152. löggjafarþing — 51. fundur
 14. mars 2022.
hugsanleg aðild að ESB.

[16:16]
Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Þær aðstæður sem nú eru í Evrópu eru bæði skelfilegar og ógnvænlegar. Við erum öll meðvituð um smæð okkar í því samhengi. Það sem mér finnst mikilvægt er að orðræðan sem fram fer, bæði innan þings og utan, sé með þeim hætti að talað sé af ábyrgð og ekki sé alið á ótta því að nægur er harmurinn fyrir. Varðandi öryggis- og varnarmál hefur ýmislegt komið fram, hver staðan er núna, hvaða sýn ólíkir aðilar hafa á framtíðina. Í því samhengi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Í ljósi stöðunnar í Úkraínu hefur umræðan um öryggis- og varnarmál á Íslandi farið hátt og mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um mat hennar á gagnsemi þess fyrir öryggis- og varnarstöðu landsins að Ísland gangi í Evrópusambandið. Eins langar mig að velta því upp hver afstaða ráðherrans sé varðandi það að taka upp aðildarviðræður í miðju krísuástandi.



[16:18]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Evrópusambandsríkin og ríkin innan EES eru sannarlega vina- og bandalagsþjóðir okkar. Það endurspeglast m.a. og fyrst og fremst í EES-samningnum sem ég er mjög ánægð með og við erum ánægð með og er mikill stuðningur við í íslensku samfélagi, sem betur fer. Það er að mínu viti kannski óþarfi að vera að bera saman öryggishagsmunina sem felast í ESB-aðild og því sem við síðan höfum. Ísland er aðili að NATO en innan Atlantshafsbandalagsins eru til að mynda Bandaríkin og Bretland með 80% af hernaðarstyrknum og Evrópusambandsríkin öll til samans með 20%, þannig að það er í mínum huga ekki mikil viðbót út frá öryggis- og varnarmálum fyrir okkur að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það er í mínum huga líka hálfgerður óþarfi fyrir okkur að velta vöngum yfir þessu núna eða vera að taka þátt í einhvers konar innbyrðismetingi um Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Staðreyndin er að það er sótt að gildum sem við eigum sameiginleg á svo mörgum vettvangi. Auðvitað er öllum frjálst að hefja máls á hverju sem þeir kjósa eins og Evrópusambandsflokkarnir hafa nú gert og það er ekkert að því að segja það ef einhverjir telja tækifæri til að tala sérstaklega fyrir ESB-aðild í tengslum við það sem er að gerast. En ég er ekki sjá það sem sérstaklega rökrétt skref um þessar mundir og ekkert af því sem hefur gerst nú breytir þeirri skoðun minni að Ísland sé ákaflega vel sett í sínu alþjóðlega samstarfi á EES-svæðinu með aðild að Atlantshafsbandalaginu og þar að auki með varnarsamning við Bandaríkin. (Forseti hringir.) Þannig að ég tel það ekki til bóta að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sérstaklega þegar það er enginn pólitískur stuðningur við það innan ríkisstjórnarinnar.



[16:20]
Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að nota þennan stutta tíma sem ég á núna til að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í afstöðu hennar. Nú var umræða hér um skýrslu ráðherra í síðustu viku og þá heyrðum við mjög skýrt frá fyrrverandi utanríkisráðherra sem sagði hreinlega: Evrópusambandið mun aldrei verja okkur. Eins og ráðherra bendir á er þessi skipting, þessi 20%, ekki rök varðandi varnarsamstarf eða öryggismál þjóðar. Það eru ekki rök að ganga í Evrópusambandið á þeim forsendum.



[16:21]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við erum í gegnum EES-samstarfið að ná bæði samstarfi og ávinningi fyrir íslenskt samfélag og í alþjóðlegu samstarfi innan Evrópusambandssvæðisins með fullnægjandi hætti. Aftur: Ég óska Evrópusambandinu góðs gengis í öllum verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur í þessu samhengi og við styðjum þau til allra góðra verka og það höfum við gert. En varðandi umræðu um Evrópusambandsaðild Íslands núna þá er í mínum huga ekkert tilefni til að efna til einhvers óvinafagnaðar um Evrópusambandsaðild. Ég vona að við höfum bara þann þroska til að setja hlutina í eðlilegt samhengi. Þessi innrás í Úkraínu af hendi rússneskra stjórnvalda og Rússlandsforseta snýst ekkert um aðild okkar þar inni eða ekki, og aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst heldur ekki um þá innrás. Við erum vina- og bandalagsþjóð Evrópusambandsríkjanna, (Forseti hringir.) vinnum mjög náið með þeim í gegnum EES-samninginn og verðum ekki varin hernaðarlega eða varnarlega (Forseti hringir.) af hálfu Evrópusambandsins heldur erum við það varnarlega í gegnum Atlantshafsbandalagið.