152. löggjafarþing — 61. fundur
 4. apríl 2022.
ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 411. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 590.

[15:56]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 383/2021. Ákvörðunin fellir inn í samninginn tilskipun sem er hluti af regluverki ESB á sviði fjármálamarkaðar. Tilskipunin breytir reglum sem gilda um lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem hafa áður verið teknar upp í EES-samninginn.

Tilgangurinn með breytingunum er einkum að skerpa á ákvæðum sem hafa þótt óljós og hafa því verið túlkuð með mismunandi hætti innan innri markaðarins. Jafnframt er um að ræða uppfærslu á evrópsku regluverki út frá þróun alþjóðlegra viðmiða um bankastarfsemi, svonefndra Basel-staðla. Á meðal helstu efnislegu breytinga er að móðurfélögum banka er almennt gert að afla leyfis og stórum alþjóðlegum bankasamstæðum er gert að hafa móðurfélag fyrir starfsemi í Evrópusambandinu. Möguleikar eftirlitsaðila á að leggja auknar eiginfjárkröfur á banka í tengslum við svonefnt könnunar- og matsferli til að mæta kerfislægri áhættu eru takmarkaðir, en á móti er sveigjanleiki við setningu eiginfjárauka til að mæta kerfisáhættu aukinn.

Í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar, sem mælir fyrir um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn, er gerðin löguð að tveggja stoða kerfi samningsins. Þær aðlaganir eru í fullu samræmi við aðlaganir fyrri gerða á sviði eftirlitsstofnana á fjármálamarkað.

Fyrirséð áhrif innleiðingar tilskipunarinnar hér á landi eru ekki talin veruleg. Innleiðing hennar er þó liður í því að samræma lagaumgjörð fjármálafyrirtækja gildandi regluverki á Evrópska efnahagssvæðinu sem greiðir fyrir samstarfi eftirlitsaðila og viðskiptum við önnur ríki á svæðinu.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni á yfirstandandi löggjafarþingi. Utanríkismálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og viðskipta- og efnahagsnefnd fengu tilskipunina til skoðunar á síðasta löggjafarþingi og höfðu ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.

Ég legg til, virðulegi forseti, að við lok þessarar umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[15:59]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Nú eru þau að koma hérna nokkur EES-mál á færibandi. Fyrsta málið varðar fjármálaþjónustu og er það kannski hið besta mál. Samt er ég að furða mig á því í hvaða röð þessi mál koma inn því að hvergi bólar á þingmáli um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 59/2001, um innleiðingu á tilskipun um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir farartæki. Engu að síður er hér til umfjöllunar að innleiða miklu yngri tilskipun. Tilskipun um aðgengi allra að vefsíðum var samþykkt í febrúar 2021 og átti að berast þinginu í janúar á þessu ári. Hvernig stendur á því að sú tilskipun var felld út af þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á meðan þessi tilskipun um fjármálaráðuneytið kemur til umfjöllunar aðeins þremur mánuðum eftir að hún er afgreidd frá EES? Hvað veldur því að þessi innleiðing fær forgang yfir innleiðingu tilskipunar sem varðar mikilvæg réttindi fatlaðs fólks, nánar tiltekið blindra og sjónskertra?

Hv. þm. Inga Sæland hefur lagt fram fyrirspurn um stöðu þessa máls en ekki hefur borist svar frá ráðherra. Ég spyr mig: Er allt sem varðar fjármál í forgangi hjá þessari ríkisstjórn? Er það sem varðar fatlaða og blinda eitthvert aukaatriði sem þarf ekki að taka á og leiða í tilskipun þó að það ætti að vera löngu komið inn?



[16:00]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er sjálfsagt mál og eðlilegt að kanna hvar mál málið er statt sem hv. þingmaður spyr um. Ég hef ekki svör við því hér á takteinunum en get þó fullvissað hv. þingmann um að það stafar ekki af því að það mál skipti ekki máli. Töluvert hefur safnast upp af þingsályktunartillögum sem eru tilbúnar og hægt að mæla fyrir hér í þinginu og koma til nefndar. Þess vegna er ég að mæla fyrir allnokkrum í dag og það endurspeglar líka þingmálaskrá mína þar sem töluvert er um þingsályktunartillögur sem langflestar snúa að fjármálaþjónustu vegna þess að við erum einfaldlega í skuld þegar kemur að innleiðingum og okkar innleiðingahalli, sem stundum er talað um, er hlutfallslega mestur þegar kemur að fjármálaþjónustu. Þess vegna eru málin mörg hér, öll mjög tæknileg en hafa mismikið vægi hér á Íslandi, og mikilvægt að reglurnar séu samræmdar. Ég skal spyrjast fyrir um málið sem hv. þingmaður spyr um og koma þeim upplýsingum til hans.



