152. löggjafarþing — 57. fundur
 28. mars 2022.
endurheimt votlendis.
fsp. LínS, 360. mál. — Þskj. 506.

[20:11]
Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála segir að efla þurfi landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Ég vil því þakka hæstv. umhverfis-, orku og loftslagsráðherra fyrir að ræða við mig um spurningar varðandi mat á forsendum og fýsileika endurheimtar votlendis hverju sinni. Það er óumdeilt að mikið kolefni er bundið í lítið rotnuðum jurtaleifum í votlendi og því getur framræsla þess leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda því að gróðurleifar rotna hraðar í þurru landi en blautu. Gleymum samt ekki að náttúran er ekki stöðluð, hún stendur ekki í stað. Hún er breytileg eftir árstíðum, breytingar verða í áranna rás og þannig tekst náttúrunni stundum sjálfri að endurheimta votlendi þótt skurður hafi einhvern tímann verið grafinn.

Þannig hefur náttúran nú þegar leyst vandann sums staðar. Hún er búin að bleyta upp í landinu og annars staðar er hún á góðri leið með það. Töluvert af skurðum breyttu aldrei neinu því að náttúran lék bæði á mælinga- og gröfumenn á sínum tíma þannig að landið þornaði lítið eða ekkert við framræslu. Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi á Íslandi eru nokkuð misvísandi og þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð raskaðs votlendis. Lífrænt efni er svo mjög misþykkt og sumt framræst votlendi losar mikið mörgum árum eftir framræsluna á meðan annað gerir það ekki. Rotnunin losar líka um önnur næringarefni í jarðveginum sem aftur getur aukið grasvöxt og þar með aukið bindingu efnis í hringrás náttúrunnar. Þetta getur leitt til þess að það þurfi minni áburð á framræstu votlendi sem hefur aftur önnur afleidd áhrif á kolefnishringrásina. Það er ekkert einfalt í þessum efnum. Það er því að mörgu að hyggja þegar ákvörðun um endurheimt votlendis er tekin. Forsenda endurheimtar er því úttekt á landi og mat á aðstæðum á hverjum stað. Ég hef því lagt fram allítarlegar, skriflegar spurningar til ráðherra um mat á áhrifum af endurheimt. Spurningarnar miða að því að fá upplýsingar um hvernig lagt sé mat á hvort endurheimt á tilteknu svæði sé líkleg til að draga úr losun kolefnis og/eða auka bindinguna. Þá er einnig mikilvægt, áður en farið er af stað í verkefni sem þetta, að meta hver séu líkleg áhrif á aðliggjandi landsvæði og mannvirki. Það þarf að vera skýrt hvert hlutverk t.d. sveitarfélaganna í leyfisveitingaferlinu er, hver eigi að bera ábyrgð á afleiddu tjóni sem mögulega getur orðið þar sem land sem hefur verið framræst í fjölda ára er endurheimt.



[20:14]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir góðar og málefnalegar fyrirspurnir í þessu mikilvæga máli.

Við fyrstu spurningu, um hvernig áhrif endurheimtar votlendis séu metin, er svarið það að tilgangur endurheimtar votlendis er að fá til baka virkni vistkerfisins sem hefur raskast við framræslu að eins miklu marki og mögulegt er. Sú virkni er t.d. geymsla á kolefni, búsvæði lífvera, vatnsmiðlun og vatnsgæði. Til að það gerist þarf að hækka grunnvatnshæð upp að yfirborði mýrarinnar og næst því þar með að tefja eða stöðva vatnsrennsli í gegnum svæðið. Hægt er að fylgjast með vatnshæð með því að setja niður vatnshæðarrör. Þó að vatnshæð hafi hækkað lýkur endurheimt ekki þar því fylgjast þarf áfram með svæðinu á nokkurra ára fresti til að athuga þróun á raksárum og mannvirkjum eftir framkvæmdir, sem og þróun á lífríki eins og gróðurssamsetningu. Mælingar á gasi og streymi þess sýna að við það að hækka grunnvatn upp að yfirborði lands stöðvast að mestu niðurbrot lífrænna efna og losun koltvísýrings stöðvast því jarðvegsdýr og örverur drepast eða hætta öllu niðurbroti lífrænna efna. Í heilbrigðum mýrarvistkerfum verður uppsöfnun lífrænna efna en ekki niðurbrot. Nægilegt er því að fylgjast með vatnsstöðuvistkerfinu og gróðurfari og tengja það samanburðarmælingum á vöktunarsvæðum og nýendurheimtum svæðum. Fylgni mælinganna er það sterk að ástæðulaust er að gera mælingar á öllum svæðum og öllum blettum endurheimtra svæða. Landgræðslan leggur áherslu á forskoðun svæða sem til stendur að endurheimta og að sú forskoðun taki til allra árstíma til að gera sér grein fyrir því hvernig vatn dreifist á svæðinu á mismunandi árstímum.

