152. löggjafarþing — 69. fundur
 26. apríl 2022.
sérstök umræða.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:05]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Að misbeita opinberu valdi í einkaþágu er skilgreiningin á spillingu. Í öllum störfum stjórnvalda er hvergi eins mikil hætta á spillingu einmitt eins og þegar ríkiseignir eru seldar. Eins og við Píratar vöruðum ítrekað við í aðdraganda sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur núverandi fjármála- og efnahagsráðherra skilið eftir sig slóð spillingarmála og klúðrað þegar kemur að sölu ríkiseigna. Það er þess vegna sem Píratar voru á móti þessari sölu. Auk þess er hann allt of persónulega tengdur í íslenskt viðskiptalíf til að geta talist hæfur til að fara með slíka sölu. Og úr varð sem varð; framkvæmdin var ekki í samræmi við lög og þekktir leikendur úr bankahruninu, auk pabba ráðherra, eignuðust hlut í bankanum á afslætti. Afslátturinn sem átti að laða að langtímafjárfesta nýttist þess í stað bröskurum í gróðavon. Söluaðilar voru staðnir að því að selja sjálfum sér og margir á kaupendalistanum höfðu stöðu innherja. Skilgreiningin á hæfum fjárfestum var svo óljós að alls konar braskarar komust að. Á þessu ber fjármála- og efnahagsráðherra lagalega og pólitíska ábyrgð.

Forseti. Það liggur beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að framkvæmd útboðsins hafi verið í samræmi við þær fyrirætlanir sem kynntar voru í ráðherranefnd um efnahagsmál í aðdraganda þess. Hvernig sá forsætisráðherra fyrir sér að tryggja aðkomu hæfra fjárfesta sem eiganda bankans þegar salan var undirbúin? Var það rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál að gera einhvers konar lágmarkskröfur til fjárfesta, t.d. um lágmarkshlut, til að tryggja þátttöku hæfra langtímafjárfesta? Finnst forsætisráðherra að þessum kröfum hafi verið mætt ef þær voru þá einhverjar yfir höfuð?

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur greint frá því að hún hafi viðrað áhyggjur sínar í ráðherranefnd um efnahagsmál í aðdraganda útboðsins. Það verður að teljast alvarlegt að ekki hafi verið hlustað á áhyggjur hennar í ljósi þess að ráðherranefndinni er einmitt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún brást við sjónarmiðum viðskiptaráðherra um að notast frekar við opið útboð. Einnig vil ég spyrja hvort forsætisráðherra taki undir með viðskiptaráðherra um að ábyrgðin á söluferlinu hljóti að liggja hjá stjórnmálamönnunum sem tóku ákvarðanirnar í málinu.

Að lokum vil ég ítreka þá kröfu stjórnarandstöðunnar hér á þingi að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka lokaða útboðið þann 22. mars síðastliðinn. Tilgangur skipan rannsóknarnefndar er bæði að rannsaka sjálfa framkvæmd útboðsins í þaula en einnig að leiða fram pólitísku ábyrgðina og rekja alla þá þræði sem til þarf svo að heildarmyndin sé skýr.

Það að ríkisendurskoðandi sé þegar að rannsaka málið kemur ekki í veg fyrir skipan rannsóknarnefndar og raunar væri best að slík rannsóknarnefnd hefði störf sem allra fyrst í ljósi umfangs slíkrar rannsóknar. Við vitum að ríkisendurskoðandi getur vel starfað með og samhliða rannsóknarnefnd og niðurstaðan myndi skila umfangsmeiri og haldbærari niðurstöðu enda eru rannsóknarheimildir nefndarinnar víðari en ríkisendurskoðanda.

Forseti. Við sjáum leiðtoga ríkisstjórnarinnar hríðfalla í traustmælingum eftir þessa bankasölu. Hvað græðir ríkisstjórnin á því að koma ekki til móts við áhyggjur stjórnarandstöðunnar, sem er jú málsvari tæprar hálfrar þjóðarinnar? Til hvers að skapa sundrung sem fylgir því að sættast ekki á kröfu stjórnarandstöðunnar um rannsóknarnefnd? Mikilvægt skref í að auka traust er að hlusta á áhyggjur og ákall þjóðarinnar og ná samstöðu í þinginu um hvernig við rannsökum þetta mál. Það skiptir öllu máli upp á trúverðugleika rannsóknarinnar að hún sé á forsendum þingsins en ekki á forsendum stjórnarinnar sem framkvæmdi söluna og þingmeirihlutans sem keppist nú við að veita henni skjól. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra til að verða við kröfu stjórnarandstöðunnar um að setja á fót rannsóknarnefnd strax.



[16:10]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka málshefjanda, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir að eiga hér orðastað við mig undir þessum lið og ég mun reyna að fara yfir nokkur atriði af þeim sem hún setti á dagskrá í sinni upphafsræðu. Fyrst vil ég byrja á að rifja upp að við höfum auðvitað hér á þingi samþykkt lög um það hvernig eigi að haga undirbúningi á sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar ber að rifja upp að í greinargerð með frumvarpi til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir:

„Söluferli eignarhluta í fjármálafyrirtækjum má skipta upp í tvo meginþætti, annars vegar í ákvörðun um sölu og fyrirkomulag hennar og hins vegar ferlið sjálft eftir að ákvörðun hefur verið tekin.“

Hv. þingmaður spyr hér um ábyrgð og ég vil segja að það er alveg ljóst að ráðherra og ríkisstjórn bera pólitíska ábyrgð á þeirri ákvörðun að selja þennan hluta Íslandsbanka sem og að samþykkja þá aðferð sem ákveðin var að tillögu Bankasýslunnar, þeirrar fagstofnunar sem fer með þessa framkvæmd og heldur utan um þessa eignarhluta. Hugsunin á bak við Bankasýsluna, mér finnst ástæða til að minna á það, er að mikilvægt væri að tryggja ákveðna fjarlægð og að sala eignarhluta færi fram með hlutlægum hætti. Ég sé því fleygt að tillagan um þessa aðferð hafi komið frá stjórnmálunum. Það er ekki rétt og það blasir klárlega við þegar lesið er minnisblað Bankasýslunnar þar sem þessi aðferð er rökstudd. Ég vil líka segja að ferlið í undirbúningnum er mjög formfast, það koma mjög margir að undirbúningi ákvörðunar um sölu. Í þessu tilfelli var tilskilinna gagna aflað og bæði Bankasýslan og hæstv. fjármálaráðherra sendu frá sér skjöl um aðstæður og meginsjónarmið. Alþingi hafði aðgang að sömu upplýsingum og ríkisstjórn og ráðherranefnd höfðu í aðdraganda sölunnar. Ég ætla ekki að rifja hér upp dagsetningar í þessu en ég vil bara segja að þessi undirbúningur og ferill, bæði af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis, var í samræmi við bæði lagalega umgjörð og pólitíska stefnumörkun.