[16:02]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vona heitt og innilega að þeir sem eru blindir, sjónskertir eða á einhvern hátt fatlaðir séu ekki gerðir afturreka og þeirra mál séu síður sett á dagskrá en mál sem varða fjármálafyrirtæki. Ég tel að þeir aðilar sem vilja fá svör við sínum málum, hvort tilskipun um þá virki, og þar á ég t.d. við blinda og sjónskerta, telji það alveg örugglega jafn mikilvægt og jafnvel mikilvægara en þær fjármálatilskipanir sem koma nú á færibandi. Ég held líka að það hefði ekki verið neitt vandamál að hafa þessa tilskipun með.



[16:03]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Beint hefur verið til mín skriflegri fyrirspurn vegna þeirrar ákvörðunar sem þingmaðurinn nefndi í fyrra andsvari og henni verður svarað á allra næstu dögum. Gert er ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar, sem hv. þingmaður spurði um, verði lögð fram á komandi haustþingi samhliða frumvarpi til innleiðingar. Stundum er það líka svo að þingsályktunartillögur koma fram vegna þess að þær hanga saman með innleiðingarfrumvarpinu. Það þýðir lítið að klára að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara ef frumvarp frá fagráðuneyti fylgir ekki með sem raunverulega innleiðir það sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni og veitir þann rétt fyrir borgara sem hv. þingmaður spyr um í þessu tilviki sem snýr að vefsetri opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir farartæki. Það kemur því fram á haustþingi samhliða frumvarpinu sem innleiðir þessi réttindi.



[16:04]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Eins og fram kom hjá ráðherra þá er tilgangur þessa máls, eins og hér segir, með leyfi forseta, „einkum að skýra ákvæði sem hafa þótt óljós“, sem er nú eitthvað sem mörgum þykir býsna algeng staða í tengslum við innleiðingar. En látum það nú liggja milli hluta í tengslum við þetta mál. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Innleiðing tilskipunarinnar er ekki talin hafa veruleg áhrif hér á landi, en er þó liður í því að stuðla að því að lagaumgjörð fjármálafyrirtækja samræmist því sem gildir annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Og áfram segir:

„Ekki er talið að áskilnaður um samþykki móðurfélaga eða milligöngumóðurfélög á Evrópska efnahagssvæðinu eigi við um nein félög sem hér starfa.“

Þetta er einn liður þessarar innleiðingar. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem kemur fram í 2. gr. greinargerðar málsins, sérstaklega e- og g-lið.

Í e-lið segir, með leyfi forseta: „Starfskjarastefna fjármálafyrirtækja skal vera kynhlutlaus.“

Í g-lið segir, með leyfi forseta: „Stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum skulu hafa fjölbreyttan bakgrunn.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver greining liggi þarna að baki í þeim fjármálafyrirtækjum sem eru starfandi á markaði, hvort raunin sé sú að starfskjarastefna fjármálafyrirtækja sé ekki kynhlutlaus eins og staðan er í dag. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver greining liggi fyrir á því hvort stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum hafi fjölbreyttan bakgrunn eins og staðan er í dag eða hvort líklegt sé að fjármálafyrirtæki þurfi að bregðast við þessari innleiðingu með einhverjum hætti.



[16:06]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er alveg ljóst í þessu máli eins og sumum öðrum að það eru takmörkuð áhrif sem innleiðingarnar hafa, stundum þannig að það kann að gerast síðar og þá liggja leikreglurnar og svörin fyrir, og stundum á það bara ekki við og mun ekki reyna á það hér. Samt sem áður, þótti þetta kalli á alls konar vinnu, þá er í stóra samhenginu alveg ljóst í mínum huga að það er til mikils að vinna að reglur hér séu algerlega sambærilegar við þær sem eru á EES-svæðinu. Þetta eru þau atriði sem hv. þingmaður nefnir og er sjálfsagt að fara yfir þau í utanríkismálanefnd og sömuleiðis samhliða meðferð innleiðingar frumvarps. Þau markmið um að bakgrunnur stjórnenda banka sé fjölbreyttur er bara af hinu góða, sem skýrist svo sem af fleiru en kynhlutleysi. En það liggur líka alveg fyrir að fjármálakerfið á Íslandi er svona almennt, þegar kemur að stjórnum og öðru slíku, ekki fjölbreyttasta svið samfélagsins. En hvort það kallar á einhverjar ráðstafanir við að innleiða þetta er nokkuð sem hægt er að fara yfir í utanríkismálanefnd. En það er ekki verið að gera kröfu um kynjakvóta, svo dæmi sé tekið, með þessari innleiðingu.