Almennt er besti tíminn til að vinna við endurheimt framræslusvæða síðsumars. Þá eru svæðin alla jafna þurrust þannig að auðvelt er að komast með þung tæki um svæðin og gera má ráð fyrir að varpi fugla sé lokið 15. júlí. Mikilvægt er að hafa í huga að land er þurrast á þessum tíma og því er hætta á að vatnsmagn svæðis sé vanmetið því að það breytist hratt eftir veðurfari, t.d. eftir miklar haustrigningar. Eldri endurheimtum svæðum Landgræðslunnar virðist öllum vegna vel þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið veðurfarslega. Samanburður á árinu 2017, sem var fremur þurrt, og 2018, sem var óvenju úrkomusamt á suðausturhluta landsins, sýnir hversu takmarkandi er að ætla sér að vakta svæðið í eitt ár fyrir framkvæmd. Það er ekki nóg.

Þá er það önnur spurning um mat á áhrifum af endurheimt votlendis og nokkrir þættir nefndir. Landgræðslan vinnur samkvæmt gátlista við endurheimt á svæðum sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar. Þar eru þeir þættir útlistaðir sem kannaðir eru fyrir endurheimt og ná til þeirra þátta sem hér er spurt um. Gátlistinn er nokkuð ítarlegur og nær til mats á jarðvegsgerð og dýpt jarðvegs, gæði framræslu, aðkomu vatns, halla lands, ruðninga úr uppgreftri, samfellu svæðis, stærð svæðis, mögulegra neikvæðra áhrifa á aðliggjandi svæði og fornminja.

Þá er það þriðja spurningin um hvaða gögn beri að leggja fram í umsókn til sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi til endurheimtar votlendis. Þar skal fyrst nefnt að það er alls ekki sjálfsagt að framkvæmdir tengdar endurheimt votlendis séu framkvæmdaleyfisskyldar þó að það sé vissulega mögulegt. Eins eru það landeigendur sjálfir sem eru eiginlegir framkvæmdaraðilar en fá styrk, ráðgjöf og aðhald frá Landgræðslunni. Landgræðslan setur það sem skilyrði fyrir styrkveitingu að erindi séu send til sveitarstjórnar og þá umsókn um framkvæmdaleyfi sé það mat sveitarfélagsins að þess sé þörf. Framkvæmdaleyfisskyldan er háð mati sveitarstjórnar hverju sinni og vísast vegna þessa til 3. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Þau gögn sem Landgræðslan hefur lagt fram með umsóknum til sveitarfélags um framkvæmdaleyfi er stærð endurheimts svæðis, lengd skurðar, kort yfir svæðið, lýsing á framkvæmdum og áhrifum á nærliggjandi svæða eða jarðveg, ef einhver eru. Ef sveitarfélög óska eftir ítarlegum upplýsingum er brugðist við því hratt og örugglega. Annars er vísað til 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi en þar eru tilgreind gögn þau er fylgja skuli framkvæmdaleyfisumsókn.

Svarið við fjórðu spurningunni um upplýsingaskyldu sveitarfélags gagnvart eigendum aðliggjandi jarðar vegna mögulegra áhrifa endurheimtar votlendis er að oft eru áhrif framkvæmda einungis takmörkuð við svæði einstakra jarða og áhrif á nágrannajarðir engin eða hverfandi. Séu áhrif á aðliggjandi jarðir einhver er eðlilegt að upplýsa og leita eftir afstöðu hlutaðeigandi eiganda. Sveitarstjórn getur til að mynda ákveðið að fyrirhuguð framkvæmd skuli grenndarkynnt nágrönnunum áður en afstaða er tekin til framkvæmdaleyfisumsóknarinnar. Við undirbúning endurheimtar votlendis skal taka mið af 7. gr. og 8. gr. vatnalaga sem fjalla um heimild manns til að veita vatni á fasteign sinni og skulu sveitarfélög því gera það í sínum afgreiðslum og kynningum.

Sem svar við fimmtu spurningunni um hver sé upplýsingaskylda sveitarfélags gagnvart eigendum mannvirkja, vega, túna sem liggja að votlendi sem ætlunin er að endurheimta vísast til svars við spurningu fjögur.

Sjötta spurning: Hver ber skaðabótaábyrgð ef endurheimt votlendis, leiðir til tjóns af mannvirkjum, vegum eða túnum? Svar: Séu skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð á annað borð fyrir hendi er eðlilegt að líta til þess er ábyrgð ber á framkvæmd hverju sinni. Slíkt getur almennt helst verið á herðum landeigenda eða Landgræðslunnar en þeirri stofnun hafa stjórnvöld falið það verkefni að vinna að endurheimt votlendis í landinu.



[20:20]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, heimurinn breytist. Afar og langafar okkar sem hér sitjum tóku margir þátt í því sem þá kallaðist framþróun, þ.e. að votlendi var ræst fram og breytt í tún á fyrri hluta síðustu aldar. Fyrir marga bændur var þetta mikil framþróun sem leiddi til þess að hægt var að afla meira fóðurs fyrir veturinn og þar með stækka bústofninn. En þessi framþróun kom á kostnað bindingar kolefnis í votlendinu. Á sama tíma hefur framþróun í slætti orsakað það að mörg þessara svæða sem umbreyttust úr votlendi í tún eru nú aftur komin í órækt. Það er mikilvægt að við vinnum í nánu samstarfi við bændur við endurheimt votlendis og tryggjum þannig sameiginlega framtíð okkar allra.