Síðan er það hvað hvernig framkvæmdin tekst til og hvað var rætt í raun og veru, eins og hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um, á vettvangi ráðherranefndar og ríkisstjórnar. Í minnisblaði Bankasýslunnar, þar sem mælt er með tilboðsaðferðinni, kemur fram að þó að stofnunin mæli eindregið með þessari aðferð, hún sé nýtt á alþjóðlegum vettvangi, þá sé það svo, vegna þess að ferlið sé með þeim hætti, að ekki sé unnt að tryggja gagnsæi að fullu.

Um þetta var rætt sérstaklega á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál og enn fremur var þetta rætt á ríkisstjórnarfundi í framhaldinu. Svörin voru að reynt yrði að tryggja gagnsæi eftir fremsta megni og ég get bara játað hér að mér hafði ekki einu sinni hugkvæmst það fyrir fram að stofnunin myndi hafna því að birta lista yfir kaupendur að ríkiseign, því að fyrir mér hlýtur það að blasa við að það hljóta önnur sjónarmið að eiga við þegar höndlað er með eignir ríkisins eða þegar höndlað er með hluta í fyrirtækjum á einkamarkaði. Þess vegna verð ég að segja það, af því að hér er líka spurt hvort þessi framkvæmd hafi staðið undir mínum væntingum; varðandi þennan hluta máls, jafnvel þó að sagt hafi verið að þetta væri ekki að fullu gagnsætt ferli, þá verð ég að segja að ég var hissa á þessari framgöngu og finnst það ábyrgðarhluti að tryggja ekki meira gagnsæi þegar um er að ræða sölu á almannaeign.

Það hafa önnur álitamál vaknað og hv. þingmaður nefnir hér til að mynda hæfa fjárfesta. Við eigum auðvitað skilgreiningu á hæfum fjárfestum í Evrópuregluverki, en það hafa vaknað álitamál sem snúast um það hvernig staðið var að því að nálgast þessa hæfu fjárfesta og fleiri atriði sem hafa verið nefnd, m.a. hvort aðilar tengdir þeim fyrirtækjum sem Bankasýslan réð til verksins hafi keypt hluti, og sé svo þá er eðlilegt að spurt verði til að mynda hvort slíkt samræmist hlutverki og skyldum söluaðila.

Ég ætla ekki að telja upp fleiri álitamál, ég gæti gert það hér en tíminn er skammur.

Þá vil ég koma að því sem hv. þingmaður nefndi hér hvað varðar rannsóknarnefnd. Ég vil segja það að Ríkisendurskoðun starfar ekki í umboði framkvæmdarvaldsins. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis. Seðlabankinn og fjármálaeftirlit Seðlabankans ákvað að fara í þá rannsókn sem lýtur sérstaklega að söluráðgjöfunum. Þá vil ég nefna það að þegar við settum lög um rannsóknarnefndir var það mjög skýrt að slík úrræði bæri einungis að nota ef einsýnt væri að ekki væri unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði, því að úrræðið er sérúrræði. Ég hef ekki séð það með sannfærandi hætti að Ríkisendurskoðun hafi ekki fullar heimildir til að rannsaka þetta mál. Sé svo ekki, og nú vil ég minna á að Ríkisendurskoðun hefur mjög ríkar heimildir og getur m.a. leitað atbeina dómstóla í því tilviki, þá ber okkur að sjálfsögðu að skoða aðrar leiðir eins og lagt var upp með þegar við samþykktum hér lögin um rannsóknarnefndir — ég biðst afsökunar, frú forseti, ég veit að ég er búin með tímann og ekki búin með allt sem ég vildi sagt hafa — en það er okkar skylda að allt verði uppi á borðum í þessu máli. Og skorti Ríkisendurskoðun heimildir til þess, nú eða Seðlabankann, þá ber okkur að leita frekari leiða til þess.

Ég kem nánar að frekari atriðum sem hv. þingmaður nefndi hér í síðari ræðu minni.



[16:16]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Traust er stutt og snaggaralegt orð en það felst ótal margt í því. Okkur stjórnmálamönnum er trúað fyrir því að fara með eigur almennings, selja þær með hag almennings að leiðarljósi, ákveða framkvæmdir og þar fram eftir götunum. Það er óhemju mikilvægt að við njótum trausts í okkar störfum. Eftir hrunið þá hvarf þetta traust gjörsamlega. Smám saman hefur það verið að byggjast upp aftur og ekki síst þegar mynduð var ríkisstjórn til að reyna að endurvekja það með breiðri samstöðu við litróf stjórnmálanna eins og það var kallað. Með vinnubrögðunum núna finnum við hins vegar að þetta dýrmæta traust almennings á störfum ráðherranna hefur beðið hnekki. Fólki er misboðið. Fólk úti um allt samfélag talar núna um bankasöluna. Fólk er sárt og fólk er hneykslað. Hvers vegna er fólki misboðið? Vegna þess að það kannast við vinnubrögðin. Það kannast við persónur og leikendur. Það horfir upp á leikreglurnar í þessari bankasölu sem minna okkur svo illilega á hlutina eins og þeir tíðkuðust árin fyrir hrun. Það horfir upp á eign almennings selda með afslætti til útvalinna vildarvina. Það horfir upp á náin tengsl fjármálaráðherra við kaupendur sem kaupa með afslætti í lokuðu útboði og horfir svo upp á ríkisstjórn og ráðherra að rjúka upp til handa og fóta þegar reiðialdan brýst út þegar nöfn kom í ljós sem stóð aldrei til að birta, þegar persónur og leikendur birtast. Þetta verður að hafa afleiðingar, frú forseti, því traust er ekki einungis dýrmætasta eign hvers stjórnmálamanns heldur líka íslenskra stjórnmála. Það á að vera verkefni okkar núna og okkar sem hér störfum að endurbyggja þetta traust.



