152. löggjafarþing — 50. fundur
 10. mars 2022.
húsnæðisliður í vísitölunni.

[11:09]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Verðbólgan mælist í dag 6,2%. Þriðjung þeirrar verðbólgu má rekja til hækkandi húsnæðisverðs. Húsnæðisverð hefur undanfarið hækkað í veldisvexti og fjölmörg dæmi eru um spákaupmennsku á íbúðamarkaði. Íbúðir eru auglýstar aðeins nokkrum mánuðum eftir sölu á langtum hærra verði og helstu greiningaraðilar spá áframhaldandi framboðsskorti á íbúðum. Húsnæðisliðurinn hefur í gegnum vísitöluna keðjuverkandi hækkunaráhrif á húsnæðisverð og hefur þar með skelfileg áhrif á heimilin. Þær fjölskyldur sem sitja fastar í viðjum verðtryggðra lána mega horfa upp á eignarhlut sinn minnka um hver mánaðamót. Að auki bætast hækkandi fasteignagjöld við útgjöld heimilanna. Leigusamningar eru að jafnaði vísitölutengdir þannig að leiga hækkar einnig gríðarlega hjá þeim sem ekki hafa komist inn á húsnæðismarkað. Kjarabætur lífskjarasamninganna eru að þurrkast út. Ljóst er að grípa þarf til aðgerða strax til að vernda heimilin frá hörðustu áhrifum verðbólgunnar. Flokkur fólksins vill húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Við höfum lagt fram frumvarp þess efnis sem nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Hæstv. innviðaráðherra hefur einnig lýst þeirri skoðun sinni að tilefni sé til að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er hún sammála Flokki fólksins og hæstv. innviðaráðherra um að nú þurfi að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni og mun hún styðja frumvarp Flokks fólksins þess efnis?



[11:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem tengist þeirri sem hér var á undan. Ég vil vísa til þess hóps sem settur hefur verið af stað til að leggja til frekari tillögur. Ég vil minna á það að sá árangur sem náðst hefur, í því að tryggja aukið framboð á húsnæði, kemur til vegna tillagna þessa hóps þegar hann var síðast settur á laggirnar, 2019. Í gegnum þær tillögur var ráðist í aukningu á stofnframlögum, í breytingar á fyrirkomulagi húsnæðismála hjá hinu opinbera, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur fest sig í sessi sem lykilstefnumótandi aðili þegar kemur að húsnæðismarkaðnum og við réðumst síðan í hlutdeildarlánin. Þannig að þessi hópur er aftur farinn af stað. Viðfangsefnin eru önnur núna en þau voru þá, það tengist ekki síst verðlagsþróun en ekki síður skorti á framboði.

Og af því að hv. þingmaður gerir hér sérstaklega að umræðuefni húsnæðislið vísitölunnar þá held ég að rót vandans sé miklu frekar skortur á framboði því að við erum að horfa hér á mannfjöldaspá Hagstofunnar og við erum að horfa á spár um íbúðir á markaði og við sjáum að þetta fer ekki saman. Það er ekki verið að byggja nægjanlega mikið húsnæði þrátt fyrir að stuðningur stjórnvalda hafi í raun verið þáttur í þriðjungi allra nýrra íbúða á síðustu tveimur árum. Það er mikið umhugsunarefni. Við þurfum að huga að því hvernig við getum komið inn með enn sterkari hætti til að tryggja þetta framboð. Þegar kemur að húsnæðislið vísitölunnar þá var það tekið til ítarlegrar umræðu á síðasta kjörtímabili. Í samráði við aðila vinnumarkaðarins var fenginn sérstakur sérfræðingur í málefnum vísitölunnar til að leggja á þetta mat. Niðurstaðan varð, og við það voru allir aðilar sáttir, líka aðilar vinnumarkaðarins, að fara ekki í það að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, það væri ekki lausn á vandanum. Við þurfum að horfa á rót vandans, herra forseti, og þar þurfum við að horfa á framboð á húsnæði.



[11:13]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Þannig að svarið er sem sagt að ekki eigi að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni af því að rót vandans sé skortur á framboði á húsnæði sem aftur veldur hækkunum á vísitölunni? Hvernig er sú hækkun fólkinu í landinu að kenna? Hvernig er hægt að réttlæta að velta þeim vanda sem skortur á framboði á húsnæði er, sem er fyrst og fremst yfirvöldum að kenna, hvort sem er sveitarstjórnum eða ríkisstjórninni, yfir á fólkið í landinu? Ætlar ríkisstjórnin ekki að grípa til neinna almennra aðgerða? Eiga þær allar að vera sértækar fyrir ákveðna hópa? Hvað á að gera fyrir unga fólkið? Hvað á að gera til að sporna gegn spákaupmennsku sem keyrir upp íbúðaverðið? Hvað á að gera til þess að auka framboð íbúða, vegna þess að þessi hópur virkaði hreinlega ekki neitt? Og hvenær á að gera það? Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra kjaraviðræður haustsins fyrir sér, fari allt sem horfir, án þess að ríkisstjórnin grípi inn í með raunhæfum hætti, (Forseti hringir.) eins og með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni? Fólkið þarf aðgerðir núna.



[11:15]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Sá hópur sem ég vitnaði til, sem hv. þingmanni finnst ekki neitt neitt, hann er skipaður með aðkomu fulltrúa fólksins, þ.e. aðkomu fulltrúa stjórnmálanna, verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, sveitarfélaga. Þar situr þetta fólk saman sem skilaði góðum tillögum síðast, sem tryggði stóraukið framboð á íbúðum. Það hefur sjaldan verið byggt meira en á þessum árum vegna aðkomu hins opinbera, ríkisins. Við skulum hafa það í huga, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál — þar með er ég ekki að segja að vandinn sé leystur — að þegar við tökum ákvarðanir um aðgerðir þurfum við líka að vera viss um að þær styðji við þau sem einmitt þurfa á því að halda og ég hef rætt það hér áður. Þar vil ég sérstaklega nefna þau sem eru á leigumarkaði, sem er bæði ótryggur en líka mjög næmur fyrir verðhækkunum, en ekki síður þau sem eru utan fasteignamarkaðar og komast ekki inn á fasteignamarkað. Þess vegna settum við af stað hlutdeildarlánin. Þau hafa gengið vel og við þurfum að huga að slíkum aðgerðum, herra forseti.