152. löggjafarþing — 71. fundur
 28. apríl 2022.
ábyrgð fjármálaráðherra við bankasölu.

[10:56]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna nærveru hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hér í þingsal og langar eðli málsins samkvæmt að spyrja hana út í sölu fjármálaráðherra á hlut eign almennings í Íslandsbanka. Hæstv. viðskiptaráðherra er sérfræðingur í efnahagsmálum og á sviði fjármálafyrirtækja. Það er dýrmætt að hafa slíka þekkingu í ríkisstjórn sem og í þriggja manna ráðherranefnd um efnahagsmál og framtíðarskipan fjármálafyrirtækja. Þess vegna er lagt við hlustir þegar hún greinir frá afstöðu sinni á því sviði, hvort sem um er að ræða tillögur um hækkun bankaskatts eða viðvörunarorð þegar kemur að sölumeðferð á hlut almennings í Íslandsbanka.

Virðulegur forseti. Í gær fór fram opinn fundur í hv. fjárlaganefnd þar sem mættir voru forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, sem annaðist framkvæmdahlið sölunnar fyrir hönd fjármálaráðherra. Aðspurður sagði stjórnarformaður vald ráðherrans ótvírætt enda bundið í lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Var á orðum hans að skilja að þeir hefðu eingöngu framkvæmt í samræmi við lög, þ.e. samkvæmt fyrirskipun hæstv. fjármálaráðherra, borið til hans tillögur sínar um val á söluráðgjöfum um framkvæmdina og tilboð þau sem bárust enda valdið hans, og var það ítrekað.

Því vil ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Er hún sammála því sem fram kemur í lögunum og kom fram í orðum stjórnarformanns Bankasýslunnar um ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra á ferlinu og völd hans í þessum efnum, að það er hann sem ákveður leiðirnar og aðferðirnar frá upphafi til loka sölumeðferðar?



[10:58]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna og ég er sammála því. Það stendur skýrt í lögunum hver ber ábyrgð þannig að það er skýrt í mínum huga og eins og ég greindi frá hér fyrr í dag þá tel ég að fjármála- og efnahagsráðherra sé þegar byrjaður að axla ábyrgðina á þessari sölu. En ég vil líka nefna og bæta við að það er þannig að Bankasýsla ríkisins kemur upphaflega með tillöguna inn í ráðherranefnd. Það gerir hún. Hún gerir það eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga, bæði innlenda og erlenda. Ég vil nefna það í þessu samhengi, virðulegi forseti, að það voru efasemdir um þessa aðferð hjá öllum ráðherrum og það kemur líka fram til að mynda að fyrsti hluti sölunnar var afskaplega vel heppnaður. Þá náðum við þeim markmiðum sem voru eðlileg; dreift eignarhald, opið og gagnsætt ferli og nákvæmlega eins og á að gera hlutina.

Virðulegur forseti. Ég hugsaði þá: Fyrst þetta gekk svona vel síðast — og það var ekkert sjálfgefið, það er vandasamt að selja banka, kerfislega mikilvæga eign, og ég verð að segja að ég var býsna stolt af því hvernig til tókst. Þá þótti mér undarlegt að við skyldum breyta þeirri aðferð vegna þess að hún gekk vel. En ég er sammála hv. þingmanni.



[11:00]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér skiptir lykilmáli að traust ríki þegar selja á ríkiseign og enn meira þegar verið er að selja ríkisbanka vegna forsögunnar. Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi að sá sem mögulega hefur brotið lög fyrirskipi sjálfur rannsókn. Það er Alþingis að gera það, ekki meints brotamanns. En vegna traustsins verðum við, þingmenn og almenningur, að treysta því að ráðherrar, sem sitja við borðið þegar ákvarðanir um sölu og sölumeðferð eru teknar, komi hreint fram og upplýsi þjóðina um minnstu efasemdir sem kunna að vakna. Nú hefur hæstv. viðskiptaráðherra sagst hafa haft efasemdir í aðdraganda sölunnar og að þau hafi öll í ráðherranefndinni haft efasemdir og að sú staða sem birtist okkur eftir að bankasalan var afstaðin hafi ekki komið henni á óvart en mögulega og mögulega ekki heldur ráðherrunum. Í kjölfarið sagði hæstv. forsætisráðherra að hæstv. viðskiptaráðherra hefði ekkert bókað en hún hefði haft efasemdir og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað varð til þess að henni snerist hugur (Forseti hringir.) þarna við borðið? Hvers vegna fylgdi hún ekki eigin sérfræðiþekkingu? (Forseti hringir.) Hvers vegna upplýsti hún ekki þingið þegar málið var til umfjöllunar hér? (Forseti hringir.) Eigum við ekki heimtingu á því að þeir sem fá allar ítarlegar upplýsingar um málið komi hingað og upplýsi um efasemdir sínar? (Forseti hringir.) Hvar liggur ábyrgð þeirra ráðherra sem höndluðu með málið í þessari ráðherranefnd? Að leyna upplýsingum varðar við lög, virðulegur ráðherra.

(Forseti (BÁ): Ræðutími í síðari spurningu í óundirbúnum fyrirspurnum er ein mínúta en ekki ein og hálf.)



[11:02]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú umræða sem á sér stað hér í þinginu þessa dagana sé mjög mikilvæg vegna þess að þegar fjármálahrunið átti sér stað þá fór þetta traust. Ég held að það sé gott fyrir samfélagið að sjá stjórnarandstöðu og stjórnina fjalla um þessi mál með þeim gagnrýna hætti sem á sér stað. Þær spurningar sem fram koma hér eiga sannarlega rétt á sér. Það er nú þannig að það á eftir að skoða málið. Ríkisendurskoðun á eftir að skoða málið. Seðlabankinn á að eftir að gera það líka. Ég tel hreinlega ekki að viðeigandi sé að fella dóma fyrr en sú niðurstaða er komin. Það vill líka þannig til að þótt ég telji að ég hafi oft mjög rétt fyrir mér þá hef ég ekki alltaf rétt fyrir mér. Það kann að vera að sú aðferð sem Bankasýslan lagði til, að hún hafi verið rétt. Það er líka þannig, hv. þingmaður, að ég tel að það sé ekki verið að leyna upplýsingum þegar maður hefur efasemdir en ég var alveg hreinskilinn með það (Forseti hringir.) að ég taldi brýnt að við myndum ræða þessi mál eins og við erum að gera núna og hef ekki hikað við það.