[16:18]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Horfum á stóru myndina. Ríkið hefur nú á innan við ári fengið um 108 milljarða fyrir hlut sinn í Íslandsbanka. Það fé verður notað til að greiða niður ríkisskuldir og uppbyggingu nauðsynlegra innviða eins og t.d. byggingu nýs Landspítala. Sala á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka er liður í því að losa ríkið út úr áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja. Það hefur verið vitað lengi. Það hefur alltaf staðið til að losa ríkið út úr rekstri fjármálastofnana. Í dag eru eigendur bankans um 15.000 í stað eins eiganda. Það hlýtur að vera fagnaðarefni. Langtímafjárfestar eru stærstu eigendur Íslandsbanka. Kaupendur voru ekki handvaldir, Bankasýslan sá um framkvæmd útboðsins. Allir þeir sem sendu tilboð stóðu jöfnum fótum og fjármálaráðherra kom ekki nálægt því að samþykkja eða hafna einstaka tilboðum. Þrátt fyrir allt tal um að kaupendur hafi selt sig strax út er staðreyndin samt sem áður sú að meiri hluti kaupenda hélt sínum hlut eða bætti við sig.

Mikið er rætt um að fá Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið eða rannsóknarnefnd til að fara yfir ferlið. Það er að mínu mati nauðsynlegt. Ríkisstjórnin vill hafa allt uppi á borðum. Í kjölfar þessarar sölu hafa vaknað upp spurningar um hvort söluaðilar og Bankasýsla ríkisins hafi farið eftir markmiðum stjórnvalda hvað varðar fyrirkomulag sölunnar. Fjármálaeftirlit Seðlabankans og ríkisendurskoðandi hafa nú þegar hafið skoðun á fyrirkomulaginu. Það er alveg ljóst og hefur verið margítrekað og fram hefur komið bæði hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra mikill vilji þeirra til að fara yfir allt ferlið. Ef í ljós kemur að einhverjir hafi misnotað vald sitt eða stöðu sína þá verður ekki við það unað.



[16:21]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt á því, vegna ummæla hæstv. forsætisráðherra um að það hafi verið hæfir fjárfestar sem tóku þátt í þessu lokaða útboði, að segja að það er ekkert hugtak í lögum sem heitir hæfir fjárfestar. Það er til hugtak sem heitir fagfjárfestar. Og hverjir eru fagfjárfestar á Íslandi og í heiminum? Jú, það eru þeir sem geta tekið áhættu á markaði. Þeir geta fjárfest án neytendaverndar. Það eru fagfjárfestar. Það er ekki merkilegt hugtak í sjálfu sér. Það geta allir orðið fagfjárfestar í sjálfu sér, en spurningin er: Hver er hæfur fjárfestir til að eiga banka? Í orðum forsætisráðherra virðist liggja sú hugmynd að það hafi verið hæfir fjárfestar til að eiga banka sem tóku þátt í þessu lokaða útboði. Það er bara rangt. Það er eins rangt og það getur orðið.

Mig langar aðeins að fara yfir söguna af því af hverju Bankasýsla ríkisins var stofnuð. Það var vegna þess að sænski bankasérfræðingurinn Mats Josefsson, sem kom til landsins og var formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, lagði til að stofnuð yrði Bankasýsla ríkisins. Til hvers? Josefsson sagði mikilvægi Bankasýslu ríkisins ótvírætt til að takmarka pólitísk afskipti af rekstri bankanna. Hvar hefur Bankasýsla ríkisins verið? Jú, hún er búin að vera undir núverandi fjármálaráðherra alla tíð nánast. Þegar hann var forsætisráðherra var Bankasýsla ríkisins undir forsætisráðuneytinu. Hann flutti hana með sér í fjármálaráðuneytið. Það eru trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru stjórnendur Bankasýslu ríkisins, engir aðrir, og þar er ekki verið að leita að hæfileikafólki. Það sannar þetta lokaða útboð frá A til Ö.

Annað sem mig langar að benda á er að það var talað um pólitíska ábyrgð. Jú, það má tala um pólitíska ábyrgð. En hver ber ábyrgð á því að þetta lokaða útboð hafi verið framkvæmt samkvæmt lögum eða ekki? Það er skýrt lögbrot þarna, brot á meginreglum laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, brot á 3. gr. (Forseti hringir.) Engin skilyrði nema það áttu að vera fagfjárfestar sem máttu taka þátt í útboðinu. Og í hverja var hringt? Það er stóra spurningin. (Forseti hringir.) Við fengum lista með 207 nöfnum og sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir 1.100.000 kr. Sérfræðingur í að meta áhættu. (Forseti hringir.) Sjálfur keypti ég fyrir eina milljón á síðasta ári. Það er 100.000 kr. munur. Þetta útboð er algjört hneyksli (Forseti hringir.) og almenningi á Íslandi er algjörlega misboðið.

(Forseti (ÁLÞ): Ég ætla að minna alþingismenn á að ræðutími er tvær mínútur.)



[16:23]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis forsætisráðherra fyrir að vera hér til svara. Það er mikilvægt þegar við förum inn í þessa umræðu að við horfum á stóru myndina og veltum fyrir okkur hver vegferðin var þegar lagt var af stað. Sett voru ákveðin markmið í upphafi og ég tel að flestum af þeim markmiðum hafi verið náð. En eftir stendur markmiðið sem snýr að trausti, gagnsæi og þeim upplýsingum sem almenningur vill hafa og við viljum sömuleiðis hafa til að horfa á, svo að sú atburðarás sem við eigum við núna endurtaki sig ekki. Því miður er það þannig að einhver brotalöm hefur verið á þessu ferli sem snýr að þessum þáttum; gagnsæi, upplýsingum og trausti. Þar af leiðandi erum við stödd í þeirri umræðu sem við erum í dag. Því er mikilvægt í því samhengi að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans rannsaki hlutina, velti við hverjum steini og farið verði ofan í saumana á þessum málum því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð að klára að selja Íslandsbanka — ég er svo sannarlega stuðningsmaður þess að selja Íslandsbanka — fyrr en við höfum velt við öllum steinum og allt er uppi á borðum varðandi þessa sölu.