[16:08]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hér í 3. kafla greinargerðarinnar, undir yfirskriftinni Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi, er komið inn á möguleg áhrif eiginfjáraukareglna sem mælt er fyrir um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á landsvísu er nú 2% og kerfisáhættuauki 3% og samanlagt hlutfall þeirra er því 5%, en sú samtala má ekki verða hærri án samþykkis fastanefndar EFTA-ríkjanna.“

Ber að skilja það svo að þetta setji takmarkanir á þau varúðartæki sem Seðlabankinn hefur undir höndum? Miðað við þennan texta eins og hann liggur fyrir hér þá virðist Seðlabankinn vera kominn í efstu mörk hvað eiginfjáraukana varðar án samþykkis fastanefndar EFTA-ríkjanna. Hefur verið lagt eitthvert mat á þetta? Í 4. kafla, samráðskaflanum, sé ég ekki neitt samráð við Seðlabankann tilgreint. Það útilokar þó ekki að það hafi átt sér stað. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort það sé réttur skilningur þessa texta að með þessu sé Seðlabankinn kominn í efstu leyfileg mörk hvað samtölu þessara þátta eiginfjárauka varðar.



[16:09]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Seðlabankinn ákveður hlutfall annarra eiginfjárauka en verndunarauka. Sá munur er á grunneiginfjárkröfum og kröfum um eiginfjárauka að ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki grunneiginfjárkröfur getur það sætt afturköllun starfsleyfis eða öðrum veigamiklum inngripum, en ef það uppfyllir ekki kröfu um eiginfjárauka skerðast aðeins möguleikar þess á því að greiða út arð og kaupauka. En tilskipunin gerir ráð fyrir því að lögbær yfirvöld geti tilkynnt fjármálafyrirtækjum um eiginfjárálag og það er eigið fé sem yfirvöld telja æskilegt að fyrirtækin hafi umfram það sem þeim ber skylda til. Slíkar tilkynningar eru ekki bindandi en taldar eru líkur á því að fjármálafyrirtækin muni oftar en ekki kjósa að hlíta þeim. Það er ekki verið að mæla fyrir um tiltekið hámark tilkynnts eiginfjárálags. Þetta hefur ekki efnisleg áhrif á þær heimildir sem Seðlabankinn hefur í dag, eins og ég skil málið. En aftur, ef eitthvað er óljóst í því hvort verið sé að þrengja að Seðlabankanum með þessari innleiðingu þá geri ég ráð fyrir að það sé eitthvað sem muni koma fram við meðferð málsins.



[16:11]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir. Mig langaði að eiga nokkur orð. Það er oft þannig að EES-reglugerðir rúlla hérna í gegnum þingið án þess að nokkur skoði hvað verið er að gera. Það er mikilvægt að átta sig á því að það eru oft ástæður á bak við þær reglugerðir sem við erum að fá hingað inn. Eins og hæstv. ráðherra orðaði það er svolítið mikið af fjármálatengdum reglugerðum sem kemur hingað og þessi ákveðna reglugerð setur ramma utan um starfsemi stórra eignarhaldsfélaga. Í þingsályktunartillögunni er bent á að þetta hafi kannski ekki stórvægileg áhrif á Íslandi en það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það þurfa að vera reglur í kringum svona starfsemi. Ég held að fæstir Íslendingar hafi heyrt orðið eignarhaldsfélag fyrr en fór að nálgast árin 2007 og 2008 og svo á árunum eftir hrun voru allt í einu eignarhaldsfélög endalaust í fréttum. Bankarnir áttu þau á lager í skúffunum hjá sér, enda hétu þau bara einhverjum bókstöfum eftir nafninu á endurskoðunarskrifstofunni sem átti að sjá um þetta og svo var bara númer fyrir aftan. Þetta er vinsælt vegna þess að þetta er oft notað til þess að skerma af ákveðnar fjárfestingar og ef þú ætlar að fara í ákveðnar fjárfestingar og vilt takmarka ábyrgðina og takmarka skattaleg áhrif og ýmislegt annað þá borgar sig að búa til eignarhaldsfélög í kringum það.

Ég held við höfum lært það af því sem gerðist í kringum hrunið að það borgar sig að hafa góðar reglur í kringum slíkt. Eins og ég nefndi áðan er þetta sérstaklega hugsað fyrir stór eignarhaldsfélög. Mér þykja engu að síður mjög áhugaverðar þær kröfur sem gerðar eru til stórra eignarhaldsfélaga og í mínum huga er þetta eitthvað sem við gætum líka horft til varðandi hreinlega stór fjármálafyrirtæki. Þarna eru kröfur um að starfskjarastefna fjármálafyrirtækjanna skuli vera kynhlutlaus. Þetta er eitthvað sem er nú mikið talað um, starfskjörin í fjármálafyrirtækjum, að það sé eins gott að þau séu kynhlutlaus. Það er líka kveðið á um ábyrgð fjármálafyrirtækja og móðurfélaga þeirra við að tryggja hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og heimild lögbærs yfirvalds til að víkja þessu fólki frá ef það uppfyllir ekki hæfnisskilyrðin. Ég hef heyrt ýmsar sögur af því að oft uppfyllir fólk, sem hefur verið skipað í stjórnir eða jafnvel framkvæmdastjórastöður, ekki þau hæfisskilyrði. Ef við hugsum okkur t.d. lífeyrissjóðina okkar, sem eru stór eignarhaldsfélög; viljum við ekki að þau sem þar stjórna séu vel hæf til að starfa við það, hafi góða þekkingu og fjölbreyttan bakgrunn? Jú, ég myndi halda að það væri hlutur sem myndi nýtast okkur vel og nokkuð sem við ættum að skoða hvernig megi betur fara.

