152. löggjafarþing — 51. fundur
 14. mars 2022.
grænþvottur.
beiðni EDD o.fl. um skýrslu, 449. mál. — Þskj. 646.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[18:10]

Beiðni leyfð til menningar- og viðskiptaráðherra  með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  ÁgÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BGuðm,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  DME,  EDD,  ESH,  FRF,  GRÓ,  GE,  GÞÞ,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  HallM,  HallÞ,  HKF,  HarB,  HVH,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JPJ,  JónG,  LínS,  LE,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SPJ,  SVS,  SSv,  TAT,  VSP,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSv.
15 þm. (ÁBG,  ÁLÞ,  BirgÞ,  BjarnJ,  BHar,  EÁ,  GuðmG,  KJak,  KFrost,  LA,  LRS,  SGuðm,  SIJ,  VilÁ,  WilW) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[18:05]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég tek boði forseta með þökkum. Það er dálítið erfitt stundum að vera hérna á réttum tíma að berja og láta vita hvort þetta sé um atkvæðagreiðslu eða að gera grein fyrir atkvæði sínu, það er lítill tími sem fólk hefur. Ég fagna alla vega þessu máli. Í kjölfar þess að við erum hérna með grænbók, eða, eins og ég myndi vilja kalla hana, grænþvottabók, þá er held ég bara mjög fínt að fá eina skýrslubeiðni. Ég tek heils hugar undir þetta.



[18:06]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu góða máli, styð þessa skýrslubeiðni heils hugar. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að skoða vel og vinna gegn því sem má kalla pólitískan grænþvott. Hvað er það t.d. annað en pólitískur grænþvottur þegar leiðtogi ríkisstjórnar segist standa fyrir grænni byltingu en ver minna en 1% af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða, þegar 23 bílaleigufyrirtæki fá 2 milljarða styrk til að kaupa bensín- og dísilbíla og það er kallað græn aðgerð eða þegar við tölum um Ísland sem grænasta land í heimi en erum um leið með eitthvert stærsta neysludrifna kolefnisfótspor í heimi? Þetta er allt saman svona pólitískur grænþvottur og við viljum varla að Stjórnarráðið sé ein risastór, hvað eigum við að segja, grænþvottastöð? Að því sögðu vil ég kalla eftir því að reglugerð Evrópusambandsins, sem kveður á um samræmdan ramma til að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum, verði lögfest sem allra fyrst en hún felur einmitt í sér ákveðnar varnir gegn grænþvotti, flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. (Forseti hringir.) Að því sögðu styð ég þessa skýrslubeiðni og hvet til þess að við spornum ekki bara gegn grænþvotti einkafyrirtækja heldur göngum líka sjálf fram með góðu fordæmi.



[18:08]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa ágætu skýrslubeiðni. Eftir því sem fleiri átta sig á nauðsyn róttækra aðgerða í loftslagsmálum þá, hvað eigum við að segja, fara óprúttnir aðilar á markaði að sjá færi í því að setja grænan merkimiða á eitthvað sem er kannski bara alls ekki grænt. Þess vegna er mjög mikilvægt að neytendur hafi í höndum þau tæki sem þarf til að sjá í gegnum þann grænþvott. Þess vegna er mjög mikilvægt að stíga þetta skref.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni að pólitíski grænþvotturinn er kannski ekki síður alvarlegur og jafnvel enn alvarlegri af því að þar teiknast upp stóru línurnar fjögur ár í senn. Þegar tveir flokkar í ríkisstjórn áttuðu sig svo á því að þeir gætu tekið gömlu stóriðjustefnuna sína og vafið hana inn í grænan álpappír og selt hana sem einhverja nýja stefnu, ja, þá hefði þurft eitthvað. Nei heyrðu, við höfðum reyndar eitthvað. Við höfðum sólina frá ungum umhverfissinnum sem sýndi svart á hvítu að einn af núverandi stjórnarflokkum var með ásættanlega stefnu í þessum málum. (Forseti hringir.) Tveir voru með óásættanlega stefnu. (Forseti hringir.) Það nægir kannski ekki að vita hverjir eru með græna vöru eða græna stefnu eða hvað það er heldur líka að muna að það skiptir máli hverjum við stjórnum með eftir kosningar.