152. löggjafarþing — 61. fundur
 4. apríl 2022.
ákvörðun nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 500. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 717.

[18:13]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021. Ákvörðunin fellir inn í EES-samninginn fjórar ESB-gerðir varðandi greiðslureikninga. Greiðslureikningar eru bankareikningar einstaklinga sem nýttir eru til að inna af hendi greiðslur aðrar en þær sem tengjast atvinnustarfsemi.

Í einni af umræddum gerðum, tilskipun 2014/92/ESB, er mælt fyrir um reglur um gagnsæi og samanburð á gjöldum sem neytendur þurfa að greiða fyrir greiðslureikninga sína. Þá er mælt fyrir um reglur um skipti á greiðslureikningum innan aðildarríkis og reglur til að greiða fyrir að neytendur stofni reikninga vegna greiðslna yfir landamæri. Samkvæmt tilskipuninni skulu greiðsluþjónustuveitendur m.a. láta neytendur fá gjaldskrá þar sem fram koma, ásamt fleiru, gjöld fyrir hverja þjónustu sem greiðsluþjónustuveitandi býður. Þá skulu lánastofnanir veita neytendum aðgengi að almennum greiðslureikningi og er óheimilt að mismuna neytendum að því leyti.

Hinar þrjár gerðirnar sem ákvörðunin varðar leiða allar af fyrrnefndri tilskipun og setja nánari reglur um framkvæmd hennar.

Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar eru tvær af gerðunum aðlagaðar að tveggja stoða kerfi samningsins. Þær aðlaganir eru í fullu samræmi við þá nálgun sem unnið hefur verið eftir vegna fyrri gerða á sviði eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur fjármála- og efnahagsráðherra þegar lagt fram frumvarp til innleiðingar á tilskipun 2014/92/ESB á yfirstandandi löggjafarþingi, ég vísa til 417. máls. Hinar þrjár gerðirnar verða innleiddar með reglum sem Seðlabanki Íslands setur.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar umræðu þessari lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[18:15]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég varð að leita smá á netinu til að geta áttað mig á því hvers konar greiðslureikningar þetta væru og komst þá að því að þetta eru bara venjulegir bankareikningar fyrir okkur neytendur sem við getum lagt pening inn á, tekið peninga út af og við getum borgað greiðslur. Mér þótti athyglisvert samt hvað þetta er gömul reglugerð. Hún er upphaflega frá 2014 og þegar ég var að reyna að finna út úr því hvað þetta væri allt saman, af því að það er stundum svolítið erfitt að lesa það út úr þessum þingsályktunum, sá ég að þetta mál fór í nefnd 2015. Mig langaði bara að forvitnast hjá hæstv. ráðherra hverjar væru ástæðurnar fyrir því hversu langan tíma þetta hefur tekið að fara inn í íslenskt regluverk.



[18:17]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þegar stórt er spurt þá er það sem ég get upplýst að þetta er vissulega hluti af upptökuhallanum á sviði fjármálaþjónustu. Innleiðingarhalli er þegar við erum með mál sem við eigum eftir að klára að innleiða í EES-samninginn en hefur verið klárað af hálfu EES-nefndar og við þurfum að klára okkar hluta. Upptökuhallinn er síðan þegar sameiginlega EES-nefndin og okkar hluti eiga eftir að taka upp regluverk, tilskipanir eða reglugerðir í EES-samninginn. Þetta er hluti af upptökuhallanum á sviði fjármálaþjónustu. Í vinnunni við að vinna hann upp hefur verið unnið eftir ákveðinni forgangsröðun. Það er kannski kjarni svarsins. Það hefur verið unnið eftir ákveðinni forgangsröðun af því að hallinn hefur verið töluverður undanfarin ár. Það má þá lesa í það að fyrst þetta er frá 2015 en er núna fyrst að berast hingað inn, þá hafi þetta verið ansi neðarlega í þeirri forgangsröðun. Hvort þessi gerð hefði átt að vera í meiri forgangi en önnur skal ósagt látið. Ég er ekki alveg í stöðu til að svara því. Það er einhverju leyti háð mati fjármálaráðuneytisins og sömuleiðis samstarfsþjóða okkar innan EFTA sem aðild eiga að EES. Það kann að vera í raun blanda af öllum þessum þáttum sem ég ímynda mér að hafi spilað þarna inn í. Án þess að ég fullyrði nákvæmlega hver þessara þátta vegur þyngst þá er það svo að þessir þættir saman gera það að verkum að við erum að koma með þetta hingað inn núna.



[18:19]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við skulum vona að við getum þá afgreitt þetta hratt í gegnum þingið fyrst þetta er búið að bíða svona lengi. Það er mjög athyglisvert að þarna er verið að setja reglur um gagnsæi og samanburð á gjöldum sem neytendur þurfa að greiða. Það hefur einmitt ekki verið alveg nógu gagnsætt fyrir íslenska neytendur hvaða kostnað bankarnir eru að taka til sín, sér í lagi þegar kemur að því að fá hina ýmsu þjónustu. Í gamla daga var jú munurinn á innvöxtum og útvöxtum notaður til að reka bankann en í dag virðast það vera þjónustugjöld.

Mig langaði að vita hvort hæstv. ráðherra gæti skýrt út hvort það sé réttur skilningur minn á reglugerðinni að hún auðveldi líka t.d. Íslendingum sem flytja til Evrópusambandslanda að opna bankareikninga eða greiða reikninga þegar flutt er til að mynda á milli landa. Hafandi sjálfur flutt á milli þó nokkurra Evrópusambandslanda þá er það oft eitt af meiri flækjustigum að opna á bankareikninginn. Það er talað hérna um að stofna reikninga vegna greiðslna yfir landamæri og skil ég það rétt að það muni auðvelda það að vera með viðskipti í öðrum löndum?



[18:21]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Stutta svarið er já. Þetta á að einfalda og tryggja að allir sem dvelja löglega á Íslandi hafi aðgang að almennum greiðslureikningi og neytendum auðveldað að skipta um greiðslureikninga og aðgengi almennings að upplýsingum um gjaldtöku vegna greiðslureikninga bætt, m.a. með gjaldskrá, gjaldayfirliti, samanburði á vefsetrum á gjöldum sem tengjast greiðslureikningum. Eins og ég skil málið þá á það sömuleiðis, af því að það gildir um önnur lönd líka, að auðvelda fólki að opna reikninga innan Evrópusambandsins og -svæðisins.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.