Að lokum er talað um fjölbreyttan bakgrunn. Það er dálítið þannig þegar horft er yfir hinar ýmsu stjórnir fjármálafyrirtækja og annarra þá eru það oft sömu aðilarnir með ákveðinn bakgrunn sem koma aftur og aftur. Það getur verið af hinu góða ef bara er verið að fjárfesta t.d. í fasteignum, að hafa einhvern með fasteignabakgrunn. En ef verið er að fjárfesta í mismunandi hlutum er einmitt mjög gott að það sé þessi breiði bakgrunnur vegna þess að til þess að fjárfesta í fasteignum eða fjárfesta í t.d. tæknifyrirtækjum, eins og við munum ræða í annarri góðri ESB-reglugerð sem kemur seinna í dag, þarf allt annan bakgrunn. Það er því mikilvægt að við leggjum við hlustir og heyrum hvað það er sem er raunverulega verið að innleiða hér. Kannski á það ekki endilega við um okkur þar sem við eigum ekki of mörg eignarhaldsfélög sem eiga svona mikið eða eru svona stór. Það þýðir ekki að við getum ekki tekið það góða sem kemur til okkar, og hefur greinilega sýnt sig innan Evrópusambandsins að eru atriði sem þau hafa rekist á í sínum hluta eftir að hafa átt við það sem gerðist eftir 2008, að við getum ekki nýtt það sem hugmyndir og reglur til að setja fyrir smærri félög hér heima.

Svo megum við ekki gleyma því að við erum orðin hluti af samevrópskum fjármálamarkaði sem þýðir að ef við erum ekki með reglur fyrir svona stór eignarhaldsfélög þá gætum við orðið skálkaskjól fyrir slík félög þar sem þau kæmust upp með að gera hluti sem þau kæmust ekki upp með að gera annars staðar í Evrópu. Kannski komumst við einmitt í eitt annað frumvarp seinna í dag, ekki tengt ESB að þessu sinni, þar sem Ísland er að verða skálkaskjól þegar kemur að fiskeldi í sjó þar sem umhverfisreglurnar eru of orðnar of strangar í Noregi og annars staðar. Við viljum hafa þær opnari og þar af leiðandi sjáum við alls konar fjármagn koma að utan til að fjárfesta hér meðan það er enn þá leyft. Það er nákvæmlega það sama sem gildir hér, við þurfum að hafa reglurnar, við getum lært af þessum reglum og við þurfum að passa að við verðum ekki skálkaskjólið þegar kemur að þessu.



[16:20]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirferðina. Mér fannst ýmislegt áhugavert koma fram í máli hans. Mig langar að drepa hér á einstaka atriði. Hv. þingmaður talar um að þær reglur sem við erum að tala um að innleiða hér séu til þess ætlaðar að skerma af starfsemi þessara eignarhaldsfélaga í fjármálageiranum, sem tengjast þar almennt. Við þekkjum það, sem lifum og hrærumst hér, að þessi séríslensku eignarhaldsfélög eru einstaklega fallega og oft á tíðum listilega vel ofnir kóngulóarvefir sem ætlað er að gegna allt öðru hlutverki en því að upplýsa almenning um raunverulega stöðu. Það á ekki bara við um eignarhaldsfélög í fjármálageiranum heldur víða. Nærtækt er að nefna hér eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku atvinnulífi þar sem segja má sem svo að sá vefur sem þar hafi verið ofinn sé þess eðlis að þetta séu á einhvern hátt opinberar upplýsingar en að sama skapi svo listilega falið inni í kerfinu að það er ekki á færi nema sérfróðra einstaklinga að safna þeim upplýsingum. Síðan halda stjórnvöld vörnina vel þar, þannig að ekki komumst við að því efni.