[20:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ná því að helminga losun fyrir 2030 er tvennt sem skiptir mestu máli: Það er endurheimt votlendis og röskun vistkerfa. Og það þarf líka að vera skýrt hvar ábyrgðin í því liggur. Liggur hún hjá hæstv. ráðherra hér eða hjá landbúnaðarráðherra? Á að fara í það að endurheimta votlendi? Af þeim 18 milljónum tonna sem við losum þá losar illa farið land 9,3 milljónir. Þá verður líka að segja hvernig á að aðstoða landeigendur. Á að gera það yfirleitt? Á að nýta kolefnisskattinn sem er talað um í stjórnarsáttmálanum? Á hann líka að fara í framræst votlendi? Síðan er hitt, að það þarf að stöðva gróðureyðingu og græða upp illa farið land sem tengist m.a. ofbeit á illa förnu landi. Þar er losunin um 4 milljónir tonna af þeim 18 sem við losum. Ég vil benda á að það er hvergi talað um beitarstjórnun í stjórnarsáttmálanum. Þetta tvennt: Ef við ætlum að fara að tala um átak í loftslagsmálum á Íslandi þá verðum við annars vegar að endurheimta votlendi og huga að röskun vistkerfa og síðan að stöðva gróðureyðingu. Það er ekki hægt að tala um neitt átak í loftslagsmálum nema farið verði í þessa hluti.



[20:22]
Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir svörin og þingmönnum sem tekið hafa til máls. Ég heyri að það hefur mikið gerst í þróun verklags við endurheimt á síðustu mánuðum og gátlistar, sem ráðherra benti á, og eftirávöktun eru nú í skýrara ferli en fyrir nokkrum árum síðan. Eins virðist liggja fyrir hvert sé hlutverk sveitarfélaga þegar til þeirra er leitað með umsagnir eða framkvæmdaleyfi. Ég heyri þó að sveitarfélög hafa nokkrar áhyggjur af því að þetta sé ekki nægilega skýrt þannig að það gæti verið ástæða til að skoða það nánar.

Annað sem ég vildi koma inn á er að rannsóknarskýrsla, sem kom út hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í síðustu viku um langtímatap kolefnis í framræstu ræktarlandi, dregur fram alveg nýjar upplýsingar um mat á kolefnislosuninni og samanburði á framræstu og óframræstu landi. Það má kannski fyrst og fremst draga þá ályktun af skýrslunni að við eigum mjög margt ólært um kolefnisbúskap landsins og við höfum væntanlega, miðað við þá niðurstöðu, ofáætlað losun frá framræstu votlendi og vanáætlað í rauninni það sem binst í framræslu votlendis sem er ræktað. En þetta þarf allt að skoða betur.

Þegar votlendi var ræst fram á sínum tíma voru gerð margvísleg mistök og ég held að það sé mjög mikilvægt að ekki verði gerð mistök í endurheimtinni, að það verði ekki send tæki út í allar mýrar — ég er ekki að segja að verið sé að gera það — heldur verði byggt á þekkingu og vísindum. Byggjum á áliti fagfólks, staðþekkingu og áætlunum um landnýtingu.



[20:25]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. fyrirspyrjanda sem og þeim hv. þingmönnum sem komu hér með athugasemdir. Mér finnst rétt að gera gefa lokaorðum hv. þm. Líneikar Sævarsdóttur gaum, sem mér fundust vera kjarni máls; að við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur þó svo að það sé gert með góðum hug. Mín niðurstaða, eftir að vera búinn að vera þennan stutta tíma í embætti, er að við eigum að leggja okkur fram við að kanna hluti mjög vel áður en farið er í þá. Það ætti í rauninni að segja sig sjálft að þegar við erum að fara í þessar miklu breytingar sem við höfum farið í þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum, þar erum við með mjög metnaðarfull markmið og ætlum að gera hlutina mjög hratt, þá verðum við að byggja það á bestu mögulegri þekkingu. Og eðlilega höfum við ekki verið með augun á þessu á undanförnum áratug. En það þýðir bara að við megum aldrei gleyma því þegar við gerum áætlanir að þær verða að byggja á bestu mögulegu upplýsingum og svo sannarlega eru vísindin grunnurinn að því.

Hv. þingmaður vísaði líka sérstaklega til þess, og það og kom fram hjá öðrum hv. þingmanni, Gísla Rafni Ólafssyni, að það á auðvitað að tala við og eiga í samskiptum við þá sem best þekkja landið, hvort sem það eru bændur eða fólk sem þekkir það af öðrum ástæðum. En aðalatriðið er þetta: Þetta er auðvitað mikil áskorun og stórt verkefni og þar ætlum við að ná árangri, en við skulum ekki gleyma því að við ætlum að gera það með því að vanda okkur.