152. löggjafarþing — 50. fundur
 10. mars 2022.
mótvægisaðgerðir gegn verðhækkunum.

[11:02]
Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hetjuleg barátta Úkraínumanna fyrir frelsi sínu hefur kallað fram ótrúlega samstöðu vestrænna ríkja gagnvart innrás Rússa. Efnahagsaðgerðir sem beinast að Rússum eru af sögulegum toga. Að sama skapi rennur nú upp fyrir heiminum mikilvægi þessara tveggja landa í heimshagkerfinu enda miklar framleiðsluþjóðir. Efnahagsleg áhrif stríðsins verða mikil og munu dreifast um allan heim. Þær efnahagslegu fórnir sem Íslendingar þurfa að færa eru þó í engu samhengi við fórnir Úkraínumanna fyrir frelsi sínu en staðreyndin er engu að síður sú að högg munu dynja á efnahagnum hér og þau falla ekki jafnt á fólk. Viðkvæmni gagnvart verðlagsbreytingum er mismikil og það hlýtur að vera markmið stjórnvalda að koma í veg fyrir að efnahagsáfallið sem stríðinu fylgir bitni á ungu fólki og tekjulágu fólki hér á landi. Verðbólgan er nú 6,2% og hingað til er það fyrst og fremst húsnæði sem hefur hækkað um 25% á tveggja ára tímabili; önnur slík hækkunin á tímabili þessarar ríkisstjórnar sem drífur áfram verðbólguna. Vaxtahækkunarferli er farið hratt af stað. Við förum inn í þetta ástand með stóran hóp af ungu fólki sem er mjög skuldsett vegna óhóflegra verðhækkana á húsnæðismarkaðnum. Bensínlítrinn er kominn upp í 300 kr. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum.

Við í Samfylkingunni og fulltrúar fleiri flokka í minni hlutanum teljum mikilvægt að ráðstöfunartekjur ákveðinna hópa rýrni ekki um of vegna þessarar kostnaðarkreppu. Ríkið er með tól til að dreifa svona álagi. Við höfum nú þegar lagt fram tillögur um mótvægisaðgerðir fyrir umrædd heimili. Styður hæstv. forsætisráðherra slíkar mótvægisaðgerðir?



[11:04]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þær hörmungar sem fólkið í Úkraínu stendur frammi fyrir láta allt annað blikna. En það breytir því ekki að við þurfum að vera meðvituð um þau efnahagslegu áhrif sem þetta stríð getur haft á okkur. Síðast í gær var fundað í ráðherranefnd um efnahagsmál með Seðlabankanum til að leggja mat á þau áhrif. Hv. þingmaður kom inn á olíuverð sem hefur hækkað um nærri 20% í kjölfar innrásarinnar. Það hefur auðvitað mikil áhrif á hitunarkostnað og rafmagnskostnað í Evrópu. Það getur aukið verðbólguvæntingar, því við erum öll nátengd eins og hv. þingmaður kom inn á. Staðan hefur því auðvitað breyst með róttækum hætti á þessum tveimur vikum sem liðnar eru frá því að við vorum einmitt að ræða verðbólguna hér í þessum sal og hvernig við munum takast á við hana. Við sjáum fram á að efnahagsbatinn verði hægari og brokkgengari en áður var útlit fyrir.

Hins vegar erum við á þeim stað, svo maður horfi inn á við út frá okkar hagsmunum, að verð á áli hefur verið gott og sömuleiðis hefur gott verð fengist fyrir útfluttar sjávarafurðir. En ef það dregur úr efnahagsbata í helstu viðskiptalöndum Íslands eftir Covid getur það haft áhrif hér. Þetta veit hv. þingmaður og þetta vita hv. þingmenn. Við vitum ekki enn hver áhrifin geta orðið á ferðaþjónustu, hvaða áhrif hefur stríð á ferðavilja og væntanlega er það breytilegt eftir löndum.

Hvað varðar sértækar aðgerðir þá er það mín skoðun að við eigum að huga sérstaklega að þeim sem höllustum fæti standa. Íslensk heimili almennt standa vel vegna þess að kaupmáttur hefur vaxið. Einkaneysla hefur verið sterk og vanskil mjög lítil hjá þeim sem eru á fasteignamarkaði. En það sem þarf að horfa til er fólkið á leigumarkaðnum og fólkið sem hefur ekki komist inn á fasteignamarkað. Við höfum séð mikla fjölgun fyrstu kaupenda á undanförnum árum en það breytir því ekki að það er enn þá mjög þungt (Forseti hringir.) að fara inn á þennan markað. Þess vegna hef ég sett af stað sérstakan hóp um húsnæðismálin sem á að skila (Forseti hringir.) tillögum núna fyrir 1. apríl þar sem á að meta sérstaklega stöðu (Forseti hringir.) þeirra sem höllustum fæti standa á þeim markaði.



[11:07]
Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferð á efnahagsmálum en það fór ekki mikið fyrir svörum um hvað eigi að gera nú. Mig langar til að ítreka að vanskilatölur eru margra mánaða gamlar tölur. Við erum að tala um hvað er að fara að gerast núna og næstu mánuði. Það liggur fyrir að þessar verðlagshækkanir munu mögulega rata í kjarasamningaviðræður í haust og það er einfaldlega ábyrg efnahagsstjórn að reyna að komast á undan þessum vanda. Þrátt fyrir að ég fagni því að verið sé að boða mögulegar breytingar á húsnæðismarkaðnum þá vitum við öll hér inni að það er langtímaverkefni. Það mun taka mörg ár að vinda ofan af aðstæðum á húsnæðismarkaði. Í millitíðinni stendur fólk, viðkvæmir hópar sem hæstv. forsætisráðherra segist vissulega standa með, höllum fæti. Við munum sjá þetta birtast í haust í kjarasamningum. Þá fáum við aftur af stað víxlverkun launa og verðlags sem er þekkt fyrirbrigði hér. Ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að fara í sértækar aðgerðir til að koma í veg fyrir að við lendum aftur í verðbólguhækkun strax í haust? Ég ítreka spurninguna: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera á næstu vikum, ekki á þessu kjörtímabili?



[11:08]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis kærlega fyrir yfirferð um efnahagsmál og kjarasamninga. Að sjálfsögðu skiptir máli hvernig tekst til í aðdraganda kjarasamninga og ég var að koma af fundi þjóðhagsráðs í morgun þar sem sitja einmitt aðilar vinnumarkaðarins og sá undirbúningur er löngu hafinn. Þar erum við m.a. að ræða afkomu þeirra sem lakast standa en húsnæðismálin hafa verið stóra áherslumálið því að þar geta stjórnvöld beitt sér þannig að það hafi bæði áhrif á þróun efnahagsmála en ekki síður á lífskjör fólks því að þetta er svo gríðarlega stór þáttur í því sem hver og einn þarf að leggja af mörkum. Þess vegna er átakshópurinn farinn af stað, þess vegna mun hann skila tillögum nú á vormánuðum af því að ég er alveg sammála hv. þingmanni að við höfum gert mjög margt á undanförnum árum, þessi ríkisstjórn, í því að koma af auknum krafti inn á húsnæðismarkaðinn í gegnum stofnframlögin, í gegnum hlutdeildarlánin. Það þarf að skoða hvernig við getum byggt ofan á það því að mínu viti er það algjörlega ljóst að húsnæðismál eru velferðarmál og það þarf aðkomu hins opinbera til að tryggja öllum þak yfir höfuðið. (Forseti hringir.) Þar standa ákveðnir hópar höllustum fæti eins og ég kom að í fyrra svari.