eins og þeim finnst hún eiga að vera, sérstaklega í dæminu um 69. gr. almannatryggingalaga. Það er ekki ráðherrann sem ber ábyrgð á þeim lögum, sem túlkar þau lög og reiknar upp upphæðirnar sem liggja þar á bak við, heldur fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytið. Þetta gerist þrátt fyrir að hver ráðherra eigi að vera kóngur í sínu ríki. Þarna ætti félagsmálaráðherra að sjálfsögðu að bera ábyrgð á túlkuninni á þessum lögum en gerir það ekki, fær það ekki. Það er mjög spes.

Þetta er einmitt gegnumgangandi í öllum þessum lögum sem varða allt þetta kerfi eins og bent er á í frumvarpinu sem við tölum um hér. Það er þessi galli á því. Af því að fólk verður 18 ára, verður eitthvað ákveðið gamalt, þá er það allt í einu orðið að fjárhagslegum stuðningsaðila lífeyrisþegans, sem er fáránlegt. Um er að ræða einstaklinga sem ákveða að deila lífi sínu saman eða þurfa að gera það. En nei, ef þeir þurfa að gera það þá ákveðum við að taka af þeim pening af því að annars erum við að láta einhvern fá pening sem hann þarf ekki á að halda. Merkilegt, er það ekki? Þetta er einn skýrasti gallinn á þessu kerfi, hið opinbera bókstaflega stíar í sundur fólki sem vill og/eða þarf að búa saman vegna fjölskyldutengsla. Það er að mínu mati virkilega illa gert.



[18:29]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann orðaði það einhvern veginn þannig áðan að þetta væri fjandsamlegt kerfi og að almannatryggingakerfið þjónaði ekki skjólstæðingum sínum. Mig langar að spyrja hann mjög einfaldrar spurningar. Nú hefur Flokkur fólksins lagt þetta frumvarp fram til að bæta velferðarkerfið. Við vorum með mál áðan sem lýtur að því að laga smáhnökra á almannatryggingakerfinu varðandi greiðslur til lífeyrisþega sem búa erlendis. Þetta eru brotalamir, það sem má betur fara, og ekkert risamál. Þetta er smámál í stóra samhengi ríkisvaldsins og stóra samhengi fjárlaga og reksturs ríkisins. En þetta er stórmál fyrir lífeyrisþegana. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því eða skýringu hvernig á því stendur að verið er að flytja mál hér í fjórða og fimmta sinn, tvisvar til þrisvar sinnum sömu málin, sem lúta að því að bæta velferðarkerfið lítillega? Hér eru þingmenn sem eru öryrkjar sjálfir, hafa verið bótaþegar og hafa upplýsingar um og þekkingu á kerfinu sem aðrir þingmenn hafa ekki, og vilja bæta kerfið. Hvernig stendur á því að þessi mál renna ekki í gegnum nefndir og eru ekki samþykkt á Alþingi?



[18:31]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gríðarlega góða spurningu því að það er einmitt leyndarmálið mikla hér á þingi. Alþingi starfar á þann hátt að hingað inn koma flokkar eftir kosningar. Einhverjir ákveða að rotta sig saman og taka meiri hluta — taka meiri hluta, ég orða þetta viljandi á þann veg — og stjórna dagskrárvaldinu frá a til ö. Það hefur ýmsar afleiðingar. Það þýðir einfaldlega að öll mál sem ekki koma frá þeim meiri hluta, og þá sérstaklega framkvæmdarvaldinu — þau eru bara búin að ákveða að þetta virki þannig — afgreiðir þingið ekki. Þau setja þau mál einfaldlega undir borð og líta ekki einu sinni á þau. Sama hversu góð hugmynd það gæti verið þá er ekki einu sinni reynt að koma málinu í gegn. Ég lagði fram mál á síðasta þingi sem hafði meðflutningsmenn úr öllum flokkum. Þetta var rosalega einföld breyting sem leyfir ungmennum að æfa bogfimi, af því að það er strangt til tekið samkvæmt lögum bannað núna, alla vega að nota boga sem almennt er keppt með. Allir flokkar voru sammála um að þetta væri augljós galli en frumvarpið fór ekki lengra af því að þegar allt kemur til alls er ríkisstjórnin oft að reyna að koma í gegn mjög umdeildum málum og til að koma þeim í gegn reynir hún, þeir sem taka sér meiri hluta, einfaldlega að semja um að koma þeim í gegn með einhverjum smábreytingum sem fólk sættir sig við (Forseti hringir.) gegn því þá að sleppa einhverjum þingmannamálum í atkvæðagreiðslu. Það skiptir ekki máli (Forseti hringir.) hvort það eru góð mál eða ekki heldur bara hvað fólk velur. Þá eru þetta yfirleitt eitt, tvö mál á þingflokk, (Forseti hringir.) kvótinn. Við erum með kvótakerfi.