Mig langaði til að spyrja, vegna þess að það eru aðstæður sem er erfitt að sjá fyrir sér að væru viðurkenndar innan Evrópusambandsins — og kannski líka í tengslum við bankasöluna núna og þá leynd sem enn er uppi um það hverjum var boðið að taka þátt: Sér hv. þingmaður það fyrir sér að þessi tiltekna gerð muni hafa áhrif á gegnsæi í þessum eignarhaldsfélögum fjármálafyrirtækja? Eða þurfum við að bíða annarra gerða með að tryggja þá upplýsingagjöf stjórnvalda og embættismannakerfisins til íslensks almennings? Dugar þetta til þar, til viðbótar við annað jákvætt sem þessi gerð mun leiða af sér?



[16:22]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þessi gerð hjálpar að einhverju leyti. Eins og segir í henni:

„… í öðru lagi að skipulag samstæðu hindri ekki eftirlit og í þriðja lagi að eigendur virkra eignarhluta, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri séu metnir hæfir.“

Það stendur ekki fullkomlega að það eigi að vera vitað hverjir þeir eru. Það hefur reyndar batnað með tilkomu þess að við þurftum orðið að skrá raunverulega eigendur félaga, nokkuð sem setti okkur nú á gráan lista á sínum tíma. Það hefur bætt það örlítið. En það að hluthafaskrár séu ekki aðgengilegar er dálítið sem að sjálfsögðu gerir það erfiðara að finna hvar hlutirnir liggja í þessum kóngulóarvef eignarhaldsfélaga. Það er líka vel þekkt að ein af góðu leiðunum til að fela hluti er að vera með eignarhaldsfélögin dreifð víða um heim. Það er von manns að að hluta til leiði gerð eins og þessi og önnur svipuð til þess að innan EES verði erfiðara að fela slíka hluti innan þess. Já, skref í rétta átt en kannski ekki eins stórt skref og við myndum vilja sjá.



[16:24]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Já, ekki eins stór skref og við hefðum viljað sjá. Kannski er það þannig að þessi gerð felur ekki í sér það stóra skref vegna þess að þau lönd Evrópu sem hafa raunverulega aðkomu að því að smíða þessar gerðir glíma ekki við þetta sama vandamál út frá hagsmunum almennings, eða eitthvað annað orð myndu sérhagsmunaaðilar væntanlega nota. Það hefði verið áhugavert að sjá ef hagsmunum Íslands hefði verið haldið á lofti við þessa gerð.

Mig langar hins vegar til þess hér í seinna andsvari að biðja hv. þingmann að leiða hugann að stöðu lífeyrissjóðanna okkar inni í þessu öllu saman. Þeir eru annað svolítið séríslenskt fyrirbæri og gríðarlegur styrkleiki þeirra í íslensku atvinnulífi almennt og í helstu fyrirtækjum og líka á fjármálamarkaði. Það gilda svolítið aðrar reglur um þessa lífeyrissjóði en það er ekki endilega alltaf svo að gegnsæið sé meira eða annað slíkt. Ég hefði áhuga á því að heyra vangaveltur hv. þingmanns um það, þegar verið er að ræða um eignarhaldsfélög á fjármálamarkaði almennt og beina hluthafa, hvar lífeyrissjóðirnir koma inn og hvernig við getum tryggt, þegar við erum að reyna að laga kerfið okkar að því sem best gerist í Evrópu, samræma það, að þeir falli þar inn í. Við eigum svo ótal mörg dæmi um þetta. Við horfum t.d. upp á það við sölu bankans að þeir eru komnir beggja megin við borðið, þeir eru orðnir enn sterkari en áður var í rekstri sem einhverjir hefðu einhvern tímann talið að væri ekki beinlínis þeirra kjarnastarfsemi. Á meðan við erum að laga okkur að þessu samevrópska kerfi (Forseti hringir.) út af Evrópska efnahagssvæðinu, sitjum við þá alltaf með þetta útskot sem eru lífeyrissjóðirnir okkar þegar við erum að tala um starfsemi fjármálamarkaða?



[16:26]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu um lífeyrissjóði. Þeir eru í raun stór eignarhaldsfélög. Munurinn er bara sá að arðurinn fer í að borga okkur lífeyri. Ég tel gagnsæi á sviði lífeyrissjóða vera mjög ábótavant og hafandi búið erlendis og borgað í lífeyrissjóði þar, hvernig það virkar — þar þurfa lífeyrissjóðir og allir sjóðir sem þú getur fjárfest í að gefa upp nákvæmlega hvað allur kostnaður er, hvers konar prósenta er tekin þegar þú kaupir þig inn, þegar þú selur, ef þú skiptir frá einni fjárfestingu yfir í aðra, allt þetta er svart á hvítu sem hjálpar þér að velja í hverju þú vilt fjárfesta. Þetta er algjörlega svart box hér á Íslandi.

