152. löggjafarþing — 61. fundur
 4. apríl 2022.
um fundarstjórn.

nýtt útlendingafrumvarp.

[15:43]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þorði nú ekki að trúa því fyrr en ég tók á því, en ógeðslega útlendingafrumvarpinu var hleypt í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna. Hér hafa verið gerðar örlitlar breytingar frá þeim hryllingi sem birtist í samráðsgáttinni. Nú er ekki lengur í boði að þvinga fólk í læknisrannsóknir til að henda því úr landi. Það má bara þvinga það í PCR-próf til að henda því úr landi. Enn erum við hér með heimild til að synja flóttafólki um alla þjónustu, henda því út á götuna nema það er búið að bæta við varnagla um að það megi ekki gera við alvarlega veika einstaklinga eða fólk með fötlun. Ég held að palestínsku flóttamönnunum sem var hent út á götuna fyrir ári sé nokkuð sama um það, vegna þess að þetta ákvæði hefði gert það leyfilegt. Það sem stjórnvöld voru gerð afturreka með, vegna þess að það þótti brjóta allar mannúðarskuldbindingar íslenska ríkisins, kærunefnd útlendingamála gerði stjórnvöld afturreka með þetta — það á að gera lagagrundvöll fyrir því. Þetta er mannúðin í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, takk fyrir.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að umræðan er um fundarstjórn forseta.)



[15:44]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á hér á rétt áðan. Hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar hefur orðið tíðrætt um þetta frumvarp í fjölmiðlum upp á síðkastið og vísa þar til þess að þessar lagabreytingar séu nauðsynlegar til að tryggja flóttafólki frá Úkraínu atvinnuleyfi. Ég vil bara vekja athygli þingsins á því að það liggur frumvarp fyrir þinginu nákvæmlega þess efnis, auk breytingartillögu við annað frumvarp hæstv. ráðherra þess efnis sömuleiðis. Þetta frumvarp er ekki nauðsynlegt til að veita flóttafólki atvinnuleyfi sem útvegað hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum þótt það eigi rétt á að hafa réttarstöðu flóttamanns. Ég vil bara vekja athygli þingsins á þessu og gagnrýna harðlega að þetta frumvarp sé komið fram á þessu stigi.



[15:45]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Þetta er umræða um fundarstjórn forseta, hún snýst um mál sem eru að koma á dagskrá og þess háttar og önnur mál sem eru á dagskrá þingsins um sama efni. Samhengið hérna skiptir máli. Mig langaði líka til að vekja athygli á þeim málum sem við ræðum hér almennt séð, eins og svörum forsætisráðherra áðan. Við erum með lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og þar eru viðurlög við brotum á þeim lögum ekki afsökunarbeiðni heldur sektir. Ég myndi því vilja kalla eftir því frá hæstv. forseta að hann nái sér í eitt stykki lagafrumvarp frá forsætisráðherra um að viðurlög við broti á jafnri meðferð sé afsökunarbeiðni en ekki sektir.



[15:46]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Rétt til að útskýra fyrir forseta hvernig þetta tengist fundarstjórn forseta þá er þetta frumvarp eitthvað sem við höfum mörg barist gegn í allt of mörg ár, vegna þess að hver ráðherrann á fætur öðrum, frá Sigríði Andersen til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og til Jóns Gunnarssonar núna, hefur lagt þetta ógeðslega frumvarp fram í þeirri von að geta farið að smyrja endursendingahraðbrautina gagnvart fólkinu sem er að flýja óboðlegar aðstæður í verndarkerfinu í Grikklandi. Við sem stöndum með mannúð munum aldrei geta hleypt þessu máli hér í gegn. Þess vegna snertir þetta fundarstjórn forseta. Það er sorglegt að hafa fengið svart á hvítu vitnisburð um það að innan stjórnarflokkanna sé fólk ekki með okkur í því liði, að það fólk sé tilbúið til að hleypa svona viðbjóði inn í þingsal. (HallM: Heyr, heyr.)



[15:47]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mér finnst eitthvað sérlega dapurlegt við samhengi hlutanna hérna í dag. Áðan ræddum við í óundirbúnum fyrirspurnatíma um rasísk ummæli formanns stjórnmálaflokks sem situr í ríkisstjórn, um rasísk ummæli í garð konu. Við búum við það að hæstv. forsætisráðherra hefur sigað hæstv. ráðherra Jóni Gunnarssyni á hælisleitendur í landinu. Hann er nú búinn að rústa talsmannaþjónustu við hælisleitendur. Það er ofboðslegur skaði sem þar er unninn. Og nú blasir við okkur þetta ógeðslega frumvarp enn einu sinni. Þetta er samhengi hlutanna hérna. Þetta er samhengi hlutanna sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur býður upp á. Mannréttindaráðherrann Katrín Jakobsdóttir. Þetta er ótrúlega dapurlegt. Ég biðla eiginlega til hæstv. forseta og þingmanna hér í þessum sal að við tökum málin í okkar hendur. Við getum ekki siglt svona áfram. (HallM: Heyr, heyr.)



[15:49]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis nefna, í samhengi við athugasemd hæstv. forseta um að hér eigi að ræða fundarstjórn forseta, að þetta hefur með það að gera hvaða mál við tökum til umræðu á þessu þingi. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp er eitthvað sem reynt hefur verið að ná í gegn áður og það hefur ekki tekist. Það er alveg ljóst að það að setja þetta frumvarp á dagskrá er tímasóun, það er sóun á dýrmætum tíma og orku þingmanna og það er verið að gera það í fjórða skipti. Þess vegna hefur þetta með fundarstjórn að gera. Það er engin þörf á þessu. Það er skammur tími til stefnu. Nú erum við með sveitarstjórnarkosningar rétt fyrir þinglok. Það er fjöldi mála sem þarf að afgreiða í einum grænum í lok þings vegna þess að ríkisstjórnin dró lappirnar við að leggja fram þau mál sem hún ætlaði að leggja fyrir þingið. Það er verið að leggja þetta fram eina ferðina enn, það er verið að sóa tíma þingsins.



[15:50]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hvernig væri að við ræddum frekar hérna um samræmda móttöku t.d. fólks frá Úkraínu sem er að flýja stríð? Hvernig væri nú að við töluðum frekar um það en að vera að taka þessa vitleysu á dagskrá hérna?