[16:26]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Útboðið í Íslandsbanka var það þriðja stærsta í Íslandssögunni, sala upp á rúma 50 milljarða kr. Enn og aftur sannast að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir sölu ríkiseigna. Ef við horfum til viðbragða ríkisstjórnarinnar þá sést að hún tekur sjálf undir það, hefur tilkynnt að hún treysti sér ekki í frekari sölu. Ríkisstjórnin veit að hún er rúin trausti.

Þeir þrír ráðherrar sem höfðu mest um söluna að segja sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál; Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Lilja Alfreðsdóttir. Hér þarf því að þora að ræða pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í aðdraganda sölunnar því þær skipta mestu máli um það hvernig til tókst. Lykilspurningar sem forsætisráðherra verður að svara eru: Með hvaða rökum varð sú ákvörðun ofan á í ráðherranefndinni að fara í lokað útboð? Með hvaða rökum féllst forsætisráðherra á aðferð fjármálaráðherrans við söluna? Með hvaða rökum hafnaði forsætisráðherra viðvörunarorðum viðskiptaráðherra sem sagðist mótfallin aðferðafræðinni við söluna? Og fyrst viðskiptaráðherra lýsti því yfir í aðdraganda sölunnar, telur forsætisráðherra þá að viðskiptaráðherra hafi gerst brotlegur við siðareglur ráðherra með því að upplýsa þjóðina ekki um þessi sjónarmið sín fyrr en eftir að útboðið hafði farið fram? Siðareglurnar tala um að ráðherra skuli ekki leyna upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess. Siðareglurnar kalla á viðskiptaráðherra.

Aðrar spurningar snúast um hæfi. Átti fjármálaráðherra að víkja sæti við meðferð þessa máls á einhverju stigi vegna sjónarmiða um vanhæfi? Faðir hans er tilboðsgjafi. Ég vek athygli á því að hafi svo verið þá er hann enn vanhæfur. Nú á að láta FME rannsaka söluna. FME heyrir undir fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) Svarið um það hversu vel tókst til sést best á því að líf ríkisstjórnarinnar veltur núna á því loforði fjármálaráðherra að engin frekari sala verði (Forseti hringir.) og tugir milljarða sem nýta mætti í þágu samfélagsins í innviðafjárfestingar hafa lokast inni í bankanum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða tímamörk.)



[16:28]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að við bærum öll ábyrgð á því að hafa samþykkt lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er ekki rétt, frú forseti. Ég samþykkti ekki þessi lög og hæstv. fjármálaráðherra var á móti þeim. (Forsrh.: …ber ábyrgð á þeim?) Eflaust. En það breytir ekki því, hæstv. forsætisráðherra, að þetta eru lög og þeim ber að fylgja rétt eins og lög um Stjórnarráð Íslands eru lög sem ber að fylgja. Telur hæstv. forsætisráðherra að þegar ríkisstjórnin, eftir því sem fram kom í yfirlýsingu frá henni, samþykkti að leggja niður Bankasýslu ríkisins sem viðbrögð við þessu máli hafi hún farið eftir 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands? Það hefur reyndar komið í ljós að það var ekki fundað með ríkisstjórninni um þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar, en telur hæstv. forsætisráðherra að lögum hafi verið fylgt í þessu? Sumir telja eflaust að með þessu sé verið að hanga í einhverri formfestu en Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur nú ekki verið mótfallin formfestu fram að þessu eins og birtist m.a. í breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ekki verið mótfallin rannsóknarnefndum Alþingis fram að þessu. En það eru breyttir tímar. Nú heldur VG áfram að einkavæða ríkisbanka og VG heldur áfram að beita sér gegn því að Alþingi rannsaki slíkt ferli. Það hefur því komið á daginn að miklar breytingar hafa orðið hjá flokki hæstv. forsætisráðherra. Og það var ekki farið rétt með þegar fullyrt var að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um með hvaða hætti skyldi brugðist við gagnrýni á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Telur hæstv. forsætisráðherra ekki tilefni til þess að (Forseti hringir.) leiðrétta eitthvað af fyrri yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í þessu máli?



[16:31]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Traust á Alþingi, traust á ríkisstjórninni og traust á æðstu embættum ríkisvaldsins. Traust er brothætt fyrirbæri. Það tekur langan tíma að byggja það upp og örskamma stund að brjóta það. Allt frá hruni hefur traust verið fágæt auðlind sem stjórnmálasviðið hefur barist í bökkum við að skrapa aftur saman en svo virðist sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra sé mikið í mun að mölbrjóta það á ný.

Hvernig getum við byggt upp traust á ný? Besta leiðin til að byggja upp traust er fyrst og fremst að vera heiðarlegur gagnvart því að hafa brotið traust og að axla ábyrgð á brotinu á einlægan og skýlausan hátt. Sá sem axlar ekki ábyrgð á því að hafa mögulega vanrækt skyldur sínar, gert mistök eða brotið lög mun ekki öðlast traust á ný. Embætti ráðherra er staða sem þjóðin treystir kjörnum fulltrúum fyrir. Ráðherrum ber því að sýna ábyrgð í starfi. Þeim ber að koma fram við þjóðina af heiðarleika og auðmýkt. Sjáum við þessa eiginleika hjá hæstv. ráðherrum í dag? Nei, því miður er ekki svo að sjá. Hvernig getur ríkisstjórn í lýðveldisríki ekki haft það í fremsta forgangi að veita þjóðinni hugarró og byggja upp traust? Það þarf að skipa rannsóknarnefnd Alþingis. Það þarf að skoða þetta mál frá öllum hliðum og taka upplýsta ákvörðun svo þingheimurinn og þá einna helst almenningur trúi því að sala ríkisins á bankanum okkar hafi ekki verið spillt og að lög hafi ekki verið brotin eða skyldur vanræktar. Sönnum það fyrir þjóðinni og endurheimtum traustið, því um hvað snúast völd og um hvað snýst stjórnkerfið okkar ef ekki um traust?