[18:33]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Bara örstutt: Er þetta þá þannig að ef hv. þingmaður hefði komið bogfimimálinu sínu í gegn þá hefði hann fengið heiðurinn af því og geta unnið næstu kosningar og þingmeirihluti fallið? (BLG: Eitthvað svoleiðis.) Er þá raunverulega best fyrir okkur í Flokki fólksins, sem viljum endurbæta almannatryggingakerfið með málunum okkar, að gauka þeim að meiri hlutanum þannig að hann eigni sér heiðurinn? Væri þá mál okkar, um millifærslu á erlenda reikninga lífeyrisþega úti í heimi, betur komið hjá einhverjum stjórnarþingmanni eða ríkisstjórn svo að Flokkur fólksins gæti ekki sagt í næstu kosningabaráttu: Heyrðu, við redduðum ykkur því að þið þurfið ekki að borga fyrir millifærslu erlendis? Gæti hinn stórkostlegi heiður af því máli orðið til þess að stjórnarmeirihlutinn myndi falla? En gæti stjórnarmeirihlutinn ekki einfaldlega sagt: Við studdum það góða mál, kjósið okkur áfram? Er þetta dýnamíkin, svo að ég skilji hana rétt? Ég hef ekki kynnt mér bogfimimál hv. þingmanns en það er aldrei að vita nema ég styddi það. (Gripið fram í.) En ég er bara að reyna að skilja það sem nýr þingmaður að það skipti engu máli hversu góð þingmannamálin eru, svo lengi sem þau koma ekki frá rétta aðilanum, þ.e. stjórnarmeirihlutanum, meiri hluta þingsins, þá fá þau ekki framgang. Ég tók eftir því í fyrri umræðu að talað var um mál sem nú er komið inn í stjórnarsáttmála, hvort það var um Mannréttindastofnun eða eitthvað slíkt. Næstu kosningar þurfa sem sagt að eiga sér stað, málið gæti komið í næsta stjórnarsáttmála, þ.e. að Tryggingastofnun eigi að greiða fyrir erlendar greiðslur, sem er grundvallar- og tímamótamál í sögu Alþingis.



[18:35]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkurn veginn nákvæmlega svona. Hv. þm. Tómas A. Tómasson er einmitt á bogfimimálinu með mér, sem er mér mikill heiður. Ég var t.d. með þrjú mál á síðasta þingi, og í raun fleiri. Ég var með mál sem laut að því að ekki þurfi að greiða fyrir rafrænan aðgang að ársreikningum, sem hæstv. ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom í gegnum þingið. Ég var með mál um brottfall tómra laga sem nokkrir ráðherrar tóku inn á sitt málefnasvið og komu í gegn. Ég var líka með mál um að samþykkja þriðju valfrjálsu bókun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var inni í farsældarfrumvarpi félags- og barnamálaráðherra. Þetta eru allt mál sem ég var búinn að vera með í þó nokkuð langan tíma og ríkisstjórnin tók inn í sín frumvörp og þannig fóru þau í gegn. Við höfum ítrekað verið með breytingartillögur við fjárlög og ýmislegt svoleiðis. Það er mér mjög minnisstætt þegar felld var niður heimild fyrir framhaldsskóla til að taka efnisgjöld frá nemendum og þá náttúrlega fá þeir minni pening. Það gleymdist að koma með fjárheimild á móti til að bæta þeim það upp. Nema hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafði séð þetta og skutlaði inn breytingartillögu fyrir þeirri upphæð sem ráðuneytið var búið að segja að þetta myndi kosta. Það varð uppi fótur og fit í þinginu þar sem stjórnarmeirihlutinn gat ómögulega sætt sig við að greiða atkvæði með þessu 300 millj. kr. fjárframlagi, sem ráðuneytið sagði að vantaði. Það varð að búa til nýja breytingartillögu sem mátti náttúrlega ekki vera sama upphæð og endaði í 250 milljónum, sem við höfum ekki hugmynd um hvort dugði eða ekki, þessi minnkun á fjárframlögum til verkmenntaskólanna, (Forseti hringir.) mjög merkilegt. Þetta er allt svona og það er ömurlegt. Þetta þarf ekki að vera svona. Það er ákvörðun þeirra sem taka völdin að gera þetta svona.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.