Annað er mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að lífeyrissjóðunum. Á meðan gjaldeyrishöftin voru í gangi þá gátu þeir eiginlega bara fjárfest hér á Íslandi. Það gerði að verkum að lífeyrissjóðirnir eru eigendur út um allt í hagkerfinu á Íslandi. Það er mjög sérstakt og nokkuð sem er mjög erfitt að vinda ofan af. Við heyrðum hæstv. fjármálaráðherra tala um það í síðustu viku hve erfitt það væri að komast til baka yfir í það að leyfa þeim að eiga dreifðara eignasafn. Við sjáum voðalega lítið hvað er að gerast þarna inni, í hverju þeir eru að fjárfesta. Af hverju? Hver er fjárfestingarstefnan þeirra? Allt þetta er ákveðið af örfáum aðilum í framkvæmdastjórn þessara lífeyrissjóða og það er allt of lítið gagnsæi að mínu mati.



[16:29]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar, í ljósi þess að hv. þingmaður hefur starfað töluvert mikið í alþjóðlegu umhverfi á sviði mannúðarmála og mörg slík verkefni eru á þeim stað að njóta umtalsverðs stuðnings risafyrirtækja af ýmsum gerðum, að spyrja í því samhengi hvort það séu letjandi áhrif sem koma fram á flæði stuðnings og styrkja frá stærri fyrirtækjum og stofnunum og eignarhaldsfélögum, eins og hér er fjallað um og þar fram eftir götunum, hvort hv. þingmaður telji að það verði viðbótarflækjustig við það að regluverk þyngist jafnt og þétt í fjármálaumhverfinu. Eða skiptir það litlu máli hvað það varðar að styrkjum sé stýrt til mannúðarverkefna, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur unnið að erlendis? Því ég held að ef við horfum bara á Ísland og þetta míkróhagkerfi sem við höfum þá er það þannig að allur viðbótarkostnaður sem fellur á atvinnulífið með einum eða öðrum hætti dregur úr getu og mögulega vilja til að stýra fjármunum til góðra verka.



[16:31]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Það er sem betur fer þannig að fjárfestar, og þá er ég að tala um almenningsfjárfesta sem fjárfesta í stórum sjóðum, fjárfestingarsjóðum og jafnvel lífeyrissjóðum, eru farnir að setja kröfur um að það sem þessir sjóðir sem þeir eru að fjárfesta í sýni samfélagslega ábyrgð. Við sjáum það gerast sífellt oftar að það verða til sjóðir og fyrirtæki og annað sem horfa ekki bara á arðinn heldur horfa á hvað þeir geta gert samfélagslega. Vandamálið er að löggjöfin okkar setur stundum fyrirtækjum og öðrum ákveðnar skorður. Hlutafélög hafa t.d. þann eina tilgang að búa til arðsemi fyrir hluthafa sína. Er það að búa til arðsemi ef hlutafélagið gefur til góðgerðarmála? Það er í rauninni hægt að kæra framkvæmdastjóra og forstjóra stórfyrirtækja sem það gera ef upphæðin verður of há að mati einhvers hluthafa. Þetta er nokkuð sem farið er að tækla með því að búa til sérstaka tegund hlutafélaga, svokölluð samfélagslega ábyrg hlutafélög. Því miður er þau ekki til á Íslandi enn þá en hafa verið til í Bretlandi, Bandaríkjunum og fleiri löndum þar sem það er líka hlutverkið að bæta samfélagið og við mættum endilega sjá meira af því. Ég veit að það eru fyrirtæki, það eru stofnanir og fjárfestar sem láta gott af sér leiða og það ætti einmitt að vera hluti af fjárfestingarstefnu hvers og eins að hugsa um samfélagið, hugsa um umhverfið. Svokallaðir ESG-sjóðir hafa mjög aukist að undanförnu en þeir horfa einmitt til umhverfis og samfélags.



[16:33]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þegar við köfum aðeins undir yfirborðið séu flest fyrirtæki — fyrir utan auðvitað þá svörtu sauði sem eru, sama hvort horft er á hóp einstaklinga eða fyrirtækja eða hvaða hluti samfélagsins það er, iðulega í hverjum hópi — ef við horfum bara aftur á míkróhagkerfið á Íslandi þá séu fyrirtæki gegnumgangandi samfélagslega ábyrg sem betur fer. Maður sér það, alveg sama hvort horft er á einhverja fótboltaferð 6. flokks úti á landi eða yfir í risaverkefni eins og söfnunina sem við sáum í sjónvarpinu síðastliðinn sunnudag, að með einum eða öðrum hætti er þetta allt drifið áfram af stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka eins og þarna sem tosa það til sín. Það fór í gegn löggjöf á liðnu þingi sem liðkar að einhverju marki fyrir þessu, en ég held að við ættum alltaf að hafa það í huga að reyna að lágmarka óþarfareglusetningu sem engu skilar. Við sjáum t.d. að einhverjir fyrirsvarsmenn kirkjukóra landið um kring hafa setið sveittir við að skrá raunverulega eigendur kirkjukórsins. Það skilar engu. Það blasir við. Þeir sem ætla sér illt láta slíkt ekki stoppa sig. En ég held að við ættum að halda allri reglusetningu þannig að svigrúmið til að geta látið gott af sér leiða sé sem allra mest fyrir fólk og fyrirtæki.



