152. löggjafarþing — 46. fundur
 3. mars 2022.
lífeyrisbætur og verðbólguhækkanir.

[10:55]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Verðbólgan er komin á fleygiferð og verðbólgudraugurinn kominn af stað. Í þessum ræðustól, í miðju Covid, sagði hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn frá mér að hann hefði litlar áhyggjur af verðbólgunni. Ég hugsa að það hljóti að vera breytt núna og nú dynja yfir hækkanir á nauðsynjavörum. Á hverjum bitnar það helst? Jú, þeim verst settu, sem eru í almannatryggingakerfinu. Í bréfi sem hæstv. fjármálaráðherra sendi til ellilífeyrisþega í aðdraganda kosninga árið 2013 sagði m.a.:

„Við viljum að þeir sem komnir eru á efri ár njóti afraksturs erfiðis síns. Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki að íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu.“

Hann sagði einnig:

„Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða.“

Hver er staðan nú átta árum síðar eftir viðstöðulausa setu hæstv. fjármálaráðherra í ríkisstjórn? Lífeyrisgreiðslur skerða ellilífeyri um 45%. Hvað þýðir það á mannamáli? Jú, það þýðir að einstaklingur sem er með 200.000 kr. í lífeyrissjóð fær útborgaðar 64.000 kr. — 64.000 kr. af 200.000 kr. í almannatryggingakerfinu. Þetta er næstum því 70% skattur og skerðingar. Er það eðlilegt, hæstv. fjármálaráðherra? Ég spyr: Hvað meinti ráðherra með þessum orðum: Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris, þar er sannarlega um réttlætismál að ræða? Ætlar hann að taka á þessum miklu skerðingum í lífeyriskerfinu?



[10:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í tryggingakerfi almannatrygginga eins og það var byggt upp á sínum tíma varð til bótaflokkur sem hét grunnlífeyrir sem lengi vel var hinn eiginlegi ellilífeyrir, óskerðanlegur. Okkur fannst á sínum tíma vera mikil ósvinna þegar Jóhönnustjórnin tók upp á því að skerða grunnlífeyrinn. Það er hann sem ég var að tala um í tilvitnuðu bréfi og við gengum í það strax sem eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kosinn var 2013 að afnema tekjutengingu grunnlífeyris. Það gerðum við. Við skiluðum því loforði í hús en við gerðum miklu meira en það. Við lækkuðum skerðingarprósenturnar. Við drógum úr hvers kyns skerðingum sem höfðu verið innleiddar í almannatryggingar á árunum 2009–2013 og svo gerðum við meira vegna þess að árið 2016 tóku við ný réttindi sem hafa sýnt sig að hafa aukið kaupmátt lífeyrisþega almannatrygginga umfram það sem gerðist varðandi kaupmáttarvöxt launþega.

Þetta er meginástæðan fyrir því að bætur almannatrygginga í ellilífeyriskerfinu hafa vaxið úr tæpum 40 milljörðum árið 2013 í um 90 milljarða í dag. Það er 50 milljarða aukning í útgreiðslur til lífeyrisþega. Við verjum í ellilífeyri almannatrygginga meira en 10% af öllum tekjum ríkisins, um 90 milljarða útgreiðslur. Þetta er ekki réttindakerfi. Þetta er bótakerfi sem er ætlað að styðja við þá sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að byggja upp lífeyrisréttindi sín. Skerðingarnar sem hv. þingmaður ræðir hér um, við skulum bara ræða það í fullri alvöru hvað það myndi kosta hinn almenna skattgreiðanda að afnema þær með öllu eins og látið er í skína. Ætli það myndi ekki kosta okkur vel rúmlega 100 milljarða á ári að taka allar skerðingarnar og afnema þær og breyta almannatryggingakerfinu í réttindakerfi sem það getur aldrei orðið. Er það virkilega pólitík (Forseti hringir.) Flokks fólksins að senda bætur til fólks algjörlega óháð (Forseti hringir.) innkomu og efnahag?



[10:59]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra snýr út úr eins og hann er vanur. Hann talar eins og allir séu í sömu körfunni. Þeir verstu eru ekki í þessari körfu. Verst setta fólkið er ekki í þessari körfu. Það er ekki að fá neinn kaupmátt og hefur ekki fengið nein kaupmátt. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að sanna það. Hvernig getur einhver fengið kaupmátt þegar hann fær 4,6% hækkun í 6,2% verðbólgu? Hvernig stendur á því, ef við tökum það sem dæmi, að núna eru fasteignaskattar að fara upp úr öllu valdi? Meira að segja er kvartað undan því í Garðabæ að fasteignaskattar hafi hækkað um 8% umfram verðbólgu. Á hverjum bitnar það? Þeim verst settu. Og að snúa út úr hreinlega og segja að allir séu að hafa það svo ótrúlega gott er bara útúrsnúningur. Ég er að tala um þá verst settu. Þið segið alltaf að það séu svo fáir, að þeir séu svo fáir en af hverju gerið þið ekkert fyrir þá? Ef þeir eru svona fáir þá hlýtur það að kosta lítið.



[11:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta liggja á milli hluta hver er að snúa út úr hér og hver ekki. En það er rétt sem hv. þingmaður segir að núna á árinu 2022, þegar við sjáum vaxandi verðbólgu, er kjörum lægst launaða fólksins og þeirra sem hafa minnst milli handanna ógnað. Það er hárrétt. Ég geri ekki ágreining um það. Þetta er akkúrat minn málflutningur, að við þurfum að hafa áhyggjur af verðbólgunni vegna þessa fólks. Þegar við horfum til baka og skoðum árangurinn frá 2013 og spyrjum okkur hvernig hefur tekist að tryggja kaupmátt bóta í landinu þá er niðurstaðan alveg skýr og hún er mælanleg. Það hefur tekist að lyfta verulega undir með þessum hópi. Þegar vísað er í orð mín um að ég segi að hópurinn sé smár, að hann sé ekki stór, þá er verið að vísa í þau orð mín að það eru fáir í ellilífeyrishluta almannatrygginga sem hafa engar aðrar tekjur en þær sem koma frá almannatryggingum. Það eru mjög fáir sem hafa engar lífeyristekjur, engar launatekjur, engar fjármagnstekjur, enga framfærslu af nokkrum öðrum toga (Forseti hringir.) heldur en bæturnar frá almannatryggingum. Þetta eru fáir einstaklingar en við höfum verið að lyfta sérstaklega undir með þeim.