[16:33]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tel mikilvægt að við séum skýr þegar við tölum um veigamikil mál eins og það sem hér er til umfjöllunar, að við tölum af ábyrgð og skynsemi. Það tel ég okkur Vinstri græn hafa gert allar götur frá því að málið bar fyrst á góma. Það er ekki síst mikilvægt þegar umræðan er yfirgripsmikil og mörg sjónarmið á lofti. Hvað höfum við sagt? Jú, ítrekað höfum við talað um að velta við hverjum steini og það er enginn fyrirsláttur. Við viljum, eins og alþjóð öll, vita hvernig var staðið að þeim þáttum sölunnar sem hafa verið í deiglunni og við höfum sagt hana ekki hafa staðist væntingar.

Við höfum verið skýr í þeirri afstöðu okkar að við treystum Ríkisendurskoðun til að rannsaka málin, að við treystum á þær stofnanir sem falið er að fara með málin að lögum og við teljum það vera eðlilegan upphafspunkt slíkrar rannsóknar. Fjármálaeftirlit Seðlabankans, eins og við vitum, er að skoða tiltekna þætti sem snúa að framkvæmdinni hjá ráðgjöfum Bankasýslunnar sem það hefur jú heimild til að rannsaka.

Við höfum verið skýr í þeirri afstöðu að grípa til sérúrræða eins og að skipa rannsóknarnefnd teljum við tilefni til þess, og þingheimur, og ef rannsóknarheimildir ríkisendurskoðanda og Fjármálaeftirlitsins þrýtur áður en mögulegt er að gera upp málin.

Þá höfum við verið skýr í þeirri afstöðu okkar að selja ekki frekari hlut í Íslandsbanka fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Okkur ber að ljúka rannsókn á söluferlinu og það er að sjálfsögðu ekkert annað en bæði sjálfsagt og eðlilegt og nú styttist í að Bankasýslan skili okkur skýrslu sem á að detta í hús bara á næstu mínútum.

Virðulegi forseti. Um þetta mál hefur verið allmikill hávaði og umræðan minnir um margt á íslenskt veðurfar; öfgakennt og síbreytilegt, skin og skúrir, sem er kannski ekki óeðlilegt enda um gríðarlega mikilvæga samfélagseign að ræða. Ég tek undir það sem sagt hefur verið, að traust og gagnsæi þarf að ríkja um sölu ríkiseigna og að sjálfsögðu er það okkar þingmanna allra og ríkisstjórnar að gera enn betur í þeim efnum.



[16:35]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að samstaða sé innan ríkisstjórnarflokkanna um fullan stuðning við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í Íslandsbankamálinu. Með öðrum orðum, algjörlega óháð því hvað kemur út úr rannsókn á aðkomu hans að þessu máli, mögulegu broti á lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða mögulegri vanrækslu fjármálaráðherra á að framfylgja þeim sömu lögum þá er samstaða innan ríkisstjórnarflokkanna er mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur um fullan stuðning við fjármálaráðherra. Niðurstaða rannsóknar sem fjármálaráðherra, þrátt fyrir meint sjálfstæði Ríkisendurskoðunar, skipaði sjálfur skiptir engu máli. Í viðtali þann 19. apríl síðastliðinn kvaðst hæstv. forsætisráðherra, rétt eins og hæstv. viðskiptaráðherra, sem einnig á sæti í ráðherranefnd um framtíðarskipan fjármálakerfisins, hafa gert athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd sölunnar. Þau sitja þar þrjú og var að sögn forsætisráðherra engu að síður farin leið hæstv. fjármálaráðherra. Þær tvær bökkuðu með áhyggjur sínar. Bjarni vann.

Sama dag sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Í þessu máli er það auðvitað Bankasýslan sem fer með framkvæmd málsins. Þá sýnist mér að þau atriði sem fyrst og fremst eru gagnrýniverð lúti að framkvæmdaatriðum en ekki prinsippákvörðuninni um að selja þennan hlut.“

Hæstv. forsætisráðherra. Það er enginn að tala um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja þennan hlut. Það er verið að tala um ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra að fara af þeirri leið sem lagt var upp með. Já, ákvörðun hans, því það er hann samkvæmt lögum sem blessar hvert einasta skref í þessu ferli. Hann blessar fyrirkomulagið, hann blessar ferlið, hann blessar söluaðila, blessar verðið og tilboðin sem berast í hlutinn. Það er því eðlilegt, hæstv. forsætisráðherra, að spyrja hvort hún telji hann hafa verið að sinna sínu starfi, nú eða vanrækja það, þegar hann tók ákvörðun um að farið yrði svona út af þeirri braut framkvæmdar sem áður hafði verið ákveðin.



[16:37]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, pólitískar ákvarðanir skipta máli og það var mikilvægt að ríkisstjórnin fór í áframhaldandi sölu á hlut okkar í Íslandsbanka vegna þess að það skiptir máli að losa um það eignarhald og nýta þá fjármuni í að lækka skuldir ríkisins, okkur öllum til hagsbóta. Það var rétt pólitísk ákvörðun. Þau markmið sem sett voru með sölunni lítur út fyrir að hafi flest náðst. En það er alveg rétt að traustið skiptir öllu máli. Hv. þm. Logi Einarsson sagði að það ætti að selja með hag almennings að leiðarljósi. Upplifun okkar sem komum að ferlinu í fjárlaganefnd var einmitt að sú leið sem verið væri að leggja til væri til þess fallin, vegna þess að hún átti að fela í sér bestu leiðina til að ná mestum fjármunum inn í ríkiskassann. Það lítur reyndar út fyrir að það hafi gengið eftir. Engu að síður eru enn þá uppi spurningar sem við verðum að fá svar við. Traustið er nefnilega lykilatriði hér. Ég er sammála hv. þm. Loga Einarssyni um að það er okkar verk að endurbyggja þetta traust. Það gerum við með því að velta við öllum steinum og spyrja réttu spurninganna. En það gerum við ekki með því að koma hér upp með yfirlýsingar um lögbrot og fullkomlega vitlausar staðreyndir. Við þurfum ekki á fleiri sögusögnum að halda, hv. þm. Eyjólfur Ármannsson. (EÁ: Hvaða sögusögn?) Bankasýslan fylgdi Bjarna Benediktssyni (EÁ: Hvaða sögusögn?) ekki milli ráðuneyta. Það er algjört fleipur og vitleysa og við þurfum ekki á meiri vitleysu að halda inn í þessa umræðu. Tökum ábyrgð á þessu. Spyrjum spurninganna, ræðum þetta til hlítar og veltum við öllum steinum svo við getum byggt aftur upp traust á því að umbreyta þeim miklu verðmætum (Forseti hringir.) sem eru í bankanum okkar, í fjármuni í ríkiskassanum, okkur öllum til hagsbóta.



