152. löggjafarþing — 50. fundur
 10. mars 2022.
aukin orkuþörf.

[10:55]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Að undanförnu hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans hver af öðrum komið fram og lýst því yfir að þeir hafi uppgötvað að það sé þörf fyrir meiri orkuframleiðslu í landinu. Það hefur verið reynt að benda á þetta í allmörg ár en það hefur vakið, má segja, takmarkaða athygli hjá þessari ríkisstjórn. En nú hefur hæstv. forsætisráðherra bæst í þennan hóp og tekur undir það að það muni þurfa að auka hér framleiðslu á orku, virkja meira.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem stjórnvöld létu taka saman þar sem kemur á daginn að það muni þurfa að auka orkuframleiðslu um 125%, m.a. til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um orkuskipti. En hvernig stendur á því að ekki var hugað að þessu sem hlýtur að vera grundvallaratriði í orkuskiptum? Hvers vegna var ekki hugað að orkunni sjálfri þegar ríkisstjórnin var að undirbúa og kynna áform sín eða a.m.k. markmið í loftslagsmálum? Ég geri mér grein fyrir að loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar var fyrst og fremst hugsuð sem einhvers konar pótemkintjöld í skýrsluformi, en hefði ekki verið skynsamlegt að huga að framleiðsluhlið málsins og því hvernig menn myndu standa að því að uppfylla hana?

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvernig verður farið að því að tryggja næga orkuframleiðslu á Íslandi næstu árin? Nú bið ég um tiltölulega einfalt og skýrt svar, ekki erindi — eins skemmtileg og þau geta nú verið frá hæstv. ráðherra eins og við heyrum stundum hér en ættu betur heima á flokksfundi hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði — heldur skýr svör til Alþingis. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að hægt verði að auka orkuframleiðslu á Íslandi eins og þörf er fyrir?



[10:57]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni leiðbeiningarnar um framgöngu í ræðustóli og við getum jafnvel saman sett á laggirnar lítinn skóla fyrir þingmenn um þau málefni. Hv. þingmaður virðist vera undrandi á því að það hafi komið fram í mínu máli að það sé eðlilegt að horfa til þess að frekar verði virkjað. Ég vil bara minna hv. þingmann á að hér var lagður fram árið 2020 þriðji áfangi rammaáætlunar til afgreiðslu þingsins. Þeirri afgreiðslu var ekki lokið og þar með talið ekki þeim kostum þar sem þar var áætlað að setja í nýtingarflokk. Ég held því að sú yfirlýsing mín þurfi ekki að koma hv. þingmanni á óvart, að ég telji eðlilegt að við mótum skynsamlega stefnu um nýtingu grænnar orku og tryggjum um leið þetta mikilvæga jafnvægi milli verndar ósnortinnar náttúru og nýtingar á grænni orku. Fyrir mér fer það saman að ná loftslagsmarkmiðum og vernda náttúruna og þess vegna hef ég talað fyrir því að við horfum til fjölbreyttra kosta þegar kemur að virkjunum og nýtum tækniþróun eins og frekast er unnt. Ég vil minna á fyrirhugað frumvarp um það að til að mynda stækkanir á virkjunum þurfi ekki að fara í gegnum rammaáætlun eins og verið hefur, sem ég tel mjög skynsamlegt skref. Síðan vil ég nefna það í tengslum við skýrsluna þar sem settar eru fram sex sviðsmyndir að ég tel að það kalli á að stjórnmálin ræði það í hvað við viljum nýta orkuna. Vissulega er það svo að ég tel að við eigum að nýta þessa orku í orkuskipti hér á landi. Mér finnst það vera forgangsmál okkar en það eru ýmsar aðrar hugmyndir sem hv. þingmaður þekkir vel um útflutning á orku og annað slíkt. Forgangsmálið á að vera að mínu viti orkuskipti hér innan lands. Þannig getum við gert áætlanir okkar út frá þessum, sem ég vil kalla skynsemisrökum þar sem við viðhöfum faglega ferla við að flokka virkjunarkosti út frá þeim sjónarmiðum sem ég fór yfir hér áðan.



[10:59]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli taka undir það og ítreka að það þurfi að virkja meira og framleiða meiri orku á Íslandi. Mér þykja það ákveðin tímamót miðað við hvernig umræðan hefur verið hér að undanförnu. Það er líka jákvætt að hæstv. ráðherra telji rétt að við framleiðum sem mest á Íslandi, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. En ráðherrann virðist fyrst og fremst horfa til rammaáætlunar. Fyrir aðeins fáeinum dögum má segja að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi nánast gefist upp á rammaáætlun, a.m.k. gefið út lokaviðvörun ef svo má segja hér í ræðustól gagnvart þessari tilraun sem hefur nú staðið í áratugi, að ef það tækist ekki að klára rammaáætlun væri betra að hverfa frá verkefninu í heild og taka aftur fyrir hvern virkjunarkost fyrir sig og afgreiða hann sérstaklega.

Mun hæstv. forsætisráðherra tryggja það að þriðji áfangi rammaáætlunar, og svo fjórði áfanginn, muni klárast (Forseti hringir.) og um verði að ræða næga virkjunarkosti til að standa undir orkuþörfinni?



[11:01]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil ítreka, út af lokaorðum hv. þingmanns, að til að standa undir orkuþörfinni — ég vil líka kalla eftir því að við leggjum mat, að stjórnmálin leggi mat á þær sviðsmyndir sem þarna eru teiknaðar upp. Sumar hafa verið meira í fréttum en aðrar en ég held að það sé full ástæða til að við ræðum það í hvað við viljum nýta orkuna. Í hvað ætlum við að nýta orkuna, því að hún er ekki ótakmörkuð gæði? Mín sýn er þess vegna sú að það eigi að vera þessi skýra forgangsröðun til innlendra orkuskipta því að ég tel að vernd náttúru og loftslagssjónarmið verði að fara saman hér og það finnst mér mikilvægt.

Hv. þingmaður spyr svo um rammaáætlun. Ja, síðasta rammaáætlun var samþykkt þegar Vinstri græn voru í ríkisstjórn. Síðan var samþykktur einn kostur, ef ég man rétt, á árinu 2015 þegar Hvammsvirkjun var sett í nýtingarflokk eða einhver hluti rammaáætlunar. Ég hef alltaf talið þetta besta tækið því að þar með erum við í raun að horfa heildstætt á einhverja mynd þar sem við getum náð þessu jafnvægi, sem ég trúi að langflestir þingmenn vilji ná, milli verndar náttúru og því að tryggja græna orku til mikilvægra verkefna.