152. löggjafarþing — 46. fundur
 3. mars 2022.
tekjustofnar sveitarfélaga, 1. umræða.
frv. ÁLÞ o.fl., 78. mál (gjaldstofn fasteignaskatts). — Þskj. 78.

[14:36]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1994 hvað varðar gjaldstofn fasteignaskatts. Meðflutningsmenn eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Frumvarpið byggir á þeirri meginreglu að skattar eigi aldrei að hækka sjálfkrafa heldur þurfi alltaf að fara fram umræða hjá þar til bærum yfirvöldum sem síðan leiðir til ákvörðunar sem einhver eða einhverjir bera pólitíska ábyrgð á. Þannig er því ekki farið með fasteignaskatta.

Fasteignaskattur hefur hingað til verið ákvarðaður sem hlutfall af fasteignamati en samkvæmt lögum er það jafnan uppfært árlega miðað við gangverð fasteigna sem ætla má að fáist fyrir þær við sölu á almennum markaði. Þannig hækka fasteignaskattar sjálfkrafa ef markaðurinn hækkar, alveg sama hverjar ástæður hækkunarinnar eru. Þó að fasteignaverð hækki þá leiðir það ekki sjálfkrafa til hækkunar launa eða þess ráðstöfunarfjár sem fólk eða fyrirtæki hafa til ráðstöfunar. Það er í raun ekkert vit í því að í ástandi eins og því sem nú er á fasteignamarkaði, þar sem eignir eru yfirboðnar í hrönnum, leiði það sjálfkrafa til meiri álagningar á fyrirtæki eða venjulegt fólk sem ekki er í neinum fasteignahugleiðingum.

Undanfarin misseri hefur fasteignaverð farið ört hækkandi og þar af leiðandi valdið miklum hækkunum á fasteignaskatti í krónum talið, óháð hlutfalli skattsins í einstökum sveitarfélögum. Sú aukna skattbyrði sem í þessu felst hefur lagst þungt á viðkvæma hópa, t.d. þá sem hafa komið sér upp skuldlausu eða lítið skuldsettu húsnæði, en þurfa vegna elli, örorku eða annarra aðstæðna að reiða sig á lágmarksframfærslu almannatryggingakerfisins og hafa takmarkaða eða enga möguleika á að auka tekjur sínar. Hin aukna skattbyrði hefur þannig skert lífskjör þessara hópa. Það má aldrei gleyma því grundvallaratriði að þó að verðmat eignar hækki af því að eign í sama hverfi var keypt á uppsprengdu verði þá eykst ekki um leið ráðstöfunarfé eiganda húsnæðisins.

Með þessu frumvarpi er því lagt til að hætt verði að miða stofn álagningar fasteignaskatts við fasteignamat og þess í stað verði sá skattur framvegis lagður á sem tiltekin fjárhæð á hvern fermetra flatarmáls fasteigna sem er föst, hlutlæg og fyrirsjáanleg stærð. Einnig þarf að gæta sanngirni og við fyrstu ákvörðun þeirrar fjárhæðar verður því gæta þess að sú álagning sem af henni leiðir verði ekki meira íþyngjandi en annars hefði orðið samkvæmt þeim reglum sem gilt hafa hingað til og gæta skal meðalhófs við þá ákvörðun. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög búi yfir og geti haft greiðan aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum úr opinberum gagnagrunnum til að ákvarða þessa fjárhæð þannig að hún raski sem minnst högum sveitarfélags og einstakra íbúa þess. Þegar nauðsyn krefur verður að vera heimilt að hækka fjárhæð skattsins en þá er lagt til í frumvarpinu að slík ákvörðun skuli vera rökstudd og birt opinberlega. Enn fremur er lagt til að sú hækkun megi hlutfallslega að hámarki nema 2,5% frá fyrra ári í samræmi við opinbert verðbólgumarkmið stjórnvalda svo að skatturinn kyndi ekki undir frekari verðbólgu.