[16:40]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna. Hvaða sögusögnum? Þetta eru bara staðreyndir. Við flettum þessu upp. Ég biðst afsökunar ef þessi staðreynd er vitlaus. (Gripið fram í.) Þetta er sáraeinfalt mál. Sögusagnir eru eitthvað sem er óstaðfest og ekki hægt að skjalfesta.

Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið, ég hef reyndar skamman tíma. Varðandi lögin um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þá hefur því verið haldið fram að þau hafi verið brotin. Ég er á þeirri skoðun. Ég er á þeirri skoðun að meginreglur um sölumeðferð hafi verið brotnar. Ég skal fara yfir það. Það er krafa um gagnsæi. Það var reyndar horfið frá því lögbroti. Íslandsbanki hélt því fram að það væri ekki hægt að birta lista smæstu fjárfestanna með vísan til persónuverndarlaga. Stjórnarformaður Bankasýslunnar vísaði til bankaleyndar. Stór hluti smæstu fjárfestanna eru lögaðilar. Persónuverndarlög eiga ekki við um þá. Bankaleynd á ekki við um hluthafa. Það á bara við um viðskiptamenn banka. (Gripið fram í.) Ég hef unnið við persónuverndarlög í fjögur ár erlendis. Þar má vinna persónuupplýsingar á grundvelli almannahagsmuna. Það voru almannahagsmunir að við fengjum þessar upplýsingar. (Gripið fram í.) Það er líka lagaskylda um gagnsæi. Það var fallið frá því. Það var lögbrot sem var fullframið á sínum tíma. Það er krafa um hagkvæmni. Hvað þýðir hagkvæmni? Hæsta verð? Það var selt með afslætti í umframeftirspurn, það er ekki hæsta verð og það er brot á ákvæðum um hagkvæmni. Skilyrði tilboðsgjafa sem sett eru eiga að vera sanngjörn og í þeim verður að gæta jafnræðis. Ég tvíspurði hæstv. fjármálaráðherra í gær hver skilyrðin voru en fékk engin svör. Það virðast engin skilyrði hafa verið sett sem stuðluðu að sanngirni og jafnræði meðal fagfjárfestanna. Spurningin er alltaf: Í hverja var hringt? Við fengum upplýsingar um í hverja var hringt. Hverjir hringdu? Söluráðgjafarnir. Þeim var úthlutað valdinu og þeir fengu 700 milljónir fyrir að hringja. Stúdentar sem eru að safna fyrir útskriftarferð hefðu getað hringt. Ég hefði getað hringt. (Forseti hringir.) Annað skilyrði var að efla virka (Forseti hringir.) og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Ekkert um það. Það er engin samkeppni (Forseti hringir.) á fjármálamarkaði, hún er ekki til. Þetta er sjálftaka í hagnaði þarna. Hagnaður Íslandsbanka milli áranna 2020–2021 (Forseti hringir.) fjórfaldaðist, úr 6,7 milljörðum í 23 milljarða. Það er verið að selja mjólkurkú í samkeppnisleysi.

(Forseti (JSkúl): Forseti ítrekar áminningu sína um að virða ræðutíma og biður ræðumenn og hv. þingmenn að eiga ekki samtöl hér á milli ræðustóls og sætis.)



[16:43]
Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Til að byrja með vil ég þakka fyrir þessa sérstöku umræðu um þetta mikilvæga mál. Tillagan um sölu á hlut í Íslandsbanka var og er í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þar er gert ráð fyrir að á kjörtímabilinu muni ríkissjóður halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum og nýta ábatann til uppbyggingar innviða og niðurgreiðslu skulda. Við erum að koma út úr alheimsfaraldri þar sem stjórnvöld hafa, vegna góðrar stjórnar í efnahagsmálum undanfarin ár, getað stutt dyggilega við fólk, heimili og fyrirtæki í gegnum allan faraldurinn. Þetta hefur auðvitað allt saman kostað. Til viðbótar má auðvitað segja að það sé í raun og reynd óheppilegt til lengri tíma að ríkið sé meirihlutaeigandi í tveimur viðskiptabankanna þriggja. Við þurfum að tryggja hér virka, eðlilega og heilbrigða samkeppni á þessum markaði. Markmið sölunnar voru, auk þeirra sem ég hef áður nefnt, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af hlutnum, stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og auka fjárfestingarmöguleika. Að þessu sögðu og með þetta fyrir framan okkur, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi, verður að horfa til þessara þátta. Nefndin fékk nokkuð góðar kynningar, þá er ég að tala um efnahags- og viðskiptanefnd, frá Bankasýslu ríkisins þó að mér finnist sjálfum í einlægni framkvæmd sölunnar ekki vera í fullkomnu samræmi við markmið hennar. Ýmislegt hefur vissulega tekist vel en annað miður og upp hafa vaknað spurningar vegna ýmissa þátta og þá þarf að kanna til hlítar. Þar má nefna aðila með neikvætt eigið fé og að söluaðilar sjálfir hafi tekið þátt í útboðinu. Við verðum að treysta Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu fyrir því að vinna sína vinnu og skoða þessi atriði máls. Um ferlið þarf að ríkja fullkomið traust og við getum ekki haldið áfram fyrr en við höfum komist til botns í þessum þáttum öllum saman (Forseti hringir.) og samhliða þessu tryggt nauðsynlegt traust á ferlinu til framtíðar.