[16:35]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir seinna andsvarið. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Það hefur verið rosalega fallegt að horfa upp á það, sérstaklega núna undanfarnar vikur, að fyrirtæki virkilega leggja hönd á plóginn þegar kemur að hjálparstarfi og að sjá að við sem samfélag getum gert góða hluti. Það að geta fengið afslátt frá sköttum fyrir að gera samfélagslega hluti er nokkuð sem er mun opnara t.d. í Bandaríkjunum en hér. Þrátt fyrir að það hafi verið opnað fyrir það hér eru enn þá takmörk á því.

Ég er líka hjartanlega sammála því að við þurfum að passa að regluverkið sé ekki of mikið. Það er dálítið fyndið með kirkjukórana og húsfélögin sem þurftu allt í eina skrá raunverulega eigendur, að sú krafa kom aldrei að utan. Sú krafa kom af því að eina leiðin fyrir aðra en einstaklinga að fá kennitölu úthlutað til að geta opnað bankareikning var að skrá þessa kirkjukóra og hlutafélög í fyrirtækjaskrá. Krafan utan frá var að fyrirtæki í fyrirtækjaskrá væru gefin upp. Skatturinn einfaldlega var ekki tilbúinn til að hafa tvö aðskilin tölvukerfi, annað til að halda utan um þessi félagasamtök, húsfélög, kirkjukóra o.s.frv., sem eru ekki í rauninni fyrirtæki, og svo hins vegar fyrirtækin. Það var aldrei krafa um húsfélögin og það erlendis frá. Hún var bara af því að tölvan sagði nei hjá Skattinum.



[16:38]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég er viss um að sú sem situr í forsetastóli núna geti tekið undir með mér þegar ég segi að við ræðum utanríkismál allt of sjaldan hér í sal, hvað þá að við ræðum EES-mál. Það gerum við allt of sjaldan miðað við hversu mikið vægi þau hafa á framþróun samfélagsins og lagaumhverfis hér á landi. Hér erum við að ræða tillögu til þingsályktunar sem varðar fjármálakerfið á Íslandi og það fyrsta sem slær mann við svoleiðis tillögur þegar þær koma til okkar er að Ísland er eiginlega bara stundum einni stærð of lítið fyrir þetta regluverk sem við fáum til okkar. Við fáum þessar tilskipanir frá Evrópu, oft smekkfullar af góðum hugmyndum sem væri gaman að hrinda í framkvæmd, en vegna þess að Evrópa setur öll stærðarmörk miðað við miklu stærri samfélög en við búum í þá á fæst af þessu við um Ísland. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort við ættum kannski að fara að líta á þessar tilskipanir, þó að þær séu kannski ekki allar bindandi að þjóðarétti, sem einhvers konar hvatningu til þess að við tökum upp hluti miðað við hlutfallsleg stærðarmörk.

Til gamans fletti ég því upp að íslensku lífeyrissjóðirnir áttu í ársbyrjun eignir upp á 6.550 milljarða. Bankarnir íslensku áttu eignir á svipuðum tíma upp á 4.719 milljarða. Þetta eru samanlagt rúmir 11.000 milljarðar sem er þreföld þjóðarframleiðsla Íslands á einu ári. Þó að þessar fjármálastofnanir nái því ekki einu sinni að eiga 100 milljarða evra á sínum efnahagsreikningi þá eiga þær þrefalda þjóðarframleiðslu Íslands og hafa þess vegna í íslensku samhengi mjög mikið vægi. Þess vegna er sitthvað í þessari tillögu sem vert er að skoða og ýmislegt svo sem við höfum skoðað.

Ég staldra t.d. við e-lið í 2. kafla greinargerðarinnar varðandi það að starfskjarastefna fjármálafyrirtækja skuli vera kynhlutlaus. Fyrst velti ég fyrir mér hvort kynhlutlaus sé endilega rétta orðið í þessu samhengi vegna þess að til þess að leiðrétta þá skekkju sem er á vinnumarkaði þarf stefnan einmitt ekki að vera hlutlaus á kyn heldur þarf hún að taka tillit til þeirrar kynjaskekkju sem er á vinnumarkaðnum. Hún þarf, eins og ég held að Alþjóðaþingmannasambandið hafi t.d. kallað það þegar sambandið beitir sér fyrir umbótum í löggjafarþingum, að vera kynnæm. Hún þarf að vera næm á kynbundnu skekkjuna sem þarf að leiðrétta. Þetta erum við farin að kunna dálítið á hér á landi eftir að við t.d. innleiddum jafnlaunavottun í lög. Hvað kom þá í ljós? Það er kannski ekki nóg að vera bara með starfskjarastefnu um að jafna laun á milli fólks sem gegnir sambærilegu starfi, að sjá til þess að ein hilla í fyrirtækinu sé jöfn, heldur þarf að skoða allan strúktúr kerfisins.