Það liggur fyrir að fasteignaskattar á Íslandi eru hæstir á Norðurlöndunum, reiknaðir sem hlutfall af landsframleiðslu, eða 2% í samanburði við t.d. 1% í Svíþjóð. Þessi aukna skattbyrði geti komi niður á atvinnurekstri, einkum smáfyrirtækja og verslana þar sem húsnæðiskostnaður er tiltölulega stór útgjaldaliður.

Enn fremur hafa komið fram þau sjónarmið að óeðlilegt sé að álagðir skattar hækki með sjálfvirkum hætti án atbeina þess sveitarfélags sem raunverulega leggur þá skatta á íbúa sína. Þess í stað gerir frumvarpið ráð fyrir því að fjárhæð fasteignaskatts verði alltaf háð ákvörðun sveitarstjórnar fyrir hvert ár í senn og þurfi að vera rökstudd og birt opinberlega, svo að slíkar ákvarðanir samrýmist sem best stjórnsýslulögum og vönduðum stjórnsýsluháttum.

Ég tel einboðið að þingmenn þvert á flokka geti sameinast um að sjálfvirkar skattahækkanir eigi aldrei að líðast. Ákvörðun skatta krefst pólitískrar ábyrgðar og stjórnmálamenn eiga aldrei að geta yppt öxlum og firrt sig ábyrgð á þeim sköttum sem lagðir eru á umbjóðendur þeirra með því að fela sig á bak við markaðinn. Þetta frumvarp setur ábyrgðin á fasteignasköttum á herðar stjórnmálamanna sem hafa boðið sig fram til að standa undir þeirri ábyrgð. Þetta felur í raun bara tvennt í sér. Í fyrsta lagi að miða sig við eininguna fermetra við ákvörðun fasteignagjalda og í öðru lagi að sveitarfélög gæti meðalhófs við ákvörðun einingarverðs þannig að það verði ekki meira íþyngjandi en þær reglur sem gilt hafa hingað til.

Flutningsmenn að þessu frumvarpi með mér eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Ég vænti þess að þingheimur veiti frumvarpi þessu brautargengi.



[14:41]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í raun lætur þetta frumvarp ekki mikið yfir sér en er þó stórmál því að ef við skoðum tekjustofna sveitarfélaga eru þeir þrír. Það er í fyrsta lagi fasteignaskattur, í öðru lagi úthlutun framlaga til sveitarfélaga, þ.e. jöfnunarsjóður, og í þriðja lagi útsvar. Hér er lagt til að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli miðast við flatarmál þeirra talið í fermetrum. Enn fremur segir að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða mismunandi fjárhæðir skatts á hvern fermetra flatarmáls fasteigna í nokkrum gjaldflokkum sem eru hér fimm. Þá langar mig til að spyrja hvort það sé meining flutningsmanna þessa frumvarps að hvert og eitt sveitarfélag setjist niður og ákveði þann gjaldstofn sem það ætlar að leggja á sína íbúa eða fasteignir til fasteignaskatts, hvort það sé eðlilegt að hvert og eitt sveitarfélag sé þannig að hlutast til um það og hvernig eitt sveitarfélag geti gætt meðalhófs í þeim efnum. Í núgildandi lögum segir að leggja skuli árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati og stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Það er í raun ákveðið, sveitarfélög fá álagningarstofninn til sín tilbúinn. Í lögunum segir að sveitarfélag ákveði skatthlutfall sem má vera allt að 0,5% af fasteignamati á íbúðir, allt að, þannig að hvert sveitarfélag hefur í hendi sér að geta farið upp í þann skatt en ekki umfram það nema með sérstakri álagningu. Þau geta líka valið að vera með 0,2 eins og er t.d. hérna í Reykjavíkurborg. Hvernig í ósköpunum á þetta að vera eðlilegt innan þeirra sveitarfélaga sem í landinu eru?



[14:44]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Forseti. Varðandi það hvort sveitarfélag þurfi að ákveða eitt og sér álagningu fasteignagjalda og hver prósentan skuli vera eða kostnaðurinn á hvern fermetra í sínu sveitarfélagi eða hvort það er tekin einhver ríkisákvörðun um það þá veit ég í sjálfu sér veit ekkert endilega hvort það ætti að vera. Það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til þess. Það sem þetta mál snýst um hins vegar er að það hafa orðið ansi margir mikinn hag af því að halda fasteignaverði hátt á lofti. Þetta eru sjálfvirkir skattar, eitthvað sem hækkar sjálfkrafa og það bara gengur ekki upp að það séu engar reglur um það og að pólitískt kjörnir fulltrúar beri enga pólitíska ábyrgð á því hvernig fasteignaskattar eru í sveitarfélögum þeirra nema að litlu leyti. Þeir mega ekki fara hærra en eitthvað ákveðið gagnvart fasteignaverði en engu að síður fara fasteignagjöld eftir því. Eins og núna undanfarið, allt í einu hækkaði fasteignaverð mjög skart. Það breytir engu um ráðstöfunarfé fólks. Það skiptir engu máli þótt eignastaða þess hafi batnað eins og fjármálaráðherra er alltaf að tala um af því að það býr allt í einu í eign sem markaðurinn segir að sé dýrari en áður. Þau hafa enn þá það sama milli handanna til að standa undir heimilinu, að kaupa mjólk og brauð og annað þess háttar. Þau hafa ekkert meira á milli handanna. Þarna er skattur sem hækkar sjálfkrafa og enginn ber ábyrgð á. Það er bara verið að leggja það til að hann verði fyrirsjáanlegur, að fólk geti séð, ef það kaupir eign sem er þetta margir fermetrar, hvað það borgar í fasteignaskatta og já, að það megi ekki hækka meira en 2,5% á ári. Það sé tekin ákvörðun um það, það sé hægt að spyrja einhvern út í það og það sé einhver ábyrgð.



[14:46]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú er það á ábyrgð kjörinna fulltrúa að passa upp á fjárhag sveitarfélaga þannig að með þessu verkfæri sem verið er að leggja til hér þá verður þetta mjög misjafnt hvað varðar eignir, segjum t.d. bara 30 m² hús á Hornströndum og 30 m² hús hér á Austurvelli. Ekki getur sveitarfélagið lagt mismunandi á eftir því hvar húsnæði stendur. Á þá sveitarfélag fyrir vestan, nú er Ísafjarðarbær með Hornstrandir, að vera með allt aðra krónutölu á fermetra heldur en Reykjavíkurborg sem hefur yfir að ráða fleiri milljónum fermetra? Eins langar mig til að spyrja um b-lið, þ.e. að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða mismunandi fjárhæð skatts á hvern fermetra í flokknum erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum. Nú er það svo að bújarðir geta orðið þó nokkuð stórar og hér er ekki talað um tegundir af landi. Tökum bara meðalsauðfjárjörð í Skagafirði sem er 4.000 hektarar, sem eru 40 milljónir fermetra. Hvað sjá flutningsmenn fyrir sér að verði fasteignaverð á fermetra í slíku tilfelli?



[14:48]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp beinist fyrst og fremst að íbúðarhúsnæði. Ég skal bara viðurkenna það að ég er ekki alveg með það tiltækt hvað verðið ætti að vera á jarðeignum en ég geri ráð fyrir að sveitarfélög geti tekið ákvarðanir um slíkt á eðlilegum forsendum, út frá því að þarna sé um jarðeignir að ræða. Varðandi jafnræðið þá þurfa sveitarfélögin að gæta meðalhófs og það þarf ekkert endilega að vera annað fermetraverð á Ísafirði en í Reykjavík en ég sé ekkert því til fyrirstöðu heldur að það sé það sama. En mér finnst bara að sveitarstjórnir þurfi að taka ábyrgð á þessu og finna út hvað þær ætla að leggja á og svo fá kjósendur að segja sína skoðun á því þegar þar að kemur í kosningum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.