[16:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um stóru myndina við söluna á Íslandsbanka. Þeirri mynd hefur ríkisstjórnin klúðrað stórkostlega. Við eigum nefnilega enn eftir 100 milljarða sem við getum ekki notað, þökk sé Sjálfstæðisflokknum, til niðurgreiðslu ríkisskulda og innviðauppbyggingar, og af hverju? Því að traustið er farið. Og ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir þessari stöðu. Hún getur ekki selt, hún segir það sjálf, því að traustið til frekari skrefa er ekki til staðar. Traustið verður að byggja upp en það verður einungis gert með því að velta við öllum steinum.

Við höfum líka saknað þess að sjá ekki skýra framtíðarsýn um samkeppni á fjármálamarkaði. Hana er ekki að finna hjá ríkisstjórninni þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu. Stefna okkar í Viðreisn hefur líka alltaf verið skýr varðandi sjónarmið almannahagsmuna. Við höfum stutt það að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og eiga kjölfestuhlut í Landsbankanum. En við höfum líka sagt að það eigi ekki að gefa afslátt af kröfum um gegnsæi, af kröfum um skýra upplýsingagjöf, en ekki síður að gefa engan afslátt hvað varðar skýra pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð. Ríkisstjórnin hefur farið fram með þeim hætti að það kemur ekkert á óvart að traustið sé nánast að engu orðið. Það hefur sárlega vantað skýr svör frá ríkisstjórninni og þegar talað er þá fara hljóð og mynd ekki saman. Ég skil að það eru miklir pólitískir hagsmunir í húfi og sjálfsréttlæting stjórnarþingmanna hér þessa dagana undirstrikar það að vissu leyti. En það þarf að rannsaka málið og það þarf að endurheimta traustið sem þessi ríkisstjórn hefur glatað. Og því fyrr sem ríkisstjórnin áttar sig á því, því betra. Það er í þágu almannahagsmuna að ríkisstjórnin kveiki á perunni hvað þetta varðar.



[16:47]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að einkavæða banka í annað sinn. Þar með er orðið jafnt milli flokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, 2:2:2. Auðvitað er oft ástæða til þess að selja ríkiseigur. Það kann að vera tilefni til þess og það kann sannarlega að vera tilefni til þess varðandi banka. En þá skiptir öllu máli hvernig það er gert. Nú hefur ríkisstjórnin brugðist við gagnrýni á aðferðina við þessa nýjustu einkavæðingu VG á bönkum með því að vísa á Bankasýsluna og maður heyrir hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hér hver á eftir öðrum og segja að þetta sé almennt jákvætt en það sé bara verst hvernig Bankasýslan hafi staðið að verki, það þurfi að rannsaka. Ég minnist þess ekki, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hafi á sínum tíma fyrst og fremst gagnrýnt þá aðila sem sáu um einkavæðingu bankanna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í byrjun þessarar aldar. Þá var gagnrýnin á stjórnmálamennina, á þá sem tóku ákvarðanirnar. Nú er gagnrýni allri beint að þeim sem sáu um framkvæmdina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Og þegar bent er á það að ríkisstjórnin hafi farið rangt með þegar hún sagði að hæstv. ráðherrar hefðu farið rangt með þegar þau sögðu að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að bregðast við þessu með því að leggja niður Bankasýsluna þá benti hæstv. forsætisráðherra á það í gær að ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald og að hæstv. fjármálaráðherra hefði komið að ákvörðuninni, eins og það leysti málið. En það vekur þá þessa spurningu, frú forseti: Með hvaða hætti kom hæstv. fjármálaráðherra að ákvörðuninni? Hver átti frumkvæði að þessari ákvörðunum um að bregðast við gagnrýni á einkavæðingu Íslandsbanka með því að leggja af Bankasýsluna?



[16:50]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Forsætisráðherra talaði um áðan að ráðherrar beri pólitíska ábyrgð en gleymir algjörlega að minnast á að ráðherra getur einnig þurft að axla lagalega ábyrgð. Stjórnarliðar tala hér eins og ráðherra hafi engu hlutverki að gegna í ákvörðun um hvort ganga eigi að sölu á eignarhlutum ríkisins, sem er stórfurðuleg afstaða. Auðvitað hefur hann hlutverki að gegna, annars væri ekki tilgreint í lögunum að það þurfi ákvörðun ráðherra. Það er skýrt í greinargerð laganna um sölumeðferð eignarhluta ríkisins og er skýrt í stjórnsýslulögum og það var einnig skilningur stjórnarliða þegar lögin voru sett miðað við ræður þeirra sem voru fluttar á þeim tíma. Við erum ekki bara að ræða um pólitíska ábyrgð sem er hægt að vísa í næstu alþingiskosningar. Við erum að ræða að fjármálaráðherra seldi föður sínum banka í lokuðu útboði. Siðareglur ráðherra fjalla um hvernig það er óviðeigandi. Lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fjalla um þetta. Stjórnsýslulög fjalla um þetta. Fjármálaráðherra getur ekki vikið sér undan ábyrgð sinni. Hann getur það ekki. Sér forsætisráðherra það ekki?

Forsætisráðherra segir að ekki skuli skipa rannsóknarnefnd nema einsýnt sé að aðrar leiðir séu ekki færar. En það er einmitt einsýnt að Ríkisendurskoðun hefur ekki eins víðtækar heimildir til að rannsaka málið til hlítar og rannsóknarnefnd Alþingis hefur. Ýmis atriði í sölunni falla hreinlega utan eftirlitsheimilda Ríkisendurskoðunar. Því liggur fyrir að stofnunin hefur ekki lagalega heimild til að afla allra nauðsynlegra upplýsinga. Hins vegar getur Ríkisendurskoðun vel starfað með rannsóknarnefnd og eru fordæmi fyrir því. Ég vil minna forsætisráðherra á það hversu mikilvægt það er fyrir uppbyggingu trausts að við stöndum saman í því að ákveða hvernig þetta mál verður rannsakað, að það sé samstaða á þingi. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja ráðherra alveg í lokin, bara ein spurning í viðbót sem mig langar til að ráðherra svari: (Forseti hringir.) Hefur fjármálaráðherra sem arkitekt útboðsins axlað þá pólitísku og lagalegu ábyrgð sem fylgir klúðrinu við þessa sölu? (Forseti hringir.) Það er í raun og veru eina spurningin sem ég vil að forsætisráðherra svari.