Þetta skiptir sérstaklega miklu máli í fjármálageiranum á Íslandi, fyrir utan það að fjármála- og vátryggingastarfsemi, sú atvinnugrein þar sem óleiðréttur launamunur kynjanna er mestur á Íslandi, er líka grein þar sem karlar stýra. Það hefur gengið mjög illa að leiðrétta þá skekkju í íslenska fjármálakerfinu. Kjarninn hefur t.d. árlega tekið út stöðu kynjanna í fjármálakerfinu, birt greinaflokk um hvaða fólk það er sem stýrir peningunum okkar og nýjustu tölur 2021 voru þær að stjórnendur íslensku fjármálafyrirtækjanna væru 83 karlar og 11 konur. Þetta er um það bil óbreytt þau átta ár sem Kjarninn hefur skoðað þetta.

Eitt af verkfærunum sem við höfum til þess að snúa þessari skekkju við eru t.d. reglur sem voru settar hér fyrir rúmum áratug varðandi hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja vegna þess að alla vega fólkið sem flutti það mál á sínum tíma gerði það m.a. með vísan til þess að með því að topparnir yrðu jafnari myndi sá jöfnuður einhvern veginn seytla í gegnum fyrirtækin og hafa áhrif á starfsemi þeirra. En hvað gerðist? Árið 2010 þegar frumvarp um jafnt kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana var lagt fram og samþykkt voru konur 19,5% stjórnarmanna á Íslandi. Þegar lögin tóku að fullu gildi 2013 voru konur 30,5% stjórnarmanna. Á síðasta ári þegar lögin voru búin að vera að fullu í gildi í átta ár hafði hlutfall kvenna ekki hækkað nema upp í 34,1% frá þessu 30,5% sem var þegar lögin tóku gildi. Þetta gerist á hraða snigilsins þannig að við hljótum að þurfa að skoða hvernig er hægt að hraða þessu.

Þá langar mig að rifja upp þingmál sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir flutti í þessum sal fyrir nokkrum árum þar sem hún benti sérstaklega á að það eru engin viðurlög við því að fylgja ekki lögum um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja. Þetta er náttúrlega algerlega á skjön við það sem er t.d. raunin í Noregi, þangað sem Ísland sótti fyrirmyndina að þessum lögum á sínum tíma, enda hefur árangurinn verið mun meiri í Noregi. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að stundum þarf viðurlög til að ákvæðum laga sé fylgt og í tilfellum fyrirtækja þarf dagsektir. Það var einmitt tillagan sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom með í áðurnefndu frumvarpi, þá var hún að horfa á samvinnufélög sérstaklega, ef ég man rétt. Hún lagði til að það myndu einfaldlega leggja dagsektir á félögin ef þau uppfylltu ekki reglur um kynjakvóta þannig að þau fyndu það á pyngjunni ef þau færu ekki að lögum. Það held ég að væri nú ansi milt úrræði miðað við ýmsar þvingunarheimildir sem settar hafa verið í lög á Íslandi, að sekta fyrirtæki ef þau fylgja ekki lögum.

Ég sé að tíminn er að renna frá mér en mig langar að nefna g-lið 2. kafla greinargerðarinnar sem mér finnst sérstaklega áhugaverður og varðar það að stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum skuli hafa fjölbreyttan bakgrunn. Sporin hræða kannski varðandi kynjabreiddina, að við höfum ekki náð að fylgja þeim ákvæðum eftir eins og ég hef farið yfir, en það væri ofboðslega spennandi ef við næðum einhvern veginn utan um það að atvinnulífið í landinu endurspeglaði þann fjölbreytileika sem er í samfélaginu miklu betur en það gerir í dag, ekki bara varðandi kyn og aldur, sem við erum kannski vanari því að ræða, heldur uppruna og fötlun og hvað það er sem getur einkennt fólk annað en kyn og aldur. Ekki síst skiptir þetta máli í fjármálafyrirtækjunum sem hafa svo ofboðslega mikið um það að segja hvernig samfélagið þróast í krafti sinna fjárfestinga.

Við þurfum ekkert að rifja upp, frú forseti, hvernig fór hér á árunum fyrir hrun þegar bankarnir tútnuðu út af allt of einsleitum bisnesskörlum sem steyptu öllu í glötun. Þar hefði fjölbreytileikinn svo sannarlega komið að gagni.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.