[16:52]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir ágæta umræðu. Ég vil segja það, af því að hv. þm. Logi Einarsson sagði í sinni ræðu að þegar nöfnin komu í ljós þá vöknuðu spurningar, að nöfnin birtust ekki af sjálfu sér. Það var ákvörðun ráðherra að birta nöfnin. Nákvæmlega þessi ákvörðun lýsir þeirri afstöðu sem ég get ekki betur heyrt en að talsmenn allra flokka hér hafi lýst í þessari umræðu og það er eindreginn vilji til þess að upplýsa þetta mál og að það ríki gagnsæi um ferlið vegna þess að við vitum að það er undirstaða trausts. Ég kann að hafa hlustað bara sérstaklega eftir þessum orðum en ég gat ekki betur heyrt en það væri samhljómur með þessu hjá hverjum einasta hv. þingmanni sem hér talaði.

Ég vil hins vegar segja að ég get ekki fallist á það þegar rætt er hér um meint sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis. Ég treysti þeirri stofnun vel. Ég hef ekki neinar upplýsingar um það að Ríkisendurskoðun telji sig ekki hafa fullnægjandi heimildir til að skoða þetta mál. Ég treysti því að Ríkisendurskoðun muni upplýsa þingið ef svo ber undir að þær heimildir skorti. Þá munum við ræða það, eðli máls samkvæmt, en ég hef engar upplýsingar um að Ríkisendurskoðun hafi lent á einhverjum hindrunum í þeim efnum.

Mér finnst mikilvægt að segja, af því að ég hef örlítið rýmri tíma, af því að hér var því haldið fram að Bankasýslan hefði verið flutt úr fjármálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneyti: Það gerðist ekki. Það var ekki þannig. Hún hefur bara verið í fjármálaráðuneytinu allan tímann og ég er búin að fletta upp í forsetaúrskurðum aftur í tímann, bara til upplýsingar. Ég vil líka segja að Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðuneyti. Hann er hins vegar sjálfstæð stofnun. Undir Seðlabankann heyrir Fjármálaeftirlitið sem sömuleiðis er mjög sjálfstætt í störfum sínum. Mér finnst þetta mikilvægt því að við erum öll á Alþingi Íslendinga og þetta eru þær stofnanir sem við höfum sett á, auðvitað allar með lögum og þær heyra ýmist undir Alþingi eða þeim er markað sérstakt sjálfstæði í lögum. Þess vegna vil ég segja það mjög skýrt að ég get ekki tekið undir þann málflutning þegar gefið er í skyn að þessar stofnanir séu á einhvern hátt ótraustar eða standi ekki undir hlutverki sínu.

Hér var rætt um hugtakið hæfir fjárfestar sem kom fyrir í þessari greinargerð, sem skilgreint er í e-lið 2. gr. reglugerðar ESB nr. 2017/1129, sem var innleidd með lögum nr. 14/2020. Það er búið að ræða mjög mikið hvaða skilning í raun og veru eigi að leggja í þetta hugtak því að það skiptist upp í tvo flokka. Ég held að mörg sem komu að þessu máli hafi kannski ekki alveg nákvæmlega áttað sig á þeim skilgreiningum, sem eru töluvert ólíkar, sem falla undir hugtakið hæfir fjárfestar samkvæmt þessu regluverki. Það er eitt af því sem ég tel fulla ástæðu til að ræða og varðar það sem ég hef rætt margoft hér, bæði í pontu og annars staðar, og varðar upplýsingagjöf til almennings. Þegar Bankasýsla ríkisins leggur til þessa aðferð — og þannig var þetta vissulega, það var hún sem lagði til að nota þessa aðferð — er það í fyrsta sinn sem þetta er gert á Íslandi. Vissulega er vitnað til þess að þetta sé aðferð sem þekkist alþjóðlega og færður ítarlegur rökstuðningur fyrir því. En þá er enn ríkari skylda í raun og veru, finnst mér, að miðla upplýsingum um það hvað felst í aðferðinni.

Hv. málshefjandi spurði sérstaklega um umræður í ráðherranefnd um efnahagsmál og ég ætla að fá að koma að því. Þar komu fram ýmis sjónarmið. Það er bara staðreynd máls. Ég lagði til að mynda mjög mikla áherslu á gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings, m.a. vegna þess að um það var sérstaklega rætt í greinargerð. Það voru líka rædd þau sjónarmið að frumútboðsleiðin væri heppilegri en eins og fram hefur komið voru þessi sjónarmið ekki færð til bókar sem sérstakir fyrirvarar eða andstaða. Mér finnst mikilvægt að við höldum okkur við það að þannig er hagað málum á ráðherranefndarfundum, ef andstaða er bókuð þá er það sérstök ákvörðun og við þekkjum öll hvernig það fer fram. En auðvitað voru ýmis sjónarmið reifuð. Ég ætla svo sem ekki að fara lengra í því að vitna til orða samráðherra minna en get bara ítrekað þetta.

Ég vil ítreka að lokum að sá samhljómur sem ég skynja í þessum sal snýst um það að við viljum upplýsa þetta mál til fulls. Hér er spurt um ábyrgð og ég fór yfir það áðan í hverju ég teldi að sú pólitíska ábyrgð fælist. (Forseti hringir.) En ég vil líka segja að það er auðvelt að segja spilling, en það er mikilvægara og gagnlegra að huga að því og rannsaka til hlítar hvort einhver kunni að hafa misnotað eða nýtt aðstöðu sína. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég: Leyfum þeim aðilum sem við höfum ákveðið með lögum að eigi að fara með þetta hlutverk að ljúka vinnu sinni (Forseti hringir.) þannig að við getum tekið afstöðu til þess sem þar kemur fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt.